Mál 29 2020

Mál 29/2020

Ár 2021, miðvikudaginn 16. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2020:

A og B ehf.

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. nóvember 2020 erindi D lögmanns fyrir hönd kærenda A og B ehf., en það lýtur bæði að ágreiningi um fjárhæð endurgjalds í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna starfa kærða C lögmanns, sem og að kvörtun vegna starfa hins kærða lögmanns, sbr. 27. gr. sömu laga.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 17. nóvember 2020 og barst hún 4. desember sama ár. Kæranda var send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi dags. 8. desember 2020. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 14. janúar 2021 og voru þær sendar til kærða með bréfi dags. 20. sama mánaðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 4. mars 2021 og voru þær sendar til kæranda þann 10. sama mánaðar þar sem jafnframt var upplýst um að nefndin liti svo á að gangaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur í málinu að kærandi A er eigandi og fyrirsvarsmaður kæranda B ehf. Rót máls þessa má rekja til þess að með kaupsamningi, dags. 1. mars 2018, seldi kærandi B ehf. rekstur og birgðir sínar til E ehf., en nánar mun hafa verið tilgreint í samningnum hvað fólst í hinu selda. Mun umsamið kaupverð í samningnum hafa verið ákveðið 18.000.000 krónur, án birgða.

Fljótlega í kjölfar kaupsamningsgerðar munu kærendur hafa leitað til kærða með beiðni um hagsmunagæslu vegna viðkomandi sölu, þar á meðal vegna skoðunar á því hvort reksturinn hefði verið seldur undir markaðsvirði. Liggur þannig fyrir að kærendur undirrituðu „verkbeiðni – umboð“, dags. 12. mars 2018, þar sem þess var farið á leit að kærði og lögmannsstofa hans veittu kærendum nauðsynlega lögfræðiþjónustu vegna aðgerða og ráðgjafar í tengslum við viðkomandi kaupsamning. Varðandi þóknun og fjárvörslur var eftirfarandi tiltekið í umboðinu:

Undirritaðir aðilar skuldbinda sig til að greiða lögmanninum fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Útprentun úr tímaskýrslu skal fylgja reikningum hverju sinni. Gjaldskráin hefur verið kynnt okkur og við fengið afhent eintak hennar. Við höfum jafnframt verið upplýst um áætlaðan heildarkostnað af verkinu, þ.e. þóknun og útlagðan kostnað.

Öllum greiðslum sem lögmenn stofunnar kunna að taka við fyrir okkar hönd skal skilað án tafar. Fjármunir skulu varðveittir á fjárvörslureikningi ef uppgjör fer ekki strax fram. Um fjárvörslur fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð nr. 201/1999, um fjárvörslur lögmanna.

Kærði sendi bréf fyrir hönd kæranda B ehf. til E ehf. þann 27. mars 2018. Var þar meðal annars tiltekið að umsamið kaupverð endurspeglaði ekki raunvirði hins selda heldur hefði það þvert á móti verið langt undir markaðsvirði. Af þeim sökum hefði félagið í hyggju að leita réttar síns í málinu. Var allur réttur í því efni áskilinn. Lögmaður E ehf. hafnaði öllum sjónarmiðum kærandans með tölvubréfi til kærða þann 6. apríl 2018. Var jafnframt upplýst um vanefndir kæranda á efni kaupsamningsins og tiltekið að þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt samningnum væru óháðar mati á hinu selda, sem E ehf. myndi ekki taka þátt í. Jafnframt liggur fyrir í málsgögnum að kærði og lögmaður E ehf. áttu í frekari bréfaskiptum vegna málsins dagana 20. apríl og 4. maí 2018.

Fyrir liggur að kærði leitaði fyrir hönd kæranda B ehf. eftir mati nánar tilgreinds endurskoðunarfyrirtækis á virði hins selda samkvæmt kaupsamningnum í aprílmánuði 2018. Mun það virðismat hafa legið fyrir þann 4. maí 2018. Í framhaldi af því, eða þann 8. sama mánaðar, sendi kærði tölvubréf til lögmanns E ehf. þar sem meðal annars voru kynntar niðurstöður virðismatsins og óskað nýrra viðræðna um uppgjör vegna viðkomandi viðskipta. Af málsgögnum verður ráðið að kærði og lögmaður E ehf. hafi átt í frekari bréfaskiptum vegna málsins í lok mánaðarins auk þess að funda um það en án árangurs.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna tölvubréfasamskipti kæranda A við starfsmann fyrrgreinds endurskoðunarfyrirtækis í maí 2018 í tengslum við undirritun ráðningarsamnings. Jafnframt liggur fyrir að fyrirtækið gerði reikning á kæranda B ehf. vegna vinnu við virðismatið þann 30. júní 2018 en hann var að fjárhæð 846.374 krónur með virðisaukaskatti. Af málsgögnum verður ráðið að kærandinn hafi greitt reikninginn þann 20. júlí 2018.

Fyrir liggur að þann x. september 2018 var þingfest í héraðsdómi máli nr. E-xxx/xxxx sem kærði hafði höfðað fyrir hönd kæranda B ehf. gegn E ehf. vegna ágreinings um fyrrgreindan kaupsamning. Laut kröfugerð í málinu að því að ákvæði um kaupverð í kaupsamningnum yrði vikið til hliðar og breytt á þann hátt að það yrði hækkað. Af málsgögnum verður ráðið að ágreiningur hafi orðið um beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns undir rekstri málsins en úr honum var leyst með úrskurði sem kveðinn var upp þann x. apríl 20xx. Er jafnframt á meðal málsgagna að finna reikning sem dómkvaddur matsmaður gerði kæranda B ehf., sem matsbeiðanda, þann 12. september 2019 en hann var að fjárhæð 669.848 krónur með virðisaukaskatti. Var reikningurinn greiddur af hálfu kærandans þann 16. sama mánaðar.

Annar lögmaður á lögmannsstofu kærða annaðist málflutning fyrir hönd kæranda B ehf. við aðalmeðferð málsins nr. E-xxxx/xxxx þann x. mars 20xx. Lagði tilgreindur lögmaður þar fram málskostnaðaryfirlit vegna reksturs málsins en það tók til alls 92 klst. á tímagjaldinu 27.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 3.137.200 krónur með virðisaukaskatti. Þá var jafnframt gerð krafa vegna matsgerðar dómkvadds matsmanns að fjárhæð 669.848 krónur og var því heildarkostnaður samkvæmt yfirlitinu tilgreindur að fjárhæð 3.807.048 krónur.

Dómur var kveðinn upp í fyrrgreindu máli í héraðsdómi þann x. apríl 20xx. Samkvæmt dómsorði var E ehf. sýknaður af öllum kröfum kæranda B ehf. auk þess sem hinum síðarnefnda var gert að greiða stefnda málskostnað að fjárhæð 1.488.000 krónur. Kærendur voru upplýstir um þá niðurstöðu með tölvubréfi þennan sama dag sem samstarfsmaður kærða sendi til kæranda A. Verður jafnframt ráðið af málsgögnum að kærði og kærandi A hafi verið í tölvubréfasamskiptum á tímabilinu frá 17. – 24. apríl 2020 varðandi mögulega áfrýjun málsins og fundahöld. Er ágreiningslaust að aðilar áttu með sér fund á heimili kærandans þann 26. sama mánaðar.

Ágreiningur í málinu lýtur meðal annars að þeirri þóknun sem kærði og lögmannsstofa hans áskildu sér vegna viðkomandi starfa sem og að meðferð vörslufjár.

Ágreiningslaust er að lögmannsstofa kærða gaf út reikninga á kæranda A á tímabilinu frá 29. mars 2018 til 1. nóvember 2019 vegna þeirra lögmannsstarfa sem áður greinir. Af málsgögnum verður ráðið að þar hafi verið um eftirfarandi reikninga að ræða:

            Númer reiknings       Útgáfudagur             Fjárhæð með virðisaukaskatti       

            170-18                        29. mars 2018             kr. 1.008.182

            208-18                        1. maí 2018                kr. 812.758

            257-18                        1. júní 2018                kr. 602.764

            284-18                        14. júní 2018              kr. 521.110

            305-18                        29. júní 2018              kr. 784.160

            326-18                        11. júlí 2018               kr. 329.266

            332-18                        31. júlí 2018               kr. 851.694

            370-18                        17. ágúst 2018            kr. 512.492

            400-18                        1. september 2018      kr. 52.731

            448-18                        30. september 2018    kr. 213.338

            491-18                        1. nóvember 2018      kr. 327.980

            541-18                        1. desember 2018       kr. 360.468

            23-19                          1. janúar 2019            kr. 598.862

            125-19                        1. mars 2019               kr. 419.694

            251-19                        1. maí 2019                kr. 567.207

            271-19                        1. júní 2019                kr. 223.200

  1. nóvember 2019 kr. 89.000

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi B ehf. hafi greitt reikninga nr. 170-18, 208-18, 400-18 og þann sem gefinn var út þann 1. nóvember 2019 í kjölfar útgáfu þeirra en að kærandi A hafi greitt reikninga nr. 448-18, 491-18, 541-18, 23-19, 125-19, 251-19 og 271-19.

Fyrir liggur jafnframt að lögmannsstofa kærða móttók á sinn vörslufjárreikning hluta af kaupverði því sem gagnaðili kærenda innti af hendi samkvæmt kaupsamningnum frá 1. mars 2018. Nánar tiltekið mun lögmannsstofa kærða hafa móttekið alls 9.000.000 króna í þágu kæranda B ehf. á tímabilinu frá júní – ágúst 2018. Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að á sama tímabili hafi verið ráðstafað af fyrrgreindu vörslufé til greiðslu reikninga lögmannsstofu kærða nr. 257-18, 284-18, 305-18, 326-18, 332-18 og 370-18 en þeir voru að heildarfjárhæð 3.601.481 krónur með virðisaukaskatti. Jafnframt því hefur kærði lagt fyrir nefndina afrit af póstkröfu F hf. að fjárhæð 63.579 krónur sem hann kveðst hafa greitt í þágu kæranda B ehf. af fyrrgreindu vörslufé aðilans þann 21. júní 2018. Þá liggur fyrir að lögmannsstofa kærða ráðstafaði eftirstöðvum vörslufjárins að fjárhæð 5.334.935 krónur til kæranda B ehf., þ.e. nánar tiltekið 2.199.121 krónum þann 11. júlí 2018 og 3.135.814 krónum þann 17. ágúst 2018.

Kærði hefur lagt fram nokkur gögn sem varpa ljósi á samskipti aðila í tengslum við útgáfu og greiðslu fyrrgreindra reikninga á árunum 2018 og 2019. Meðal þeirra gagna er að finna tölvubréf sem annar lögmaður á lögmannsstofu kærða senda til kæranda A þann 7. maí 2018 en með því fylgdu tveir síðustu reikningar sem lögmannsstofan hafði gefið út ásamt vinnuskýrslum. Í svari kæranda A þann sama dag kom fram að fyrri reikninginn hefði einmitt vantað og að borgað yrði „með gleði og stolti.“ Tiltók kærandi A jafnframt í tölvubréfi til kærða, dags. 9. maí 2018, að alls ekki ætti að draga neitt úr vinnu í tengslum við málið vegna kostnaðar þar sem um fjárfestingu væri að ræða.

Líkt og áður greinir voru millifærðar 2.199.121 krónur af vörslufjárreikningi lögmannsstofu kærða inn á reikning kæranda B ehf. þann 11. júlí 2018. Í tölvubréfi kæranda A til kærða þann 16. júlí 2018 spurðist kærandinn fyrir hvort tilgreind greiðsla hefði verið innborgun frá E ehf. að frádregnum kostnaði til lögmannsstofunnar. Kærði staðfesti í svari sama dag að svo væri.

Á meðal málsgagna er einnig að finna tölvubréf sem lögmaður á lögmannsstofu kærða sendi til kæranda A þann 11. september 2018 en með því fylgdi afrit af útgefnum reikningi stofunnar. Kærandi A svaraði tölvubréfinu samdægurs og upplýsti meðal annars að hún hefði þegar móttekið reikninginn.

Þann 9. maí 2019 sendi kærandi A tölvubréf til kærða og annars lögmanns á lögmannstofunni. Óskaði kærandinn þar eftir upplýsingum um gang mála og lýsti því einnig að hún hefði „verulegar áhyggjur, bæði af kostnaði og framgangi.“ Kvaðst kærandinn einnig þurfa að fá fyrsta reikninginn sem lögmannsstofan hefði gefið út þar sem hún hefði ekki fundið hann. Í svari þann sama dag var upplýst um stöðu dómsmálsins auk þess sem umbeðinn reikningur var sendur til kærandans.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til kærða þann 24. júní 2019 en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Ég sé ekki hvernig ég á að geta haldið þessu máli áfram. Kostnaðurinn er þegar orðinn gríðarlegur, rúmlega 6 millj. til ykkar og 850 þús. til G sem sagt tæpar 7 millj. Hef ekki treyst mér fyrr en nýlega að taka þetta saman... – Við verðum að taka fund um það hvernig á að standa að þessu áfram.

Kærði kveðst hafa hringt í kæranda A í kjölfar tölvubréfsins og tilkynnt að ekki kæmi til frekari gjaldtöku vegna málarekstursins af hálfu lögmannsstofunnar. Í framhaldi af því hafi hann móttekið tölvubréf frá kærandanum þar sem þakkað hafi verið fyrir og upplýst að um mikinn létti væri að ræða. Tilgreint tölvubréf, dags. 24. júní 2019, er á meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Kærandi A lýsti því í erindi til lögmannsstofu kærða þann 6. september 2019 að nánar tilgreind bókhaldsstofa væri að taka saman „tölur og reikninga“ vegna skattframtals 2018. Tiltók A að allir reikningar hefðu verið gefnir út á hana en ekki kæranda B ehf. og óskaði upplýsinga um hvort ástæða væri fyrir því og hvort unnt væri að gefa þá út á nýjan leik á kæranda B ehf.

Bókari kærenda fylgdi fyrrgreindu erindi eftir með tölvubréfi til annars lögmanns á lögmannsstofu kærða þann 9. sama mánaðar. Var þar tiltekið að nauðsynlegt væri að fá alla reikninga flutta af kæranda A yfir á kæranda B frá árinu 2018. Jafnframt því var óskað eftir yfirliti yfir fjárvörslu vegna kæranda B ehf., þ.e. upplýsingum um hvað hefði verið greitt til lögmannsstofunnar frá E ehf. og hvað hefði verið greitt „með fjárvörslunni.“

Í samræmi við beiðni bakfærði lögmannsstofa kærða þá reikninga sem gefnir höfðu verið út á kæranda A á árinu 2018, alls 12 talsins, og gaf út nýja reikninga með sömu dagsetningum þar sem viðtakandi og greiðsluaðili var tilgreindur sem kærandi A ehf. Voru hinir nýju reikningar sendir til bókara kærenda þennan sama dag, 9. september 2019. Sama dag sendi lögmaður á lögmannsstofu kærða jafnframt umbeðið yfirlit yfir hreyfingar á vörslureikningnum til bókarans.

Líkt og áður greinir tilkynnti kærði kæranda A um í júnímánuði 2019 að ekki kæmi til frekari gjaldtöku vegna lögmannsstarfa í málinu. Þrátt fyrir það efni sendi lögmaður á lögmannsstofu kærða tölvubréf til kæranda A þann 4. nóvember 2019 þar sem gerð var grein fyrir að til stæði að gera einn reikning til viðbótar vegna málsins, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi:

...ég vildi láta þig vita að við sendum einn reikning á þig sem er bara í síðasta skipti en þetta er vegna gagnaframlagningar fyrir matsmenn, prentun og funda, við verðum að rukka það því þetta er útlagður kostnaður sem við verðum að leggja út í fyrir starfsmann okkar, ég vona að það komi ekki að sök mín kæra en ég lofa að við rukkum þig ekki meira í þessu máli, svo er málflutningur fyrirhugaður 17 des nk en C verður í sambandi við þig með undirbúning.

Kærandi A svaraði erindinu samdægurs. Þakkaði hún þar fyrir upplýsingarnar, sagðist meðvituð um kostnaðinn og lýsti því að hún væri „endalaust þakklát“ fyrir vinnuna.

Áður er gerð grein fyrir fundi sem kærandi A og kærði áttu með sér þann 26. apríl 2020, þ.e. eftir að dómur héraðsdóms lá fyrir í málinu nr. xxxx/xxxx. Fyrir liggur að kærandi A leitaði til annars lögmanns eftir þann fund vegna mögulegrar áfrýjunar málsins af hálfu kæranda B ehf. Þann 4. maí 2020 sendi hinn nýi lögmaður tölvubréf til kærða þar sem upplýst var um hagsmunagæsluna og óskað eftir málsgögnum.

Þann 30. júní 2020 sendi nýr lögmaður kærenda bréf til kærða þar sem gerðar voru verulegar athugasemdir við gjaldtöku kærða vegna málarekstursins auk annarra þátta.Var þess krafist í bréfinu að endurgreiddar yrðu 6.500.000 krónur jafnframt því sem gerð var krafa um greiðslu kostnaðar. Fyrir liggur að lögmaður kærenda átti í tölvubréfasamskiptum við kærða og annan lögmann á lögmannsstofu kærða vegna málsins á tímabilinu frá 17. júlí til 25. september 2020. Fóru þar fram sáttaumleitanir vegna fyrrgreindrar kröfu kærenda gagnvart kærða auk þess sem farið var fram á að nánar tilgreind gögn yrðu afhent af hálfu kærða og upplýsingar veittar.  

Í tölvubréfi sem annar lögmaður á lögmannsstofu kærða sendi til lögmanns kærenda þann 15. september 2020 var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Þetta er leiðindarmál, ekki síst vegna þess hve C tók hana A gjörsamlega upp á sína arma og sinnti henni andlega og var boðinn og búinn að gera allt fyrir hana. En sjaldan launar kálfurinn ofeldið og því miður gekk hún A á lagið og fór yfir strikið gagnvart honum með mjög óviðeigandi hætti á heimili sínu í í apríl sl. þar sem hún áreitti hann kynferðislega. C hefur viljað kæra það en ég hef haldið aftur af honum og var að vonast til þess að þetta þyrfti aldrei að koma upp en hér erum við í dag. Ekki síst vegna þessa kom okkur verulega á óvart að hún ætlaði að bæta gráu ofan á svart með því að hefja einhvern málarekstur gegn C í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms.

Fyrir liggur að sáttaumleitanir báru ekki árangur og lýsti lögmaður kærenda því í tölvubréfi, dags. 25. september 2020, að málið færi áfram þann 28. sama mánaðar.

Líkt og áður greinir var kvörtun í máli þessu móttekin þann 12. nóvember 2020.

II.

Varðandi kröfugerð vísa kærendur í fyrsta lagi til þess að þóknun kærða og lögmannsstofu hans vegna reksturs dómsmáls af hálfu kæranda B ehf. gegn E ehf. hafi verið langt umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt geti talist. Krefjast kærendur þess að kærði verði úrskurðaður til að endurgreiða kærendum 6.423.082 krónur.

Í öðru lagi vísa kærendur til þess að kærða og lögmannsstofu hans hafi verið óheimilt að taka út 2.210.607 krónur af fjárvörslureikningi sínum í júní 2018 vegna reikninga sem ekki höfðu borist kærendum. Krefjast kærendur þess að úrskurðarnefnd taki til skoðunar og úrskurði hvort háttsemi kærða hafi verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í þriðja lagi vísa kærendur til þess að kærði hafi sakað kæranda A um kynferðislega áreitni eftir að sett hafi verið fram krafa um endurgreiðslu vegna óhóflegs kostnaðar. Krefjast kærendur þess að úrskurðarnefnd taki til skoðunar og úrskurði hvort háttsemi kærða hafi verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Þá krefjast kærendur málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Um málsatvik er vísað til þess að kærandi A hafi leitað til kærða í marsmánuði 2018 eftir sölu á rekstri félagsins B ehf. til E ehf. Hafi kærandinn þá talið söluverðið, 18.000.000 króna, langt undir því sem eðlilegt hafi getað talist og því viljað kanna með réttarstöðu sína gagnvart E ehf. Hafi kærða verið veitt umboð þann 12. mars 2018 og hann hafið í kjölfarið vinnu við málið.

Vísað er til þess að í vinnu kærða hafi falist samskipti við E ehf. og lögmann þess félags, gerð stefnu sem þingfest hafi verið haustið 2018, gerð matsbeiðni sem leitt hafi til dómkvaðningar matsmanns og málflutningur fyrir héraðsdómi. Þar að auki hafi kærði leitað til nánar tilgreindrar endurskoðunarskrifstofu um gerð mats vegna markaðsvirðis rekstrar kæranda B ehf. í upphafi verksins. Er á það bent að málinu hafi lokið í héraðsdómi með dómi þann x. apríl 20xx þar sem E ehf. hafi verið sýknaður af kröfu kæranda B ehf. og kærandanum gert að greiða E ehf. 1.488.000 krónur í málskostnað.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi leitað til núverandi lögmanns síns í kjölfar dóms héraðsdóms. Hafi málinu verið áfrýjað en eftir yfirferð þess hafi verið ákveðið að halda áfrýjun ekki til streitu. Hafi áfrýjunarstefnan því ekki verið þingfest og viðkomandi kærandi gengið frá greiðslu dæmds málskostnaðar til gagnaðila.

Kærendur vísa til þess að eftir þann tíma hafi vaknað grunsemdir um að kostnaður vegna málsins hafi verið langt umfram það sem eðlilegt geti talist vegna máls af þeirri stærðargráðu sem um ræddi. Hafi ekki verið einfalt að finna út hver raunverulegur kostnaður málsins hefði verið þar sem kærði hefði tekið við 9.000.000 krónum frá E ehf. vegna greiðslu kaupverðsins sumarið 2018. Eftir yfirferð útgefinna reikninga sem kærendur hafi haft undir höndum hafi virst sem kærði hafi haldið eftir rúmum tveimur milljónum króna án þess að reikningar væru fyrir þeirri fjárhæð. Samkvæmt reikningum og tímaskýrslum sem kærendur hafi undir höndum sé greiddur kostnaður að fjárhæð 4.584.470 krónur. Auk þess hafi kærendur millifært 89.000 krónur til kærða þann 8. nóvember 2019 án þess að fá reikning fyrr því. Samkvæmt málsgögnum skilaði kærði til kæranda B ehf. 5.334.935 krónum og hélt því eftir 3.665.065 krónum af þeim 9.000.000 krónum sem hann hafði tekið við. Nemi óútskýrð úttekt að fjárhæð 2.210.607 krónur. Af hálfu kærða virðist lagt til grundvallar að tekið hafi verið út fyrir fjórum reikningum að fjárhæð 2.147.028 krónur, en kærendur vísa til þess að þeir hafi ekki fengið þá reikninga þrátt fyrir ítrekaðar óskir.

Kærendur vísa til þess að samkvæmt framangreindu hafi kostnaður við störf kærða verið verulega óhóflegur en þóknun miðað við reikninga sem kærendur hafi undir höndum, þeirra 89.000 króna sem þeir greiddu þann 8. nóvember 2019 og þeirra 2.210.607 króna sem kærði hafi haldið eftir án reikninga, sé því 8.338.535 krónur. Auk þess hafi kostnaður við það einhliða mat sem áður greinir, að fjárhæð 846.374 krónur, ekki verið réttlætanlegur enda lögmaður gagnaðila áður hafnað kröfunni og tekið fram að E ehf. tæki ekki þátt í mati með nokkrum hætti. Vísa kærendur til þess að þar af leiðandi hafi engar forsendur verið til að halda slíku einhliða mati til streitu, allra síst þar sem kostnaður við það myndi aldrei nýtast í málinu. Þegar reikningur vegna vinnu dómkvadds matsmanns að fjárhæð 669.848 krónur bætist við sé kostnaður kærenda samtals 9.854.757 krónur og sé þá ekki tekinn með dæmdur málskostnaður til E ehf.

Kærendur benda á að í júní 2019 hafi kærandi A sett sig í samband við kærða og látið vita að hún gæti ekki greitt meira. Sem leikmanni hafi kærandanum hins vegar ekki grunað að kostnaður væri verulega í ósamræmi við það sem eðlilegt gæti talist. Eftir það hafi engir reikningar verið gefnir út en þá hafi kærði verið búinn að fá til sín rúmar átta milljónir þrátt fyrir að aðalmeðferð málsins hefði ekki farið fram og myndi ekki fara fram fyrr en í mars ári síðar.

Vísað er til þess að lögmaður kærenda hafi sent bréf til kærða þann 30. júní 2020 þar sem krafa hafi verið gerð um endurgreiðslu vegna kostnaðar við málið jafnframt því sem óskað hafi verið skýringa á greiðslum af fjárvörslureikningi. Bent er á að svör hafi borist í tölvubréfi í ágúst 2020 þar sem kröfum kærenda hafi verið hafnað og sú skýring gefin á greiðslu til kærða af fjárvörslureikningi að gefnir hefðu verið út reikningar fyrir öllum úttektum í samræmi við uppgjör fjárvörslureikninga. Vísa kærendur til þess að við eftirgrennslan hafi komið í ljós að kærði og stofa hans hefðu gefið út nýja reikninga vegna úttektanna í september 2019 þegar bókari kærenda hefði óskað eftir því. Hafi þá verið gefnir út reikningar aftur í tímann frá lögmannsstofu kærða á kæranda B ehf. þrátt fyrir að fyrri reikningar hefðu verið gefnir út á kæranda A. Benda kærendur á að raunar hafi verið rangt að gefa út reikninga á kæranda A enda hafi hún ekki verið aðili málsins heldur kærandi B ehf. Engu að síður hafi kærði tekið út af fjármunum B ehf. á fjárvörslureikningi sínum vegna reikninga sem gefnir hafi verið út á kæranda A. Þá sé ljóst að eftirtaldir reikningar hafi ekki borist kæranda eða bókara hennar og kærði ekki orðið við beiðni um afhendingu þeirra:

            Nr. 284-18 að fjárhæð 521.110 krónur.

            Nr. 305-18 að fjárhæð 784.160 krónur.

            Nr. 326-18 að fjárhæð 329.266 krónur.

            Nr. 370-18 að fjárhæð 512.492 krónur.

Samtals sé um að ræða 2.147.028 krónur sem teknar hafi verið út af fjárvörslureikningi án heimildar. Þá hafi kærði haldið eftir 2.210.607 krónum án skýringa á mismun.

Kærendur vísa til þess að þegar gengið hafi verið á eftir svörum í september 2020 hafi svar borist frá H lögmanni þar sem kærandi A hafi verið sökuð um að hafa áreitt kærða kynferðislega á heimili kærandans í apríl 2020. Hafi enginn fótur verið fyrir þeim ásökunum en þær valdið kærandanum mikilli vanlíðan eins og skiljanlegt sé.

Vísað er til þess að lögmanni kærenda hafi í september 2020 borist eintak af málskostnaðaryfirliti sem lagt hafi verið fram af hálfu kærða við aðalmeðferð málsins í mars 20xx. Samkvæmt yfirlitinu hafi kostnaður vegna málsins verið 3.807.048 krónur, þar með talinn kostnaður við matsgerð dómkvadds matsmanns en án kostnaðar við öflun hins einhliða mats að fjárhæð 846.347 krónur. Telja kærendur ljóst að með þessu yfirliti staðfesti kærði að heildarkostnaður hans við verkið hafi verið mun lægri en kærendur hafi greitt.

Varðandi fyrsta kröfulið byggja kærendur á að kostnaður af rekstri málsins hafi verið verulega óhóflegur og þar af leiðandi ekki bindandi fyrir þá. Kærði hafi sjálfur staðfest að málskostnaðurinn hafi verið óhóflegur með því að leggja fram málskostnaðaryfirlit við aðalmeðferð málsins í mars 20xx. Þar komi fram að vinna við málið hafi verið 92 klst. og sé miðað við það tímagjald sem reikningar byggðu á, eða 20.500 krónur auk virðisaukaskatts, sé þóknun kærða 2.338.640 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Byggja kærendur á að umrætt málskostnaðaryfirlit gefi mun réttari mynd af umfangi málsins því einfalt reikningsdæmi sýni að þóknun upp á ca. 6.500.000 krónur án virðisaukaskatts, miðað við tímagjald að fyrrgreindri fjárhæð, gefi þá niðurstöðu að unnar klukkustundir hafi verið um 317 talsins. Sé það varlega áætlað þar sem stór hluti skráðra tíma sé vegna fulltrúa á tímagjaldi sem hafi verið 18.900 krónur auk virðisaukaskatts. Leiki enginn vafi á því að tímafjöldinn sé í  raun fráleitur fyrir mál af þessari stærðargráðu.

Þar að auki byggja kærendur á að hið einhliða mat hafi verið að mestu leyti óþarft og að kostnaður við gerð þess hafi ekki verið í samræmi við þá staðreynd að kærða hafi verið kunnugt strax í byrjun apríl 2018 að það væri ónothæft við rekstur málsins. Verði kærði því að bera hluta af kostnaði við matið og telja kærendur sanngjarnt og eðlilegt að hann beri helming kostnaðarins.

Kærendur vísa til þess að samkvæmt þeirra gögnum hafi verið greitt til kærða 8.274.956 krónur. Þar af hafi kærendur greitt reikninga að fjárhæð 6.038.928 krónur. Kærði hafi millifært án heimildar 2.147.028 krónur af fjárvörslureiningi auk þess sem kærendur hafi greitt 89.000 krónur án þess að fá reikning fyrir. Áður hafi verið vikið að óútskýrðum mismun á þeirri fjárhæð sem haldið hafi verið eftir og umræddum reikningum að fjárhæð 2.147.028 krónur en um sé að ræða 63.579 krónur. Jafnframt því hafi kærendur greitt reikning vegna hins einhliða mats að fjárhæð 846.374 krónur og reikning vegna vinnu dómkvadds matsmanns að fjárhæð 669.848 krónur.

Samkvæmt því hafi kærendur greitt samtals 9.791.178 krónur en þá sé ótalinn dæmdur málskostnaður til gagnaðila. Megi ljóst vera að umræddur kostnaður sé úr öllu hófi og eigi kærendur því rétt til endurgreiðslu á grundvelli þess að nefndin staðfesti og viðurkenni að kostnaðurinn sé óhóflegur. Byggja kærendur í því efni á 24. gr. laga nr. 77/1998.

Kærendur byggja á að kærði hafi viðurkennt með framlagningu málskostnaðaryfirlits að raunverulegur tímafjöldi hafi verið 92 klst. og að miða beri við tímagjaldið 20.500 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt þeim forsendum sé eðlileg þóknun kærða að fjárhæð 2.338.640 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þar af leiðandi beri kærða að endurgreiða kærendum 5.936.316 krónur. Við það bætist helmingur af kostnaði vegna hins einhliða mats og óútskýrður mismunur að fjárhæð 63.579 krónur. Samtals sé því krafa um endurgreiðslu að fjárhæð 6.423.082 krónur en kærendur krefjast dráttarvaxta frá 30. júlí 2020 eða þegar mánuður var liðinn frá því að krafan var sett fram. Auk þess sé gerð krafa um kostnað vegna kröfunnar.

Í viðbótarathugasemdum sínum hafna kærendur því að skilyrði séu til að vísa málinu frá nefndinni. Vísa kærendur til þess að kærði sjálfur eða samstarfsmaður hans hafi lagt fram málskostnaðaryfirlit í héraðsdómi í mars 20xx. Með því hafi kærði gert kröfu fyrir hönd viðkomandi kæranda um þann kostnað sem hann hafi haft af málinu. Þegar í ljós hafi komið að krafan var mun lægri en greitt hafði verið til lögmannsstofu kærða hafi forsendur fyrir því að miða við reikningsútgáfu brostið. Geti kærendur því ekki talist hafa átt þess kost að gera athugasemdir við endurgjald kærða fyrr en fyrir lá að kærði sjálfur taldi að kostnaður kærenda af málarekstrinum væri svo langt yfir eðlilegum mörkum að ekki væri forsvaranlegt að upplýsa um hann í dómi.

Um athugasemdir kæranda A í júní 2019 benda kærendur á að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við að kostnaðurinn væri óhóflegur heldur einfaldlega að kærendur réðu ekki við kostnaðinn. Hafi málinu þá einnig hvergi nærri verið lokið. Einnig sé óeðlilegt að gerð sé krafa um að skjólstæðingi lögmanns sé gert að reka mál gegn lögmanninum meðan enn sé verið að vinna í máli. Geti það ekki rúmast innan túlkunar á því hvenær skjólstæðingur eigi kost á því að leita til nefndarinnar að lögmaður ofrukki með óforsvaranlegum hætti á fyrstu stigum máls.

Kærendur hafna því að það hafi vægi í málinu að annar lögmaður hafi skrifað undir málskostnaðaryfirlit það sem lagt hafi verið fram í héraðsdómi. Um sé að ræða nánasta samstarfsmann kærða. Hafi sá lögmaður einnig haft með höndum öll samskipti við bókara og séð um útgáfu reikninga. Hafi honum ekki getað dulist hver kostnaður málsins var. Athygli veki þó að kærði gefi enga skýringu á því hvers vegna krafa um málskostnað fyrir héraðsdómi hafi ekki byggt á raunverulegum kostnaði kærenda. Sé svarið þó augljóst þar sem kærði og samstarfsmaður hans hafi gert sér grein fyrir að hinn raunverulegi kostnaður væri fráleitur miðað við umfang og eðli málsins.

Því er einnig hafnað að tölvupóstur kæranda A um að ekkert skyldi dregið úr vinnu vegna kostnaðar hafi jafngilt því að kærða væri afhentur óútfylltur tékki. Vísa kærendur til þess að engin þörf hafi verið á að hafa þrjá lögmenn við vinnu í málinu en samkvæmt tímaskýrslum hafi kærði og fulltrúi hans oft á tíðum unnið sömu vinnuna. Auk þess sé að finna verulega óhóflega tímaskráningu, svo sem í byrjun apríl 2018 þar sem kærði hafi skráð 5.5 klst. á lestur bréfs frá lögmanni gagnaðila. Er á það bent að umrætt bréf sé innan við ein blaðsíða að lengd og efni þess skýrt um að engar sættir væru mögulegar. Þrátt fyrir það sé því haldið fram í athugasemdum kærða að vinna hans í þágu kærenda hafi að miklu leyti falist í samningaviðræðum við lögmann gagnaðila.

Varðandi annan kröfulið byggja kærendur á að kærði hafi í heimildarleysi tekið peninga af fjárvörslureikningi sínum til greiðslu þeirra fjögurra reikninga sem áður greinir, en þeir hafi aldrei borist til kærenda. Er vísað til þess að umræddir reikningar hafi verið stílaðir á kæranda A, sem hafi verið rangt og leiðrétt í september 2019, en að auki hafi verið tekið út fyrir þeim af fjármunum kæranda B ehf. án heimildar en reikningarnir ekki borist. Hafi því verið um ólögmæta háttsemi að ræða af hálfu kærða, sbr. 23. gr. laga nr. 77/1998 og jafnframt brot á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 247. og 249. gr.

Kærendur hafna því einnig að vísa beri frá nefndinni kröfu vegna meðferðar á vörslufé. Hafi kærendum þannig ekki verið ljóst fyrr en eftir að kærði hafi hætt störfum vorið 2020 að tekið hefði verið út af peningaeign B ehf. á fjárvörslureikningi kærða. Er bent á að kærði hafi ekki framvísað þeim reikningum sem eigi að hafa verið gefnir út sumarið 2018 á viðkomandi kæranda. Sé það einkennilegt þar sem allir aðrir reikningar árið 2018 hafi verið gefnir út á kæranda A persónulega og hafi því þurft að leiðrétta alla reikningana í september 2019 þegar gefnir hafi verið út reikningar á kæranda B ehf. og kreditreikningar á kæranda A. Sé því enginn vafi á því að þegar umræddum fjárhæðum var haldið eftir á fjárvörslureikningi kærða hafi hvorki verið fyrir hendi reikningar á kæranda A, enda þeir ekki lagðir fram, né á kæranda B. ehf., enda þeir ekki gefnir út fyrr en í september 2019.

Varðandi þriðja kvörtunarlið byggja kærendur á að með ásökun um kynferðislega áreitni í tölvubréfi þann 15. september 2020 hafi kærði brotið gegn ákvæðum hegningarlaga um meiðyrði og ákvæðum sömu laga um rangar sakargiftir og hafi þar með sýnt af sér háttsemi sem brjóti mjög alvarlega í bága við góða lögmannshætti. Í huga kærenda sé um að ræða mjög alvarlega háttsemi sem hafi valdið mikilli vanlíðan enda enginn fótur fyrir ásökununum. Virðist eina ástæða þess að hinar þungu ásakanir hafi verið settar fram verið að fá kærendur til þess að falla frá kröfum sínum. Sé það verulega ámælisvert en þar sem ekki sé að finna ákvæði sem taki með beinum hætti á slíkri háttsemi sé almennt vísað til ákvæða um góða lögmannshætti í lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna.

Kærendur hafna því að ásökun um kynferðisbrot eigi ekki við um lögmannsstörf kærða. Er vísað til þess að umræddur fundur hafi farið fram á heimili kæranda en tilgangur hans hafi verið að ræða um framhald málsins í kjölfar dóms héraðsdóms. Á þeim tíma hafi kærði enn verið með umboð sem lögmaður kærenda vegna málsins. Ásökunin hafi hins vegar ekki komið fram fyrr en ítrekað hafði verið óskað eftir gögnum og skýringum um fjárhæðir vegna lögmannsstarfa og reikninga. Samkvæmt því hafi ásökunin komið fram í beinum tengslum við umræðu um störf kærða. Sé því fráleitt að halda því fram að ásökunin hafi verið sett fram í tómarúmi en ekki í tengslum við störf kærða. Þá sé það jafnframt ótrúverðugt að samstarfsmaður kærða hafi sett fram ásakanir um kynferðisbrot án aðkomu kærða.

Byggja kærendur í öllum tilvikum á að brot kærða hafi verið alvarleg og ámælisverð, sérstaklega þar sem kærða hafi verið kunnugt um kvíða og þunglyndi kæranda A sem kærði hafi byggt sjálfur á í dómsmálinu gegn E ehf. Hafi vitneskja kærða um óöryggi kæranda A í fjármálum þannig átt að gefa kærða sérstaka ástæðu til að stíga mjög varlega til jarðar gagnvart aðilanum. Því hafi hins vegar verið öfugt farið. Þá hafi engar fjárhæðir verið nefndar um líklegan verkkostnað, þrátt fyrir orðalag í fyrirliggjandi verkbeiðni/umboði.

Um lagarök vísa kærendur til laga nr. 77/1998, sbr. einkum 18. og 23. – 27. gr. Þá vísa kærendur einnig til siðareglna lögmanna, sbr. einkum 1., 2., 8., 13. og 44. gr.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefst kærði óskipts málskostnaðar úr hendi kærenda og að úrskurðurinn verði aðfararhæfur að því leyti.

Kærði vísar til þess að krafa hans um frávísun byggi á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 3., 6., og 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Kærði vísar til þess ársfrests sem greinir í fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998. Samkvæmt þeim byrji frestir að líða þegar málsaðili átti þess fyrst kost að bera mál undir nefndina. Við beitingu reglnanna hafi nefndin miðað upphaf frestsins við það tímamark hvenær viðkomandi kærandi fái upplýsingar um ágreiningsefnið, svo sem um endurgjald lögmanns. Hafi nefndin þannig litið til þess hvenær reikningur sé sendur viðkomandi, hvenær hann sé greiddur eða viðkomandi er upplýstur sérstaklega um endurgjaldið, sbr. úrskurði í málum nr. 13/2020 og 7/2019. Þá miðist lok frestsins alltaf við þann dag þegar nefndin hefur móttekið kvörtun.

Varðandi fyrsta kröfulið kærenda, þ.e. sem lýtur að endurgjaldi kærða, er vísað til þess að óumdeilt sé að síðasti reikningur af hálfu kærða í málinu hafi verið gefinn út þann 1. nóvember 2019. Hafi reikningur og tímaskýrsla verið póstlögð sama dag og krafa stofnuð í heimabanka kærandans B ehf. Er á það bent að kærði hafi sent kæranda A tölvubréf þann 4. sama mánaðar þar sem upplýst hafi verið um reikninginn og að hann væri vegna útlagðs kostnaðar við gagnaframlagningu fyrir matsmenn, prentun og fleira. Jafnframt því hafi kærandinn verið upplýstur um að þetta yrði síðasti reikningurinn og að ekki yrðu gefnir út frekari reikningar. Hafi kærandinn svarað samdægurs, þakkað fyrir vinnuna og að hún gerði sér grein fyrir kostnaðinum. Í samræmi við það hafi reikningurinn verið greiddur athugasemdalaust þann 8. nóvember 2019.

Kærði byggir á að samkvæmt þessu sé ljóst að kærendur hafi fengið upplýsingar um síðasta reikninginn 1. nóvember 2019 þegar krafa hafi verið stofnuð í heimabanka, en í síðasta lagi þann 4. sama mánaðar er tölvubréfið hafi verið sent. Kvörtun kærenda hafi verið móttekin af nefndinni hinn 12. nóvember 2020 en þá hafi verið liðið meira en ár frá því að kærendur fengu upplýsingar um síðasta reikning frá kærða og höfðu færi á að gera athugasemdir við hann. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa ágreiningi kærenda um endurgjald frá nefndinni.

Í öðru lagi vísar kærði til þess að hinn síðasti reikningur, sem áður greinir, hafi ekki verið fyrir endurgjald hans sem falli undir 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 heldur hafi verið um að ræða reikning vegna útlagðs kostnaðar. Síðasti reikningur vegna endurgjalds kærða hafi verið gefinn út hinn 1. júní 2019. Að venju hafi reikningurinn verið póstlagður ásamt vinnuskýrslu til kærenda og krafa stofnuð í heimabanka. Hafi sú krafa verið greidd athugasemdalaust þann 8. júní 2019. Samkvæmt því byggir kærði á að miða eigi upphaf frests 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 við 1. júní 2019 en í síðasta lagi við 8. sama mánaðar. Hafi frestur til að leggja málið fyrir nefndina því verið löngu liðinn er erindi kærenda barst hinn 12. nóvember 2020.

Í þriðja lagi um þetta efni er á það bent að kærendur hafi gert athugasemdir við endurgjald kærða í tvígang, þ.e. annars vegar í maí 2019 og hins vegar í júní 2019. Hinn 5. maí 2019 hafi kærandi A þannig sent tölvubréf og lýst áhyggjum sínum af kostnaðinum. Samhliða því hafi hún óskað eftir afriti af fyrsta reikningnum frá kærða þar sem hún hefði hann ekki undir höndum. Bendir kærði á að afrit reikningsins hafi verið sent til kærandans með tölvubréfi, dags. 9. maí 2019, en reikningurinn hafi auk þess verið sendur í tölvubréfi ári áður eða þann 7. maí 2018. Mánuði síðar hafi kærandi A aftur sent tölvubréf, dags. 24. júní 2019, þar sem kvartað hafi verið yfir kostnaði. Vísar kærði til þess að af því tilefni hafi hann hringt í kæranda og upplýst um að ekki yrði gerð krafa um frekara endurgjald. Eftir það símtal, seinna sama dag, hafi kærandi sent tölvubréf á ný þar sem þakkað hafi verið fyrir og upplýst að það væri mikill léttir.

Með vísan til framangreinds byggir kærði á að kærendur hafi bæði fylgst með kostnaðinum og gert sér grein fyrir honum. Að sama skapi liggi fyrir að kærendur hafi þá þegar átt færi á að hafa uppi athugasemdir og bera málið undir nefndina. Með tölvubréfasamskiptunum sé því fram komin fullnaðarsönnun um upphaf þess tímafrests sem greinir í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hafnar kærði því að kærendur geti aftur kvartað yfir sama endurgjaldinu. Standist það ekki skoðun að kærendur eigi rétt á því að kvarta mörgum sinnum yfir sama kostnaðinum þegar ágreiningur hafi verið jafnaður, eins og gert hafi verið í júní 2019.

Varðandi annan kröfulið kærenda, þ.e. meðferð á vörslufé, og kröfu um frávísun hans byggir kærði á að öllu vörslufé hafi verið skilað til kærenda með millifærslum 11. júlí og 17. ágúst 2018. Hafi nokkuð vantað upp á þá fjármuni sem skilað hafi verið, umfram löglegt endurgjald og kostnað, hafi kærendur átt þess kost að hafa uppi ágreining á þeim tímapunkti. Hafi frestur því verið liðinn þegar kvörtun að þessu leyti var móttekin af hálfu nefndarinnar.

Kærði hafnar því að miða eigi upphaf tímafrests við annað tímamark og að reikningar hafi ekki borist kærendum. Bendir kærði á að eftir millifærslu 11. júlí 2018 hafi kærandi A sent tölvubréf, dags. 16. sama mánaðar, þar sem spurt hafi verið um vörslufé sem borist hafi inn á reikning kæranda B ehf. og hvort það væri að frádregnum kostnaði kærða. Hafi kærði staðfest það samdægurs gagnvart kærandanum.

Þar að auki hafi kærendur óskað eftir að kærði yrði í samskiptum við bókara þeirra. Hafi viðkomandi bókari óskað eftir, með tölvubréfi hinn 9. september 2019, að allir reikningar fyrir árið 2018 yrðu færðir af kæranda A og yfir á kæranda B ehf. Einnig hafi bókarinn óskað eftir yfirliti vörslufjárins. Í kjölfarið hafi allir reikningar árið 2018 verið bakfærðir og bókaðir á kæranda B ehf. Af því tilefni hafi allir reikningar fyrir árið 2018 verið sendir bókaranum með tölvubréfi hinn 9. september 2019, þar á meðal þeir reikningar sem tekið hafi verið fyrir af vörslufé og kærendur haldi fram að aldrei hafi borist. Vísar kærði til þess að þeir reikningar sem um ræði, gefnir út á B ehf., sem tekið hafi verið fyrir af vörslufé séu eftirfarandi:

Nr. 570-18, dags. 1. júní 2018.

            Nr. 571-18, dags. 14. júní 2018.

            Nr. 572-18, dags. 29. júní 2018.

            Nr. 573, dags. 11. júlí 2018.

            Nr. 574-18, dags. 31. júlí 2018.

            Nr. 575-18, dags. 17. ágúst 2018.

Kærði bendir á að seinna sama dag hafi hann einnig sent yfirlit yfir viðkomandi vörslufé til bókarans en þar hafi verið um lokauppgjör að ræða. Hafi kærendur haft einhverjar athugasemdir við uppgjörið eða meðferð kærða á vörslufé hafi kærendur átt að koma þeim sjónarmiðum á framfæri við kærða á þeim tíma. Sé því ljóst að frestur hafi verið liðinn er kvörtun í málinu var móttekin. Beri því að vísa þessum kröfulið frá nefndinni.

Varðandi þriðja kröfulið kæranda, þ.e. um að kærði hafi borið kæranda A sökum um kynferðislega áreitni, vísar kærði til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar varðandi kröfu um frávísun. Bendir kærði á að lögmaður sem telji sig verða fyrir refsiverðri eða ólögmætri háttsemi í starfi sínu eigi sama rétt og aðrir borgarar til þess að leita réttar síns. Breyti þar engu hvort gerandinn kunni að vera skjólstæðingur hans eður ei. Þegar lögmaður sé þolandi varði brotið og afleiðingar þess ekki háttsemi lögmannsins í starfi. Af þeim sökum eigi málið ekki undir nefndina.

Um frávísunarkröfuna almennt vísar kærði jafnframt til þess að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu frá júnímánuði 2020. Samkvæmt fyrirliggjandi samskiptum hafi lögmanni kærenda verið rétt að senda málið til nefndarinnar eigi síðar en 28. september 2020 enda í lófa lagið að fylgja þá hótunum sínum eftir. Sé dráttur óútskýrður af hálfu kærenda.

Hvað efnishlið málsins varðar vísar kærði í fyrsta lagi til þess að endurgjald hans í málinu sé rétt og í samræmi við lög og reglur. Verði því að hafna kröfu kærenda um endurgreiðslu.

Kærði vísar til þess að kærendur hafi leitað til hans í mars 2018 vegna samnings sem þá hafði verið gerður um sölu vörumerkis, birgða og rekstur kæranda B ehf. til E ehf. Eftir fyrsta fund hafi kærandi A skrifað undir umboð til handa kærða sem hafi tekið til kærenda. Hafi þar verið tekið fram að kærendur væru skuldbundnir til að greiða fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Þá hafi verið tiltekið í umboði að gjaldskrá hefði verið kynnt og afhent jafnframt því sem upplýst hafi verið um áætlaðan heildarkostnað. Með þessu hafi komist á bindandi samningur á milli kærða og kærenda um greiðsluskyldu hinna síðargreindu samkvæmt tímaskráningu í verkbókhaldi kærða. Þá hafi kærendur staðfest með undirritun að þeir væru upplýstur um kostnaðinn og samþykktu hann fyrirfram.

Kærði kveðst hafa gefið út reikninga fyrir vinnu sinni og sent þá alltaf samdægurs til kærenda ásamt tímaskýrslu. Jafnframt því hafi verið stofnaðar kröfur í heimabanka fyrir öllum reikningum fyrir utan þá sex reikninga sem greiddir hafi verið með vörslufé. Til viðbótar því hafi kærandi A stundum kallað eftir afriti á rafrænu formi en þeim erindum hafi alltaf verið svarað.

Kærði vísar til þess að hann hafi ekki aðeins annast undirbúning dómsmáls og flutning þess. Þannig hafi kærði staðið í samningaviðræðum við E ehf. fyrir hönd kærenda í upphafi málsins til þess að láta á það reyna hvort hægt væri að semja á nýjan leik um söluna. Þegar þær samningaviðræður hafi runnið út í sandinn hafi þurft að afla haldbærra gagna til þess að leggja grunninn að málshöfðun. Þá hafi verið ákveðið að undirrita þjónustusamning við endurskoðunarskrifstofu og afla gagna eins ráða megi af tölvubréfasamskiptum, dags. 3. maí 2018, sem kærandi A hafi tekið þátt í. Hafi það utanréttarmat ráðið úrslitum um hvort málið skyldi höfðað eður ei. Sé fráleitt að halda því fram að þessi tilhögun hafi verið óþörf eða tilgangslaus. Hvað þá að kærði beri ábyrgð á henni. Bendir kærði á að kærendur hafi gert sér grein fyrir þessu og því að afla þyrfti matsgerðar dómkvadds matsmans síðar. Hafi kærendur ráðið för um þetta efni en kærði veitt ráðgjöf um réttarstöðuna og þá kosti sem hafi verið í boði.

Kærði bendir einnig á að matsbeiðni kærenda hafi verið mótmælt af hálfu gagnaðila og að málið hafi verið flutt um það efni þann 4. febrúar 2019. Þar sem dómari hafi ekki úrskurðað í málinu innan átta vikna hafi þurft að flytja málið aftur x. apríl sama ár. Úrskurður hafi svo loks fallið þann x. apríl 20xx. Kærði bendir á að hann hafi einnig annast að útbúa öll stofngögn fyrir stofnun nýs félags fyrir kærendur.

Kærði bendir á að þrír starfsmenn lögmannsstofunnar hafi unnið að máli kærenda. Óhjákvæmilega sé það dýrara en ef kærði hefði einn sinnt málinu. Hafi kærendur samþykkt þessa tilhögun. Er einnig á það bent að kærendur hafi gefið fyrirmæli um að draga ekkert úr vinnu í málinu vegna kostnaðar, sbr. tölvubréf dags. 9. maí 2018.

Varðandi málskostnaðaryfirlit það sem lagt hafi verið fyrir héraðsdóm bendir kærði á að það hafi verið undirritað af öðum lögmanni og sé því ekki bindandi líkt og að um málskostnaðarreikning væri að ræða. Þá hafi yfirlitinu ekki verið beint til kærenda og því ekki þeim samningi sem kærendur hafi gert við kærða um endurgjald með undirritun umboðs.

Í öðru lagi hafnar kærði málatilbúnaði kærenda varðandi meðferð á vörslufé sem röngum og villandi. Ítrekar kærði að allir reikningar hafi verið sendir til kærenda með bréfpósti ásamt tímaskýrslum. Jafnframt því hafi allir reikningar fyrir árið 2018 verið sendir bókara kærenda í september 2019, þ.e. þegar þeir voru færðir af kæranda A yfir á kæranda B ehf, þar á meðal þeir reikningar sem tekið var af vörslufé fyrir. Bendir kærði einnig á að lögmenn hafi sérstaka heimild samkvæmt b-lið 7. gr. reglugerðar nr. 1192/2005 til þess að taka fyrir vinnu sinni af vörslufé skjólstæðings.

Kærði vísar jafnframt til þess að kærandi A hafi heimilað að tekið yrði af vörslufé á fundi auk þess sem kærendur hafi veitt slíka heimild með undirritun sinni á umboð til handa kærða þar sem vísað hafi verið til fyrrgreindrar reglugerðar.

Vísað er til þess að hluti af vörslufénu hafi farið í að leysa út póstkröfu fyrir kærendur, nánar tiltekið 63.579 krónur. Hafi þar verið um að ræða heilbrigðisvottorð sem aflað hafi verið í tengslum við málarekstur í þágu kærenda. Hafi sú ráðstöfun stuðst við a-lið 7. gr. reglugerðar nr. 1192/2005. Kveðst kærði hafa útskýrt þetta fyrir kærendum í síma í júní 2018 auk þess sem þessarar greiðslu hafi verið getið á yfirliti til bókara kærenda í september 2019. Þá hafi fjárhæðin verið útskýrð fyrir lögmanni kærenda í tölvubréfi hinn 21. ágúst 2020.

Til viðbótar framangreindu hafi uppgjör farið fram með vitund kærenda þegar vörslufé hafi verið skilað í júlí og ágúst 2018 sem og með sérstöku uppgjöri til bókara kærenda í september 2019. Aldrei hafi verið gerðar neinar athugasemdir við þetta fyrirkomulag fyrr en með bréfi lögmanns kærenda. Telur kærði því einsýnt að hafna verði kröfum kærenda að þessu leyti. Þá mótmælir kærði sérstaklega tilvísun kærenda til ákvæða 247. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í þriðja lagi mótmælir kærði málatilbúnaði kærenda hvað varðar ásökun um kynferðislega áreitni.  Vísar kærði til þess að hann hafi aldrei borið upp þessar sakir sjálfur heldur hafi annar lögmaður vakið máls á þessu atriði við lögmann kærenda í tölvubréfi hinn 15. september 2019. Hafi það verið gert í því skyni að upplýsa lögmanninn af hverju málið væri erfitt. Þá hafi verið reynt að upplýsa um þennan þátt af kurteisi og virðingu.

Kærði byggir á að þetta tiltekna ágreiningsatriði varði ekki störf kærða sem lögmanns. Sé það ekki kærði sem sé gerandi heldur kærandi A. Byggir kærði á það sé ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr um hvort lögmaður hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni eður ei, eða hvort lögmaður hafi orðið fyrir refsiverðri háttsemi af hálfu þriðja aðila yfir höfuð, jafnvel þótt gerandinn sé skjólstæðingur. Þá kveðst kærði hafna ásökunum kærenda um meinta refsiverða háttsemi kærða í þessu samhengi.

Að endingu hafnar kærði því að unnt sé að samsama hann með kærendum líkt og gert sé í málatilbúnaði hinna síðargreindu. Vísar kærði einnig til þess að ekki sé unnt að tala um kærendur sem leikmenn, sbr. dóm héraðsdóms í máli nr. E-xxxx/xxxx. Hafi þær forsendur einnig samræmst hegðun kærenda í réttarsambandi aðila þar sem kærandi A hafi fylgst vel með gangi mála og verið í reglulegum samskiptum um reikninga og kostnað.

Í viðbótarathugasemdum kærða er því mótmælt að engar samningaviðræður hafi farið fram við E ehf. fyrir hönd kærenda. Vísar kærði til þess að hann hafi átt í miklum viðræðum við lögmann gagnaðila, bæði fyrir og eftir að utanréttarmatsgerðar hafi verið aflað. Hafi lögmenn rætt ítrekað saman í síma og átt í tölvubréfasamskiptum í apríl og maí 2018, svo sem tímaskráning ber með sér. Bendir kærði á að bréf hafi auk þess verið send dagana 27. mars, 20. apríl, 8. og 30. maí 2018.

Kærði vísar til þess að þann 25. maí 2018 hafi bæði forstjóri E ehf. og lögmaður mætt á fund hans til viðræðna um málið eftir öflun utanréttarmatsgerðar. Á þessum fundi hafi verið rætt um ýmsa þætti málsins. Hafi ekki verið ljóst fyrr en eftir þær viðræður að ekki myndi takast samkomulag með aðilum. Hafi næsta skref þá verið að stefna málinu fyrir dóm, svo sem gert hafi verið í samræmi við ósk kærenda.

Kærði kveðst ekki átta sig á til hvaða tímaskráningar kærendur vísi í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni, þ.e. að kærði hafi skráð 5.5 klst. í lestur bréfs. Bendir kærði á að skráðar hafi verið 5.25 klst. í apríl 2018 fyrir lestur bréfs, samskipti við fyrirsvarsmann félagsins, lögmann gagnaðila og fleiri aðila. Hafi sú skráning verið dæmi um þær samningaviðræður sem átt hafi sér stað í málinu.

Kærði vísar til þess að kærendum hafi verið fullkunnugt um að fleiri starfsmenn kæmu að vinnu og meðferð málsins. Hafi það einnig komið fram í tímaskýrslum sem fylgt hafi reikningum og í samskiptum við rekstur málsins. Hafi kærendur aldrei gert athugasemdir við það efni.

Varðandi meðferð á vörslufé vísar kærði til þess að það sé rangt sem greini í málatilbúnaði kærenda um að þeim hafi ekki verið ljóst að tekið hefði verið af peningaeign þeirra á fjárvörslureikningi kærða fyrr en vorið 2020. Vísar kærði um það efni til tölvubréfs kæranda A til kærða, dags. 16. júlí 2018. Byggir kærði á að það sýni svart á hvítu að kærendur vissu að tekið var fyrir kostnaði af vörslufé í júlí 2018. Auk þess hafi sérstakt uppgjör verið sent til bókara kærenda þann 9. september 2019 samkvæmt beiðni kæranda A. Á því yfirliti hafi verið gerð ítarleg grein fyrir öllum frádrætti af vörslufé og öllum greiðslum vegna kostnaðar. Sé málatilbúnaður kærenda um hið gagnstæða fjarstæðukenndur.

Kærði ítrekar að allir reikningar hafi verið gefnir út fyrir umræddum kostnaði sumarið 2018. Þeir reikningar hafi verið bakfærðir og færðir yfir á kæranda B ehf. í september 2019. Byggir kærði á að allar upplýsingar hafi legið fyrir og verið komnar til kærenda sumarið 2018 líkt og gögn málsins styðji. Bendir kærði einnig á að samkvæmt 2. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna sé lögmanni ávallt rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar enda geri hann skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði.

Kærði kveðst hvorki bera né geta borið ábyrgð á lögmannsstörfum annars lögmanns, jafnvel þótt þeir starfi á sömu stofu. Slíka ábyrgð eða skyldu leiði hvorki af lögum nr. 77/1998 né siðareglum lögmanna.

Niðurstaða

                                                                          I.

Kröfugerð kærenda í málinu lýtur í fyrsta lagi að því að þóknun kærða og lögmannsstofu hans vegna reksturs dómsmáls af hálfu kæranda B ehf. gegn E ehf. hafi verið langt umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt geti talist. Krefjast kærendur þess að kærði verði úrskurðaður til að endurgreiða kærendum 6.423.082 krónur. Kærði hefur hins vegar aðallega krafist þess að tilgreindri kröfu verði vísað frá nefndinni en til vara að henni verði hafnað.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá er þar tiltekið að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Varðandi kröfu um frávísun hefur kærði vísað til þess sem greinir í síðari málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 varðandi frest til að koma ágreiningsmáli um endurgjald á framfæri við nefndina. Fyrir liggi þannig að reikningar hafi verið gefnir út og greiddir af hálfu kærenda löngu fyrir 12. nóvember 2019 en erindi þeirra til nefndarinnar hafi verið móttekið þann 12. nóvember 2020. Samkvæmt því hafi kærendur verið meðvitaðir um endurgjaldið og raunar gert athugasemdir við það í tvígang, þ.e. annars vegar í maí 2019 og hins vegar í júnímánuði sama ár. Hafi þá samkomulag orðið um að ekki kæmi til frekari gjaldtöku vegna lögmannsþjónustu. Hafnar kærði því að kærendur geti kvartað aftur yfir sama endurgjaldinu.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan annaðist kærði og lögmannsstofa hans rekstur dómsmáls fyrir héraðsdómi í þágu kæranda B ehf. gagnvart E ehf. Fyrir liggur að málið var þingfest í héraðsdómi þann x. september 20xx og það leitt til lykta með dómi uppkveðnum þann x. apríl 20xx.

Lögmannsstofa kærða gaf út alls 17 reikninga vegna þeirrar hagsmunagæslu sem gefnir voru út á tímabilinu frá 29. mars 2018 til 1. nóvember 2019. Af málsgögnum verður ráðið að heildarfjárhæð reikninganna hafi verið 8.274.906 krónur með virðisaukaskatti. Jafnframt því liggur fyrir að kærendur greiddu alls 11 reikninga að fjárhæð 4.673.420 krónur með virðisaukaskatti en sex reikningar, að fjárhæð 3.601.486 krónur, voru greiddir af vörslufé kæranda B ehf. sem lögmannsstofa kærða hafði móttekið í þágu aðilans frá E ehf.

Þrátt fyrir að þeir reikningar sem hið umþrætta endurgjald í málinu grundvallaðist á hafi verið gefnir út og greiddir fyrir 12. nóvember 2019 er til þess að líta að við aðalmeðferð málsins nr. E-xxxx/xxxxx, sem fram fór í héraðsdómi þann x. mars 20xx, lagði sá lögmaður sem annaðist málflutning fyrir hönd kæranda B ehf. fram málskostnaðaryfirlit í þágu aðilans vegna rekturs málsins. Tók það til alls 92 klst. á tímagjaldinu 27.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 3.137.200 krónur með virðisaukaskatti. Þá var jafnframt gerð krafa vegna matsgerðar dómkvadds matsmanns að fjárhæð 669.848 krónur og var því heildarkostnaður samkvæmt yfirlitinu tilgreindur að að fjárhæð 3.807.048 krónur.

Af framangreindu verður ráðið að lögmannsstofa kærða hafi áskilið kæranda B ehf., sem stefnanda í fyrrgreindu héraðsdómsmáli, 3.137.200 krónur með virðisaukaskatti í málskostnað úr hendi stefnda vegna lögmannskostnaðar. Fyrir liggur að sú fjárhæð var langtum lægri en það endurgjald sem lögmannsstofa kærða hafði áskilið sér og fengið greitt frá kærendum samkvæmt útgefnum reikningum á árunum 2018 og 2019 vegna málarekstursins. Var mismunur á þeirri fjárhæð sem lögmannsstofan hafði fengið greitt frá kærendum vegna málarekstursins og þeirri fjárhæð sem hún áskildi kæranda B ehf. úr hendi stefnda sem málskostnað að þessu leyti, að fjárhæð 5.137.706 krónur.

Kærði hefur engar haldbærar skýringar á því veitt fyrir nefndinni hverju það sætti að krafist hafi verið málskostnaðar úr hendi gagnaðila kæranda B ehf. með þeim hætti sem gert var við aðalmeðferð málsins þann x. mars 20xx. Getur engu breytt hvað það varðar þótt annar lögmaður á lögmannsstofu kærða hafi annast aðalmeðferð málsins og sé skrifaður fyrir tilgreindu málskostnaðaryfirliti. Er þá til þess að líta að lögmannsstofa kærða annaðist málareksturinn frá undirbúningi til loka málsins í héraði. Jafnframt því liggur fyrir að viðkomandi lögmaður hafði átt í samskiptum við bæði kæranda A og bókhaldsþjónustu kæranda B ehf. á árinu 2019 varðandi útgáfu reikninga og fjárvörslu af hálfu lögmannsstofunnar og mátti því vera ljóst við aðalmeðferðina hvaða endurgjald hafði verið krafist og fengist greitt frá kærendum á árunum 2018 og 2019.

Með hliðsjón af atvikum og því málskostnaðaryfirliti sem áður greinir verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærendur hafi haft réttmæta ástæðu í kjölfar framlagningar yfirlitsins á dómþingi þann x. mars 20xx til að kanna grundvöll fyrir því endurgjaldi sem greitt hafði verið vegna lögmannsstarfa kærða og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans á árunum 2018 og 2019 í tengslum við málareksturinn. Er einnig til þess að líta að kærandi A lýsti verulegum áhyggjum sínum af kostnaði vegna málsins í maí- og júnímánuði 2019 en viðbrögð kærða við því voru á þá leið að upplýsa að ekki kæmi til frekari kröfugerðar vegna lögmannsþóknunar. Stóðst það ekki svo sem reikningsgerð lögmannsstofu kærða í nóvember 2019 ber með sér. Er jafnframt litið til þess að óraunhæft var á tilgreindum tíma fyrir kærendur að bera ágreiningsmál vegna endurgjalds undir nefndina enda rekstur málsins nr. E-xxxx/xxxx, sem kærði og lögmannsstofa hans önnuðust fyrirsvar í vegna kæranda B ehf., þá í fullum gangi. Má ljóst vera að mati nefndarinnar að ágreiningsmál um endurgjald á því stigi hefði getað leitt til slita á réttarsambandi aðila, með tilheyrandi auknum kostnaði kærenda vegna þess málareksturs sem lauk með dómi héraðsdóms þann x. apríl 20xx.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að kærendur hafi þess fyrst átt kost, í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, að koma ágreiningsmáli um endurgjald á framfæri við nefndina þann x. mars 20xx. Þegar ágreiningsmálinu var komið á framfæri við nefndina þann 12. nóvember 2020 var því ekki liðinn sá ársfrestur sem mælt er fyrir um í síðari málslið 1. mgr. 26. gr. laganna. Verður því ekki fallist á kröfu kærða um frávísun á þessum þætti málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Svo sem fyrr greinir annaðist kærði og lögmannsstofa hans hagsmunagæslu í þágu kæranda B ehf. gagnvart E ehf. frá marsmánuði 2018 og þar til dómur var kveðinn upp í héraðsdómi í málinu nr. E-xxxx/xxxx þann x. apríl 20xx. Af málsgögnum verður ráðið að í hagsmunagæslu kærða hafi meðal annars falist kröfugerð og sáttaumleitanir gagnvart E ehf. við upphaf málsins, aðkoma að öflun utanréttarvottorðs frá endurskoðunarskrifstofu í undanfara málshöfðunar, stefnugerð og málshöfðun sem og rekstur fyrrgreinds héraðsdómsmáls. Janframt því liggur fyrir að undir rekstri málsins var aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns en ágreiningur um þann þátt var leiddur til lykta með úrskurði héraðsdóms sem uppkveðinn var þann x. apríl 20xx í kjölfar munnlegs málflutnings um það efni.

Ekki hafa öll málsgögn héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/xxxx verið lögð fyrir nefndina en af dómi héraðsdóms í málinu sem og gögnum málsins að öðru leyti verður ráðið að málareksturinn hafi verið umtalsverður að umfangi. Eðli máls samkvæmt kallaði það jafnframt á aukið vinnuframlag kærða að afla matsgerðar í málinu og flytja ágreiningsmál um það efni munnlega.

Áður er rakið að lögmannsstofa kærða gaf út 17 reikninga á árunum 2018 og 2019 vegna málarekstursins en heildarfjárhæð þeirra var 8.274.906 krónur með virðisaukaskatti. Þá hefur því verið lýst að reikningarnir voru ýmist greiddir beint af kærendum eða með ráðstöfun af því vörslufé sem lögmannsstofa kærða hafði móttekið í þágu kæranda B ehf. frá viðkomandi gagnaðila.

Þrátt fyrir umfang héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/xxxx sem áður er lýst, þar á meðal að teknu tillit til undanfara þess og vinnu kærða á þeim tíma, er það mat nefndarinnar að fyrrgreint endurgjald sem lögmannsstofa kærða áskildi sér úr hendi kærenda og fékkst greitt á árunum 2018 og 2019, að fjárhæð var 8.274.906 krónur með virðisaukaskatti, hafi verið úr öllu hófi og þar með í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Getur engu breytt í því efni þótt tiltekið hafi verið í verkbeiðni/umboði, dags. 12. mars 2019, sem kærandi A undirritaði fyrir eigin hönd og kæranda B ehf. að upplýst hefði verið um áætlaðan heildarkostnað af verkinu. Er þá til þess að líta að ekki er gerð grein fyrir tilgreindu heildarendurgjaldi í umboðinu sjálfu auk þess sem tölvubréf kæranda A til kærða, dags. 9. maí og 24. júní 2019, benda til þess að lögmannskostnaðurinn hafi þá verið orðinn verulega umfram það sem kærandinn hafði vænst. Virðist kærði hafa tekið undir þau sjónarmið að nokkru enda lýsti hann því í framhaldinu að ekki kæmi til frekari gjaldtöku vegna lögmannsþóknunar, þótt aðalmeðferð málsins hefði ekki enn verið ákveðin.

Á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar um að hið umþrætta endurgjald hafi verið úr öllu hófi verður ekki talið að skilyrði séu til að líta til útgefinna reikninga eða vinnuskýrslna að baki þeim varðandi mat á hæfilegu endurgjaldi vegna þeirra verkþátta sem kærði og aðrir lögmenn á lögmannsstofu hans inntu af hendi í þágu kæranda B ehf. á tímabilinu frá marsmánuði 2018 til aprílmánaðar 2020. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að meta hæfilegt endurgjald í málinu að álitum að teknu tilliti til þeirra verkþátta sem lögmannsstörfin tóku til og umfangs málsins að öðru leyti á greindu tímabili.

Áður er gerð grein fyrir efni þess málskostnaðaryfirlits sem lögmannsstofa kærða lagði fram í þágu kæranda B ehf. við aðalmeðferð málsins nr. E-xxxx/xxxx þann x. mars 20xx. Svo sem fyrr greinir var þar gerð krafa fyrir hönd kæranda B ehf. um málskostnað sem tók meðal annars til endurgjalds miðað við 92 klst. vinnuframlag lögmanna á tímagjaldinu 27.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 3.137.200 krónur með virðisaukaskatti.

Líkt og áður greinir hefur kærði engar haldbærar skýringar á því veitt fyrir nefndinni af hverju ekki var miðað við þann kostnað sem kærendur höfðu í reynd borið af málarekstrinum, þar á meðal endurgjaldi til lögmannsstofu kærða að fjárhæð 8.274.906 krónur með virðisaukaskatti, við kröfugerð í þágu kæranda B ehf. við aðalmeðferð fyrrgreinds héraðsdómsmáls. Að mati nefndarinnar verður ekki annar skilningur lagður í málskostnaðaryfirlitið en að þar hafi komið fram það mat kærða að hæfileg kröfugerð vegna lögmannskostnaður í þágu kæranda B ehf. gagnvart gagnaðila hans væri 2.530.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Að teknu tilliti til þeirra lögmannsstarfa sem kærði og aðrir lögmenn á lögmannsstofu hans önnuðust í þágu kærenda og umfangs þess héraðsdómsmáls sem rekið var getur nefndin tekið undir það sem greinir í málskostnaðaryfirlitinu, dags. x. mars 20xx, varðandi umfang lögmannsstarfa kærða og lögmannsstofu hans í þágu kæranda B ehf., þ.e. 92 klst. Jafnframt því verður ekki talið að það tímagjald sem þar var tilgreint samkvæmt gjaldskrá, að fjárhæð 27.500 krónur auk virðisaukaskatts, hafi verið óhóflegt.

Samkvæmt því og að teknu tilliti til atvika allra og málsgagna er það niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans í þágu kærenda vegna viðkomandi málareksturs sé að fjárhæð 2.530.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 3.137.200 krónur. Í samræmi við þá niðurstöðu, fyrirliggjandi kröfugerð kærenda og að teknu tilliti til þess að greiðslur þeirra til lögmannsstofu kærða á árunum 2018 og 2019 samkvæmt útgefnum reikningum námu 8.274.906 krónum, verður kærða gert að endurgreiða kæranda B ehf. 5.137.706 krónur.

Kærendur hafa jafnframt krafist þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að greiða helming af kostnaði vegna öflunar utanréttarmats, eða 423.187 krónur, auk ætlaðs óútskýrðs mismunar að fjárhæð 63.579 krónur.

Um hinn fyrrgreinda kröfulið er þess að gæta að valdsvið nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998, tekur ekki til slíkrar kröfugerðar. Þá hefur kærði lagt fram fullnægjandi gögn og skýringar að baki þeim kostnaði, að fjárhæð 63.579 krónur, sem greiddur var af vörslufé þann 21. júní 2018. Þegar af þeim ástæðum verður ekki talið að skilyrði séu til að fallast á frekari kröfur um endurgreiðslu en áður er rakið. 

II.

Kröfugerð kærenda í málinu lýtur í öðru lagi að því að kærða og lögmannsstofu hans hafi verið óheimilt að taka út 2.210.607 krónur af fjárvörslureikningi sínum í júní 2018 vegna reikninga sem ekki höfðu borist kærendum. Krefjast kærendur þess að úrskurðarnefnd taki til skoðunar og úrskurði hvort háttsemi kærða hafi verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/1998 um lögmenn. Kærði hefur hins vegar, sem fyrr greinir, aðallega krafist þess að tilgreindri kröfu verði vísað frá nefndinni en til vara að henni verði hafnað.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 kemur fram að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Er þar jafnframt tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan liggur fyrir að lögmannsstofa kærða móttók á vörslufjárreikning hluta af kaupverði því sem gagnaðili kæranda B ehf. hafði innt af hendi samkvæmt kaupsamningnum frá 1. mars 2018. Nánar tiltekið mun lögmannsstofa kærða hafa móttekið alls 9.000.000 króna í þágu kæranda B ehf. á tímabilinu frá júní – ágúst 2018. Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að á sama tímabili hafi verið ráðstafað af fyrrgreindu vörslufé til greiðslu reikninga lögmannsstofu kærða nr. 257-18, 284-18, 305-18, 326-18, 332-18 og 370-18 en þeir voru að heildarfjárhæð 3.601.481 krónur með virðisaukaskatti. Jafnframt því hefur kærði lagt fyrir nefndina afrit af póstkröfu F hf. að fjárhæð 63.579 krónur sem hann kveðst hafa greitt í þágu kæranda B ehf. af fyrrgreindu vörslufé aðilans þann 21. júní 2018. Þá liggur fyrir að lögmannsstofa kærða ráðstafaði eftirstöðvum vörslufjárins að fjárhæð 5.334.935 krónur til kæranda B ehf., þ.e. nánar tiltekið 2.199.121 krónum þann 11. júlí 2018 og 3.135.814 krónum þann 17. ágúst 2018.

Að mati nefndarinnar er til þess að líta að kærendur voru þegar í júlímánuði 2018 upplýstir um að ráðstafað hefði verið af vörslufé þeirra hjá lögmannsstofu kærða inn á kostnað vegna málarekstursins. Spurðist kærandi A þannig fyrir um í tölvubréfi til kærða, dags. 16. júlí 2018, hvort greiðsla sem innt hefði verið af hendi frá lögmannsstofunni til kæranda B ehf. hefði verið innborgun frá E ehf. að frádregnum kostnaði til stofunnar. Staðfesti kærði samdægurs að svo væri.

Um þetta efni er einnig til þess að líta að kærandi A lýsti því í erindi til lögmannsstofu kærða þann 6. september 2019 að nánar tilgreind bókhaldssstofa væri að taka saman „tölur og reikninga“ vegna skattframtals 2018 og aflaði upplýsinga vegna þess. Fylgdi bókari kærenda því eftir með tölvubréfi til annars lögmanns á lögmannsstofu kærða þann 9. sama mánaðar þar sem meðal annars var óskað eftir yfirliti yfir fjárvörslu vegna kæranda B ehf., þ.e. upplýsingum um hvað hefði verið greitt til lögmannsstofunnar frá E ehf. og hvað hefði verið greitt „með fjárvörslunni.“ Þann sama dag sendi lögmannsstofa kærða greinargott yfirlit yfir hreyfingar á vörslureikningnum vegna kæranda B ehf. til bókarans, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið reifað er að mati nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi þegar í júlímánuði 2018 en í síðasta lagi í septembermánuði 2019 átt þess kost að koma því ágreiningsefni sem hér um ræðir á framfæri við nefndina. Að mati nefndarinnar voru því lögbundnir tímafrestir til að leggja málið fyrir nefndina, vegna atvika er vörðuðu fjárvörslu kærða og lögmannsstofu hans í þágu kæranda B ehf., liðnir þegar kvörtun kærenda í máli þessu var móttekin þann 12. nóvember 2020. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, verður ekki hjá því komist að vísa tilgreindu kvörtunarefni frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

III.

Varðandi kröfugerð hafa kærendur í þriðja og síðasta lagi vísað til þess að kærði hafi sakað kæranda A um kynferðislega áreitni eftir að sett hafi verið fram krafa um endurgreiðslu vegna óhóflegs kostnaðar hans. Krefjast kærendur þess að úrskurðarnefnd taki til skoðunar og úrskurði hvort háttsemi kærða hafi verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/1998 um lögmenn. Kærði krefst hins vegar aðallega að kröfunni verði vísað frá nefndinni en til vara að henni verði hafnað.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa máli frá ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Svo sem fyrr er rakið starfar úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnend lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Fyrir liggur að það kvörtunarefni sem hér um ræðir á rætur að rekja til tölvubréfs sem annar lögmaður á lögmannsstofu kærða sendi til lögmanns kærenda þann 15. september 2020 en hið umþrætta efni þess er tekið beint upp í málsatvikalýsingu að framan. Var því þar meðal annars lýst að kærandi A hefði farið yfir strikið gagnvart kærða með mjög óviðeigandi hætti á fundi aðila og áreitt hann kynferðislega.

Ekkert liggur fyrir um það í málinu að kærði hafi komið að ritun fyrrgreinds tölvubréfs sem sent var til lögmanns kærenda þann 15. september 2020. Jafnframt því verður á engan hátt ráðið af efni þess að sú ásökun sem þar var höfð uppi í garð kæranda A hafi verið viðhöfð af kærða vegna eða í tengslum við störf hans sem lögmanns í þágu kærenda, svo sem áskilið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þegar af þeirri ástæðu og í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um þá kröfu og kvörtunarefni kærenda sem hér um ræðir, sbr. einnig 3. mgr. 10. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna. Verður því að vísa tilgreindri kröfu kærenda á hendur kærða frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Eftir niðurstöðu málsins verður kærða gert að greiða kærendum 150.000 krónur í málskostnað, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

II. og III. kröfulið kærenda, A og B ehf., gagnvart kærða, C lögmanni, er vísað frá nefndinni.

Áskilið endurgjald kærða, C lögmanns, vegna starfa hans í þágu kærenda, A og B ehf., sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 3.137.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Kærði, C lögmaður, endurgreiði kæranda, B ehf., 5.137.706 krónur.

Kærði, C lögmaður, greiði óskipt kærendum, A og B ehf., 150.000 krónur í málskostnað. 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson