Mál 3 2020

Mál 3/2020

Ár 2020, föstudaginn 9. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2020:

A

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. febrúar 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærða, B, hafi í störfum sínum brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. C lögmaður fer með mál kæranda fyrir nefndinni en D lögmaður gætir hagsmuna kærðu.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi, dags. 11. febrúar 2020, og barst hún þann 17. mars sama ár. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi dags. 18. mars 2020. Hinn 16. apríl 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærðu þann sama dag. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærðu þann 8. maí 2020 og voru þær sendar til kæranda þann 12. sama mánaðar þar sem jafnframt var upplýst um að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila hefur kærða gætt hagsmuna gagnaðila kæranda frá sumarmánuðum 2019 í máli er lýtur meðal annars að umgengnisrétti kæranda við barn hans og umbjóðanda kærðu og rétti umbjóðanda kærðu til meðlags úr hendi kæranda.

Fyrir liggur að kærandi og umbjóðandi kærðu eignuðust barn á sambúðartíma þann 18. apríl 2018 en sambúðarslit urðu það sama haust. Í kjölfar þess fluttist umbjóðandi kærðu ásamt barni til Íslands en kærandi er og hefur verið með lögheimili í E. Ágreiningslaust er að kærandi kom með reglulegu millibili til landsins á tímabilinu frá febrúar til nóvember 2019 og hafði þá umgengni við barnið í samræmi við samkomulag við umbjóðanda kærðu í hvert sinn. Jafnframt hefur verið upplýst fyrir nefndinni að ekki hafi tekist samkomulag um meðlagsgreiðslur kæranda til umbjóðanda kærðu og því hafi umbjóðandi kærðu leitað til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þann 1. apríl 2019 með beiðni um meðlagsúrskurð frá 1. október 2018 að telja. Mun úrskurður um meðlag frá tilgreindum tíma hafa legið fyrir hjá sýslumannsembættinu í janúarmánuði 2020.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að samskiptum sem kærða átti við kæranda og fyrrum lögmann hans vegna umgengnisréttarins í nóvember 2019.

Af málsgögnum verður ráðið að kærða sendi tölvubréf til þáverandi lögmanns kæranda þann 22. nóvember 2019 undir yfirskriftinni „Eignir umb míns og meðlagsskuldin.“ Í tölvubréfinu var því lýst að samkomulag hefði tekist um að kærandi myndi afhenda sameiginlegri vinkonu muni í eigu umbjóðanda kærðu sem kærandi hefði haft í sínum vörslum í E. Kærandi hefði hins vegar tilkynnt að ekki væri unnt að sækja dótið á þeim tíma sem um hefði verið rætt. Bættist sú framkoma kæranda við að hann hefði ekki svarað ítrekuðum spurningum um hvenær hann ætlaði að borga það meðlag sem hann skuldaði umbjóðanda kærðu. Var tiltekið í tölvubréfinu að af þeim sökum hefði umbjóðandi kærðu ákveðið og falið kærðu að tilkynna um að á meðan kærandi afhenti ekki dótið og svaraði engu um greiðslu ógreidda meðlagsins sæi hún ekki ástæðu til að koma til móts við kæranda um umgengni meðan úrskurður um slíkt lægi ekki fyrir. Þá sagði eftirfarandi í niðurlagi tölvubréfsins:

            „Miðað við núverandi stöðu samþykkir umbj minn því ekki umgengni í desember.

Verði dótið afhent um helgina eins og umbj þinn var búinn að samþykkja og komi svör frá honum um hvernig hann ætlar að greiða meðlagsskuldina þá mun umbj minn endurskoða þessa afstöðu. Minnt er enn einu sinni á mjög sanngjarna tillögu umbj míns um að hann greiði tvöfalt meðlag uns meðlagsskuldin er greidd.

Umbj þinn hefur það því í hendi sér hvort einhver eða engin umgengni verði í desember. Minnt er á að greiðsla meðlags og umgengni er hvorutveggja skyldur foreldra og báðar jafn mikilvægar.

Í svari þáverandi lögmanns kæranda til kærðu, dags. 25. nóvember 2019, kom fram að lögmaðurinn hefði ekki verið í sambandi við kæranda þá helgi. Þá var meðal annars tiltekið að óverjandi væri ef umbjóðandi kærðu ætlaði að tengja umgengni við meðlag aftur í tímann og persónulega muni sem umbjóðandi kærðu hefði skilið eftir í E og brjóta þannig gegn rétti barnsins og möguleika til að tengjast föður sínum.

Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að þáverandi lögmaður kæranda hafi látið af hagsmunagæslu í málinu í kjölfar tilgreindra samskipta.

Í tölvubréfi kæranda til kærðu, dags. 28. nóvember 2019, kom fram að hann gætti nú hagsmuna sinna sjálfur vegna umgengnisréttarins. Lýsti kærandi því að hann hefði verið upplýstur um að tillaga hans að umgengni í desember hefði verið hafnað. Var í tölvubréfinu jafnframt að finna nýja tillögu kæranda að umgengni í mánuðinum sem tók til tímabilsins frá 10. – 16. desember 2019.

Kærða svaraði fyrrgreindu erindi kæranda þennan sama dag. Var þar vísað til þess tölvubréfs sem kærða hafði sent til þáverandi lögmanns kæranda þann 22. nóvember 2019 og að á grundvelli þeirra sjónarmiða sem þar hefðu komið fram væri umbjóðandi kærðu ekki reiðubúin að gera bráðabirgðasamkomulag við kæranda um umgengnisrétt áður en úrskurður um það efni lægi fyrir hjá sýslumanni. Samkvæmt því kæmi ekki til umgengni kæranda við barnið í desember 2019. Lýsti kærða því jafnframt að umbjóðandi hennar væri í fullum rétti til að ákveða að umgengni færi einungis fram samkvæmt ákvörðun sýslumanns.

Í tilgreindu tölvubréfi kærðu til kæranda var einnig tiltekið að ef kærandi myndi inna af hendi meðlagsgreiðslur og skila persónulegum munum til umbjóðanda kærðu væri umbjóðandi hennar reiðbúinn til að endurskoða þá ákvörðun og samþykkja tímabundna umgengni. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu:

So please do as she asks and please know that if you come in December there will not be any visitation as there is no agreement on the visitation, unless you before then pay your back payments of child support and bring with you her personal belongings. She is of course aware of that she will have to pay for the cost of that but you will have to tell her beforehand what that cost will be.

Lýtur ágreiningur málsins að efni þessa tölvubréfs kærðu frá 28. nóvember 2019. Í öðru tölvubréfi sem kærða sendi til kæranda þennan sama dag kom hins vegar fram sú leiðrétting að kærandi þyrfti að greiða fyrir flutning á munum umbjóðanda kærðu til landsins í ljósi þess að hann hefði kosið að afhenda þá ekki til hinnar sameiginlegu vinkonu helgina áður en umbjóðandi kærðu hefði lagt út fjármuni í tengslum við það.

Kærandi svaraði fyrrgreindum erindum kærðu þann 30. nóvember 2019. Kom þar fram að kærandi hefði lögbundinn rétt til að verja tíma með barni sínu og að barnið hefði jafnframt lögbundinn rétt til að vera með föður sínum. Lýsti kærandi því jafnframt að honum væri kunnugt um að umbjóðandi kærðu hefði lögbundna skyldu til að tryggja aðkomu kæranda að lífi barnsins og umgengni við það. Neitun á umgengni væri því verulegt brot gegn kæranda og barninu og ein tegund misnotkunar. Þá væru réttur til meðlagsgreiðslna og munir umbjóðanda kærðu aðskilin frá því málefni. Væri fullkomlega ósiðlegt að blanda því saman við rétt til umgengni. Hafnaði kærandi því einnig að samkomulag hefði verið um að munirnir yrðu sóttir til hans. Þvert á móti hefði hann ítrekað óskað eftir að munirnir yrðu sóttir. Jafnframt því kvaðst kærandi aldrei hafa hafnað því að greiða kostnað vegna barnsins.

Í svari kærðu til kæranda, dags. 30. nóvember 2019, kom meðal annars fram að hún hefði engu við fyrri erindi að bæta þar sem færð hefðu verið fram sjónarmið umbjóðanda hennar um stöðu mála.

Líkt og áður greinar var kvörtun í máli þessu beint til nefndarinnar þann 10. febrúar 2020.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að kærðu verði gert að sæta viðeigandi viðurlögum fyrir háttsemi sína.

Í kvörtun er vísað til þess að hún sé byggð á ósiðlegri framkomu kærðu gagnvart kæranda, sem gagnaðila umbjóðanda kærðu. Lýsir kærandi því að hann hafi átt í ágreiningi við barnsmóður sína varðandi umgengnisrétt og meðlagsgreiðslur en barn þeirra sé með skráð lögheimili hjá móðurinni á Íslandi. Hafi sá ágreiningur komið til meðferðar hjá viðkomandi sýslumannsembætti á árinu 2019 þar sem kærða hafi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu móðurinnar, þ.e. gagnaðila kæranda.

Kærandi vísar til þess að á árinu 2019 hafi hann að jafnaði komið einu sinni í mánuði til landsins til að eyða tíma með barni sínu. Hafi sveigjanleiki umgengnisréttarins ekki batnað við aðkomu kærðu að málinu.

Kærandi vísar til þess að hann hafi haft í hyggju að koma til landsins í desembermánuði 2019 og að hann hafi rætt við kærðu um umgengnina mánuði fyrr. Þá hafi einnig verið uppi ágreiningur um meðlagsgreiðslur og hver væri ábyrgur fyrir því að koma með eigur umbjóðanda kærðu, sem voru í vörslum kæranda, til landsins. Bendir kærandi á að hann hafi talið umrædd málefni aðskilin frá rétti hans á umgengni við barnið enda væri slíkt bundið í lög, þ.e. réttur barnsins til að njóta umgengni við báða foreldra.

Vísað er til þess að kvörtun í málinu lúti að tölvubréfi sem kærða sendi til kæranda þann 28. nóvember 2019 en í niðurlagi þess sagði meðal annars:

So please do as she asks and please know that if you come in December there will not be any visitation as there is no agreement on the visitaion, unless you before then pay your back payments of child support and bring with you her personal belongings.

Kærandi bendir á að í tölvubréfi kærðu hafi falist hótun um að hann kæmi ekki til með að njóta umgengnisréttar við barnið í desember 2019 nema að áður væri greidd krafa um meðlag sem ágreiningur hafi verið um og að kærandi myndi auk þess flytja með sér eigur umbjóðanda kærðu til landsins, sem hafi verið um 40 kíló. Er vísað til þess að kærða hafi staðið við þau orð enda hafi kærandi ekki notið umgengnisréttar í heimsókn hans til landsins í mánuðinum þar sem hann hafi neitað að verða við kröfum kærðu.

Kærandi byggir á að í umræddri hótun kærðu hafi falist refsiverð fjárkúgun. Hafi hótunin verið til þess fallin að fá kæranda til að aðhafast um atriði sem honum hafi engin skylda borið til, í því skyni að samþykkja umgengnisrétt sem kærandi og barn hans hafi þegar átt rétt til. Sé hér bæði um að ræða ósiðlegt athæfi kærðu sem og refsivert. Auk þess hafi háttsemi kærðu brotið gegn rétti barnsins til að njóta umgengni við föður sinn.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar var vísað til þess að hin umþrætta háttsemi kærðu væri einkum talin varða við 1. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi bendir á að málið varði hvorki heilsufar hans né samband við umbjóðanda kærðu. Þrátt fyrir það sé í greinargerð kærðu að finna sérstaklega ósmekkleg ummæli um heilsufar kæranda sem engin ástæða hafi verið til að hafa uppi fyrir nefndinni. Hafi viðkomandi ummæli engin tengsl við sakarefnið og sett fram, að því er virðist, í þeim eina tilgangi að sverta kæranda í augum nefndarinnar. Er farið fram á að nefndin víti kærðu og lögmann hennar fyrir þann málatilbúnað.

Varðandi málatilbúnað kærðu um að hún eigi heimtingu á að vera ekki samsömuð umbjóðanda sínum, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, vísar kærandi til þess að ekki sé unnt að fallast á slíkt atriði við vörn í málinu enda fjalli það um aðferð kærðu við að ná fram hagsmunum umbjóðandans. Fjalli málið þannig um það hvort kærða hafi beitt ótilhlýðilegri þvingun, þ.e. hótun um að fella niður fyrirframákveðna umgengni í desember, til þess að ná fram ákveðnum fjárhagslegum hagsmunum skjólstæðings síns.

Varðandi kröfu um greiðslu meðlags vísar kærandi til þess að það mál hafi þá verið til meðferðar hjá sýslumanni en samningaviðræður hafi ekki borið árangur. Hafi því verið um að ræða umdeilda kröfu sem kærða reyndi að fá kæranda til þess að greiða með þeirri aðferð að hóta honum því að annars myndi umgengni í desembermánuði 2019 falla niður.

Hvað varðar kröfuna um að kærandi bæri kostnað af því að flytja eigur umbjóðanda kærðu til landsins bendir kærandi á að hann hafi frá upphafi samvistarslita hvatt viðkomandi til þess að nálgast eigur sínar með einum eða öðrum hætti. Því miður hafi hann ekki getað hitt vinkonu barnsmóðurinnar þegar hún hafi verið á ferð í heimaborg kæranda þótt hann hafi vonast eftir því að slíkt væri unnt. Því fari hins vegar fjarri að nokkuð samkomulag hafi legið fyrir milli aðila um að kærandi myndi afhenda vinkonunni munina. Þá fari því fjarri að um hafi verið að ræða sérstakt ferðlag vinkonunnar í því skyni að sækja munina, þvert á móti hafi hún verið þar í öðrum erindagjörðum. Þurfi umbjóðandi kærðu að bera kostnað og fyrirhöfnina af því að flytja eigur sínar til landsins. Samkvæmt því hafi það verið ótilhlýðilegt af kærðu að krefjast þess að kærandi bæri þann kostnað, ella fengi hann ekki umgengni við barn sitt.

Kærandi vísar jafnframt til þess að það hafi ekki þýðingu í málinu hvort hann hafi rofið samkomulag um afhendingu munanna eða ekki. Jafnvel þótt svo hefði verið væri það ekki tilhlýðilegt af lögmanni að reyna að þvinga fram efndir slíks samkomulags með hótun um að fella niður umgengni við barn.

Kærandi bendir á að í 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé mælt fyrir um skyldu foreldra sem ekki búa saman til að tryggja að réttur barna til umgengni við báða foreldra sína sé virtur. Ekki hafi verið deilt um að frá febrúar 2019 hafi kærandi komið mánaðarlega til landsins til þess að vera með barni sínu og meðal annars keypt íbúð í því skyni. Ekki sé heldur umdeilt að umgengni fyrir desember 2019 hafi verið fyrirhuguð þegar kærða sendi kæranda hið umþrætta tölvubréf þann 28. nóvember 2019. Loks tekur kærandi fram að það sé rangt sem fram komi í málatilbúnaði kærðu um að kærandi hafi ekki lagt fram kröfu um umgengni til bráðabirgða. Slíkt hafi verið gert með bréfi lögmanns kæranda til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þann 15. janúar 2020.

Fyrir skýrleika sakir bendir kærandi á að því sé ekki haldið fram að það hefði brotið í bága við siðareglur lögmanna ef kærða hefði aðeins tilkynnt kæranda einhliða um að umgengni félli niður í desember. Annað sé hins vegar að segja að umgengni falli niður nema umdeildar kröfur séu greiddar. Felist í því ótilhlýðileg þvingun með vísan til 35. gr. siðareglna lögmanna.

III.

Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst kærða þess að hún þurfi engan kostnað að bera vegna málsins.

Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að nauðsynlegt sé að svara málatilbúnaði kæranda með ítarlegum hætti enda líti kærða það alvarlegum augum að vera borin svo þungum sökum sem raun ber vitni. Byggir kærða á að ásakanir eigi ekki við nein rök að styðjast, hvorki í raunveruleikanum né sé hægt að finna þeim stað í málsgögnum. Þá sé kærðu nokkur vandi á höndum að grípa til andmæla enda sé hvorki vísað til lagaákvæða né tiltekinna greina siðareglna lögmanna í kvörtun.

Um málsatvik vísar kærða til þess að umbjóðandi hennar og kærandi eigi saman barn. Hafi foreldrarnir aldrei verið í skráðri sambúð, sonurinn feðraður með faðernisviðurkenningu og umbjóðandi kærðu farið ein með forsjá hans frá fæðingu. Lýsir kærða því að umbjóðandi hennar hafi upplýst um að kærandi hefði mjög takmarkað komið að umönnun barnsins frá fæðingu og að foreldrarnir hafi slitið samvistum á haustmánuðum 2018. Skömmu síðar hafi kærandi verið lagður inn á geðdeild vegna geðrænna vandamála, sem birst hafi að sögn umbjóðanda kærðu í þunglyndi, reiðistjórnunar- og innsæisvanda. Þá hafi komið fram af hálfu umbjóðanda kærðu að kærandi hefði fyrir og eftir sambúðartíma beitt andlegu ofbeldi.

Því er lýst að eftir að meðferð kæranda lauk í febrúar 2019 hafi hann haft samband við umbjóðanda kærðu og óskað eftir umgengni við barnið. Hafi umbjóðandi kærðu samþykkt strax að þeir feðgar myndu hittast sem úr hafi orðið í marsmánuði 2019. Hafi drengurinn þá verið tæplega árs gamall og ekki séð kæranda síðan í lok september 2018. Samkvæmt því hafi umbjóðandi kærðu viljað að umgengnin tæki tillit til þess og færi stigvaxandi en við það hafi kærandi verið ósáttur. Þá hafi kærandi neitað að ræða meðlagsgreiðslur til umbjóðanda kærðu fyrr en búið væri að ganga frá umgengnissamkomulagi. Af því tilefni hafi umbjóðandi kærðu leitað til viðkomandi sýslumannsembættis með beiðni um meðlagsúrskurð frá 1. október 2018 að telja.

Kærða vísar til þess að kærandi hafi tekið illa öllum tillögum umbjóðanda hennar um fyrirkomulag umgengni. Hafi kærandi bæði viljað meiri umgengni og öðruvísi umgengni. Umbjóðandi kærðu hafi hins vegar viljað fara hægt í sakirnar þar sem byggja hafi þurft tengsl jafnframt því sem áhyggjur hafi verið uppi um heilsufar kæranda. Ómögulegt hafi hins vegar reynst að festa neitt niður með kæranda varðandi umgengnina. Þá hafi kærandi ekki leitað eftir úrskurði um umgengni fyrr en á haustdögum 2019 en á sama tíma hafi hann margneitað ósk um greiðslu meðlags með syninum.

Kærða kveðst hafa komið að málefnum umbjóðanda síns sumarið 2019. Hafi umbjóðandi kærðu þá verið orðin mjög lúinn á erfiðum og krefjandi samskiptum við kæranda. Kærða hafi hins vegar getað með ráðleggingum sínum hjálpað umbjóðandanum að vera fastari fyrir í samskiptum við kæranda, sem kæranda hafi líkað illa.

Vísað er til þess að umbjóðandi kærðu hefði sagt kæranda í ágúst 2019 að hún væri komin með lögmann, þ.e. kærðu í þessu máli. Hafi þau þá árangurslaust verið búin að reyna að ná samkomulagi um fyrirkomulag á umgengni. Á sama tíma hafi kærandi verið ósáttur við að leikskóladvöl drengins breytti einhverju um umgengnina.

Því er lýst að umbjóðandi kærðu hafi fengið bréf frá lögmanni kæranda í september 2019 þar sem settar hafi verið fram umgengnistillögur sem taldar hafi verið óaðgengilegar. Hafi kærandi viljað að drengurinn dveldi hjá sér samfellt 10 daga í mánuði, átta virka daga kl. 16 – 19 og svo um helgar. Kærða hafi hins vegar sent gagntillögur fyrir hönd umbjóðanda síns til lögmanns kæranda, sem ekki hafi verið svarað. Þá hafi kærða ítrekað í samskiptum lögmanna minnt á að kærandi greiddi ekki meðlag eins og honum væri skylt að lögum og að umbjóðandi hennar ætti persónulega hluti hjá kæranda.

Kærða vísar til þess að hún hafi sent tölvubréf til þáverandi lögmanns kæranda þann 22. nóvember 2019. Hafi þar komið fram hvaða samskipti hefðu átt sér stað á milli umbjóðanda kærðu, kæranda og sameiginlegrar vinkonu. Sé forsagan sú að þann 4. nóvember 2019 hafi kærandi skrifað umbjóðanda kærðu og sagst þurfa að losna við dótið hennar innan viku. Í kjölfarið hafi umbjóðandi kærðu haft samband við sameiginlega vinkonu sem boðist hafa til að fara út og ná í dótið. Hafi kærandi lofað hinni sameiginlegu vinkonu að hún gæti sótt hina persónulega muni. Á þeim grunni hafi umbjóðandi kærðu greitt vinkonunni 55.500 krónur fyrir flug, leigubíla og þrjár töskur til sækja viðkomandi muni. Umbjóðandi kærðu hafi hins vegar ekki verið glöð þegar kærandi, rétt áður en vinkonan fór af stað til E, tilkynnti um að hann gæti ekki afhent munina. Hafi það verið staða málsins þegar kærða sendi fyrrgreint tölvubréf.

Kærða vísar til þess að kærandi hafi sent henni tölvubréf hinn 28. nóvember 2019. Kveðst kærða hafa svarað því tölvubréfi sama dag þar sem tilkynnt hafi verið um ákvörðun umbjóðanda hennar um að engin umgengni yrði í desembermánuði 2019. Þá hafi umbjóðandi kærðu verið orðin úrvinda á samskiptunum og yfirgangi kæranda. Hafi kærða jafnframt útskýrt í tölvubréfinu lagaumhverfið og að umbjóðandi hennar gerði það að skilyrði fyrir frekari umgengni án úrskurðar að kærandi sinnti sínum skyldum.

Kærða tekur fram að umbjóðandi hennar hafi aðeins látið umgengnina falla niður í desember 2019. Nýr lögmaður hafi komið að málinu fyrir hönd kæranda skömmu fyrir jól. Í þeim samskiptum hafi engin ósk verið sett fram um umgengni í desember heldur frá janúar 2020. Kærða kveður að umbjóðandi hennar hafi falið henni að tilkynna nýjum lögmanni hvaða umgengni hún byði fram að úrskurði, sem miðuð hafi verið við hvaða daga kærandi kæmi til landsins. Hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi hefði komið og verið viku í senn og fengið umgengni í samræmi við tillögu umbjóðanda kærðu.

Vísað er til þess að umgengni hafi verið í samræmi við ákvörðun umbjóðanda kærðu í janúar, febrúar og mars 2020. Í lok janúar 2020 hafi umbjóðandi kærðu loks fengið úrskurð um meðlag frá 1. október 2018. Krafa kæranda um umgengni bíði hins vegar enn hjá sýslumanni.

Varðandi kröfugerð sína vísar kærða til 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem fram kemur að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Byggir kærða á að það séu ekki ólögmæt úrræði af hálfu umbjóðanda hennar að tilkynna kæranda um að umgengni, sem hvorki hafi formlega verið samið um né úrskurðuð, félli niður gagnvart kæranda ef hann féllist ekki á að inna af hendi meðlagsgreiðslur. Vísar kærða til þess að skylda umgengnisforeldris sé að greiða meðlag með barni sínu en skylda forsjárforeldris að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt. Bjóði barnalög nr. 76/2003 að samið sé um forsjá og meðlag t.d. við sambúðarslit foreldra. Lögin krefjist þess hins vegar ekki að tíundað sé hvert samkomulag foreldra sé um umgengni. Samkvæmt því vegi framfærsluskylda foreldris þyngra en umgengnisrétturinn að mati kærðu. Megi þá ályktun einnig til dæmis draga af því að sifjalaganefnd hefur ekki talið fært úrræði í umgengnistálmunum að frysta meðlag. Þess séu einnig dæmi að foreldri sem verði fyrir umgengnistálmunum þurfi að greiða tvöfalt meðlag.

Kærða bendir á að fyrir liggi að ef foreldrar ná ekki samkomulagi um umgengni þá hafi það verið látið viðgangast að engin umgengni verði þangað til sýslumaður hafi úrskurðað um slíkt. Til að flýta fyrir umgengnisákvörðun við þessar kringumstæður hafi verið gerðar breytingar á barnalögum á árinu 2012 og heimilað að úrskurða um umgengni til bráðabirgða. Kærandi hafi hins vegar ekki óskað eftir slíkum úrskurði og þar með ekki nýtt sér þau lögmætu úrræði sem stóðu til boða. Hafi kærða því ekki tilkynnt um nein ólögmæt úrræði af hálfu umbjóðanda síns í hinu umþrætta tölvubréfi.

Kærða vísar til þess að hún sé ekki aðili ágreinings þess sem sé á milli kæranda og umbjóðanda kærðu um meðlag, umgengni og skil kæranda á persónulegum munum. Kærandi brjóti hins vegar með kvörtun í málinu á kærðu með því að samkenna kærðu þeim sjónarmiðum og lögmæta rétti sem kærða hafi af heilindum og í samræmi við bestu vitund talið sig gæta fyrir umbjóðanda, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Kærða kveðst ekki hafa brotið 34. gr. siðareglnanna gagnvart kæranda heldur hafi hún þvert á móti sýnt honum fulla virðingu og þá tillitssemi sem hafi verið samræmanleg hagsmunum umbjóðanda hennar. Hafi það einnig verið val kæranda hverju sinni hvort hann væri með lögmann sér til fulltingis eða ekki.

Kærða bendir á að hún hafi hvorki kært né hótað kæranda einhverju sem óviðkomandi hafi verið máli umbjóðanda hennar. Er vísað til þess að meðlag og umgengni séu nátengd mál og samofin. Þegar hið umþrætta tölvubréf var sent hafi staðan verið sú að umbjóðandi kærðu hefði engar meðlagsgreiðslur fengið frá kæranda í rúmt ár sem skert hafi hennar fjárhagslegu stöðu verulega auk þess sem rökstudd krafa hafi verið um að fá muni aftur til Íslands. Hafi umbjóðandi kærðu þá þegar sýnt mikla tillitssemi og margsinnis samþykkt umgengni. Helgina 22. – 25. nóvember 2019 hafi gerst hlutir sem fyllt hafi mælinn hjá umbjóðanda kærðu og gerðu það að verkum að ófært var að liðka frekar til fyrir umgengninni nema að fengnum úrskurði sýslumanns. Hafi kærða tilkynnt það fyrir hönd umbjóðanda, fyrst lögmanni kæranda og síðan kæranda sjálfum eftir að lögmaðurinn hætti afskiptum af málinu. Kveðst kærða ekki hafa brotið nein ákvæði 35. gr. siðareglna lögmanna með þeim skilaboðum frá umbjóðanda. Auk þess hafi umgengni aðeins fallið niður í desember 2019, líkt og áður er rakið.

Kærða byggir á að fullyrðingar kæranda um að hún hafi gerst sek um fjárkúgun séu fráleitar og í andstöðu við 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Vísar kærða til þess að umbjóðandi hennar hafi sýnt mikla tillitssemi og þolinmæði og samþykkt umgengni án úrskurðar. Hafi kærða leiðbeint umbjóðanda í samræmi við það sem hún þekkir best í þeirri stöðu sem er í málinu og liðsinnt við að bjóða fram eins sanngjarna og eðlilega umgengni og hægt var miðað við aldur barnsins og þá staðreynd að kærandi bjó ekki á Íslandi. Staðreynd málsins sé hins vegar sú að kærandi sé ósáttur og hafi verið allan tímann enda vilji hann einn ráða því hvernig umgengni hans og barnsins sé. Bendir kærða á að hvergi segi í barnalögum að umgengnisforeldri geti einhliða ráðið umgengni fram að uppkvaðningur úrskurðar um það efni. Telur kærða að erindi kæranda sé með öllu tilefnislaust.

Í viðbótarathugasemdum kærðu eru ítrekuð mótmæli þess efnis að hún hafi beitt kæranda þvingunum. Bendir kærða á að hún hafi verið milligöngumaður í hinum umþrættu samskiptum, sem lögmaður, milli umbjóðanda hennar og kæranda. Byggir kærða á að það sé ekki ólögmætt úrræði, hvað þá ólögmæt þvingun, af hálfu umbjóðanda hennar að fela lögmanni sínum að tilkynna kæranda um að umgengni félli niður af tilteknum ástæðum, ekki síst í ljós þess að engin formleg ákvörðun hafi legið fyrir um umgengnina jafnframt því sem hvorki hafi verið um hana samið né úrskurðað.

Í samræmi við allt framangreint byggir kærða á að hún hafi ekki brotið siðareglur lögmanna gagnvart kæranda heldur þvert á móti sýnt honum fulla virðingu og þá tillitssemi sem samræmanleg hafi verið hagsmunum umbjóðanda kærðu.   

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærðu en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst. Þá er tiltekið í 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglnanna að nefndin skuli vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Um frávísunarkröfu kærðu er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætluðu broti aðilans, sem lögmanns, gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá hefur málatilbúnaður kæranda að mati nefndarinnar ekki leitt til þess að kærða hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu með þeim hætti að leitt geti til frávísunar þess frá nefndinni. Eins og atvikum er háttað verður því að telja málið nægilega reifað og upplýst. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærðu í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

Það athugast þó að það fellur utan við lögbundið valdsvið nefndarinnar að leggja efnislegt mat á hvort kærða hafi gerst sek um refsiverða háttsemi líkt og málatilbúnaður kæranda er reistur á. Koma málsástæður kæranda um það efni því ekki til úrlausnar í máli þessu.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá kemur fram í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum en í ákvæðinu er jafnframt nánar skilgreint hvað teljist meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi.

III.

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærða hafi gert á hans hlut með háttsemi sem hafi verið í andstöðu við ákvæði siðareglna lögmanna. Hafi háttsemin nánar tiltekið falist í hótun kærðu, sem sett hafi verið fram í tölvubréfum til kæranda og þáverandi lögmanns hans dagana 22. og 28. nóvember 2019, um að kærandi kæmi ekki til með að njóta umgengnisréttar við barn sitt í desembermánuði 2019 nema áður yrði greidd krafa um meðlag sem ágreiningur hafi verið um og að kærandi myndi auk þess flytja með sér eigur umbjóðanda kærðu til landsins frá E sem hafi verið umtalsverðar að vigt.

Kærða hefur hins vegar vísað til þess að hún hafi eingöngu verið milligöngumaður í hinum umþrættu samskiptum, sem lögmaður, milli umbjóðanda hennar og kæranda. Hafi kærða kröfu til að vera ekki samkennd þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hún hafi gætt fyrir umbjóðanda sinn, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Þá hafi það ekki verið ólögmætt úrræði, hvað þá ólögmæt þvingun, af hálfu umbjóðanda hennar að fela kærðu, sem lögmanni, að tilkynna kæranda um að umgengni félli niður af tilteknum ástæðum, ekki síst í ljósi þess að engin formleg ákvörðun hafi legið fyrir um umgengnina jafnframt því sem hvorki hafi verið um hana samið né úrskurðað af hálfu viðkomandi sýslumannsembættis.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 á barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Er þar einnig kveðið á um að þegar foreldrar búa ekki saman hvíli sú skylda á þeim báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur. Þá á foreldri sem barn býr ekki hjá í senn rétt og ber skyldu til að rækja umgengni við barnið en foreldri sem barn býr hjá er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 46. gr. laganna.

Sambúðarslit á milli kæranda og umbjóðanda kærðu áttu sér stað um ári áður en til hinna umþrættu samskipta kom í nóvembermánuði 2019. Upplýst hefur verið í málinu að í kjölfar sambúðarslita hafi umbjóðandi kærðu flutt til Íslands ásamt barni en kærandi var þá og er enn með lögheimili sitt í Ungverjalandi. Þá er ágreiningslaust í málinu að kærandi kom með reglulegu millibili til landsins á tímabilinu frá febrúar til nóvember 2019 og hafði þá umgengni við barn sitt í samræmi við samkomulag við umbjóðanda kærðu í hvert sinn, án þess þó að fyrir hafi legið formlegt samkomulag um umgengnisréttinn á grundvelli 4. og 5. mgr. 46. gr. laga nr. 76/2003 eða úrskurður sýslumanns um umgengnina, sbr. 46. og 47. gr. laganna.

Líkt og áður er rakið laut hin umþrætta háttsemi kærðu að upplýsingagjöf hennar fyrir hönd umbjóðanda til kæranda um að ef meðlagsskuld yrði ekki greidd af hans hálfu og eigur umbjóðanda kærðu fluttar til landsins á kostnað kæranda frá Ungverjalandi kæmi ekki til umgengni hans við barnið í desembermánuði 2019.

Við mat á hinni umþrættu háttsemi kærðu verður að áliti nefndarinnar að líta til þess að á tilgreindum tíma var ágreiningur um greiðslu meðlags á milli kæranda og umbjóðanda kærðu en krafa hins síðargreinda þar að lútandi var þá til meðferðar hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu eftir ákvæðum 57. gr. laga nr. 76/2003 en úrskurður embættisins um það efni mun ekki hafa legið fyrir fyrr en í janúar 2020. Ekki verður heldur framhjá því litið hvernig framsetningu kærðu í samskiptunum var háttað en að mati nefndarinnar verða þau ekki skilin á annan hátt en að samþykki yrði veitt fyrir umgengni kæranda við barnið í desember 2019, í samræmi við fyrri framkvæmd, ef hin umþrætta meðlagsskuld yrði greidd áður og kærandi myndi á eigin kostnað koma eignum umbjóðanda kærðu til landsins. Samkvæmt því verður hvorki séð að skilyrði þau sem kærða setti fram fyrir hönd og að beiðni síns umbjóðanda fyrir umgengninni hafi lotið að hagsmunum barnsins né að takmarka hafi átt umgengnina á þeim grundvelli eða með vísan til þarfa barnsins að öðru leyti, sbr. grunnsjónarmið 1. og 2. mgr. 46. gr. laga nr. 76/2003. Verður þá einnig til þess litið í þessu samhengi að umgengni kæranda við barnið var aftur komið á í janúarmánuði 2020 eða í sama mánuði og úrskurður sýslumanns um greiðslu meðlags lá fyrir.

Nefndin getur tekið undir með kærðu um það efni að lögmenn hafa skýlausa kröfu til að vera ekki samkenndir þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem þeir gæta fyrir umbjóðendur sína, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Á hinn bóginn er þess að gæta að við rækslu sinna starfa koma lögmenn jafnan fram fyrir hönd sinna umbjóðenda í hagsmunagæslu og halda fram þeim sjónarmiðum og úrræðum sem best eru til þess fallin að að gæta lögvarinna hagsmuna þeirra, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Við slíka hagsmunagæslu þurfa lögmenn eftir sem áður að gæta ákvæða siðareglna lögmanna og starfa innan þeirra marka sem þar eru sett, þar á meðal þeirra skyldna gagnvart gagnaðilum sem mælt er fyrir um í V. kafla siðareglnanna. Þarf háttsemi lögmanna gagnvart gagnaðilum því að samræmast ákvæðum siðareglnanna, þótt fyrir liggi að þeir komi fram fyrir hönd umbjóðenda í samskiptum eða annarri hagsmunagæslu gagnvart gagnaðila.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að skilyrði þau sem kærða setti fram fyrir hönd síns umbjóðanda gagnvart kæranda fyrir því að umgengni færi fram í desembermánuði 2019 hafi verið liður í því að ná fram hagsmunum umbjóðandans sem ágreiningur var um og var til úrlausnar hjá þar til bæru stjórnvaldi annars vegar, sbr. fyrrgreind meðlagsskuld, sem og til að endurheimta muni sem umbjóðandi kærðu hafði sjálf skilið eftir í vörslum kæranda í E. Samkvæmt því hafi skilyrðin ekki lotið að hagsmunum eða þörfum barnsins, í skilningi 1. og 2. mgr. 46. gr. laga nr. 76/2003, sem notið hafði reglulegrar umgengni við kæranda, í samræmi við fyrrgreindar meginreglur, fyrr á árinu. Að áliti nefndarinnar fólst í þeirri háttsemi kærðu ótilhlýðileg þvingun gagnvart kæranda í því skyni að ná fram hagsmunum umbjóðanda hennar sem óskyldir voru umgengnisrétti kæranda við barnið. Var sú háttsemi kærðu í andstöðu við 35. gr. siðareglna lögmanna en í samræmi við orðanna hljóðan er ekki í greininni að finna tæmandi talningu á því hvað teljist ótilhýðilegt í þessu samhengi.

Hér verður einnig að líta til þess að háttsemi kærðu gagnvart kæranda var viðhöfð í hagsmunagæslu í umgengnis- og meðlagsmáli þar sem ágreiningur hafði staðið á milli málsaðila um nokkurt skeið. Verður að mati nefndarinnar ekki litið fram hjá eðli slíkra mála, þar sem lögmenn þurfa jafnan að gæta hagsmuna vegna persónulegra og viðkvæmra málefna málsaðila og barna þeirra. Við þær aðstæður í nóvembermánuði 2019 bar kærðu að sýna kæranda tilhlýðilega tillitssemi og virðingu, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna. Varð misbrestur á því af hálfu kærðu, eins og áður er lýst.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða nefndarinnar að háttsemi kærðu hafi verið andstöðu við 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Með hliðsjón af því að hinni reglubundnu umgengni kæranda við barnið var komið á aftur strax í janúarmánuði 2020 sem og með hliðsjón af atvikum öllu að öðru leyti verður látið við það sitja að veita kærðu aðfinnslu fyrir háttsemina.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærðu, B lögmanns, að senda kæranda, A, tölvubréf 28. nóvember 2019 þar sem umgengni kæranda við barn hans og umbjóðanda kærðu í desembermánuði 2019 var skilyrt við að umþrætt meðlagsskuld yrði áður greidd og að eigur umbjóðanda kærðu yrðu fluttar til Íslands frá E á kostnað kæranda, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Dagmar Arnardóttir

Lilja Jónasdóttir

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson