Mál 13 2021

Mál 13/2021

Ár 2022, fimmtudaginn 13. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. júní 2021 erindi kæranda, A en í því er vísað til ágreinings við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 7. júlí 2021, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 6. ágúst 2021 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann 17. sama mánaðar. Hinn 3. september 2021 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 7. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum eftir þann tíma og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að endurgjaldi sem kærði áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda á tímabilinu frá 1. júlí 2018 til 25. maí 2021 vegna fasteignagallamáls.

Fyrir liggur að kærandi leitaði til kærða með beiðni um hagsmunagæslu í byrjun júlímánaðar 2018 vegna galla sem komið höfðu fram á fasteign sem hann hafði fest kaup á að C í Reykjanesbæ. Munu aðilar hafa átt með sér fund þann 3. þess mánaðar þar sem kærði skoðaði jafnframt eignina og verkbeiðni/umboð var undirritað af hálfu aðila. Var meðal annars tiltekið í umboðinu að kærandi færi þess á leit við lögmannsstofu kærða að hún tæki að sér að veita alla nauðsynlega lögfræðilega þjónustu við hagsmunagæslu vegna ætlaðra galla á fasteigninni en í umboðinu fólst meðal annars heimild til að reka mál út af göllunum, afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga, koma fram gagnvart gagnaðilum, semja um málalok og taka við greiðslum. Varðandi þóknun vegna starfa kærða í þágu kæranda var eftirfarandi tiltekið:

Þóknun: Undirrituð skuldbindur sig til að greiða lögmannsstofunni fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Gjaldskráin hefur verið kynnt mér. Ég hef jafnframt verið upplýst um áætlaðan heildarkostnað af verkinu, þ.e. þóknun og útlagðan kostnað. Verkið skuldbind ég mig til að greiða í verklok samkvæmt reikningi frá stofunni. Standi verkið lengur en í einn mánuð er stofunni heimilt að kalla eftir greiðslu upp í verkið og er mér skylt að greiða slíka áfangareikninga. Ofangreint á við löginnheimtu og aðra þjónustu stofunnar.

Af tímaskýrslu verður ráðið að kærði hafi í framhaldi þessa hafið vinnu við málið í þágu kæranda. Mun sú vinna meðal annars hafa falið í sér frekari skoðunarferðir til Keflavíkur, þar á meðal með iðnaðarmönnum, gagnaöflun og samskipti við kæranda og þriðju aðila vegna málsins. Þá liggur fyrir að kærði beindi bréfi fyrir hönd kæranda til seljenda fasteignarinnar þann 22. júlí 2018 vegna hinna ætluðu ágalla.

Sáttaumleitanir munu hafa reynst árangurslausar jafnframt því sem frekari gallar munu hafa komið fram á eigninni á síðari stigum. Fór því svo að kærði vann að matsbeiðni í þágu kæranda sem lögð var inn hjá héraðsdómi þann 25. október 2019. Var matsmaður dómkvaddur á dómþingi þann x. nóvember 20xx, matsfundir haldnir dagana 11. febrúar og 18. maí 2020 og matsgerð afhent þann 11. desember 2020. Í framhaldi af því mun kærði hafa átt í samskiptum við matsmann vegna ætlaðra ágalla á matinu.

Þann 26. mars 2021 sendi kærði innheimtubréf fyrir hönd kæranda til seljenda fasteignarinnar. Byggði innheimtubréfið á matsgerð hins dómkvadda matsmanns en þar var eftirfarandi kröfugerð að finna:

            „Kostnaður skv. matsgerð (m.vsk.)                kr. 4.633.900

            Vaskur af vinnulið (endurgr.)                        kr. -575.566

            Lögmannsþóknun                                           kr. 1.784.640

            Kostnaður við matsgerð                                 kr. 773.016

            Kostnaður við öflun matsgerðar                    kr. 19.000      

            Heildarkostnaður                                          kr. 6.634.990

Kærandi mun í fyrstu hafa hafnað sáttaboði gagnaðila um greiðslu að fjárhæð 6.000.000 króna til að ljúka málinu. Samkvæmt tímaskýrslu mun kærði þá hafa hafið vinnu við stefnugerð vegna málsins í maímánuði 2021. Í framhaldi af því munu gagnaðilar hafa greitt einhliða 6.000.000 króna inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærða sem þeir töldu fullnaðargreiðslu vegna málsins. Mun kærandi í framhaldi af því hafa ákveðið að höfða ekki mál til innheimtu á mismuninum gagnvart seljendum fasteignarinnar, sbr. tölvubréfasamskipti aðila 11. og 12. maí 2021. Þá mun kærði hafa millifært greiðslu fyrrgreindrar fjárhæðar inn á reikning kæranda í sama mánuði.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila mun kærði hafa gefið út 19 reikninga á hendur kæranda vegna lögmannsstarfa á tímabilinu frá júlí 2018 til apríl 2020 að heildarfjárhæð 2.325.894 krónur en samkomulag mun hafa orðið á milli aðila við upphaf réttarsambands þeirra um að reikningar yrðu gefnir út með reglubundnu millibili með hóflegri fjárhæð þannig að ekki myndi safnast upp há krafa vegna lögmannskostnaðar. Munu reikningarnir vera greiddir í öllum tilvikum af hálfu kæranda, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi greiðslur kæranda til kærða:

 1. Greiðsla 25. júlí 2018 115.878
 2. Greiðsla 2. október 2018 150.642
 3. Greiðsla 3. nóvember 2018 150.642
 4. Greiðsla 22. desember 2018 150.642
 5. Greiðsla 13. janúar 2019 135.798
 6. Greiðsla 8. febrúar 2019 115.878
 7. Greiðsla 7. mars 2019 115.878
 8. Greiðsla 6. apríl 2019 115.878
 9. Greiðsla 9. maí 2019 115.878
 10. Greiðsla 9. júní 2019 115.878
 11. Greiðsla 8. júlí 2019 115.878
 12. Greiðsla 9. ágúst 2019 115.878
 13. Greiðsla 8. september 2019 115.878
 14. Greiðsla 14. október 2019 115.878
 15. Greiðsla 8. nóvember 2019 115.878
 16. Greiðsla 6. desember 2019 115.878
 17. Greiðsla 9. febrúar 2020 115.878
 18. Greiðsla 9. mars 2020 115.878
 19. Greiðsla 5. apríl 2020 115.878

Samtals:                                      kr. 2.325.894

Í tölvubréfi maka kæranda til kærða, dags. 13. maí 2020, var gerð grein fyrir greiðslu fyrrgreindra reikninga. Var óskað eftir yfirliti yfir notaða tíma kærða og tiltekið að beðið yrði með næstu greiðslu þar til upplýsingar hefðu verið veittar af hálfu kærða. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að aðilar hafi átt í samskiptum eftir það tímamark án þess þó að tímaskýrsla kærða yrði send kæranda. Munu frekari reikningar jafnframt ekki hafa verið gerðir vegna starfa kærða í þágu kæranda þótt málinu hafi ekki lokið fyrr en um ári síðar, þ.e. í maímánuði 2021.

Í tölvubréfi maka kæranda til kærða við lok málsins, þ.e. þann 12. maí 2021, var gerð grein fyrir mismuni á lögmannsþóknun sem áskilin hefði verið í innheimtubréfi til seljenda og þeirri fjárhæð sem kærandi hafði innt af hendi til kærða sem þóknun vegna málsins. Með hliðsjón af þeim mismun var óskað eftir endurgreiðslu frá kærða að fjárhæð 541.254 krónur sem og tímaskýrslu vegna málsins. Var því lýst að áskilin þóknun kærða væri of há með hliðsjón af atvikum máls. Í áframhaldandi samskiptum aðila kom fram ítrekun um þetta efni frá kæranda, þar á meðal í tölvubréfi þann 5. júní 2021 án þess að efnisleg svör bærust frá kærða.

Á meðal málsgagna er að finna tímaskýrslu sem kærði hefur lagt fyrir nefndina vegna starfa í þágu kæranda á tímabilinu frá 1. júlí 2018 til 25. maí 2021. Ágreiningslaust er að tímaskýrslur voru ekki afhentar við útgáfu reikninga og ekki heldur þegar eftir þeim var leitað af hálfu kæranda, þ.e. fyrst í maí 2020 og síðan aftur um ári síðar. Samkvæmt tímaskýrslu varði kærði alls 123 klst. í vinnu í þágu kæranda á tímabilinu á tímagjaldinu 18.615 krónur auk virðisaukaskatts. Var þar einkum um að ræða vinnustundir vegna fyrrgreinds gallamáls en kærði mun einnig hafa varið um 7.25 klst. í annað aukaverk í þágu kæranda á tímabilinu frá júní – ágúst 2020 sem laut að ágreiningi um lóðamörk. Um umfang starfans hefur kærði lagt fyrir nefndina útprent af tölvubréfasamskiptum vegna gallamálsins.

Í samræmi við framangreint var áskilið endurgjald samkvæmt tímaskýrslu að fjárhæð 2.289.645 krónur auk virðisaukaskatts eða samtals 2.839.160 krónur með virðisaukaskatti. Kveðst kærði hins vegar ekki hafa innheimt endurgjald umfram það sem kærandi hafði þegar greitt vegna málsins í aprílmánuði 2020, þ.e. 2.325.894 krónur.

Svo sem fyrr greinir var erindi kæranda í máli þessu, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, beint til nefndarinnar þann 30. júní 2021.

II.

Að mati nefndarinnar verður að leggja þann skilning í málatilbúnað kæranda að þess sé krafist að áskilið endurgjald kærða sæti lækkun þannig að til endurgreiðslu komi, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Um grundvöll erindisins vísar kærandi til þess að kærði hafi ekki veitt upplýsingar um unna tíma að baki áskildu og greiddu endurgjaldi og að hann neiti að endurgreiða það sem ofgreitt hafi verið.

Nánar tiltekið vísar kærandi til þess að kærði hafi gætt hagsmuna hans í máli gegn fyrri eigendum og seljendum fasteignarinnar að             C í Reykjanesbæ en málið hafi varðað leynda galla á fasteigninni. Kærandi lýsir því að samkomulag hafi verið gert við kærða um að reikningar yrðu gerðir mánaðarlega þar til nauðsynlegri fjárhæð yrði náð, en kærði hafi í því samhengi nefnt um 1.000.000 króna. Kærandi kveðst hins vegar hafa greitt alls 19 reikninga að heildarfjárhæð 2.325.894 krónur. Þá hafi kærði í kröfugerð gagnvart gagnaðilum í þágu kæranda krafist lögmannsþóknunar að fjárhæð 1.784.640 krónur. Í endanlegu uppgjöri gagnvart gagnaðilum hafi sú fjárhæð þó lækkað í 1.149.650 krónur.

Kærandi kveðst hafa undirritað umboð til handa kærða þann 3. júlí 2018 vegna málsins. Lýsir kærandi því að samið hafi verið um fyrrgreinda fjárhæð í heildarþóknun, þ.e. um 1.000.000 króna, en að tímagjald kærða væri að fjárhæð 21.900 krónur auk virðisaukaskatts en 18.615 krónur auk virðisaukaskatts að teknu tilliti til 15% afsláttar.

Kærandi vísar til þess að eftir að hann hafi greitt 19 reikninga vegna starfa kærða, að heildarfjárhæð 2.325.894 krónur, hafi hann hafnað frekari greiðsluskyldu. Með hliðsjón af lokakröfugerð gagnvart gagnaðilum, sem tók til lögmannsþóknunar að fjárhæð 1.784.640 krónur, hafi kærandi í öllu falli ofgreitt 541.254 krónur. Byggir kærandi á að áskilið endurgjald kærða hafi verið of hátt, enda samið í málinu án aðkomu dómstóla.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi ekki verið mjög nákvæmur enda hafi sumir reikningar hans ranga dagsetningu. Jafnframt því hafi einnig verið gerð mistök í skjalagerð kærða, þar á meðal í matsbeiðni til héraðsdóms. Þá hafi kærði einnig neitað að ræða við matsmann um þær lágu fjárhæðir sem lagðar hafi verið til grundvallar í matsgerð.

Kærandi vísar ennfremur til þess að kærði hafi ekki upplýst nægjanlega vel um framgang málsins. Þannig hafi hann ekki upplýst kæranda um lokakröfugerð gagnvart gagnaðilum. Auk þess hafi kærði ekki framsent gagntilboð gagnaðila til kæranda heldur aðeins upplýst um það í símtali. Hafi hann ekki sent skriflega gagntilboðið fyrr en krafa hafi komið fram um það af hálfu kæranda en þá hafi kærði aðeins tekið afrit af því og sett inn í annað tölvubréf þannig að dagsetningar sáust ekki.

Kærandi kveðst hafa sent tölvubréf til kærða þann 13. maí 2020 þar sem útskýrt hafi verið að ekki kæmi til frekari greiðslu vegna lögmannsþóknunar. Þar hafi einnig verið óskað eftir tímaskýrslu. Kærði hafi hins vegar ekki svarað því tölvubréfi heldur aðeins hringt og upplýst munnlega um að til endurgreiðslu kæmi við lok málsins.

Kærandi lýsir því að hann hafi samþykkt gagntilboð gagnaðila þann 12. maí 2021 en í því hafi aðeins falist greiðsla lögmannsþóknunar að fjárhæð 1.149.650 krónur. Þann sama dag hafi verið óskað eftir upplýsingum frá kærða úr tímaskýrslu, þar sem umkrafin fjárhæð hafi verið mun hærri en samkomulag við gagnaðila kvað á um. Hafi sú beiðni verið ítrekuð þann 5. júní 2021 en engin svör borist frá kærða.

Í samræmi við framangreint krefst kærandi þess að áskilið og greitt endurgjald til kærða sæti lækkun þannig að til endurgreiðslu þess komi að hluta, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er ítrekað að krafa um lögmannsþóknun gagnvart gagnaðilum hafi verið að fjárhæð 1.784.640 krónur. Byggir kærandi á að þar hafi verið um fulla þóknun að ræða vegna starfa kærða. Skiljanlegt sé að fáir tímar kunni að hafa bæst við eftir þann tíma en fyrir lok málsins. Óskiljanlegt sé hins vegar að krafan sé nú 2.839.160 krónur, líkt og fram komi í málatilbúnaði kærða.

Eftir að hafa séð lokakröfugerð kveðst kærandi hafa sent erindi til kærða þar sem krafist hafi verið endurgreiðslu á mismun. Í sama tölvubréfi hafi verið óskað eftir tímaskýrslu. Aldrei hafi hins vegar fengist svör frá kærða.

Kærandi bendir á að af tímaskýrslu kærða verði ráðið að 6.5 klst. hafi verið varið í málið eftir lokakröfugerð gagnvart gagnaðilum. Veltir kærandi vöngum yfir því hverju það sæti að svo margir tímar hafi farið í málið eftir þann tíma, þar á meðal af hverju 4.75 klst. var varið í vinnu við málið.

Kærandi lýsir því að það sé rétt að hann hafi haft samband við kærða útaf ótengdu máli, þ.e. varðandi landamerki tveggja lóða. Kærandi vísar til þess að hann hafi þó ekki fengið nein svör eða upplýsingar frá kærða um skoðun hans á málinu. Öll erindi hafi verið send frá kæranda sjálfum vegna málsins, sem sé enn óleyst.

Kærandi gerir athugasemdir við lista af tölvubréfum sem kærði hafi lagt fram. Þannig séu ýmis tölvubréf tví- eða þrítalin. Sjáist hið sama þegar tímaskýrsla sé borin saman við skjalið. Sé ljóst af skjölunum að tímaskýrslan hafi verið útbúin sérstaklega á síðari tíma en taki ekki til raunstöðu eins og hún var á hverjum tíma. Þá varði flest samskipti kæranda við kærða í tölvubréfum reikninga sem kærði hafi sent.

Kærandi byggir á að upplýsingaflæði frá kærða hafi verið mjög lélegt. Þannig hafi kærandi á löngum tímum ekki fengið nokkrar upplýsingar um gang og stöðu málsins frá kærða. Aðeins eftir tölvubréf eða símtöl hafi kærandi fengið upplýsingar. Eigi það til að mynda við um lokakröfugerð kærða í þágu kæranda vegna málsins. Hafi hún þannig verið send frá kærða án samskipta eða annars samráðs við kæranda.

III.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Um málsatvik vísar kærði til þess að hann hafi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna gallamáls. Hafi kærði mætt á fund með kæranda þann 3. júlí 2018 þar sem gallar hafi verið skoðaðir og gengið hafi verið frá verkbeiðni/umboði vegna málsins. Kveðst kærði hafa upplýst kæranda um að slík mál væru tímafrek í þeim tilvikum þegar gagnaðili væri ekki fús til að finna sættir. Jafnframt því hafi kærandi verið upplýstur um að slíkt ferli væri kostnaðarsamt og að matsgerðin ein og sér gæti kostað um 1.000.000 króna þar sem um fjölmarga ágalla og matsliða væri að ræða.

Kærði vísar til þess að hann hafi upplýst kæranda um að fjölmargir þeirra ágalla sem málið varðaði gætu ekki talist leyndir gallar þar sem þeir hafi sést við skoðun. Aðra yrði einnig erfitt að heimfæra á seljendur eignarinnar eins og mygla undir flísum enda hefðu seljendur ekki búið í eigninni. Af þeim sökum hafi kærði upplýst að vænlegast væri að taka fyrir þá ágalla sem hægt væri að heimfæra undir leynda galla, þ.e. galla sem seljendur hefðu leynt fyrir kæranda, því annað myndi aðeins leiða til kostnaðar.

Kærði lýsir því að sem greiði við sameiginlegan vin hans og kæranda hafi kæranda verið boðið lægra tímagjald en kærði taki venjulega í málum sem þessum, en það hafi á þeim tíma verið að fjárhæð 23.900 krónur auk virðisaukaskatts. Hafi tímagjald því verið mjög hóflegt auk þess sem tímar hafi verið taldir mjög hóflega og færðir í tímaskýrslu. Samkomulag hafi orðið með aðilum um að reikningar yrðu sendir reglulega með hóflegri upphæð svo engar stórar upphæðir myndu leggjast á kæranda í einu lagi. Vísar kærði til þess að kærandi hafi verið ánægður með það fyrirkomulag.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi áður leitað til nánar tilgreinds aðila um skoðun fasteignarinnar en skýrslu hafi ekki verið skilað um skoðunina. Hafi kærði reynt að fá skýrslu frá viðkomandi sem hafi hins vegar viljað fá meira greitt. Hafi verið reynt að komast að samkomulagi við seljendur um þann þátt sem tekist hafi á endanum. Viðkomandi skoðunarmaður hafi þá hins vegar hætt að svara símtölum. Í framhaldi af því hafi sáttatilraunir með gagnaðilum kæranda reynst árangurslausar.

Kærði vísar til þess að hann hafi farið fjölmargar ferðir til Keflavíkur vegna málsins. Þar á meðal hafi verið um þrjár skoðanir af hans hálfu að ræða, þar af ein áður en matsgerð hafi verið gerð vegna frekari skemmda sem komið hafi fram. Jafnframt því hafi verið ein ferð með iðnaðarmeistara til ráðgjafar fyrir lögmann svo unnt væri að meta umfang gallanna. Auk þess hafi verið mætt á einn sáttafund með seljendum og sérfróðum aðila á þeirra vegum og tvo matsfundi með matsmanni. Kærði kveðst einnig hafa gert ítarlegt bréf sem hann hafi sent seljendum með yfirliti yfir og umfjöllun um galla fasteignarinnar. Þá hafi fjölmörg símtöl og tölvubréfasamskipti farið fram á milli kærða og lögmanns gagnaðila, fyrst til tilrauna til sátta og svo í framhaldi af matsmálinu og innheimtu á tjóni vegna galla.

Kærði bendir á að sömu sögu megi segja um samskipti við matsmann og umbjóðanda, líkt og tímaskýrsla beri með sér sem og yfirlit fyir tölvubréfasamskipti. Kærði kveðst ekki hafa innheimt aksturskostnað vegna fyrrgreindra ferða líkt og vanalegt sé heldur einungis tekið tímagjald frá upphafi aksturs frá lögmannsstofu og þar til komið var aftur. Fjölmörg símtöl hafi verið á milli kæranda og kærða sem ekki hafi verið færð á tímaskýrslu. Hafi kærði þannig einungis fært í tímaskýrslu þau símtöl sem verið hafi það efnismikil að ekki væri annað hægt en að færa þau inn.

Vísað er til þess að kærandi hafi beðið kærða um að vinna aukaverk sem ekki hafi tengst gallamálinu. Hafi þar verið um að ræða mál við nágranna kæranda og Reykjanesbæ varðandi lóðamörk viðkomandi fasteignar. Kveðst kærði hafa þurft að hafa talsverða yfirferð vegna fjölmargra gagna sem komið hafi frá kæranda. Jafnframt því hafi kærði þurfti að eiga í samskiptum við Reykjanesbæ og gera sér ferð þangað til að skoða skilin á milli viðkomandi húsa og ræða við bæjaryfirvöld um teikningar.

Kærði lýsir því að eftir að matsgerð hafi legið fyrir hafi kærandi verið óánægður með fjárhæðir matsliða. Hafi kærði gert tilraun til að fá matsmanninn til að yfirfara fjárhæðir sínar og skoða gögn frá kæranda. Hafi matsmaður tekið málið til skoðunar en ekki viljað breyta matsgerðinni. Vísar kærði til þess að umtalsverður tími hafi farið í þessar þrætur við kæranda og matsmanninn. Einnig hafi verið töluverð samskipti fram og til baka við lögmann matsþola, þar sem krafist hafi verið greiðslu á grundvelli matsins og áfallins lögmannskostnaðar sem kærði hafi talið að heimfæra mætti beint vegna vinnu við málið þótt mun fleiri tímar lægju að baki samkvæmt tímaskýrslu.

Kærði bendir á að samkvæmt tímaskýrslu séu unnir tímar í gallamálinu og aukaverki samtals 123 klst. sem geri 2.839.160 krónur. Sé þar um mun hærri fjárhæð að ræða en kærandi hafi greitt en kærði hafi að góðmennsku sinni ekki innheimt mismuninn.

Kærði kveðst hafa boðið kæranda að innheimta áfallinn kostnað á þeim mismun sem matsþolar hafi greitt í samningsboði sínu sem greitt hafi verið til kæranda án þess að samþykkt væri að um fullnaðargreiðslu væri að ræða og lögmanni matsþola tjáð að innheimt yrði það sem upp á vantaði. Hafi kærandi tjáð kærða að hann vildi fá alla fjárhæðina og því hafi kærði farið í þá vinnu að gera stefnu í málinu svo hægt væri að ná inn þeim kostnað. Fáeinum dögum síðar hafi kæranda hins vegar snúist hugur og þá talið að kærði væri að innheimta of mikið og að endurgreiða ætti mismuninn miðað við tilgreiningu lögmannskostnaðar í sáttatillögu. Hafi kærði ekki fallist á það enda umbeðið aukaverk ekki inni í sáttatillögu jafnframt því sem vinnan hafi verið innt af hendi af kostgæfni í þágu kæranda og á hóflegum kostakjörum.

Kærði byggir á að hann hafi tekið að sér lögmannsstörf í þágu kæranda vegna þeirra mála sem leitað hafi verið til hans með. Verði að telja ágreiningslaust að samningssamband hafi komist á milli aðila um þau störf í þágu kæranda en slíkt hið sama verði ráðið af fyrirliggjandi verkbeiðni, dags. 3. júlí 2018, og að kærandi greiddi útgefna reikninga samkvæmt samkomulagi.

Kærði byggir á að reikningar séu að öllu leyti í samræmi við fyrirliggjandi tímaskýrslur í málinu. Í tímaskýrslu greini þannig að kærði hafi varið alls 123 klst. í málinu á tímabilinu frá 3. júlí 2018 til og með 25. maí 2021 og að tímagjald vegna verksins hafi verið að fjárhæð 18.615 krónur með afslætti, auk virðisaukaskatts. Þá liggi fyrir að gert hafi verið samkomulag um greiðsludreifingu kostnaðar. Engu hafi hins vegar verið lofað um að lögmannskostnaður færi ekki yfir eina milljón. Telur kærði að leiða megi líkur að því að um misskilning kæranda sé að ræða, sem grundvallist á því mati sem hann hafi fengið varðandi áætlaðan kostnað vegna matsgerðar.

Kærði vísar til þess að umrætt tímagjald sé afar hóflegt. Jafnframt því sé tímafjöldinn í samræmi við umfang málsins og þess sem vænta hafi mátt miðað við þá athugun, skoðun og mat á réttarstöðu sem leggja verði til grundvallar að kærða hafi verið falið að sinna. Verði í því samhengi að líta til þess að við rækslu starfans hafi kærða verið nauðsynlegt að kynna sér ástand viðkomandi fasteignar, útbúa drög að stefnu og fá dómkvaddan matsmann til að gera matsgerð. Auk þess hafi málsaðilar átt í miklum samskiptum vegna málsins, bæði í gegnum síma og tölvubréf. Jafnframt því hafi kærði þurft að ferðast alloft til Keflavíkur vegna málsins. Þá hafi kærði leitað til fjölda fagmanna til ráðgjafar um hina víðtæku galla er málið hafi varðað.

Á því er byggt að kærandi hafi í engu sýnt fram á að kærði hafi innt af hendi óumbeðna eða ónauðsynlega vinnu í málinu. Einnig hafi kærði unnið aukaverk fyrir kæranda vegna deilna um lóðamörk sem kærandi vísi í engu til. Samkvæmt öllu framangreindu byggir kærði á að óumflýjanleg niðurstaða málsins sé að áskilin þóknun hans feli í sér hæfilegt endurgjald.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Ágreiningslaust er að kærandi leitaði til kærða í júlímánuði 2018 vegna ætlaðra galla á fasteign sem hann hafði fest kaup á. Fyrir liggur að kærði tók að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins. Fólst meðal annars í þeirri hagsmunagæslu sáttaumleitanir á frumstigum máls, gagnaöflun, samskipti við kæranda, gagnaðila, lögmann þeirra og aðra þriðju aðila, bréfaskrif, gerð matsbeiðni, rekstur matsmáls og kröfugerð í kjölfar matsgerðar. Stóð hagsmunagæslan yfir allt til maímánaðar 2021 þegar málinu var lokið í sátt með greiðslu gagnaðila til kæranda að fjárhæð 6.000.000 króna. Samkvæmt kröfubréfi kærða í þágu kæranda í kjölfar matsgerðar hafði krafan verið að heildarfjárhæð 6.634.990 krónur en þar af voru 1.784.640 krónur vegna lögmannsþóknunar.

Fyrir liggur að í því umboði sem kærandi veitti kærða við upphaf lögskipta aðila var lagt til grundvallar að kærandi væri skuldbundinn til að greiða til lögmansstofu kærða fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá á grundvelli tímaskráningar. Var þar einnig tiltekið að upplýst hefði verið um áætlaðan heildarkostnað af verkinu. Þá er ágreiningslaust á milli aðila að umsamið tímagjald kærða vegna starfa hans í þágu kæranda var með afslætti að fjárhæð 18.615 krónur auk virðisaukaskatts.

Fyrir liggur að kærði gaf út alls 19 reikninga á hendur kæranda vegna lögmannsstarfa á tímabilinu frá júlí 2018 til apríl 2020 að heildarfjárhæð 2.325.894 krónur. Er gerð grein fyrir tilgreindum reikningum í málsatvikalýsingu að framan. Líkt og þar greinir einnig er ágreiningslaust að kærandi greiddi alla hina útgefnu reikninga en samkomulag mun hafa orðið á milli aðila við upphaf réttarsambands þeirra um að reikningar yrðu gefnir út með reglubundnu millibili með hóflegri fjárhæð þannig að ekki myndi safnast upp há krafa vegna lögmannskostnaðar.

Ágreiningslaust er að tímaskýrslur vegna starfa kærðu í þágu kæranda voru ekki afhentar við útgáfu einstakra reikninga. Í kjölfar greiðslu hins síðasta reiknings í aprílmánuði 2020, þ.e. nánar tiltekið í tölvubréfi þann 13. maí 2020, óskaði kærandi eftir yfirliti yfir notaða tíma kærða og tiltók að beðið yrði með næstu greiðslu þar til þær upplýsingar lægju fyrir. Var tímaskýrsla ekki afhent í framhaldi af því af hálfu kærða. Þá liggur fyrir að eftir það tímamark voru ekki gerðir frekari reikningar vegna starfa kærða í þágu kæranda, þ.e. þótt málinu hefði ekki lokið fyrr en um ári síðar. Ítrekaði kærandi jafnframt kröfu um upplýsingar úr tímaskýrslum kærða við lok réttarsambands aðila, án þess þó að kærði yrði við þeirri beiðni. Var sú háttsemi kærða í andstöðu við 15. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu varði kærði alls 123 klst. í vinnu í þágu kæranda á tímabilinu frá 1. júlí 2018 til 25. maí 2021. Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var þar einkum um að ræða vinnustundir vegna fyrrgreinds gallamáls en kærði mun einnig hafa varið um 7.25 klst. í annað verk í þágu kæranda sem laut að ágreiningi um lóðamörk.

Af tímaskýrslu verður ráðið að kærði hafi varið tugum klukkustunda á fyrrgreindu tímabili í skoðun gagna og samskipti við kæranda, lögmann gagnaðila og aðra þriðju aðila vegna málsins. Verður jafnframt ráðið af tímaskýrslu að kærði hafi varið alls 21.25 klst. í skoðun eignarinnar og ferðir því tengdu sem fram fóru fjórum sinnum áður en vinna við matsbeiðni hófst, sbr. tvær færslur í júlímánuði 2018 í tímaskýrslu sem og færslur dagana 2. október sama ár og 1. október 2019. Einnig greinir í tímaskýrslu að kærði hafi varið alls 6.5 klst. í ritun fjögurra blaðsíðna bréfs til gagnaðila þann 18. júlí 2019 og 2.75 klst. í að fara með bréfið á pósthús auk þess að senda tölvubréf þann 24. sama mánaðar. Jafnframt varði kærði alls 14.75 klst. í gerð matsbeiðni á tímabilinu 10. – 15. október 2019 og 2.25 klst. í ferð í Héraðsdóm Reykjaness til framlagningar á matsbeiðni þann 25. sama mánaðar. Vegna dómþings þann x. nóvember 20xx, þar sem matsmaður var dómkvaddur, voru færðar 3.25 klst. í tímaskýrslu kærða og alls 11.5 klst. vegna tveggja matsfunda sem fram fóru 11. febrúar og 18. maí 2020. Þá varði kærði 3.25 klst. í yfirferð matsgerðar og samskipti henni tengdri þann 11. desember 2020 og 2.25 klst. í ritun innheimtubréfs þann 26. mars 2021. Er hér ekki um tæmandi talningu verkþátta og færslna í tímaskýrslu að ræða.

Hvorki matsbeiðni né matsgerð hins dómkvadda matsmanns hafa verið lögð fyrir nefndina. Á hinn bóginn verður ráðið af fyrrgreindu innheimtubréfi kærða í þágu kæranda, dags. 26. mars 2021, að áætlaður kostnaður vegna endurbóta samkvæmt matsgerð hafi numið 4.633.900 krónur með virðisaukaskatti. Með hliðsjón af þeirri fjárhæð verður vart séð að mati nefndarinnar að umfang hinna ætluðu galla hafi verið svo verulegt að leitt hafi til aukins vinnuframlags kærða umfram það sem almennt megi leggja til grundvallar í viðlíka málum.

Að teknu tilliti til þeirra verkþátta sem kærði sannanlega innti af hendi í þágu kæranda frá júlímánuði 2018 til maímánaðar 2021 og umfangs viðkomandi máls að öðru leyti verður að mati nefndarinnar að telja að fjöldi þeirra vinnustunda sem kærði lagði til grundvallar endurgjaldi sínu og færði til bókar í tímaskýrslu hafi verið úr hófi og þar með í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Getur engu breytt í því efni þótt tiltekið hafi verið í verkbeiðni/umboði, dags. 3. júlí 2018, sem kærandi undirritaði að upplýst hefði verið um áætlaðan heildarkostnað af verkinu. Er þá til þess að líta að ekki er gerð grein fyrir tilgreindu heildarendurgjaldi í umboðinu sjálfu auk þess sem tölvubréf maka kæranda til kærða, dags. 13. maí 2020, bendir til þess að lögmannskostnaðurinn hafi þá verið orðinn verulega umfram það sem kærandi hafði vænst. Virðist kærði hafa tekið undir þau sjónarmið að nokkru enda gerði hann ekki frekari reikninga á hendur kæranda eftir þann tíma þótt málinu hefði ekki lokið fyrr en um ári síðar.

Á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar um að tímafjöldi að baki endurgjaldi kærða hafi verið úr hófi verður ekki talið að skilyrði séu til að líta til útgefinna reikninga eða tímaskýrslu varðandi mat á hæfilegu endurgjaldi vegna þeirra verkþátta sem kærði innti af hendi í þágu kæranda á meðan réttarsamband aðila varði. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að meta hæfilegt endurgjald í málinu að álitum að teknu tilliti til þeirra verkþátta sem lögmannsstörfin tóku til og umfangs málsins að öðru leyti. Verður þá einnig að líta til þess sem áður greinir um að kærði skirrtist við að afhenda kæranda tímaskýrslur þegar eftir þeim var leitað í réttarsambandi aðila, þ.e. fyrst í maí 2020 og svo aftur við lok réttarsambands aðila í maí 2021.

Að mati nefndarinnar var það tímagjald sem kærði áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda samkvæmt samkomulagi aðila, að fjárhæð 18.615 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Með hliðsjón af umfangi þeirra mála sem kærði sinnti sannanlega í þágu kæranda, málsgögnum og atvikum öllum að öðru leyti, þar á meðal skorti á að veita upplýsingar úr tímaskýrslu þegar eftir þeim var leitað, er það mat nefndarinnar að hæfilegt sé að leggja til grundvallar að fjöldi vinnustunda kærða í þágu kæranda vegna allra verka á tímabilinu frá 1. júlí 2018 til 25. maí 2021 hafi verið 80 talsins. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir störf kærða í þágu kæranda, í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998, hafi verið 1.489.200 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 1.846.608 krónur með virðisaukaskatti.

Þeir reikningar sem kærði gaf út á hendur kæranda frá júlí 2018 til apríl 2020 voru að fjárhæð 2.325.894 með virðisaukaskatti. Voru þeir reikningar greiddir af hálfu kæranda, svo sem fyrr greinir. Felur fyrrgreind niðurstaða nefndarinnar um mat á hæfilegu endurgjaldi í málinu í sér að áskilið endurgjald kærða samkvæmt útgefnum reikningum sætir lækkun um 479.826 krónur. Felur niðurstaðan jafnframt í sér að kærða verður gert að endurgreiða kæranda hina ofgreiddu fjárhæð, þ.e. 479.826 krónur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 1.846.608 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Kærði, B lögmaður, endurgreiði kæranda, A, 479.286 krónur.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson