Mál 15 2021

Mál 15/2021

Ár 2021, þriðjudaginn 21. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2021:

A og B ehf.,

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. ágúst 2021 erindi kærenda, A og B ehf., þar sem kvartað er yfir því að kærði, C lögmaður, hafi brotið 27. gr. laga nr. 77/1998 í störfum sínum.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 13. september 2021 og barst hún 23. sama mánaðar. Var kærendum send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 27. september 2021. Hinn 5. október 2021 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar kærða þann 7. sama mánaðar. Loks bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir kærða vegna málsins þann 25. október 2021 en þær voru kynntar kærendum með bréfi dags. 2. nóvember sama ár þar sem jafnframt var tiltekið að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Kærendur krefjast þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta ströngustu agaviðurlögum sem lög kveða á um, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærendur vísa til þess að kvörtun í málinu á hendur kærða varði meint brot hans á siðareglum lögmanna og 27. gr. laga nr. 77/1998.

Því er lýst í kvörtun að hún taki annars vegar til vitnaskýrslu kærða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-xxx/20xx þann x. mars 20xx. Er á því byggt að þar hafi kærði, sem fyrrum skiptastjóri þrotabús D ehf., farið vísvitandi með rangt mál um verðmat tilgreindra fasteigna samkvæmt skjali sem hann hafi undirritað.

Hins vegar kvarta kærendur yfir því í málinu að kærði hafi í vitnaskýrslunni hvorki upplýst né gert grein fyrir tengslum sínum við lögmann stefnanda málsins, þ.e. E hf., sem og við F, G og H þar sem hann hafi verið starfsmaður frá júní 2007.

Kærendur byggja á að sem vitni hafi svör kærða og framferði hans brotið gegn lögum og siðareglum lögmanna. Hafi kærði brotið mjög gróflega gegn kærendum með framburði sínum fyrir dómi. Hafi kærði gefið skýrslu vegna starfa hans sem skiptastjóri þrotabús D ehf. en tilgreint félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann x. maí 20xx en skiptum lokið x. desember 20xx. Hafi framkoma kærða og svör verið kærendum mikið áfall.

Kærendur benda á að kærði hafi viðurkennt fyrir dómi að bréfaskriftir hans til kæranda A hafi verið réttar. Þar hafi komið fram staðfesting kærða á rangri úthlutunargerð og að eign hafi vantað inn í uppgjör. Jafnframt því hafi kærði framselt skiptavald til E hf. um frágang og sölu eigna þrotabúsins. Hafi kærði þannig einungis skrifað undir skjöl fyrir E hf. í þágu þrotabúsins og ekkert komið að verðmyndun, verðmati eða nálægt sölu viðkomandi eigna. Þá hafi kærði ekki tekið við greiðslum eða greitt nokkrum fjármuni, svo sem sölulaun.

Í svörum kærða fyrir dómi hafi hins vegar komið fram að kærði hefði lagt sjálfstætt mat á eignirnar undir skiptunum, þ.e. fyrir 12 árum. Byggja kærendur á að þarna sé að finna ósamræmi í frásögn kærða. Að kærði standi ekki við skrifleg svör sín til kærenda og snúi við blaðinu standist ekki og feli í sér brot á lögum og siðareglum lögmanna.

Kærendur byggja á að siðferði kærða sé svo alvarlegt að hann eigi ekki að fá að stunda lögmennsku. Hafi kærði með athöfnum sínum valdið verulegu tjóni.

Kærendur byggja einnig á að kærða hafi borið að upplýsa um tengsl sín við E hf. sem og F, G og H við skýrslugjöf fyrir dómi. Það að kærði hafi ekki gert það feli í sér alvarleg siðbrot enda hafi hann verið undir hæl vinnuveitanda síns við störf sem skiptastjóri í viðkomandi þrotabúi. Hafi sami vinnuveitandi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu E hf. í málarekstri gegn kæranda B ehf. Sé það galið að kærði hafi ekki upplýst um tengsl og hagsmunaárekstra í málinu.

II.

Skilja verður málatilbúnað kærða með þeim hætti að hann krefjist þess að kröfum kærenda verði hafnað.

Kærði vísar til þess að kvörtun í málinu sé uppfull af rangfærslum og ósannindum.

Um það kvörtunarefni að kærði hafi farið vísvitandi með rangt mál í vitnisburði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-xxx/20xx vísar hann til þess að það standist enga skoðun og að ekki sé þar farið rétt með í kvörtun um vitnisburð kærða eða annað sem það varðar. Hafi kærði þannig gefið skýrslu í málinu eftir sínu besta minni og svarað spurningum af heiðarleika og án þess að vera neinum háður

Varðandi kvörtunarefni að öðru leyti vísar kærði til þess að fyrir hafi legið hvar hann starfaði og að það hafi bæði lögmaður kærenda sem og kærandi A sjálfur þekkt enda hafi hann komið nokkrum sinnum við á skrifstofu kærða á umliðnum árum. Jafnframt því hafi það verið lögmaður kærenda sem óskað hafi eftir skýrslugjöf kærða fyrir dómi í viðkomandi máli. Samkvæmt því hafi sú krafa ekki komið frá lögmanni E hf. í málinu. Þá hafi bankinn ekki verið viðskiptavinur hjá F eða H á þeim tíma sem kærði hafi gegnt stöðu skiptastjóra í þrotabúi D ehf.

Kærði byggir á að kvörtunin sé tilefnislaus með öllu og að hún dæmi sig sjálf. Þá sé allt það sem komi fram í málatilbúnaði kærenda afskræmt og eigi sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum.

Niðurstaða

I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt málatilbúnaði kærenda er málið lagt fyrir nefndina á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 sem áður er lýst en þar er jafnframt tiltekið í 2. málsl. að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Kvörtun kærenda tekur til atvika er varða skýrslugjöf kærða sem vitnis við aðalmeðferð málsins nr. E-xxx/20xx fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. mars 20xx, E hf. gegn B ehf. Samkvæmt dómi héraðsdóms í málinu, sem kveðinn var upp þann x. apríl 20xx, laut skýrslugjöf kærða að aðkomu hans og störfum sem skiptastjóri þrotabús D ehf. en skiptum tilgreinds félags mun hafa lokið þann x. desember 20xx. Með hliðsjón af þeim langa tíma sem liðið hefur frá því að skiptalok urðu koma sjónarmið og málatilbúnaður sem kærendur hafa uppi um störf kærða sem skiptastjóra í fyrrgreindu þrotabúi ekki til skoðunar og úrlausnar í máli þessu, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Fyrir liggur að kærði gaf skýrslu sem vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-xxx/20xx á grundvelli VIII. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 hvílir á vitnum sú skylda að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan. Ber dómara jafnframt að leiða athygli vitnis að þeirri refsiábyrgð sem er samfara vísvitandi eða gáleysislega röngum framburði, sbr. til hliðsjónar XV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt 59. gr. laga nr. 91/1991 er það dómara að meta sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Ekki verður annað ráðið af vefsíðu Landsréttar en að dómi héraðsdóms í málinu nr. E-xxx/20xx hafi verið áfrýjað til réttarins þar sem það er nú til meðferðar, sbr. landsréttarmálið nr. xxx/xxx. Samkvæmt XXV. kafla laga nr. 91/1991 er það Landsréttar að endurmeta sönnunargildi þeirra aðila- og vitnaskýrslna sem mál þetta fyrir nefndinni hverfist um en ekki nefndarinnar.

Með hliðsjón af því sem og að teknu tilliti til þess að kvörtunarefni kærenda lúta í eðli sínu að ætlaðri háttsemi kærða sem vitnis í skilningi laga nr. 91/1991 en ekki að störfum hans sem lögmanns, er það mat nefndarinnar að réttarágreiningur í málinu heyri ekki undir valdsvið hennar eins og það er afmarkað í fyrrgreindum heimildum. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa máli þessu frá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson