Mál 3 2021

Mál 3/2021

Ár 2021, miðvikudaginn 16. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. mars 2021 erindi A, en af því verður helst ráðið að það taki til kvörtunar í garð kærða B lögmanns, vegna ætlaðra brota gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 18. mars 2021 og barst hún þann 21. apríl sama ár. Kæranda var send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi dags. 26. apríl 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 26. maí 2021 og voru þær sendar til kærða þann 27. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsins og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að C, sem mun vera móðir kæranda, hafi þann 23. mars 2020 undirritað yfirlýsingu um tilnefningu umboðsmanns og bann við ráðstöfun og veðsetningu fasteignar hennar að D í Reykjavík. Var meðal annars tiltekið í yfirlýsingunni, sem var móttekin til þinglýsingar þann 1. apríl 2020, að þess væri farið á leit að dóttir hennar, E, yrði skipuð fjárhaldsmaður hennar. Þá var því lýst að allar aðrar prókúrur eða umboð væru ógild.

Upplýst hefur verið undir rekstri málsins fyrir nefndinni að kærandi hafi áður annast slík fjármál C á Íslandi sem tilgreind yfirlýsing, dags. 23. mars 2020, tók til.

Fyrir liggur að í framhaldi þessa leitaði fyrrgreind E til kærða með beiðni um hagsmunagæslu vegna málefna C á Íslandi. Með bréflegu erindi kærða til kæranda, dags. 29. apríl 2020, var upplýst um efni fyrrgreindrar yfirlýsingar og áréttað að kærandi hefði ekki lengur umboð til að selja viðkomandi fasteign fyrir hönd C. Jafnframt því var meðal annars tiltekið að kærandi ætti að hætta afskiptum af fjármálum og eignum móðurinnar. Kærandi sendi kærða tölvubréf þennan sama dag og kvað móður sína ekki vilja falla frá sölunni og framvísaði jafnframt fjórum umboðum, dags. 15. og 30. mars 2020, þar að lútandi.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréfasamskipti sem aðilar áttu með sér á tímabilinu frá 30. apríl til 4. maí 2020 en ekki þykir ástæða til að reifa þau vegna sakarefnis málsins umfram það sem um þau greinir í umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni.

Á meðal málsgagna er jafnframt að finna allsherjarumboð sem C veitti dóttur sinni E þann 21. maí 2020. Tók umboðið til þess að koma fram í öllum málum er varðaði eignir C og réttindi á Íslandi. Var sérstaklega tiltekið að umboðið næði til þess að sinna málum vegna fasteignarinnar að D í Reykjavík, svo sem vegna sölu hennar, og til að ráða lögmann, ef þörf krefði. Var kærandi upplýstur um tilgreint allsherjarumboð með tölvubréfi kærða, dags. 15. júní 2020, en þar var jafnframt óskað eftir að kærandi hefði engin afskipti af viðkomandi fasteign og hætti öllum samskiptum við leigutaka hennar.

Jafnframt er á meðal málsgagna að finna umboð, dags. 6. ágúst 2020, sem C veitti kæranda til að undirrita söluumboð, kauptilboð, kaupsamning, afsal, veðleyfi og önnur nauðsynleg skjöl vegna sölu viðkomandi fasteignar. Benda málsgögn til þess að skjalið hafi verið móttekið til þinglýsingar þann 18. ágúst 2020 en að það hafi óskast afturkallað þann 10. september sama ár. Þá liggur jafnframt fyrir að C afturkallaði umboðið til kæranda með áritun sinni á skjal þar að lútandi þann 2. október 2020.

Upplýst hefur verið að afturköllun umboðsins hafi komið fram áður en kærandi samþykkti kauptilboð í fasteignina. Lýsti viðkomandi fasteignasali því í tölvubréfi til kærða, dags. 5. október 2020, að hann hefði móttekið afturköllun umboðsins og að hann hefði enga ástæðu til að véfengja hana. Samkvæmt því væri litið svo á að umboð kæranda til að selja fasteignina væri fallið niður og að framkomið kauptilboð væri ógilt. Kaupandi hefði hins vegar enn áhuga á fasteigninni, væri áhugi á að halda áfram með söluna.

Fyrir liggur að kærði og kærandi áttu í tölvubréfasamskiptum vegna sölutilrauna fasteignarinnar og umboða dagana 5. og 6. október 2020. Fyrir liggur jafnframt að aðilar áttu með sér fund þann 1. desember 2020 og í tölvubréfasamskiptum í kjölfar hans vegna viðkomandi mála.

Þann 16. desember 2020 sendi kærði tölvubréf til kæranda. Var þar meðal annars vísað til þess að systur kæranda hefðu ekki reynst alveg sammála um næstu skref í málinu. Var jafnframt tiltekið að fasteignin yrði ekki seld á næstunni og að E, sem hefði allsherjarumboð, myndi ekki ráðstafa eigninni nema í fullu samráði við C. Þá tiltók kærði að ekki hefði verið óskað eftir frekara vinnuframlagi frá honum sem lögmanni og að af þeim sökum myndi kærði ekki hafa frekari afskipti af málinu nema þess yrði óskað. Mælti kærði með því að kærandi fengi allar upplýsingar beint frá E enda hefði hún allsherjarumboð og væri fús til viðræðna við kæranda.

Líkt og áður greinir var kvörtun í máli þessu móttekin þann 12. mars 2021.

II.

Í kvörtun er þess í fyrsta lagi krafist að kærði geri hreint fyrir sínum dyrum, sýni annað hvort undirritaðan samning við móður kæranda, C, þar sem skýrt komi fram að hann sé lögmaður hennar og vinni að hagsmunum hennar eftir hennar vilja ellegar dragi til baka yfirlýsingar þess efnis að hann sé lögmaður hennar með skýrum hætti. Í öðru lagi krefst kærandi þess að kærði komi skýrt fram og lýsi því yfir að hann sé annað hvort hættur að koma fram sem lögmaður systur kæranda, E, ellegar sé enn lögmaður hennar, svo kærandi, sem gagnaðili, geti leitað til kærða eða bent lögmönnum á að leita til kærða vegna hinna ýmsu erinda. Í þriðja lagi verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í kvörtun kæranda að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun er vísað til þess að henni sé beint að endurteknum lygum kærða sem og óheiðarlegri og villandi framkomu hans. Um rökstuðning fyrir því vísar kærandi til þess að kærði hafi ítrekað siglt undir fölsku flaggi og ýmist sagst vera lögmaður móður kæranda, án þess að samningur sé fyrir hendi um það, ellegar að hann annað hvort starfi ekki lengur fyrir systur kæranda, E, eða að hann starfi enn að fullu fyrir hana, sbr. símtal kærða og F fasteignasala. Um tilgreint símtal vísar kærandi til þess að kærði hafi þá sagst enn vera í vinnu sem lögmaður systur kæranda, þrátt fyrir að kærði hafi lýst hinu gagnstæða í tölvubréfi til kæranda þann 16. desember 2020.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi tjáð að samningur sem hann hefði gert við systur kæranda væri í raun ígildi samnings við móður kæranda, þar sem systirin hefði umboð meðal annars til að selja fasteign móðurinnar. Kveðst kærandi hafa rætt við fræðimenn í lögum og ýmsa lögmenn sem telji að slíkt standist ekki lög.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að tilefni kvörtunarinnar sé í stuttu mál það að kærði hafi sagt vera laus undan lögmannsþjónustu við systur kæranda og að þær væru ósammála um næstu skref varðandi mögulega sölu fasteignar móður þeirra. Lýsir kærandi því að þau ummæli kærða hafi verið grunsamleg, þar sem kærði hafi áður tjáð sig um hugmyndir varðandi lausn deilunnar, þar á meðal um sölu fasteignarinnar. Jafnframt því hafi ummæli kærða stangast á við það sem hann hafi tjáð fyrrgreindum fasteignasala skömmu síðar, þ.e. að kærði væri enn lögmaður E og að ekkert hefði breyst í þeim efnum nema að systurnar vildu ekki selja fasteignina. Hafi það einnig gengið gegn vilja móður kæranda.

Kærandi kveðst einnig hafna því að verksamningur kærða við systur kæranda hafi verið ígildi samnings við móður kæranda. Vísar kærandi til þess að sú skýring stangist á við vilja móður hans sem og lög og reglur. Geti kærði þannig ekki undir nokkrum kringumstæðum litið á sig sem lögmann móður kæranda, þó að hann sé lögmaður systur kæranda sem fari með umboð um fjárhaldsmál móðurinnar.

Kærandi lýsir því að hann hafi ekki enn fengið óyggjandi svar frá kærða um það hvort hann sé enn lögmaður systur hans. Vísar kærandi til þess að kvörtunarefnið hafi verið léttvægt og lítil spurning til kærða sem hafi kosið að svara í ritgerðarformi.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni. Til vara krefst kærði þess að staðfest verði að hann hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Í báðum tilvikum krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað.

Kærði kveðst vísa alfarið á bug órökstuddum og tilhæfulausum ásökunum kæranda í málinu.

Um forsögu málsins vísar kærði til þess að systir kæranda hafi leitað til hans þann 20. apríl 2020 og lagt fram afrit af yfirlýsingu um tilnefningu umboðsmanns og bann við veðsetningu, dags. 23. mars 2020. Í því skjali, sem þinglýst hafi verið 1. apríl 2020 á viðkomandi fasteign að D í Reykjavík, hafi komið fram að móðirin hefði farið þess á leit við dóttur sína, E, að hún yrði skipuð fjárhaldsmaður hennar. Jafnframt því hafi verið tiltekið að öll önnur umboð væru ógild sem og prókúra og lagt bann við ráðstöfun eignarinnar og veðsetningu hennar. Þá hafi komið fram að E tæki að sér að vera fjárhagslegur umboðsmaður móður sinnar.

Kærði kveðst hafa fengið upplýsingar um að framangreint hafi verið gert til að koma í veg fyrir að kærandi gæti ráðstafað fasteigninni gegn vilja móður hans. Þá hafi kærði jafnframt móttekið veðbandayfirlit viðkomandi fasteignar.

Kærði vísar til þess móðir kæranda, C, sé háöldruð og búsett í Frakklandi. Hafi hún keypt viðkomandi fasteign á árinu 2002 og hafi eignin verið í útleigu frá þeim tíma. Kærandi haft annast fjármál fyrir hönd C en systur hans lítið komið að þeim málum. Hafi systurnar staðið í þeirri trú að kærandi annaðist hagsmuni móðurinnar, en annað hafi komið á daginn.

Kærði kveðst hafa kallað eftir gögnum frá sýslumanni í kjölfar fundarins þann 20. apríl 2020. Ekki hafi verið unnt að skipa C lögráðamann hér á landi vegna erlendrar búsetu. Lýsir kærði því að hann hafi jafnframt þann 28. apríl 2020 tilkynnt fjármálastofnunum á Íslandi um brottfall hugsanlegra prókúruumboða C til kæranda.

Kærði vísar til þess að hann hafi sent kæranda bréf fyrir hönd E vegna C, dags. 29. apríl 2020, ásamt fyrrgreindri yfirlýsingu. Hafi verið áréttað í bréfinu að kærandi hefði ekki umboð til að selja fasteignina. Þá hafi verið tilkynnt að verið væri að skoða stöðu mála, svo sem áhvílandi veðskuldir og stöðu hússjóðsgjalda. Í framhaldi af því hafi aðilar átt í nokkrum samskiptum. Hafi kærandi þannig meðal annars sent kærða fjögur umboð í tölvubréfi þann 29. apríl 2020, en þau hafi öll verið dagsett í marsmánuði sama ár. Kærði hafi gert athugasemdir við ætlað söluumboð og bent á að ekki væri forsvaranlegt að kærandi hefði aðkomu að sölu eignarinnar þar sem aðsteðjandi hætta hafi aðallega verið vegna vanskila á verðtryggðum lánum til kæranda með veði í viðkomandi fasteign.

Kærði lýsir því að þann 21. maí 2020 hafi C gefið út ítarlegt allsherjarumboð til E dóttur sinnar. Hafi þar meðal annars verið tekið fram að E væri veitt umboð til að ráða lögmann til að gæta réttar síns í málinu.

Vísað er til þess að komið hafi í ljós að öll veðlán, sem hvíldu á fasteigninni, voru í vanskilum og einnig lán að baki áhvílandi tryggingarbréfum. Þá hafi hússjóðsgjöld, fasteignagjöld, orkugjöld og tryggingariðgjöld jafnframt verið í vanskilum.

Kærði kveðst hafa kannað réttmæti á veðsetningu fasteignarinnar fyrir lánum kæranda og félags hans. Eftir langdregin samskipti hafi samkomulag náðst við X banka um afléttingu tryggingarbréfs sem hvílt hafi á 5. veðrétti fasteignarinnar gegn greiðslu að fjárhæð 1.000.000 króna. Þá hafi verið samið við aðra lánardrottna og E komið lánum í skil og greitt upp aðrar skuldir.

Því er lýst að kærandi hafi ekki sætt sig við að vera settur til hliðar og það þrátt fyrir að hann hefði blandað persónulegum fjármálum sínum saman við fjármál móður sinnar. Þrátt fyrir það sem á undan hafi gengið hafi kærandi fengið móður sína, C, til að gefa út nýtt umboð til hans til að selja fasteignina, dags. 6. ágúst 2020. Kærandi hafi hins vegar afturkallað það skjal úr þinglýsingu þann 10. september sama ár með áritun á umboðið.

Kærði vísar til þess að hann hafi fengið upplýsingar um fyrirætlan kæranda um sölu fasteignarinnar seint í septembermánuði 2020. Hafi kærði þá rætt við viðkomandi fasteignasala og fengið afhent afrit söluumboðs. C hafi hins vegar afturkallað söluumboð kæranda þann 2. október 2020. Hafi sú afturköllun verið send til fasteignasalans þann sama dag. Engu að síður hafi kærandi samþykkt kauptilboð í íbúðina næsta dag. Hafi sú sala ekki gengið eftir vegna afturköllunar umboðsins.

Kærði kveðst hafa átt fund með E og kæranda þann 1. desember 2020. Hafi þar meðal annars verið farið yfir stöðuna og samninga við lánardrottna. Á þeim tíma hafi ekki verið tekin ákvörðun um það hvenær eða hvort fasteign C yrði seld, en rætt um að það yrði líklega gert síðar. Þá hafi aðilar jafnframt átt í tölvubréfasamskiptum næstu daga.

Kærði lýsir því að í samtali hans við E þann 16. desember 2020 hafi komið fram að ákveðið hefði verið að bíða með sölu fasteignarinnar og að leigutekjur yrðu notaðar til að greiða rekstrarkostnað og afborganir lána. Kveðst kærði þá hafa tjáð E að ekki væri lengur þörf á þjónustu hans, en að kærði væri ávallt reiðubúinn að veita lögfræðiaðstoð ef þess væri þörf. Vísar kærði til þess að hann hafi sama dag sent tölvubréf til kæranda og upplýst um þetta efni.

Kærði vísar til þess að viðkomandi fasteignasali hafi öðru hvoru haft samband til að spyrjast fyrir um mögulega sölu fasteignarinnar. Kveðst kærði hafa upplýst hann um í síðari hluta desembermánaðar að ákvörðun um sölu fasteignarinnar hefði verið frestað ótímabundið. Hafi þar enginn trúnaður verið rofinn auk þess sem efni símtalsins hafi ekkert komið kæranda við.

Kærði vísar til þess að sum ummæla í skrifum kæranda séu ámælisverð, ærumeiðandi og ekki til eftirbreytni. Þannig hafi kærandi til dæmis kallað kærða „gangster“ í tölvupósti þann 6. ágúst 2020. Kveðst kærði hafa gegnt lögmannsstörfum sínum af samviskusemi og alúð í áratugi og sýnt skjólstæðingum sínum og gagnaðilum þeirra fulla virðingu. Þá hafi kærði lagt sig fram um að fara eftir siðareglum lögmanna.

Kærða kveðst misboðið vegna þeirra ávirðinga sem settar séu fram í kvörtun. Þannig séu staðhæfingar kæranda algerlega órökstuddar, ekki studdar gögnum auk þess að vera rangar og tilhæfulausar.

Kærði vísar til þess að hann hafi gætt hagsmuna móður kæranda. Áður hafi hún treyst kæranda fyrir hagsmunum sínum, en kærandi hafi hins vegar stefnt þeim í stórfellda hættu með háttsemi sem verði að telja vítaverða. Miklu fjártjóni hafi verið afstýrt fyrir C. Kveðst kærði ekkert hafa aðhafst sem valdið hafi kæranda tjóni né brotið á nokkurn máta gegn honum í lögmannsstörfum. Hafi umbjóðandi kærði þannig enga ábyrgð borið á greiðslu skulda sem vörðuðu kæranda og félags hans. Þá hafi umbjóðandi kærða átt allan rétt á að koma í veg fyrir að gengið yrði að fasteigninni.

Kærði byggir á að starf hans í þágu C hafi byggt á fullgildum umboðum, sem hún hafi veitt dóttur sinni E til að annast fjárhagsleg málefni og hagsmunagæslu á Íslandi. Hafi E verið heimilt að fá lögmannsaðstoð til að gæta hagsmuna C. Á þeim grunni byggir kærði á að kærandi eigi ekki aðild að máli er varði það hvort kærði hafi haft umboð eða farið út fyrir umboð í störfum sínum.

Ítrekar kærði að endingu að hann hafni alfarið ósönnum og órökstuddum ávirðingum kæranda. Hafi kærði þannig ekkert aðhafst í málinu gagnvart kæranda eða umbjóðanda sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sé kvörtun því tilhæfulaus og til þess fallin að valda kærða óþarfa vinnu.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur meðal annars að ætlaðri brotlegri háttsemi aðilans, sem lögmanns, gegn siðareglum lögmanna. Er málatilbúnaður kæranda þannig á því reistur að kærði hafi í störfum sínum orðið uppvís að endurteknum lygum sem og óheiðarlegri og villandi framkomu. Kærði hefur á hinn bóginn andmælt þeim málatilbúnaði kæranda og á því byggt fyrir nefndinni að hann eigi sér enga stoð. Sá efnislegi ágreiningur heyrir undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Samkvæmt því fellur tilgreint umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, undir valdsvið nefndarinnar. Þá verður að líta svo á að álitaefni um það hvort atvik að baki kvörtunarefni teljist sannað eða geti hlutrænt séð fallið undir ákvæði siðareglna lögmanna sé atriði sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en geti ekki varðað frávísun þess frá nefndinni. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til að vísa málinu frá í heild sinni líkt og kærði krefst aðallega fyrir nefndinni.

Varðandi formhlið málsins er þess að öðru leyti að gæta að kröfugerð kæranda lýtur annars vegar að því að kærði „geri hreint fyrir sínum dyrum“ og sýni annað hvort undirritaðan samning við móður kæranda þar sem fram komi að hann sé lögmaður hennar og vinni að hagsmunum hennar eftir hennar vilja ellegar dragi til baka yfirlýsingar þess efnis. Hins vegar krefst kærandi þess að kærði „komi skýrt fram“ og lýsi því yfir að hann sé annað hvort hættur að koma fram sem lögmaður systur kæranda ellegar sé enn lögmaður hennar svo kærandi, sem gagnaðili, geti leitað til kærða eða bent lögmönnum á að leita til kærða vegna hinna ýmsu erinda.

Um tilgreindar kröfur kæranda er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um og taka til skoðunar fyrrgreindar kröfur kæranda en þær lúta báðar að réttarsambandi kærða við aðra aðila en kæranda og ætluðu umboði eða umboðsleysi kærða þar að lútandi. Verður að fallast á með kærða að kærandi geti ekki átt aðild að slíku sakarefni fyrir nefndinni auk þess sem kröfugerð hans að þessu leyti er ekki tæk til úrskurðar, svo sem fyrrgreind afmörkun á valdsviði nefndarinnar greinir. Þegar af þeim ástæðum verður að vísa tilgreindum kröfum kæranda á hendur kærða frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir, sbr. 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Samkvæmt því kemur til efnisúrlausnar í málinu sú krafa sem telja verður að leiði af efni kvörtunar kæranda, þ.e. að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

II.

Líkt og áður greinir getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar meðal annars tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Ágreiningur í þeim þætti málsins sem eftir stendur lýtur að því kvörtunarefni kæranda að kærði hafi í lögmannsstörfum sínum viðhaft lygar sem og óheiðarlega og villandi framkomu. Þannig hafi kærði siglt undir fölsku flaggi varðandi hagsmunagæsluna og ýmist dregið í eða úr með það hvort hann kæmi fram fyrir hönd móður og systur kæranda eða ekki. Kærði hefur á hinn bóginn andmælt tilgreindu kvörtunarefni í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni og vísað til þess að það sé bæði órökstutt og tilhæfulaust.

Að mati nefndarinnar verður skýrlega ráðið af málsgögnum hvernig hagsmunagæslu kærða í þágu umbjóðenda hans var háttað og að kærandi hafi verið upplýstur um það efni á öllum stigum málsins. Jafnframt því liggur fyrir að kærði tilkynnti kæranda í tölvubréfi þann 16. desember 2020 að fasteignin að D í Reykjavík yrði ekki seld á næstunni samkvæmt ákvörðun umbjóðenda hans. Var jafnframt upplýst í tölvubréfinu að ekki hefði verið óskað eftir frekara vinnuframlagi kærða og að af þeim sökum myndi hann ekki hafa frekari afskipti af málinu nema þess yrði óskað. Þá hefur kærði upplýst fyrir nefndinni að hann hafi tilkynnt viðkomandi fasteignasala í síðari hluta desembermánaðar 2020, vegna fyrirspurna um mögulega sölu fasteignarinnar, að ákvörðun þar að lútandi hefði verið frestað ótímabundið.  Samræmist sá málatilbúnaður efni þess tölvubréfs sem kærði beindi til kæranda þann 16. desember 2020, líkt og áður greinir.

Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að kærði hafi sýnt kæranda slíka virðingu í ræðu, riti og framkomu sem áskilin er í 34. gr. siðareglna lögmanna. Verður þannig hvorki leitt af málsgögnum né málatilbúnaði kæranda að öðru leyti fyrir nefndinni að kærði hafi viðhaft slíka háttsemi gagnvart kæranda sem kvörtun er reist á. Samkvæmt því hefur kærandi á engan hátt leitt í ljós í málinu að kærði hafi í hagsmunagæslu í þágu umbjóðenda sinna gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi verið andstæð lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Verður því að hafna kröfu kæranda um það efni í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda, A, um að kærði, B lögmaður, geri hreint fyrir sínum dyrum og sýni annað hvort undirritaðan samning við móður kæranda, C, þar sem skýrt komi fram að hann sé lögmaður hennar og vinni að hagsmunum hennar ellegar dragi til baka yfirlýsingar þess efnis að hann sé lögmaður hennar með skýrum hætti, er vísað frá nefndinni.

Kröfu kæranda, A, um að kærði, B lögmaður, komi skýrt fram og lýsi því yfir að hann sé annað hvort hættur að koma fram sem lögmaður systur kæranda, E, ellegar að hann sé enn lögmaður hennar, er vísað frá nefndinni.

Kærði, A lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson