Mál 6 2021

Mál 6/2021

Ár 2021, miðvikudaginn 8. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. mars 2021 erindi kæranda, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við kærða, B um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærða í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 25. mars 2021 og barst hún þann 19. apríl sama ár. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 21. apríl 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust til nefndarinnar þann 21. maí 2021 og voru þær kynntar kærða með bréfi þann sama dag. Loks bárust frekari athugasemdir vegna málsins frá kærða þann 14. júní 2021 og var kærandi upplýstur um það efni með bréfi dags. 24. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Upphaflegur málatilbúnaður í kvörtun laut að innheimtuaðgerðum kærða í þágu C ehf. á árunum 2019 og 2020, en kærandi mun vera fyrirsvarsmaður tilgreinds félags.

Um þau atvik er ágreiningslaust að kærandi leitaði fyrir hönd C ehf. til kærða á árinu 2019 með beiðni um innheimtuaðgerðir vegna reiknings sem þá hafði verið í vanskilum um nokkurt skeið. Jafnframt liggur fyrir að kærði tók að sér að senda innheimtubréf fyrir hönd félagsins til viðkomandi skuldara og var það gert þann 19. september 2019. Í innheimtubréfinu var að finna lýsingu á viðkomandi kröfu og hún tilgreind að fjárhæð 721.240 krónur með vöxtum og kostnaði. Þá var því lýst að yrði krafan ekki greidd innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins mætti búast við frekari innheimtuaðgerðum á grundvelli réttarfarslaga. Með innheimtubréfinu fylgdi afrit hins ógreidda reiknings, skuldalisti og vinnuseðill vegna þeirrar framkvæmdar sem reikningurinn tók til.

Fyrir liggur að lögmannsstofa kærða gerði reikning á C ehf. þann 30. september 2019 vegna fyrrgreindrar vinnu, en hann tók til vinnu í eina klukkustund á tímagjaldinu 22.500 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. samtals 27.900 krónur með virðisaukaskatti. Var reikningurinn greiddur án athugasemda af hálfu C ehf. þann 8. október 2019.

Kærði hefur vísað til þess fyrir nefndinni að lögmaður gagnaðila C ehf. hafi haft samband við sig í októbermánuði 2019 vegna innheimtunnar. Hafi kröfum félagsins verið hafnað í því samtali og því borið við að galli hefði verið á því verki sem reikningur til grundvallar innheimtunni hefði tekið til. Fær málatilbúnaður kærða að þessu leyti stoð í tölvubréfi, dags. 16. október 2019, sem er á meðal málsgagna.

Ágreiningur er hins vegar á milli aðila um það hvernig framvindu innheimtumálsins skyldi háttað. Kveðst kærði þannig hafa upplýst kæranda, sem fyrirsvarsmann C ehf., um mótbárur við reikningnum og að hann myndi ekki taka að sér að stefna málinu fyrir dóm nema gegn fyrirframgreiðslu frá félaginu. Kærandi kveðst hins vegar hafa staðið í þeirri trú að framhald yrði á innheimtuaðgerðum af hálfu kærða, að erfitt hafi reynst að ná í kærða og fá svör um innheimtuna og að kærði hafi sýnt af sér sinnuleysi við þau störf.

Engin gögn liggja fyrir í málinu um samskipti aðila en upplýst hefur verið fyrir nefndinni að þau hafi á öllum stigum verið munnleg. Hins vegar liggur fyrir að lögmannsstofa kærða gerði reikning á C ehf. þann 1. febrúar 2020 að fjárhæð 158.100 krónur með virðisaukaskatti, en eindagi hans var tilgreindur þann 10. sama mánaðar. Jafnframt liggur fyrir að lögmannsstofa kærða gerði kreditreikning á C ehf. þann 14. febrúar 2020, þ.e. vegna reikningsins sem gefinn hafði verið út þann 1. sama mánaðar. Hefur kærði vísað til þess að þar hafi verið um að ræða reikning vegna áskildrar fyrirframgreiðslu. Þegar reikningurinn hafi ekki fengist greiddur hafi kærði upplýst kæranda um að hann tæki ekki málið að sér en með því hafi lögmannsstörfum kærða í þágu C ehf. lokið.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar var aukið nokkuð í það sem áður hafði greint í kvörtun og vísað til innheimtuaðgerða annars lögmanns og samstarfsmanns kærða, þ.e. D lögmanns, vegna sömu kröfu í þágu C ehf. frá árinu 2018. Lagði kærandi fram um þetta efni innheimtuviðvörun vegna hinnar ógreiddu kröfu, dags. 26. febrúar 2018, sem undirrituð var af D lögmanni. Jafnframt því lýsti kærandi að hann hefði greitt 86.244 krónur vegna þeirra innheimtustarfa á árinu 2018 en tímaskýrsla þar að baki er á meðal málsgagna. Bera tilgreind gögn með sér að viðkomandi lögmaður hafi þá annast störf sín í gegnum aðra lögmannsstofu en hann og kærði gera nú.

Líkt og áður greinir beindi kærandi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 23. mars 2021.

II.

Að mati nefndarinnar verður að skilja upphaflegan málatilbúnað kæranda í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti annars vegar að ágreiningi um endurgjald kærða eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar verði að skilja málatilbúnað kæranda í kvörtun með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun er vísað til þess að henni sé beint að sinnuleysi kærða við innheimtu á kröfu.

Nánar tiltekið vísar kærandi til þess í kvörtun að hann sé málarameistari og hafi unnið sem slíkur um áratugaskeið. Á árinu 2017 hafi hann tekið að sér verk í þágu viðskiptavinar á grundvelli samnings um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Heimtur kröfu vegna verksins hafi hins vegar orðið seinar og loks engar.

Kærandi kveðst hafa leitað til lögmannsstofu D lögmanns og kærða í upphafi árs 2019 og falið þeim innheimtu viðkomandi kröfu. Hafi kærandi gengið út frá því að kærði myndi annast innheimtu kröfunnar.

Kærandi lýsir því að hann hafi rætt við kærða 1. febrúar 2020 og í framhaldinu afhent þeim viðkomandi reikning, sem hafi verið grundvöllur kröfunnar, og vinnuskýrslur að baki honum. Fljótlega eftir það hafi kærandi greitt tvær greiðslur til lögmannsstofunnar, þ.e. annars vegar um 80.000 krónur og svo einnig um 45.000 – 50.000 krónur. Vísar kærandi jafnframt til þess að hann hafi spurt kærða hvort eitthvað meira þyrfti að greiða. Hafi kærði þá svarað að mögulega þyrfti að greiða um 19.000 krónur til viðbótar. Þann 10. febrúar 2020 hafi lögmannsstofa kærða hins vegar stofnað kröfu í heimabanka kæranda að fjárhæð 158.100 krónur. Sé þá kröfu enn þar að finna en kærandi kveðst ekki skilja þá kröfu.

Kærandi vísar til þess að í upphafi árs 2021 hafi hann haft samband við lögmannsstofu kærða í tvígang, þ.e. í byrjun og lok janúarmánaðar. Ekki hafi náðst í kærða en kærandi þess í stað rætt við D lögmann og fulltrúa á stofunni. Hafi kærandi óskað eftir að kærði hefði samband við sig vegna málsins en af því hafi ekki orðið.

Kærandi kveðst úrkula vonar um að ná sambandi við kærða til þess að fá upplýsingar um stöðu málsins og hvort og þá hvenær umrædd innheimtukrafa fáist greidd. Sé því óskað liðsinnis nefndarinnar í þeirri umleitan.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er því mótmælt að frásögn hans sé röng og ábótavant. Er á það bent að kærði láti undir höfuð leggjast með að greina frá því að lögmannsstofa hans hafi tvívegis byrjað innheimtu vegna sömu kröfu með tveimur samhljóða innheimtubréfum sem send hafi verið með rúmlega árs millibili í stað þess að fylgja eftir innheimtunni svo sem kærandi hafi falið honum. Sjáist það skýrt af innheimtubréfi að fjárhæð 613.470 krónur sem lögmannsstofan hafi sent skuldara fyrir hönd kæranda hinn 26. febrúar 2018. Er vísað til þess að D lögmaður hafi undirritað innheimtubréfið og krafist þóknunar fyrir það að fjárhæð 86.244 krónur. Í innheimtubréfinu hafi hins vegar verið gerð krafa um innheimtuþóknun að fjárhæð 64.150 krónur, sem hafi verið rúmum 20.000 krónum lægri fjárhæð en lögmannsstofan hafi krafið kæranda um fyrir að senda bréfið.

Kærandi vísar til þess að krafan hafi ekki fengist greidd í kjölfar innheimtubréfsins. Hafi hann vænst þess að lögmannsstofa kærða myndi fylgja málinu eftir og annast innheimtu á umræddum reikningi eins og hann hafi falið stofunni að gera og greitt fyrir. Ekkert hafi hins vegar orðið af næstu skrefum heldur hafi lögmannsstofan sent nýtt innheimtubréf 19. september 2019 vegna sömu kröfu en hærri heildarfjárhæð vegna lengra tímabils dráttarvaxta. Hafi það bréf verið undirritað af kærða. Þá hafi kærandi verið krafinn um 27.900 krónur sem hann hafi greitt, þrátt fyrir að um staðlað innheimtubréf hafi verið að ræða sem hann hafi greitt fyrir ári fyrr. Fyrir tvö stöluð innheimtubréf hafi kærandi þannig greitt til lögmannsstofu kærða 114.144 krónur.

Kærandi byggir á að kærði hafi farið á svig við 12. gr. siðareglna lögmanna með því að taka að sér innheimtumál án þess að sinna því með eðlilegum hætti eða hraða. Er því lýst í viðbótarathugasemdum kæranda að þess sé farið á leit að úrskurðað verði aðallega að kærði og samstarfsmaður hans skuli in solidum endurgreiða þann kostnað sem kærandi hafi haft af málinu eða samtals 114.144 krónur en til vara lægri fjárhæðar að mati nefndarinnar. Þá krefst kærandi þess að kröfu kærða um kostnað verði hafnað og þess farið á leit, í ljósi málavaxta, að kærða og samstarfsmanni hans verði gert að greiða kæranda hæfilega þóknun samkvæmt mati nefndarinnar.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda í báðum tilvikum.

Um málsatvik vísar kærði til þess að lýsing kæranda sé verulega ábótavant og að hún sé röng í grundvallaratriðum.

Kærði vísar til þess að kærandi sé í fyrirsvari fyrir einkahlutafélagið C ehf. Hafi kærandi leitað til kærða fyrir hönd þess félags í september 2019 vegna útistandandi kröfu sem félagið hafi átt vegna málningarvinnu. Þannig hafi kærandi komið á skrifstofu kærða fyrirvaralaust, kærði tekið á móti honum og farið yfir málið með honum á fundi. Kærandi hafi þá lýst að áður hefði verið reynt að innheimta sömu kröfu en án árangurs og verkkaupi borið fyrir sig galla á verkinu. Kærði kveðst hafa útskýrt fyrir kæranda að ef ágreiningur væri um kröfuna þyrfti að öllum líkindum að bera hann undir dóm. Jafnframt því hafi kærði útskýrt hvernig málshöfðun og rekstur slíks dómsmáls væri háttað og hver kostnaðurinn kynni að vera. Hafi kærandi ekki verið tilbúinn að leggja í þann kostnað að svo komnu málið en beðið kærða um að reyna innheimtu fyrir sig í eitt loka skipti.

Í samræmi við framangreint vísar kærði til þess að hann hafi tekið að sér að senda eitt innheimtubréf að beiðni kæranda, sem fyrirsvarsmanns félagsins, en samið hafi verið um að félagið greiddi einn tíma samkvæmt gjaldskrá kærða eða 22.500 krónur auk virðisaukaskatts, samtals 27.900 krónur. Bendir kærði á að innheimtubréfið hafi verið sent ásamt gögnum hinn 19. september 2019. Í kjölfarið hafi reikningur verið gefinn út á C ehf. hinn 30. september 2019 sem greiddur hafi verið hinn 8. október sama ár.

Kærði vísar til þess að E lögmaður hafi haft samband við sig fyrir hönd verkkaupa og að þeir hafi átt langt samtal um málið. Mikill ágreiningur hafi verið um verkið og hafi verkkaupi áskilið sér rétt til að hafa uppi gagnkröfu á hendur C ehf. Af samtalinu hafi verið ljóst að málið yrði ekki leyst utan réttar og heldur ekki án dómkvaðningar matsmanns. Í kjölfarið hafi kærði gert kæranda grein fyrir stöðunni og með því lokið þeirri vinnu sem hann hafi tekið að sér fyrir C ehf., en það hafi verið í október 2019.

Vísað er til þess að kærandi hafi ekki viljað una þessum málalokum og því komið nokkrum sinnum á skrifstofu kærða til þess að ræða málið. Hafi svo farið að kærði hafi fallist á að höfða mál til innheimtu kröfunnar en gegn því skilyrði að C ehf. greiddi andvirði fimm tíma vinnu inn á málið fyrirfram. Í samræmi við það hafi verið gefinn út reikningur hinn 1. febrúar 2020 með eindaga 10. sama mánaðar. Vísar kærði til þess að kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að kærði myndi ekkert aðhafast í málinu fyrr en greiðsla bærist. Þar sem greiðsla hafi ekki borist fyrir eindaga líkt og lofað hafi verið hafi reikningurinn verið kreditfærður hinn 14. febrúar 2020 jafnframt því sem kærandi hafi verið upplýstur um að kærði myndi ekki taka málið að sér.

Vísar kærði til þess að þrátt fyrir framangreint hafi kærandi ítrekað bæði komið upp á skrifstofu kærða fyrirvaralaust og hringt til þess að reyna að fá kærða til þess að taka málið að sér. Hafi kærði ítrekað hafnað því.

Varðandi aðalkröfu um frávísun vísar kærði til 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. og 6. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna.

Kærði vísar til þeirra tímafresta sem kveðið er á um í ofangreindum heimildum og byggir á að kærufrestir byrji að líða þegar kærandi eigi þess fyrst kost að bera málið undir nefndina. Við beitingu reglnanna hafi nefndin miðað upphaf frestsins við það tímamark hvenær viðkomandi kærandi fái upplýsingar um ágreiningsefnið, svo sem um endurgjald lögmanns. Hafi nefndin þá litið til þess hvenær reikningur sé sendur viðkomandi, hann greiddur eða viðkomandi sé upplýstur um endurgjaldið. Þá miðist lok frestsins alltaf við þann dag þegar kvörtun sé móttekin af nefndinni.

Með vísan til málsatvika byggir kærði á að ljóst sé að endurgjald það sem hann hafi fengið fyrir innheimtustörfin hafi numið 27.900 krónum með virðisaukaskatti. Hafi þóknunin verið greidd þann 8. október 2019. Bendir kærði á að frá því að félagið greiddi þóknunina og þar til erindi kæranda barst til nefndarinnar hafi liðið rúmir sautján mánuðir. Hafi frestur til að bera málið undir nefndina þá verið liðinn. Samkvæmt því beri að vísa þeim ágreiningi frá nefndinni.

Hvað varðar annan ágreining þá byggir kærði á að kærufrestur hafi einnig verið liðinn. Þannig hafi krafa um innborgun verið felld niður þann 14. febrúar 2020 og reikningur kreditfærður. Þá hafi verið ljóst að kærði myndi ekki taka málið að sér. Frá þeim tímapunkti og þar til erindi barst til nefndarinnar hafi liðið rúmir þrettán mánuðir, en þá hafi kærufrestur verið liðinn.

Varðandi formhlið málsins bendir kærði að öðru leyti á að annar ágreiningur en um endurgjald sé mjög óljós. Þannig sé erindi kæranda knappt og efnisrýrt. Sé lýsing kæranda á málsatvikum ávótavant og ekki lagt út af henni í rökstuðningi né hún heimfærð undir lög eða reglur. Auk þess séu fá ef nokkur rök færð fyrir málatilbúnaði kæranda. Af því leiði að kærða sé í raun ómögulegt að átta sig á því hvert sakarefnið sé og beri því að vísað málinu einnig frá á þeim grunni.

Að því er varðar efnislega úrlausn málsins vísar kærði í fyrsta lagi til þess að kærandi sé ekki réttur aðili að málinu. Þannig hafi kærandi leitað til kærða fyrir hönd C ehf. og hafi vinna kærða verið í þágu þess félags sem hafi greitt endurgjald kærða. Þegar af þeim sökum beri að hafna öllum kröfum kæranda.

Í öðru lagi byggir kærði á því að það endurgjald sem hann hafi fengið fyrir vinnu sína, 27.900 krónur, hafi verið hóflegt og að ekkert sé við það að athuga. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 eigi kærði rétt á hæfilegu endurgjaldi enda hafi einnig verið um það samið á milli aðila.

Kærði vísar til þess að hann hafi upplýst kæranda, sem fyrirsvarsmann C ehf., um þennan kostnað áður en vinna hafi verið innt af hendi. Félagið hafi greitt umsamið endurgjald athugasemdalaust á grundvelli útgefins reiknings. Byggir kærði á að fráleitt sé að halda því fram að endurgjaldið sé úr hófi enda hafi það tekið til einnar klukkustundar. Fyrir það endurgjald hafi kærði átt fund með kæranda, farið yfir gögn frá kæranda, skrifað innheimtubréf, reiknað dráttarvexti og kostnað og sent bréfið í pósti. Þá hafi kærði átt símafund með lögmanni gagnaðila og loks samskipti við kæranda á nýjan leik þar sem upplýst hafi verið um stöðu málsins. Gefi auga leið að slík vinna rúmist ekki innan 60 mínútna. Sé því einboðið að hafna kröfum kæranda hvað varðar endurgjald kærða.

Um kvörtun að öðru leyti vísar kærði til þess að hann hafi hafnað að taka mál C ehf. að sér. Kærði hafi tekið að sér að senda eitt innheimtubréf og klárað það. Um aðra þætti málsins hafi kærði gert áskilnað um innborgun í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu hans. C ehf. hafi ekki greitt umsamda innborgun en þar með hafi aðkomu kærða að málinu lokið. Ítrekar kærði um það efni að hann hafi bakfært viðkomandi reikning og tilkynnt kæranda um það og jafnframt að kærði myndi ekki taka málið að sér.

Kærði bendir á að samkvæmt siðareglum lögmanna skuli lögmenn vera sjálfstæðir í vinnubrögðum sínum. Af því leiði meðal annars að lögmenn ráði því sjálfir hvort þeir taki að sér mál eða ekki, sbr. 3. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt því geti kærandi ekki krafist þess að kærði taki að sér tiltekið mál.

Kærði byggir á að á sama grunni sé ekki hægt að fallast á málatilbúnað kæranda um að hann hafi ekki fengið skýr svör við fyrirspurnum sínum til kærða. Bendir kærði á að kærandi hafi ítrekað mætt óboðaður á skrifstofu kærða þar sem rætt hafi verið um stöðuna. Einnig hafi aðilar rætt saman í síma. Kærandi hafi auk þess ákveðið sjálfur að halda samskiptunum munnlegum og aldrei gefið kærða upp netfang sitt til að skjalfesta samskiptin. Byggir kærði á að kærandi verði að bera hallan af öllum mögulegum sönnunarskorti í því samhengi. Í ljósi þess að kærði hafi marghafnað því að taka málið að sér sé ekki fyrir að fara slíku sambandi á milli aðila sem lög og siðareglur lögmanna mæla fyrir um.

Í viðbótarathugasemdum kærða eru gerðar athugasemdir við að kærandi hafi á síðari stigum beint kvörtunaratriðum gegn D lögmanni. Bendir kærði á að honum sé ekki kunnugt um að tilgreindur lögmaður hafi átt aðild að málinu og verið veitt færi á að koma að andmælum sínum. Mótmælir kærði því að kærandi geti bætt nýjum aðilum inn í kvörtun sína eftir á.

Vegna málatilbúnaðar í viðbótarathugasemdum kæranda bendir kærði á að í fyrri athugasemdum hans hafi hann bent á að áður hefði verið reynt að innheimta sömu kröfu án árangurs. Fyrra innheimtubréf hafi ekki verið sent af sömu lögmannsstofu, líkt og gögn málsins beri með sér. Sé það rangt að sama lögmannsstofa hafi sinnt innheimtum vegna málsins. Þá vísar kærði til þess að annar lögmaður hafi sinnt fyrri innheimtu fyrir félagið C ehf. Skjóti það skökku við að gengið sé út frá því í málatilbúnaði kæranda að hægt sé að samsama þessa tvo lögmenn, þ.e. kærða og D lögmann. Er á það bent að um tvo sjálfstæða lögmenn sé að ræða og að hvor þeirra um sig beri ábyrgð á störfum sínum samkvæmt lögum. Ítrekar kærði að hann geti ekki svarað efnislega athugasemdum um störf annars lögmanns.

Varðandi ætlað brot gegn 12. gr. siðareglna lögmanna ítrekar kærði að aðkomu hans að málinu hafi lokið þegar kærandi greiddi ekki áskilda innborgun inn á málið. Hafi það verið í febrúar 2020. Vísar kærði jafnframt til 2. mgr. 12. gr. siðareglnanna þar sem fram kemur að lögmanni sé heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki.

Kærði mótmælir því að kærandi geti nú haft uppi óskipta kröfugerð á hendur kærða og öðrum lögmanni um endurgreiðslu á kostnaði. Bendir kærði á að hann hafi aldrei tekið að sér árangurstengda hagsmunagæslu. Eigi kærði þannig rétt á endurgjaldi fyrir störf sín jafnvel þótt innheimta hafi ekki borið árangur. Þá geti kærandi ekki krafist endurgreiðslu á þóknun sem hann hafi ekki greitt enda hafi skjólstæðingur kærða verið C ehf. en ekki kærandi.

Niðurstaða

                                                                          I.

Svo sem fyrr er rakið verður að mati nefndarinnar að skilja upphaflegan málatilbúnað kæranda í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti annars vegar að ágreiningi um endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er jafnframt tiltekið að nefndin vísi ágreiningsmáli um endurgjald frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Fyrrgreindar heimildir er afdráttarlausar um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmálum um endurgjald á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma slíku málum á framfæri.

Í upphaflegu erindi kæranda, sem beint var til nefndarinnar, var vísað til ágreinings aðilans við kærða vegna innheimtustarfa, þar á meðal vegna greiddrar þóknunar. Tók hið upphaflega erindi kæranda þannig ekki til ætlaðs ágreinings um innheimtustörf D lögmanns í þágu C ehf. á árinu 2018 og áskildu endurgjaldi vegna þeirra starfa sem mun hafa verið greitt það sama ár. Var sjónarmiðum kæranda um það efni fyrst hreyft í viðbótarathugasemdum hans til nefndarinnar þar sem þess var krafist að kærða og tilgreindum lögmanni yrðu in solidum gert að endurgreiða kæranda kostnað að fjárhæð 114.144 krónur.

Kærandi lagði grunn að sakarefni málsins með þeirri kvörtun sem móttekin var þann 23. mars 2021 en hún tók líkt og áður greinir til starfa kærða og þeirrar þóknunar sem hann hafði áskilið sér og fengið greidda. Samkvæmt því tók kvörtun hvorki til þeirra innheimtustarfa sem D lögmaður mun hafa tekið að sér fyrir hönd C ehf. á árinu 2018 né þóknunar vegna þeirra starfa. Hvorki er í lögum nr. 77/1998, siðareglum lögmanna né málsmeðferðarreglum nefndarinnar að finna heimild til að bæta með slíkum hætti við aðild til varnar í máli sem rekið er gegn öðrum lögmanni undir rekstri þess fyrir nefndinni. Þá liggur ekkert fyrir um það í málsgögnum að kærði hafi í reynd haft nokkra aðkomu að viðkomandi innheimtustörfum á árunum 2018 sem lýst er í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar. Samkvæmt því koma málsástæður kæranda þar að lútandi ekki til skoðunar og efnismeðferðar í málinu.

Varðandi endurgjald kærða vegna lögmannsstarfa á árinu 2019 í þágu C ehf. þá liggur fyrir að gerður var einn reikningur vegna þeirra starfa, þ.e. nánar tiltekið þann 30. september 2019 að fjárhæð 27.900 krónur með virðisaukaskatti. Jafnframt liggur fyrir að sá reikningur var greiddur athugasemdalaust af hálfu C ehf. þann 8. október 2019. Ekki kom til frekari gjaldtöku af hálfu lögmannsstofu kærða en reikningur, dags. 1. febrúar 2020, sem átti að taka til fyrirframgreiðslu vegna málshöfðunar í þágu C ehf. var kreditfærður þann 14. sama mánaðar enda hafði greiðsla ekki borist fyrir eindaga hans.

Að mati nefndarinnar er ekki unnt að miða við annað en að kærandi, fyrir hönd C ehf., hafi þegar í októbermánuði 2019 átt þess kost að koma ágreiningsmáli, vegna þess endurgjalds sem kærði áskildi sér, á framfæri við nefndina. Samkvæmt því var frestur til að leggja ágreiningsmálið fyrir nefndina liðinn er kæranda lagði fram erindi sitt þann 23. mars 2021, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður því að vísa endurkröfu kæranda, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Líkt og áður er rakið hefur kærandi krafist þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi hans við innheimtustörf í þágu C ehf. Hefur kærandi þannig vísað til þess að kærði hafi gengið á svig við 12. gr. siðareglna lögmanna með því að taka að sér innheimtumál í þágu tilgreinds félags án þess að sinna því eðlilegum hætti eða hraða.

Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að hann hafi tekið að sér að senda innheimtubréf fyrir C ehf. sem hann hafi gert þann 19. september 2019 og fengið greitt fyrir þann 8. október sama ár samkvæmt útgefnum reikningi. Mótbárur hafi komið fram af hálfu gagnaðila C ehf. við innheimtuna og kærði upplýst kæranda um það. Þá hafi kærði ekki viljað höfða mál fyrir félagið nema gegn innborgun inn á málskostnað, en til hennar hafi ekki komið. Hafi kærði því tjáð kæranda að hann myndi ekki taka að sér málið, svo sem honum hafi einnig verið heimilt samkvæmt 3. mgr. 3. gr. siðareglna lögmanna.

Í 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða og að tilkynna skuli skjólstæðingi um ef verk dregst eða ætla má að það dragist. Þá er í 2. mgr. 12. gr. siðareglnanna tiltekið að lögmanni sé heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.

Líkt og greinir í atvikalýsingu liggja engin skrifleg gögn fyrir í málinu um samskipti aðila. Er þannig ágreiningslaust að samskipti aðila voru á öllum stigum munnleg. Stendur því orð gegn orði um það efni hvort kærði hafi í reynd tekið að sér önnur verkefni í þágu C ehf. en að senda það eina innheimtubréf sem gert var þann 19. september 2019 og reikningsfært var fyrir þann 30. sama mánaðar. Málatilbúnaður kærða um að hann hafi ekki viljað taka að sér málshöfðun í þágu C ehf. nema gegn innborgun inn á fyrirhugaðan kostnað fær hins vegar stoð í málsgögnum, sbr. reikning og kreditreikning lögmannsstofu kærða frá 1. og 14. febrúar 2020 sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan.

Samkvæmt því og eins og málið liggur fyrir hefur að mati nefndarinnar ekki verið leitt í ljós að kærði hafi tekið annað verkefni að sér í þágu C ehf., sem kærandi er í fyrirsvari fyrir, en að senda eitt innheimtubréf. Fyrir liggur að kærði innti þá þjónustu af hendi á árinu 2019 og var greitt fyrir hana athugasemdalaust. Ekki liggur annað fyrir en að kærði hafi unnið það verk innan hæfilegs hraða og að hann hafi upplýst kæranda, sem fyrirsvarsmann C ehf., án dráttar um þær mótbárur sem komu fram af hálfu gagnaðila við innheimtunni. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem farið hafi í bága við lög eða siðareglur lögmanna. Verður því að hafna kröfu kæranda um að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Endurgreiðslukröfu kæranda, A, á hendur kærða, B lögmanni, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er vísað frá nefndinni.

Kærði, B, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson