Mál 10 2022

Mál 10/2022

Ár 2022, þriðjudaginn 6. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. mars 2022 erindi sóknaraðila, A, vegna starfa varnaraðila, B lögmanns.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 7. mars 2022 þar sem einnig var tekið fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir starf lögmanns eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sem og kvörtun í skilningi 27. gr. sömu laga. Greinargerð varnaraðila vegna málsins barst þann 4. apríl 2022 auk fylgigagna og var hún send til sóknaraðila með bréfi dags. 5. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 26. apríl 2022 en viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 27. maí sama ár. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að ágreiningur hafi orðið um framkvæmdakostnað í fjöleignarhúsi sem sóknaraðili og eiginkona hans eru búsett í en konan mun vera skráður eigandi viðkomandi séreignarhluta. Mun sóknaraðili hafa ritað pistil um það málefni og birt á eigin Facebook síðu. Í framhaldi af þeirri birtingu, nánar tiltekið þann 30. október 2021, sendi varnaraðili fyrirspurn til sóknaraðila um það hvort hann væri með lögmann vegna málsins en sóknaraðili kvað ekki svo vera en lýsti því jafnframt að þetta væri „svo mikil flækja“ að hann þyrfti líklega á lögmanni að halda ef ekki yrði hætt við málið. Aðspurður í samtalinu staðfesti varnaraðili að hann væri lögmaður og ráðlagði sóknaraðila að leita til lögmanns vegna málsins sem þingfesta átti í sömu viku. Staðfesti varnaraðili jafnframt að það væri dýrt að leita til lögmanns en að hagsmunirnir væru miklur. Hægt væri að sækja um gjafsókn svo og skoða með réttaraðstoðartryggingu. Þá þakkaði sóknaraðili fyrir ráð varnaraðila og tók fram að hann myndi hafa samband ef hann sæi sér fært að greiða fyrir lögmannsaðstoð vegna málsins.

Aðilar áttu í frekari samskiptum þann 4. desember 2021 en þá upplýsti sóknaraðili um að hann þyrfti á lögmanni að halda vegna þinghalds sem fyrirhugað væri þann 16. sama mánaðar þar sem honum hefði verið neitað sem „málssvara“ konu sinnar, sem stefndu í dómsmálinu. Óskaði sóknaraðili þá eftir lögfræðiaðstoð frá varnaraðila og kvaðst jafnframt hafa tekið „saman góða línu efnisþátta fyrir lögmann til að setja í form réttarins.

Varnaraðili svaraði sóknaraðila þann sama dag og kvaðst reiðubúinn að skoða málið með sóknaraðila. Fékk varnaraðili jafnframt upplýsingar um stöðu málsins frá sóknaraðila jafnframt því sem sóknaraðili sendi til varnaraðila í tölvubréfi þennan sama dag stefnu viðkomandi máls sem og þá greinargerð sem hann hafði tekið saman. Þá spurði sóknaraðili hvort þeir þyrftu ekki að hittast og fara yfir stöðuna og lauk samskiptum aðila með því að þeir yrðu í sambandi.

Fyrir liggur að varnaraðili óskaði eftir frekari fresti til greinargerðarskila vegna málsins með tölvubréfi til lögmanns stefnanda þann 7. desember 2021 og var sú beiðni samþykkt. Þá mun varnaraðili hafa verið í sambandi við mætingarlögmann vegna fyrirtöku málsins í héraðsdómi þann 16. sama mánaðar.

Varnaraðili hefur lýst því í málatilbúnaði sínum að sóknaraðili hafi komið við á skrifstofu sinni í desembermánuði 2021 með öll málsgögn. Hafi þeir einnig átt þar stutt spjall um málið þar sem varnaraðili hafi meðal annars upplýst um tímagjald sitt sem og að algengur tími í málum af þessu tagi hlypi á 30 – 50 klukkustundum. Hefur sá málatilbúnaður varnaraðila ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila.

Þann 15. desember 2021 sendi sóknaraðili skilaboð til varnaraðila og spurðist fyrir um hvort hann væri nokkuð búinn að gleyma sér. Í svari varnaraðili kom fram að svo væri ekki, að hann væri í sóttkví og að greinargerðarfrestur hefði verið framlengdur til janúarmánaðar 2022. Sóknaraðili lýsti því þá að honum hefði látið sér detta eitthvað þvílíkt í hug, að þetta væri í góðum málum og að aðilar skyldu heyrast þegar nær drægi.

Málsgögn bera með sér að aðilar hafi átt með sér samtal þann 7. janúar 2022 um málið. Jafnframt því er á meðal málsgagna að finna tölvubréf sem sóknaraðili sendi til varnaraðila þann 10. sama mánaðar en það var svohljóðandi:

Sæll B. Ég lít þannig á málið að þú viljir falla frá að aðstoða mig, sem ég get vel skilið því þetta er dálítið óþverralegt mál. Ég setti mig í samband við dómstjóra í morgun og það er verið að kanna leiðir fyrir mig. Ég vil þakka þér fyrir að reyna en það er betra að hætta við en vera hikandi í svona máli, þar sem ósvífnin er nánast takmarkalaus. Ég bið þig að senda mér reikning fyrir það sem ég skulda þér og þú munt fá það borgað, það er alveg ljóst.

Í svari varnaraðila stuttu síðar kom fram að hann væri að vinna greinargerð og að hann myndi hringja í sóknaraðila sama dag. Bera málsgögn með sér að slíkt samtal hafi átti sér stað á milli aðila. Þá hefur varnaraðili lýst því að vegna óánægju sóknaraðila með greiningu hans á málinu með tilliti til málsástæðna hafi hann óskað eftir að annar lögmaður myndi skoða málið stuttlega og heyra í sóknaraðila vegna þess. Er ágreiningslaust að það var gert og að C lögmaður og sóknaraðili ræddust við í síma þennan sama dag. Liggur meðal annars fyrir um það efni í málsgögnum bréf tilgreinds lögmanns, dags. 28. mars 2022.

Fyrir liggur að sóknaraðili sendi tölvubréf til varnaraðila í kjölfar fyrrgreinds símtals en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Það hringdi hér áðan hrokagikkur að nafni Ci, með svo fáránlega túlkun á lögum um fjöleignarhús að mér fannst ég standa í dyragætt Fasisma. Þessi maður þarf fyrst og fremst að fá tilsögn í að hlusta í stað þess að búa sér til algildisreglu út frá sínu þrönga sjónarhorni. Ég kæri mig ekki um að málflutningur svona hroka verði borinn fram fyrir mína hönd eða konu minnar. [...] Ég mun ekki samþykkja einn einasta staf frá þessum manni í málflutningi fyrir mína hönd eða konu minnar. Ég mun frekar gera kröfuna upp og kaupa svo kröfuna af konunni og innheimta hana sjálfur. Þú getur sent mér reikning fyrir þína þjónustu en ég borga ekki krónu fyrir þennan hrokagikk.

Varnaraðili svaraði erindi sóknaraðila og óskaði eftir upplýsingum um hvort ekki ætti að vinna frekar að greinargerð í málinu. Staðfesti sóknaraðili að það væri rétt og að hann hefði í hyggju að „kaupa kröfuna út og fara í málið sjálfur“. Bera málsgögn með sér að viðkomandi krafa, sem sakarefni dómsmálsins laut að, hafi verið gerð upp þann 11. janúar 2022.

Fyrir liggur að varnaraðili sendi sóknaraðila tölvubréf þann 24. febrúar 2022 þar sem vísað var til meðfylgjandi reiknings og vinnuskýrslu fyrir umbeðinni vinnu. Þá var tiltekið að reikningurinn hefði verið gefinn út á sóknaraðila, eins og óskað hefði verið eftir, og að greiðsluseðill hefði verið stofnaður í heimabanka.

Á meðal málsgagna er að finna tilgreinda vinnuskýrslu vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila sem tekur til tímabilsins frá 8. desember 2021 til 10. janúar 2022. Samkvæmt vinnuskýrslunni varði varnaraðili alls 8 klst. í málið á tímabilinu en þar er jafnframt tiltekið að tímagjald hafi verið 29.800 krónur auk virðisaukaskatts en að veittur afsláttur næmi 25%. Greinir í tímaskýrslunni hvaða verkþætti var unnið við á hverjum tíma. Var heildarfjárhæð þóknunar samkvæmt tímaskýrslunni, að teknu tilliti til fyrrgreinds afsláttar, að fjárhæð 221.712 krónur með virðisaukaskatti.

Í samræmi við það liggur fyrir reikningur nr. M-41 sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila þann 24. febrúar 2022 að fjárhæð 221.712 krónur með virðisaukaskatti. Er því lýst á reikningnum að hann hafi tekið til vinnu lögmanns í 8 klukkustundir á tímagjaldinu 29.800 auk virðisaukaskatts en að veittur afsláttur hafi numið 25%. Samkvæmt því var tímagjald varnaraðila vegna vinnu í þágu sóknaraðila með afslætti að fjárhæð 22.350 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var eftirfarandi athugasemd tilgreind á reikningnum:

Vegna yfirferðar gagna v. Húsf. D 4 g. E, samskipti við verkbeiðanda, lögmann stefnanda o.fl.

Í tölvubréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 28. febrúar 2022, kvaðst sóknaraðili meðal annars undrandi á reikningi varnaraðila og þá sérstaklega þeim tímafjölda sem hann tæki til. Þá lýsti sóknaraðili því að erindi um ágreining vegna endurgjaldsins yrði beint til úrskurðarnefndar lögmanna.

II.

Af erindi sóknaraðila til nefndarinnar verður ráðið að þess sé annars vegar krafist að reikningur nr. M-41 sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila þann 24. febrúar 2022 að fjárhæð 221.712 krónur með virðisaukaskatti verði felldur niður. Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í erindi sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í erindi sóknaraðila er vísað til þess að því sé beint að varnaraðila sem boðið hafi fram aðstoð sína vegna varna í innheimtumáli en ætíð komið sér undan fundi með sóknaraðila. Hafi sóknaraðili því ekki getað útskýrt þær forsendur sem legið hafi að baki vörnum gegn innheimtunni.

Um upphaf málsins vísar sóknaraðili til þess að hann hafi tjáð sig á eigin Facebook síðu um löginnheimtu sem hafi þá verið hafin gegn konu sinni. Hafi þar verið um að ræða löginnheimtu vegna kostnaðar af framkvæmdum í fjöleignarhúsi sem óánægja hafi verið um. Er vísað til þess að sóknaraðili hafi ætlað að gera tilraun til að ná leiðréttingu á hvernig að ákvörðun um útgáfu innheimtu hafi verið staðið með von um að hægt yrði að ná samningum og eðlilegu greiðsluflæði vegna krafnanna.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi haft samband við sig sama dag í gegnum samfélagsmiðilinn með skynsamlega fyrirspurn um málið. Hafi varnaraðili þar ráðlagt sóknaraðila að fá sér lögmann vegna málsins. Kveðst sóknaraðili þá einnig hafa spurt varnaraðila hvort hann væri lögmaður og varnaraðili svarað því játandi. Ekki hafi orðið um frekari samskipti aðila í það skiptið.

Sóknaraðili kveðst hafa mætt við þingfestingu málsins og tekið við gögnum frá stefnanda þar sem frestur hafi einnig verið veittur til að skila greinargerð vegna málsins til 4. nóvember 2021. Í kjölfar þess hafi viðbótarfrestur verið veittur og sóknaraðila jafnframt meinað að halda uppi vörnum fyrir stefndu í málinu. Hafi sóknaraðili þá lagt í að finna lögmann í málið og haft samband við varnaraðila þar að lútandi þann 4. desember 2021.

Sóknaraðili lýsir því að hann hafi farið fram á að hitta varnaraðila áður en ákveðið yrði hvort hann mætti í réttinn þann 16. desember 2021. Er vísað til þess að varnaraðili hafi haft um það góð orð en þrátt fyrir það hafi ekkert heyrst frá honum fyrr en degi fyrir mætingu en þá hafi fyrirtöku málsins aftur verið frestað til 7. janúar 2022.

Sóknaraðili kveðst hafa mætt í fyrirtöku málsins þann 7. janúar 2022 þar sem varnaraðili hefði þá ekki enn haft samband vegna málsins. Hafi þá verið upplýst að ekkert þinghald yrði þann dag vegna veikinda dómara.

Því er lýst að aðilar hafi átt í samskiptum þann 10. janúar 2022 en varnaraðili hafi þá upplýst í tölvubréfi að hann væri að vinna í greinargerð. Í samtali sama dag hafi komið fram að aðstoðarmaður varnaraðila væri að vinna greinargerð vegna málsins en sóknaraðili þá tekið fram að þeir ættu enn eftir að hittast til að fara yfir málið. Gæti varnaraðili þannig ekki fengið rétta mynd af öllum málavöxtum öðruvísi en aðilar ræddu saman.

Því er lýst að aðstoðarmaður varnaraðila hafi hringt í sóknaraðila þennan sama dag. Kveðst sóknaraðili hafa tjáð honum að ekki gæti verið að vinna við greinargerð væri hafin enda ætti eftir að fara yfir málið í sameiningu. Lýsir sóknaraðili því einnig að viðmælandi hans hafi verið hrokafullur og ekkert viljað hlusta á sjónarmið sóknaraðila enda kunnugur slíkum málum. Í framaldi af því hafi sóknaraðili endað símtalið og upplýst varnaraðila um í tölvubréfi að ekki væri óskað þjónustu þeirra.

Sóknaraðili vísar til þess að hann vildi að hann hefði tekið alvarlegar þegar strax í upphafi hafi komið fram virðingarleysi af hálfu varnaraðila gagnvart tímamörkum sem hann hafi sett sjálfur, þar á meðal um hvenær varnaraðili hefði samband til að fara yfir málið, fengi málflutningsumboð og fyrirframgreiðslu. Lýsir sóknaraðili því einnig að í niðurlagi tölvubréfs hans til varnaraðila frá 10. janúar 2022 hafi hann tekið fram að ef hann skuldaði varnaraðila eitthvað skildi hann senda reikning fyrir því. Vísar sóknaraðili um það að sanngjörn ómakslaun fyrir að fá frestun vegna forfalla hafi alveg komið til greina. En langa samsuða sem stangist á við framvindu málsins sé annað.

Sóknaraðili vísar til þess að honum hafi borist reikningur frá varnaraðila sem tekið hafi til 8 klst. vinnu á tímagjaldinu 29.800 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt tímaskýrslu hafi ein klukkustund verið skráð þann 8. desember 2021 í samskipti við lögmann gagnaðila sem sé athyglisvert því varnaraðili hafi á þeim tíma hvorki verið búinn að ræða við sóknaraðila né fá umboð. Jafnframt því hafi ein klukkustund verið skráð þann 16. desember 2021 vegna mætingar í héraðsdóm. Bendir sóknaraðili á að deginum áður hafi varnaraðili sagst vera í sóttkví og því fengið framlengdan frest til 7. janúar 2022. Þá hafi varnaraðili upplýst um að hann yrði í sambandi þegar nær liði fyrirtöku málsins en þrátt fyrir það hafi næsta skráning í tímaskýrslu verið 2 klukkustundir þann 29. desember 2021 vegna yfirferðar gagna, uppbyggingu málsvarna o.fl. Ítrekar sóknaraðili að á þessum tíma hafi varnaraðili ekki haft samband við sig um mikilvægustu atriði í vörninni. Byggi enginn alvöru lögmaður upp málsvörn skjólstæðings án samráðs. Sé því hér um hreinan tilbúning að ræða.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi fært í tímaskýrslu 3 klukkustundir þann 4. janúar 2022 vegna samskipta við sóknaraðila, yfirferð gagna, uppbyggingu máls og vinnu við greinargerð. Kveðst sóknaraðili hins vegar ekkert hafa heyrt í varnaraðila þann dag. Þá hafi varnaraðili fært eina klukkustund á málið þann 10. sama mánaðar. Vísar sóknaraðili til þess að af skráningu sé ljóst að mikill tími fari í uppbyggingu máls þegar grundvöllur þess sé ekki skoðaður eða rætt sé við þann um málið sem vill kaupa þjónustuna. Kveðst sóknaraðili engar ráðleggingar hafa fengið frá varnaraðila.

Sóknaraðili lýsir því að hann hafi ákveðið að gera upp kröfuna fyrir dómtöku enda hafi ekkert svigrúm verið til að leita aðstoðar annars lögmanns. Hafi sóknaraðili tekið þann kostnað á sig sem sé raunverulegur og greiddur. Vísar sóknaraðili hins vegar til þess að reikningur varnaraðila eigi ekki rétt á sér og krefst þess að hann verði felldur niður. Hvort framkoma varnaraðila geti talist innan marka siðareglna lögmanna vísar sóknaraðili til nefndarinnar um það efni.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila er lögð áhersla á að hann hafi strax í upphafi sagt við varnaraðila að hann vildi fund um málið, fara yfir mikilvæg gögn þess og ganga frá viðeigandi umboð til að koma fram fyrir hönd stefndu í málinu. Það hafi ekki verið gert. Jafnframt því sé óljóst á hvaða grundvelli varnaraðili beini fjárkröfu að sóknaraðila enda aðild málsins bundin við eiginkonu sóknaraðila sem stefnt hafi verið í málinu. Þá hafi varnaraðili aldrei haft samband að fyrra bragði og sóknaraðila því verið ókunnugt um að nokkur vinna hefði verið hafin við málið.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi sett sig í samband við lögmann gagnaðila án þess að áður hefði verið gengið frá umboði frá þeim sem hann hafi ætlað að vinna fyrir. Þá hafi varnaraðila verið kunnugt um viðhorf sóknaraðila til undirliggjandi innheimtu, en aldrei boðað til fundar vegna þess. Hafi samskiptaleysið leitt til þess að frestir liðu og að betra hafi verið að una því tapi sem þegar var orðið en að fá dóm á málið. Kveðst sóknaraðili einnig mótmæla tímafjölda varnaraðila enda hafi varnaraðili ekkert að rukka fyrir. Sé því eðlilegt að reikningurinn verði felldur niður.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá nefndinni en til vara að þeim verði hafnað.

Varnaraðili lýsir því að samskipti aðila um málið hafi hafist í kjölfar færslu sem sóknaraðili hafi birt á Facebook síðu sinni. Hafi varnaraðili þá sett sig í samband við sóknaraðila og ráðlagt honum að leita sér aðstoðar lögmanns vegna málarekstursins enda atvik flókin. Um mánuði síðar hafi sóknaraðili leitað til varnaraðila símleiðis, þ.e. í byrjun desember 2021, með beiðni um hagsmunagæslu vegna málsins. Er vísað til þess að á þeim tímapunkti hafi sóknaraðili reynt að sinna málinu sjálfur í nafni eiginkonu sinnar, en án þess að eiga aðild að málinu eða vera í fyrirsvari í skilningi III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eða laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá hafi Héraðsdómur Reykjavíkur hafnað framlagningu greinargerðar sóknaraðila fyrir hönd eiginkonunnar.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi samþykkt að skoða málið fyrir sóknaraðila og í kjölfar þess fengið afhent töluvert magn málsgagna. Hafi sóknaraðili sent greinargerð með tölvubréfi en einnig komið með gögnin á skrifstofu varnaraðila sem hafi veitt þeim viðtöku. Þótt ekki hafi verið um boðaðan fund að ræða hafi orðið úr stutt spjall aðila þar sem varnaraðili hafi upplýst um tímagjald, sem síðar hafi komið fram á hinum umþrætta reikningi, en jafnframt að mögulega væri unnt að skoða með tryggingar stefndu vegna málskostnaðar eða gjafsókn vegna málsins. Auk þess hafi verið tekið fram að algengur tími í málum af þessu tagi hlypi á 30-50 klukkustundum. Þá kveðst varnaraðili hafa tjáð sóknaraðila að veittur yrði afsláttur umfram skyldu, en það hafi verið gert af einskærum velvilja í garð sóknaraðila með tilliti til aðstæðna hans.

Varnaraðili vísar til þess að hann sé enn með málsgögn hjá sér og að sóknaraðili hafi engan reka gert að því að fá þau afhent. Sé þar um að ræða stefnu, greinargerð sem sóknaraðili hafi ritað og 24 númeruð dómsskjöl. Hafi alls verið um 121 blaðsíðu að ræða sem þurft hafi að lesa vandlega. Til fyllingar skilnings á málinu kveðst varnaraðili hafa farið yfir dómafordæmi og fræðigreinar vegna málsins.

Varnaraðili vísar til þess að samhliða lestri gagnanna, dóma og fræðirita hafi verið unnið að málinu með hefðbundnum hætti og málinu stillt upp í formi greinargerðar. Sé ljóst af fyrirliggjandi samskiptum að sóknaraðili mátti gera ráð fyrir að fá reikning vegna starfa varnaraðila. Þá hafi ekki reynt á möguleikann að fá gjafsókn eða skoða með tryggingavernd stefndu þar sem þjónusta varnaraðila hafi verið afþökkuð áður en störfum var lokið. Bendir varnaraðili á að hann hafi einnig annast samskipti við lögmann stefnanda og dóminn til að fá aukinn frest til greinargerðarskila auk mætingu í héraðsdóm þar um. Sé því alrangt að varnaraðili hafi hringt til að fá frest, líkt og sóknaraðili vísi til, heldur hafi varnaraðili annast mætingu með venjubundnum hætti, þ.e. með því að hafa samband við lögmann gagnaðila, mætingarmann og síðan að óska mætingar með tilliti til frests með tölvubréfi og afla staðfestingar á hvoru tveggja. Ekki hafi verið sérstök þörf á að upplýsa sóknaraðila um þetta enda hafi frestur verið rúmur eða til 13. janúar 2022.

Varnaraðili kveðst hafa unnið frekar að málinu dagana 29. desember 2021 og 4. janúar 2022 svo sem tímaskýrsla beri með sér. Vegna hertra sóttvarnarreglna í samfélaginu hafi varnaraðili lítið verið á skrifstofu sinni. Hafi því ekki verið boðað til fundar vegna málsins þrátt fyrir að varnaraðili hafi haft það í hyggju ef aðstæður leyfðu eða ræða við sóknaraðila og stefdnu í síma.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi rætt við sóknaraðila í síma um málið þann 7. janúar 2022 en ekki þann 4. sama mánaðar eins og ranglega greini í tímaskýrslu. Hafi símtalið verið í 25 mínútur og snúist um sýn varnaraðila á málið. Hafi varnaraðili þar útskýrt hvernig málið blasti við honum, einkum hvað varðaði kröfugerð og málsástæður. Jafnframt því hafi varnaraðili áréttað að hann þyrfti að ræða við eiginkonu sóknaraðila þar sem hún væri aðili málsins. Hafi sóknaraðili ekki tekið vel í það en varnaraðili upplýst að það væri nauðsynlegt með hliðsjón af aðild málsins. Þá hafi aðilar sammælst um að þau kæmu til fundar hjá varnaraðila um leið og aðstæður leyfðu og greinargerðin væri komin lengra á veg.

Varnaraðili lýsir því að honum hafi borist sérkennilegt tölvubréf frá sóknaraðila þann 10. janúar 2022 sem hafi byggt á misskilningi um að varnaraðili vildi ekki annast málið. Hafi það verið alrangt og varnaraðili leiðrétt það strax. Síðar þann dag hafi aðilar farið yfir málið í símtali með þeim áherslum að önnur málsástæða sem rædd hefði verið væri sterkari en hin. Er vísað til þess að sóknaraðili hafi ekki verið fullsáttur við þá sýn varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili tekið treglega í að mæta til fundar hjá varnaraðila með eiginkonu sinni.

Varnaraðili vísar til þess að ljóst hafi verið á þessum tímapunkti að sóknaraðili teldi sig „ráða“ málinu og að varnaraðili ætti að fara að vilja hans. Hafi varnaraðili hins vegar tjáð sóknaraðila að svo væri ekki heldur væri hlutverk lögmanna að draga fram kosti og galla hvers máls og jafnframt að koma með leiðbeiningar og ráðleggingar varðandi málarekstur þótt það væri umbjóðendum á móti skapi. Þar sem sóknaraðili hafi verið ósáttur við þessi sjónarmið kveðst varnaraðili hafa fengið annan lögmann, C, til að fara yfir málið í samráði við sóknaraðila.

Í kjölfar þess kveðst varnaraðili hafa fengið tölvubréf frá sóknaraðila eftir símtal hans við C þar sem hann hafi lýst því að hann vildi ekki að unnið yrði meira að málinu, að varnaraðili skyldi senda reikning fyrir sinni vinnu og að sóknaraðili hefði í hyggju að greiða kröfuna upp og „kaupa“ hana. Kveðst varnaraðila hafa fallist hendur við þessi óvæntu viðbrögð sóknaraðila og sent honum tölvubréf til að sannreyna vilja hans í þessu efni.

Varnaraðili bendir á að enginn fótur sé fyrir slíku orðalagi sem sóknaraðili noti í málinu. Sé ljóst að erindi sóknaraðila lúti ekki einum staf af störfum varnaraðila, heldur eingöngu einstrengislegri sýn sóknaraðila sem leitt hafi til ákvörðunar um að falla frá málinu. Vísar varnaraðili einnig til þess að ekki hafi verið krafist greiðslu fyrir aðkomu C að málinu, sóknaraðila til hagsbóta.

Varnaraðili byggir á að fagmannlega hafi verið unnið að málinu af hans hálfu og að ekkert hafi verið gert sem fallið hafi utan ákvæða laga nr. 77/1998 eða siðareglna lögmanna. Hafi sóknaraðili enda alltaf verið upplýstur um að vinna við svona mál myndi kosta fjármuni. Jafnframt því hafi sóknaraðili verið upplýstur um tímagjald varnaraðila auk þess að varnaraðili hafi haft í hyggju að leita réttaraðstoðar. Þá hafi engum sjónarmiðum sóknaraðila verið hafnað, heldur hafi varnaraðili ekki verið sammála honum um þunga einnar málsástæðunnar. Eftir standi krafa um greiðslu fyrir umbeðin störf.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi unnið alfarið að greinargerðinni en ekki „fulltrúi“ eða annar lögmaður, líkt og sóknaraðili haldi fram. Er einnig á það bent að sóknaraðili hafi tvívegis tekið fram í tölvubréfum að hann myndi standa skil á greiðslum fyrir vinnu varnaraðila, þar með talið við lok réttarsambands aðila. Hafi enda fagleg og góð ráðgjöf verið í fyrirrúmi. Þá beri reikningur og tímaskýrsla með sér sundurliðun á því sem unnið hafi verið en afsláttur hafi verið í samræmi við það sem varnaraðili hafi lofað sóknaraðila.

Samkvæmt því krefst varnaraðili þess að nefndin vísi kröfum sóknaraðila frá en til vara að þeim verði hafnað. Bendir varnaraðili á að kröfur sóknaraðila séu afar óljósar og varla úrskurðarhæfar.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila er vísað til þess að alþekkt sé svokallað stöðuumboð lögmanna og að þeim sé almennt ekki gert að leggja fram skriflegt umboð aðila við dómstóla. Þá sé ekki hægt að taka afstöðu til óskýrrar túlkunar sóknaraðila á lögum nr. 77/1998 og þess stöðuumboðs sem lögmenn njóta. Er vísað til þess að afstaða varnaraðila til umboðs stefndu, eiginkonu sóknaraðila, byggi á orðum sóknaraðila sjálfs og efni tölvubréfa. Sóknaraðili hafi þannig óskað eftir vinnunni fyrir hönd eiginkonu sinnar og komið málsgögnum til varnaraðila. Kveðst varnaraðili ekki hafa haft ástæðu til annars en að ætla að í því fælist umboð honum til handa. Þá hafi hvorki dómstóllinn né lögmaður stefnanda haft ástæðu til að efast um umboð varnaraðila.

Varnaraðili vísar til þess að reikningur vegna málsins hafi verið sendur til sóknaraðila enda hafi hann verið verkbeiðandi. Byggi það á hinni fornu meginreglu kröfuréttarins um að sá sem óskar eftir vinnu sé ábyrgur fyrir greiðslu.

Þá vísar varnaraðili til þess að allar málsástæður sóknaraðila hafi legið fyrir enda hafi í gögnum málsins verið að finna ýmis skjöl sem unnin hafi verið af honum. Þótt varnaraðili hafi ekki verið sammála mati sóknaraðila á háu gildi þeirra, hafi varnaraðili ekki lagst gegn því að þær ættu að vera með í greinargerð til dómsins. Hafi varnaraðili talið þær allar veikar nema eina sem hafi verið sýnilega sterkust. Í tali um þetta hafi sóknaraðili skirrst við og málið farið í þann farveg sem áður sé lýst.

 

 

 

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu varnaraðila en sú krafa virðist reist á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo vanreifaður að úrskurður verði ekki lagður á málið.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í erindi sóknaraðila til nefndarinnar var annars vegar vísað til ágreinings um endurgjald vegna starfa varnaraðila en með því fylgdi jafnframt útgefinn reikningur af hálfu lögmannsstofu hans sem og vinnuskýrsla að baki honum. Í erindinu var jafnframt vísað til ætlaðra annmarka í störfum og framkomu varnaraðila.

Að áliti nefndarinnar fellur sá ágreiningur um endurgjald og þau kvörtunarefni sem greinir í erindi sóknaraðila vegna starfa varnaraðila undir fyrrgreint valdsvið nefndarinnar og telst það nægjanlega reifað til þess að úrskurður verði lagður á málið. Verður þá einnig að líta til þess að álitaefni um það hvort atvik að baki ágreinings- og kvörtunarefni teljist sannað eða geti hlutrænt séð fallið undir ákvæði laga eða siðareglna lögmanna lúta að þáttum sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en getur ekki varðað frávísun þess frá nefndinni. Samkvæmt því verða ekki talin skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli ætlaðrar vanreifunar á málatilbúnaði sóknaraðila.

II.

Svo sem fyrr greinir er hægt að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir upphafssamskiptum aðila í októbermánuði 2021 sem lutu að málarekstri gegn eiginkonu sóknaraðila sem og frekari samskiptum sem aðilar áttu með sér vegna þess málefnis í desember sama ár. Að mati nefndarinnar verður ráðið af málsgögnum að sóknaraðili hafi óskað eftir lögmannsaðstoð fyrir hönd eiginkonu sinnar hjá varnaraðila vegna þess málareksturs í samskiptum aðila þann 4. desember 2021 og að varnaraðili hafi samþykkt þá verkbeiðni. Samkvæmt því hafi sóknaraðili komið fram gagnvart varnaraðila sem verkbeiðandi þótt eiginkona hans ætti ein aðild til varnar í viðkomandi dómsmáli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Fyrir liggur jafnframt af málsgögnum að sóknaraðili hafði sinnt málinu fyrir hönd eiginkonu sinnar í aðdraganda dómsmálsins, sbr. erindi hans til kærunefndar húsamála og F hf. frá 16. júní og 18. september 2021. Verður jafnframt ráðið af málatilbúnaði aðila og málsgögnum að sóknaraðili hafi haft í hyggju að halda sjálfur uppi vörnum í dómsmálinu fyrir hönd eiginkonu sinnar en að honum hafði verið meinuð sú hagsmunagæsla á grundvelli III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Mun greinargerð þar að lútandi hafa verið tilbúin sem unnin var af sóknaraðili en hún var látin varnaraðila í té ásamt stefnu til yfirferðar þann 4. desember 2021. Þá er ágreiningslaust að sóknaraðili kom við á skrifstofu varnaraðila í desembermánuði 2021 og afhenti honum öll gögn þess máls sem hagsmunagæslan átti að taka til en þau munu hafa verið umtalsverð að umfangi.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan óskaði varnaraðili eftir frekari fresti til greinargerðarskila í tölvubréfi til lögmanns stefnanda þann 7. desember 2021 og var hann á endanum veittur til 13. janúar 2022. Þá liggur fyrir af samskiptum aðila að þeir höfðu í hyggju að ræða saman frekar um efnisvarnir í málinu þegar nær drægi greinargerðarskilum.

Varnaraðili hefur vísað til þess að hann hafi hafið undirbúningsvinnu vegna ritunar greinargerðar í  kjölfar þessa og að sú vinna hafi staðið yfir þegar aðilar ræddu efni mögulegra varna í símtali þann 7. janúar 2022. Þá hafi vinna við ritun greinargerðar verið hafin er sóknaraðili kaus að falla frá því að halda uppi vörnum í dómsmálinu þann 10. janúar 2022 og lauk réttarsambandi aðila en samkvæmt gögnum málsins var undirliggjandi fjárkrafa greidd upp degi síðar.

Að mati nefndarinnar verður ekki leitt af málsgögnum að varnaraðili hafi með einhverjum hætti gert á hlut sóknaraðila þannig að í bága hafi farið við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Bera málsgögn þvert á móti með sér að varnaraðili hafi fallist á verkbeiðni sóknaraðila, hafið undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðra varna í viðkomandi dómsmáli og svarað þeim erindum sem til hans bárust vegna þeirra starfa. Þótt fundur hafi ekki verið haldinn með aðilum á meðan réttarsambandið varði liggur fyrir af samskiptum þeirra að þeir höfðu í hyggju að vera í sambandi þegar nær drægi greinargerðarskil þann 13. janúar 2022 svo sem þeir gerðu í símtölum og tölvubréfasamskiptum 7. og 10. sama mánaðar. Er einnig til þess að líta að þær varnir sem sóknaraðili vildi að hafðar yrðu uppi í málinu munu hafa legið fyrir í greinargerð þeirri sem honum var meinað að leggja fram á dómþingi og látin var varnaraðila í té í desembermánuði 2021. Þá hefur málatilbúnaði varnaraðila um að hann hafi boðið sóknaraðila og eiginkonu hans til fundar í símtali í janúar 2022 ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila.

Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðili hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

IV.

Ágreiningur er einnig á milli aðila um það endurgjald sem varnaraðili áskildi sér vegna þeirra starfa sem hann tók að sér samkvæmt beiðni sóknaraðila. Hefur sóknaraðili þannig á því byggt að með hliðsjón af atvikum eigi varnaraðili ekki rétt til endurgjaldsins og beri því að fella niður viðkomandi reikning. Varnaraðili hefur hins vegar mótmælt þeim málatilbúnaði.

Líkt og áður er rakið verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi óskað eftir aðstoð varnaraðila vegna fyrirhugaðra varna í því dómsmáli sem eiginkonu hans hafði verið stefnt í. Hafi það réttarsamband sem þá hafi stofnast í byrjun desembermánaðar 2021 á milli sóknaraðila og varnaraðila staðið uns því var slitið af hálfu hins fyrrgreinda þann 10. janúar 2022.

Fyrir liggur að á meðan réttarsamband aðila varði hélt varnaraðili vinnuskýrslu og færði þar til bókar þá verkþætti sem unnið var að hverju sinni. Samkvæmt henni varði varnaraðili alls 8 klukkustundum í málið á tímabilinu, þ.e. vegna samskipta við sóknaraðila og lögmann gagnaðila, móttöku og yfirferð gagna, mætingu í héraðsdóm, uppbyggingu viðkomandi máls og vinnu við greinargerð.

Sá reikningur sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila og ágreiningur lýtur að er að öllu leyti í samræmi við efni fyrrgreindrar vinnuskýrslu. Nánar tiltekið er um að ræða reikning nr. M-41 sem gefinn var út þann 24. febrúar 2022 að fjárhæð 221.712 krónur með virðisaukaskatti. Var því lýst á reikningnum að hann tæki til vinnu lögmanns í 8 klukkustundir á tímagjaldinu 29.800 auk virðisaukaskatts en að veittur afsláttur væri 25%. Samkvæmt því var tímagjald varnaraðila vegna vinnu í þágu sóknaraðila með afslætti að fjárhæð 22.350 krónur auk virðisaukaskatts samkvæmt reikningnum. Þá var því lýst á reikningnum til hvaða verkþátta hann tók, svo sem greinir í málsatvikalýsingu að framan.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Svo sem greinir í málsatvikalýsingu að framan hefur varnaraðili vísað til þess fyrir nefndinni að við móttöku gagna frá sóknaraðila hafi hann upplýst um tímagjald sitt sem og að algengur tímafjöldi vegna reksturs slíkra mála væri á bilinu 30 – 50 klukkustundir. Hefur sá málatilbúnaður varnaraðila ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi uppfyllt þær skyldur gagnvart sóknaraðila sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna en þar er meðal annars kveðið á um að lögmanni beri að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum kostnaði eftir föngum sem og á hvaða grundvelli þóknun sé reiknuð.

Að mati nefndarinnar verður ekki séð að tímafjöldi sá sem tilgreindur er í vinnuskýrslu varnaraðila og lá til grundvallar hinum umþrætta reikningi sem gefinn var út á hendur sóknaraðila hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá vinnu og verkþætti sem varnaraðila var falið að sinna. Verður þá að líta til þess að þeir verkþættir sem um ræðir lutu að samskiptum sem og nauðsynlegri vinnu við að undirbyggja vörn í einkamáli fyrir dómstólum, þar á meðal yfirferð og greiningu þeirra málsgagna sem sóknaraðili lét varnaraðila í té. Ágreiningslaust er að aðilar ræddu með sér mögulegar málsástæður í símtali þann 7. janúar 2022 sem stóð yfir í rúmar 25 mínútur og verður samkvæmt því að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi á þeim tíma annast greiningu málsins með tilliti til gagna og fyrirhugaðs málatilbúnaðar fyrir dómi. Þá var áskilið tímagjald varnaraðila, sem var með afslætti að fjárhæð 22.350 krónur auk virðisaukaskatts, hóflegt að mati nefndarinnar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að hvorki séu efni til að fella niður hinn umþrætta reikning sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila þann 24. febrúar 2022 né til að lækka áskilda þóknun samkvæmt honum. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa varnaraðila áskildi sér vegna starfa samkvæmt beiðni sóknaraðila var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu sóknaraðila um að áskilið endurgjald varnaraðila verði fellt niður eða sæti lækkun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, B lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni, er hafnað.

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa í þágu sóknaraðila, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson