Mál 26 2022

Mál 26/2022 

Ár 2022, þriðjudaginn 20. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2022: 

A 

gegn 

B lögmanni  

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 16. ágúst 2022 erindi sóknaraðila, [A] vegna starfa varnaraðila, [B] lögmanns, með starfsstöð að […] og ætlaðra brota hans í starfi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7. september 2022 og barst hún þann 13. sama mánaðar. Var sóknaraðila send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 16. september 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að sóknaraðili haft birt umfjöllun á samfélagsmiðlinum TikTok um ætluð kynferðisbrot og annað ofbeldi tilgreinds aðila. Mun sá aðili er umfjöllunin laut að hafa leitað til lögmannsstofu varnaraðila þann 5. ágúst 2022 með beiðni um hagsmunagæslu vegna málsins. 

Fyrir liggur að varnaraðili tók að sér málið í þágu gagnaðila sóknaraðila. Ágreiningslaust er að málsaðilar áttu með sér samtal vegna þess þennan sama eftirmiðdag, þ.e. þann 5. ágúst 2022, þar sem varnaraðili kom kröfum umbjóðanda síns á framfæri. Málsgögn bera með sér að í framhaldi af því samtali hafi sóknaraðili sent tölvubréf til varnaraðila þar sem sjónarmiðum hennar var lýst varðandi þær kröfur sem settar höfðu verið fram. Því erindi svaraði varnaraðili samdægurs, þ.e. nánar tiltekið með tölvubréfi sem mun hafa verið sent til sóknaraðila kl. 18:05 fyrrgreindan dag en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið: 

Þú misskilur kannski eitthvað hvernig lögmenn vinna. Ég gæti hagsmuna [C] og geri þá kröfu að þú takir út allar ávirðingar í hans garð á samfélagsmiðlum. Þá er krafa um að þú biðjist afsökunar á þeim ummælum sem þú hefur haft um [C] á samfélags- og vefmiðlum. Hvoru tveggja skal berast mér fyrir lok dags á sunnudaginn n.k. – Farir þú ekki að ofangreindum kröfum hefur [C] falið mér að höfða má[l] gegn þér fyrir héraðsdómi, þar sem krafa verður gerð um ómerkingu ummæla, greiðslu miskabóta, auk þess sem krafist verður fangelsisrefsingar yfir þér. – Verði þessi leið farin kann hún að reynast þér verulega kostnaðarsöm, auk þess sem þér kann að vera gerð fangelsisrefsing. Ég ráðlegg þér eindregið að leita lögmannsaðstoðar vegna ofangreindra krafna. 

Kvörtun sóknaraðila í málinu lýtur að fyrrgreindum samskiptum en á því er byggt að háttsemi varnaraðila að þessu leyti hafi verið andstæð góðum lögmannsháttum. 

Málsgögn bera með sér að sóknaraðili hafi ekki fallist að öllu leyti á þær kröfur sem varnaraðili setti fram fyrir hönd umbjóðanda síns í samskiptum þann 5. ágúst 2022, þ.e. hún mun hafa fjarlægt umþrætt efni af viðkomandi samfélagsmiðlasíðu en hafnað því að biðjast afsökunar á ummælum í garð umbjóðanda varnaraðila. Tilgreindar kröfur voru jafnframt ítrekaðar í bréflegu erindi sem varnaraðili sendi fyrir hönd umbjóðanda síns til sóknaraðila þann 10. sama mánaðar. Þar sem sættir tókust ekki höfðaði umbjóðandi varnaraðila dómsmál á hendur sóknaraðila með birtingu stefnu í sama mánuði en málið mun hafa verið þingfest í Héraðsdómi [...] þann […], sbr. málið nr. […]. Gerir umbjóðandi varnaraðila, sem stefnandi, meðal annars þær dómkröfur í málinu að sóknaraðila verði gert að greiða honum nánar tilgreindar miskabætur, að ummæli verði ómerkt og að sóknaraðili sæti ákæru og refsingu eftir ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Sóknaraðili krefst þess í málinu að varnaraðila verði gert að sæta þyngstu agaviðurlögum sem lög leyfa, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. 

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi haft samband við sig fyrir hönd umbjóðanda síns. Hafi varnaraðili í þeim samskiptum hótað sóknaraðila málsókn og fangelsisrefsingu. Jafnframt því hafi varnaraðili ekki gefið sóknaraðila kost á að leita réttar síns með því að ráðfæra sig við lögmann. Hafi varnaraðili þannig haft samband eftir kl. 15:00 á föstudegi og veitt frest til kl. 16:00 næsta sunnudag til að verða við kröfum umbjóðandans. Kveðst sóknaraðili ekki hafa náð að fá ráðleggingar frá lögmanni innan þess skamma frests. 

Nánar tiltekið um kvörtunarefni vísar sóknaraðili til þess að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti og ýmsu ofbeldi af hálfu ákveðins manns. Hafi hún birt frásögn um það efni á eigin samfélagsmiðlasíðu. 

Sóknaraðili lýsir því að í kjöfar þeirrar birtingar, þ.e. um kl. 15:00 föstudaginn 5. ágúst 2022, hafi varnaraðili haft samband símleiðis og krafist þess fyrir hönd viðkomandi manns að frásögnin yrði fjarlægð og að jafnframt yrði birt afsökunarbeiðni til hans. Þá hafi varnaraðili í beinu framhaldi símtalsins sent hið umþrætta tölvubréf til sóknaraðila þar sem frestur hafi verið veittur til sunnudagsins 7. ágúst 2022 til þess að verða við kröfunum. 

Sóknaraðili vísar til þess að almennt sé ekki unnt að ná í lögmann eftir kl. 15:00 á föstudögum. Í öllu falli hafi henni ekki tekist að fá ráðgjöf lögmanns þetta síðdegi vegna þeirra krafna sem varnaraðili hafi sett fram fyrir hönd skjólstæðings síns. Hafi sóknaraðili því þurft að bregðast við hótunum varnaraðila án þess að hafa átt þess kost að leita sér aðstoðar. Byggir sóknaraðili á að óbilgirni varnaraðila hljóti að vera brot á góðum lögmannsháttum og í andstöðu við siðareglur lögmanna. 

Á það er bent að í hinu umþrætta tölvubréfi varnaraðila hafi verið tiltekið að krafist yrði fangelsisrefsingar yfir sóknaraðila og að sóknaraðili kynni að vera gerð fangelsisrefsing. Hafi varnaraðili með því orðalagi viðhaft alvarlega hótun í garð sóknaraðila. Hafi sú hótun valdið sóknaraðila ótta enda hún talið að hún hefði aðeins tvo frídaga til að forða sér frá fangelsi. Þá hafi orðalag í tölvubréfi varnaraðila ekki mátt skilja öðruvísi en svo að varnaraðili hefði raunverulega möguleika á að koma sóknaraðila í fangelsi og það býsna hratt. 

Sóknaraðili kveðst nú hafa fengið þær upplýsingar að varnaraðili geti mögulega fyrir hönd umbjóðanda síns krafist þess í einkarefsimáli að sóknaraðila verði gerð fangelsisrefsing en að líkurnar á því að á slíkt yrði fallist fyrir dómi séu engar. Séu engin fordæmi fyrir slíku í meiðyrðamálum fyrir íslenskum dómstólum. Er á því byggt að varnaraðili hafi í reynd beitt blekkingum og reynt að þvinga sóknaraðila með ólögmætum hætti til að verða við þeim kröfum sem hann setti fram. Hljóti slíkt að vera brot á góðum lögmannsháttum og í andstöðu við siðareglur lögmanna. Krefst sóknaraðili þess því að varnaraðili verði sviptur lögmannsréttindum og beittur þyngstu agaviðurlögum samkvæmt lögum.  

III. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að úrskurðað verði að hann hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst varnaraðili í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.  

Varnaraðili vísar til þess að nánar tilgreindur aðili hafi leitað til sín í ágústmánuði 2022 vegna grófra, rætinna og falskra ásakana sem sóknaraðili hafi borið á hann um kynferðisbrot og ýmis önnur lögbrot og/eða siðferðislega ámælisverða hegðun. Í kjölfar fundar með honum kveðst varnaraðili hafa sett sig í samband við sóknaraðila og krafist þess að ávirðingar þær, sem hún hafi sett fram á hendur umbjóðanda varnaraðila, yrðu fjarlægðar af samfélagsmiðlum hennar innan tilskilinna tímamarka. Ef ekki yrði fallist á kröfuna myndi varnaraðili, fyrir hönd umbjóðanda síns, beita þeim lögmæltu úrræðum sem honum stæðu til boða gegn sóknaraðila. Í kjölfar símtals aðila hafi varnaraðili ítrekað þá kröfu í tölvubréfi til sóknaraðila.  

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi ekki orðið við kröfum umbjóðanda hans og því hafi málinu verið stefnt í kjölfarið fyrir Héraðsdóm […] þar sem málið hafi verið þingfest þann [...], sbr. málið nr. […]. 

Varðandi aðalkröfu um frávísun málsins frá nefndinni vísar varnaraðili til þess að það sé vandkvæðum bundið að taka til varna í málinu þar sem erindi sóknaraðila beri ekki svo glögglega með sér hvert kvörtunarefnið sé. Þannig sé fullyrt í erindi sóknaraðila að „hótanir“ varnaraðila í hennar garð séu brot á góðum lögmannsháttum og í andstöðu við siðareglur lögmanna. 

Varnaraðili bendir á að góðum lögmannsháttum sé lýst í greinum 1. – 7. í siðareglum lögmanna, þó sú upptalning sé ekki tæmandi á því sem fellt verði undir góða lögmannshætti. Byggir varnaraðili hins vegar á að ljóst sé að það að lögmaður sendi frá sér kröfubréf og stefni svo inn dómsmáli í kjölfarið geti ekki á nokkurn hátt talist brjóta gegn „góðum lögmannsháttum“ eða verið „í andstöðu við siðareglur lögmanna“, svo sem sóknaraðili fullyrði. 

Samkvæmt því byggir varnaraðili á að hann geti ekki brugðist við kvörtun sóknaraðila með eðlilegum hætti þar sem óljóst sé undan hverju sé nákvæmlega kvartað, þ.e. hvort kvartað sé yfir því að varnaraðili hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir aðila sem ranglega hafi verið ásakaður um kynferðisbrot, að gerð hafi verið krafa um að rógburður sóknaraðila yrði dreginn til baka og bréf þess efnis sent eða að upplýst hafi verið að farið yrði fram á að sóknaraðili yrði beittur lögmæltum viðurlögum í máli sem kynni að verða höfðað. Beri nefndinni því að vísa málinu frá nefndinni. 

Til vara krefst varnaraðili þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varðandi kröfugerð sóknaraðila bendir varnaraðili á að reynt sé að koma höggi á lögmann sem ráðinn hafi verið til þess að gæta hagsmuna manns sem orðið hafi fyrir gegndarlausum og tilefnislausum árásum. Á engum tímapunkti hafi varnaraðili samkennt sig umbjóðanda sínum og eigi varnaraðili að sama skapi skýlausan rétt til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gæti fyrir hönd umbjóðandans, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Beri einnig að líta til þess að lögmönnum sé falið það hlutverk að gæta réttinda einstaklinga fyrir dómi. Sé það svo stjórnarskrárvarinn réttur einstaklinga að leita atbeina dómstóla með mál sín. 

Varnaraðili vísar til þess að það, að einstaklingar upplifi hluti með einhverjum tilteknum hætti, hafi ekkert vægi við meðferð mála hjá nefndinni, ef sú háttsemi sem málið varðar brýtur ekki efnislega í bága við lög eða siðareglur lögmanna. Atvik mála, ásetningur einstaklinga og annað slíkt verði að meta á hlutlægum grundvelli og sé upplifun málsaðila því ekki til þess fallin að varpa ljósi á efnisatriði sem hafi þýðingu við úrlausn mála. 

Að endingu kveðst varnaraðili ítreka kröfu sína um málskostnað úr hendi sóknaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. 

Niðurstaða 

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu varnaraðila en sú krafa er reist á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo vanreifaður að varnaraðili eigi erfitt með að halda uppi vörnum og verði úrskurður því ekki lagður á málið. Er þá einnig til þess að líta að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar. 

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Er þar meðal annars kveðið á um í 1. mgr. 27. gr. að sá sem telur að að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar er tiltekið í 2. tölulið að nefndin fjalli um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum lögmanna.  

Í kvörtun sóknaraðila er sérstaklega vísað til þeirra atvika og þeirrar háttsemi í störfum varnaraðila sem sóknaraðili telur að hafi verið andstæð góðum lögmannsháttum. Lýtur kvörtunarefnið þannig að þeim samskiptum og kröfum sem varnaraðili hafði uppi fyrir hönd umbjóðanda síns gagnvart sóknaraðila í símtali og tölvubréfi þann 5. ágúst 2022 og þeim fresti sem sóknaraðila var veittur til að bregðast við þeim. Fellur það umkvörtunarefni gegn varnaraðila undir fyrrgreint valdsvið nefndarinnar og telst það nægjanlega reifað til þess að úrskurður verði lagður á málið. Verður heldur ekki á það fallist að framsetning málatilbúnaðar sóknaraðila hafi gert varnaraðila erfitt um vik að halda uppi vörnum í málinu. Verður þá jafnframt að líta til þess að álitaefni um það hvort atvik að baki kvörtunarefni geti hlutrænt séð fallið undir ákvæði laga eða siðareglna lögmanna lúta að þáttum sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en getur ekki varðað frávísun þess frá nefndinni. Samkvæmt því verða ekki talin skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli ætlaðrar vanreifunar á málatilbúnaði sóknaraðila. 

Svo sem fyrr greinir getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. 

III. 

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan tók varnaraðili að sér hagsmunagæslu í þágu gagnaðila sóknaraðila vegna umfjöllunar sem sóknaraðili hafði birt á samfélagsmiðlum um ætluð kynferðisbrot og aðra ofbeldisfulla hegðun viðkomandi. Ágreiningslaust er að aðilar áttu með sér símtal um kl. 15:00 föstudaginn 5. ágúst 2022 þar sem varnaraðili krafðist þess fyrir hönd umbjóðanda síns að umfjöllunin yrði fjarlægð af samfélagsmiðlinum og að beðist yrði afsökunar á henni. Skiptust aðilar jafnframt á tölvubréfum síðar þennan sama dag þar sem varnaraðili ítrekaði meðal annars fyrrgreindar kröfur og að við þeim þyrfti að verða fyrir lok sunnudagsins 7. sama mánaðar. Var því lýst að ef ekki yrði farið að kröfunum hefði varnaraðila verið falið að höfða mál gegn sóknaraðila þar sem krafist yrði ómerkingar ummæla, greiðslu miskabóta og fangelsisrefsingar yfir sóknaraðila. 

Kvörtun sóknaraðila lýtur að því að varnaraðili hafi ekki viðhaft góða lögmannshætti í tilgreindum samskiptum. Hafi varnaraðili þannig annars vegar veitt sóknaraðila of skamman frest til að bregðast við kröfunum enda hafi sóknaraðila ekki gefist ráðrúm til að ráðfæra sig við lögmann vegna krafnanna. Þá hafi í kröfugerðinni falist bæði blekking og hótun af hálfu varnaraðila um ætlaða fangelsisrefsingu enda séu engin fordæmi fyrir slíkri niðurstöðu í einkarefsi- eða meiðyrðamálum fyrir íslenskum dómstólum. 

Þar sem varnaraðili tók að sér hagsmunagæslu í þágu gagnaðila sóknaraðila hvíldi á honum sú skylda að rækja af alúð þau störf sem honum var trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998.  

Í V. kafla siðareglna lögmanna er jafnframt kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá kemur fram í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum en í ákvæðinu er jafnframt nánar skilgreint hvað teljist meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi. 

Ágreiningslaust er að í hinum umþrættu samskiptum kom varnaraðila fram fyrir hönd umbjóðanda síns og kynnti sóknaraðila þær kröfur sem umbjóðandi hans kaus að halda uppi vegna umfjöllunar sóknaraðila. Verður einnig skýrlega ráðið af orðalagi hins umþrætta tölvubréfs varnaraðila, dags. 5. ágúst 2022, að hann reki þar erindi umbjóðanda síns  þar sem kröfur hans gagnvart sóknaraðila eru sérstaklega kynntar. Er jafnframt rakið í hinu umþrætta erindi varnaraðila að umbjóðandi hans hafi falið honum að höfða mál gegn sóknaraðila ef ekki yrði á kröfurnar fallist auk þess sem sóknaraðili var hvattur til að leita sér lögmannnsaðstoðar vegna krafnanna.  

Að mati nefndarinnar verður annars vegar að skoða samskipti aðila og framsetningu í tölvubréfi varnaraðila til sóknaraðila, dags. 5. ágúst 2022, í því ljósi að þar er hann að kynna málstað og kröfugerð umbjóðanda síns vegna þeirrar umfjöllunar sem sóknaraðili hafði birt um ætluð kynferðisbrot og aðra ofbeldisfulla hegðun umbjóðandans á opinberum vettvangi. Verður að áliti nefndarinnar að skoða framsetningu varnaraðila vegna kröfu umbjóðandans um að ummælin yrðu fjarlægð og viðbrögð ef sóknaraðili féllist ekki á hana innan tiltekins frests, þótt skammur væri, sem lið í hagsmunagæslu varnaraðila vegna þeirra alvarlegu ásakana sem á umbjóðanda hans höfðu verið bornar á samfélagsmiðlum. Þá verður að líta til þess að tilvísun til fyrirhugaðrar málshöfðunar og kröfugerðar þar um fangelsisrefsingu á sér meðal annars stoð í 234. – 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af því og fyrrgreindri skyldu varnaraðila til að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns, verður ekki talið að hann hafi viðhaft blekkingar í garð sóknaraðila svo sem kvörtun er reist á um þetta efni. Þá verður að mati nefndarinnar ekki séð, eins og atvikum er háttað, að framsetning í hinu umþrætta erindi varnaraðila að þessu leyti hafi falið í sér hótun eða ótilhlýðilega þvingun í skilningi 35. gr. siðareglnanna. 

Á hinn bóginn er þess að gæta að í hinum umþrættu samskiptum var jafnframt sett fram sú krafa af hálfu varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda að sóknaraðila bæðist afsökunar á viðkomandi ummælum innan sama skamma frests og áður greinir. Þótt samskiptin hafi vissulega verið þáttur í hagsmunagæslu varnaraðila í þágu umbjóðanda síns og að hann hafi átt kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætti, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, bar varnaraðila eftir sem áður að gæta þeirra skyldna gagnvart sóknaraðila, sem gagnaðila umbjóðanda hans, sem siðareglurnar kveða á um. Bar varnaraðili samkvæmt því ábyrgð á að efni og framsetning í samskiptum hans við sóknaraðila samræmdust ákvæðum V. kafla siðareglnanna. 

Um tilgreinda kröfugerð verður ekki framhjá því litið að mati nefndarinnar að í þeim athöfnum sem hún laut að gagnvart sóknaraðila, þ.e. að sóknaraðila bæðist afsökunar á umþrættum ummælum, gat falist afstaða til þeirra saka sem á hana voru bornar af hálfu umbjóðanda varnaraðila og þannig möguleg ráðstöfun á sakarefni ef viðkomandi mál rataði síðar fyrir dómstóla eða lögð yrði fram lögreglukæra vegna þess. Vísaði varnaraðili enda réttilega til þess í tölvubréfi sínu til sóknaraðila þann 5. ágúst 2022, í samræmi við fyrirmæli 37. gr. siðareglna lögmanna, að hann ráðlegði sóknaraðila „eindregið að leita lögmannsaðstoðar vegna ofangreindra krafna“. Þrátt fyrir þá ráðgjöf varnaraðila verður ekki talið að sóknaraðila hafi í reynd gefist raunhæfur kostur á að leita sér lögmannsaðstoðar, innan þess skamma frests sem henni var veittur til athafna að þessu leyti, vegna þeirrar kröfugerðar sem laut að afsökunarbeiðni í garð umbjóðanda varnaraðila. Verður heldur ekki talið að varnaraðila hafi getað dulist um það atriði enda ágreiningslaust að aðilar áttu fyrst í samskiptum eftir kl. 15:00 föstudaginn 5. ágúst 2022 en sá frestur sem varnaraðili markaði sóknaraðila til athafna að þessu leyti var til dagsloka næsta sunnudag, þ.e. 7. ágúst 2022. Með þeirri háttsemi sýndi varnaraðili ekki þá tillitssemi gagnvart sóknaraðila, sem gagnaðila umbjóðanda hans, sem áskilin er í 34. gr. siðareglnanna og telst hún aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. 

Rétt þykir að aðilar beri hver sinn kostnað af máli þessu. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni, er hafnað. 

Sú háttsemi varnaraðila, [B] lögmanns, að gera kröfu um að sóknaraðili, [A], bæðist afsökunar á nánar tilgreindum ummælum um umbjóðanda varnaraðila innan þess skamma tímafrests sem veittur var og var utan almenns skrifstofutíma lögmanna, er aðfinnsluverð. Að öðru leyti verður ekki talið að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. 

Málskostnaður fellur niður. 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Valborg Þ. Snævarr, formaður 

Einar Gautur Steingrímsson 

Kristinn Bjarnason  

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

________________________ 

Sölvi Davíðsson