Mál 29 2022

Mál 29/2022

Ár 2022, þriðjudaginn 20. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. ágúst 2022 erindi sóknaraðila, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við varnaraðila, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum varnaraðila í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7. september 2022 og barst hún þann 14. sama mánaðar. Sóknaraðila var send greinargerð varnaraðila til athugasemda með bréfi dags. 16. september 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 7. október 2022 og voru þær kynntar varnaraðila með bréfi þann 10. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningslaust er í málinu að sóknaraðili leitaði til varnaraðila þann 19. ágúst 2022 með beiðni um hagsmunagæslu vegna málefna sem lutu að hjónaskilnaði annars vegar og meðferð máls fyrir barnaverndaryfirvöldum hins vegar. Liggur fyrir umboð frá þeim degi sem sóknaraðili veitti varnaraðila til hagsmunagæslunnar. Þá liggur fyrir að sóknaraðili greiddi fyrir fund aðila þennan sama dag með reiðufé að fjárhæð 20.000 krónur. Er á meðal málsgagna að finna reikning nr. 99-22 sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út vegna þeirrar greiðslu sóknaraðila þann sama dag en á honum var að finna eftirfarandi skýringu:

Þóknun B lögmanns, C lögmannsstofa, fyrir fund þann 19. ágúst 2022. Greitt með reiðufé.

Í málatilbúnaði sínum hefur sóknaraðili hins vegar á því byggt að hann hafi hvorki móttekið reikning né kvittun fyrir greiðslunni. Hafi hann þannig fyrst vitað af reikningi þessum við meðferð málsins fyrir nefndinni.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréf sem sóknaraðili sendi til varnaraðila í kjölfar fundar aðila þann 19. ágúst 2022. Vísað sóknaraðili þar til samnings sem fylgdi með erindinu og hann hafði gert við barnaverndaryfirvöld. Óskaði sóknaraðili einnig eftir að varnaraðili myndi upplýsa um stöðu mála eftir samtöl við barnaverndaryfirvöld og eiginkonu sóknaraðila og að nánar tilgreindum upplýsingum yrði komið á framfæri við barnaverndaryfirvöld.

Samkvæmt tímaskýrslu, sem varnaraðili hefur lagt fyrir nefndina vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, átti varnaraðili í samskiptum við D, eiginkonu sóknaraðila og sóknaraðila sjálfan eftir fund aðila þann 19. ágúst 2022. Var þá ein klukkustund færð í tímaskýrslu. Degi síðar, þ.e. laugardaginn 20. ágúst 2022, færði varnaraðili jafnframt í tímaskýrslu hálfa klukkustund vegna samskipta við starfsmann D og eiginkonu sóknaraðila. Þá færði varnaraðili eina klukkustund í tímaskýrsluna þann 26. ágúst 2022 vegna samskipta við D og sóknaraðila.

Af málatilbúnaði aðila, sem samræmist jafnframt efni fyrrgreindrar tímaskýrslu, verður ráðið að aðilar hafi átt samtal þann 26. ágúst 2022. Kveðst varnaraðili þar hafa upplýst sóknaraðila um stöðu málsins auk þess að ítreka kröfu sem hann hafi gert á fundi aðila þann 19. sama mánaðar um fyrirfram greiðslu inn á lögmannskostnað að fjárhæð 100.000 krónur. Sóknaraðili hefur hins vegar vísað til þess að krafa um tilgreinda greiðslu hafi fyrst komið fram í þessu samtali aðila. Aðilar eru þó sammála um að þeir hafi rætt sín á milli um að funda vegna málsins þann 30. ágúst 2022.

Ágreiningslaust er að aðilar áttu með sér samtal þann 29. ágúst 2022 þar sem sóknaraðili mun hafa upplýst um að hann myndi ekki mæta til fundar næsta dag. Aðila greinir hins vegar á um hvort varnaraðili hafi viðhaft hótanir í garð sóknaraðila í samtalinu. Fyrir liggur þó að réttarsambandi aðila var slitið í kjölfar þessa samtals. Gaf varnaraðili út reikning þennan sama dag vegna starfa í þágu sóknaraðila, sbr. reikning nr. 98-22 að fjárhæð 70.649 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Mun krafa á grundvelli reikningsins hafa verið stofnuð í heimabanka sóknaraðila en sóknaraðili kveðst hvorki hafa móttekið reikninginn sjálfan frá varnaraðila né tímaskýrslu að baki honum. Þá hefur verið upplýst fyrir nefndinni að sóknaraðili hafi greitt reikninginn á eindaga þann 5. september 2022.

Á meðal málsgagna er einnig að finna yfirlýsingu frá eiginkonu sóknaraðila, dags. 7. október 2022. Kemur þar fram að varnaraðili hafi hringt í viðkomandi í eitt skipti, þ.e. þann 19. ágúst 2022. Varnaraðili hafi hins vegar ekki hringt til viðkomandi á ný, þ.e. hvorki þann 20. ágúst 2022 né síðar.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar af hálfu sóknaraðila með erindi sem móttekið var þann 30. ágúst 2022.

II.

Af erindi sóknaraðila verður helst ráðið að það taki annars vegar til ágreinings á milli hans og varnaraðila um endurgjald eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í erindi sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í erindi sóknaraðila er vísað til þess að varnaraðili hafi tekið að sér hagsmunagæslu í hans þágu en þrátt fyrir það hafi varnaraðili farið fram með hótanir og fjárkúganir gegn sóknaraðila, þar á meðal um notkun trúnaðarupplýsinga. Vísar sóknaraðili til þess að hann viti ekki hvað eigi til bragðs að taka og að hann hræðist varnaraðila mjög.

Um forsögu málsins vísar sóknaraðili til þess að hann standi í skilnaði auk þess að vera með mál til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum. Kveðst sóknaraðili hafa leitað til varnaraðila vegna þeirra mála þann 19. ágúst 2022 en í stað þess að fá aðstoð frá honum hafi hann lent í hótunum og fjárkúgunum af hálfu varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til þess að á fyrsta fundi aðila, sem fram hafi farið þann 19. ágúst 2022, hafi hann greitt varnaraðila 20.000 krónur í reiðufé án þess að fá kvittun fyrir greiðslunni. Lýsir sóknaraðili því að aðilar hafi rætt saman aftur þann 26. ágúst 2022 en þá hafi varnaraðili boðað til nýs fundar þann 30. sama mánaðar og óskað eftir að sóknaraðili myndi þá greiða 100.000 krónur í reiðufé.

Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi hringt á ný til varnaraðila þann 29. ágúst 2022 í því skyni að fresta fyrirhuguðum fundi þar sem hann gæti ekki innt af hendi umbeðna greiðslu. Lýsir sóknaraðili því að varnaraðili hafi þá orðið mjög reiður og ítrekað kröfu um greiðslu en að öðrum kosti myndi varnaraðili hafa allt af sóknaraðila. Jafnframt því hafi varnaraðili hótað að nota trúnaðraupplýsingar um sóknaraðila gegn honum í viðkomandi máli fyrir barnaverndaryfirvöldum. Í áframhaldandi samræðum aðila hafi varnaraðila lækkað þá fjárhæð sem hann hafi áskilið sér en viðhaft áfram hótanir auk þess að upplýsa að hann hefði þegar hringt í „Barnavernd“.

Vísað er til þess að stuttu eftir símtalið hafi varnaraðili sent kröfu í heimabanka sóknaraðila að fjárhæð 70.649 krónur án frekari skýringa eða útgáfu reiknings. Kveðst sóknaraðili hræddur um að varnaraðili haldi áfram að senda reikninga og gera kröfu um frekari fjármuni.

Sóknaraðili vísar til þess að hann þurfi vernd gegn varnaraðila og aðstoð við að stöðva hótanir hans. Lýsir sóknaraðili því einnig að hann vilji ekki fá frekari kröfur frá varnaraðila vegna vinnu sem þegar hafi verið greitt fyrir. Þá vísar sóknaraðili til þess að hann hafi undir höndum upptöku af samtali við varnaraðila þar sem fram komi að varnaraðili hafi þegið 20.000 krónur frá sóknaraðila og að hann hafi þegar hringt í „Barnavernd“.

Í viðbótarathugasemdum sínum kveðst sóknaraðili gáttaður á þeirri röngu upplýsingagjöf sem komið hafi fram í málatilbúnaði varnaraðila í málinu.

Í fyrsta lagi vísar sóknaraðili til þess að það sé rangt að hann hafi óskað eftir að fá að inna af hendi greiðslu að fjárhæð 20.000 krónur til varnaraðila með reiðufé og að varnaraðili hafi veitt afslátt af tímagjaldi. Kveðst sóknaraðili þannig aldrei nota reiðufé í viðskiptum heldur hafi það verið gert í þessu tilviki vegna kröfu frá varnaraðila um það efni. Þá hafi sóknaraðili hvorki móttekið kvittun eða reikning fyrir greiðslunni né hafi varnaraðili upplýst um ætlaðan afslátt. Hafi sóknaraðili þannig fyrst séð þann reikning sem varnaraðili vísi til undir meðferð málsins fyrir nefndinni.

Í öðru lagi vísar sóknaraðili til þess að það sé rangt að varnaraðili hafi upplýst um tímagjald sitt með afslætti og að hann hafi óskað eftir fyrirfram greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur. Hafi varnaraðili gert hvorugt. Á fundi aðila hafi varnaraðili upplýst það eitt að dýrt væri að reka mál fyrir dómstólum og að slíkur kostnaður myndi hlaupa á milljónum króna. Í símtali síðar, þegar sóknaraðili hafi óskað eftir fundi á ný með varnaraðila, hafi varnaraðili óskað eftir greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur í reiðufé.

Í þriðja lagi vísar sóknaraðili til þess að það sé ekki rétt að varnaraðili hafi hringt þann 26. ágúst 2022 og óskað eftir fundi til að fara yfir stöðu mála. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi hringt í varnaraðila til að fá nýjan fund vegna fyrirhugaðrar umsóknar til viðkomandi sýslumannsembættis um umgengnisrétt. Hafi varnaraðili þá upplýst að slíkt myndi útheimta mikla vinnu og að af þeim sökum þyrfti að berast greiðsla að fjárhæð 100.000 krónur.

Í fjórða lagi vísar sóknaraðila til þess að það sé rangt að hann hafi verið reiður í símtali þann 29. ágúst 2022 og að hann hafi ekki viljað greiða varnaraðila fyrir hans vinnu. Kveðst sóknaraðili hafa verið hræddur í símtalinu vegna hótana varnaraðila. Um leið og símtalið hafi endað hafi varnaraðili sent kröfu í heimabanka sóknaraðila að fjárhæð 70.649 krónur. Vísar sóknaraðili til þess að það fari ekki saman að krefjast greiðslu fyrirfram fyrir óunnið verk en senda svo kröfu strax í heimabanka vegna vinnu sem þegar hafi verið innt af hendi.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi upplýst á fundi aðila þann 19. ágúst 2022 að hann myndi hringja í barnaverndaryfirvöld og eiginkonu sóknaraðila vegna undirliggjandi mála. Í framhaldi þeirra símtala hafi varnaraðili upplýst sóknaraðila um stöðu mála. Hafi sú vinna verið samkvæmt ákvörðun varnaraðila en ekki samkvæmt ósk sóknaraðila.

Í fimmta lagi vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi hvorki látið honum í té þann reikning sem gefinn var út þann 29. ágúst 2022 né tímaskýrslu að baki honum. Komi fram í tímaskýrslunni ætluð vinna varnaraðila, þar á meðal um að hann hafi átt þrjú samtöl við barnaverndaryfirvöld og tvö samtöl við eiginkonu sóknaraðila. Geti ætluð símtöl sem gerð sé grein fyrir í tímaskýrslu frá 20. ágúst 2022 ekki staðist enda sé almennt ekki opið fyrir símtöl hjá barnaverndaryfirvöldum á laugardögum, sbr. einnig undirritaða yfirlýsingu frá eiginkonu sóknaraðila.

Að endingu vísar sóknaraðili til þess að hann hafi misst traust til lögmanna í kjölfar þeirrar háttsemi sem varnaraðili hafi sýnt af sér í málinu.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi leitað til sín þann 19. ágúst 2022 með beiðni um hagsmunagæslu vegna skilnaðarmáls sem og vegna máls sem rekið hafi verið fyrir D. Hafi aðilar átt með sér fund þann dag og sóknaraðili viljað greiða fyrir hann með reiðufé að fjárhæð 20.000 krónur. Hafi sú fjárhæð verið talsvert lægri en áskilið hafi verið samkvæmt gjaldskrá varnaraðila. Hafi varnaraðili samþykkt þá greiðslu en tjáð sóknaraðila að framvegis þyrfti að greiða í samræmi við gjaldskrá en þó með þeim hætti að veittur yrði góður afsláttur þannig að vinna færi fram á tímagjaldinu 22.790 krónur auk virðisaukaskatts. Þá kveðst varnaraðili hafa upplýst sóknaraðila á fundinum um að greiða þyrfti 100.000 krónur fyrirfram fyrir komandi vinnu enda væri sóknaraðili nýr umbjóðandi og eignalaus. Þá hafi sóknaraðili loks veitt varnaraðila umboð á fundinum til hagsmunagæslu vegna viðkomandi mála.

Varnaraðili vísar til þess að í kjölfar fundarins hafi hann hafið vinnu í þágu sóknaraðila. Hafi varnaraðili þannig sett sig í samband við D og eiginkonu sóknaraðila vegna undirliggjandi mála. Næstu daga hafi því verið tíð samskipti við starfsmann barnaverndar, eiginkonu sóknaraðila og sóknaraðila sjálfan.

Varnaraðili lýsir því að hann hafi haft samband við sóknaraðila þann 26. ágúst 2022 og boðað hann á fund til að upplýsa um framgang málsins auk þess að ítreka kröfu um greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur líkt og um hefði verið samið. Er vísað til þess að sóknaraðili hafi samþykkt það og fundur verið ákveðinn þann 30. sama mánaðar. Degi fyrir fund hafi sóknaraðili svo haft samband og upplýst að hann myndi ekki greiða varnaraðila umsamda greiðslu. Lýsir varnaraðili því að sóknaraðili hafi verið afar æstur í samtalinu og tjáð varnaraðila að hann hefði þegar greitt fyrir vinnuna.

Varnaraðilar vísar til þess að hann hafi upplýst sóknaraðila að þegar væri mikil vinna farin í málið og að fyrsta greiðsla, að fjárhæð 20.000 krónur, hafi aðeins verið fyrir fyrsta fund aðila þann 19. ágúst 2022. Þyrfti sóknaraðili því að greiða varnaraðila á grundvelli tímaskráningar og á því tímagjaldi sem um hefði verið samið. Kveðst varnaraðili í framhaldi samtalsins, þ.e. þann 29. ágúst 2022, hafa gert reikning og stofnað kröfu í heimabanka sóknaraðila á grundvelli tímaskráningar. Þá hafi aðilar ekki átt frekari samskipti eftir þennan tíma.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi móttekið tölvubréf frá sóknaraðila þann 29. ágúst 2022 þar sem þjónustu hans hafi verið sagt upp. Kveðst varnaraðili ekki hafa innt af hendi frekari vinnu í þágu sóknaraðila eftir samtal þeirra þann dag. Þá hafi krafa samkvæmt útgefnum reikningi verið greidd af sóknaraðila þann 5. september 2022.

Varnaraðili kveðst mótmæla málatilbúnaði sóknaraðila. Vísar varnaraðili ásökunum um hótanir á bug. Sé það bæði röng og fjarstæðukennd ásökun að varnaraðili hafi hótað að leka trúnaðarupplýsingum til barnaverndaryfirvalda. Lýsir varnaraðili því að hann hafi upplýst sóknaraðila um hvaða vinna hefði farið í málinu og að í þeirri vinnu hafi falist að hafa samband við D og eiginkonu sóknaraðila, svo sem sóknaraðili hafi viljað sjálfur. Sé málatilbúnaður sóknaraðila því allur rangur og fjarstæðukenndur.

Varnaraðili bendir á að í málatilbúnaði sóknaraðila sé vísað til þess að hann hafi með ólögmætum hætti tekið upp samtal aðila. Sé þar um vítaverða hegðun sóknaraðila að ræða og brot á persónuverndarlögum enda ekki upplýst um upptökuna. Kveðst varnaraðili ekki neita því að hafa tilkynnt sóknaraðila um að hann hefði hringt og talað við starfsmenn D í samræmi við skýr fyrirmæli frá sóknaraðila sjálfum. Mótmælir varnaraðili því hins vegar að hann hafi viðhaft nokkrar hótanir gagnvart sóknaraðila í tengslum við þau símtöl. Sé sóknaraðili viljandi að misskilja það sem fram hafi farið á milli aðila.

Varðandi endurgjaldið vísar varnaraðili til þess að hann hafi samþykkt að vinna fyrir sóknaraðila á talsvert lægra tímagjaldi en hann geri í öðrum málum og það sem almennt gerist hjá lögmönnum. Sé þannig ekkert óeðlilegt eða ósanngjarnt varðandi þær greiðslur sem sóknaraðili hafi innt af hendi vegna þjónustu varnaraðila. Sé erindi sóknaraðila því augljóslega ekki á rökum reist og beri að vísa því frá nefndinni. Þá ítrekar varnaraðili kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu varnaraðila en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa máli frá ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar. Er um tilgreinda kröfu vísað til þess í málatilbúnaði varnaraðila að kvörtun í málinu sé augljóslega ekki á rökum reist og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Um frávísunarkröfu varnaraðila er til þess að líta að erindi sóknaraðila í málinu lýtur annars vegar að ágreiningi um endurgjald sem varnaraðili áskildi vegna starfa í hans þágu og hins vegar að tilgreindum kvörtunarefnum vegna ætlaðrar háttsemi í störfum varnaraðila. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna. Fellur ágreiningsefni málsins því undir valdsvið nefndarinnar. Þá verður að líta svo á að álitaefni um það hvort ágreinings- og kvörtunarefni sé á rökum reist lúti að atriðum sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn málsins. Samkvæmt því er frávísunarkröfu varnaraðila í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

II.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Líkt og áður er rakið verður málatilbúnaður sóknaraðila fyrir nefndinni ekki skilinn með öðrum hætti en að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína við hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila. Hefur sóknaraðili um þá háttsemi vísað til þess að varnaraðili hafi farið fram með hótanir og fjárkúganir gagnvart sóknaraðila, þar á meðal um að ef sóknaraðili myndi ekki inna af hendi greiðlu að fjárhæð 100.000 krónur upp í lögmannskostnað myndi varnaraðili nota trúnaðarupplýsingar gegn sóknaraðila í samskiptum við D og hafa af honum allar eigur.

Um þetta efni er þess að gæta að engra gagna nýtur við fyrir nefndinni sem fært gætu stoð undir þær alvarlegu athugasemdir sem sóknaraðili hefur fært fram um ætlaða háttsemi í lögmannsstörfum varnaraðila. Hefur varnaraðili einnig mótmælt málatilbúnaði sóknaraðila að þessu leyti sem röngum og fjarstæðukenndum. Fyrir liggur að varnaraðili annaðist hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila í um vikuskeið í ágústmánuði 2022 en hún laut meðal annars að meðferð máls fyrir barnaverndaryfirvöldum, svo sem tiltekið var í umboði því sem sóknaraðili veitti varnaraðila þann 19. þess mánaðar. Ber tímaskýrsla varnaraðila með sér að hann hafi átt í samskiptum við D vegna málefna sóknaraðila á meðan hagsmunagæslan stóð svo sem sóknaraðili hafði einnig gert ráð fyrir, sbr. tölvubréf sóknaraðila til varnaraðila frá 19. ágúst 2022. Með hliðsjón af því og þeirra hagsmuna sem sóknaraðili fól varnaraðila að gæta verður því ekki talið að mati nefndarinnar að í því hafi falist hótun af hálfu varnaraðila þótt hann hafi upplýst sóknaraðila um að hann hefði þegar hringt í barnaverndaryfirvöld vegna málsins. Verði þvert á móti að leggja til grundvallar að slík samskipti hafi verið nauðsynlegur liður í þeirri hagsmunagæslu sem varnaraðili tók að sér í þágu sóknaraðila.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki fundin stoð fyrir kvörtunarefnum sóknaraðila í þeim skriflegu gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina. Verður heldur ekki ráðið af málsgögnum að sóknaraðili hafi hreyft eða haft uppi athugasemdir vegna starfa varnaraðila að þessu leyti. Með hliðsjón af því, andmælum varnaraðila, atvikum öllum að öðru leyti og þeim takmörkuðu gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina, verður því ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Með vísan til þeirrar niðurstöðu verður kröfu sóknaraðila á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 hafnað.

IV.

Ágreiningur er einnig á milli aðila um það endurgjald sem varnaraðili áskildi sér vegna þeirra starfa sem hann tók að sér í þágu sóknaraðila. Verður þannig ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila að á því sé byggt að varnaraðili hafi ekki innt af hendi þá vinnu sem umþrættur reikningur taki til en varnaraðili hefur hins vegar mótmælt þeim málatilbúnaði og byggt á að umkrafin þóknun hafi verið hófleg.

Fyrir liggur að á meðan réttarsamband aðila varði, þ.e. frá 19. til 29. ágúst 2022, hélt varnaraðili vinnuskýrslu og færði þar til bókar þá verkþætti sem unnið var að hverju sinni í þágu sóknaraðila. Samkvæmt henni varði varnaraðili alls 3.5 klukkustundum í málin á tímabilinu, en sú vinna tók meðal annars til fundar og samskipta við sóknaraðila, samskipta við viðkomandi barnaverndaryfirvöld sem og eiginkonu sóknaraðila vegna skilnaðar þeirra. Samræmdust þeir verkþættir þeirri hagsmunagæslu sem varnaraðila var falið að sinna samkvæmt umboði því sem sóknaraðili veitti honum þann 19. ágúst 2022.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu voru gefnir út tveir reikningar vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila. Ekki er ágreiningur á milli aðila um hinn fyrri reikning sem gefinn var út í kjölfar fundar þeirra þann 19. ágúst 2022 og greiðslu sóknaraðila til varnaraðila að fjárhæð 20.000 krónur í reiðufé, sbr. reikning nr. 99-22 sem var að sömu fjárhæð að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hinn síðari reikningur var gefinn út af hálfu varnaraðila við lok réttarsambands aðila þann 29. ágúst 2022. Nánar tiltekið var þar um að ræða reikning nr. 98-22 sem var að fjárhæð 70.649 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt reikningnum tók hann til 2.5 klukkustunda vinnu varnaraðila í þágu sóknaraðila á fyrrgreindu tímabili og var tímagjaldið tilgreint að fjárhæð 22.790 krónur auk virðisaukaskatts. Þá er ágreiningslaust að krafa á grundvelli reikningsins var stofnuð í heimabanka sóknaraðila þar sem hann var jafnframt greiddur þann 5. september 2022.

Svo sem áður greinir lutu verkþættir sem reikningurinn tók til að samskiptum varnaraðila við sóknaraðila, barnaverndaryfirvöld og eiginkonu sóknaraðila vegna þeirra mála sem hagsmunagæslan tók til samkvæmt veittu umboði. Er ágreiningslaust á milli aðila að fyrirhuguð vinna varnaraðila að þessu leyti var rædd á fundi þeirra þann 19. ágúst 2022 og að sóknaraðili var meðvitaður um þessi nauðsynlegu samskipti vegna málarekstursins, sbr. tölvubréf hans til varnaraðila frá sama degi. Þá er ágreiningslaust að aðilar áttu með sér samtal þann 26. ágúst 2022 þar sem varnaraðili mun meðal annars hafa greint frá stöðu mála eftir þau samskipti sem hann hafði átt dagana á undan.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og að teknu tilliti til málsgagna verður ekki séð að tímafjöldi sá sem tilgreindur er í vinnuskýrslu varnaraðila og lá til grundvallar hinum umþrætta reikningi sem gefinn var út þann 29. ágúst 2022 og greiddur var af hálfu sóknaraðila hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá vinnu sem varnaraðila var falið að sinna samkvæmt umboði og sóknaraðili var upplýstur um. Þá verður ekki talið að áskilið tímagjald varnaraðila, að fjárhæð 22.790 krónur auk virðisaukaskatts, hafi verið úr hófi. Er það því niðurstaða nefndarinnar að þóknun sú sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa í þágu sóknaraðila og þegar hefur verið greidd var hæfileg.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, B lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni, er hafnað.

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa í þágu sóknaraðila, A, sbr. reikning nr. 98-22 frá 29. ágúst 2022 að fjárhæð 70.649 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.   Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson