Mál 3 2022

Mál 3/2022

Ár 2022, miðvikudaginn 25. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. janúar 2022 erindi sóknaraðila, A, sem lýtur að kvörtun í garð varnaraðila, B lögmanns, vegna ætlaðrar háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 26. janúar 2022 og barst hún þann 18. febrúar sama ár. Var sóknaraðila send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 21. febrúar 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins  bárust til nefndarinnar þann 11. mars 2022 og var varnaraðili upplýstur um það efni með bréfi dags. 16. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila eftir þann tíma og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort háttsemi varnaraðila í störfum fyrir C vegna málefna D ehf. og innbyrðis ágreinings hluthafa í félaginu hafi brotið í bága við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að þáverandi umbjóðandi varnaraðila sé eigandi 50% hlutafjár í D ehf. en að sóknaraðili sé eigandi annarra hluta í félaginu. Jafnframt því liggur fyrir að umbjóðandi varnaraðila var skráður framkvæmdastjóri félagsins uns tilkynnt var um breytingu þar á þann 9. september 20xx. Frá þeim tíma mun sóknaraðili hafa verið eini stjórnarmaður félagsins, framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Ágreiningur aðila um hvort fyrrgreind tilkynning um breytingu á framkvæmdastjórn hafi verið lögmæt fellur utan sakarefnis málsins.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þá lýtur kvörtun sóknaraðila að tveimur atvikum í hagsmunagæslu og störfum varnaraðila. Er þannig annars vegar ágreiningur um hvort framganga varnaraðila í tölvubréfasamskiptum við lögmann sóknaraðila frá 31. ágúst 2020 hafi verið andstæð lögum eða siðareglum lögmanna. Hefur sóknaraðili þannig á því byggt að varnaraðili hafi þar viðhaft hótanir í garð sóknaraðila en varnaraðili hefur hins vegar mótmælt þeim málatilbúnaði. Tilgreint tölvubréf er á meðal málsgagna fyrir nefndinni, en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið af hálfu varnaraðila:

Eftir stendur ósk um viðræður sem yrðu þá að fara fram í dag eða næstu daga, að öðrum kosti neyðist umbjóðandi minn til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru, en mundu því miður skaða bæði hann og umbjóðanda þinn. En ekki verður unað við það lengur að umbjóðandi þinn fari sínu fram og geri ráðstafanir sem hann hefur ekki heimildir til að gera.

Af málsgögnum verður ráðið að þáverandi umbjóðandi varnaraðila hafi ráðstafað 7.000.000 króna útaf reikningi D ehf. þann 4. september 2020. Lýtur ágreiningur aðila fyrir nefndinni hins vegar að því kvörtunarefni sóknaraðila að varnaraðili hafi viðhaft blekkingar í tölvubréfi til lögmanns sóknaraðila þann 19. nóvember 2020 um vörslur og meðferð tilgreindra fjármuna, en þar var eftirfarandi tiltekið af hálfu varnaraðila:

Umbjóðandi minn er skráður framkvæmdastjóri félagsins, en þegar hann komst að raun um að umbjóðandi þinn var búinn að loka á möguleika hans til að gegna starfi sínu og eignir hurfu út úr fyrirtækinu fyrir tilverknað umbjóðanda þíns, sá hann sér nauðugan einn kost, að setja fjármuni félagsins inn á vörslureikning þar sem allt var í uppnámi vegna rekstursins. Peningarnir eru til reiðu fyrir félagið þegar eðlilegri skipan hefur verið komið á skv. samþykktum hluthafafunda um verkaskiptingu í félaginu. – Ítrekuð er ósk um að boðað verði þegar í stað til hluthafafundar til að freista þess að útkljá málefni félagsins og taka ákvarðanir varðandi skipti og/eða yfirtöku félagsins.

Um málsatvik vegna sakarefnis málsins vísast að öðru leyti til þess sem greinir um það efni í umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni, sbr. kafla II. og III. hér á eftir, en líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sóknaraðila sem móttekið var þann 20. janúar 2022.

II.

Sóknaraðili krefst þess annars vegar að staðfest verði að 7.000.000 króna sem varnaraðili fullyrti að væru til reiðu þann 19. nóvember 2020 séu það í raun enn og ef svo er ekki hvernig þeim hafi verið ráðstafað út af þeim reikningi sem varnaraðili vísaði til. Hins vegar verður að að leggja þann skilning í málatilbúnað sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. sömu laga.

Sóknaraðili vísar til þess að kvörtun lúti annars vegar að hótun sem varnaraðili hafi haft uppi um að ef ekki yrði orðið að kröfum umbjóðanda hans þá myndi umbjóðandinn gera eitthvað sem kæmi sóknaraðila illa. Er vísað til þess að örfáum dögum síðar hafi svo hótunin verið framkvæmd.

Kvörtun sóknaraðila lýtur hins vegar að því að varnaraðili hafi fullyrt að fjármunir sem teknir voru af bankareikningum D ehf. væru til reiðu á fjárvörslureikningi. Vísar sóknaraðili til þess að ekkert bendi til að svo sé og að ólíklegt megi teljast að fjármunirnir muni skila sér.

Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi valdið sér beinum fjárhagslegum skaða með þeim blekkingum sem falist hafi í yfirlýsingum hans. Þannig hafi varnaraðili annars vegar haft í hótunum við sóknaraðila fyrir hönd umbjóðanda síns. Hafi þær hótanir verið mjög afdráttarlausar þrátt fyrir að ekki hafi verið upplýst um eðli verknaðarins. Vísar sóknaraðili sérstaklega til eftirfarandi efnis í tölvubréfi varnaraðila til lögmanns sóknaraðila frá 31. ágúst 2020:

Eftir stendur ósk um viðræður sem yrðu þá að fara fram í dag eða næstu daga, að öðrum kosti neyðist umbjóðandi minn til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru, en mundu því miður skaða bæði hann og umbjóðanda þinn.

Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi greinilega verið fullkomlega meðvitaður um þann fjárdrátt sem átt hafi sér stað fjórum dögum síðar, þ.e. þann 4. september 2020, sbr. það sem síðar verður rakið.

Sóknaraðili vísar til þess að það séu hins vegar eftirmálarnir sem sé sérstaklega kvartað yfir og þá einkum í sér í lagi að varnaraðili hafi fullyrt þann 19. nóvember 2020 að fjármunir þeir sem umbjóðandi hans hafði dregið sér fjórum dögum eftir fyrrgreindar hótanir væru í öruggu skjóli og á vörslureikningi. Byggir sóknaraðili á að af yfirlýsingu varnaraðila hafi verið eðlilegt að draga þá ályktun að fjármunirnir væru í vörslu lögmannsstofu varnaraðila. Vísar sóknaraðili sérstaklega til eftirfarandi efnis í tölvubréfi varnaraðila til lögmanns sóknaraðila frá 19. nóvember 2020:

...sá hann sér nauðugan einn kost, að setja fjármuni félagsins inn á vörslureikning þar sem allt var í uppnámi vegna rekstursins. Peningarnir eru til reiðu fyrir félagið...“

Byggir sóknaraðili á að yfirlýsing varnaraðila og þær ályktanir sem réttilega hafi mátt draga af henni hafi valdið sér gríðarlegum fjárhagslegum skaða sem og óþægindum og ómældum glötuðum vinnustundum sem hlaupi á hundruðum. Vísar sóknaraðili ennfremur til þess að varnaraðili geti ekki notað þau rök að fjármunirnir hafi verið lagðir inná „vörslureikning“ umbjóðanda hans enda hafi sá aðili ekki getað stofnað fjárvörslureikning í því samhengi sem fjallað sé um. Ekki hafi þannig verið unnt að túlka orð varnaraðila á annan hátt en að fjármununum hefði verið komið fyrir á fjárvörslureikningi hans eða lögmannsstofu hans. Sé þetta skýrt og geti varnaraðili því ekki falið sig á bak við umbjóðanda sinn í þessu efni.

Varðandi fyrri kröfulið sinn bendir sóknaraðili á að auðvelt eigi að vera að ganga úr skugga um þetta atriði enda beri lögmönnum árlega að gera grein fyrir þeim fjármunum sem þeir hafa undir höndum jafnframt því sem staðfesta ber innstæður fjárvörslureikninga af endurskoðendum ár hvert. Í kjölfarið og eftir niðurstöðu staðfestingar þess að fjármunirnir séu þar sem fullyrt hafi verið krefst sóknaraðili þess að þeim verið skilað til réttmæts eiganda ásamt vöxtum. Komi í ljós að blekkingum hafi verið beitt gegn betri vitund um þetta efni fer sóknaraðili fram á að úrskurðað verði samkvæmt eðli máls og alvarleika þess.

Um tímafresti vegna fyrrgreindra kvörtunarefna vísar sóknaraðili til þess að ekki sé hægt að miða við dagsetningar tölvubréfa enda hafi ekki verið ljóst á þeim tímapunkti að um blekkingar væri að ræða. Ekki hafi þannig legið fyrir fyrr en á seinni stigum að fjármunirnir, sem sagðir voru á fjárvörslureikningi varnaraðila, skiluðu sér ekki eftir eðlilegum leiðum og innheimtuaðgerðum. Sé það því mat sóknaraðila að ekki sé liðið eitt ár frá því að varnaraðili gerði á hlut sóknaraðila í starfi sínu með háttsemi sem stríddi gegn lögum og siðareglum lögmanna.

Í málinu liggja jafnframt fyrir ítarlegar viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málatilbúnaðar varnaraðila fyrir nefndinni en með hliðsjón af sakarefni málsins þykir ekki ástæða til að reifa þær sérstaklega umfram það efni sem áður er lýst varðandi málatilbúnað sóknaraðila.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili kveðst hafna alfarið ásökunum og ávirðingum sóknaraðila og byggir á að hann hafi annast hagsmunagæslu í þágu þáverandi umbjóðanda síns í samræmi við lög og siðareglur lögmanna.

Varnaraðili vísar til þess að fyrrum umbjóðandi hans, C, sé helmingseigandi í fyrirtækinu D ehf. á móti sóknaraðila. Hafi sóknaraðili verið stjórnarformaður og umbjóðandi varnaraðila framkvæmdastjóri. Verulegir hnökrar hafi komið í samstarfið á árinu 2020 og hluthafarnir verið sammála að ljúka því. Hafi sóknaraðili þannig boðið sinn hlut til sölu í júní 2020, en ekki hafi náðst samningar. Þá hafi umbjóðandi varnaraðila leitað eftir því að fá uppgjör félagsins og hreyfingarlista frá bókara félagsins, í því skyni að átta sig betur á stöðu félagsins og hvaða tilboð væri eðlilegt að gera sóknaraðila, en þær umleitanir hafi reynst árangurslausar.

Varnaraðili vísar til þess að fyrrgreindur C hafi leitað til hans þann 17. ágúst 2020 eftir að hafa móttekið bréf frá lögmanni sóknaraðila þar sem farið hafi verið fram á að hlutur sóknaraðila í félaginu yrði innleystur. Kveðst varnaraðili í framhaldi af því hafa sent lögmanni sóknaraðila tilboð umbjóðanda síns. Ekki hafi náðst samkomulag á þeim grundvelli þrátt fyrir viðleitni lögmanna aðila til að finna lausn á málinu.

Varnaraðili bendir á að í bréfi til lögmanns sóknaraðila, dags. 31. ágúst 2020, hafi komið fram að umbjóðandi hans vildi í lengstu lög ná samkomulagi við sóknaraðila. Bendir varnaraðili á að ekkert í tilgreindu bréfi sem sent hafi verið lögmanni sóknaraðila hafi falið sér í hótun heldur þvert á móti ítrekun þess að aðilar leggðu sig í líma við að ná samkomulagi. Í ljósi aðstæðna hafi ekkert verið athugavert við orðalagið.

Varnaraðili vísar til þess að viðræður hafi haldið áfram á milli lögmanna þar sem þess hafi verið freistað á ná samkomulagi. Í framhaldi af því að sóknaraðili breytti skráningu í fyrirtækjaskrá og tók umbjóðanda varnaraðila út sem framkvæmdastjóra D ehf., án nokkurs samráðs, hafi varnaraðili sent lögmanni sóknaraðila bréf, dags. 18. nóvember 2020, þar sem tekið var fram að staða á milli eigenda félagsins væri hvorugum þeirra til góðs og að brýnt væri að leysa málið með samkomulagi. Kveðst varnaraðili hafa sent þetta bréf þar sem ljóst hafi verið á þeim tíma að málin stefndu í algjört óefni. Hafi varnaraðili einnig rætt það við lögmann sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til þess að nokkru síðar hafi hann fengið þær upplýsingar frá umbjóðanda sínum að hann hefði fært innstæðu á reikningi D ehf. á vörslureikning. Sé varnaraðila ókunnugt hvenær sú millifærsla hafi átt sér stað enda hafi sú ráðstöfun ekki verið borin undir hann. Í framhaldi af bréfi frá lögmanni sóknaraðila þann 18. nóvember 2020 kveðst varnaraðili hafa haft samband við umbjóðanda sinn og í framhaldi af því ritað það tölvubréf sem sent var þann 19. sama mánaðar til lögmanns sóknaraðila. Hafi þar komið fram þau atriði sem umbjóðandi varnaraðila hafi upplýst um varðandi millifærslu fjármuna.

Í framhaldi af þessu lýsir varnaraðili því að annar lögmaður hafi tekið við þeirri hagsmunagæslu sem hann hafði sinnt í þágu fyrrgreinds umbjóðanda vegna málefna D ehf.

Varnaraðili bendir á að öll samskipti hans vegna málsins hafi verið við lögmann sóknaraðila, líkt og málsgögn beri með sér. Aldrei hafi varnaraðili þannig haft beint samband við sóknaraðila. Hafi varnaraðili og lögmaður sóknaraðila lagt sig fram um að ná samkomulagi, en því miður hafi það ekki tekist báðum aðilum til tjóns.

Varðandi fyrra kvörtunarefnið þá hafnar varnaraðili því að hægt sé að lesa einhverja hótun úr því sem komið hafi fram í tölvubréfum hans til lögmanns sóknaraðila. Hafi eina aðkoma varnaraðila að málinu þannig verið að freista þess að ná samkomulagi á milli aðila. Engin hótun hafi falist í efni fyrirliggjandi tölvubréfa.

Um síðara kvörtunarefnið vísar varnaraðili til þess að hann viti ekki annað um umrædda fjármuni en það sem umbjóðandi hans hafi sagt, þ.e. að fjármunirnir hafi verið millifærðir á fjárvörslureikning umbjóðandans. Kveðst varnaraðili ekki vita af hvaða reikningi þeir voru teknir eða um millifærsluna að öðru leyti. Hafi varnaraðili þannig ekkert haft með millifærsluna að gera. Hafi varnaraðili upplýst lögmann sóknaraðila um það eitt sem umbjóðandi hans hafi sagt í sambandi við millifærsluna. Samkvæmt því hafi varnaraðili aldrei haft með þá fjármuni að gera.

Varnaraðili bendir á að það sé óneitanlega sérkennilegur málatilbúnaður hjá sóknaraðila að koma fram með þessar ávirðingar einu og hálfu ári eftir að varnaraðili hætti afskiptum af málinu, sbr. einnig þann tímafrest sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Sé kvörtun út í hött enda eigi sóknaraðila ekki neinar fjárhagslegar kröfur í viðkomandi vörslufé. Þannig sé félagið D ehf. enn starfandi og því ljóst að það félag sé réttur aðili að máli um það vörslufé en ekki sóknaraðili persónulega.

Ítrekar varnaraðili að hann hafi aldrei haft með vörslu þeirra fjármuna að gera sem kvörtunarefnið tekur til og beri því ekki ábyrgð á þeim. Bendir varnaraðili sérstaklega á eftirfarandi orðalag í tölvubréfi hans til lögmanns sóknaraðila frá 19. nóvember 2020:

Fyrir tilverknað umbjóðanda þíns sá hann sér nauðugan einn kost, að setja fjármuni félagsins inn á vörslureikning þar sem allt var í uppnámi vegna félagsins.

Bendir varnaraðili á að ljóst sé að hann hafi verið að vísa til umbjóðanda síns sem hafi séð sér nauðugan einn kost að setja fjármuni félagsins inn á vörslureikning. Þurfi ekki frekari vitnana við í því efni.

Niðurstaða

I.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar. Með hliðsjón af því þykir rétt að mati nefndarinnar að fjalla fyrst um þá kröfu sóknaraðila að staðfest verði með úrskurði nefndarinnar að nánar tilgreindir fjármunir, þ.e. 7.000.000 króna, séu til reiðu á fjárvörslureikningi varnaraðila í samræmi við ætlaðar fullyrðingar varnaraðila um það efni en ef svo er ekki krefst sóknaraðila upplýsinga um það hvernig þeim fjármunum hafi verið ráðstafað.

Um tilgreinda kröfu sóknaraðila er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um og taka til skoðunar fyrrgreinda kröfu sóknaraðila um staðfestingu á vörslu fjármuna eða ráðstöfun þeirra.  Er tilgreind kröfugerð sóknaraðila því ekki tæk til úrskurðar, svo sem fyrrgreind afmörkun á valdsviði nefndarinnar greinir. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa tilgreindri kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila frá nefndinni, sbr. 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

II.

Kröfugerð sóknaraðila í málinu lýtur hins vegar að því að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Líkt og áður greinir lýtur kvörtunarefni sóknaraðila annars vegar að því að varnaraðili hafi viðhaft hótanir í garð sóknaraðila í tölvubréfi sem hann sendi til lögmanns sóknaraðila þann 31. ágúst 2020, en efni þess er nánar rakið í málsatvikalýsingu að framan.

Um þetta kvörtunarefni er þess að gæta að gögn málsins bera með sér að lögmaður sóknaraðila hafi sent hið umþrætta erindi varnaraðila til sóknaraðila sjálfs þennan sama dag, þ.e. þann 31. ágúst 2020. Samkvæmt því var sóknaraðili þá þegar upplýstur um efni tölvubréfsins og þar með hinar ætluðu hótanir sem byggt er á að varnaraðili hafi þar viðhaft í garð sóknaraðila og kvörtun að þessu leyti tekur til. Með hliðsjón af því er að áliti nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að sóknaraðili hafi þegar í lok ágústmánaðar 2020 átt þess kost að koma kvörtunarefninu á framfæri við nefndina. Var lögbundinn tímafrestur til að leggja kvörtunarefnið fyrir nefndina því liðinn þegar erindi sóknaraðila í máli þessu var móttekið þann 20. janúar 2022. Með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, verður því að leggja til grundvallar að tilgreint kvörtunarefni sé of seint fram komið og verður það því ekki tekið til efnisúrlausnar í máli þessu.  

Að áliti nefndarinnar á slíkt hið sama við hvað hinn lögbundna tímafrest varðar um síðara kvörtunarefni sóknaraðila sem lýtur að því að varnaraðili hafi viðhaft blekkingar í tölvubréfi til lögmanns sóknaraðila þann 19. nóvember 2020 þar sem því var lýst að fjármunir D ehf. væru á vörslureikningi og að þeir væru til reiðu fyrir félagið þegar eðlilegri skipan hefði verið komið á samkvæmt samþykktum hluthafafunda um verkaskiptingu í félaginu.

Er um það efni jafnframt til þess að líta að hvorki verður ráðið af hinu umþrætta tölvubréfi varnaraðila að hann hafi þar gengist við því að hafa móttekið viðkomandi fjármuni D ehf. í sína vörslu né verður ráðið af málsgögnum að öðru leyti að sóknaraðili hafi, hvort heldur með réttu eða röngu, dregið slíkar ályktanir gagnvart varnaraðila. Þá er þess ennfremur að gæta að málsgögn bera með sér að þeir fjármunir sem hér um ræðir hafi verið dregnir af innstæðu D ehf. af umbjóðanda varnaraðila en ekki af sóknaraðila sjálfum, en að teknu tilliti til þess er óútskýrt í málatilbúnaði sóknaraðila hvernig varnaraðili á að hafa getað gert á persónulega á hlut hans í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá nefndinni í heild sinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson