Lögmannavaktin - ókeypis lögfræðiráðgjöf

  • Lögmannavaktin er ókeypis lögfræðiráðgjöf sem veitt er á þriðjudögum frá kl. 16:30 til 18:00 (september-maí). 

  • Ráðgjöfin er veitt í síma og hringir lögmaður í það símanúmer sem gefið er upp við skráningu. Gert er ráð fyrir 15 mínútum á mann.

  • Skráning fer fram á vefsíðu Lögmannafélagsins.

Einnig bendum við á ókeypis lögfræðiaðstoð laganema í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, sjá hér fyrir neðan:

Lögfræðiaðstoð Orators

Laganemar við Háskóla Íslands bjóða uppá endurgjaldslausa lögfræðiráðgjöf fyrir almenning í síma 551-1012 á fimmtudagskvöldum milli 19:30-22:00. Laganemar sitja fyrir svörum og er lögmaður þeim innan handar. Sjá nánari upplýsingar á Facebook - síðu Orators og á http://www.orator.is/.

Lögfræðiþjónusta Lögréttu

Hjá Lögfræðiþjónustu Lögréttu veita laganemar á þriðja, fjórða og fimmta ári í Háskólanum í Reykjavík, almenningi lögfræðiráðgjöf að kostnaðarlausu. Hægt er að hafa samband með því að senda fyrirspurn á logrettalaw@logretta.is.

Um lögmannavakt LMFÍ

Lögmannavakt var komið á fót og hún skipulögð af Lögmannafélagi Íslands árið 1993. Í upphafi var starfsemin í Reykjavík, Akureyri og Hafnarfirði en nú fer ráðgjöfin fram í síma og þjónustar fólk hvaðan sem er á landinu. 

Markmiðið með starfseminni var að mæta vaxandi þörf almennings fyrir upplýsingar um réttarstöðu sína í nútímaþjóðfélagi. Líta má á þessa starfsemi að nokkru leyti sem framlag lögmannastéttarinnar til skuldbindinga Íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, sbr. t.d. yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um grundvallaratriði um hlutverk lögmanna (United Nations Basic Principles on the Role of Lawyers).

Erlendis má víða finna sambærileg fyrirbæri og lögmannavaktina. Hérlendis hafa ýmsir aðilar í langan tíma veitt almenningi ókeypis lögfræðiaðstoð, t.d. Mæðrastyrksnefnd. Í mörgum tilvikum er aðstoðin veitt vegna ákveðinna tengsla þess sem aðstoðina veitir og þess sem hennar leitar. Má hér t.d. nefna ýmis stéttarfélög. Þá hefur Félag laganema Orator, um árabil veitt almenningi ókeypis lögfræðiaðstoð með símaþjónustu.

Tilgangur lögmannavaktarinnar er að veita almenningi ráð og leiðbeiningar um lögfræðileg úrlausnarefni án endurgjalds. Ráðgjöfin takmarkast við munnlega ráðgjöf og ekki er við það miðað að lögmen reki erindi þeirra, sem ráða leita, með bréfaskriftum, skjalagerð, símtölum eða með öðrum hætti.

Hjá lögmannavaktinni geta einungis starfað sjálfstætt starfandi lögmenn og lögmannsfulltrúar með málflutningsréttindi.

Lögmaður skal vera óháður í starfi og honum ber að leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Honum ber að upplýsa viðmælanda sinn á lögmannavaktinni ef hætta er á að hann geti ekki veitt lögfræðilega ráðgjöf á hluthlausan hátt.

Lögmaður er bundinn þagnarskyldu um það, sem aðili trúir honum fyrir í starfi hans, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þagnarskyldan nær einnig til starfa lögmannsins á lögmannavaktinni.

Miðað er við að hvert viðtal taki að hámarki 15 mínútur.

Ráðgjöf lögmanns takmarkast við þær upplýsingar sem veittar eru lögmanninum.

Telji vakthafandi lögmaður þörf á, leiðbeinir hann aðila um hvert leita skuli með frekari rekstur erindisins, t.d. til stjórnvalds, umboðsmanns Alþingis, lögmanns o.s.frv.

Um lögmannsaðstoð utan lögmannavaktarinnar gilda almennar reglur, þ.á.m. um þóknun. Slík aðstoð er Lögmannavaktinni óviðkomandi.

Lögmannafélag Íslands ber ekki neina ábyrgð á þeirri ráðgjöf sem veitt er. Vakthafandi lögmaður ber sjálfur ábyrgð á ráðgjöfinni og leiðbeiningum sem hann veitir þeim sem ráða leitar. Um starf á lögmannavaktinni gilda að öðru leyti siðareglur lögmanna (Codex Ethicus).

Telji einhver, sem leitar lögfræðiaðstoðar á lögmannavaktinni, framkomu vakthafandi lögmanns ábótavant, getur hann kvartað yfir slíkri háttsemi til stjórnar Lögmannafélagsins. Nafnleynd gildir ekki í slíkum málum.

 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.