Mál 12 2005

Ár 2006, fimmtudaginn 9. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 12/2005:

 A o.fl.

gegn

C, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 28. febrúar 2005 frá A og B, sóknaraðilum, sem varðar ágreining um áskilda þóknun C, hdl., varnaraðila, fyrir málflutningsstörf hans i í þágu sóknaraðila.

 Afstaða varnaraðila liggur fyrir í bréfi, dags. 27. apríl 2005. Sóknaraðilum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila, sem þeir gerðu í bréfi, dags. 3. júní 2005. Varnaraðili gerði nokkrar athugasemdir vegna þessa, í bréfi til nefndarinnar þann 11. ágúst 2005.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að haustið 2001 barst sóknaraðilum til eyrna að eigandi sjötta hluta jarðarinnar V í X-byggð hygðist selja sinn hlut. Þessi fyrirætlan var tilkynnt sveitarstjórn X-byggðar og þess farið á leit að sveitarfélagið félli frá forkaupsrétti samkvæmt þágildandi jarðalögum. Sóknaraðilar, sem eru ábúendur jarðarinnar og eigendur 2/3 hluta hennar, leituðu af þessu tilefni til X-byggðar og óskuðu eftir því að sveitarfélagið neytti forkaupsréttar síns. Var fallist á þá málaleitan. Sveitarstjórnin óskaði eftir að fá sendan skriflegan kaupsamning um jarðarhlutann en fékk send ódagsett og óundirrituð drög að kaupsamningi og afsali vegna þessa. Í desember 2001 var hins vegar tilkynnt að erindi seljandans til sveitarfélagsins væri afturkallað og að hætt væri við söluna.

 Sóknaraðilar óskuðu þess eindregið að sveitarfélagið léti reyna á forkaupsrétt sinn. Samið var svo um að sóknaraðilar bæru allan kostnað af málaferlunum. Leituðu sóknaraðilar til varnaraðila og fólu honum að reka málið. Varnaraðili höfðaði mál fyrir Héraðsdómi V í nafni X-byggðar þar sem krafist var afsals fyrir jarðarhlutanum gegn greiðslu tilgreinds kaupverðs. Dómur var kveðinn upp 9. desember 200X þar sem stefndi var sýknaður af kröfum sveitarfélagsins. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og dómur þar uppkveðinn x. september 200x þar sem hinn áfrýjaði dómur var staðfestur með vísan til  forsendna. Sveitarfélagið var dæmt til að greiða stefnda alls 630.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en sóknaraðilar greiddu þann kostnað.

 Sóknaraðilar greiddu inn á verkkostnað varnaraðila í áföngum:

 Desember 2002             kr. 350.000

13.09.2003                    kr.   59.893

05.01.2004                    kr. 200.000

27.02.2004                    kr. 100.000

15.10.2004                    kr. 200.000

                                    __________

Alls                              kr. 909.893

 Samkvæmt yfirliti er varnaraðili sendi sóknaraðilum um verkkostnað málsins veitti hann þeim 50% afslátt af þóknunarþætti en krafðist þess hins vegar að allur útlagður kostnaður yrði greiddur. Samkvæmt yfirlitinu fóru 177,6 tímar hjá varnaraðila í málið, 81 klst. fyrir undirbúning og flutning þess í héraði og 96,6 klst. fyrir áfrýjun málsins og flutning þess í Hæstarétti. Að teknu tilliti til 50% afsláttar nam áskilin þóknun varnaraðila 843.600 krónum auk virðisaukaskatts. Tímagjaldið var 9.500 krónur auk virðisaukaskatts. Útlagður kostnaður, þ.m.t. vextir af útlögðum kostnaði, nam 113.332 krónum. Virðisaukaskattur nam 213.199 krónum. Heildarkrafa varnaraðila samkvæmt yfirlitinu nam þannig 1.170.131 krónu.

 Þann 1. nóvember 2004 gaf varnaraðili út stefnu á hendur X-byggð til heimtu mismunar kröfu samkvæmt yfirlitinu og þess, sem sóknaraðilar höfðu greitt til hans. Nettókrafan í stefnunni nam þannig 260.238 krónum. Málið var sótt og varið í Héraðsdómi R en í dómi, uppkveðnum x. apríl 200x, var stefndi sýknaður af kröfum stefnanda (varnaraðila).

 Ágreiningur um áskilda þóknun varnaraðila samkvæmt framangreindu yfirliti, er hann sendi sóknaraðilum, varð þeim tilefni erindis þeirra til úrskurðarnefndar lögmanna, sem hér er til umfjöllunar.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar krefjast sóknaraðilar þess að eðlilegt endurgjald fyrir málflutningsstörf varnaraðila í þeirra þágu (og X-byggðar) verið talið að hámarki 709.893 krónur og að varnaraðila verði gert að endurgreiða þeim 200.000 krónur. Telja sóknaraðilar að 709.893 króna endurgjald sé mjög rífleg greiðsla til varnaraðila, m.a. að teknu tilliti til þess að hann flutti málið bæði í héraði og fyrir Hæstarétti og að málið tapaðist á báðum dómstigum.

 Sóknaraðilar telja sig hafa orðið fyrir miklum þrýstingi frá varnaraðila um að hefja málareksturinn í héraði. Þá hafi varnaraðili gert allt sem í hans valdi stóð til þess að sannfæra þau og aðra, sem komu að málinu, um að áfrýja ætti dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Hafi varnaraðili m.a. látið annan lögmann, sem hafði mikla reynslu í málum af því tagi sem málarekstur X-byggðar snerist um, hringja í sóknaraðila til þess að sannfæra þau um að rétt væri að áfrýja dómi héraðsdóms.

 Sóknaraðilar lýsa mikilli vantrú á því að það hafi tekið varnaraðila 66 klst. að undirbúa málflutning í Hæstarétti í tiltölulega einföldu máli sem hann hafi sjálfur flutt í héraði, en þar hafi hann eytt um 30 klst. í undirbúning.

 Sóknaraðilar kveða varnaraðila ekki hafa gert skriflegan samning við sig um vinnu hans í málinu. Þá hafi hann ekki gert grein fyrir því hvað málareksturinn kynni að kosta þegar upp væri staðið. Sóknaraðilar kveðast hafa gert varnaraðila tilboð um það, áður en dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar, að tapaðist málið myndu þau greiða honum 650.000 krónur sem heildargreiðslu fyrir hans vinnu en ef málið ynnist í Hæstarétti yrði greiðslan til hans 1.500.000 krónur. Sóknaraðilar kveða varnaraðila hafa ætlað að hugleiða þessa tillögu en hann hafi ekki tjáð þeim afstöðu sína til hennar.

 III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður varnaraðili það ekki vera á sínu valdi að taka afstöðu til áfrýjunar máls. Það geri málsaðilar sjálfir. Varnaraðili kveðst hins vegar leggja sig fram um að gera viðkomandi ítarlega grein fyrir möguleikum vegna áfrýjunar en leggja það síðan í þeirra hendur að taka ákvörðun. Varnaraðili kveðst hafa gert sóknaraðilum sérstaka grein fyrir því að ekki væri á vísan að róa að því er niðurstöður dómstóla varðaði. Varnaraðili kveður sóknaraðila eina hafa tekið ákvörðun um áfrýjun málsins.

 Varnaraðili kveðst hafa leitað eftir áliti annars lögmanns um málareksturinn, bæði fyrir og eftir dóm héraðsdóms. Kveðst varnaraðili þannig hafa fengið leyfi þess lögmanns til að sóknaraðilar mættu hringja til hans, sem og þeir gerðu, þannig að þeir fengju álit hans milliliðalaust svo það auðveldaði þeim ákvörðunina um áfrýjunina. Varnaraðili kveðst einnig vera kunnugt um að sóknaraðilar hafi leitað álits annarra lögmanna, svo og forsvarsmanna X-byggðar, áður en ákvörðun var tekin um áfrýjun málsins. Varnaraðili kveður það með öllu rangt að hann hafi beitt sóknaraðila þrýstingi til þess að málinu yrði áfrýjað.

 Varnaraðili kveður það vera álit sitt að sóknaraðilar, með ósannsögli sinni, séu að reyna að koma í veg fyrir að greitt sé réttmætt og sanngjarnt endurgjald fyrir veitta þjónustu.

 Að öðru leyti vísar varnaraðili til framlagðra gagna málsins, þ. á m. vinnuskýrslna sinna.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

 Ekki liggur fyrir skriflegur samningur um verkefni það, sem varnaraðili tók að sér fyrir X-byggð og sóknaraðila. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að sóknaraðilar hafi verið upplýstir um hver verkkostnaðurinn gæti orðið. Þó fór fram umræða um kostnað af málarekstrinum milli aðila, m.a. þegar sóknaraðilar gerðu varnaraðila tilboð um greiðslur til hans, sem háðar yrðu árangri.

II.

Fyrir nefndinni liggur ítarleg tímaskýrsla varnaraðila og nánari sundurliðun á verkkostnaði við málareksturinn. Sóknaraðilar hafa gagnrýnt tímaskýrsluna á þann hátt að þeim finnst undarlegt að undirbúningur fyrir flutning málsins í Hæstarétti skuli hafa tekið umtalsvert meiri tíma (66 klst.) en undirbúningur fyrir flutning þess í héraði (30 klst.). Tímaskýrsla varnaraðila og önnur gögn málsins bera með sér að hann hafi átt í samskiptum við sóknaraðila og forsvarsmenn X-byggðar við málareksturinn. Þá er þar skráð vinna við frágang ágrips vegna áfrýjunar málsins til Hæstaréttar.

 Krafa varnaraðila um greiðslu verkkostnaðar nemur alls 1.170.131 krónu og felur í sér 50% afslátt af vinnulið samkvæmt tímaskýrslunni. Þar af nemur umkrafin þóknun 843.600 krónum, án virðisaukaskatts. Miðað við tímagjald varnaraðila, 9.500 krónur án virðisaukaskatts, krefur hann um greiðslu fyrir tæplega 89 klst. vinnu við flutning málsins á tveimur dómstigum, eða um 45 klst. á hvoru dómstigi.

 Krafa sóknaraðila lýtur að því, eins og áður greinir, að eðlilegt endurgjald fyrir málflutningsstörf varnaraðila verði talið að hámarki 709.893 krónur og að honum verði gert að endurgreiða þeim 200.000 krónur. Krafan felur þannig í sér að þóknun varnaraðila yrði rúmlega 479.000 krónur, án virðisaukaskatts, en það samsvarar u.þ.b. 50 klst. vinnu eða 25 klst. á hvoru dómstigi.

III.

Meðal gagna málsins er afrit bréfs sóknaraðila til varnaraðila, dags. 15. október 2004, þar sem lagt er til að uppgjöri við varnaraðila ljúki þannig að sóknaraðilar greiði honum 200.000 krónur til viðbótar við það sem áður var búið að greiða. Biðja sóknaraðilar varnaraðila að taka tillit til niðurstöðu málsins og að sættast á þessar 200.000 krónur sem lokagreiðslu. Sama dag var þessi fjárhæð greidd til varnaraðila og var það síðasta greiðsla til hans. Var hann þá búinn að fá greiddar 909.893 krónur.

 Aðila greinir á um hvort varnaraðili hafi beitt sóknaraðila miklum þrýstingi um að hefja málareksturinn í héraði og til að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Hefur varnaraðili borið á móti staðhæfingum sóknaraðila þess efnis. Verður ekki skorið úr gagnstæðum fullyrðingum aðila að þessu leyti.

 Að mati úrskurðarnefndar felast í málatilbúnaði sóknaraðila og gögnum málsins ekki nægar forsendur til að endurmeta vinnuframlag það, sem krafa varnaraðila til endurgjalds felur í sér. Samkvæmt því er fallist á kröfu varnaraðila um að hæfilegt endurgjald fyrir störf hans í þágu sóknaraðila við rekstur málsins í héraði og fyrir Hæstarétti sé 1.170.131 króna, þar með talinn útlagður kostnaður og virðisaukaskattur. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru þannig ógreiddar 260.238 krónur af þeirri fjárhæð, sem sóknaraðilum er hér gert að greiða.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sóknaraðilar, A og B, greiði varnaraðila, C, 260.238 krónur.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA