Mál 7 2005

Ár 2007, miðvikudaginn 16. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2005:

B

gegn

R, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi B, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 17. febrúar 2005, var kvartað yfir störfum R, hdl., kærða, vegna starfa hans sem lögráðamaður kæranda. Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 8. mars 2005. Kærandi hefur ekki tjáð sig frekar um málið, en henni var gefinn kostur á því með bréfi nefndarinnar þann 15. apríl 2005. Með bréfi nefndarinnar til kæranda, dags. 11. maí 2005, var ítrekuð ábending til hennar um að gera athugasemdir við greinargerð kærða, teldi hún þörf á því. Engin viðbrögð hafa fengist við ábendingum nefndarinnar.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 23. apríl 2003 var kærði skipaður lögráðamaður kæranda að því er tók til sjálfræðis og fjárræðis, til loka marsmánaðar 2004. Kærði sinnti lögráðamennskunni fram í febrúar 2004, en samskipti kæranda og kærða á tímabilinu voru á ýmsan hátt stirð. Gætti m.a. tortryggni af hálfu kæranda í garð kærða vegna umsjónar hans með fjármálum hennar. Þann 18. febrúar 2004 sendi kærði símbréf til sýslumannsins í Reykjavík og fór fram á að verða leystur undan störfum sem lögráðamaður kæranda. Ástæðuna kvað hann vera gagnkvæman trúnaðarbrest. Fallist var á beiðni kærða og hann leystur undan störfum sem lögráðamaður kæranda.

Kærði gerði sýslumanni grein fyrir störfum sínum sem lögráðamaður kæranda í skýrslu, dags. 1. júlí 2004. Með skýrslunni sendi hann embættinu yfirlit um bankareikning er hann notaði í störfum sínum sem lögráðamaður, afrit reikninga fyrir vinnu sína, afrit húsaleigusamninga og loks ýmis bréf og greiðslukvittanir.

Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði frá sýslumannsembættinu var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða við fulltrúa sýslumanns, en af hálfu embættisins var kærði að öðru leyti ekki beðinn um frekari gögn eða skýringar. Ekki  var frekar aðhafst af hálfu embættisins og lauk málinu þannig á þeim vettvangi.

II.

Í erindi sínu kveðst kærandi telja kærða hafa misfarið með fjármuni sína og leynt sig upplýsingum um fjárhagsstöðu sína. Hann hafi ekki skilað inn skattframtali og íbúð kæranda hafi farið á nauðungarsölu. Kærði hafi skilað inn ófullnægjandi fjárhagsyfirliti, sem vekti fleiri spurningar en svör. Kærandi fer fram á að störf kærða í sína þágu verði rannsökuð og jafnframt að hún fái alla þá pappíra sem kærði er með á skrifstofu sinni, þ. á m. tryggingarvíxil og þá reikninga sem hún kveðst hafa látið kærða fá.

Kærandi kveður kærða hafa viðhaft stór og svíðandi orð um sig, svo sem: Hún er á Kleppsspítala. Á við andlega vanheilsu að stríða.

Kærandi kveður kærða hafa svarað fyrirspurn sinni um að fá pappíra til baka frá honum á þá leið að hann myndi senda sýslumannsembættinu öll gögnin. Þetta hefði hann ekki staðið við og hann hefði öll gögn ennþá í fórum sínum.

III.

Í greinargerð sinni til nefndarinnar vísar kærði til greinargerðar sinnar til yfirlögráðanda, sem hann sendi embættinu í byrjun júlí 2004. Kærði kveðst jafnframt hafa sent nýjum lögráðamanni kæranda og sýslumannsembættinu öll skrifleg gögn, sem hann hefði ekki lengur undir höndum, en unnt ætti að vera að nálgast þau hjá sifjadeild sýslumannsembættisins. Kærði kveðst ekki vera kunnugt um að embættið hefði gert athugasemdir við störf sín eftir skil greinargerðarinnar.

Í greinargerð sinni til sýslumannsins í Reykjavík kveður kærði bréf kæranda til embættisins frá 26. janúar 2004 fela í sér ýmsar aðdróttanir og ásakanir á hendur sér og að hann hafi valdið henni fjárhagsskaða. Kveðst kærði vísa á bug gagnrýni kæranda um að hún hafi skaðast vegna lögráðamennsku sinnar. Kærði kveðst hafa notað sérstakan bankareikning hjá viðskiptabanka sínum vegna fjármála kæranda og lét fylgja með til sýslumanns yfirlit um reikninginn þann tíma sem hann sinnti lögráðamennsku fyrir kæranda. Kærði kveður bankareikninginn eingöngu hafa verið notaðan til að halda utan um fjármál kæranda, svo nákvæmlega væri hægt að gera grein fyrir öllum ráðstöfunum vegna hennar fjármála.

Kærði kveðst hafa gert þrjá reikninga vegna lögráðamennsku sinnar. Fyrsti reikningurinn, nr. 353, að fjárhæð 120.482 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti, hafi verið greiddur þann 23. júní 2003. Kærði kveður reikninginn vera m.a. vegna vinnu við að fá styrk fyrir kæranda úr sjúkrasjóði X-félags Íslands að fjárhæð 1.386.460 krónur, auk mikils tíma sem farið hefði í samtöl og viðtöl við kæranda og ættingja hennar, ferðir á geðdeild LHS til að hitta kæranda, auk fjölmargra símtala fram að þessum tíma, bæði við kæranda og systur hennar.

Annar reikningurinn, sem var að sömu fjárhæð og sá fyrsti, var greiddur 21. ágúst 2003. Í vinnu að baki þeim reikningi fólust m.a. samskipti við Frjálsa lífeyrissjóðinn, fundir og símtöl við kæranda og auglýsing og vinna við að finna leigjendur að íbúð kæranda. Kærði kveður mikla vinnu hafa farið í að sýna íbúðina og velja leigjendur, en mikil spurn hafi verið eftir húsnæðinu þegar það var auglýst til leigu. Kærði kveður leigusamning hafa verið gerðan á skrifstofu sinni og hafi leigan verið ákveðin 65.000 krónur á mánuði.

Kærði kveður síðasta reikninginn hafa verið að fjárhæð 60.241 króna auk virðisaukaskatts og hafi sá reikningur verið greiddur 19. febrúar 2004. Sá reikningur hafi verið vegna ýmissa funda með kæranda á tímabilinu september 2003 til febrúar 2004, greiðslu ýmissa skulda og vinnu við endurnýjun leigusamningsins við sömu leigjendur og fyrr, frá 1. mars til loka maí 2004.

Kærði kveður fjárhæð reikninga hafa verið afar hóflega miðað við vinnu.

Kærði kveðst hafa af fremsta megni reynt að verða við óskum kæranda um greiðslur til ættingja og vina. Hann kveðst þó hafa viljað fara varlega í að greiða strax allar skuldir, til að mynda við bróður hennar, enda hafi fjárhagsstaða hennar verið afar slæm á tímabili, þótt úr því hafi ræst. Kærði kveðst hafna ásökunum kæranda um að hann hafi ætlað að neyða hana til þess að selja íbúð sína. Hann kveðst hafa rætt við kæranda um hugsanlega sölu eignarinnar, á tímabili þegar fjárhagsstaðan var mjög slæm. Ekki hafi komið til þess að selja eignina, enda hefði fjárhagsstaða kæranda orðið betri síðar. Kærði kveður það rétt vera hjá kæranda að bæði félagsráðgjafar hennar og þjónustufulltrúi hennar hjá Sparisjóði vélstjóra hafi unnið mikið fyrir hana, þ. á m. í samingaumleitunum við lánardrottna. Kærði kveður það hafa verið afar heppilegt að fá starfsmann sparisjóðsins til þessara verka og hafi þjónustufulltrúinn verið í töluverðum samskiptum við sig vegna þessa.

Kærði kveðst hafa tjáð deildarstjóra sifjadeildar sýslumannsins í Reykjavík að líklega hefði mátt greiða skuldir kæranda hraðar en raun varð á. Kærði kveðst þó hafna því að það hefði haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir hana. Nær alls staðar þar sem skuldir hefðu verið greiddar fyrir hönd kæranda hefði verið veittur afsláttur af vöxtum. Væri um tjón að ræða gæti það ekki verið mikið.

Kærði kveðst vísa því á bug að hann hefði ekki gætt hagsmuna kæranda.

Niðurstaða.

I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum Lögmannafélags Íslands, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum.

Erindi kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna varðar kvörtun hennar yfir störfum kærða sem skipaðs lögráðamanns síns.

Í 5. kafla lögræðislaga, nr. 71/1997, er fjallað um lögráðamenn, skipun þeirra, réttindi og skyldur og eftirlit með störfum þeirra. Meginreglan er sú að við lögræðissviptingu hverfa lögráðin til yfirlögráðanda í því umdæmi sem hinn lögræðissvipti á lögheimili í, sbr. 52. gr. laganna. Yfirlögráðandi skal skipa hinum lögræðissvipta lögráðamann svo fljótt sem verða má, eftir að honum berst staðfest endurrit úrskurðar um lögræðissviptinguna.

Samkvæmt 54. gr. laganna skal skipaður lögráðamaður vera lögráða og fjár síns ráðandi, ráðvandur og ráðdeildarsamur og að öðru leyti vel til starfans fallinn. Enginn verður skipaður lögráðamaður nema hann hafi veitt til þess samþykki sitt.

Það er ekki hæfisskilyrði að lögráðamaður hafi lögmannsréttindi.

Í skriflegri ákvörðun um skipun lögráðamanns skal m.a. koma fram um þóknun lögráðamanns og fyrirkomulag á greiðslu hennar, sbr. 1. mgr. 56. gr. og 62. gr. lögræðislaga.

Lögráðamaður skal haga störfum sínum í þágu hins ólögráða eins og best hentar hag hans hverju sinni, en honum er skylt að fara að fyrirmælum yfirlögráðanda og dómsmálaráðuneytis, sbr. 2. og 3. mgr. 60. gr. laganna.

Lögráðamaður sætir í störfum sínum eftirliti yfirlögráðanda og gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji sérstakar reglur um störf og starfsskyldur lögráðamanna, sbr. 4. mgr. 60. gr. laganna. Lögráðamanni ber að tilkynna yfirlögráðanda um tilteknar ákvarðanir sínar og árlega ber honum að senda yfirlögráðanda skýrslu sína um helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið á fyrra ári um fjárhald og eignaumsýslu hins fjárræðissvipta manns, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 81. gr. lögræðislaga hafa yfirlögráðendur eftirlit með störfum skipaðra lögráðamanna samkvæmt ákvæðum laganna. Stjórnvaldsákvörðunum yfirlögráðenda samkvæmt lögunum má skjóta til dómsmálaráðherra innan 30 daga frá birtingu þeirra, sbr. 83. gr. laganna.

II.

Af framangreindum ákvæðum lögræðislaga verður ráðið að allir lögráðamenn, óháð menntun og starfsréttindum, sæti eftirliti yfirlögráðanda. Verður ekki séð af lögunum að lögráðamenn, sem hafa lögmannsréttindi, eigi að sæta annars konar meðferð í eftirliti með störfum sínum heldur en aðrir lögráðamenn.

Að mati úrskurðarnefndar lögmanna felur skipan mála samkvæmt lögræðislögunum það í sér að kvörtunum vegna starfa lögráðamanna eða vegna ágreinings um þóknun þeirra ber að beina til hlutaðeigandi yfirlögráðanda til umfjöllunar og úrlausnar. Af þessum sökum og með vísan til skilgreiningar á valdsviði sínu í 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga telur úrskurðarnefnd það falla utan lögbundins valdsviðs síns að fjalla um erindi sem fela í sér kvartanir vegna starfa lögráðamanna eða ágreining um þóknun þeirra. Ber því að vísa máli þessu frá.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, B, er vísað frá.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA