Mál 27 2009

Ár 2011, fimmtudaginn 12. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 27/2009:

A ehf og F

gegn

I  hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi F, persónulega og fyrir hönd A ehf, kærenda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 6. október 2009, var kvartað yfir vinnubrögðum I hrl., kærða, við innheimtu í skuldamáli á hendur þeim. Kærði sendi nefndinni greinargerð þann 19. nóvember 2009. Kærendur gerðu nokkrar athugasemdir við geinargerðina í bréfi, dags. 22. janúar 2010. Kærði tjáði sig um skrif kæranda í tölvupósti þann 16. mars 2010. Með  bréfi, dags. 27. september 2010 sendu kærendur úrskurðarnefndinni frekari gögn vegna málsins. Með bréfum dags. 23. mars 2011 voru málsaðilum kynnt þessi síðustu gögn frá gagnaðilum og boðið að koma að lokaathugasemdum vegna þeirra innan tveggja vikna. Athugasemdir bárust frá kærða 25. mars 2011, en frekari athugasemdir hafa ekki borist frá kærendum

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kvörtunin beinist að meintum ólögmætum gjörðum kærða „sem lögmanns T hf. í tengslum við meinta lögfræðilega innheimtu bílaláns í eigu tryggingafélagsins vegna bifreiðarinnar [...] yfir tímabilið frá og með október 2008 og til og með deginum í dag" eins og fram kemur í kvörtun kærenda.

Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og öðrum gögnum málsins, að kærði fékk í byrjun október 2008 til innheimtu kröfu T á grundvelli veðskuldabréfs vegna bílaláns. Var skuldabréfið gefið út af kæranda A en með sjálfskuldarábyrgð kæranda F. Fyrir hafði kærandi til innheimtu gjaldfallna sjálfskuldarábyrgð í starfsábyrgðartryggingu T á hendur A. Voru þá gjaldfallnir gjalddagar skuldabréfsins í júlí, ágúst og september, en kærendum segist svo frá að T hafi neitað að taka við greiðslum. Í októberlok kvaðst kærði ekki tilbúinn til að semja um að gefa langan greiðslufrest á umræddu skuldabréfi nema jafnframt yrði samið um kröfu tryggingafélagsins vegna ábyrgðartryggingarinnar. Af hálfu kærenda er því haldið fram að kærði hafi tjáð þeim að T vildi nota kröfuna vegna bílalánsins til að þvinga fram greiðslu á kröfunni vegna sjálfsábyrgðarinnar, en þessu er hafnað af kærða. Eftir að innheimtuaðgerðum hafði verið frestað var þann 10. nóvember samið um að krafan vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar skyldi greidd með 500.000 kr. þann dag, en í því fólst nokkur afsláttur af kostnaði vegna innheimtu kröfunnar. Um leið var samið um að greiddar skyldu 150.000 krónur af bílaláninu mánaðarlega fyrir 1. hvers mánaðar, fyrst 5. desember og þar til það væri komið í skil. Því er haldið fram af kærendum að það hafi verið hluti þessa samkomulags, að ekki skyldi greiddur frekari innheimtukostnaður vegna bílalánsins, heldur yrði því komið í skil með þessum 150.000 kr. greiðslum á sex mánuðum, en mánaðarlegar afborganir námu þá um 89.000 kr. Er því einnig haldið fram af kærendum að þegar við undirritun samkomulagsins hafi komið fram að greiðsla í desember myndi dragast að einhverju leyti, en allur greiðsludráttur yrði bættur með vanskilavöxtum.

Kærendur telja að af sinni hálfu hafi verið staðið við þetta samkomulag frá 10. nóvember 2008 að öllu verulegu leyti, en þrátt fyrir það hafi kærði ekki staðið við samkomulagið fyrir sitt leyti. Hafi hann tilkynnt þá á vanskilaskrá eftir að samkomulagið var gert, hótað uppboði á hinni veðsettu bifreið og sent þeim kvittanir sem sýndu að greiðslum þeirra samkvæmt samkomulaginu var í raun ekki ráðstafað inn á skuldina heldur upp í ýmsa kostnaðarliði á borð við vörslutöku sem þó hefði aldrei farið fram. Þann 18. mars hafi kærði svo sent þeim tölvupóst um stöðu málsins þar sem hann hafi upplýst þau um að það muni fyrirsjáanlega taka þau u.þ.b. 8 mánuði til viðbótar að greiða lánið upp með mánaðarlegum 150.000 króna greiðslum. Í lok mars hafi kærði svo sent þeim yfirlit sem sýndi að innborgunum vegna lánsins hafði ekki verið ráðstafað inn á bílalánið nema að takmörkuðu leyti.

Lýsing kærða á gangi innheimtumálsins eftir að samkomulag var gert 10. nóvember var gert, er sem hér greinir.

  • Innheimtumál vegna skuldabréfsins fellt niður í héraðsdómi þegar daginn eftir að samkomulagið var gert og samþykkt þann 21. nóvember að skrá kærendur af vanskilaskrá.
  • Greiðslan vegna desember hafi fyrst borist þann 8. des og þá aðeins 65.000 í stað 150.000. Hafi kærði samþykkt að veita frest á eftirstöðvum þeirrar greiðslu til jan 2009.
  • 11. janúar 2009 hafði engin greiðsla vegna janúar borist og var þá beðið um uppboð á hinni veðsettu bifreið.
  • 21. janúar hafi sýslumaður veitt heimild til vörslutöku bílsins og hafi hún verið send til framkvæmdar.
  • 27. janúar hafi verið samið um að greiddar yrðu 200.000 kr. þann dag og yrði þá vörslutöku frestað, en svo skyldu greiddar 150.000 kr á mánuði
  • 9. febrúar hafi vörslutaka verið sett af stað á ný þar sem engin greiðsla hafi borist í febrúar.
  • 4. mars hafi 150.000 kr. verið greiddar vegna febrúar og greiðslu vegna mars lofað. Vörslutöku hafi þá enn verið frestað.
  • 18. mars hafi 150.000 greiðsla (vegna mars) borist
  • 19. apríl hafi vörslutaka enn verið sett af stað því engin greiðsla hafði þá borist fyrir apríl.
  • Ekki hafi verið greitt af láninu eftir þetta, en 13. maí hafi kærði og T fallist á að skuldbreyta láninu þannig að greiddur yrði þriðjungur af vanskilum auk innheimtukostnaðar. Ekkert hafi orðið af þessu af hálfu kærenda. Ekkert hafi verið greitt af láninu og kærendur hafi haldið bifreiðinni frá vörslutöku.

Kærendur hafa ekki gert athugasemdir við þessa lýsingu að öðru leyti en því að þeir telja sig hafa greitt samkvæmt samkomulaginu í 4 mánuði, allt þar til þess að þeir hafi þann 18. mars 2009 orðið þess áskynja að greiðslum þeirra hefði ekki verið ráðstafað að fullu til uppgreiðslu á kröfunni, heldur hefði féð að verulegu leyti verið haldið eftir af kærða og tekið upp í innheimtuþóknun. Virðist ekki vera ágreiningur um hvaða greiðslur hafa verið inntar af hendi vegna innheimtumálsins.

II.

Kærendur telja að það hafi falist í því ólögmæt þvingun af hálfu T og kærða að setja umrætt bílalán í innheimtu hjá kærða og gera uppgjör á sjálfsábyrgðarkröfunni að skilyrði þess að unnt væri að ganga frá skuldabréfinu. Telja þeir að þannig hafi þeir verið þvingaðir til að greiða umrædda sjálfskuldarábyrgð að fullu, en um hana hafi verið ágreiningur.

Kærendur telja að kærði hafi svikið samkomulagið frá 10. nóvember 2008 með því að ráðstafa greiðslum upp í innheimtukostnað í stað þess að láta þær koma að fullu til lækkunar á skuld sinni við T samkvæmt skuldabréfinu.

Kærendur byggja á því að tilteknir gjaldaliðir í reikningum kærða vegna innheimtu kröfunnar eigi ekki við rök að styðjast og vísa sérstaklega til reikninga vegna vörslusviptinga sem aldrei hafi farið fram.

Kærendur halda því fram að kærði beri ábyrgð á skráningu þeirra á vanskilaskrá, á sama tíma og þeir hafi samið við kærða um greiðslu bílalánsins og greitt samkvæmt því

Kröfur kærenda, eins og þær eru settar fram í kvörtun þeirra, eru sem hér greinir.

  • A. Að ráðstafanir kærða hvað varðar umrætt bílalán verði afmunstraðar og að bílalánið verði án tafar sent frá kærða til kröfueiganda T hf. til eðlilegrar meðferðar í samræmi við skilmála lánsins.
  • B. Að tekið verði fullt tilit til allra greiðslna sem kærendur hafa greitt til kærða á umræddu tímabili og að greislum verði ráðstafað inn á lánið í samræmi við skilmála lánsins og samkomulag þar að lútandi.
  • C. Að kærendum verði í framhaldi af því gert kleift að semja við T hf. um eftirstöðvar lánsins án milligöngu og afskipta kærða
  • D. Að allur kostnaður og þóknun sem kærði hefur heimfært á umrætt bílalán verði felldur niður.
  • E. Að athugað verði hvort gjörðir og ráðstafanir kærða varði við brot á greinum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, n.t.t. 158.gr, 247.gr, 248.gr, 249.gr, 250.gr og 254.gr laganna

Með bréfi, dags. 6. maí 2011fóru kærendur þess á leit að nefndin frestaði frekari vinnslu málsins þar til niðurstaða dóms í héraðsdómsmálinu [...lægi fyrir], en málið stafi frá ágreiningi aðila varðandi sama löggerning og kvörtun þeirra í þessu máli reki rætur sínar til. Kærði sé þó ekki aðili að héraðsdómsmálinu. Í þessu sama bréfi er fullyrt að greiðsluskylda kærðu hafi aldrei verið fyrir hendi vegna þess að skjöl hafi verið óundirrituð af hálfu A ehf. og fundið að því að kærði hafi haldið greiðsluskyldu að kærendum gegn betri vitund.

III.

Kærði hafnar kröfum kærenda með öllu, enda sé einkum krafist ráðstafana sem úrskurðarnefndin hafi enga lögsögu um. Hann hafi ekkert ólögmætt aðhafst við þessa innheimtu og aldrei gefið til kynna að bílalánið væri til innheimtu í því skyni að þvinga fram uppgjör á sjálfskuldarábyrgðinni. Í innheimtumáli vegna þeirrar ábyrgðar hafi kærendur ítrekað fengið fresti til að skila greingargerð en að lokum ákveðið að gera skuldina upp. Kærendum hefði verið í lófa lagið að greiða bílalánið í skil og láta reyna á álitaefni varðandi sjálfskuldarábyrgðina í dómsmálinu.

Kærði kveður allan ágreining í þessu máli hafa staðið um það að kærendur hafi ekki staðið við það sem um var samið varðandi það að koma bílaláni þeirra í skil. Kærandi mótmælir sem röngum öllum staðhæfingum kærenda um annað.

Kærði hefur í tölvupóstum sínum til kærenda, sem hann vísar til í greinargerð sinni, hafnað því að í samkomulaginu frá nóvember 2008 hafi falist að hann gæfi eftir innheimtuþóknun vegna bílalánsins.

IV

Í máli þessu hafa verið lagðir fram úrskurðir úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki á kvörtun kærenda og ákveðin gögn úr málarekstri fyrir þeirri nefnd. Einnig hafa málsaðilar lýst gangi uppboðsmáls vegna hinnar veðsettu bifreiðar og lýst afstöðu sinni til þess. Þá hafa einstök gögn vegna aðfararmáls T á hendur kærenda hjá sýslumanninum í [...] verið lögð fram. Loks hafa kærendur vísað til álits ráðgefandi lögmanns LMFÍ á þóknun kærða og funda hans með kærða. Þessi gögn falla að mestu utan þess sem fjallað er um í máli þessu og þær niðurstöður sem þar um ræðir hafa ekki áhrif á niðurstöðu úrskurðarnefndar lögmanna.

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Það fellur utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að mæla fyrir um að ráðstafanir kærða hvað varðar umrætt bílalán verði ógiltar og að bílalánið verði sent til kröfueiganda T hf. eða að mæla fyrir um hvernig skuli draga þær greiðslur sem kærendur hafa greitt til kærða á frá fjáræð umrædds láns. Þá brestur nefndina valdheimildir til að mæla fyrir um skyldur kröfuhafans T hf. til að semja við kærendur um eftirstöðvar lánsins. Loks er ljóst að rannsókn á því hvort kærði hafi gerst sekur um brot á tilgreindum hegningarlagaákvæðum getur aðeins farið fram hjá þar til bærum löggæsluyfirvöldum. Er þessum þáttum í kröfugerð kæranda því vísað frá nefndinni, en þær málsástæður sem kærendur hafa rakið í tengslum við þessa kröfugerð koma til skoðunar í málinu eftir því sem þær rúmast innan athugunar nefndarinnar á því hvort kærði hafi í störfum sínum brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna

Ekki er unnt að fallast á kröfur um að máli þessu verði enn frestað á meðan beðið sé niðurstöðu dómstóla í máli kærenda og T, enda á kærði enga aðild að því máli. Fullyrðingar kærenda í bréfi þeirra frá 6. maí 2011 um að greiðsluskylda sé ekki fyrir hendi vegna þess að skjöl séu ekki réttilega undirrituð eru ekki á meðal þess sem upphaflega var kvartað um. Ágreiningur þeirra við kröfuhafann um þetta virðist vera í réttum farvegi hjá dómstólum, en sá vafi sem kærendur telja að sé um réttmæti kröfunnar að þessu leyti getur ekki leitt til þess að það verði talið ámælisvert af kærða að taka að sér innheimtu hennar. 

Ekkert liggur fyrir um að kærði hafi með óeðlilegum hætti tengt saman samninga um uppgjör vanskila á skuldabréfinu og uppgjör á kröfunni vegna sjálfsábyrgðar til að þvinga fram greiðslu á kröfu félagsins vegna sjálfsábyrgðar utan fullyrðingar kærenda. Eru fjárhæðir þær sem um er að tefla í þessum tveimur málum með þeim hætti að það verður að fallast á það með kærða að kærendum hefði verið í lófa lagið að gera upp vanskil á umræddu bílaláni og láta reyna á rétt sinn vegna kröfu T um greiðslu á sjálfsábyrgð starfsábyrgðartryggingar. Fullyrðingar kærenda um að T hafi neitað að taka við greiðslum eru óviðkomandi þessu máli sem lýtur aðeins að háttsemi kærða og eru ekki studdar öðrum gögnum en tölvupósti kærenda og lýsingum þeirra sjálfra. Í þessu sambandi verður einnig að líta til þess að um er að ræða tvær gjaldfallnar kröfur sama kröfuhafa á hendur sömu skuldurum og ekki er óeðlilegt að um þær sé samið í einu lagi.

Hvorki kærendur né kærði hafa lagt fram gögn um það samkomulag sem gert var 10. nóvember 2008 um uppgreiðslur á vanskilum umrædds bílaláns. Virðist mega ráða af gögnum málsins að samkomulagið hafi verið munnlegt. Kærendur lýsa þessu samkomulagi svo, að það hafi falið í sér að fallið yrði frá áfallinni innheimtuþóknun vegna lánsins. Þessum skilningi var á hinn bóginn mótmælt af kærða um leið og tilefni var til þess í samskiptum aðila í tölvupósti í marsmánuði 2009. Ber því nauðsyn til þess að taka afstöðu til þess hver eigi að bera hallann af óvissunni um efni samkomulagsins að þessu leyti. Almennt verður að leggja sönnunarbyrði á þann sem fullyrðir að gagnaðili hafi lofað að gefa eftir af hagsmunum sínum. Við það bætist, að miðað við þau gögn sem kærendur lögðu fram með kæru sinni greiddu þau þann 4. mars og aftur 18. mars 2009 inn á skuldina þrátt fyrir að hafa fengið í hendur kvittun vegna fyrri greiðslunnar sem sýnir glögglega að kærði áskildi sér innheimtuþóknun vegna málsins

Kærendum mátti vera ljóst að þegar ítrekað kom til vanskila þeirra á greiðslum samkvæmt þessu samkomulagi, leiddi það til þess að gripið væri til innheimtuaðgerða og að því kynni að fylgja kostnaður. Sá háttur að draga ítrekað greiðslur sem voru á gjalddaga 5. hvers mánaðar, og greiða svo eftir að innheimtuaðgerðir höfðu hafist, hlaut að leiða til töluverðs kostnaðar, enda þótt kærendur líti svo á að vanskilin hafi verið óveruleg. Við yfirferð úrskurðarnefndarinnar hefur ekki komið fram að einstakir kostnaðarliðir innheimutmálsins séu hærri en vænta mátti miðað við framgang málsins, en beiðnir um vörslutöku voru m.a. ítrekað sendar og afturkallaðar vegna ofangreinds.

Kærendur staðhæfa sem fyrr greinir í kvörtun sinni að kærði beri ábyrgð á skráningu þeirra á vanskilaskrá, á sama tíma og þeir hafi samið við kærða um greiðslu bílalánsins og greitt samkvæmt því. Í málavaxtalýsingu kærða kemur hins vegar fram að samþykkt hafi verið 21. nóvember 2008 að skrá A og F af vanskilaskrá, þ.e. þegar eftir að samkomulagið var gert. Þá kveðst kærði fyrst í október 2009 hafa óskað eftir því að kærendur yrðu skráð á nýjan leik vegna vanefnda sinna á en það hafi fyrirfarist fram að því. Þar sem kærunefndin hefur ekki aðgang að upplýsingum um þessar skráningar, var því beint til kærenda að þeir útveguðu gögn um hvernig kærði hefði óskað skráningar á kærendum í vanskilaskrá. Þeim tilmælum hafa kærendur ekki sinnt og verður því ekki byggt á fullyrðingum þeirra að þessu leyti eða athugasemdir gerðar við störf kærða vegna skráninga kærðu í vanskilaskrá.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, I hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A ehf og F, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.