Mál 5 2011

Ár 2011, föstudaginn 7. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 5/2011:

F

gegn

A hrl., B hrl. og C hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna  barst þann 29. apríl 2011 erindi F þar sem kvartað er yfir störfum kærðu að skiptamáli kærða og fyrrum eiginkonu hans, en skiptalok í búi þeirra urðu [í] september 2008. Starfaði kærði C að skiptamálinu fyrir  kæranda, en kærða A fyrir konuna. Kærði B var skiptastjóri í búinu.

Kærðu sendu nefndinni greinargerðir um málið, sem mótteknar voru 30. maí, 1. júní og 13. júní 2011. Með bréfi nefndarinnar, dags. 23. júní 2011, var kæranda gefinn kostur á að koma að skýringum á því hve kvörtunin kæmi fram löngu eftir þau atvik sem um ræðir. Svar kærða barst nefndinni þann 14. júlí 2011.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerðum kærðu og tilvitnuðum skýringum kæranda, ásamt þeim gögnum sem aðilar hafa sent nefndinni eru málsatvik þau að bú kæranda og eiginkonu hans var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms [í]  apríl 2006. Lauk skiptum á búinu á skiptafundi [í]  september 2008.

Á meðal þeirra eigna sem fjallað var um við búskiptin var bifreiðin [...]. Var samkomulag um það við skiptin að hún skyldi koma í hlut kæranda. Var bifreiðin metin á 100.000 kr. við skiptin. Þessi bifreið var á hinn bóginn skráð eign eiginkonu kæranda í bifreiðaskrá. Á meðan á skiptum stóð gengu tölvupóstar á milli lögmanna þeirra hjóna, þar sem þetta kom fram. Jafnframt kom þar fram að það stæði upp á eiginkonu kæranda að tilkynna um eigendaskipti á bifreiðinni.

21. nóvember 2006 kom fram í tölvupósti frá lögmanni eiginkonunnar til lögmanns kæranda að kærandi hefði sett umrædda bifreið í viðgerð á verkstæði og látið senda konunni reikninginn. Þá væri hún enn að greiða bifreiðagjöld vegna þessarar bifreiðar. Var sú krafa sett fram að kærandi greiddi umræddan viðgerðarkostnað að fjárhæð kr. 14.000.

Var málið aftur í umræðu vorið 2007 og þann 26. mars það ár kom fram í tölvupósti frá lögmanni eiginkonunnar til lögmanns kæranda að konan hefði tekið að sér að undirrita tilkynningu um eigendaskipti vegna þessarar bifreiðar. Ekki varð þó af því að konan léti umskrá bifreiðina

Þann 19. ágúst 2009, nærri ári eftir skiptalok hafði kærði C, lögmaður kæranda, enn samband við kærðu A vegna þess að eigendaskiptum væri ekki lokið á umræddri bifreið. Tók hún málið upp við konuna. Kom þá í ljós að konan kvað kæranda hafa sett bílinn á verkstæði og þar gæti hann náð í hann gegn greiðslu viðgerðarkostnaðar og myndi þá ekki standa á henni að tilkynna um eigendaskiptin. Verkstæðið hefði á hinn bóginn hafið innheimtuaðgerðir á hendur henni vegna viðgerðarkostnaðarins og yrði maðurinn að ganga frá uppgjöri á honum áður en hún gengi frá slíkri tilkynningu.

Fór svo að lokum að konan seldi þriðja manni bifreiðina til þess að losna frá þessum innheimtukröfum og taldi sig þá hafa veitt kæranda ótal tækifæri til að ganga frá viðgerðarkostnaðinum og taka við bílnum.

Haustið 2009 voru kærandi og kærði C í sambandi vegna þessarar bifreiðar. Kom þar fram að kærði C taldi hæpið að ætla að gera frekari kröfur á hendur konunni vegna þessa. Vísaði hann þar til þess að kærandi hefði ekki haldið fram rétti sínum yfir bifreiðinni þótt skiptum í búi þeirra hjóna hefði lokið í september 2008. Taldi kærði C vænlegast að reyna að fara samningaleiðin að þeim manni sem hafði keypt bílinn. Voru nokkur samskipti við hann vegna þess, en þeim lauk án árangurs, að því er best verður séð í september eða október 2009.

Þann [...] 2010 var kveðinn upp dómur í héraðsdómi Norðurlands vestra, þar sem fallist var á kröfur fyrrum eiginkonu kæranda um lögskilnað. Er á því byggt í dómnum að opinberum skiptum í búinu hafi lokið haustið 2008 og öðrum skilyrðum fyrir veitingu lögskilnaðar með dómi séu uppfyllt. Útivist varð af hálfu F í þessu dómsmáli og kveðst hann ekki hafa séð umræddan dóm fyrr en í júní 2010, enda hafi stefnan verið ranglega birt og hann ekkert af málinu vitað.

II.

Kærandi byggir á því að kærðu hafi borið ábyrgð á því að skiptum á búi hans og eiginkonu hans yrði lokið með skikkanlegum hætti. Það hafi þau ekki gert og hafi það orðið til þess að hann hafi ekki fengið í sinn hlut bifreiðina sem samkomulag var um að kæmi í hans hlut.

Að því er varðar þann drátt sem orðið hefur á því að mál þetta kæmi fyrir nefndina byggir kærandi á því að hann hafi fyrst orðið þess áskynja í júní 2010 að umræddir lögmenn hefðu ekki lokið þeirri vinnu sem þeim bar. Þá hafi honum borist endurrit dómsins um lögskilnað þar sem byggt var á því að fjárslitum væri lokið. Allt fram til þess tíma hafi hann verið í góðri trú um að málið væri í farvegi. Hafi kærði C m.a. staðið í kærumálum til dómsmálaráðuneytisins vegna „sama máls" og varðaði það erindi meðlagsúrskurð. Eftir að kæranda barst endurrit dómsins hafi hann ritað öllum kærðu erindi og óskað eftir fulltingi þeirra við að rétta hlut sinn.

Kærðu hafna því í greinargerðum sínum að bera ábyrgð á því hvernig til tókst með eigendaskipti að umræddri bifreið, en hafa ekki lýst sérstökum kröfum. Þeim hefur ekki verið gefinn kostur á því sérstaklega að koma að sjónarmiðum sínum um hugsanlega fyrningu málsins m.t.t. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í þessu felst að nefndinni er ekki heimilt að taka mál til skoðunar og finna að vinnubrögðum lögmanns eða grípa til annarra aðgerða á grundvelli 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga ef talið er að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að senda nefndinni kvörtun í meira en eitt ár.

Í þessu máli byggir kærandi á því að hann hafi fyrst orðið þess áskynja  í júní 2010 að umræddir lögmenn hefðu ekki lokið þeirri vinnu sem þeim bar, en þá hafi honum borist endurrit dóms þar sem byggt var á því að fjárslitum væri lokið.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé unnt að fallast á þetta. Skiptum í búi kæranda og eiginkonu hans lauk [...] september 2008 í framhaldi af dómum um ákveðnar eignir þeirra. Ekki er fyllilega ljóst á hvaða tímamarki kærandi varð þess vís að skiptum væri lokið. Það liggur þó fyrir í gögnum sem kærandi lagði sjálfur fram, að honum var kunnugt um skiptalokin í október 2009. Á því tímamarki var honum jafnframt ljóst að skiptalok hefðu orðið án þess að gengið væri frá umskráningu þeirrar bifreiðar sem mál þetta snýst um og að það hafði orðið til þess að fyrrum eiginkona hans hafði afsalað bílnum til þriðja manns. Ársfrestur hans til að beina kvörtun til nefndarinnar vegna þessa rann því út, ekki síðar en í október 2010. Er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, F, vegna starfa kærðu, A hrl., B hrl. og C hdl. að skiptum á búi kæranda og þáverandi eiginkonu hans er vísað frá.