Mál 6 2011

Ár 2011, föstudaginn 11. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 6/2011:

G

gegn

S hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi G til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 6. maí 2011, var kvartað yfir störfum S hdl., kærða, að sakamáli kæranda.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 1. júní 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 30. júní 2011, en hann hafði einnig skilað viðbótargögnum vegna málsins þann 6. júní 2011. Kærða var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir við þessi viðbótargögn og andsvör kæranda með bréfi nefndarinnar 20. júlí 2011, en hann kaus að gera ekki frekari athugasemdir vegna málsins. Með bréfi nefndarinnar til kærða, dags. 7. október 2011 var óskað svara við tveimur spurningum nefndarinnar um sakarefnið, sérstaklega um samskipti aðila máls þessa og undirbúning fyrir aðalmeðferð sakamálsins sem málið snýst um og barst svar kærða 21. október. Sama dag bárust nefndinni frá kæranda frekari upplýsingar um heilsufar hans. Þessi bréf voru send gagnaðilum þann 27. október og kostur gefinn á að koma að athugasemdum vegna þeirra og bárust athugasemdir kæranda þann 2. nóvember 2011.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að morguninn [...] 2009 var kærandi máls þessa handtekinn og færður til yfirheyrslu vegna gruns um kynferðisbrot gegn tæplega 18 ára gamalli stúlku. Var kærði jafnframt beðinn af lögreglu að mæta á lögreglustöðina [...] til að gæta að hagsmunum hans. Ræddu þeir einslega saman fyrir yfirheyrsluna. Þá neitaði kærandi að hafa hitt viðkomandi stúlku. Eftir að yfirheyrslan hófst komu hins vegar fram gögn sem urðu til þess að kærandi breytti framburði sínum um þetta og gekkst við því að hafa verið með stúlkunni. Hélt svo yfirheyrslan áfram um sinn og játaði kærandi sumt sem á hann var borið en neitaði öðru. Var honum svo sleppt að yfirheyrslu lokinni.

Kærandi og kærði hittust aftur í annarri yfirheyrslu vegna málsins þann [...] nóvember 2009. Í ársbyrjun 2010 var kæranda svo birt ákæra vegna málsins.

Óumdeilt er að kærði og kærandi hittust hið þriðja sinnið við þingfestingu málsins [...] febrúar 2010. Segir kærandi að þeir hafi hist um 5 mínútum áður en málið var tekið fyrir og hafi hann verið með öllu óundirbúinn. Segir kærandi að það hafi fyrst verið í dómssalnum sem kærði fór að ræða við sig um málið og sýna sér gögn þess. Ekki varð af frekari viðræðum þeirra við þetta tækifæri.

Það er óumdeilt að þeir ræddu saman í síma einu sinni fyrir aðalmeðferð málsins, en kærandi lýsir því símtali svo að þar hafi verið rætt um nauðsyn þess að þeir hittust fyrir aðalmeðferð málsins og um að óskað væri eftir því að hann yrði ekki í dómssal þegar meintur brotaþoli gæfi skýrslu og gæti hann því farið heim eftir að hafa gefið sína skýrslu.

Þegar aðalmeðferð málsins var haldin í héraðsdómi þann [...] 2010 kveðst kærandi hafa verið mættur 50 - 60 mínútum áður í því skyni að fara yfir málið með kærða. Kærði hafi hins vegar komið 3 - 5 mínútum áður en aðalmeðferðin hófst og hafi kærði þá útskýrt hvar hann ætti að sitja og fleira þ.h. en ekki hafi verið rætt um málsvörnina. Kærði segir þetta ekki hafa verið svo stuttan tíma.

Kærandi segir í kæru sinni að sig minni að við aðalmeðferðina hafi saksóknari aðeins spurt sig tveggja til þriggja spurninga, en kærði einnar. Þessari lýsingu er mótmælt af kærða sem m.a. hefur lagt fram spurningalista sinn vegna aðalmeðferðar málsins. Þar sem upplýsingar um þetta liggja fyrir í gögnum Hæstaréttarmálsins hefur nefndin staðreynt að hið rétta er að kærði spurði kæranda 12 spurninga í kjölfar þess að sækjandinn í sakamálinu spurði hann ríflega 100 spurninga.

Þá segir kærði að þarna við aðalmeðferðina hafi komið fram að umrædd stúlka væri smituð af lifrarbólgu C, en þetta hafi komið sér í opna skjöldu.  Óumdeilt er hins vegar að þeir áttu ekki frekari samskipti fyrr en kærði fékk boðun þann [...] 2010 í dómsuppkvaðningu daginn eftir, en hvorugur þeirra mætti til hennar. Eftir að kærði fékk dóminn í hendur tilkynnti hann kæranda að hann hefði verið dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi og til greiðslu [...] skaðabóta auk 600.000 kr. í sakarkostnað.

Sem fyrr greinir barst úrskurðarnefndinni kvörtun vegna málsins þann 6. maí 2011.

II.

Kærandi krefst í fyrsta lagi endurgreiðslu eða lækkunar á málsvarnarlaunum. Í öðru lagi krefst hann þess að úrskurðarnefndin taki fyrir hvort kærði hafi farið eftir [...] lögum og siðareglum LMFÍ og að nefndin taki skýra afstöðu til vinnubragða lögmannsins, en þessi þáttur kröfugerðarinnar verður skilinn svo að þess sé krafist að kærði sæti viðurlögum á grundvelli 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Í þriðja lagi krefst kærandi skaðabóta úr starfsábyrgðartryggingu kærða.

Aðfinnslur kæranda lúta að fjölmörgum atriðum varðandi meðhöndlun kærða á sakamálinu Lúta þær bæði að því hvernig kærði nálgaðist verkefni sitt að ýmsu leyti og að einstökum atvikum í málarekstrinum. Verða þessar athugasemdir hér dregnar saman eftir því hvernig þær snúa að mismunandi þáttum málsins.

Kærandi telur að kærði hafi látið undir höfuð leggjast að tefla fram ýmsum málsástæðum sem hann telur að hefðu getað skipt sköpum fyrir niðurstöðu málsins. Gengur kærandi svo langt að fullyrða að svo virðist sem kærði hafi ekki mótmælt framburði brotaþolans eða málflutningi saksóknara á nokkurn hátt.  Sérstaklega bendir kærandi á að kærði hafi í engu látið þessi getið að kærandi var á þeim tíma sem málið var rekið mjög illa haldinn af verkjum í öxl og baki. Kemur fram í málatilbúnaði kæranda að hann var á þeim tíma sem málið var rekið á sterkum verkjalyfjum vegna þessa. Þá hafi hann verið haldinn mikilli vanlíðan og raunar síðar greinst með ómeðhöndlaða heilablæðingu. Hafi þetta allt haft þau áhrif að hann hafi sjálfur lítt verið fær um að sinna málsvörninni og fyrir vikið sett allt sitt traust á kærða. Kærandi gagnrýnir einnig að kærði hafi ekki byggt á því að taska sem hann átti að hafa haft meðferðis hafi ekki fundist og raunar engin leit gerð að henni við rannsókn málsins og telur að kærði hafi aðeins spurt sig einnar spurningar við aðalmeðferð málsins. Þá gagnrýnir kærandi að kærði hafi veitt samþykki sitt fyrir því að dómur yrði kveðinn upp eftir lögbundinn frest, án samráðs við sig og einnig ákveðið upp á sitt einsdæmi að svara því neitandi þegar dómari spurði hann hvort hann ætlaði að leggja fram greinargerð vegna málsins.

Kærandi kvartar einnig yfir því að í takmörkuðum samskiptum þeirra kærða, hafi kærði stöðugt látið í það skína að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þessu máli og raunar ítrekað fullyrt að allar áhyggjur væru óþarfar. Hafi kærði lýst þessu svo að brotaþoli væri „bara stofnanamatur" og réttast fyrir hann að vinna bara með lögreglunni og svara öllum spurningum en vera annars ekki með neinar áhyggjur af þessu máli. Það hafi fyrst verið í lögregluyfirheyrslunni sem kærandi komst að því að meintur brotaþoli í sakamálinu væri yngri en 18 ára. Hafi kærði ráðlagt sér að játa að hafa vitað um aldur hennar, enda væri það í góðu lagi fyrst hún væri eldri en 15 ára.

Það er meginþáttur í kvörtun kæranda að hann telur kærða alls ekki hafa sinnt þeirri skyldu sinni að ræða við sig um málið. Þeir hafi hist við tvær lögregluyfirheyrslur vegna málsins og hafi kærði ekki einu sinni látið sig fá nafnspjald sitt, svo kærandi vissi ekki hvert hann átti að snúa sér þegar ákæran var birt honum. Ekki hafi kærði þá útskýrt fyrir sér hvert hlutverk kærða væri við yfirheyrslurnar. Þeir hafi svo ekkert hist fyrir þingfestingu málsins þrátt fyrir að kærandi hafi ítrekað hringt í kærða og þeir verið sammála um nauðsyn þess að hittast og undirbúa málsvörnina. Hafi kærði aðeins komið til þingfestingar málsins 3-5 mínútum áður en það var tekið fyrir. Lýsir kærandi því hvernig kærði hóf að sýna honum ákveðin gögn um rannsóknir á brotaþola þarna inni í dómssalnum og hafi þetta komið illa við kæranda. Hafi kærði svo rokið í burtu þegar þingfestingu lauk. Það hafi svo farið á svipaða leið þegar kom að aðalmeðferð málsins. Kærði hafi fyrst haft samband við hann til að tilkynna honum um nýja dagsetningu á aðalmeðferðinni einum eða tveimur dögum áður en hún átti að vera og þá lagt til að þeir hittust fyrir aðalmeðferðina.  Hafi svo kærði fyrst birst 3 - 5 mínútum áður en fyrirtaka málsins hófst og því ekkert ráðrúm gefist til undirbúnings.  Hafi kærði enda einkum haft hugann við að koma í veg fyrir að kærandi rækist á brotaþolann í málinu, en óskað hafði verið eftir því að hann yrði ekki viðstaddur þegar hún gæfi skýrslu. Fyrsta spurning saksóknara hafi lotið að því hvort honum væri ljóst að brotaþolinn væri smituð af lifrarbólgu C, en það hafi kæranda verið alveg ókunnugt um, enda hefði kærði látið undir höfuð leggjast að kynna honum nokkuð það sem málið varðaði. Hafi kærði sagt sér að hann gæti bara farið heim þegar hann væri búinn að gefa skýrslu og myndi hann láta vita hvernig gengi eftir málflutninginn. Þetta hafi þó brugðist og hafi kærandi ekki heyrt í kærða eftir þetta fyrr en kom að dómsuppsögu, sem hvorugur þeirra gat mætt í, og svo daginn eftir þegar kærði tilkynnti honum niðurstöðu málsins.

III.

Kærði hafnar því í greinargerð sinni að hann hafi ekki gætt réttar kæranda við meðferð sakamálsins.

Hann hafi aldrei sagt við kæranda að hafa ekki áhyggjur vegna málsins enda um alvarlegt sakamál að ræða, þar sem ákæruatriði virtust frá byrjun studd nokkuð traustum gögnum. Þaðan af síður hafi hann látið þau orð falla um brotaþola sem kærandi byggir á.

Kærði kveður það takmarkað hvað hafi þurft að ræða við kæranda fyrir aðalmeðferð málsins.  Kærandi hafi verið búinn að játa sakargiftir að meginstefnu til hjá lögreglu og flutningur málsins því einkum fjallað um lagatúlkanir og ákvörðun viðurlaga.

Þeir hafi setið saman í lögregluyfirheyrslum yfir kæranda og rætt saman í tvígang, þ.e. fyrir þingfestingu málsins og fyrir aðalmeðferðina. Kveður kærði samtal þeirra fyrir aðalmeðferð málsins ekki hafa staðið í svo stuttan tíma sem kærandi heldur fram. Hann telur sig ekki geta fullyrt hvort heildarsamskipti þeirra um málið hafi staðið í 44 mínútur eða 47 mínútur, en aðalatriðið sé að þau hafi verið nægjanleg til að fara yfir málið. Tekur kærði fram að kærandinn hafi á þessum tíma einkum viljað ræða slæmt líkamlegt ástand sitt vegna afleiðinga vinnuslyss. Loks byggir kærði að þessu leyti á því að kærandi hafi haft símaaðgang að sér ef hann kaus.

Kærði kveður ákæruvaldið hafa spurt kæranda 102 spurninga við aðalmeðferðina og hann sjálfur spurt kæranda 10 spurninga. Það hafi verið kærði sjálfur sem spurði kæranda út í lifrarbólgusmitið, enda búinn að kynna kæranda það áður en aðalmeðferðin hófst. Hafi þessar upplýsingar komið fram í gögnum sem kærða bárust rétt fyrir aðalmeðferðina.

Kærði hefur ekki lýst sérstökum kröfum fyrir nefndinni en greinargerð hans verður skilin svo að hann krefjist þess að kvörtun kæranda verði hafnað.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í máli þessu er fjöldi atriða sem eru umdeild, en sum þeirra eru þess eðlis að þau hafa ekki þýðingu fyrir niðurstöðu þess. Aðila greinir t.d. á um aðdraganda þess að kærandi ákvað að falla frá þeim framburði sínum að hann hefði aldrei hitt brotaþolann í sakamálinu. Einnig um það hvort það var kærandi sem taldi sig eiga erfitt með að sitja í aðalmeðferðinni vegna verkja, eða hvort það var kærði sem átti frumkvæðið að því að hann myndi fara heim að lokinni skýrslutöku til að koma í veg fyrir að hann rækist á brotaþolann. Verður engin afstaða tekin til þessara atriða hér. Þá virðist óþarft að fjalla um samtöl þeirra um vinnuslys kæranda og málarekstur vegna þess.

Kærandi gerir þá almennu athugasemd að dómsniðurstaða í máli hans sé fyrst og fremst byggð á frásögn brotaþola málsins og að svo virðist sem kærði hafi lítið eða ekkert aðhafst undir rekstri málsins til að koma nokkrum vörnum að. Þetta stenst ekki skoðun. Dómurinn er nær alfarið byggður á afstöðu kæranda sjálfs til sakarefnisins að því leyti að byggt er á því að hann hafi fengið brotaþola með sér til kynlífsathafna með því að bjóða henni flugfar, áfengi og fíkniefni, en þetta hafi hann gert þrátt fyrir að honum væri ljós aldur stúlkunnar og bágt ástand. Allt þetta játaði kærandi sjálfur fyrir dómi. Dómurinn er hins vegar ekki byggður á ásökunum brotaþolans um frekari háttsemi sem kærandi neitaði í sakamálinu.

Vegna þeirrar umkvörtunar kæranda að kærði hafi ekki vikið að líkamlegu og andlegu ástandi kæranda á verknaðarstund eða við meðferð málsins, verður að hafa í huga að eins og málið horfði við kærða á þessum tíma, hefur heilsubrestur kæranda væntanlega alfarið verið af líkamlegum toga. Er líklega rétt hjá kærða að upplýsingar um líkamlegt ástand kæranda hefðu engu breytt um rekstur sakamálsins.

Af svipuðum toga er sú aðfinnsla kæranda að kærði hafi ekki byggt málsvörnina á því að taska sú sem kærandi átti að hafa meðferðis til fundar við brotaþolann með áfengi, fíkniefnum og kynlífsleikföngum hafi ekki fundist. Samkvæmt því sem fram kemur í dómi héraðsdóms gekkst kærandi sjálfur við því fyrir dómi að hafa haft meðferðis áfengi, amfetamín og eitthvað af kynlífsleikföngum. Virðist því enginn vafi hafa verið um þetta við meðferð málsins og ekki þörf á sérstakri sönnunarfærslu með því að leita að einhverri ákveðinni tösku.

Fullyrðingar kæranda um fjölda þeirra spurninga sem hann var spurður fyrir dómi fá ekki staðist m.v. endurrit af umræddum yfirheyrslum, texta dómsins og framlagðan spurningalista kærða og verður ekki á þeim byggt. Þá telur nefndin að það falli innan þess umboðs sem verjandi hefur til að annast málsvörn að taka ákvarðanir á borð við þær hvort greinargerð skuli skilað og hvort þörf sé á endurflutningi máls. Telur nefndin verjanda ekki skylt að bera ákvarðanir af þessu tagi undir sakborning.

Fullyrðingar kæranda um að kærði hafi ráðlagt kæranda að hafa ekki áhyggjur af þessu máli og sagt að allar áhyggjur væru óþarfar eru ekki studdar neinum gögnum. Gegn andmælum kærða verður ekki á því byggt að hann hafi látið falla orð í þessa veru eða tilgreind ummæli um brotaþola málsins.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi við lögregluyfirheyrslur játað á sig ósannar sakir á borð við það að hafa verði kunnugt um aldur brotaþola. Er ekki ljóst hvernig kenna ætti kærða um það ef rétt reyndist, en útilokað virðist að byggja niðurstöðu máls þessa á einhliða fullyrðingum kæranda um að kærði hafi ráðlagt sér að játa á sig ósannar sakir hjá lögreglu. Skal og bent á að kærandi viðurkenndi fyrir dómi að hafa verið kunnugt um aldur brotaþolans.

Úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við að kærði hafi ekki sérstaklega leiðbeint kæranda um hvernig hann ætti að ná í sig ef til þess kæmi. Fyrir liggur að kærði hafi opna skrifstofu og kærandi gat fengið upplýsingar um hvernig hann gæti náð í hann ef hann óskaði.

Áður er því lýst að aðilum máls þessa ber ekki að fullu saman um hve mikil samskipti þeir höfðu vegna málsins og er sönnunaraðstaðan um það örðug. Þó er því ómótmælt að þeir höfðu aðeins hist þrisvar sinnum áður en til aðalmeðferðar kom. Því er ekki haldið fram af kærða að þeir hafi undirbúið málsvörn þegar lögregluskýrslur voru teknar af kæranda. Að öðru leyti lýsir kærandi samskiptum þessum svo að bæði við þingfestingu og aðalmeðferð málsins hafi hann beðið komu lögmanns síns allnokkra stund, en í bæði skiptin hafi hann komið 3-5 mínútum fyrir fyrirtöku. Hafi ekki verið um frekari undirbúning að ræða þrátt fyrir að hann hafi leitað eftir því og kærði tekið undir að þeir þyrftu að hittast til að fara yfir málið. Kærða var sem fyrr greinir sent sérstakt bréf með fyrirspurnum um þessi samskipti. Kærði ber á móti lýsingu kæranda að því leyti að hann telur sig hafa rætt við kæranda um málið við þingfestinguna án þess að lýsa því nánar og hann telur að fundur þeirra fyrir aðalmeðferðina hafi ekki tekið svo stuttan tíma sem þær 3-5 mínútur sem kærði byggir á. Kærði ber ekki á móti því að símtöl þeirra á þessum tíma hafi snúist um mætingar og hvort þeir gætu hist, fremur en um efni málsins, en fullyrðir að kærandi hafi haft símaaðgang að sér. Þá byggir kærði á því að við sönnunarmat um þessi atriði verði að taka tillit til þess að kærandi hafi greint nefndinni rangt frá sakamálinu að ýmsu leyti.

Það er mat nefndarinnar, að gegn eindregnum andmælum kærða, sé ekki unnt að byggja aðfinnslu við störf hans á einhliða lýsingum kæranda á ófullnægjandi undirbúningi sínum fyrir aðalmeðferð. Þrátt fyrir lýsingar kæranda á því hvernig hann freistaði þess símleiðis að fá kærða til að funda með sér um málið, leggur hann áherslu á að hann hafi vegna heilsubrests og annarra erfiðleika í lífi sínu lagt allt sitt traust á kærða í málinu og haft mjög takmörkuð afskipti af því. Hefur kærði enda borið að kærandi hafi einkum viljað ræða heilsubrest sinn á þessum tíma. Hér verður byggt á því að samræðum þeirra um fundartíma hafi lokið með því að þeir hafi sammælst um að hittast fyrir aðalmeðferð málsins, en því hefur ekki verið haldið fram að þetta hafi verið tímasett nánar. Málflutningurinn snerist um lagaatriði og refsiákvörðun, en kærandi í máli þessu hefur frá upphafi kannast við þau atvik sem ákæran var reist á. Gögn málsins bera ekki með sér að málsvörn hafi verið áfátt. Að þessu virtu, virðist nefndinni ekki unnt að véfengja það mat kærða að nægilegt væri að fara yfir málið með kæranda við yfirheyrslurnar og á stuttum fundum fyrir fyrirtökur þess.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Í 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga segir að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sin um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Í 2. mgr. sömu greinar segir hins vegar að hafi dómsmál ekki verið höfðað um ágreiningsefni skv. 1. mgr. áður en það er lagt fyrir úrskurðarnefndina, verður það ekki borið undir dómsóla á meðan málið er þar rekið.

Það er skilningur úrskurðarnefndar lögmanna á ofangreindum ákvæðum, að endurgjald sem úrskurðað hefur verið um af dómstól, sæti ekki endurskoðun nefndarinnar.  Samkvæmt XXXIV.  kafla laga 88/2008 um meðferð sakamála skal kveðið á um fjárhæð sakarkostnaðar í dómi, þar á meðal um þóknun verjanda. Þetta var gert í héraðsdómi og Hæstarétti í sakamáli kæranda og verður að vísa frá nefndinni kröfum um að hún endurskoði þessar ákvarðanir dómstólanna.  

III.

Kærði krefst í kvörtun sinni skaðabóta úr starfsábyrgðartryggingu kærða. Þessari kröfu verður að beina að viðkomandi tryggingafélagi en ekki að nefndinni og verður henni vísað frá.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, S hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, G, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Kröfum kæranda um endurgreiðslu eða lækkun á tildæmdum málsvarnarlaunum er vísað frá nefndinni.

Kröfum kæranda um skaðabætur úr starfsábyrgðartryggingu kærða er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA