Mál 7 2011

Ár 2011, föstudaginn 11. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 7/2011:

M og

K

gegn

Ó hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna  barst þann 10. maí 2011 erindi M og K þar sem þess er krafist að úrskurðarnefnd lögmanna ákvarði endurgjald fyrir störf varnaraðila í þágu sóknaraðila, en í kröfunni felst að felldir verði niður tveir reikningar varnaraðila, samtals að fjárhæð kr. 568.766. Þá bárust nefndinni viðbótargögn frá sóknaraðilum þann 13. júní 2011.

Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð um málið þann 7. júní 2011 og var sóknaraðila gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. júní 2011, en engar athugasemdir við greinargerðina hafa borist frá sóknaraðila.

Grundvallarmunur er á málsatvikalýsingu í kvörtun sóknaraðila og í greinargerð varnaraðila. Verða því málsatvikalýsingar og málsástæður hvors aðila um sig raktar sérstaklega.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar kemur fram að þau hafi leitað til lögmannsstofu varnaraðila vegna umsóknar um úrræði sem umboðsmaður skuldara veitir þeim sem sitji uppi með tvær fasteignir til heimilisnota, en stofan auglýsi að hún aðstoði fólk vegna slíkra mála.

Umboðsmaður skuldara hafi skipað þeim umsjónarmann sem hafi aðstoðað þau vegna málsins og sé þeirri vinnu nú lokið. Þau hafi leitað til lögmannsstofu varnaraðila, en það hafi reynst þarflaust. Hafi lögmannsstofan gert þeim tvo reikninga vegna þessa. Annar reikningurinn sé að fjárhæð kr. 129.516 og fylgdi honum sundurliðuð tímaskýrsla þar sem fram komi að unnar hafi verið 6 vinnustundir. Þeim hafi þótt það vel í lagt og hafi borið það undir skipaðan umsjónarmann sinn. Hafi hann ekki talið að samskipti sín við lögmannsstofuna hafi verið svo mikil að umfangi.

Áður en til útgáfu þessa reiknings kom hafi þau fengið reikning að fjárhæð kr. 439.250, en honum hafi ekki fylgt nein vinnuskýrsla og liggi ekkert fyrir um að lögmannsstofa varnaraðila hafi annast frekari vinnu en þessar 6 stundir fyrir sóknaraðila.

Sóknaraðilar segja að þegar þau leituðu upphaflega til lögmannsstofu varnaraðila hafi þeim verið tjáð að svona málum gæti fylgt mikil vinna og gæti m.a. til þess komið að málið færi fyrir dóm. Því þyrftu þau að greiða kr. 439.250 inn á málið. Síðar hafi komið í ljós að umboðsmaður skuldara skipaði þeim umsjónarmann sem hafi annast mál þeirra að öllu leyti og hafi þau ekki þurft á neinni frekari utanaðkomandi aðstoð að halda. Meint vinna varnaraðila hafi verið óþörf auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á að hún hafi verið meiri en 6 tímar samkvæmt tímaskýrslu, sem raunar sé umfram það sem umsjónarmaður kannist við.

Sóknaraðilar krefjast þess að úrskurðarnefnd lögmanna ákveði varnaraðila endurgjald fyrir störf í sína þágu. Er litið svo á að þess sé krafist að umræddir reikningar verði felldir niður og ákvörðun tekin um hvað sé sanngjarnt endurgjald fyrir umrædd störf.

II.

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að sóknaraðilar hafi leitað til lögmannsstofu hans þann 23. nóvember 2010 vegna skuldavanda síns. Á fundinum hafi verið ákveðið að lögmannsstofan tæki mál þeirra að sér til að láta reyna á hvort mögulegt væri að fá einhverja úrlausn fyrir þau hjónin. Komið hafi fram að sóknaraðilar hafi þá þegar leitað til viðskiptabanka síns, íbúðalánasjóðs og umboðsmanns skuldara án þess að fá úrlausn sinna mála, en án árangurs.

Á þessum fundi hafi verið farið nákvæmlega yfir hvaða kostnaður yrði af þeirri vinnu sem fara þyrfti í til að fá skýra mynd að aðstæðum þeirra og láta reyna á hvort mögulegt væri að finna lausn á skuldavanda þeirra. Hafi verið samið um fast gjald fyrir þessa vinnu, kr. 350.000, auk virðisaukaskatts.

Í samræmi við vinnureglur á lögmannsstofunni hafi þau fengið hlutlægt álit á sínum málum og hafi verið lagt upp með að þau greiddu alla þóknun fyrirfram. Hafi þau greitt með raðgreiðslum á greiðslukorti.

Samkvæmt framlagðri vinnuskýrslu var fundað með sóknaraðilum. Þá voru reiknaðar saman eignir þeirra og skuldir og staðan borin saman við úrræði (skilyrði) laga nr. 103/2010 um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, þ.á.m. með tilliti til veðsetninga, fasteignamats og fleira. Í desember var kallað eftir öllum gögnum sem fylgja þurfa umsókn samkvæmt umræddum lögum og umsókn útbúin ásamt greinargerð. Þá var unnið verðmat í samráði við fasteignasala og staðan reiknuð út frá því. Eftir áramót var svo gengið frá öllum fylgiskjölum og umsókn send til umboðsmanns skuldara. Enda þótt samið hafi verið um fast gjald fyrir þjónustuna hafi tímar sem unnir voru vegna verksins verið teknir saman.  Alls nam vinna vegna þessa 20,5 tímum samkvæmt framlagðri tímaskýrslu, en af hálfu varnaraðila er á því byggt að inn í þá tímaskráningu vanti raunar öll símtöl við sóknaraðila.

Varnaraðili kveður umboðsmann skuldara hafa fallist á umsókn þá sem unnin var fyrir sóknaraðila þann 8. febrúar 2011. Þann 15. febrúar hafi sóknaraðili M komið á lögmannsstofu hans vegna málsins. Hafi hann verið ánægður með að mál hans væri komið í farveg hjá Umboðsmanni skuldara. Hafi þá verið farið yfir hvernig málið myndi ganga áfram. Þremur dögum síðar hafi sóknaraðili M komið aftur á lögmannsstofuna og óskað eftir frekari aðstoð. Hafi honum verið gert ljóst að slík vinna yrði þá ekki unnin gegn föstu gjaldi heldur yrði hún unnin á tímagjaldi. Hafi sóknaraðili talað um að miklir hagsmunir væru í húfi fyrir sig, en honum þætti erfitt að setja sig inn í útreikningana og taka ákvörðun um hvorri fasteigninni væri best að halda.

Hafi vinna lögmannsstofunnar vegna þess verkefnis að vera í sambandi við umsjónarmann þeirra hjóna og samskipta við þau og ráðgjöf numið alls 6 tímum og sé seinni reikningur stofunnar vegna þessa.

Varnaraðili tekur fram að sóknaraðila hafi ítrekað verið boðið að koma á fund til að fara yfir reikningana og þá vinnu sem þeim er að baki, en það boð hafi sóknaraðilar ekki þegið.

Varnaraðili telur að lögmannsstofu sinni hafi tekist að koma málum varnaraðila í farsælan farveg. Hafi hann síst ofreiknað þóknun sína vegna vinnunnar og vísar í skráðan tímafjölda og tímagjald stofunnar því til stuðnings. Varnaraðili hefur ekki gert sérstakar kröfur fyrir nefndinni en greinargerð hans verður skilin svo að þess sé krafist að öllum kröfum sóknaraðila um niðurfellingu reikninga eða lækkun þeirra verði hafnað.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Rétt þykir að fjalla um reikninga varnaraðila hvorn í sínu lagi.

II.

Reikningur varnaraðila nr. 479, dags. 23. nóvember 2010 er vegna lögfræðiþjónustu. Fjárhæð reikningsins er kr. 350.000, en að meðtöldum Vsk. kr. 439.250.

Ágreiningslaust er að þetta er fjárhæð sem sóknaraðilar féllust á að greiða og gerðu upp með greiðslukorti þegar á fyrsta fundi sínum með varnaraðila. Athugasemdir þeirra við reikninginn eru tvenns konar. Annars vegar telja þau að ekki liggi fyrir að vinna að baki reikningnum sé að umfangi í samræmi við fjárhæð hans. Hins vegar telja þau að eftir að þau sömdu  við varnaraðila hafi þau komist að því að vinna hans var óþörf, þar sem umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður sem hann skipaði, hafi séð um alla nauðsynlega vinnu.

Að því er fyrri athugasemdina varðar er til þess að líta að sóknaraðilar féllust sjálfir á að greiða þá upphæð sem hér um ræðir. Verða þau að bera sönnunarbyrðina um þá fullyrðingu sína að greiðslan hafi verið til tryggingar og ætlað að standa straum af hugsanlegum dómsmálum. Varnaraðili byggir á því að um sé að ræða fasta greiðslu fyrir ákveðna þjónustu, án tengsla við tímamælingu. Þá hefur varnaraðili lagt fram samantekt á ríflega 20 stunda vinnu sem innt var á hendi vegna sóknaraðila á þessum tíma og hefur þeirri samantekt ekki verið mótmælt, né heldur þeirri fullyrðingu varnaraðila að sóknaraðili hafi hafnað boðum um að fá þessar skýringar á vinnu að baki reikningsins. Að öllu þessu athuguðu verður ekki fallist á að reikningurinn sé óeðlilega hár, en líta verður til þess að um er að ræða heildarþóknun fyrir að annast hagsmunagæslu vegna fjármálavanda sóknaraðila. 

Að því er varðar síðari athugasemdina er rétt að reifa hér þau lagaákvæði sem nýlega hafa verið sett um Umboðsmann skuldara og starfsemi hans, sérstaklega um þá aðstoð sem hann veitir og fjármögnun hennar.

Samkvæmt 7. mgr. 2. gr. laga nr. 103/2010 um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota fer um öflun gagna og aðstoð umboðsmanns skuldara við gagnaöflun og gerð umsóknar eftir ákvæðum laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Samkvæmt  4. mgr. 4. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga á skuldari á rétt á endurgjaldslausri aðstoð frá umboðsmanni skuldara við að semja umsókn um greiðsluaðlögun og afla gagna í samræmi við ákvæði laganna. Skuldari skal þó jafnan sjálfur útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Samkvæmt 5. gr laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara skulu lánastofnanir, [...], Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds. Ekki er gert ráð fyrir að skuldarar greiði sjálfir fyrir þjónustu umboðsmannsins eða skipaðs umsjónarmanns.

Málatilbúnaður sóknaraðila verður skilinn svo, að þau telji að það hafi verið á ábyrgð varnaraðila að vísa þeim frá sér þegar þau leituðu til hans og leiðbeina þeim um að alla nauðsynlega aðstoð gætu þau fengið hjá Umboðsmanni skuldara. Ekki er unnt að fallast á þetta. Samkvæmt framlögðum gögnum voru sóknaraðilar í alvarlegum vanda þegar þau ákváðu að leita til varnaraðila í nóvemberlok 2010 og fela honum að annast hagsmunagæslu vegna fjármála sinna. Virðist varnaraðili hafa brugðist skjótt við með því að hafa samband við lánadrottna og móta afstöðu til þess hvernig best væri að snúa máli þeirra. Þetta leiddi til þess að þegar í janúarlok var búið að fella málið í þann farveg sem það var unnið eftir til enda og skila fullbúinni umsókn ásamt fylgigögnum til Umboðsmanns skuldara. Sem fyrr greinir lá ákvörðun umboðsmanns fyrir 8. febrúar 2011. Ekki er til að dreifa nákvæmum upplýsingum um hvernig umsækjendum sem leituðu beint til Umboðsmanns með sambærileg mál reiddi af, en til hliðsjónar má nefna að samkvæmt frétt embættisins frá miðju ári 2011 voru 2/3 hlutar þeirra umsókna sem embættinu höfðu borist frá ágúst 2010 til júní 2011 enn í vinnslu. Virðist hvort tveggja hafið yfir vafa að sóknaraðilum var fyllilega rétt að fela lögmanni að aðstoða sig við málatilbúnað sinn og að viðkomandi lögmanni var rétt að taka verkið að sér. Gagnstæð niðurstaða myndi fela í sér að útilokað yrði að fá lögmann sér til aðstoðar við verkefni sem unnt er að fá unnin annars staðar.

III.

Reikningur varnaraðila nr. 683, dags. 2. mars 2011, er vegna 6 tíma lögfræðiþjónustu. Hver stund er verðlögð á 17.200 og er heildarfjárhæð reikningsins að meðtöldum Vsk. kr. 129.516. Málatilbúnaður sóknaraðila verður skilinn svo að reikningurinn sé ógreiddur.

Málavaxtalýsing sóknaraðila er ekki ítarleg og lætur margt ósagt um gang þess máls sem hér um ræðir. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki mótmælt lýsingu varnaraðila á gangi málsins og verður að líta svo á að hann fallist á hana að því marki sem hún samræmist lýsingu í kvörtun hans. Hér verður því byggt á því að eftir að umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn sóknaraðila um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota hafi sóknaraðili leitað til varnaraðila á nýjan leik.

Á hinn bóginn verður varnaraðili að bera sönnunarbyrðina fyrir því að þann 15. febrúar hafi sérstaklega verið samið um að greitt væri aukalega vegna ráðgjafar samkvæmt tímagjaldi, en þau ráðgjafarstörf virðast öll rúmast innan verklýsingar í umboði sem útbúið var um leið og upphaflegur reikningur lögmannsstofunnar.

Að öllu þessu athuguðu verður þessi reikningur felldur úr gildi

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin verklaun varnaraðila, Ó hdl., samkvæmt reikningi, dags.  nr. 479, 23. nóvember 2010, að fjárhæð kr. 350.000 kr. auk Vsk, vegna vinnu fyrir sóknaraðila,  M og K, eru hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Reikningur varnaraðila nr. 683, dags. 2. mars 2011, að fjárhæð kr. 103.200 auk Vsk, er felldur úr gildi.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Rétt endurrit staðfestir

________________________