Mál 14 2012

Ár 2013, fimmtudaginn 14. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 14/2012:

B

gegn

Hhrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 26. nóvember 2012 erindi B þar sem kvartað er yfir áskilinni þóknun lögmannsins og fleiri atriðum henni tengdum og þess krafist að nefndin úrskurði um hvað teljist hæfilegur málskostnaður í máli sem sóknaraðili vann fyrir varnaraðila.

Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð um málið þann21. desember 2012 og var sóknaraðila gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Engar athugasemdir bárust.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í máli þessu háttar svo til að málsatvikalýsing varnaraðila er um margt mun ítarlegri en sóknaraðila og studd fram lögðum gögnum um ýmis atriði. Henni hefur ekki verið mótmælt og verður á henni byggt að því marki sem hún fer ekki í bága við lýsingu sóknaraðila á málsatvikum.

Upphaf ágreiningsmáls þessa má rekja til þess að sóknaraðili lét reisa hús [...]. Samdi hann m.a. við A arkitekta um hönnun hússins og við E ehf. um eftirlit með framkvæmdunum. Þá samdi hann við U ehf. um uppsteypu á húsinu.  Ágreiningur varð á milli sóknaraðila og U ehf. um uppgjör fyrir þeirra verk.

Í ágúst 2011 leitaði sóknaraðili fyrst til varnaraðila vgna þessa ágreinings. Kom sóknaraðili þá á fund á lögmannsstofu varnaraðila ásamt S, framkvæmdastjóra A arkitekta. Er óumdeilt að hann og A arkitektar höfðu með höndum margháttaða aðstoð við sóknaraðila vegna framkvæmdarinnar, m.a. eftirlit og samskipti við verktaka, en ágreiningur hafði einnig risið á milli sóknaraðila og E ehf. Fund þennan sat einnig P hdl., fulltrúi á lögmannsstofu varnaraðila.

Á þessum fundi var rætt um réttarstöðu sóknaraðila gagnvart E ehf., en einnig var rætt um umdeilda reikninga U ehf. og kröfubréf sem borist höfðu vegna þeirra.

Í framhaldi af þessum fundi óskaði P eftir frekari gögnum við S. Að lokum var því erindi svarað svo að sóknaraðili vildi bíða með frekari aðgerðir.

Seinnipartinn í september 2011 óskaði sóknaraðili eftir því að ritað yrði harðort bréf til U ehf. vegna vanefnda á verksamningi félagsins. Starfsmönnum lögmannstofu varnaraðila reyndist hins vegar erfitt að afla gagna til að leggja mat á málið. Bera framlögð gögn vott um töluverð samskipti þar sem varnaraðili og starfsmenn hans leituðu eftir upplýsingum og gögnum hjá S, en hann taldi of langt gengið í gagnaöflun þessari.

Það varð því ekki fyrr en í byrjun október 2011 að P  sendi drög að bréfi til U ehf. til sóknaraðila. Urðu þá nokkur samskipti við sóknaraðila, sem gerði ítrekaðar athugasemdir við efni þess. Gekk svo langt í samskiptum aðila á þessum tíma að varnaraðili kvaðst ekki geta unnið við þær aðstæður að sóknaraðili vildi handstýra vinnu hans og stakk upp á því að sóknaraðili fengi annan lögmann að verkinu. Svo fór þó að lokum að það tókst að koma umræddu bréfi saman. Í framhaldi af því lá vinna varnaraðila fyrir sóknaraðila nær alveg niðri, að undanskilinni aðstoð sem hann veitti við að ýta á eftir svörum frá tryggingafélagi U, en S kom annars fram sem umboðsmaður sóknaraðila gagnvart tryggingafélaginu.

U höfðaði mál gegn sóknaraðila í janúarlok 2012 og krafðist uppgjörsgreiðslu vegna verksamnings, en um er að ræða sömu kröfu og stendur að baki hinum umdeildu reikningum. Var stefnufjárhæðin um 10,7 milljónir króna. Varnar- og sóknaraðilar funduðu vegna stefnunnar þann 25. janúar. Á fundinum eða í framhaldi hans afhenti varnaraðili yfirlit yfir þau gögn og þær upplýsingar sem hann taldi nauðsynlegt að afla vegna málsins. Virðist hugmyndin hafa verið sú að A arkitektar myndu annast það vegna yfirsýnar sinnar yfir framkvæmdirnar.

Fram lögð tölvupóstsamskipti sýna að þessi umbeðnu gögn bárust seint, þrátt fyrir umtalsverðan eftirrekstur af hálfu varnaraðila. Var greinargerð skilað 29. mars 2012, en málið var tekið fyrir fjórum sinnum eftir það og lögð fram frekari gögn. Var matsbeiðni lögð fram af hálfu sóknaraðila, en vinnsla hennar og undirbúningur sýna glögglega að varnaraðila og lögmannsstofu hans gekk illa að vinna með umboðsmanni sóknaraðila hjá A arkitektum, einkum varðandi gagnaöflun, en einnig varðandi verkaskiptingu. Við vinnslu matsbeiðnarinnar komu þannig fram athugasemdir sem báru með sér að báðir töldu sig eiga að stjórna því hvernig matsbeiðnin væri sett fram. Í framhaldi af þessu var matsmálið rekið fram á sumarið.

Samskipti varnaraðila og sóknaraðila virðast enn hafa stirðnað í framhaldi af þessu og er m.a. óumdeilt að sóknaraðili skellti í tvígang á varnaraðila í síma. Þann 13. ágúst 2012 sendi framkvæmdastjóri lögmannsstofu varnaraðila tölvupóst fyrir hönd varnaraðila til sóknaraðila og tilkynnti honum að varnaraðili teldi forsendur brostnar fyrir frekari vinnu hans að máli sóknaraðila. Var þar getið um samskiptaörðugleika og ógreidda reikninga að fjárhæð 1.741.023 vegna vinnu varnaraðila. Þá kom fram í skeytinu að lögmannsstofan myndi enn sinna nauðsynlegri hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila vegna málsins, þar til hann hefði fengið nýjan lögmann að málinu.

Sóknaraðili leitaði til Bhrl. vegna ágreiningsmála sinna. Var leitast við að jafna ágreining aðila með samningum, en það tókst ekki. Skaut B máli þessu til úrskurðarnefndarinnar f.h. sóknaraðila, með erindi, sem barst sem fyrr segir 26. nóvember 2012.

Heildartímafjöldi sem skráður var á málið á skrifstofu varnaraðila var 181,25 tímar. Skiptust þeir þannig að varnaraðili vann sjálfur 15,75 stundir að málinu. P vann 156,5 stundir að málinu, en þrír aðrir lögmenn stofunnar unnu á bilinu 1 - 4,5 stundir hver, samtals 9 stundir. Útgefnir reikningar vegna þessarar vinnu nema 2.907.649 krónum. Hefur sóknaraðili þegar greitt inn á kröfuna kr. 1.166.626.

II.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði um hvað teljist hæfilegur málskostnaður í málinu.

Sóknaraðili telur heildar tímafjölda sem krafið er um í reikningum varnaraðila óásættanlegan miðað við þá fjárhæð sem var í húfi og umfang málsins.

Af öllum þessum 181,25 tímum hafi aðeins 15,75 tímar verið unnir af varnaraðila sjálfum, sem sóknaraðili hafi talið sig hafa ráðið til starfans. Sóknaraðili telur að það hafi hleypt tímafjöldanum upp að fimm lögmenn á lögmannsstofu varnaraðila hafi komið að máli hans.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki haft neina réttmæta ástæðu til að segja sig frá málinu. Sóknaraðili hafi kvartað yfir hve marga tíma hann var krafinn um, sem unnir voru af öðrum en varnaraðila sjálfum. Hafi þessar athugasemdir verið réttmætar og því hafi einhliða riftun samningssambandsins verið ólögleg. Telur sóknaraðili að líta verði til þess að vinna varnaraðila og lögmannsstofu hans nýtist verr en ella vegna þessarar riftunar og hann þurfi nú að greiða öðrum lögmanni fyrir að setja sig inn í málið. Hjá þessum kostnaði hefði mátt komast ef varnaraðili hefði efnt samninginn réttilega og haldið áfram með málið.

III.

Varnaraðili krefst þess að áskilin þóknun hans vegna vinnu í þágu sóknaraðila á tímabilinu 18. ágúst 2011 - 31. júlí 2012, samals að fjárhæð kr. 2.907.649 að meðtöldum vsk., séu hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðili hefur ekki lagt fram tímaskráningar eða reikninga fyrir störf í þágu varnaraðila eftir 31. júlí 2012 og engar kröfur haft uppi fyrir nefndinni þar um og verður litið svo á að hann geri ekki kröfur um vinnulaun vegna samskipta sinna við sóknaraðila eða annars eftir það tímamark.

Varnaraðili bendir á að innheimt hafi verið fyrir vinnuna í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofunnar á grundvelli vinnuskýrslna.  Sóknaraðila hafi verið kunnugt um tímagjaldið. Málið hafi verið umfangsmikið ágreiningsmál á sviði verktaka- og þjónustukauparéttar vegna ágreinings við U ehf. um uppgjör á verksamningi. Hafi reynt á fjölmörg atriði, en ágreiningur hafi verið um magntölur, endurkröfur, dagsektir, auka og viðbótarverk, tómlæti, gallaða og ókláraða verkþætti o.fl.

Vinna varnaraðila hafi falist í fjórum verkefnum:

  • Ritun kröfubréfs 8. október 2011 ásamt tilheyrandi gagnaöflun til að leggja mat á réttarstöðuna.
  • Ritun greinargerðar í héraðsdómsmálinu í febrúar - mars 2012, ásamt mjög umfangsmikilli gagnaöflun.
  • Rekstur dómsmáls, mætingu í fjórar fyrirtökur apríl - júní 2012 ásamt undirbúningi og úrvinnslu
  • Ritun matsbeiðnar og rekstur matsmáls í júní - ágúst 2012

Varnaraðili bendir á að uppreiknuð stefnufjárhæð í málinu hafi numið 12.735.932 miðað við 18.12.2012. Þá hafi upphaflega verið ætlunin að gagnstefna í málinu, en af því hafi ekki orðið vegna seinagangs af hálfu sóknaraðila og A við upplýsinga- og gagnaöflun. Þó hafi verið hafðar upp fjöldi gagnkrafna til skuldajafnaðar, samtals að fjárhæð yfir 37 milljón krónur og geti sóknaraðili eignast kröfu vegna þessara gagnkrafna á hendur U. Sé að öllu samanlögðu ljóst að hagsmunirnir í málinu hafi verið verulegir og umfram þá 10,7 milljóna stefnukröfu sem getið sé í kvörtun sóknaraðila.

Útgefnir reikningar vegna þessarar vinnu nema 2.907.649 krónum og telur varnaraðili það vera hæfilegt endurgjald, en kveðst þó hafa boðið sóknaraðila 20% afslátt af þremur síðustu reikningum sínum í því skyni að leysa málið. Samkvæmt útreikningum nefndarinnar er þar um að ræða u.þ.b. 82.000 króna afslátt.

Varnaraðili leggur í greinargerð sinni áherslu á að það hafi valdið verulegum töfum  og viðbótarvinnu fyrir hann, hve illa gekk að afla gagna og upplýsinga frá sóknaraðila og umboðsmönnum hans, sem hann hafi borið ábyrgð á. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu eftirlitsmenn verksins getað aflað allra upplýsinga, en sóknaraðili hafi verið kominn í ágreiningsmál við þá. A arkitektar hafi ekki sent nauðsynlegar upplýsingar, þrátt fyrir að varnaraðili hafi lagt sig fram um að útbúa nákvæma lista yfir spurningar og gögn sem þyrfti að svara og afla. Hefur varnaraðili lagt fram þessa lista og umfangsmikil tölvupóstsamskipti sem hann telur sýna fram á þessa erfiðleika.

Varnaraðili mótmælir því að samið hafi verið um að hann myndi persónulega sjá um að vinna þá vinnu sem innt var af hendi. Hafi sóknaraðila ekki getað dulist að P hafi séð um hana allt frá upphafi að mjög miklu leyti. Varnaraðili hafi þó sjálfur haft yfirumsjón með henni. Hafi engar efnislegar athugasemdir verið gerðar við vinnuna, sem hafi verið vönduð. Bendir varnaraðili á að P hafi þegar í upphafi verið kynntur til leiks og hafi hann verið í beinum samskiptum við sóknaraðila. Hann hafi að mestu séð um gagna og upplýsingaöflun og ritun kröfubréfs um haustið 2011. Hafi sóknaraðili fengið reikninga sem báru þetta með sér og ekki gert athugasemdir við það. Þá bendir varnaraðili á að það hefði orðið dýrara ef hann hefði sjálfur unnið alla þessa vinnu, enda væri þá um hærra tímagjald að ræða. Aðkoma annarra lögmanna stofunnar að vinnu fyrir sóknaraðila hafi verið mjög óveruleg og lotið að því að nýta sérþekkingu þeirra á einstökum réttarsviðum með yfirlestri yfir greinargerð og matsbeiðni auk mætinga í fyrirtökur í sumarleyfi P. Varnaraðili telur að verkaskipting lögmanna á stofunni hafi alls ekki skaðað hagsmuni sóknaraðila eða valdið hækkun á gjaldtöku.

Varnaraðili mótmælir því eindregið að hann hafi rift samningssambandi sínu við sóknaraðila með ólögmætum hætti. Sóknaraðili hafi verið í verulegum vanskilum með reikninga, allt frá mars 2012. Þessu til viðbótar hafi samskipti við sóknaraðila og umboðsmann hans verið erfið og á köflum óvinsamleg. Hafi trúnaður ekki verið til staðar í samskiptunum og allar forsendur fyrir frekari vinnu brostnar. Hafi hann skýra heimild samkvæmt siðareglum lögmanna til að segja sig frá verki, en sóknaraðili beri einn ábyrgð á því hvernig fór. Hafni hann því að bera ábyrgð á kostnaði sóknaraðila við að koma öðrum lögmanni inn í málið.

Varnaraðili getur þess í greinargerð sinni, að sóknaraðili hafi ítrekað lentí ágreiningi við þá sem komið hafi að húsbyggingu hans og virðist iðulega telja að áskilið endurgjald fyrir þjónustu í hans þágu sé úr hófi.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 12. greinar siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. lögmannalaga, getur lögmaður ráðið annan lögmann til starfa hjá sér. Ber lögmaður ábyrgð, þ. á m. fébótaábyrgð, á störfum þessa starfsmanns

Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. lögmannalaga  er lögmanni skylt að inna sjálfur af hendi þau störf fyrir dómi sem honum eru falin nema umbjóðandi hans samþykki annað. Lögmaður getur þó falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu.

II.

Að mati úrskurðarnefndar verður að ætla lögmönnum nokkurt svigrúm til að skipuleggja störf á stofum sínum, þ. á m. að fela starfsmönnum að leysa ákveðin verk. Starfsmenn með lögmannsréttindi starfa á ábyrgð viðkomandi lögmanns eða lögmanna sem eiga stofuna, eins og fyrrgreind ákvæði laga og siðareglna bera með sér, auk þess sem á þeim hvílir trúnaðarskylda gagnvart umbjóðendum lögmannsstofunnar. Þeir hafa til að bera menntun og eftir atvikum ákveðna reynslu sem nýtast í lögfræðistörfum. Verður því að öllu jöfnu telja það eðlilegan lið í rekstri lögmannsstofu að fela starfsmanni með lögmannsréttindi ákveðin mál til vinnslu eða að vinna við afmarkaða þætti í málum. Eru þau störf unnin á ábyrgð og undir handleiðslu lögmannsins er á og rekur lögmannsstofuna.

Að mati úrskurðarnefndar verður þess almennt ekki krafist að lögmaður upplýsi umbjóðanda sinn sérstaklega um það þegar starfsmanni lögmannsstofunnar hefur verið falin hefðbundin gagnaöflun vegna málareksturs fyrir dómstólum eða undirbúningur máls undir yfirsjón lögmannsins, eins og hér háttar til. Samkvæmt þessu telur nefndin kærðu ekki hafa brotið starfsskyldur sínar gagnvart kæranda með því að fela starfsmanni lögmannsstofu sinnar að vinna að máli stefnanda, en rétt er að undirstrika að sóknaraðila mátti vera ljóst af samskiptum sínum við fulltrúann og reikningum sem honum bárust, að varnaraðili vann ekki nema óverulegan hluta þeirra vinnustunda sem um ræddi.

Ekki fæst heldur séð af fram lögðum gögnum að verkaskiptingin hafi í sjálfu sér hleypt kostnaði við mál varnaraðila upp svo nokkru nemi og verður að fallast á skýringar varnaraðila á þeirri óverulegu vinnu sem aðrir en þeir tveir inntu af hendi.

III.

Ekki eru máli þessu gerðar athugasemdir við upphæð tímagjalds eða einstaka liði í tímaskráningunni og ágreiningslaust er að sóknaraðila var í upphafi gerð grein fyrir fjárhæð þess. Varnaraðili hefur heldur ekki borið á móti því að mikill tími hafi farið í vinnu fyrir sóknaraðila, en hefur borið fyrir sig að samskipti við sóknaraðila og umboðsmenn hans, sérstaklega við gagnaöflun, hafi verið framar venju tímafrek. Tímaskýrslur virðast benda í sömu átt, því margar stundir eru skráðar á tölvupóstsamskipti vegna gagnaöflunar o.fl. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn um að athugasemdir hafi verið gerðar við tímaskýrslur eða reikninga sem gefnir voru út um hver mánaðamót.

Við matið á umfangi þeirrar vinnu sem lögmannsstofa varnaraðila innti af hendi er til margs að líta.

Um krafinn lögmannskostnaður við þau ágreiningsmál, sem varnaraðili kom að, er í fyrsta lagi orðinn umtalsverður, að teknu tilliti til þeirra fjárhæða sem um ræðir og þess að ekki kom til þess að varnaraðili annaðist málflutning í þeim. Að því er fjárhæðir varðar verður þó að taka tillit til þess að fjallað var um kröfur gagnaðila að fjárhæð um 12 milljónir auk gagnkrafna sem námu verulega hærri fjárhæð.

Um var að ræða nokkur verkefni, en í þeim reyndi á mjög mikinn fjölda atriða, sem að einhverju marki þóttu hafa farið úrskeiðis við byggingu húss sóknaraðila. Urðu verkefnin af þessum sökum miklu umfangsmeiri en í gallamálum þar sem aðeins reynir á fá afmörkuð atriði.

Af málsgögnum, sérstaklega tölvupóstsamskiptum varnaraðila við sóknaraðila og umboðsmenn hans, er óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að lýsingar varnaraðila eigi við nokkur rök að styðjast og að gagnaöflun vegna málsins hafi orðið býsna tafsöm í vinnslu vegna atriða sem varnaraðili bar ekki ábyrgð á.

Að teknu tilliti til alls þessa verða umræddar tímaskýrslur og tímagjald lögð til grundvallar að meginstefnu. Með hliðsjón af því hvernig fór í samskiptum aðila virðist ekki ósanngjarnt að sá kostnaður sem sóknaraðili hefur haft af því að setja nýjan lögmann inn í mál sitt deilist að einhverju leyti á milli þeirra og þykir í þeim efnum mega miða við það tilboð sem varnaraðili hafði sett fram um 20% viðbótarafslátt á þrjá síðustu reikninga sína.  Verður krafa varnaraðila því samþykkt með þeirri lækkun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfilegt endurgjald fyrir vinnu varnaraðila, H hrl., og lögmannsstofu hans, [...], í þágu sóknaraðila frá 18.08.2011 eru kr. 2.825.710 að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________