Mál 25 2019

Mál 25/2019

Ár 2020, þriðjudaginn 10. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. október 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 4. nóvember 2019. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 28. nóvember 2019 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi næsta dag. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi leitað til kærða í ársbyrjun 2017 vegna ágreinings um gildi erfðaskrár sem föðursystir kæranda, C, og maki hennar höfðu gert þann 15. október 2003 ásamt síðari viðauka, dags. 29. ágúst 2008. Í erfðaskránni var mælt fyrir um erfðarétt D, systur kæranda. C lést þann x. nóvember 2016 en hún sat þá í óskiptu búi.

Fyrir liggur að kærandi veitti kærða fullt og ótakmarkað umboð til hagsmunagæslu í tengslum við skipti á dánarbúinu þann x. janúar 2017. Áttu aðilar í framhaldi þess í umtalsverðum tölvubréfasamskiptum um efni málsins, en þar á meðal má finna athugasemdir sem kærandi sendi til kærða um efni erfðaskrárinnar og svonefnds allsherjarumboðs dagana 7. janúar 2017 og 14. júní 2017.

Kærði mun hafa beint beiðni, dags. 13. mars 2017, til Héraðsdóms fyrir hönd kæranda þar sem farið var fram á opinber skipti á dánarbúi C auk málskostnaðar úr hendi gagnaðila kæranda, D. Var ágreiningsmálið þingfest í héraðsdómi þann x. maí 2017 þar sem það hlut númerið Q-x/201x.

Með úrskurði héraðsdóms í fyrrgreindu máli, sem kveðinn var upp þann x. desember 2017, var fallist á kröfu kæranda um að dánarbúið skyldi tekið til opinberra skipta auk þess sem varnaraðila málsins var gert að greiða kæranda 350.000 krónur í málskostnað. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar x. janúar 201x í máli nr. xxx/201x auk þess sem kæranda var dæmdur kærumálskostnaður að fjárhæð 350.000 krónur.

Kærandi hefur í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni vísað til þess að hann hafi greitt kærða alls 1.230.000 krónur fyrir rekstur málsins á tveimur dómstigum. Auk þess hafi kærði fengið greiddar 1.200.000 krónur úr málskostnaðartryggingu kæranda hjá E tryggingum hf. Um hið síðastgreina efni liggur fyrir að í tölvubréfi, dags. 19. desember 2017, óskaði kærði eftir að kærandi myndi staðfesta heimild kærða til að móttaka greiðslu lögmannskostnaðar úr viðkomandi réttaraðstoðartryggingu. Staðfesti kærandi þá heimild kærða í tölvubréfi þann sama dag.

Kærandi lýsir því í málatilbúnaði sínum að hann hafi verið ósáttur við þann kostnað sem hlotist hafi af rekstri málsins og að aðilar hafi farið yfir þann þátt á fundi. Þá hafi kærði gefið honum loforð um að ekki kæmi til frekari gjaldtöku vegna síðari málareksturs sem hafi verið fyrirséður á þeim tímapunkti. Kærði hefur hins vegar andmælt tilgreindum málatilbúnaði, þar á meðal um hið ætlaða loforð, og vísað til þess að aðilar hafi rætt málið á viðkomandi fundi þar sem ákveðið hafi verið að kærði myndi sinna áfram hagsmunagæslu í þágu kæranda.

Hvað sem þeim ágreiningi líður þá liggur fyrir að dánarbú C var tekið til opinberra skipta og skiptastjóri skipaður. Þá er ágreiningslaust að kærði gætti hagsmuna kæranda undir hinum opinberu skiptum.

Með bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms, dags. x. júní 2018 sem móttekið var þann 12. sama mánaðar, var ágreiningi um gildi viðkomandi erfðaskrár vísað til úrlausnar dómsins. Var málið þar þingfest þann x. september 201x sem héraðsdómsmálið nr. Q-x/201x. Fór kærði með málið fyrir hönd kæranda, sem sóknaraðila, þar sem þess var annars vegar krafist að við skipti dánarbúsins yrði öllum þeim eignum sem ekki hefðu sérstaklega verið tilgreindar í erfðaskránni skipt jafnt á milli lögerfingja. Hins vegar var þess krafist að við skiptin yrði handskrifuð viðbót við erfðaskrána virt að vettugi.

Kærandi óskaði eftir í tölvubréfi til kærða þann x. febrúar 201x að hinn síðargreindi myndi leggja fram í dómsmálinu svonefnt allsherjarumboð, dags. x. nóvember 2013, vegna ágreinings um gildi þess og efni. Af málsgögnum verður ráðið að kærði hafi orðið við þeirri beiðni kæranda með framlagningu skjalsins á dómþingi þann x. febrúar 2019. Þá liggur fyrir að aðilar áttu í umtalsverðum samskiptum fyrir aðalmeðferð málsins sem fram fór í héraði þann x. apríl 201x.

Með úrskurði héraðsdóms x. apríl 201x í máli nr. Q-x/201x var öllum kröfum kæranda hafnað auk þess sem honum var gert að greiða varnaraðila málsins 450.000 krónur í málskostnað. Fyrir liggur að kærði annaðist kæru málsins til Landsréttar fyrir hönd kæranda en meðal gagna málsins eru tölvubréf sem kærði sendi til kæranda um greiðslu kærugjalds að fjárhæð 65.000 krónur dagana 29. apríl og 7. maí 2019 auk þess sem kærði sendi afrit greinargerðar hans til Landsréttar í málinu í tölvubréfi þann 4. júní 2019.

Með úrskurði Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxx/201x var hinni fyrrgreindu kröfu kæranda vísað frá héraðsdómi en hinni síðargreindu hafnað. Þá var kæranda gert að greiða varnaraðila málsins 900.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Kærði upplýsti kæranda um niðurstöðu málsins í tölvubréfi þennan sama dag, 12. júní 2019. Vísaði kærði til þess að annarri kröfunni hefði verið vísað frá dómi og að mögulega væri hægt að fara með hana í breyttri mynd aftur fyrir dóm. Þá óskaði kærði eftir að kærandi myndi hafa samband sem fyrst ef vilji væri til þess að skoða nánar mögulegt framhald málsins. Kærandi svaraði fyrrgreindu erindi degi síðar og kvaðst ekki í skapi til að ræða þessi mál en að hann væri væntanlegur til landsins og að þá skyldu málin rædd.

Í tölvubréfi, dags. 4. júlí 2019, fór kærandi fram á að kærði myndi láta af hagsmunagæslu í þágu kæranda og afturkallaði samkvæmt því það umboð sem veitt hafði verið í upphafi lögskipta aðila. Óskaði kærandi jafnframt eftir að fá öll gögn sem kærði hefði undir höndum „um erfðamálið.“ Kærði staðfesti móttöku uppsagnarinnar samdægurs. Lýsti kærði því einnig að uppgjörf þyrfti að fara fram áður en nýr lögmaður tæki við málinu og að reikningur yrði sendur til hins nýja lögmanns ef hann hefði samband. Þá tiltók kærði að kærandi gæti sótt málsgögnin þegar hentaði.

Þann 26. júlí 2019 óskaði kærandi eftir sundurliðuðum reikningi frá kærða vegna málsins. Var sú beiðni ítrekuð í tölvubréfum kæranda til kærða dagana 22. ágúst og 12. september 2019. Í svari kærða hinn síðastgreinda dag staðfesti kærði að hann myndi taka þetta saman og gera reikning.

Líkt og áður er rakið beindi kærandi kvörtun í máli þesu til nefndarinnar þann 25. október 2019. Eftir þann tíma, nánar tiltekið þann 27. nóvember 2019, sendi kærði tölvubréf til kæranda en með því fylgdi sundurliðaður reikningur í samræmi við beiðni hins síðarnefnda þar að lútandi. Var þar um að ræða reikning, dags. 26. nóvember 2019, útgefinn af lögmannsstofu kærða á hendur kæranda að fjárhæð 1.033.124 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu kærða vegna máls nr. Q-x/201x fyrir Héraðsdómi og máls nr. xxx/201x fyrir Landsrétti. Í nánari sundurliðun kom fram að kærði hefði verið alls 50,5 klukkustundum í málið, þ.e. í samskipti, ritun greinargerða og kæru, fyrirtökur fyrir dómi, undirbúning aðalmeðferðar, aðalmeðferðina sjálfa í héraði sem og í samantekt og yfirferð kærumálsgagna. Þá var tiltekið að tímagjald kærða væri að fjárhæð 25.900 krónur auk virðisaukaskatts en að kæranda væri veittur 36,30% afsláttur þannig að áskilið tímagjald vegna verksins væri að fjárhæð 16.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Ekki verður ráðið af málsgögnum að málsaðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins eftir 27. nóvember 2019.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé í fyrsta lagi krafist að útgefnir reikningar lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda verði felldir niður og að greiðslur sem inntar hafi verið af hendi af hálfu kæranda verði endurgreiddar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í öðru lagi sé þess krafist af hálfu kæranda að kærði verði látinn sæta viðeigandi agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Jafnframt því krefst kærandi þess að „dómurinn í erfðamálinu verði felldur úr gildi“, að málið verði endurupptekið auk þess sem kærða verði gert að afhenda kæranda öll málsgögn og „kvittun fyrir uppsagnarbréfi.“

Kærandi kveðst leggja fram kvörtun í málinu vegna alvarlegra misgjörða og hegðunar kærða.

Kærandi vísar til þess að hann hafi óskað eftir opinberum skiptum á dánarbúi C í árslok 2016 hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Í framhaldi ábendingar, þar sem komið hafi fram sjónarmið um annmarka á fyrirliggjandi erfðaskrá, hafi kærandi leitað til kærða sem tekið hafi við málinu. Hafi kærði þannig rekið fyrir kæranda mál, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, þar sem fallist hafi verið á kröfu kæranda um opinber skipti dánarbúsins.

Kærandi lýsir því að hann hafi komið á framfæri við kærða að lykilatriði málsins væri að kæra ætlað falsað umboð og handskrift í erfðaskrá til lögreglu. Á grundvelli hins umþrætta umboðs hafi gagnaðili kæranda náð öllum peningum og verðbréfum úr búi C í ársbyrjun 2019. Kærandi bendir á að kærði hafi hins vegar minnst viljað ræða umboðið. Þvert á móti hafi hann lýst því að óþarft væri að kæra umboðið þar sem það væri í lagi, þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli kæranda um að slíkt skyldi gert.

Vísað er til þess að kærði hafi viljað fara aðra leið, þ.e. að láta reyna á gildi erfðaskrárinnar að takmörkuðu leyti fyrir dómstólum. Hafi þannig aðeins átt að koma til skoðunar hvort handritun í erfðaskránni væri gild. Það mál hafi tapast bæði í héraði og fyrir Landsrétti. Kveðst kærandi ósáttur við þá leið sem kærði hafi farið með málið, að það hafi tekið langan tíma og verið kostnaðarsamt. Hjá því hefði mátt komast ef allsherjarumboðið hefði verið kært til lögreglu.

Kærandi bendir jafnframt á að hann hafi sérstaklega spurt kærða að því hvort möguleiki væri á gjafsókn í málinu vegna lágra launa. Hafi kærði upplýst að hann myndi athuga þann þátt en ekkert hafi orðið af efndum. Byggir kærandi á að kærði hafi brotið gróflega á hagsmunum sínum. Þá hafi kærði ekkert minnst á hið falsaða umboð við aðalmeðferð hins síðara dómsmáls í héraði.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi ekki spurt lögmann gagnaðila, sem gefið hafi vitnaskýrslu í héraði, um það hver hefði handskrifað „versus peningar og verðbréf“ á erfðaskránna og hvenær það hefði verið gert. Sé þar um að ræða ótrúlega handvömm enda vanti dagsetningar í erfðaskránna. Jafnframt því hafi kærði einungis lagt fram hluta af málsgögnum fyrir skiptastjóra dánarbúsins og undir rekstri dómsmálsins.

Varðandi hið fyrra dómsmál er vísað til þess að kærandi hafi greitt kærða 1.230.000 krónur fyrir rekstur þess á tveimur dómstigum. Auk þess hafi kærði fengið greiddar 1.200.000 krónur úr málskostnaðartryggingu kæranda hjá E tryggingum hf. Kærði hafi hins vegar aldrei sent kæranda reikning fyrir þeirri upphæð sem hann móttók úr tryggingunni. Tveimur mánuðum síðar hafi kærandi fengið þær upplýsingar beint frá tryggingafélaginu. Kveðst kærandi aldrei hafa veitt kærða heimild til að tæma trygginguna með þessum hætti.

Kærandi kveðst hafa farið á fund kærða í framhaldi þessa þar sem kvartað hafi verið yfir framgöngu hins síðargreinda varðandi meðferð tryggingarfjárins. Er vísað til þess að á þeim fundi hafi kærði upplýst um að mikill kostnaður hefði verið við málið en kærandi hafi verið ósáttur við þau svör. Þar sem fyrir hafi legið að erfðamálið færi fyrir dómstóla í framhaldinu hafi kærði hins vegar gefið loforð um að hann tæki ekki þóknun vegna þess máls. Bendir kærandi á að við það loforð hafi ekki verið staðið enda hafi honum verið gert að greiða kr. 70.000 krónur fyrir greinargerð.

Kærandi vísar til þess að hann hafi sagt kærða upp störfum í kjölfar úrskurðar Landsréttar þar sem kröfum kæranda var hafnað. Í beinu framhaldi af því hafi kærði upplýst að útistandandi væri þóknun vegna lögmannsstarfa í málinu. Kærði hafi hins vegar ekki viljað gefa upp um hversu háa fjárhæð væri að ræða þótt ítrekað hafi verið eftir því leitað af hálfu kæranda. Þá hafi kærandi ekki getað leitað til annars lögmanns vegna hinnar ætluðu skuldar. Með því hafi kærði gert kæranda mikinn óleik.

Kærandi hafnar því að hann sé í skuld við kærða. Vísar kærandi um það efni til þess að kærði hafi tekið fjármuni úr tryggingu hans án samráðs og með ólögmætum hætti. Þá hafi kærði ekki framvísað reikningum, útlistað vinnu sína jafnframt því sem loforð hafi verið gefið um að ekki kæmi til frekari reikningsgerðar vegna vinnu í tengslum við málið.

Kærandi byggir á að kærði hafi eyðilagt mál hans með því að hafna mikilvægum málsgögnum og neita að kæra málið sem misferli. Kærði hafi þannig farið sínar eigin leiðir og ekki hlustað á kæranda. Hafi það leitt til þess að málið hafi tapast. Auk þess hafi kærði ekki upplýst hann um niðurstöðu dómstóla í hinu síðara máli.

Varðandi ætluð brot kærða vísar kærandi í kvörtun til 10. gr. og 19. – 22. gr. siðareglna lögmanna.  

III.

Kærði krefst þess í fyrsta lagi að öllum kröfum kæranda, sem varða mál nr. x-x/201x fyrir Héraðsdómi og samsvarandi kærumál nr. xxx/201x fyrir Hæstarétti, verði vísað frá nefndinni. Í öðru lagi krefst kærði þess að öllum kröfum kæranda, sem varða mál nr. x-x/201x fyrir Héraðsdómi og samsvarandi kærumál nr. xxx/201x fyrir Landsrétti, verði hafnað. Í þriðja lagi krefst kærði þess að nefndin staðfesti, að áskilin útistandandi heildarþóknun að fjárhæð 1.033.124 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, vegna reksturs mála nr. x-xx/201x og xxx/201x fyrir Héraðsdómi og Landsrétti, feli í sér hæfilegt endurgjald. Þá krefst kærði hæfilegs málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði kveðst mótmæla öllum ásökunum og ávirðingum kæranda í málinu. Byggir kærði á að hann hafi starfað af dugnaði og heilindum í þeim tveimur dómsmálum sem rekin hafi verið fyrir hönd kæranda. Þá sé ljóst að kvörtun kæranda sé mótsagnakennd, villandi og röng. Þannig stangist fullyrðingar kæranda hver á við aðra. Vísar kærði í dæmaskyni um það efni til þess að kærandi haldi því fram að kærði hafi gefið loforð um að vinna frítt á sama tíma og lögð séu fram tölvubréf þar sem kærandi sjálfur óskar eftir upplýsingum um stöðu skuldar gagnvart kærða.

Varðandi forsögu málsins vísar kærði til þess að gengið hafi verið frá umboði vegna hagsmunagæslu hans í þágu kæranda þann 6. janúar 2017. Hafi fyrra málið lotið að því hvort fallast bæri á kröfu kæranda um opinber skipti á dánarbúi C, föðursystur kæranda. Því máli hafi verið beint til Héraðsdóms þann x. mars 2017 en úrskurður gengið þann x. desember sama ár. Sá úrskurður hafi hins vegar sætt kæru til Hæstaréttar sem staðfest hafi niðurstöðu héraðsdóms með dómi uppkveðnum x. janúar 2018 í máli nr. xxx/201x.

Kærði bendir á að síðara málið hafi snúist um gildi og inntak erfðaskrár sem C og F höfðu gert þann 15. október 2003. Hafi ágreiningur í því máli einkum lotið að handskrifaðri viðbót í erfðaskránni. Er á það bent að því máli hafi verið beint til Héraðsdóms þann x. júní 2018. Hafi kröfum kæranda verið hafnað með úrskurði héraðsdóms x. apríl 201x. Þá hafi Landsréttur staðfest þá niðurstöðu með úrskurði uppkveðnum x. júní 201x. Í framhaldi af því hafi hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda lokið, sbr. nánar tölvubréf kæranda til kærða frá 4. júlí 2019.

Varðandi ágreining sem lýtur að fyrra dómsmálinu vísar kærði til þess að hann hafi rætt ítarlega við kæranda um það mál, aðfinnslur kæranda í hans garð og ágreining um þóknun áður en til hins síðara máls hafi komið. Bendir kærði á að kærandi vísi til hins sama í kvörtun málsins, þ.e. að aðilar hafi átt með sér fund þar sem kærandi hafi kvartað yfir of hárri þóknun, sem að stærstum hluta hefði verið greidd með málskostnaðartryggingu kæranda hjá E tryggingum hf. Jafnframt því hafi kærandi komið á framfæri óánægju með það að kærði hefði ekki hlutast til um lögreglurannsókn vegna meintrar fölsunar á undirskrift og að ekki hefði verið sótt um gjafsókn. Ítrekar kærði að tilgreindar aðfinnslur kæranda hafi komið fram áður en vinna hafi hafist við síðara dómsmálið, svo sem einnig sé staðfest í kvörtun kæranda.

Kærði bendir á og ítrekar að síðara ágreiningsmálinu hafi verið beint til Héraðsdóms þann x. júní 2018 og að það hafi verið þingfest í dóminum þann x. september sama ár. Samkvæmt því sé hafið yfir allan vafa að meira en ár sé liðið frá því að kæranda gafst kostur á því að koma á framfæri ágreiningsmáli fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Af þeim sökum beri að vísa öllum kröfum kæranda sem tengjast rekstri fyrra málsins, bæði hvað varðar þóknun og störf kærða, frá nefndinni. Áréttar kærði að hann hafi staðið í þeirri trú að aðfinnslum kæranda vegna fyrra málsins hefði að fullu verið svarað og allt sem að þeim hafi lotið væri frágengið. Að öðrum kosti hefði kærði ekki samþykkt að reka annað dómsmál fyrir hönd kæranda auk þess sem kærandi hefði við slíkar aðstæður ekki falast eftir frekari þjónustu kærða.

Um aðfinnslu vegna starfa kærða við hið síðara dómsmál vísar kærði í fyrsta lagi til þess að hann hafi lagt fram allsherjarumboð, dags. 11. nóvember 2013,  á dómþingi héraðsdómsmálsins nr. x-xx/201x þann x. febrúar 201x. Samkvæmt því séu fullyðingar kæranda um hið gagnstæða rangar. Bendir kærði jafnframt á að umrætt umboð sé 10 árum yngra en erfðaskráin sem málið hafi lotið að.

Í öðru lagi kveður kærði það rangt að hann hafi ekki spurt lögmann gagnaðila um þá handskrifuðu viðbót sem greindi í erfðaskránni. Vísar kærði um það efni til þess að lögmaður gagnaðila hafi gefið vitnaskýrslu fyrir dómi sem og ritari lögmannsins en þau hafi bæði verið vottar að undirritun arfleifenda. Kveðst kærði hafa spurt bæði vitnin ítarlega út í hina handskrifuðu viðbót. Vísar kærði sérstaklega til eftirfarandi forsendna í úrskurði héraðsdóms um þetta efni:

Umræddir vottar hafa staðfest að þeir hafi komið á heimili arfleifenda til þess að ganga frá erfðaskránni... Jafnframt hafa vottanir staðfest að umrædd handskrifuð breyting hafi verið gerð samtímis því að erfðaskráin var undirrituð. Þessi breyting er staðfest með upphafsstöfum arfleifenda og votta...

Samkvæmt þessu sé ljóst að fullyrðingar kæranda, um að skýrslutöku yfir lögmanni gagnaðila hafi verið ábótavant, séu rangar.

Í þriðja lagi vísar kærði til þess að það sé rangt sem greini í kvörtun um að kærði hafi gefið loforð í aðdraganda síðara málsins um að ekki kæmi til gjaldtöku vegna starfa hans í tengslum við málið. Bendir kærði á að gögn sem stafa frá kæranda sjálfum sýni fram á að fullyrðingin sé röng. Þannig hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um stöðu skuldar hans gagnvart kærða vegna reksturs málsins í tölvubréfum, líkt og málsgögn beri með sér. Þá felist í málatilbúnaði kæranda að þessu leyti augljós mótsögn enda vandséð að unnt sé að halda því fram að loforð hafi verið gefið um að engin þóknun yrði innheimt á sama tíma og verið sé að spyrja um stöðu skuldar vegna vinnunnar.

Í fjórða lagi hafnar kærði því að hann hafi dregið á langinn að senda reikning til kæranda vegna starfa við síðara dómsmálið. Kærði vísar til þess að til hafi staðið að kærandi kæmi á fund kærða til að fara yfir málið, sækja gögn og fá upplýsingar um heildarþóknun kærða vegna vinnunnar, sbr. tölvubréfasamskipti aðila frá 12. og 13. júní 2019. Ekkert hafi hins vegar heyrst í kæranda fyrr en tæpum mánuði síðar, eða þann 4. júlí 2019, þegar kærða hafi verið sagt upp störfum og málsgagna var krafist. Er vísað til þess að kærði hafi staðfest móttöku uppsagnar þennan sama dag og leiðbeint kæranda um að ef nýr lögmaður kæmi að málinu þyrfti sá hinn sami að hafa samband við kærða og móttaka reikning fyrir hönd kæranda vegna starfans. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að hann gæti nálgast gögn málsins á skrifstofu kærða.

Kærði kveður að samkvæmt samskiptum aðila hafi hann staðið í þeirri trú að kærandi myndi eftir atvikum finna sér nýjan lögmann en í öllu falli koma á skrifstofu kærða og sækja gögn málsins og fá afhentan reikning. Hafi það því komið kærða verulega á óvart að fá erindi frá úrskurðarnefnd lögmanna vegna málsins enda hafi hvorki annar lögmaður haft samband né hafi kærandi sótt gögn á skrifstofu kærða.

Með hliðsjón af framangreindu, þ.e. þeim skamma tíma sem leið frá því að hagsmunagæslu kærða lauk, tölvubréfasamskiptum aðila og þeirra leiðbeininga sem kærði veitti kæranda við lok réttarsambands aðila, hafnar kærði því alfarið að hann hafi dregið það á langinn að senda kæranda reikning. Þá byggir kærði á að fjarstæðukennt sé að kærandi hafi orðið fyrir tjóni í tengslum við hinn ætlaða drátt á afhendingu reiknings.

Að endingu vísar kærði til þess að hann hafi nú sent kæranda umbeðinn sundurliðaðan reikning vegna rekstur hins síðara dómsmáls. Rangt sé með öllu að kærði hafi rekið málið fyrir kæranda án kostnaðar, líkt og málsgögn beri með sér. Samkvæmt reikningnum sé skuld kæranda gagnvart kærða að fjárhæð 1.033.124 krónur með virðisaukaskatti. Taki reikningurinn til reksturs hins síðara dómsmáls, bæði í héraði og fyrir Landsrétti. Samtals hafi kærði varið 50,5 klukkustundum í rekstur málsins á tímagjaldinu 16.500 krónur auk virðisaukaskatts. Varðandi tímagjald bendir kærði á að það sé alla jafna 25.900 krónur að viðbættum virðisaukaskatti en að hann hafi veitt kærða afslátt sem nemi 36,3% að því marki sem þóknun hafi verið greidd beint frá kæranda en ekki frá gangaðila eða tryggingafélagi. Sé áskilið tímagjald samkvæmt reikningnum því hóflegt. Auk þess sé heildartímafjöldi hóflegur. Krefst kærði þess að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að þóknun að framangreindri fjárhæð feli í sér hóflegt endurgjald.

 

Niðurstaða

I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið hennar.

Kærandi hefur meðal annars krafist þess fyrir nefndinni að úrskurður Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxx/201x verði „felldur úr gildi“ og málið endurupptekið auk þess sem kærða verði gert að afhenda kæranda öll málsgögn og „kvittun fyrir uppsagnarbréfi.“

Um tilgreindar kröfur kæranda er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjalla í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að taka til skoðunar hvort efni séu til endurupptöku mála sem dæmd hafa verið fyrir íslenskum dómstólum, sbr. einnig XXIII., XXVIII. og XXIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á slíkt hið sama við um þá kröfu kæranda að kærða verði gert að afhenda kæranda öll málsgögn og „kvittun fyrir uppsagnarbréfi.“ Um þær kröfur er jafnframt til þess að líta að kærði hefur ítrekað, bæði fyrir og undir rekstri málsins, upplýst kæranda um að unnt sé að nálgast hin umbeðnu gögn á skrifstofu kærða auk þess sem kærði staðfesti móttöku uppsagnar og afturköllun umboðs í tölvubréfi sama dag og hún var send, þ.e. þann 4. júlí 2019.

Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar verður að vísa tilgreindum kröfum kæranda á hendur kærða frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Varðandi formhlið málsins þá hefur kærði jafnframt krafist þess fyrir nefndinni að öllum kröfum kæranda, sem varða mál nr. x-x/201x fyrir Héraðsdómi og samsvarandi kærumál nr. xxx/201x fyrir Hæstarétti, verði vísað frá nefndinni.

Um frávísunarkröfu kærðu er til þess að í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sína eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá kemur fram í 1. mgr. 27. gr. laganna að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Í báðum tilvikum er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Fyrir liggur að kvörtun kæranda lýtur meðal annars að gjaldtöku kærða og háttsemi hans við rekstur héraðsdómsmálsins nr. x-x/201x og hæstaréttarmálsins nr. xxx/201x sem lauk með dómi sem kveðinn var upp þann x. janúar 201x. Ágreiningslaust er í málinu að aðilar áttu með sér fund um þau kvörtunarefni kæranda áður en til síðari málareksturs kom, þar sem kærði annaðist jafnframt hagsmunagæslu fyrir hönd kæranda, en hið síðara ágreiningsmál var móttekið af Héraðsdómi þann x. júní 2018 og það þingfest með málsnúmerinu x-xx/201x þann x. september 201x.

Í ljósi þess að ágreiningslaust er að hluti þeirra kvörtunarefna sem mál þetta varðar lágu ótvírætt þegar fyrir snemma árs 2018 er að áliti nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi þá þegar átt þess kost á að koma þeim á framfæri við nefndina. Voru því lögbundnir tímafrestir til að leggja málið fyrir nefndina, vegna þeirra kvörtunarefna sem lúta að gjaldtöku og háttsemi kærða vegna reksturs héraðsdómsmálsins nr. x-x/201x og hæstaréttarmálsins nr. xxx/201x í þágu kæranda, liðnir þegar kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin þann 25. október 2019. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eru tilgreind kvörtunarefni of seint fram komin og verða því ekki tekin til efnisúrlausnar í málinu.

  II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Kærandi hefur borið því við fyrir nefndinni að kærði hafi gert á sinn hlut með ýmissi háttsemi í tengslum við rekstur málsins nr. x-xx/201x fyrir Héraðsdómi og málsins nr. xxx/201x fyrir Landsrétti sem lauk með úrskurði réttarins þann x. júní 201x. Hefur kærandi um það efni vísað til þess að kærði hafi hvorki kært svonefnt allsherjarumboð, dags. 11. nóvember 2013, til lögreglu og látið rithandarsérfræðing yfirfara undirritanir á því né hafi kærði lagt það fram sem sönnunargagn fyrir dómi þrátt fyrir fyrirmæli kæranda þar að lútandi. Jafnframt því hafi kærði ekki sótt um gjafsókn fyrir kæranda þrátt fyrir fyrirheit um slíkt. Þá hafi kærði ekki spurt arfleiðsluvotta, við skýrslugjöf héraðsdómsmálsins nr. x-10/201x, um það hver hafi handskrifað viðbótarathugasemdir inn á umþrætta erfðaskrá málsins, dags. 15. október 2003, og þá hvenær slíkt hafi verið gert. Auk þess hafi kærði ekki upplýst kæranda um niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar í málinu.

Að mati nefndarinnar eru ekki efni til að telja að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna vegna þeirra kvörtunarefna sem hér um ræðir.

Er þá í fyrsta lagi að líta til þess að undir opinberum skiptum dánarbús C var kærða falið af hálfu kæranda að reka ágreiningsmál um gildi viðkomandi erfðaskrár sem gerð hafði verið 15. október 2003 auk síðari viðauka frá 29. ágúst 2008. Ljóst má vera að áliti nefndarinnar að áðurgreint allsherjarumboð sem gefið var út löngu síðar, eða þann 11. nóvember 2013, og áritað var af fyrrgreindri C gat enga þýðingu haft vegna þess sakarefnis sem rekstur dómsmálsins hverfðist um. Hér verður heldur ekki framhjá því litið að kærði lagði  umrætt allsherjarumboð fram á dómþingi héraðsdómsmálsins nr. x-xx/201x þann x. febrúar 201x og brást með því við beiðni kæranda sem komið hafði fram í tölvubréfasamskiptum málsaðila frá 18. sama mánaðar, gagnstætt því sem kærandi heldur nú fram fyrir nefndinni. Þá bera fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti málsaðila fyrir nefndinni þess ekki merki að kærða hafi verið að falið að annast slíka kæru til lögreglu sem kærandi byggir nú á. Á slíkt hið sama við um ætlaða aðkomu kærða að því að óska eftir gjafsókn í þágu kæranda vegna reksturs dómsmálsins en jafnframt því liggja engin gögn fyrir nefndinni um það efni að kærandi hafi í reynd uppfyllt lagaskilyrði fyrir veitingu slíks leyfis.

Í öðru lagi er þess að gæta að arfleiðsluvottar að erfðaskránni frá 15. október 2013, þar á meðal lögmaður gagnaðila kæranda, gáfu skýrslu sem vitni í héraðsdómsmálinu nr. x-xx/201x og báru meðal annars fyrir um þau atvik sem kærandi kvartar nú yfir að kærði hafi ekki gætt. Verður slíkt ótvírætt ráðið af forsendum úrskurða héraðsdóms og Landsréttar, sbr. meðal annars eftirfarandi í forsendum úrskurðar Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxx/201x:

...Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að arfleiðsluvottorðið uppfylli öll skilyrði 42. gr. erfðalaga. Vottarnir komu fyrir héraðsdóm og staðfestu undirritun sína en þar staðfestu þeir jafnframt að umrædd handskrifuð áritun við D-lið erfðaskrárinnar hafi verið gerð samtímis því að erfðaskráin var undirrituð. Af þeim sökum verður ekki fallist á að hin handskrifaða áritun á erfðaskrána feli í sér slíkan annmarka að hún uppfylli ekki skilyrði 40. og 42. gr. erfðalaga.

Í þriðja og síðasta lagi um þetta efni liggur fyrir af málsgögnum að aðilar áttu í umtalsverðum samskiptum í kjölfar úrskurðar héraðsdóms í málinu þann x. apríl 201x, þar á meðal um greiðslu kærugjalds í tölvubréfasamskiptum á tímabilinu frá 29. apríl til 7. maí 2019 auk þess sem kærði sendi afrit greinargerðar hans til Landsréttar í málinu í tölvubréfi þann 4. júní sama ár. Þá liggur fyrir, líkt og nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, að kærði upplýsti kæranda um niðurstöðu Landsréttar í málinu nr. xxx/201x sama dag og uppkvaðning úrskurðar fór fram, þ.e. þann x. júní 201x. Samkvæmt því fæst ekki séð að málatilbúnaður kæranda fái staðist um það efni að kærði hafi ekki upplýst kæranda um niðurstöðu dómstóla í málinu.

Á hinn bóginn er þess að gæta að kveðið er á um í 15. gr. siðareglna lögmanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skuli jafnframt veita upplýsingar úr tímaskýrslu sé eftir þeim leitað. Þá er tiltekið í 41. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berst í lögmannsstarfi hans en sé það ekki unnt ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað þegar fært verður.

Fyrir liggur að kærandi afturkallaði lögmannsumboð kærða í tölvubréfi þann 4. júlí 2019. Staðfesti kærði móttöku á þeirri afturköllun þann sama dag og tiltók sérstaklega að uppgjör þyrfti að fara fram á milli aðila áður en nýr lögmaður tæki við málinu. Í framhaldi af því beindi kærandi erindum til kærða dagana 26. júlí og 22. ágúst 2019 og óskaði eftir að fá sundurliðaðan reikning frá kærða vegna málsins en hvorki bárust viðbrögð né svör frá kærða. Ítrekaði kærandi enn á ný beiðni sína um útgáfu reikningsins í tölvubréfi til kærða þann 12. september 2019 en í svari kærða þann sama dag óskaði hann eftir upplýsingum um hvort mikið lægi á þessu auk þess sem hann kvaðst „hafa um nóg að hugsa þessa dagana“ en að reikningur yrði sendur. Í kjölfar þess, eða í tölvubréfi þann 13. september 2019, óskaði kærandi loks eftir að reikningurinn yrði sendur í vikunni á eftir.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan sendi kærði hinn umbeðna reikning á kæranda ekki fyrr en þann 27. nóvember 2019 en þá var liðinn rúmur mánuður frá því að kvörtun kæranda í máli þessu hafði verið beint til nefndarinnar.

Af hinum ítrekuðu erindum sem kærandi beindi til kærða sem áður er lýst, í fyrsta sinn þann 26. júlí 2019 eða rúmum þremur vikum eftir afturköllun á lögmannsumboði kærða hafði verið komið á framfæri, mátti kærða vera ljóst að það varðaði kæranda miklu að ganga til lokauppgjörs vegna réttarsambands aðila. Varðandi mikilvægi þess að ganga til slíks lokauppgjörs, í samræmi við hinar ítrekuðu beiðnir kæranda, verður jafnframt að líta til þess að kærði hafði áður lýst því yfir gagnvart kæranda að slíkt uppgjör þyrfti að fara fram til þess að nýr lögmaður gæti tekið við hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins. Þrátt fyrir það lét kærði undir höfuð leggjast með að bæði svara erindum kæranda frá 26. júlí og 22. ágúst 2019 sem og að gefa út hinn umbeðna reikning vegna starfa hans í þágu kæranda. Var reikningurinn þannig ekki gefinn út fyrr en fjórum mánuðum eftir að beiðni um lokauppgjör hafði komið fram. Er ljóst að mati nefndarinnar að sá dráttur sem varð á svörum og eftirfylgni kærða við erindum kæranda að þessu leyti hafi alfarið verið á ábyrgð kærða, sbr. 15. og 41. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það mat nefndarinnar að sú háttsemi kærða að hafa ekki svarað erindum kæranda frá 26. júlí og 22. ágúst 2019 og að hafa ekki stuðlað að því um fjögurra mánaða skeið að málsaðilar gætu gengið til lokauppgjörs vegna réttarsambands þeirra með útgáfu reiknings, á sama tíma og kærði hafði upplýst kæranda um að nýr lögmaður gæti ekki tekið við hagsmunagæslu í málinu fyrr en krafan væri uppgerð, sé aðfinnsluverð.

  III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Fyrir liggur að kærði annaðist hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna rekstur málsins nr. x-xx/201x fyrir Héraðsdómi og málsins nr. xxx/201x fyrir Landsrétti sem lauk með úrskurði uppkveðnum x. júní 201x. Kærandi hefur borið því við fyrir nefndinni að kærði hafi gefið honum loforð um að ekki yrði tekin þóknun vegna þeirra lögmannsstarfa en kærði hefur mótmælt því sem röngu.

Engra gagna nýtur við fyrir nefndinni sem fært gætu stoð undir hið ætlaða loforð sem kærandi kveður kærða hafa gefið áður en viðkomandi ágreiningsmáli var beint til úrlausnar héraðsdóms þann x. júní 201x. Þvert á móti liggur fyrir að kærandi óskaði ítrekað eftir að reikningur yrði gefinn út vegna nefndra lögmannsstarfa kærða í kjölfar úrskurðar Landsréttar í málinu. Samkvæmt því hefur ekki verið leitt í ljós að mati nefndarinnar að kærði hafi gefið kæranda loforð um að ekki kæmi til gjaldtöku vegna lögmannsstarfa hans í málinu.

Á grundvelli þeirra lögmannsstarfa sem hér um ræðir gaf lögmannsstofa kærða út einn reikning á hendur kæranda. Nánar tiltekið var þar um að ræða reikning sem útgefinn var þann 26. nóvember 2019 að fjárhæð 1.033.124 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu kærða vegna máls nr. x-xx/201x fyrir Héraðsdómi og máls nr. xxx/201x fyrir Landsrétti. Í nánari sundurliðun kom fram að kærði hefði verið alls 50,5 klukkustundum í málið, þ.e. í samskipti, ritun greinargerða og kæru, fyrirtökur fyrir dómi, undirbúning aðalmeðferðar, aðalmeðferðina sjálfa í héraði sem og í samantekt og yfirferð kærumálsgagna. Þá var tiltekið að tímagjald kærða væri að fjárhæð 25.900 krónur auk virðisaukaskatts en að kæranda væri veittur 36,30% afsláttur þannig að áskilið tímagjald vegna verksins væri að fjárhæð 16.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Að mati nefndarinnar var áskilið tímagjald kærða ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi sem reikningurinn tók til hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við rekstur málsins á tveimur dómstigum, sem kærða var sannanlega falið að sinna í þágu kæranda. 

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið sem og að teknu tilliti til málsgagna og atvika allra, verður ekki talið að mati nefndarinnar að efni séu til að fallast á kröfugerð kæranda um niðurfellingu þess reiknings sem hér um ræðir. Þá eru ekki skilyrði að mati nefndarinnar til þess að lækka áskilda þóknun kærða vegna umræddra lögmannsstarfa í þágu kæranda. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa kærða áskildi sér vegna starfa við rekstur héraðsdómsmálsins nr. x-xx/201x og landsréttarmálsins nr. xxx/201x í þágu kæranda, að fjárhæð 1.033.124 krónur, telst hæfilegt endurgjald.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum kæranda, A, um að dómur Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxx/201x verði „felldur úr gildi“, að málið verði endurupptekið og að kærða, B lögmanni, verði gert að afhenda kæranda öll málsgögn og kvittun fyrir uppsagnarbréfi, er vísað frá nefndinni.

Kærði, B lögmaður, sætir aðfinnslu fyrir að hafa ekki látið kæranda A, í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað án ástæðulauss dráttar og að hafa ekki sinnt ítrekuðum beiðnum kæranda þar að lútandi.

Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda A, við rekstur héraðsdómsmálsins nr. x-xx/201x og landsréttarmálsins nr. xxx/201x, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson