Mál 3 2019

Mál 3/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 27. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. janúar 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn í störfum sínum gagnvart kæranda.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 30. janúar og 21. febrúar 2019 og barst hún þann 28. mars sama árs. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 1. apríl 2019. Hinn 16. apríl 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða næsta dag. Svar kærða barst þann 22. maí 2019 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 23. sama mánaðar þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila mun kærandi hafa tekið svokallað smálán hjá smálánafyrirtækinu C í októbermánuði 2013 en svo virðist sem höfuðstólsfjárhæð lánsins hafi verið að fjárhæð 7.000 krónur. Rekstraraðili viðkomandi smálánafyrirtækis mun vera félagið D en bæði félögin eru með aðsetur í E. Þá er ágreiningslaust að F ehf., sem kærði er í fyrirsvari fyrir, annast löginnheimtu fyrir fyrrgreind félög vegna veittra smálána á Íslandi.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að hann hafi fengið fjölda smáskilaboða frá C í desembermánuði 2018 sem boðið hafi fram þjónustu sína í þágu kæranda. Fyrir liggur að kærandi sendi í framhaldi af því, nánar tiltekið þann 12. desember 2018, tölvubréf til félagsins þar sem óskað var eftir að hann yrði tekinn úr kerfi félagsins. Í svari frá þjónustuveri C þann 14. sama mánaðar kom fram að eitt lán væri ógreitt og því væri ekki hægt að eyða aðgangi kæranda. Kærandi sendi á ný tölvubréf til C þann sama dag og kvaðst ekki skulda félaginu neitt heldur væri um einhverja vitleysu að ræða.

Samkvæmt málsgögnum sendi C tölvubréf á ný til kæranda þann 17. desember 2018 þar sem tekið var fram að hinn síðargreindi hefði tekið lán þann 17. október 2013 að fjárhæð 7.000 krónur í 31 dag. Þá var þar tiltekið að enga greiðslu væri að finna við lánið en ef að kærandi teldi sig hafa gert upp væri óskað eftir kvittun þar að lútandi svo unnt væri að skoða málið betur. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að þetta væri ekki í lagi, að málið væri síðan 2013 og að allt hefði verið gert upp á þeim tíma með aðstoð banka. Samdægurs barst kæranda loks tölvubréf frá C þar sem eftirfarandi var meðal annars tiltekið:

Þar sem að lánið er ekki í virkri innheimtu núna þá getum við boðið þér að greiða aðeins höfuðstólinn til baka sem er 7.450 kr. Það kemur krafa í heimabankann hjá þér frá F ehf. sem býr til kröfurnar fyrir okkur.

Þennan sama dag, 17. desember 2018, mun hafa verið stofnuð krafa í heimabanka kæranda í nafni F ehf. Samkvæmt afriti hinnar stofnuðu kröfu, sem liggur fyrir í málsgögnum, var krafan með gjalddaga þann 17. desember 2018 en með eindaga þann 1. janúar 2019 auk þess sem því var lýst að hún væri samkvæmt greiðslusamkomulagi. Þá ber skjalið með sér að við útprentun þess hafi krafan verið að fjárhæð 7.836 krónur en þar af hafi 386 krónur verið vegna dráttarvaxta og annars kostnaðar.

Líkt og áður greinir beindi kærandi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 28. janúar 2019. Meðal fylgiskjala með kvörtuninni voru afrit reikningsyfirlita og greiðslukvittana frá október 2014 sem bera með sér að kærandi hafi greitt upp öll smálán sem hann hafði áður tekið hjá C Í framhaldi af því mun krafan hafa verið felld niður af hálfu F ehf.

Í málsgögnum liggja jafnframt fyrir bréf G, dags. 25. janúar og 9. apríl 2019, sem bera með sér að kærandi hafi verið skráður hjá stofnuninni sem umsækjandi um atvinnu frá 25. september 2018 til og með 31. október sama ár og um atvinnu og atvinnuleysisbætur frá þeim degi til og með 11. febrúar 2019. Þá liggur fyrir læknisvottorð um kæranda, dags. 18. febrúar 2019, en ekki þykir ástæða til að reifa efni þess í máli þessu fyrir nefndinni.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að kærða skuli gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í málatilbúnaði kæranda er því lýst að kærði sé stjórnarmaður hjá F ehf. samkvæmt opinberri skráningu. Er tiltekið í kvörtun að henni sé beint að ætluðum brotum þeirra lögmanna sem komi fram fyrir hönd F ehf. gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Þá sé kvörtuninni einnig beint að því að krafa sem kærði hafi innheimt sé fyrnd samkvæmt lögum nr. 150/207 um fyrningu kröfuréttinda jafnframt því sem kærði kunni að hafa viðhaft refsiverða háttsemi við viðkomandi innheimtustörf, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Varðandi forsögu málsins vísar kærandi til þess að í desembermánuði 2018 hafi honum borist fjöldi smáskilaboða frá smálánafyrirtækinu C sem boðið hafi fram þjónustu sína til viðskiptavina. Kveður kærandi viðkomandi smálánafyrirtæki staðsett í E.

Kærandi vísar til þess að honum hafi þótt nóg um þegar honum hafi borist fjöldi skilaboða á hverjum degi. Hafi hann því sett sig í samband við fyrirtækið og óskað eftir að vera tekinn af símanúmeralista fyrirtækisins þar sem hann kæmi aldrei til með að notfæra sér þjónustu þess. Hafi hann þá fengið þau svör að hann væri enn skráður inn í kerfi fyrirtækisins þar sem að hann hefði tekið smálán hjá því á árinu 2013. Jafnframt því hafi kæranda verið tjáð að ekki væri hægt að verða við beiðni hans þar sem enn væri til staðar krafa á hendur honum frá árinu 2013, þrátt fyrir að hún hefði verið gerð óvirk í kerfum C. Kveðst kæranda einnig hafa verið boðið að krafan yrði gerð virk í kerfum fyrirtækisins þannig að unnt væri að greiða hana. Hafi kærandi ekki fallist á það og mótmælt kröfunni enda hafi hann haft kvittanir fyrir því að allar kröfur sem C hefði átt á hendur honum árið 2013 hefðu verið greiddar upp það sama ár.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kæranda að nokkrum dögum síðar hafi verið búið að stofna kröfu í heimabanka hans í nafni F ehf., sem kærði sé í fyrirsvari fyrir, sem hljóðað hafi upp á 7.836 krónur með eindaga 1. janúar 2019. Hafi kærandi ekki greitt kröfuna vegna áðurgreinds ágreinings um hana, en hún sé nú farin að bera dráttarvexti og hækki samkvæmt því dag frá degi. Samhliða kröfunni hafi verið vísað til „greiðslusamkomulags“ sem kærandi kannist ekki við að hafa gert. Bendir kærandi á að það að mótmæla kröfu eins og gert hafi verið geti á engan hátt talist sem greiðslusamkomulag, líkt og vísað hafi verið til við stofnun kröfunnar af hálfu F ehf.

Um þetta efni bendir kærandi í fyrsta lagi á að hann kannist ekki við að hafa gert greiðslusamkomulag um viðkomandi kröfu enda telji hann sig fyrir löngu hafa verið búinn að gera upp allar skuldir við C. Liggi það raunar fyrir af fyrirliggjandi greiðslukvittunum í málinu frá 2013 þar sem fram kemur að allar kröfur á hendur honum hafi verið greiddar upp.

Kærandi vísar í öðru lagi til þess að fyrir liggi tölvubréfasamskipti kæranda við C þar sem fram komi að kærandi hafi tekið lán hjá fyrirtækinu þann 17. október 2013 og að það hafi verið veitt í 31 dag. Jafnframt komi fram í tölvubréfinu að lánið hafi ekki verið í „virkri innheimtu“ og að óskað sé eftir kvittunum fyrir greiðslu þess. Hafi kærandi borið því fyrir sig að lánið hafi verið greitt upp á árinu 2013 með aðstoð sem hann hafi fengið frá nánar tilgreindum viðskiptabönkum. Þá liggi fyrir að C hafi ekki gert neinn reka að því frá árinu 2013 að innheimta hina meintu kröfu. Jafnframt því hafi kæranda verið tjáð að krafan hefði verið gerð „óvirk“ á árinu 2013. Standi það því C nær að sanna að um gilda kröfu sé að ræða. Auk þess hefði C ekki sent kæranda nokkra innheimtuviðvörun frá árinu 2013, í samræmi við áskilnað 7. gr. laga nr. 95/2008.

Í þriðja lagi kveður kærandi kröfuna fyrnda, sbr. lög nr. 150/2007. Bendir kærandi jafnframt á tómlæti C sem hafi hvorki gert neinn reka að innheimtu kröfunnar frá árinu 2013 né að sýna fram á ætlað gildi hennar gagnvart kæranda.

Kærandi bendir í fjórða lagi á að ekki liggi skýrt fyrir til hvaða þátta krafan taki til, þ.e. hvort um sé að ræða höfuðstól eða vexti af öðrum lánum sem greidd hafi verið upp á árinu 2013. Sé um vexti að ræða vísar kærandi til þess að þeir séu jafnframt fyrndir samkvæmt lögum.

Í fimmta lagi vísar kærandi til þess að f ehf. hafi verið falin innheimta kröfunnar og að það félag sé undir eftirliti H samkvæmt 1. gr. laga nr. 95/2008. Byggir kærandi á að sú háttsemi F ehf., að gera tilraun til innheimtu fyrndrar kröfu, geti ekki samrýmst 6. gr. laga nr. 95/2008 um góða innheimtuhætti. Er í því samhengi á það bent að kæranda hafi hvorki verið tilkynnt um kröfuna né hann upplýstur um hana frekar. Þá hafi honum aldrei verið send innheimtuviðvörun, sbr. 7. gr. laga nr. 95/2008, þrátt fyrir að lánið hefði einungis verið veitt í einn mánuð eða frá 17. október 2013 til 17. nóvember sama árs.

Að endingu kveður kærandi mjög mikilvægt að starfsemi F ehf. verði skoðuð nánar og að fyrirsvarsmenn þess verði eftir atvikum áminntir þar sem um geti verið að ræða brot á 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Telur kærandi að sú háttsemi felist í því að innheimta fyrndar kröfur gegn betri vitund og birta þær í heimabanka meints skuldara fimm árum eftir að til þeirra var stofnað í þeirri von að þær fáist greiddar með tilheyrandi vöxtum. Geti slík háttsemi hæglega fallið undir fyrrgreint ákvæði laga nr. 19/1940. Jafnframt því sé háttsemin verulega ámælisverð og til þess fallin að vera orðspori lögmannastéttarinnar til minnkunar og álitshnekkis. Hafi kærði með háttsemi sinni því jafnframt brotið gegn meginreglum 1. og 2. gr. siðareglna lögmanna sem og 35. gr. siðareglnanna þar sem kveðið sé á um ótilhlýðilegar þvinganir.

Kærandi krefst þess að stjórnarmenn F ehf. verði látnir svara fyrir háttsemi sína og þeim í öllu falli veitt áminning vegna hennar. Kveðst kærandi senda kvörtunina til að fyrirbyggja þarflausa málsókn á hendur honum vegna ólögvarinnar kröfu. Er vísað til þess að hann sé atvinnulaus og hafi engin efni til þess að standa í neinum málaferlum. Þá óskar kærandi eftir að honum verði ekki gert að greiða málskostnað sem hlotist gæti af málinu, þar á meðal í ljósi aðstöðumunar málsaðila.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vísar aðilinn til þess að kvörtuninni sé beint að kærða vegna stöðu hans sem stjórnarmanns hjá F ehf. Þá sé kvörtuninni beint til nefndarinnar þar sem að H hafi lögbundið eftirlitshlutverk með innheimtuaðilum sem ekki séu leyfisskyldir samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008.

Kærandi byggir á að það geti ekki samræmst góðum innheimtuháttum að vísa til þess að F ehf. hafi boðið honum að greiða eða leggja fram kvittun, líkt og kærði haldi fram. Slíkt sé ekki rétt þar sem D hafi lagt fram það boð. Þá hafi F ehf. stofnað kröfuna í heimabanka kæranda þann 17. desember 2018 í nafni félagsins sjálfs. Ekkert liggi hins vegar fyrir um að krafan hafi verið framseld. Hafi svo verið hljóti það að falla undir góða innheimtuhætti að upplýsa skuldara um slíkt þannig að skuldari geti áttað sig á kröfunni og tekið afstöðu til hennar. Þá verði framsalshafi að sýna fram á hvernig hann eignaðist kröfuna þannig að skuldari geti verið viss um að krafan sé rétt og að henni sé réttilega að honum beint.

Vísað er til þess að öllu máli skipti að kröfunni hafi frá öndverðu verið mótmælt af hálfu kæranda, bæði hvað gildi og skýrleika varðar. Hafi það staðið F nær að kanna og sýna fram á af hvaða rót krafan væri sprottin áður en til þess kom að setja hana inn á heimabanka kæranda til greiðslu. Sé það bæði ámælisvert af ætluðum kröfuhafa og F ehf., sem innheimtuaðila, að kanna ekki grundvöll kröfunnar áður en henni var beint inn á heimabanka kæranda, sem ætlaðs skuldara. Þá liggi nú fyrir að ekkert greiðslusamkomulag var gert þrátt fyrir að hinu gagnstæða hafi verið lýst í skýringu kröfunnar á heimabanka kæranda. Byggir kærandi á að þar sem kröfunni hafi verið mótmælt hafi það samrýmst góðum innheimtuháttum hjá F ehf. að kanna grundvöll kröfunnar svo að ekki væri hafin innheimta á haldlausri kröfu líkt og raunin varð.

Varðandi fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vísar kærandi til þess að það geti vart talist eðlilegt að inna skuldara eftir kvittun og stofna samdægurs kröfu á hendur honum. Byggir kærandi á að það hefði samrýmst góðum innheimtuháttum að kalla eftir kvittuninni eins og gert var og skoða málið í framhaldi af því. Það hafi ekki verið gert heldur farið beint í að setja kröfuna í heimabanka kæranda þrátt fyrir mótmæli. Auk þess hafi kærandi þurft að afla gagna vegna greiðslunnar sem tekið hafi marga daga. Vísar kærandi því á bug að hann hafi allan tímann legið á fullnaðarkvittun, líkt og kærði vísi ranglega til. Á meðan hafi krafan verið komin á eindaga í heimabanka og farin að safna á sig vöxtum með tilheyrandi ótta fyrir kæranda.

Kærandi vísar til þess að samskiptaleysi og örðugleikar milli F ehf. og D séu ekki á ábyrgð hans. Þá mótmælir kærandi sérstaklega kröfu kærða um málskostnað vegna málsins fyrir nefndinni. Vísar kærandi jafnframt til þess að það að krafan hafi verið tekin út strax og kærandi hafi sent greiðsluyfirlit frá viðkomandi banka segi í raun alla söguna um að stofnendur kröfunnar hafi ekki verið í góðri trú.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er jafnframt vísað til lögskýringargagna varðandi 6. gr. laga nr. 96/2008 sem og eftirfarandi tilvísunar:

Í 6. gr. innheimtulaga, nr. 95/2008, er kveðið á um að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti og tiltekið að það teljist brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum. Í greinargerð þeirri sem fylgdi lagafrumvarpinu segir að í samskiptum innheimtuaðila og skuldara gildi sú regla að innheimtuaðili eigi ekki að gefa skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem eru mikilvægar fyrir afstöðu hans til kröfunnar. Starfshópurinn telur umrætt lagaákvæði sérstaklega mikilvægt í tengslum við innheimtu smálána þar sem skilmálar þeirra brjóta í bága við ófrávíkjanleg ákvæði laga. Þegar vanskil verða á slíkum lánum eru þau innheimt af innheimtufyrirtækjum sem ber að haga störfum sínum innan ramma innheimtulaganna og sæta eftirliti eftirlitsaðila.

Kærandi telur ljóst að háttsemin sem kvartað sé undan geti vel fallið undir það að vera villandi og ekki í samræmi við góða innheimtuhætti. Verði þá að líta til þess að krafa sem stofnuð sé í heimabanka valdi óþægindum og sé til þess fallin að fólk þori ekki öðru en að greiða. Þannig séu uppfyllt skilyrði um að brotið hafi verið gegn góðum innheimtuháttum.

Kærandi kveður mál þetta varða heildarhagsmuni neytenda en ekki einungis hagsmuni kæranda. Eins og ráða megi af fréttaflutningi séu smálánafyrirtæki og starfsemi þeirra umdeild út frá siðferðislegum sjónarmiðum þar sem markhópur þeirra sé fólk sem sumt hvert sé ekki í aðstöðu til þess að gefa samþykki sitt til lántöku vegna ýmissa vandamála. Jafnframt sé meginþorri viðskiptavina hinna umdeildu fyrirtækja ungt fólk og fólk á miðjum aldri ef marka megi skýrslu atvinnu- og nýsköpunarráðherra um starfsumhverfi smálánafyrirtækja frá janúar 2019.

III.

Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni. Til vara krefst aðilinn þess að kröfum kæranda verði hafnað. Þá er þess krafist að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað fyrir nefndinni.

Kærði vísar í fyrsta lagi til þess að hvorki hafi verið brotið gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 né heldur 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 líkt og kærandi reisi málatilbúnað sinn á. Þá hafi kærði ekki sýnt af sér nokkra þá háttsemi sem kalli á umfjöllun úrskurðarnefndar lögmanna. Er jafnframt vísað til þess að kvörtunarefnið sé afar óskýrt sem kærði telur að varði frávísun kvörtunarinnar frá nefndinni.

Í málatilbúnaði kærða er í öðru lagi vísað til þess að ekkert samkomulag liggi fyrir í málinu enda hafi ekkert greiðslusamkomulag verið gert við kæranda. Er hins vegar á það bent að í tölvubréfasamskiptum kæranda við netfang C hafi komið fram að lán að fjárhæð 7.000 krónur hafi verið tekið í 31 dag þann 17. október 2013. Hafi kærandi í tölvubréfinu verið beðinn um að leggja fram kvittun sem sýnt gæti fram á greiðslu lánsins. Það hafi kærandi ekki gert fyrr en með kvörtun sinni til nefndarinnar. Þegar kvittunin hafi loks komið í ljós hafi krafan verið felld niður. Bendir kærði á að við skráningu kröfunnar í heimabanka kæranda hafi röng skýring fylgt með en þar sem krafan hafi nú verið felld niður hafi það ekki komið að sök fyrir kæranda.

Í þriðja lagi bendir kærði á að F ehf. annist löginnheimtu fyrir D, sem aftur sé rekstraraðili smálánafyrirtækisins C. Hafi F ehf. ekki haft kröfuna til innheimtu á frumstigum hennar og þar með ekki á grundvelli innheimtulaga nr. 95/2008. Kann kærði ekki skýringar á því hvers vegna C hafði kröfuna ekki í virkri innheimtu enda sé slíkt ekki á forræði F ehf. Er jafnframt á það bent að frá stofnun kröfunnar hafi kærandi ekki fengið nein bréf frá F ehf. og að engar innheimtuaðgerðir hafi átt sér stað, aðrar en að reynt hafi verið að ganga frá því við kæranda þegar hann hafi sett sig í samband og þess verið freistað að hann greiddi kröfuna eða legði fram kvittun fyrir greiðslu. Líkt og fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti beri með sér hafi lán verið til staðar og enga greiðslu að finna. Hafi af þeim sökum verið óskað eftir greiðslukvittun frá kæranda. Kveður kærði það í fullu samræmi við góða innheimtuhætti, enda slíkt til þess fallið að ljúka málinu án frekari aðgerða með tilheyrandi kostnaði.

Varðandi meinta fyrningu hinnar ætluðu kröfu vísar kærði í fjórða lagi til þess að kröfur af þessu tagi byggist á peningaláni og fyrnist því á 10 árum samkvæmt 5. gr. laga nr. 150/2007. Um ætlað tómlæti C vísar kærandi jafnframt til þess að F ehf. sé ekki rekstraraðili þess félags og hafi því ekki neitt um kröfur þess að segja umfram það þegar þær koma til innheimtu hjá félaginu. Sé ætlað tómlæti C því ekki á ábyrgð F ehf.

Í fimmta lagi vísar kærði til þess að fram hafi komið í tölvubréfasamskiptum að D hefði í hyggju að stofna kröfu í heimabanka kæranda fyrir 7.450 krónur jafnframt því sem tiltekið hafi verið að lánið hefði verið að þeirri sömu fjárhæð. Hafi það ekki verið á ábyrgð F ehf. hvort innheimtan væri reist á höfuðstól eða vöxtum kröfunnar enda málsforræðið hjá D. Það félag hefði því þurft að sýna fram á uppruna og tilvist kröfunnar með tilliti til höfuðstóls og vaxta. Bendir kærði sem fyrr á að kvittunin, sem kærandi hafi búið yfir, hafi getað leyst málið strax í öndverðu. Sé það á ábyrgð kæranda að hafa ekki lagt hana fram á fyrri stigum.

Kærði hafnar því í sjötta lagi að reynt hafi verið að blekkja kæranda enda kannist hinn síðargreindi bersýnilega við að hafa fengið peningalán frá C. Hafi kærandi verið beðinn um kvittun fyrir greiðslu á láninu en að hún hafi ekki verið lögð fram fyrr en með kvörtun til nefndarinnar. Ljóst sé að krafan hefði verið felld niður og henni eytt úr innheimtu F ehf. um leið og kvittun hefði verið lögð fram líkt og atvik nú beri með sér. Vísar kærði til þess að í stað þess að leysa málið málefnalega hafi kærandi brugðist við með skömmum og svívirðingum, líkt og tölvubréfasamskipti beri með sér. Af því verði ráðið að kærandi hafi engan hug haft á að leysa málið á eðlilegan hátt, heldur hafi hann setið á upplýsingum sem máli skiptu fyrir báða aðila. Þá sé ljóst að F ehf. hafi ekki aðgang að bókum C til að afla kvittunarinnar, enda sé það á ábyrgð skuldara að sanna greiðslu krafna.

Í samræmi við allt framangreint byggir kærði á að innheimtan hafi ekki farið í bága við 6. gr. laga nr. 95/2008, enda hafi það staðið kæranda til boða strax frá öndverðu að ljúka málinu með samkomulagi eða með því að leggja fram kvittun. Jafnframt því hafi í engu verið sýnt fram á með hvaða hætti F ehf. eigi að hafa brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á neitt óeðlilegt í málinu af hálfu kærða eða F ehf.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar kveðst aðilinn gangast við því að H hafi eftirlitshlutverk með lögmönnum enda hafi hann haldið uppi vörnum í málinu. Vísar kærði þó til þess að umkvörtunarefnið þurfi að vera skýrt en því sé ekki fyrir að fara í máli þessu.

Kærði bendir á að engu máli skipti hver hafi boðið kæranda að leggja fram kvittun þar sem slíkt hafi engin áhrif á réttindi hans og skyldur. Aðalatriðið sé að kæranda hafi boðist að leggja fram kvittun, í samræmi við íslenska dómaframkvæmd um að sú skylda hvíli almennt á skuldara að sýna fram á efndir kröfu. Þá hafi grundvöllur kröfunnar ekki verið á ábyrgð viðkomandi innheimtufyrirtækja, heldur aðeins innheimtuaðferðin sem hafi verið í samræmi við lög nr. 95/2008. Hafi krafan verið felld niður þegar sönnun um greiðslu hafði borist.

Kærði hafnar því að nokkrir samskiptaörðugleikar hafi verið á milli F ehf. og D. Þá falli slíkt efni ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar lögmanna ekki frekar en annað sem tengist D. Vísar kærði jafnframt til þess að nefndin geti ekki tekið afstöðu til málsástæðna sem lúta að fyrningu og tómlæti enda sé nefndin ekki dómstóll.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd löganna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst. Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að kvörtunarefnið sé afar óskýrt og að vanreifun málsins af hálfu kæranda varði frávísun þess frá nefndinni.

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur meðal annars að ætluðu broti aðilans, sem lögmanns, gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 sem og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, að því leyti undir valdsvið nefndarinnar. Þá hefur málatilbúnaður kæranda að mati nefndarinnar ekki leitt til þess að kærði hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu með þeim hætti að leitt geti til frávísunar þess frá nefndinni. Eins og atvikum er háttað verður því að telja málið nægilega reifað og upplýst. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

Það athugast þó að það fellur utan við valdsvið nefndarinnar að leggja efnislegt mat á hvort kærði hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og, eins og atvikum er háttað, hvort hin umþrætta krafa hafi verið fyrnd eða hún fallin niður fyrir sakir tómlætis í desembermánuði 2018. Koma málsástæður kæranda um það efni því ekki til úrlausnar í máli þessu.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærandi um ætluð brot kærða meðal annars vísað til 1., 2. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í 2. gr. siðareglnanna er kveðið á um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Þá er í 35. gr. þeirra tiltekið að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en í ákvæðinu er jafnframt nánar skilgreint hvað teljist meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi.

Þá hefur kærandi jafnframt um ætluð brot kærða vísað til 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 um góða innheimtuhætti. Þar segir í 1. mgr. að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti. Þá segir í 2. mgr. að það teljist meðal annars brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008, eins og hún hljóðar eftir gildistöku breytingarlaga nr. 55/2018 þann 22. júní 2018, fer H með eftirlit samkvæmt lögunum og lögum um lögmenn gagnvart lögmönnum, lögmannsstofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa. Í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 55/2018 var eftirfarandi tiltekið við 4. gr. frumvarpsins vegna breytinga á 2. mgr. 15. gr. laganna:

Lögð er til breyting á 2. mgr. 15. gr. laganna en í greininni kemur nú fram að gagnvart lögmönnum fari úrskurðarnefnd lögmanna með eftirlit samkvæmt innheimtulögum og lögum um lögmenn. Lagt er til að vísað verði til H en ekki úrskurðarnefndarinnar enda fer H með almennt eftirlit með innheimtustarfsemi lögmanna en úrskurðarnefnd lögmanna, sem starfar á grundvelli V. kafla laga um lögmenn, nr. 77/1998, tekur til meðferðar ágreiningsmál sem vísað er til hennar. Þannig mun nefndin áfram geta tekið við málum sem varða kvartanir vegna starfa lögmanna á grundvelli innheimtulaga og hefur úrræði til að áminna lögmann, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn, og leggja til við sýslumann að hann verði sviptur lögmannsréttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Um úrræði og eftirlit H er almennt fjallað í 13. gr. laga um lögmenn. 

Í samræmi við efni 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008 og áðurgreindra lögskýringargagna verður að telja að kvörtun kæranda í máli þessu vegna ætlaðra brota kærða gegn 6. gr. laganna sé réttilega beint að nefndinni.

Fyrir liggur samkvæmt málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni að F ehf., sem kærði er í fyrirsvari fyrir, hefur annast innheimtu fyrir lögaðilann D sem mun jafnframt vera rekstraraðili smálánafyrirtækisins C. Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir tölvubréfasamskiptum þeim sem kærandi átti í við C í desembermánuði 2018 vegna ætlaðrar kröfuréttinda félagsins á hendur honum samkvæmt veittu smáláni 17. október 2013 að höfuðstólsfjárhæð 7.000 krónur. Ágreiningslaust er að kærandi mótmælti gildi kröfunnar í þeim samskiptum og kvað hana þegar greidda. Þá liggur fyrir að C óskaði eftir greiðslukvittun frá kæranda sem sýnt gæti fram á greiðslu kröfunnar auk þess sem því var lýst að krafa yrði stofnuð í heimabanka kæranda af hálfu F ehf. sem sæi um að búa til kröfur fyrir C.

Þann sama dag og síðastgreind samskipti áttu sér stað á milli kæranda og C, þ.e. þann 17. desember 2018, var krafa stofnuð í heimabanka kæranda í nafni F ehf. Líkt og áður greinir var krafan sögð með gjalddaga þann 17. desember 2018 en á eindaga þann 1. janúar 2019. Var tiltekið í skýringu kröfunnar að hún væri til komin samkvæmt greiðslusamkomulagi.

Eins og atvikum er háttað verður að mati nefndarinnar að telja aðkoma F ehf. að málinu, í þágu síns umbjóðanda, hafi verið í formi innheimtuaðgerða gagnvart kæranda sem heyrt hafi undir gildissvið laga nr. 95/2008, eins og það er afmarkað í 1. gr. laganna, þótt að þær hafi lotið að stofnun kröfu í heimabanka kæranda en ekki að útsendingu hefðbundinna innheimtuviðvarana og innheimtubréfa samkvæmt lögunum. Eigi viðkomandi innheimtustörf því undir nefndina samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008 og geti samkvæmt því komið til álita að nefndin beiti þeim heimildum sem henni eru faldar í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna kvörtunarinnar, en kærði ber sem lögmaður ábyrgð á störfum F ehf.

Áður er rakið efni 6. gr. laga nr. 95/2008 þar sem kveðið er á um góða innheimtuhætti. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að framangreindum lögum var meðal annars tiltekið að gæti þyrfti góðra innheimtuhátta við sérhverja ráðstöfun eða athöfn sem væri þáttur í innheimtu. Þá gilti sú regla í skiptum innheimtuaðila og skuldara að innheimtuaðili ætti ekki að gefa skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem mikilvægar væru fyrir afstöðu hans til kröfunnar.

Um ætluð brot kærða gegn 6. gr. laga nr. 95/2008 og áðurgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna er þess að gæta að F ehf. stofnaði til fyrrgreindrar kröfu í eigin nafni heimabanka kæranda þann 17. desember 2018 en þá þegar hafði kærandi mótmælt gildi kröfunnar beint gagnvart hinum ætlaða kröfuhafa, þar á meðal á þeim grundvelli að hún væri þegar greidd. Þrátt fyrir mótmæli kæranda var því lýst í skýringu kröfunnar í heimabanka kæranda, sem kærði bar ábyrgð á sem fyrr greinir sem lögmaður og fyrirsvarsmaður innheimtuaðilans, að hún væri til komin vegna greiðslusamkomulags. Verður að telja að þær upplýsingar sem kærandi fékk við móttöku kröfunnar hafi verið verulega villandi að þessu leyti enda mátti ljóst vera af undanfarandi samskiptum hans við hinn ætlaða kröfueiganda að hvorki væri samkomulag um efni og tilvist kröfunnar né, eðli málsins samkvæmt, greiðslu hennar. Þá liggur fyrir að krafan var felld niður af hálfu F ehf. eftir að kærandi hafði beint máli þessu til nefndarinnar og lagt fram gögn um greiðslu kröfunnar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það mat nefndarinnar að háttsemi kærða vegna F ehf. hafi farið að þessu leyti í bága við góða innheimtuhætti gagnvart kæranda, sbr. 6. gr. laga nr. 95/2008. Verður þá til þess að líta að gera verður þá kröfu til lögmanna, sem innheimta kröfuréttindi á grundvelli ætlaðs samkomulags, að þeir hafi áður kynnt sér efni þess eftir því sem kostur er og í öllu falli gengið úr skugga um að samkomulag hafi í reynd verið gert á milli kröfueiganda og skuldara um lúkningu kröfunnar. Af málsgögnum verður ekki ráðið að kærði hafi sinnt slíkri athugun, eftir atvikum með gagnaöflun eða annarri staðfestingu frá umbjóðanda sínum sem hinum ætlaða kröfueiganda. Sú háttsemi kærða að hafa látið það ógert og stofna þess í stað til kröfu á hendur kæranda í heimabanka hans með vísun í samkomulag, sem aldrei hafði komist á, var villandi og til þess fallin að valda kæranda óþægindum. Fór háttsemi kærða því gegn góðum innheimtuháttum og telst hún aðfinnsluverð að mati nefndarinnar. Eins og atvikum er háttað verður hins vegar ekki talið að í háttsemi kærða hafi falist brot gegn 1., 2. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að stofna til kröfu í nafni F ehf. í heimabanka kæranda, A, þann 17. desember 2018 með þeirri skýringu að greiðslusamkomulag hafi komist á, án þess að slíkt ætti við rök að styðjast og án þess að kærði hafi gengið úr skugga um að samkomulag hefði í reynd komist á, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður.

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson