Mál 12 2020

Mál 12/2020

Ár 2020, fimmtudaginn 8. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2020:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. maí 2020 erindi kæranda, A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærða, B lögmaður, hafi brotið gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna í störfum sínum, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 8. maí og 8. júní 2020 og barst hún þann 25. hinn síðargreinda mánuð. Var kæranda send greinargerð hennar til athugasemda með bréfi dags. 30. júní 2020. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 16. júlí 2020 og voru þær sendar til kærðu með bréfi dags. 13. ágúst sama ár. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að kærða gætir hagsmuna móður, sem stefnanda, en kærandi hagsmuna föður, sem stefnda, í forsjármáli sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt málsgögnum var málið þingfest í héraðsdómi þann x. mars 20xx en samkvæmt stefnu krefst stefnandi þess að henni verði einni falið að fara með forsjá barna viðkomandi málsaðila og að stefnda verði gert að greiða meðlag til framfærslu barnanna. Stefndi krafðist þess hins vegar í greinargerð sinni í héraði að kröfum stefnandi yrði hafnað, að stefndi færi einn með forsjá barnanna og að lögheimili þeirra yrði hjá honum auk þess sem gerð var krafa um meðlag úr hendi stefnanda.

Ágreiningslaust er að sáttaumleitanir höfðu farið fram á milli lögmanna aðila, þ.e. kæranda og kærðu, áður en til málshöfðunar kom. Liggur þannig fyrir að kærandi hafði afhent kærðu drög að hjónaskilnaðarsamningi (e. Divorce Agreement) á milli viðkomandi umbjóðenda sem tók meðal annars til þess hvernig forsjá og skiptingu eigna skyldi háttað. Varðandi forsjá barnanna var tiltekið í samningsdrögunum að hún skyldi vera sameiginleg á milli foreldra en að annað barna skyldi hafa lögheimili hjá móður og hitt hjá föður.

Meðal málsgagna er jafnframt að finna tölvubréfasamskipti sem kærandi og kærðu áttu með sér vegna málsins dagana 28. febrúar og 4. mars 20xx en þau báru yfirskriftina „Tillaga að hjónaskilnaðarsamkomulagi“. Kom þar meðal annars fram af hálfu kæranda í tölvubréfi hinn fyrrgreinda dag að umbjóðandi hans myndi ekki samþykkja neitt nema umbjóðandi kærðu væri með lögheimili annars barnsins en umbjóðandi kæranda hins. Ítrekaði kærandi þá afstöðu umbjóðanda síns í tölvubréfi til kærðu þann x. mars 20xx, þ.e. að lögheimilið væri lykilatriði og að það væri forsenda fyrir því að unnt væri að hefja samningaviðræður um önnur atriði. Í svari kærðu þennan sama dag kom fram að umbjóðandi hennar gerði kröfu um lögheimili beggja barna og að ef ekki næðist samkomulag þar um yrði höfðað forsjármál.

Fyrir liggur að kærða lagði fram fyrir hönd síns umbjóðanda fyrrgreind drög að hjónaskilnaðarsamningi og tölvubréfasamskipti lögmanna við þingfestingu málsins í héraði þann x. mars 20xx. Í skjalaskrá sem kærða undirritaði og lagði fram við þingfestingu málsins voru samningsdrögin tilgreind sem „Tillaga stefnda að hjónaskilnaðarskilmálum, ódagsett“ en tölvubréfasamskiptin sem „Samskipti lögmanna með t-pósti.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærða hafi brotið gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna með framlagningu tilgreindra skjala við þingfestingu málsins í héraði. Fyrir nefndinni hefur kærða borið því við að viðkomandi sáttatillögur njóti ekki verndar greinarinnar þar sem þær hafi verið settar fram gegn betri vitund auk þess sem þær beri þess vott að reynt hafi verið að skjóta eignum undan búskiptum. Hefur kærða um hið síðastgreinda lagt fyrir nefndina veðbókarvottorð vegna fasteignarinnar að T 2 þar sem fram kemur að eigandi hennar sé T 2 ehf. Þá hefur kærða jafnframt lagt fram ársreikning T 2 ehf. vegna ársins 2018 þar sem fram kemur að umbjóðandi kæranda sé eigandi tilgreinds einkahlutafélags, en það hafi ekki verið á meðal eigna sem taldar hafi verið upp í drögum að hjónaskilnaðarsamningi sem komið hafi frá umbjóðanda kæranda fyrir málshöfðun.

Kærandi sendi tölvubréf til kærðu þann x. apríl 20xx vegna hinnar umþrættu gagnaframlagningar fyrir dómi. Óskaði kærandi þar eftir afstöðu kærðu til málsins en kvaðst að öðrum kosti leita til úrskurðarnefndar lögmanna með málið. Í svari kærðu þennan sama kom fram að ef kærandi væri ósáttur við framlagningu gagnanna gæti hann andmælt því í greinargerð fyrir dómi „og krafist frávísunar á því skjali.“ Þá gæti kærandi einnig borið málið undir nefndina, væri vilji til þess. Í frekari svörum kæranda kom fram að hann vildi síður gera það en að sáttaviðræður milli aðila ættu að fara fram í trúnaði og óheimilt væri að leggja slík skjöl fyrir dómi nema með leyfi gagnaðila.

Ekki verður séð af málsgögnum að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins en eins og áður greinir var kvörtun í málinu móttekin þann 7. maí 2020.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærðu verði ákvörðuð hæfileg viðurlög vegna brota hennar gegn siðareglum lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hann gæti hagsmuna manns sem stefnt hafi verið í forsjármáli en það mál sé nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Er vísað til þess að við þingfestingu málsins þann 17. mars 2020 hafi lögmaður stefnanda, kærða í þessu máli, lagt fram tvö skjöl sem falið hafi í sér sáttatillögur umbjóðanda kæranda áður en málinu hafi verið stefnt fyrir dóm. Hafi samþykkis gagnaðila ekki verið aflað fyrir þeirri framlagningu. Lúti kvörtun að tveimur brotum á 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna þar sem fram kemur að lögmanni sé óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

Kærandi bendir á að í öðru tilvikinu hafi kærða lagt fram dómskjal með yfirskriftinni „Divorce Agreement“ en skjalið hafi verið titlað í skjalaskrá stefnanda sem „Tillaga stefnda að hjónaskilnaðarskilmálum, ódagsett“. Vísar kærandi til þess að þar hafi verið um að ræða drög sem fyrri lögmaður mannsins hafi útbúið og lagt hafi verið fyrir konuna á haustmánuðum 2019 sem tillaga að sáttum um forsjá, lögheimili, umgengni og meðlag auk fjárskipta. Þá hafi kærandi afhent kærðu skjalið á fundi fyrir málshöfðun, sem hluti af sáttaviðræðum.

Varðandi hitt tilvikið vísar kærandi til þess að um hafi verið að ræða tölvubréfasamskipti milli lögmanna aðila, þ.e. kæranda og kærðu, þar sem fram hafi komið sáttatillögur af hálfu kæranda, sbr. ummæli um að maðurinn væri tilbúinn til sáttaviðræðna um önnur atriði forsjármálsins ef fallist yrði á að annað barn aðila yrði með lögheimili hjá manninum en hitt hjá móður. Ýtrustu kröfur beggja aðila hafi hins vegar verið þær að fara með lögheimili beggja barna, sbr. fyrirliggjandi kröfur í því dómsmáli sem nú sé rekið. Með tölvubréfinu hafi kærandi því verið að leitta sátta með því að víkja frá ýtrustu kröfum umbjóðanda síns í því trausti að þau samskipti færu fram í fullum trúnaði, líkt og 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna geri ráð fyrir.

Kærandi byggir á að slík gagnaframlagning brjóti alvarlega á því trúnaðartrausti sem ríkja ber á milli lögmanna og aðila í sáttaviðræðum. Ef slíkt væri leyft væri líklegt að aðilar dómsmáls yrðu tregir til að leggja fram skriflegar sáttatillögur, þar sem gefið er eftir frá ýtrustu kröfum, því að ávallt þyrfti þá að óttast að slík eftirgjöf kæmi fyrir sjónir þess dómara sem síðar myndi leysa úr ágreiningnum. Sé slíkt brot á trúnaði sérstaklega ámælisvert í forsjármáli, þar sem hagmsunir barna krefjast þess gjarnan að foreldrar gefi mjög eftir frá sínum ýtrustu kröfum og semji um frið í sínum deilum, enda sé rík áhersla lögð á sættir í allri meðferð slíkra mála.

Samkvæmt því fer kærandi fram á að nefndin ákvarði kærðu hæfileg viðurlög í málinu, en kærandi kveðst leggjast gegn því að þau verði þung þar sem væntanlega hafi verið um hreina yfirsjón kærðu að ræða.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að málflutningi hans sé ekki mótmælt um að bæði þau dómskjöl sem kvörtun taki til hafi falið í sér sáttatillögur samkvæmt 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Þrátt fyrir það beri kærða því við á furðulegan hátt að þær hafi annars vegar falið í sér tilraun stefnda til að nýta sér „yfirburðarstöðu“ í deilum við stefnanda málsins sem þátt í andlegu ofbeldi og hins vegar að þar sem sáttatillaga hafi verið sett fram gegn „betri vitund“ njóti hún ekki verndar 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna. Kveðst kærandi hafna þeim málatilbúnaði með öllu.

Vísar kærandi um þetta efni í fyrsta lagi til þess að kærða hafi lagt fram umrædd skjöl í forsjármáli, en ekki máli sem varði fjárskipti viðkomandi umbjóðenda. Eigi rök kærðu sem varða meinta tilraun til að „skjóta eignum undan búskiptum“ því ekkert erindi í málið. En jafnvel þótt dómsmálið varðaði fjárskipti hefði kærðu engan veginn verið heimilt að leggja sáttatillögurnar fram án leyfis gagnaðila.

Í öðru lagi mótmælir kærandi öllum aðdróttunum um að umbjóðandi hans hafi reynt að koma eignum undan búskiptum með því að afhenda kærðu og umbjóðanda hennar umrædd drög að hjónaskilnaðarskilmálum. Bendir kærandi á að úr fjárskiptunum verði ekki leyst fyrir nefndinni heldur í máli sem rekið yrði um þau fyrir dómstólum.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að í drögum að hjónaskilnaðarskilmálum sé einnig að finna sáttatillögur umbjóðanda hans hvað varðar forsjá og lögheimili barnanna. Hér sé um að ræða sáttatillögur sem kærða hafi rofið trúnað um með framlagningu skjalsins fyrir dómi. Byggir kærandi á að sá trúnaðarbrestur hafi verið til þess fallinn að rýra málatilbúnað umbjóðanda hans, sem gert hafi ríkari kröfur fyrir dómi.

Í fjórða lagi vísar kærandi til þess að ekki fáist séð hvað hugleiðingar kærðu varðandi sáttameðferð aðila í málinu komi kvörtun málsins við. Hafi umbjóðandi kærðu notið lögmannsaðstoðar við sáttameðferðina og því ekki um neinn aðstöðumun að ræða. Þá hafi það venjulega ekki verið talin ein af starfsskyldum lögmanna að útvega gagnaðila umbjóðanda dómskjöl til framlagningar á kostnað eða áhættu umbjóðandans, eins og kærða virðist ætla.

Að endingu bendir kærandi á að engar varnir komi fram í málatilbúnaði kærðu sem réttlæti framlagningu sáttatillagna kæranda í dómsmálinu sem hafi að geyma tölvubréfasamskipti aðila. Varði þær sáttatillögur lögheimili barnanna, sbr. ummæli um að maðurinn væri tilbúinn til sáttaviðræðna um önnur atriði forsjármálsins ef fallist væri á að annað barn aðila yrði með lögheimili hjá honum.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærðu fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærða vísar til þess að ágreiningslaust sé að sáttatillögur kæranda fyrir hönd umbjóðanda síns og stefnda í forsjármálinu nr. E-x verið lagðar fram í dómsmálinu. Kærða byggir hins vegar á að sáttatillögur kæranda fyrir hönd umbjóðanda njóti ekki verndar 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Beri tillagan þess vott að reynt hafi verið að skjóta eignum undan búskiptum og að hún hafi verið sett fram gegn betri vitund. Vísar kærða til þess að sáttatillagan hafi borist umbjóðanda hennar áður en hún hafi komið að málinu en að tillagan hafi verið endursend óbreytt síðar til kærðu.

Kærða vísar til 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem fram kemur að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Sé sú skylda áréttuð í 1. gr. siðareglna lögmanna þar sem fram kemur að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti. Leiði slíkt hið sama af 8. gr. siðareglnanna þar sem fram kemur að í samræmi við meginreglu 1. gr. beri lögmanni að leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Þá beri honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna eða persónulegra skoðana sinna.

Kærða lýsir því mati sínu að nauðsynlegt hafi verið með vísan til 18. gr. laga nr. 77/1998 og 8. gr. siðareglna lögmanna að leggja fram tillögur gagnaðila í hjónaskilnaðarmáli í þeim tilgangi að sýna fram á hversu stefndi, umbjóðandi kæranda, hefði nýtt sér yfirburðarstöðu sína í deilum við stefnanda, umbjóðanda kærðu. Lúti deilan að hjónaskilnaðarsamningi sem snúi að fyrirkomulagi forsjár tveggja ungra barna og eignaskipta.

Um efnislegar ástæður þess að sáttatillagan hafi verið lög fram í forsjárþætti málsins vísar kærða til þess að umbjóðandi hennar sé kona af erlendum uppruna sem tali lítið sem ekkert í íslensku og þekki hvorki til íslenskra laga né stjórnsýslu. Í málinu byggi hún kröfu sína meðal annars á því að gagnaðili hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi meðan á hjúskap þeirra stóð og hafi hún þrisvar leitað skjóls í Kvennaathvarfinu vegna ofbeldis af hálfu stefnda, en ofbeldi í nánum samböndum hafi áhrif á foreldrahæfi. Í samskiptum lögmanna fyrir málshöfðun hafi komið í ljós að gagnaðili myndi snúa vörn sinni í sókn með því að byggja málatilbúnað sinn á því að hann hefði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu umbjóðanda kærðu með því að leggja fram vídeóupptökur af samskiptum þeirra.

Kærða bendir á að stefndi, sem sé 185 cm á hæð og yfir 100 kíló að þyngd, hafi gefið sér tíma til að taka samskipti aðila upp á vídeó og lagt upptökuna fram í málinu til að sanna hið meinta ofbeldi af hálfu umbjóðanda kærðu, sem sé 152 cm og 60 kíló. Hafi það verið mat kærðu, sem séð hafi að gagnaðili myndi byggja málatilbúnað sinn á röngum sakargiftum, að nauðsynlegt væri að leggja allt það fram í málinu sem styddi þá málsásætðu hennar að gagnaðilinn hefði ekki hikað við í hjúskap þeirra að neyta aðstöðu- og þekkingarmunar við samning um hjónaskilnaðarkjör, meðal annars með því að halda með ólögmætum hætti eignum búsins utan skipta. Telja verði að beiting aflsmunar í nánum samskiptum til að ná sínu fram sé ein tegund andlegs ofbeldis en nauðsynlegt sé með vísan til reglna íslensks réttar um sönnun og sönnunarbyrði að leggja allt það fram sem stutt geti kröfur umbjóðanda kærðu.

Kærða kveðst einnig hafa lagt fram tölvubréfasamskipti lögmanna sem sýnt hafi að lögmaður stefnda, kærandi í máli þessu, hafi talið sér óskylt að afhenda umbjóðanda kærðu sáttavottorð sem gefið hafi verið út af sálfræðingi og hafi verið forsenda fyrir málshöfðun. Af framburði umbjóðanda kærðu megi ráða að gagnaðilinn hafi lagt til við hana að þau leituðu aðstoðar sjálfstætt starfandi sálfræðings til að komast hjá langri bið hjá sýslumanni og það hafi hún samþykkt. Við lok sáttameðferðar hafi kærandi neitað fyrir hönd síns umbjóðanda að afhenda vottorðið þar sem hann hafi viljað hafa forræði á því hvort hann yrði til sóknar eða varnar í málinu. Á síðari stigum hafi gagnaðilinn borið fyrir sig eignarétti á vottorðinu þar sem hann hefði greitt fyrir það sjálfur. Þegar umbjóðandi kærðu hafi boðist til að greiða það í kjölfar endanlegra fjárskipta hafi kærandi hins vegar borið því við að umbjóðandi hans vildi ekki lána umbjóðanda kærðu fjármuni. Að endingu hafi viðkomandi sálfræðingur afhent vottorðið. Vísar kærða jafnframt til þess að umbjóðandi hennar hafi ekki gert sér grein fyrir muninum á lögbundinni sáttameðferð hjá sýslumanni, sem sé endurgjaldslaus, og sáttameðferð hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum.

Í samræmi við allt framangreint vísar kærða til þess að hún hafi talið sér skylt að leggja fram hina umþrættu sáttatillögu gagnaðila fram í málinu enda hafi hún verið sett fram gegn betri vitund og njóti því ekki verndar 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Þá sé ljóst að aldrei hefði fengist samþykki fyrir framlagningu viðkomandi gagna.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í III. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um samskipti lögmanna og dómstóla. Kemur þar fram í 2. mgr. 21. gr. að lögmanni sé óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærða hafi í störfum sínum brotið gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna með því að hafa lagt fram í dómi sáttatillögur sem kærandi hafði látið henni í té utan réttar án samþykkis kæranda og/eða umbjóðanda hans.

Fyrir liggur að málsaðilar áttu í sáttaumleitunum sem lögmenn fyrir hönd sinna umbjóðenda vegna krafna þeirra í tengslum við fjárskipti við hjónaskilnað, forsjá og lögheimili barna þeirra og tengd atriði. Er gerð grein fyrir tilgreindum sáttaumleitunum, sem áttu sér stað fyrir málshöfðun og voru því utan réttar í skilningi 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna, í málsatvikalýsingu að framan.

Í málsatvikalýsingu að framan er meðal annars rakið að kærandi afhenti kærðu drög að hjónaskilnaðarsamningi á milli umbjóðenda málsaðila sem tók meðal annars til þess hvernig forsjá og skiptingu eigna skyldi háttað. Þá liggur fyrir að kærandi upplýsti kærðu um í tölvubréfi dagana x. febrúar og x. mars 20xx að umbjóðandi hans myndi ekki samþykkja neitt nema umbjóðandi kærðu væri með lögheimili annars barnsins en umbjóðandi kæranda hins og að slíkt væri forsenda fyrir því að unnt væri að hefja samningaviðræður um önnur atriði.

Fyrir liggur að kærða lagði fram fyrir hönd síns umbjóðanda fyrrgreind drög að hjónaskilnaðarsamningi og tölvubréfasamskipti lögmanna við þingfestingu málsins í héraði þann x. mars 20xx. Í skjalaskrá sem kærða undirritaði voru samningsdrögin tilgreind sem „Tillaga stefnda að hjónaskilnaðarskilmálum, ódagsett“ en tölvubréfasamskiptin sem „Samskipti lögmanna með t-pósti, dags x.

Að mati nefndarinnar er ótvírætt af efni fyrirliggjandi gagna að í þeim fólust sáttatillögur kæranda fyrir hönd síns umbjóðanda í skilningi 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna, en að áliti nefndarinnar verður málatilbúnaður kærðu fyrir nefndinni ekki skilinn á annan hátt en að hún sé því sammála.

Kærða hefur hins vegar borið því við fyrir nefndinni að sáttatillögur kæranda fyrir hönd umbjóðanda hafi ekki notið verndar 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna enda hafi þær verið settar fram gegn betri vitund auk þess sem þær hafi falið í sér tilraun umbjóðanda kæranda til að skjóta eignum undan búskiptum. Á tilgreindar málsástæður kærðu getur nefndin ekki fallist. Er þá til þess að líta að 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna er ótvíræð um það efni sem hún tekur til, þ.e. lögmanni er óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans. Fyrir liggur að kærða móttók umræddar sáttatillögur frá gagnaðila umbjóðanda síns og hafnaði þeim, svo sem ráðið verður af síðari málshöfðun vegna ágreiningsins. Að áliti nefndarinnar geta engin þau sjónarmið sem reifuð eru í málatilbúnaði kærðu fyrir nefndinni réttlætt framlagningu sáttatillagna gagnaðila umbjóðanda hennar fyrir dómi, án samþykkis, með þeim hætti sem gert var.

Vegna tilvísunar kærðu til þess að hún hafi lagt hin umþrættu skjöl fram í dómi sem lið í hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda síns, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 og 8. gr. siðareglna lögmanna, er þess jafnframt að gæta að skoða verður skyldu lögmanna til að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda í samhengi við aðrar skyldur sem á lögmenn eru lagðar í lögum og siðareglum lögmanna, sbr. í þessu tilviki 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna. Með því að hafna þeim sáttatillögum sem kærandi hafði komið á framfæri og höfða þess í stað mál fyrir hönd síns umbjóðanda á hendur umbjóðanda kæranda neytti kærða lögmætra úrræða í hagsmunagæslunni að mati nefndarinnar. Á hinn bóginn hefur á engan hátt verið leitt í ljós í málinu af hálfu kærðu að lögbundin nauðsyn hafi staðið til að leggja fram viðkomandi sáttatillögur gagnaðila við þingfestingu málsins sem lið í hagsmunagæslunni.

Í samræmi við það sem hér hefur verið reifað eru engin efni til annars en að telja en að þær sáttatillögur kæranda sem hér um ræðir hafi notið verndar 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Þrátt fyrir það kaus kærða að leggja sáttatillögurnar fram í dómi án þess að samþykki kæranda eða umbjóðanda hans lægi fyrir. Hefur kærða raunar um það efni vísað til þess að legið hafi ljóst fyrir að aldrei fengist samþykki fyrir framlagningu viðkomandi gagna fyrir dómi.

Með háttsemi sinni braut kærða gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar var brot kærðu alvarlegt enda mælir greinin fyrir um grundvallarskyldu sem hvílir á lögmönnum í innbyrðis samskiptum þeirra. Verður þá að líta til mikilvægis þess að  lögmenn geti átt í milliliðalausum sáttaumleitunum utan réttar í þágu sinna umbjóðenda, í því skyni að freista þess að leysa ágreining sem kann að vera uppi með samkomulagi án aðkomu dómstóla, og að traust geti ríkt á milli lögmanna í slíkum samskiptum, þar á meðal um að sáttatillögur gagnaðila sem þar komi fram verði ekki lagðar fram í dómsmáli nema með samþykki þess er tillöguna hefur lagt fram. Með framlagningu sáttatillagnanna í dómi braut kærða með grófum hætti gegn þeirri trúnaðarskyldu sem verður að geta ríkt á milli lögmanna vegns sáttaumleitana utan réttar í þágu umbjóðenda.

Að mati nefndarinnar var sú háttsemi sem kærða viðhafði í lögmannsstörfum sínum og hér hefur verið lýst verulega ámælisverð og ósamboðin lögmannastéttinni. Við mat á beitingu viðurlaga í málinu er einnig til þess að líta að háttsemi kærðu var viðhöfð í hagsmunagæslu fyrir dómi í forsjármáli, en ekki verður litið framhjá eðli slíkra mála, þar sem lögmenn þurfa jafnan að gæta hagsmuna vegna persónulegra og viðkvæmra málefna málsaðila og barna þeirra. Var framlagning kærðu á sáttatillögum gagnaðila umbjóðanda hennar, sem átt höfðu sér stað utan réttar, fyrir dómi sérstaklega ámælisverð í því ljósi. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að veita kærðu áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B lögmaður, sætir áminningu.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson