Mál 15 2020

Mál 15/2020

Ár 2020, mánudaginn 21. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2020:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. júlí 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar lögmanna til kæranda, dags. 12. ágúst 2020, var óskað eftir nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum frá kæranda á grundvelli 2. mgr. 9. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Kærandi svaraði því erindi með bréfi, dags. 26. ágúst 2020, jafnframt því sem hann lagði frekari gögn fyrir nefndina.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 9. september 2020 og barst hún þann 28. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 5. október 2020. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust til nefndarinnar þann 26. október 2020 og voru þær kynntar kærða með bréfi þann sama dag. Ekki bárust frekari athugasemdir af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að kærandi og sambýliskona hans festu kaup á fasteigninni að C með kaupsamningi, dags. x. september 2018. Mun kærði hafa annast skjalagerð í tengslum við söluna en upplýst hefur verið fyrir nefndinni að hann hafi komið áður að hagsmunagæslu í þágu seljandans jafnframt því sem fasteignin fór ekki í sölumeðferð á almennum markaði. Var tiltekið í kaupsamningnum að hvor kaupandi færi með 50% eignarhlut í fasteigninni. Þá liggur fyrir að afsal vegna viðskiptanna var gefið út þann x. október 2018 og það innfært í þinglýsingabók þann x. sama mánaðar.

Ágreiningslaust er að kærandi og sambýliskona hans slitu samvistum í marsmánuði 2019. Reis þá upp ágreiningur á milli tilgreindra aðila um hvernig fjárslitum þeirra skyldi háttað, þar á meðal vegna fyrrgreindrar fasteignar þeirra að C. Mun konan þá hafa leitað til kærða með beiðni um hagsmunagæslu vegna fjárslitanna sem kærði samþykkti að annast.

Af málsgögnum verður ráðið að kærði hafi kynnt kæranda að hann færi með mál konunnar þann 22. mars 2019. Af þeim sökum óskaði kærandi eftir lögmannsumboði frá kærða vegna málsins í tölvubréfum dagana 24. og 29. mars 2019. Í svari kærða þann 30. sama mánaðar kom fram að boð hans um að hitta kæranda til að leita samkomulags um fjárslitin væri áréttað og að kærandi skyldi hafa með sér traustan aðila, t.d. föður eða lögmann, ef kærandi teldi styrk í því. Þá tiltók kærði að hann vildi kæranda ekkert illt og að engin efni væru til að efast um heimildir kærða til viðræðna um málið. Kærandi svaraði tilgreindu erindi samdægurs og kvaðst ekki efast um heimildir kærða til að óska eftir fundi. Hins vegar kvaðst kærandi efast stórlega um hæfi kærða til starfa fyrir konuna, sérstaklega ef til málshöfðunar kæmi, enda óeðlilegt að lögmaður annars aðilans væri leiddur sem vitni í slíku máli. Þá tiltók kærandi meðal annars að hann hefði í hyggju að leita til úrskurðarnefndar lögmanna um leið og umbeðið umboð bærist vegna mögulegs vanhæfis kærða í málinu.

Sáttaumleitanir vegna ágreiningsefnisins munu hafa reynst árangurslausar en um það efni liggja meðal annars fyrir í málsgögnum tölvubréfasamskipti kærða og lögmanns kæranda á tímabilinu frá 26. apríl til 5. júní 2019. Beindi kærði því, fyrir hönd umbjóðanda síns, kröfu um opinber skipti til Héraðsdóms í aprílmánuði 2019 þar sem málið mun hafa verið þingfest sem málið nr. Q-x/20xx. Undir rekstri þess máls, nánar tiltekið á dómþingi sem haldið var þann x. júní 20xx, lagði kærði fram fyrir hönd umbjóðanda síns afrit af ódagsettri ferilskrá kæranda en fram hefur komið af hálfu kærða fyrir nefndinni að það hafi verið gert í því skyni að undirbyggja sönnun fyrir lengd sambúðartíma í ljósi mótmæla og málatilbúnaðar kæranda. Kærandi hefur hins vegar vísað til þess að skráin hafi verið fengin með ólögmætum hætti og hafi kærða því verið óheimilt að leggja hana fram í dómi. Þá liggur fyrir að í næsta þinghaldi, þann x. júlí 20xx, voru lagðar fram af hálfu kæranda sjálfs tvær aðrar ferilskrár vegna starfsumsókna aðilans.

Upplýst hefur verið að kærandi hafi fallið frá andmælum við framgangi opinberra skipta í þinghaldi málsins nr. Q-x/20xx þann x. júlí 20xx. Mun skiptastjóri hafa verið skipaður af hálfu dómsins þann sama dag.

Undir hinum opinberu skiptum til fjárslita mun hafa risið ágreiningur á milli kæranda og umbjóðanda kærða um eignarhald fasteignarinnar að C. Mun skiptastjóri hafa vísað deilu um það efni til úrlausnar héraðsdóms þar sem málið hlaut númerið Q-xxxx/20xx við þingfestingu þess þann x. október 20xx. Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna greinargerðir aðila í málinu sem lagðar voru fram x. október og x. nóvember 20xx. Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að dómkvaddur hafi verið matsmaður undir rekstri málsins, nánar tiltekið þann x. desember 20xx. Fyrir boðaðan matsfund þann x. febrúar 20xx mun matsmaðurinn hins vegar hafa sagt sig frá matsstörfum með tilkynningu til dómsins vegna tengsla við samstarfsmann kærða. Matsmanninum mun hins vegar hafa láðst að tilkynna kæranda og lögmanni hans um það efni fyrir matsfundinn.

Ágreiningur í málinu lýtur að háttsemi kærða í hagsmunagæslu í þágu gagnaðila kæranda við rekstur framangreindra mála, svo sem nánar er lýst í yfirferð yfir málatilbúnað aðila fyrir nefndinni.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun er vísað til þess að kærandi og fyrrum sambýliskona hans hafi keypt fasteignina að C á haustmánuðum 2018. Hafi hinn kærði lögmaður séð um söluna fyrir seljanda. Við sambúðarslit kæranda og sambýliskonunnar í febrúar 2019 hafi kærði hins vegar gerst lögmaður konunnar í opinberum skiptum sem fram hafi farið til fjárslita aðila. Hafi kærði þannig tekið að sér hagsmunagæslu í þágu gagnaðila kæranda í málum sem rekin hafi verið fyrir dómstólum, sbr. héraðsdómsmálin nr. Q-x/20xx og Q-xxx/20xx sem enn sé rekið. Geti það ekki samrýmst hefðum og reglum.

Kærandi vísar til þess að við fyrrgreinda sölu fasteignarinnar að C hafi kærði unnið fyrir bæði kaupendur og seljendur, enda skylt að lögum að gæta hagsmuna beggja aðila. Hafi kærði þekkt til seljandans sem lagt hafi traust sitt á kærða til að sinna sölunni. Við kaupin hafi kærði vitað hvernig kærandi og þáverandi sambýliskona hygðust skipta með sér fasteigninni, þ.e. í eignarhlutföllunum 50/50, enda hefðu viss sjónarmið legið þar að baki. Hafi kærði útbúið skjölin með það að leiðarljósi, líkt og fyrirliggjandi kaupsamningur og afsal bera með sér.

Kærandi vísar til þess að við sambúðarslit hafi fyrrum sambýliskona hans krafist þess að við skipti eignarinnar yrði ekki farið samkvæmt þinglýstum skjölum heldur skyldi meirihluti fasteignarinnar falla í hennar hlut. Hafi konan leitað til kærða með beiðni um hagsmunagæslu vegna þess máls. Hafi kærði tekið að sér málið og farið fram á opinber skipti til fjárslita.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að samskipti hans við kærða hafi ekki verið sem lögmanni sæmir. Hafi kærði talað í hringi í málatilbúnaði sínum og gefið í skyn að upphaf málsins hafi verið annað en í reynd hafi verið. Þá hafi kærði að öðru leyti sýnt af sér slíka háttsemi að kærandi sé nú nauðbeygður til að kvarta undan háttsemi hans til nefndarinnar enda kærði verið óheiðarlegur frá upphafi málsins.

Kærandi bendir á að kærði hafi samþykkt viss atriði við lögmann sinn en ekki svo kannast við það efni þegar fyrir dóm hafi verið komið. Jafnframt því hafi kærði gert lítið úr atriðum og göllum sem máli hafi skipt gagnvart fasteignasala við verðmat fasteignarinnar að C. Hafi þar verið um að ræða atriði sem framtíðar kaupendur fasteignarinnar hefðu átt heimtingu á að vita af. Þá hafi kærði frá upphafi málsins dregið úr verðmæti þeirrar vinnu sem kærandi og fjölskylda hafi lagt til við húsið, auk þess sem ekki hafi verið staðið við loforð um endurgreiðslu vegna vinnu og efnis því tengdu.

Vísað er til þess að undir rekstri hins síðara dómsmáls hafi kærandi óskað eftir dómkvöddum matsmanni til að leggja mat á verðmæti þeirrar vinnu sem faðir kæranda hafi lagt til. Hafi D, húsasmíðameistari, verði dómkvaddur til starfans í desembermánuði 2019 án athugasemda af hálfu málsaðila og lögmanna þeirra, þar á meðal kærða. Kærandi lýsir því að hvorki matsmaður né kærði hafi mætt á boðaðan matsfund. Eftir fyrirspurnir kæranda og lögmanns hans hafi komið fram af hálfu matsmannsins að hann þyrfti að lýsa yfir vanhæfi í málinu vegna tengsla við bróður kærða.

Kærandi bendir á að kærði hafi gengið svo langt að leggja fyrir dóm ferilskrá kæranda sem umbjóðandi kærða hafi fengið með ólöglegum leiðum, þ.e. með því að brjótast inn á netfang kæranda og afrita þaðan viðkomandi gögn.

Einnig er vísað til þess að kærði hafi sent mann á skrifstofu lögmanns kæranda með hótanir um að kærandi og faðir hans skyldu kaupa viðkomandi fasteign sjálfir, annars hlytu þeirra verra af. Sé um að ræða dæmdan brotamann sem hafi auk þess setið fund aðila og lögmanna þeirra um málið skömmu síðar, en sá fundur mun hafa farið fram í lok maímánaðar 2019. Gefi auga leið að kærði hafi vitað nákvæmlega hvað hann var að gera. Kveðst kærandi hins vegar ekki hafa látið undan umræddum hótunum en tilkynnt hafi verið um atvikið til lögreglu.

Kærandi byggir á að kærði hafi sýnt af sér slíka hegðun að siðareglur lögmanna séu brotnar sem og lög nr. 77/1998 um lögmenn. Hafi kærði með hegðun sinni sýnt fram á að ekki verði hægt að boða hann sem vitni fyrir dóm, en kærði hafi meðal annars vitneskju um hvernig skipti við fjárslit á milli aðila hafi átt að vera.

Í viðbótarathugasemdum kæranda í málinu er vísað til þess að ljóst sé af framlögðum gögnum af hálfu kærða að fasteignin að C hafi verið eign beggja aðila. Sé það í samræmi við það að kærandi hafi greitt helming af lánum, fasteignagjöldum, rafmagni, hita og hússjóði í fyrri fasteign sem skráð hafi verið á þáverandi sambýliskonu hans. Þá hafi faðir kæranda lagt mikla vinnu í þá fasteign sem ekki hafi verið greitt fyrir heldur hafi átt að meta vinnuna inn í eignarhlut kæranda í fasteigninni.

Kærandi hafnar því því með öllu að hafa haft uppi hnjóðsyrði í garð kærða í fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum í málinu. Þvert á móti hafi kærandi aðeins óskað eftir lögmannsumboði kærða í málinu sem kærði hafi ekki sinnt.

Kærandi hafnar því jafnframt að umbjóðandi kærða hafi komið að aðstoð við gerð ferilskrár kæranda. Er vísað til þess að systir kæranda hafi annast þá aðstoð og sent afrit af ferilskrá í tölvubréfi. Sé með öllu óeðlilegt að kærði hafi lagt ferilskránna fyrir dóm, sem fengin hafi verið með ólögmætum hætti. Hafi það verið gert til að ná fram hagsmunum umbjóðanda kærða, þ.e. opinberum skiptum til fjárslita, sem kærandi hafi síðar fallist á. Kærandi kveðst hins vegar hafa lagt fram sömu skrá í dómsmálinu til að sýna fram á dagsetningar. Hafi það ekki verið að ástæðulausu, líkt og kærði haldi ranglega fram.

Varðandi framlagningu kærða á tölvubréfasamskiptum lögmanna vísar kærandi til þess að það sýni hversu seint og illa kærði hafi svarað erindum.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði vísar til þess að á árinu 2005 hafi hann tekið að sér hagsmunagæslu í þágu eldri manns sem kvæntur hafi verið mikið yngri konu, en málið hafi lotið að útgáfu erfðaskrár. Er því lýst að skömmu fyrir andlát mannsins í apríl 2018 hafi hann leitað til kærða á ný með beiðni um aðstoð fyrir konuna, í tengslum við sölu fasteignarinnar að C.

Vísað er til þess að kærandi og sambýliskonu hans hafi strax falast eftir fasteigninni í apríl 2018. Hafi því verið tekið vel af hálfu ekkjunnar sem beðið hafi kærða um að hafa milligöngu um sölu fasteignarinnar fyrir sína hönd, en eignin hafi ekki farið á almennan markað. Bendir kærði á að hann hafi upplýst kaupendur um að kaupin yrðu að grundvallast á verðmati fasteignasala. Hafi kærði aflað þess verðmats og kynnt það kaupendum. Hafi kaupendur gengið að því matsverði í apríllok 2018 án þess að hafa áður þegið boð kærða um að kalla til trúnaðarmann á sínum vegum í því skyni að leggja mat á húsið og fyrirliggjandi verðmat.

Kærði kveðst hafa innt kaupendur eftir eignarhlutföllum við gerð kaupsamnings, þar sem hann hafi vitað að allt eigið fé sem til kaupanna var lagt hafi komið úr sölu íbúðar sambýliskonu kæranda. Hafi kærði fengið þau svör að hlutföllin ættu að vera að hálfu hjá hvoru og hafi verið gengið frá kaupunum í samræmi við það í byrjun septembermánaðar 2018. Síðar hafi komið í ljós að sambýliskonan hefði í októbermánuði 2018, eða í tengslum við afsalsgerð fyrir eigninni, lagt drög að tölvubréfi til kærða sem ekki var sent, þar sem hún hafi verið uggandi yfir sínum hag vegna tilgreiningar eignarhlutfalla.

Kærði vísar til þess að konan hafi leitað til hans í kjölfar sambúðarslita, þ.e. í mars 2019. Hafi endurbótum á húsinu þá ekki verið lokið. Kærandi hafi hins vegar þegar í fyrstu samskiptum haft uppi hnjóðsyrði í garð kærða, sbr. tölvubréf frá 24., 29. og 30. mars 2019.

Vísað er til þess að eftir árangurslausar tilraunir til sáttaviðræðna hafi krafa um opinber skipti til fjárskipta vegna sambúðarslita verið lögð til Héraðsdóms þann x. apríl 20xx. Hafi þeirri kröfu verið andmælt af hálfu kæranda og staðhæft að skilyrðinu um tveggja ára sambúðartíma væri ekki fullnægt. Um þann ágreining hafi verið rekið héraðsdómsmálið nr. Q-x/20xx. Hafi hin umþrætta ferilskrá verið lögð fram í því máli þann x. júní 20xx sem hluti af sönnunarfærslu sóknaraðila, þ.e. umbjóðanda kærða, fyrir því að skilyrðum fyrir opinberum skiptum væri fullnægt. Er á það bent að sambýliskonan hafi á sambúðartíma aðstoðað kæranda við gerð umræddrar skrár í tengslum við starfsumóknir. Sé staðhæfing kæranda um innbrot í tölvu hans ósannindi eftir því sem sambýliskonan greini. Bendir kærði jafnframt á að þessi sama skrá hafi svo aftur verið lögð fram í dómsmálinu af hálfu kæranda með öðrum starfsumsóknum þann 5. júlí 2019.

Kærði bendir á að kærandi hafi fallið frá andmælum við framgangi opinberra skipta í þinghaldi þann 17. júlí 2019 og að skiptastjóri hafi þá verið skipaður. Þegar ekki hafi tekist á skiptafundum að jafna ágreining um eignarhald á fasteigninni að C hafi deilu aðila þar um verið vísað til héraðsdóms þar sem málið hafi verið þingfest þann x. október 20xx, sbr. héraðsdómsmálið nr. Q-xxxx/20xx. Vísar kærði til fyrirliggjandi greinargerðar umbjóðanda hans í málinu þar sem staðhæfingum kæranda um greiðsluloforð o.fl. sé mótmælt.

Kærði vísar til þess að D hafi verið dómkvaddur sem matsmaður þann x. desember 2019 og að hann hafi boðað til matsfundar þann x. febrúar 2020. Kveðst kærði nokkru áður hafa orðið þess var að matsmaðurinn væri skjólstæðingur samstarfsmanns hans og hafi kærði því bent samstarfsmanninum á þá hættu á hagsmunaárekstri sem uppi hafi verið. Hafi samstarfsmaðurinn upplýst matsmanninn um það efni og hafi hinn síðargreindi sagt sig frá matsstörfum þann 6. febrúar 2020 með skeyti til dómsins. Matsmanninum hafi hins vegar láðst að afboða matsfundinn. Kveðst kærði ekki hafa átt í beinum samskiptum við matsmanninn vegna þessa.

Að endingu lýsir kærði því yfir, vegna þeirra ávirðinga sem á hann eru bornar, að hann hafi aldrei farið þess á leit við nokkurn mann að hann heimsækti eða hefði með öðrum hætti samband við lögmann kæranda. Vísar kærði til þess að hér sé um rangar sakargiftir að ræða á hendur honum. Vísar kærði jafnframt til þess að sá fundur sem kærandi tilgreini í kvörtun sinni hafi verið haldinn þann 31. maí 2019. 

Niðurstaða

I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Fyrir liggur að kvörtun kæranda lýtur að eftirfarandi ætlaðri háttsemi kærða sem byggt er á að hafi verið í andstöðu við lög og siðareglur lögmanna:

  1. Að kærði hafi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu gagnaðila kæranda í viðkomandi sambúðarslitamáli þrátt fyrir fyrri aðkomu hans að sölu fasteignarinnar að C til kæranda og þáverandi sambýliskonu hans, sbr. kaupsamning og afsal frá x. september og x. október 20xx.
  2. Að kærði hafi lagt fram ferilskrá kæranda, sem fengin hafi verið með ólögmætum hætti, á dómþingi héraðsdómsmálsins nr. Q-x/20xx þann x. júní 20xx.
  3. Að kærði hafi sent þekktan ofbeldismann á skrifstofu lögmanns kæranda sem hafi haft uppi hótanir um að kærandi og faðir hans skyldu kaupa fasteignina að C sjálfir, en að öðrum kosti hlytu þeir verra af.
  4. Að samskipti kærða undir rekstri málsins hafi ekki verið lögmanni sæmandi. Þannig hafi kærði talað í hringi í málatilbúnaði sínum, snúið útúr og gert lítið úr atriðum sem skipt hafi máli auk þess að standa ekki við þau loforð sem hann hefði veitt þegar á hafi reynt.
  5. Að kærði hafi ekki gert athugasemdir við dómkvaðningu matsmanns þann 15. desember 2019 þrátt fyrir fyrirséð vanhæfi hans til starfans vegna tengsla við samstarfsmann og bróður kærða. Hafi hinn dómkvaddi matsmaður síðar þurft að segja sig frá matsstörfum af þeim sökum, þ.e. í febrúarmánuði 2020.

Varðandi þau kvörtunarefni sem greinir í liðum nr. 1. – 3. að framan er þess í fyrsta lagi að gæta að kærandi var þegar þann 24. mars 2019 upplýstur um hagsmunagæslu kærða í þágu gagnaðila kæranda. Lýsti kærandi því raunar sérstaklega í tölvubréfi til kærða þann 30. sama mánaðar að hann hefði í hyggju að beina kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna vegna þess þáttar. Í öðru lagi er ágreiningslaust í málinu að kærði lagði hina umþrættu ferilskrá kæranda, sem ágreiningur er um hvort hafi verið aflað með ólögmætum hætti, á dómþingi héraðsdómsmálsins nr. Q-x/20xx þann x. júní 20xx. Þá liggur í þriðja lagi fyrir að þau atvik sem greinir í 3. lið að framan áttu sér stað í maí- og júnímánuði 2019 svo sem fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti kærða og lögmanns kæranda bera með sér.

Í samræmi við framangreint er að áliti nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi frá mars- og til júnímánaðar 2019 átt þess kost að koma fyrrgreindum kvörtunarefnum sem greinir í liðum nr. 1 – 3 á framfæri við nefndina. Var lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina, vegna þeirra kvörtunarefna, því liðinn þegar kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin þann 6. júlí 2020. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eru tilgreind kvörtunarefni of seint fram komin og verða því ekki tekin til efnisúrlausnar í málinu svo sem í úrskurðarorði greinir.

Verður málið tekið til efnisúrlausnar að öðru leyti, sbr. kvörtunarliði nr. 4 og 5 að framan.

II.

Líkt og áður greinir getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Í 35. gr. siðareglnanna er því lýst að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en nánar er lýst í greininni hvað telst meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi.

III.

Ágreiningur í þeim þætti málsins sem eftir stendur lýtur annars vegar að ætlaðri brotlegri framgöngu kærða gagnvart kæranda við rekstur héraðsdómsmálanna nr. Q-x/20xx og Q-xxxx/20xx. Er á því byggt í kvörtun að samskipti kærða undir rekstri málanna hafi ekki verið lögmanni sæmandi, að hann hafi talið í hringi, snúið útúr og gert lítið úr atriðum sem máli hafi skipt auk þess að standa ekki við gefin loforð, þar á meðal um greiðslu til föður kæranda vegna vinnuframlags, þegar á hafi reynt.

Fyrir liggur að kærði hefur andmælt tilgreindum kvörtunarefnum í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni. Jafnframt liggur fyrir í málinu greinargerð umbjóðanda kærða í héraðsdómsmálinu nr. Q-xxxx/20xx, sem lögð var fram á dómþingi þann x. október 20xx, þar sem mótmæli á þessum sama grunni voru höfð uppi að því leyti sem varðaði sakarefni viðkomandi máls. Með hliðsjón af því sem og að teknu tilliti til þess að ekkert í framlögðum gögnum fyrir nefndinni benda til þess að háttsemi kærða við hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda síns, sem gagnaðila kæranda, við rekstur dómsmálanna hafi verið andstæð lögum eða siðareglum lögmanna verður ekki talið að kærandi hafi leitt í ljós í málinu að kærði hafi gert á hans hlut í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Hið sama á við um það kvörtunarefni kæranda sem lýtur að ætlaðri háttsemi kærða í tengslum við dómkvaðningu matsmanns í málinu nr. Q-xxxx/20xx þann x. desember 20xx og afsögn matsmannsins frá matsstörfum í febrúarmánuði 2020. Hefur kærði þannig mótmælt málatilbúnaði kæranda um þetta efni og lýst því að hann hafi í engum samskiptum átt við matsmanninn vegna hins ætlaða hagsmunaáreksturs, sem leiddi til þess að matsmaðurinn sagði sig frá viðkomandi matsstörfum. Samkvæmt því og þar sem engra gagna nýtur við um þetta efni í málinu er það niðurstaða nefndarinnar að ekki hafi verið leitt í ljós í málinu að kærði hafi ekki, við rekstur viðkomandi dómsmáls að þessu leyti, sýnt kæranda slíka virðingu í ræðu, riti og framkomu sem kveðið er á um í 34. gr. siðareglna lögmanna. Þá verður ekki talið að áliti nefndarinnar að fundin verði stoð fyrir því í málsgögnum að kærði hafi á annan hátt gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Verður því að hafna kröfum kæranda í málinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kvörtun kæranda, A, er lýtur að liðum nr. 1. – 3. sem tilgreindir eru í I. niðurstöðukafla úrskurðarins, er vísað frá nefndinni.

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson