Mál 17 2020

Mál 17/2020

Ár 2021, fimmtudaginn 28. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2020:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. ágúst 2020 erindi kæranda, A, þar sem lýst er ágreiningi við kærða, B lögmann, hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sem og ætluðu broti gegn 27. gr. sömu laga.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kæranda með bréfi dags. 18. ágúst 2020 og barst hún þann 21. október sama ár. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi þann 22. sama mánaðar. Hinn 13. nóvember 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 17. sama mánaðar. Loks bárust frekari athugasemdir frá kærða þann 30. nóvember 2020 og voru þær sendar til kæranda með bréfi þann 9. desember 2020 þar sem jafnframt var tiltekið að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í þessu máli lýtur að rétti kærða til endurgjalds eða fjárhæð þess fyrir störf sem innt voru af hendi í þágu kæranda á árunum 2013 – 2016 sem og að ætluðum brotum kærða gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.

Samkvæmt málsgögnum liggur fyrir að höfðað var mál á hendur kæranda í október 2013 þar sem meðal annars var krafist ógildingar á erfðafjárskýrslu og skiptayfirlýsingu frá janúarmánuði sama ár. Mun málið hafa verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. október 201x sem héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/201x. Öll málsgögn tilgreinds máls hafa verið lögð fyrir nefndina.

Þann 7. nóvember 2013 veitti kærandi kærða og fulltrúa hans fullt og ótakmarkað umboð til að vinna í málefnum hans er lutu að fyrrgreindum málarekstri vegna fyrirframgreidds arfs. Var tiltekið í umboðinu að í því fælist að gæta hagsmuna kæranda að öllu leyti, sbr. útvega gögn, kalla eftir gögnum og skrifa undir þau skjöl sem teldust nauðsynleg vegna hagsmunagæslunnar. Tæki umboðið ennfremur til þess að taka á móti fjármunum sem gætu falist í meðferð málsins. Þá var því lýst að kæranda hefði kynnt sé gjaldskrá lögmannsstofu kærða.

Undir rekstri málsins í héraði sótti lögmannsstofa kærða um gjafsókn fyrir hönd kæranda en fékk synjun með bréfi, dags. 21. janúar 2014. Hefur kærði vísað til þess í málinu að vegna tekna kæranda hafi verið samið um að einungis yrði lítillega greitt vegna lögmannsþjónustunnar undir rekstri málsins en að til lokauppgjörs kæmi við lok þess. Samkvæmt málsgögnum voru fjórir reikningar gefnir út af hálfu lögmannsstofu kærða á hendur kæranda á árinu 2014 í tengslum við málareksturinn, þ.e. alls að fjárhæð 331.054 krónur með virðisaukaskatti. Munu þeir reikningar hafa verið greiddir af hálfu kæranda.

Með bréfum fulltrúa kærða til embættis sýslumannsins í Reykjavík, dags. 27. febrúar og 16. mars 2015, var krafist endurgreiðslu á erfðafjárskatti fyrir hönd kæranda og þess óskað að hann yrði lagður inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærða.

Dómur var kveðinn upp í málinu nr. E-xxxx/201x þann x. júní 201x. Samkvæmt dómsorði var viðkomandi erfðafjárskýrsla og skiptayfirlýsing ógilt en málskostnaður féll niður. Mun tilgreindum dómi ekki hafa verið áfrýjað.

Af málsgögnum verður ráðið að embætti tollstjóra hafi endurgreitt erfðafjárskatt þann sem kærandi hafði greitt vegna hinna ógiltu ráðstafana þann x. janúar 201x. Mun hin endurgreiddi erfðafjárskattur, að fjárhæð 5.198.987 krónur, hafa verið lagður inn á vörslufjárreikning lögmannsstofu kærða þann sama dag. Er staðfesting þar að lútandi frá Skattinum, dags. 28. júlí 2020, meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Þann 12. janúar 2017 sendi fyrrgreindur fulltrúi tölvubréf til kærða þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort erfðafjárskatturinn hefði verið greiddur til kæranda. Í svari kærða þann sama dag kom fram að það málið væri enn óafgreitt vegna mistaka hans en að farið yrði í málið þá þegar.

Á meðal málsgagna er að finna reikning lögmannsstofu kærða nr. 985, dags. 18. febrúar 2017, sem gefinn var út á hendur kæranda. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til 29 vinnustunda kærða og 63.26 vinnustunda fulltrúa kærða á tímagjaldinu 21.900 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því var reikningurinn að fjárhæð 2.505.413 krónur með virðisaukaskatti.

Kærði kveðst hafa sent kæranda tilgreindan reikning þennan dag auk skilagreinar og tímaskýrslu vegna vinnunnar, jafnframt því að hafa rætt við kæranda símleiðis degi síðar, en kærandi hefur mótmælt því og vísað til þess að hann hafi aðeins móttekið viðkomandi skilagrein.

Í umræddri skilagrein, sem fyrir liggur að kærandi móttók, kom fram að hún tæki til erfðamáls, dómsmáls og lögfræðilegrar ráðgjafar kærða og fulltrúa hans samkvæmt beiðni kæranda. Unnir tímar í málinu hefðu verið alls 92.25 klukkustundir af hálfu kærða og fulltrúa hans og að samkvæmt gjaldskrá væri áskilið endurgjald að fjárhæð 2.505.500 krónur með virðisaukaskatti. Þá var eftirfarandi tiltekið í skilagreininni undir liðnum „uppgjör á endurgreiðslu á erfðafjárskatti“:

            „Samtals greitt á vörslureikning lögmannsstofu/endurgr. skatts.     5.198.987.-

            Þóknun vegna lögfræðivinnu                                                             -2.505.500.-„

Í skilagreininni var því jafnframt lýst að greitt væri inn á reikning kæranda, sem umbjóðanda, 2.693.487 krónur. Samkvæmt greiðslukvittun, sem er á meðal málsgagna, var sú fjárhæð greidd inn á reikning kæranda þennan sama dag, þann 18. febrúar 2017.

Kærandi hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum að hann hafi ítrekað í kjölfar þessa óskað eftir endurgreiðslu erfðafjárskattsins að fullu frá kærða auk reikninga, kvittana og tímaskýrslna. Kærði hafi ítrekað lofað endurgreiðslu fjármunanna án þess að standa við þau loforð. Kærði hefur á hinn bóginn andmælt þeim málatilbúnaði og bent á að hann hafi ekkert heyrt frá kæranda í kjölfar lokauppgjörsins fyrr en á árinu 2020 þegar innheimta gagnvart honum hafi verið hafin.

Kærandi mun hafa leitað til annars lögmanns á árinu 2020 með beiðni um innheimtu hins endurgreidda erfðafjárskatts frá kærða. Liggja fyrir í málsgögnum um það efni tvö innheimtubréf, dags. 24. febrúar og 12. mars 2020, sem beint var til kærða. Var í hinu fyrra innheimtubréfi gerð krafa um höfuðstól, dráttarvexti og innheimtuþóknun að fjárhæð 8.929.129 krónur en í hinu síðara krafa vegna sömu kröfuliða að fjárhæð 5.016.129 en þá hafði verið tekið tillit til innborgunar kærða að fjárhæð 2.693.487 krónur frá 18. febrúar 2017.

Kærði mun ekki hafa orðið við þeim kröfum kæranda og var máli þessu því beint til nefndarinnar þann 14. ágúst 2020.

Á meðal málsgagna er jafnframt að finna tímaskýrslu kærða vegna tímabilsins frá 15. janúar 2014 til 3. nóvember 2015, málskostnaðarreikning lögmannsstofu kærða sem lagður var fram við aðalmeðferð málsins nr. E-xxxx/201x þann x. maí 201x, minnisblað lögmannsstofunnar í tengslum við málið, málflutningsræðu og yfirlit hennar sem og spurningadrög fyrir vitni í málinu. Ekki þykir ástæða til að reifa tilgreind skjöl sérstaklega umfram það sem greinir í umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni um það efni.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að greiða honum 2.505.500 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá verður að skilja málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi vísar til þess að erindi hans til nefndarinnar lúti að ætluðu fjárbroti kærða og skilaskyldu gagna.

Um forsögu málsins vísar kærandi til þess að kærði og fulltrúi hans hafi tekið að sér að verjast riftun framsals á fyrirframgreiddum arfi eftir foreldra kæranda, en kærandi hafi greitt erfðafjárskatt af arfinum. Hafi riftunarmálið tapast fyrir dómi. Við lok málsins hafi allur lögmannskostnaður kærða og fulltrúa hans verið greiddur eftir munnlegum fyrirmælum þeirra án þess að tímaskýrslur eða kvittanir hefðu verið afhentar í samræmi við beiðni. Samkvæmt því hafi allur kostnaður verið að fullu uppgerður eftir kröfu kærða áður en til þess máls er hér um ræðir kom.

Kærandi vísar til þess að hann hafi greitt erfðafjárskatt að fjárhæð 5.198.982 krónur til ríkissjóðs vegna hins fyrirframgreidda arfs. Í kjölfar dómsmálsins hafi kærandi leitað eftir endurgreiðslu skattsins en þá hafi komið í ljós að sú fjárhæð hafði verið lögð inn á vörslufjárreikning kærða þann 7. janúar 2016.

Kærandi bendir á að í framhaldi af því hafi hann ítrekað haft samband við kærða og krafist endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Hafi það ekki verið fyrr en viðkomandi fulltrúi hafi spurt kærða um hvort fjárhæðin hefði verið endurgreidd að endurgreiðsla hafi borist að hluta til kæranda, þ.e. 2.693.487 krónur þann 18. febrúar 2017 eða rúmu ári eftir að kærði hafði móttekið greiðsluna. Bent er á að skilgrein vegna þessa sé dagsett 18. febrúar 2017 þar sem fram komi að mismunurinn sé þóknun vegna lögfræðivinnu í tengslum við erfðamál, dómsmál og lögfræðilega ráðgjöf. Enginn reikningur hafi hins vegar verið gefinn út vegna þessa og engin tímaskýrsla fylgt. Vísar kærandi til þess að hann hafi þá þegar verið búinn að greiða allan kostnað vegna málsins en aldrei fengið í hendur kvittanir eða tímaskýrslur vegna þess. Eigi kostnaður samkvæmt skilagreininni við engin rök að styðjast.

Vísað er til þess að allt frá 7. janúar 2016 hafi kærandi verið í samskiptum við kæranda sem lofað hafi endurgreiðslu á þeim mismuni sem hann hafi haldið eftir, þ.e. 2.505.500 krónum. Jafnframt því hafi kærandi óskað eftir kvittunum auk tímaskýrslna vegna þóknana er lögmannsstofa kærða hafi áskilið sér vegna dómsmálsins. Það að kærandi hafi ekki leitað fyrr til nefndarinnar skýrist af ítrekuðum loforðum kærða um endurgreiðslu fjárhæðarinnar og afhendingu tímaskýrslna.

Samkvæmt því kveðst kærandi óska eftir aðstoð nefndarinnar til að knýja kærða á um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann haldi í sinni vörslu án heimildar sem nemi 2.505.500 krónum. Jafnframt því kveðst kærandi skora á kærða að afhenda sér kvittanir ásamt tímaskýrslum vegna þeirra fjárhæða sem greiddar hafi verið vegna málsins.

Byggir kærandi á að framferði kærða sé bæði brot á siðareglum lögmanna og teljist refsivert.

Í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar hafnaði kærandi öllum málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni sem röngum. Vísaði kærandi til þess að hann hafi verið búinn að greiða allan kostnað vegna starfa kærða og fulltrúa hans vegna málarekstursins. Þá hafi kærandi vitað að hann ætti að fá endurgreiddan erfðafjárskatt sem kærði hafi móttekið. Kærði hafi hins vegar engu svarað um endurgreiðsluna og þolimæði kæranda á endanum brostið. Hafi þá verið liðin tvö ár frá móttöku kærða á endurgreiðslunni.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði kveðst hafna með öllu kvörtun og málatilbúnaði kæranda í málinu. Er vísað til þess að kærði og fulltrúi hans hafi unnið sannanlega umrædda vinnu samkvæmt umboði frá kæranda. Séu fyrirliggjandi reikningar, tímaskýrslur og önnur gögn því til staðfestingar. Hafi vinnan verið unnin í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu kærða og þóknun verið sanngjörn og eðlileg.

Um forsögu málsins vísar kærði til þess að kærandi hafi fengið stefnu, dags. x. október 201x, þar sem dómkröfur hafi lotið að ógildingu erfðafjárskýrslu og skiptayfirlýsingar. Hafi kærði ásamt fulltrúa tekið að sér málið og skilað greinargerð í því þann x. janúar 201x. Um meðferð málsins kveðst kærði vísa til fyrirliggjandi gagna fyrir nefndinni. Um hafi verið að ræða lögfræðilega vinnu í tengslum við dómsmálið auk ráðgjafar í tengslum við erfðamál og önnur persónuleg mál yfir langt tímabil.

Kærði vísar til þess að um hafi verið að ræða nokkuð flókið dómsmál/erfðamál líkt og fram komi í stefnu, greinargerð og gögnum málsins, en matsgerðar hafi meðal annars verið aflað. Auk þess hafi verið um að ræða alhliða lögfræðilega ráðgjöf til kæranda í tengslum við málið. Hafi vinnan átt sér stað á tímabilinu frá október 2013 til síðari hluta ársins 2016, eða alls í um þrjú ár.

Vísað er til þess að fulltrúi kærða hafi flutt málið í héraði og unnið meirihluta vinnunnar í tengslum við málið í þágu kæranda. Hafi málinu lokið með dómi uppkveðnum x. júní 201x en einnig hafi í málinu verið tekist á um réttarfarsatriði sem leyst hafi verið úr með úrskurðum. Lögfræðileg vinna hafi þó átt sér stað eftir lok dómsmálsins.

Kærði byggir aðallega á að kvörtun kæranda sé of seint fram komin og beri því að vísa henni frá nefndinni. Bendir kærði um það efni á að útgáfa reiknings og greiðsla hafi farið fram í febrúar 2017. Nánar tiltekið hafi lokareikningur í málinu verið gefinn út þann x. febrúar 201x sem sendur hafi verið kæranda ásamt tímaskýrslu og skilagrein. Frá þeim tíma séu liðin tæplega fjögur ár og beri því að vísa málinu frá.

Varðandi formhlið málsins kveðst kærði hafna því með öllu sem fram komi í málatilbúnaði kæranda um að kærði hafi ítrekað lofað endurgreiðslu og afriti af kvittunum eða tímaskýrslum vegna dómsmálsins. Sé slíkt ósannað með öllu. Er vísað til þess að kærði hafi aldrei móttekið kröfu um endurgreiðslu af neinu tagi fyrr en með innheimtubréfi núverandi lögmanns kæranda, dags. 24. febrúar 2020. Samkvæmt því hafi kærði aldrei lofað neinni endurgreiðslu. Sé hér um að ræða hreinar og alvarlegar rangfærslur af hálfu kæranda. Þvert á móti hafi kærði sent reikning ásamt tímaskýrslu og skilagrein til kæranda við lokauppgör og engar athugasemdir verið gerðar fyrr en í byrjun árs 2020.

Samkvæmt því megi ljóst vera að kærandi haft haft tækifæri til að kvarta fyrr til nefndarinnnar, eða fyrir nánast fjórum árum síðan. Sé kvörtun kæranda til nefndarinnar því of seint fram komin og óhjákvæmilegt að vísa málinu frá.

Að öðru leyti byggir kærði á að fyrir hafi legið skýrt umboð frá kæranda vegna hagsmunagæslunnar þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að hún tæki til þess að taka á móti fjármunum sem gætu falist í meðferð málsins. Reikningar ásamt tímaskýrslum hafi verið sendir til kæranda yfir ákveðið tímabil og síðan við lokauppgjör þann 18. febrúar 2017 þar sem skilgrein hafi jafnframt verið send. Vísar kærði til þess að degi síðar hafi hann símleiðis farið yfir uppgjörið með kæranda, forsendur þess og útreikninga. Í kjölfarið hafi samskiptum aðila lokið, eða allt þar til árið 2020.

Kærði vísar til þess að málið hafi verið unnið í náinni samvinnu við kæranda sem hafi reglulega komið á skrifstofu kærða til funda. Hafi málskostnaður í umræddu dómsmáli byggt á tímaskýrslum vegna vinnu við málið, sem hafi verið unnir tímar kærða og fulltrúa hans, í samræmi við gjaldskrá stofunnar og tímagjald. Hafi verið um að ræða mjög umfangsmikinn málarekstur. Vegna tekna kæranda hafi verið óskað eftir gjafsókn fyrir hans hönd sem hafi verið hafnað. Af þeim sökum hafi verið samið um við kæranda að nokkrar innborganir ættu sér stað inn á málið samkvæmt reikningum á meðan meðferð þess stóð, en að málskostnaður yrði gerður upp að fullu við lok þess.

Vísað er til þess að málið hafi tapast, en að með riftunaryfirlýsingu hafi erfðafjárskattur fengist endurgreiddur og hann greiddur inn á lögmannsstofu kærða. Uppgjör hafi síðan farið fram þann 18. febrúar 2017 þar sem mismunur hafi verið greiddur inn á reikning kæranda. Bent er á að á árinu 2016 hafi enn verið vinna í málinu og hafi fulltrúi kærða annast hana í þágu kæranda. Í ársbyrjun 2017, þegar málinu hafði enn ekki verið lokað endanlega, hafi fulltrúinn hætt störfum hjá kærða. Vegna þessa hafi ekki verið búið að loka málinu fyrr en í febrúar 2017, en einhver minniháttar töf hafi orðið í lokin sökum þessa á uppgjöri og greiðslu.

Kærði vísar til þess að engar athugasemdir hafi borist varðandi reikning eða annað fyrr en í byrjun ársins 2020 þegar lögmaður kæranda hafi sent innheimtubréf, dags. 24. febrúar og 12. mars 2020. Hafi sú innheimtukrafa verið órökstudd og röng í alla staði.

Í samræmi við allt framangreint byggir kærði á að leggja verði til grundvallar að sönnun liggi fyrir um að umboð hafi verið veitt af hálfu kæranda. Eigi kvörtun um umboðsleysi því ekki við nein rök að styðjast. Þá megi ljóst vera af fyrirliggjandi gögnum og umfangi málsins að tímaskráning hafi verið fullkomlega eðlileg og þóknun þar af leiðandi. Bendir kærði jafnframt á að lögmaður gagnaðila hafi varið 100 klukkustundum í málið samkvæmt tímaskýrslu.

Kærði byggir á að hann hafi í þessu máli og annars í tengslum við lögfræðilega vinnu í þágu kæranda, hagað vinnu sinni og fulltrúa í einu og öllu í samræmi við lög og siðareglur lögmanna. Hafi verið um sanngjarna þóknun að ræða fyrir þá vinnu sem hafi verið unnin. Hafi endurgjaldið því verið eðlilegt og hæfilegt, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Varðandi kröfu um málskostnað fyrir nefndinni vísar kærði að endingu til þess að kvörtun sé með öllu tilhæfulaus en að hún hafi engu að síður kallað á umtalsverða vinnu af hálfu kærða.

Í viðbótarathugasemdum til nefndarinnar vísaði kærði til þess að ekki hefði verið búið að greiða fyrir lögfræðiþjónustuna nema að litlum hluta undir rekstri málsins og því hafi uppgjör átt sér stað við lok þess. Við lokauppgjör hafi kærði verið í sambandi við kæranda og sé því rangt að kæranda hafi ekki verið svarað. Þá liggi fyrir að tæplega fjögur ár séu liðin frá umræddu uppgjöri og sé því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá.

Niðurstaða

I.

Kærði hefur aðallega krafist þess í málinu að því verði vísað frá nefndinni á grundvelli þeirra tímafresta sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Samkvæmt þeirri kröfugerð þarf að mati nefndarinnar í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins.

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sína eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá kemur fram í 1. mgr. 27. gr. laganna að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Í báðum tilvikum er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Fyrir liggur að kvörtun kæranda lýtur að ætluðu fjárbroti kærða og broti hans á skilaskyldu gagna í tengslum við uppgjör sem fram fór þann 18. febrúar 2017 vegna lögmannsstarfa kærða og fulltrúa hans í þágu kæranda. Líkt og nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan móttók kærði inn á fjárvörslureikning sinn endurgreiðslu erfðafjárskatts fyrir hönd kæranda að fjárhæð 5.198.987 krónur þann 7. janúar 2016. Ágreiningslaust er að kærði gerði kæranda skilagrein vegna móttöku þeirra fjármuna og ráðstöfun þeirra að hluta inn á áfallna lögmannsþóknun, að fjárhæð 2.505.500 krónur, þann 18. febrúar 2017 og að mismuninum, að fjárhæð 2.693.487 krónum, var skilað til kæranda þann sama dag.

Ágreiningur er á milli aðila um hvort kærði hafi sent kæranda reikning nr. 985 og tímaskýrslu að baki honum, sem tók til alls 92.25 vinnustunda á tímagjaldinu 21.900 krónur auk virðisaukaskatts, samhliða gerð og sendingu skilagreinarinnar. Þá er jafnframt ágreiningur um hvort kærandi hafi í reynd óskað eftir endurgreiðslu erfðafjárskattsins að fullu frá kærða, auk reikninga, kvittana og tímaskýrslna í kjölfar uppgjörsins þann 18. febrúar 2017 en kærði hefur borið því við að kröfur þar að lútandi hafi fyrst komið fram af hálfu kæranda í ársbyrjun 2020.

Ekki verður staðreynt af málsgögnum að kærandi hafi haft uppi kröfur um þetta efni gagnvart kærða í kjölfar þess uppgjörs sem honum var kynnt með fyrrgreindri skilagrein þann 18. febrúar 2017. Þvert á móti bera gögn málsins með sér að kröfugerð kæranda um endurgreiðslu erfðafjárskattsins hafi fyrst verið send til kærða þann 24. febrúar 2020 en sú kröfugerð var síðar ítrekuð þann 12. mars sama ár. Gegn andmælum kærða um þetta efni verður því hvorki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærandi hafi „ítrekað“ leitað eftir greiðslu fjármunanna frá kærða sem og reikningum, tímaskýrslum eða kvittunum á árunum 2017 – 2019 né að kærði hafi lofað kæranda á tímabilinu að til endurgreiðslu fjármunanna kæmi.

Líkt og áður greinir er ágreiningslaust að kærandi móttók fyrrgreinda skilagrein frá kærða í febrúarmánuði 2017 þar sem fram komu upplýsingar um áskilið endurgjald lögmannsstofu kærða vegna vinnu í þágu kæranda, um hina mótteknu fjárhæð frá embætti tollstjóra og hvernig henni var ráðstafað. Þá liggur fyrir að kærandi móttók greiðslu í samræmi við efni skilagreinarinnar þann 18. febrúar 2017, að fjárhæð 2.693.487 krónur. Óháð því hvort kærandi hafi í reynd móttekið reikning frá lögmannstofu kærða nr. 985 og tímaskýrslu að baki honum við sama tilefni verður að telja að kæranda hafi mátt vera ljóst af efni skilagreinarinnar hvernig því uppgjöri sem þar var lýst væri háttað.

Af efni skilagreinarinnar mátti kæranda vera ljóst hvaða endurgjald kærði áskildi sér vegna starfa sinna og fulltrúa síns og að það endurgjald yrði greitt af því vörslufé sem kærði hafði móttekið fyrir hönd kæranda, svo sem gert var þann 18. febrúar 2017. Samkvæmt því er að mati nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi þá þegar átt þess kost að koma ágreiningsefninu á framfæri við nefndina, en svo sem fyrr greinir hefur ekki verið leitt í ljós í málinu að kærði hafi lofað kæranda greiðslu fjármunanna á síðari stigum svo sem kærandi heldur fram. Að mati nefndarinnar voru því lögbundnir tímafrestir til að leggja málið fyrir nefndina, vegna þess uppgjörs sem sannanlega fór fram þann 18. febrúar 2017 og kæranda var kynnt með skilagrein kærða frá sama degi, liðnir þegar kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin þann 14. ágúst 2020.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og með vísan til 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá nefndinni.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson