Mál 18 2020

Mál 18/2020

Ár 2020, fimmtudaginn 12. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2020:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 31. ágúst 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 1. september 2020 og barst hún þann 10. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 10. september 2020. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust til nefndarinnar þann 25. september 2020 og voru þær kynntar kærða með bréfi dags. 2. október sama ár. Ekki bárust frekari athugasemdir af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi beint erindi til fagráðs Háskóla Íslands á haustmánuðum 2018 vegna ætlaðra kynferðisbrota samnemanda síns frá árinu 2015. Gætti kærði hagsmuna viðkomandi aðila fyrir fagráðinu sem lauk málinu með umsögn þann 14. júní 2019 þar sem fram kom að á grundvelli fyrirliggjandi gagna og andstæðra sjónarmiða aðila væri ekki unnt að komast að niðurstöðu.

Kærði ritaði bréf fyrir hönd umbjóðanda síns til kæranda, dags. 6. júní 2019, þar sem gerðar voru athugasemdir við nánar tilgreind ummæli og fullyrðingar sem kærandi hafði viðhaft undir rekstri áðurgreinds máls hjá fagráðinu. Var í bréfinu gerð krafa um afsökunarbeiðni, niðurfellingu málsins hjá fagráðinu og greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna í miskabætur innan 14 daga en að öðrum kosti yrði höfðað mál á hendur kæranda. Ágreiningslaust er að kærði annaðist sjálfur afhendingu bréfsins á skráðu lögheimili kæranda þann 6. júní 2019 en systir kæranda mun hafa veitt því viðtöku.

Kærandi varð ekki við þeim kröfum sem settar höfðu verið fram í fyrrgreindu bréfi kærða fyrir hönd umbjóðanda. Verður ráðið af málsgögnum að kærði hafi í framhaldi þess höfðað mál á hendur kæranda fyrir hönd síns umbjóðanda þar sem þess var aðallega krafist að kæranda yrði gert að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk nánar tilgreindra dráttarvaxta en til vara lægri fjárhæðar að álitum dómsins. Samkvæmt stefnu, sem er á meðal málsgagna fyrir nefndinni, var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann x. september 201x þar sem það hlaut málsnúmerið E-xxx/xxxx.

Á meðal málsgagna er að finna þingbók héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx en samkvæmt henni ákvað dómari í þinghaldi þann x. desember 201x að fresta meðferð málsins með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 uns fyrir lægi niðurstaða lögreglurannsóknar vegna kæru kæranda á hendur umbjóðanda kærða fyrir sama eða svipað sakarefni og um var deilt í málinu.

Fyrir liggur að umbjóðandi kærða lést undir rekstri fyrrgreinds héraðsdómsmáls, nánar tiltekið þann x. 2020. Veittu foreldrar hins látna kærða og lögmannsstofu hans umboð til að gæta hagsmuna dánarbúsins í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/xxxx þann x. apríl 20xx, en þau fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúinu þann 27. sama mánaðar. Var upplýst um þetta efni á dómþingi málsins sem haldið var þann x. apríl 20xx og tók dánarbúið þá við aðild málsins til sóknar á hendur kæranda.

Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness þann x. maí 20xx en við upphaf hennar var tilkynnt að C lögmaður hefði tekið við rekstri málsins fyrir hönd stefnanda af kærða. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu uppkveðnum x. júní 20xx var kærandi sýknuð af kröfum dánarbúsins en málskostnaður féll niður.

Á meðal málsgagna er jafnframt að finna vottorð sálfræðings vegna umbjóðanda kærða, dags. 20. nóvember 2019, en ekki þykir efni til að reifa það sérstaklega vegna sakarefnis málsins.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærandi vísar til þess að kvörtuninni sé beint að framgöngu kærða í tilefnislausum málarekstri á hendur sér. Sé einkum um að ræða afhendingu „hótunarbréfs“ í aðdraganda málarekstursins sem og framgöngu kærða í málinu í heild.

Varðandi forsögu málsins vísar kærandi til dóms héraðsdóms frá x. júní 20xx í máli nr. E-xxx/xxxx. Bendir kærandi á að kærði hafi höfðað málið fyrir hönd stefnanda til heimtu miskabóta úr hendi kæranda vegna ummæla sem kærandi lét falla á fundi fagráðs Háskóla Íslands um umbjóðanda kærða. Er vísað til þess að umbjóðandi kærða hafi verið samnemandi kæranda við skólann.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi afhent í eigin persónu kröfubréf í nafni umbjóðanda síns á heimili kæranda. Hafi systir kæranda móttekið bréfið þar sem kæranda hafi verið hótað málsókn nema beðist yrði afsökunar persónulega og skriflega á ummælunum, að kvörtun til áðurgreinds fagráðs yrði afturkölluð og að kærandi myndi greiða 2.000.000 króna inn á fjárvörslureikning kærða.

Vísað er til þess að systur kæranda og foreldum hafi verið brugðið við að fá bréfið með þessum hætti. Hafi þau upplifað framgöngu kærða eins og um handrukkun væri að ræða. Byggir kærandi á að slík framganga geti ekki samræmst góðum og eðlilegum lögmannsháttum.

Kærandi bendir á að umbjóðandi kærða hafi andast á meðan málið var til meðferðar fyrir héraðsdómi. Hafi kærandi talið að við það myndi málið falla niður. Kærði hafi hins vegar haldið málinu til streitu fyrir hönd dánarbúsins.

Á því er byggt að málshöfðunin hafi verið að öllu leyti tilefnislaus, enda hafi kærandi leitað til fagráðsins í fullum rétti og skýrt þar frá framkomu samnemandans, þ.e. umbjóðanda kærða. Sé dómur héraðsdóms skýr um þetta atriði. Af tillitssemi við foreldra hins látna hafi málskostnaður hins vegar verið felldur niður í dómsmálinu. Tekur kærandi fram að annar lögmaður hafi að endingu flutt málið fyrir dómi í þágu dánarbúsins, en hann hafi áður ekkert komið að málinu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að rétt sé að meira en ár sé liðið frá því að systir kæranda móttók umþrætt kröfubréf kærða. Vísar kærandi hins vegar til þess að kröfubréfið og vitjun kærða að heimili kæranda sé hluti af öllu málaferlinu sem staðið hafi frá þeim tíma þar til í júnímánuði 20xx er dómur féll í viðkomandi máli í héraði.

Kærandi bendir á að í aðkomu fagráðsins að málinu hafi ekki falist kæra kæranda á hendur umbjóðanda kærða vegna kynferðisbrota. Þvert á móti hafi kærandi óskað eftir að ráðið myndi leita leiða til þess að kærandi fengi svigrúm til að stunda nám sitt án þess að verða fyrir áreitni af hendi umbjóðanda kærða. Hafi kærandi þannig ekki farið fram á að umbjóðanda kærða yrði vísað úr skólanum eða refsað á einhvern hátt, heldur hafi kærandi ætlast til þess að honum yrði gert að sýna kæranda lágmarkstillitsemi.

Vísað er til þess að kærandi hafi lagt fram kæru hjá lögreglu á hendur umbjóðanda kærða vegna kynferðisbrota í kjölfar kröfubréfs kærða. Hafi héraðsdómari í áðurgreindu máli nr. E-xxx/xxxx frestað frekari meðferð málsins þar til niðurstaða rannsóknar lægi fyrir. Umbjóðandi kærða hafi hins vegar andast áður en til skýrslugjafar við rannsókn átti að koma.

Kærandi kveður ömurlegt að lesa hugleiðingar kærða um að það hefði breytt einhverju í málinu ef umbjóðandi hans hefði lifað og getað leitt vitni í málinu. Vísar kærandi til þess að hún hafi reynt að fá umbjóðanda kærða til að taka ábyrgð á því sem gerst hafi þeirra á milli en að hann hafi færst undan með því að bera fyrir sig minnisleysi.

Kærandi kveðst hafa átt gríðarlega erfitt vegna „hótunarbréfs“ kærða. Lýsir kærandi því að henni hafi liðið eins og öryggi hennar og fjölskyldu hafi verið ógnað vegna háttsemi kærða. Hafi kærandi flutt í þrígang eftir atvikið af ótta við fleiri „heimsóknir“ frá kærða. Jafnframt því hafi kærandi leitað langvarandi sálfræðihjálpar vegna málaferlanna og þá sérstaklega vegna bréfs kærða. Auk þess hafi fjölskylda kæranda átt erfitt vegna þessa.

Á því er byggt að kærði hafi sýnt stórkostlegt dómgreindarleysi með háttsemi sinni í öllu málaferlinu. Kveðst kærandi hafa óskað eftir að dómsmálið færi fram í trúnaði en að kærði hafi hvorki beðið um að nafna málsaðila yrði ekki getið né að þinghald yrði lokað fyrr en það hafi verið of seint. Þá hafi kærandi fengið símhringingu frá ótilgreindum lögmanni þann 29. ágúst 2019 en sá hafi þá fengið stefnu málsins í hendur frá kærða. Hafi lögmaðurinn spurt hvort að hann væri „verjandi“ kæranda í málinu þar sem hann kannaðist ekki við það. Hafi lögmanninum verið mjög brugðið og sagst þurfa að farga gögnunum. Samkvæmt því hafi kærði farið með gögn málsins til annars lögmanns en lögmanns kæranda og með því sýnt umtalsvert gáleysi.

Að endingu veltir kærandi því upp, að ef hún hefði kært umbjóðanda kærða til lögreglunnar upphaflega fyrir kynferðisbrotin hvort það hefði verið eðlileg og fagleg framkoma af lögmanni að afhenda bréf í eigin persónu þar sem fram kemur hótun um lögsókn ef kæran verður ekki dregið til baka jafnframt því að krefjast afsökunar og greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna í miskabætur. Þá sé það lýsandi fyrir kærða að krefjast málskostnaðar fyrir nefndinni. Feli háttsemi kærða í sér ekkert annað en þöggun.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda að mati nefndarinnar.

Kærði kveðst mótmæla málavaxtalýsingu kæranda sem rangri, ósannaðri og villandi að því leyti sem hún samræmist ekki lýsingu kærða á málavöxtum.

Um málsatvik vísar kærði til þess að D hafi leitað til sín vegna ásakana sem kærandi hafði borið á hann um kynferðisbrot fyrir fagráði Háskóla Íslands. Hafi fagráðið tekið málið til umfjöllunar og kærði fylgt umbjóðandanum á fund nefndarinnar.

Kærði vísar til þess að með kröfubréfi, dags. 6. júní 2019, hafi hann gert kröfu um afsökunarbeiðni, niðurfellingu máls hjá fagráðinu og greiðslu skaðabóta til handa umbjóðanda. Hafi kærandi þá verið skráð til heimilis í sama sveitarfélagi og kærði búi í. Hafi kærði því ekið sjálfur með bréfið heim til kæranda og afhent það systur kæranda með ósk um að það yrði afhent kæranda. Engin frekari samskipti hafi átt sér stað af þessu tilefni við fjölskyldu kæranda, hvorki fyrr né síðar.

Því er lýst að í kröfubréfinu hafi verið veittur frestur til 20. júní 2019 til þess að verða við þeim kröfum sem þar hefðu verið settar fram. Ekkert svar hafi borist frá kæranda og hafi kærða því verið falið af umbjóðanda að höfða mál gegn kæranda. Það hafi verið gert með stefnu sem þingfest hafi verið í Héraðsdómi Reykjaness þann x. september 20xx. Undir rekstri málsins hafi svo annar lögmaður tekið við málinu og flutt það í héraði.

Varðandi kröfu um frávísun málsins vísar kærði til þess að kvörtun sé einkum beint að kröfubréfi því sem kæranda hafi verið boðsent þann 6. júní 2019. Vísar kærði til 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem fram kemur að nefndin vísi frá sér erindi ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var að koma því á framfæri. Byggir kærði á að þar sem kvörtun sé dagsett 18. ágúst 2020 sé ljóst að meira en eitt ár sé liðið frá því að kærandi gat komið kvörtun sinni á framfæri.

Kærði vísar jafnframt til þess að það sé vandkvæðum bundið að grípa til varna í málinu þar sem erindi kæranda beri ekki svo glögglega með sér hvert kvörtuarefnið sé. Þannig sé fullyrt í kvörtun að „framganga“ kærða við rekstur málsins geti ekki samræmst góðum og eðlilegum lögmannsháttum. Telur kærði ljóst að það að lögmaður sendi frá sér kröfubréf og stefni svo inn dómsmáli í kjölfarið geti ekki á nokkurn hátt talist brjóta gegn „góðum og eðlilegum lögmannsháttum“, svo svo sem fullyrt sé í kvörtun. Liggi fyrir að kærði geti ekki með nokkru móti brugðist við kvörtun í málinu með eðlilegum hætti þar sem á engan hátt sé ljóst undan hverju sé kvartað. Leiði slíkt til þess að nefndinni beri að vísa málinu frá og úrskurða kærða málskostnað. Sé það raunar ámælisvert að nefndin hafi ekki vísað málinu frá ex officio með vísan til 8. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Til vara krefst kærði þess að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Byggir kærði á að ljóst sé að hann hafi ekki staðið í persónulegum málarekstri við kæranda. Sé það raunar svo að kærði hafi aldrei hitt eða rætt við kæranda eða foreldra hennar. Hafi hið umþrætta dómsmál verið höfðað í nafni umbjóðanda kærða, sem hafi andast á meðan málið var rekið í héraði. Í kjölfar andlátsins hafi dánarbú umbjóðanda kærða tekið við rekstri málsins. Á engum tímapunkti hafi kærði samkennt sig umbjóðanda sínum og hafi kærði að sama skapi skýlausan rétt til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann hafi gætt, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Kærði vísar til þess að það að einstaklingur upplifi hluti með einhverjum hætti hafi ekkert vægi við meðferð mála hjá nefndinni brjóti sú hegðun sem um er rætt ekki efnislega í bága við lög eða siðareglur lögmanna. Verði að meta atvik mála, ásetning einstaklinga og annað slíkt á hlutlægum grundvelli og sé upplifun málsaðila því ekki til þess fallin að varpa ljósi á efnisatriði sem skipti máli við úrlausn máls sem þessa.

Kærði hafnar því sem fram kemur í kvörtun um að rekstur dómsmálsins hafi verið „tilefnislaus“. Er vísað til þess að umbjóðandi kærða hafi farið í málarekstur gegn kæranda þar sem hann hafi talið að kærandi hefði gerst sek um ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru með því að leita til fagráðsins og ásaka hann um kynferðisbrot. Þó svo að kærandi hafi verið í „fullum rétti að leita til fagráðs Háskóla Íslands og skýra frá,“ meintri framkomu samnemanda gagnvart sér, eins og haldið sé fram í kvörtun, geti hún ekki vikist undan að þurfa að ábyrgjast fullyrðingar sínar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Eftir sitji að ásakanir kæranda á hendur umbjóðanda kærða séu ósannaðar. Þá þurfi ekki að verja löngum tíma í að útskýra að réttur umbjóðanda kærða til þess að bera ágreining sinn við kæranda undir dómstóla sé stjórnarskrárvarinn, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. laga nr. 62/1994 um manréttindasáttmála evrópu.

Kærði getur þess að í dómi Héraðsdóms Reykjaness hafi komið fram að ekkert lægi fyrir um í málinu að kvörtun kæranda og ummæli hafi borist öðrum til eyrna, að frátöldum umbjóðanda kærða, og að ekkert væri fram komið um að kærandi hefði upplýst aðra en sína allra nánustu um efni kvörtunarinnar. Hafi því verið talið ósannað að kærandi hefði valdið umbjóðanda kærða álitsspjöllum.

Kærði bendir á að við andlát umbjóðanda hans hafi aðalmeðferð í málinu ekki verið ákveðin og því hafi ekki verið búið að ákvarða nokkuð með þau vitni sem umbjóðandinn hafi haft í hyggju að leiða fyrir dóminn. Allt að einu hafi umbjóðandi kærða haft grun um að ásakanir kæranda hefðu kvisast út um skólann. Hafi það haft þau áhrif að sálfræðingur sem hitti umbjóðanda kærða í nóvember 2019 lýsti ástandi hans með eftirfarandi hætti:

D upplýsir að mál þetta hefur valdið honum miklum áhyggjum hvað varðar félagatengsl og kveðst hafa dregið sig mikið í hlé og greinir frá félagsfælni. D greinir á heildina frá mikilli vanlíðan og slæmum lífsgæði.

Bent er á að við fráfall umbjóðandans hafi orðið örðugt um vik að koma vitnum að í málinu. Á þeim tíma hafi kærði einfaldlega ekki haft upplýsingar um hverjir það væru sem hefðu getað greint frá því að ásakanir kæranda hefðu spurst út í háskólasamfélaginu. Allt að einu hafi það verið ósk foreldra umbjóðanda kærða, sem tekið hafi við dánarbúinu í einkaskiptum, að málinu yrði framhaldið. Hafi það verið í fullu samræmi við góða lögmannshætti að tryggja það að málinu yrði lokið fyrir dómi, í samræmi við óskir þeirra.

Að endingu gerir kærði athugasemdir við hæfi nefndarmanna til setu í málinu. Vísar kærði um það efni annars vegar til þess að tveir nefndarmanna gæti eða hafi gætt hagsmuna gagnaðila umbjóðanda kærða í dómsmálum sem nú séu rekin fyrir héraðsdómstólum. Byggir kærði á að þegar af þeirri ástæðu séu fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni viðkomandi nefndarmanna í efa með réttu, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar bendir kærði á að það sé fullkomlega óeðlilegt að úrskurðarnefnd lögmanna sé skipuð sjálfstætt starfandi lögmönnum sem starfi á jafn litlum samkeppnismarkaði og Ísland sé. Geti það vart talist eðlilegt að örfáir einstaklingar á samkeppnismarkaði skuli fara með agavald yfir kollegum sínum. Sé í því samhengi rétt að líta til þess að nefndarmaður geti orðið vanhæfur til meðferðar stjórnsýslumáls snerti það fjárhagslega samkeppnisstöðu hans eða fyrirtæki hans sem hann er í fyrirsvari fyrir enda þótt hvorki hann né fyrirtækið teljist aðili þess máls, sbr. fyrrgreint ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki verði betur séð en að allir nefndarmenn séu í beinni samkeppni við kærða.

Niðurstaða

I.

Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærði gert athugasemdir við hæfi nefndarmanna til setu í málinu. Um það efni hefur kærði annars vegar vísað til þess að tveir nefndarmanna gæti eða hafi gætt hagsmuna gagnaðila umbjóðanda kærða í dómsmálum sem nú séu rekin fyrir héraðsdómstólum og hins vegar til þess að óeðlilegt sé að nefndin sé skipuð sjálfstætt starfandi lögmönnum sem fari með agavald yfir kollegum sínum á litlum samkeppnismarkaði. Vísar kærði um þetta efni til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti séu fyrir hendi aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Að mati nefndarinnar getur það eitt ekki leitt til vanhæfis að nefndarmenn í málinu hafi gætt eða gæti hagsmuna gagnaðila umbjóðanda kærða í dómsmálum sem rekin eru eða rekin hafi verið fyrir dómstólum. Þá liggur fyrir að um skipun nefndarinnar fer samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en kærði hefur engin haldbær rök fært fyrir því í málinu að núverandi skipun nefndarinnar brjóti í bága við tilgreint lagaákvæði.

Samkvæmt framansögðu og þar sem kærði hefur ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geta verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni nefndarmanna með réttu í efa, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður ekki fallist á kröfu kærða um að nefndarmenn málsins víki sæti vegna vanhæfis.

II.

Kærði hefur krafist þess í málinu að því verði vísað frá nefndinni. Hefur kærði um það efni vísað til þess að kvörtunarefni séu að hluta til of seint fram komin auk þess sem þau séu svo óglögg að kærði eigi í vandkvæðum með að halda uppi efnisvörnum í málinu.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Fyrir liggur að kvörtun kæranda lýtur meðal annars að kröfubréfi sem kærði beindi til kæranda fyrir hönd síns umbjóðanda þann 6. júní 2019 og þeirri háttsemi hans að afhenda það sjálfur á lögheimili kæranda þann dag þar sem systir kæranda veitti bréfinu viðtöku. Samkvæmt málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni er ekki ágreiningur um að sú háttsemi sem kvörtunarefnið tekur til hafi átt sér stað á þeim degi. Í ljósi þess er að áliti nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi þegar þann 6. júní 2019 átt þess kost að koma kvörtunarefninu á framfæri við nefndina. Var lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina, vegna þess kvörtunarefnis sem hér um ræðir, því liðinn þegar kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin þann 31. ágúst 2020. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, er tilgreint kvörtunarefni of seint fram komið og verður því ekki tekið til efnisúrlausnar í málinu svo sem í úrskurðarorði greinir.

Verður málið tekið til efnisúrlausnar að öðru leyti enda þykja önnur kvörtunarefni kæranda ekki svo óljós í málatilbúnaði aðilans að erfitt hafi verið um vik fyrir kærða að halda uppi vörnum í málinu.

III.

Líkt og áður greinir getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Í 35. gr. siðareglnanna er því lýst að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en nánar er lýst í greininni hvað telst meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi.

IV.

Ágreiningur í þeim þætti málsins sem eftir stendur lýtur að ætlaðri brotlegri framgöngu kærða gagnvart kæranda við rekstur málsins nr. E-xxx/xxxx fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Er málatilbúnaður kæranda á því reistur að málarekstur sá sem kærði hafi annast fyrir hönd umbjóðanda á hendur kæranda hafi verið tilefnislaus með öllu og að kærði hafi þar sýnt stórkostlegt dómgreindarleysi. Jafnframt því hafi kærði ekki óskað eftir að þinghald í málinu yrði lokað fyrr en á síðari stigum auk þess sem hann hafi afhent ótilgreindum lögmanni gögn málsins sem ekki hafi haft nokkra aðkomu að því.

Varðandi kvörtunarefni kæranda er til þess að líta að ekki liggur annað fyrir í málinu en að gagnaðili kæranda hafi leitað til kærða með beiðni um lögmannsaðstoð og hagsmunagæslu vegna meðferðar þess máls sem rekið var fyrir fagráði Háskóla Íslands, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Að sama skapi verður ráðið af málsgögnum að viðkomandi gagnaðili hafi falið kærða, sem lögmanni sínum, að höfða mál á hendur kæranda vegna ummæla og málatilbúnaðar kæranda fyrir fagráðinu, sbr. málið nr. E-xxx/xxxx sem þingfest var í héraði þann x. september 20xx og dæmt þann x. júní 20xx.

Við hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda síns við rekstur málsins nr. E-xxx/xxxx hafði kærði skýlausa kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætti en ekkert er fram komið í málinu um að kærði hafi í hagsmunagæslunni samkennt sig umbjóðanda sínum, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Verður að áliti nefndarinnar að horfa til tilgreindrar greinar vegna málatilbúnaðar kæranda um að málareksturinn hafi verið tilefnislaus enda réttur umbjóðanda kærða til að fá úrlausn um sakarefnið fyrir dómstólum stjórnarskrárvarinn, sbr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994. Er þá einnig til þess að líta að forsendur héraðsdóms fyrir niðurstöðu um sýknu kæranda í málinu nr. E-xxx/xxxx gefa ekki tilefni til að ætla að málareksturinn hafi verið svo tilefnislaus að starfshættir kærða í tengslum við hann hafi getað farið í bága við ákvæði laga eða siðareglna lögmanna.

Að mati nefndarinnar hefur hvorki verið leitt í ljós í málinu að við rekstur dómsmálsins hafi kærði ekki sýnt kæranda slíka virðingu í ræðu, riti og framkomu sem kveðið er á um í 34. gr. siðareglna lögmanna né að kærði hafi beitt kæranda ótilhlýðilegum þvingunum í skilningi 35. gr. þeirra. Þá verður ekki talið að áliti nefndarinnar að fundin verði stoð fyrir því í málsgögnum að kærði hafi á annan hátt gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Verður því að hafna kröfum kæranda í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kvörtun kæranda, A, er lýtur að efni og birtingu kröfubréfs kærða, B lögmanns, á lögheimili kæranda þann 6. júní 2019, er vísað frá nefndinni.

Kærði, A lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson