Mál 2 2020

Mál 2/2020 

Ár 2020miðvikudaginn 10júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík. 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2020: 

lögmaður, 

gegn 

lögmanni 

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6febrúar 2020 erindi kærandaA lögmannsþar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 31. og 36. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7febrúar 2020 og barst hún þann 24sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 10mars 2020Ekki bárust frekari athugasemdir af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Samkvæmt málsgögnum beindi kærði, fyrir hönd umbjóðanda síns, gagnabeiðni til C hjá fasteignasölunni D ehf. í tölvubréfi hinn 12. mars 2019 vegna sölu nánar tilgreindrar fasteignar sem átt hafði sér stað í júnímánuði 2017. Var því erindi svarað af hálfu fyrirsvarsmanns fasteignasölunnar þann 18. mars 2019 þar sem umbeðin gögn munu jafnframt hafa verið afhent. 

Kærði sendi á ný erindi til fyrirsvarsmanns fasteignasölunnar þann 12. júlí 2019 vegna viðkomandi fasteignaviðskipta. Var vísað í erindinu til tveggja bréfa sem fylgdu með því og tiltekið að mikilvægt væri að fá fram afstöðu fasteignasölunnar innan 15 daga. Í nefndum bréfum, sem kærði beindi fyrir hönd umbjóðanda síns til seljenda viðkomandi fasteignar, var vísað til atvika að baki sölu fasteignarinnar. Þá var eftirfarandi tiltekið í niðurlagi bréfanna: 

Skv. 26. gr. l. nr. 40/2002 um fasteignakaup telst fasteign gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið þær upplýsingar sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að hann fengi. Ekki er annað að sjá en að fasteignasalinn hafi ekki gætt að ákvæðum m.a. í 11., 12. og 13. gr. laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa við þessa umræddu sölu. 

Með bréfi þessu er seljendum og fasteignasölunni veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfs þessa til þess að láta í ljós afstöðu sína til erindisins og ganga til sátta gagnvart kaupanda. Verði ekki orðið við því mun kaupandi láta á málið reyna fyrir dómi af fullum þunga með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir aðila. 

Erindi samhliða þessu er sent D 

Fyrir liggur að kærandi er sjálfstætt starfandi lögmaður en hann mun jafnframt vera með löggildingu til sölu fasteigna. Er kærandi skráður meðal starfsmanna á vefsíðu fasteignasölunnar D ehf.   

Áðurgreindur C svaraði erindi kærða í tölvubréfi hinn 31. júlí 2019, sem kærandi og annar starfsmaður viðkomandi fasteignasölu fengu sent afrit af. Var þar tiltekið að ekki væri hægt að taka afstöðu til málsins þar sem ekki lægi fyrir hverjar kröfur umbjóðanda kærða væru. Þá væri þeirri órökstuddu fullyrðingu kærða hafnað að „fasteignasalinn“ hefði ekki gætt að ákvæðum laga nr. 70/2015. 

Í tölvubréfi hinn 16. október 2019 óskaði kærði eftir staðfestingu C á því að hann væri ábyrgur sem fasteignasali í málinu ef á reyndi. Í svari Hauks þann 22. sama mánaðar, sem kærandi fékk meðal annars afrit af, var meðal annars eftirfarandi tiltekið: 

Ég er stjórnarformaður félagsins og hef m.a. það hlutverk að hafa faglega yfirsjón með störfum annarra fasteignasala og aðstoðarmanna. Nafn mitt kemur þannig fram hjá logoi félagsins á þeim skjölum sem stafa frá félaginu. Það verklag hefur verið haft um rekstur fasteignsölunnar að þegar samið er við um sölu eigna gerir viðkomandi fasteignasali sölusamning fyrir hönd D. Verkefnum er síðan skipt niður og heldur sá fasteignasali eða aðstoðarmaður hans utan um sölu eignarinnar eða felur það öðrum fasteignasala skv. heimild 2. mgr. 6. gr. laga um sölu fasteigna og skipa. Almennt er horft til þess að sá sem vottar skjöl er sá aðili sem ber ábyrgð á því skjali sbr. 16. gr. laga um sölu fasteigna. 

Fyrir liggur að kærði höfðaði mál fyrir hönd síns umbjóðanda á hendur seljendum viðkomandi fasteignar, fasteignasölunni ehf., C, kæranda og E tryggingum hf. til réttargæslu til heimtu skaðabóta vegna ætlaðra galla á hinni seldu eign. Ágreiningslaust er að kæranda var birt stefna í málinu þann x. febrúar 20xx en fyrirhugað var að þingfesta það í Héraðsdómi þann x. sama mánaðar. Laut kröfugerð í stefnu að því að stefndu yrðu dæmd til að greiða stefnanda óskipt 4.647.002 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. 

Kærandi sendi bréflegt erindi til kærða sama dag og stefnubirting fór fram, þ.e. þann x. febrúar 20xx. Lýsti kærandi því í bréfinu að stefnubirtingin hefði komið verulega á óvart enda hefði hann ekkert heyrt frá lokum fasteignaviðskiptannaþ.e. hvorki frá kærða né öðrum, um umræddar fjárkröfur. Tiltók kærandi jafnframt að um væri að ræða gróft brot á IV. siðareglna lögmanna og að óhjákvæmilegt væri að vísa vinnubrögðum kærða til stjórnar Lögmannafélags Íslands og úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 43. gr. siðareglnanna.  

Fyrir liggur að kærandi beindi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 6. febrúar 2020. 

Meðal málsgagna fyrir nefndinni er jafnframt að finna tölvubréf sem kærði beindi til kæranda og C þann 13. febrúar 2020. Var þar tiltekið að fram hefði komið í samtali málsaðila að kærandi teldi sig ekki ábyrgan sem fasteignasala fyrir þeirri sölu sem málið hverfðist um. Lýsti kærði því jafnframt að ef vilji væri til að einfalda málið um þetta efni, þ.e. hvaða fasteignasala væri réttilega stefnt sem ábyrgum fyrir sölunni, væri ágætt að klára það fyrir þingfestingu málsins. Þá óskaði kærði eftir upplýsingum um hvort vilji væri til að funda um málið með mögulegar sættir í huga. 

Ekki verður séð af málsgögnum að fyrrgreindu erindi kærða hafi verið svarað. 

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta áminningu eða öðrum viðeigandi viðurlögum. Þá krefst kærandi þess að kærða verði gert að biðjast afsökunar á framferði sínu og að kæranda verði úrskurðaðar miskabætur. 

Kærandi vísar til þess í kvörtun að honum hafi verið birt stefna að morgni 6. febrúar 2020 sem útgefin hafi verið af kærða fyrir hönd F. Hafi stefnan verið vegna meintrar bótakröfu tilgreinds umbjóðanda kærða á hendur kæranda og fleirum vegna fasteignaviðskipta á árinu 2017. Bendir kærandi á að afskiptum hans sem lögmanns af fasteignaviðskiptunum hafi lokið í septembermánuði 2017. Hafi hvorki kærði né aðrir komið fram með kvörtun eða bótakröfu vegna þeirra fyrr en með stefnubirtingunni hinn 6. febrúar 2020. 

Kærandi byggir á að ljóst sé samkvæmt IV. kafla siðareglna lögmanna að kærða hafi borið að kynna kæranda tilgreinda bótakröfu með bréfi eða á annan hátt áður en málinu var stefnt fyrir dóm, sbr. einkum 30., 31. og 36. gr. siðareglna lögmanna. Bendir kærandi í því samhengi sérstaklega á að hvorki verið séð að fyrning eða nein þau atriði sem tilgreind séu í 2. mgr. 36. gr. siðareglnanna réttlæti þann hátt sem kærði hafi kosið að haga störfum sínum að þessu leyti. 

III. 

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda að mati nefndarinnar. 

Varðandi kröfu um frávísun vísar kærandi til laga nr. 77/1998 sem og til 3. og 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Byggir kærði á að ljóst sé af framlögðum gögnum í málinu að fyrirliggjandi ágreiningur heyri ekki undir nefndina enda lúti málið að ágreiningi á milli umbjóðanda kærða og kæranda vegna starfa hins síðargreinda sem fasteignasala en ekki sem lögmanns. Beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá nefndinni. 

Varðandi kröfu um höfnun vísar kærði til þess að kæranda hafi verið stefnt í viðkomandi máli sem fasteignasala en stefnandi sé umbjóðandi kærða. Fyrir liggi að 30. og 31. gr. siðareglna lögmanna geti ekki tekið til atvika málsins enda lúti þau ekki að innbyrðis samskiptum eða ágreiningi á milli lögmanna. 

Varðandi tilvísun kæranda til 36. gr. siðareglna lögmanna vísar kærði til þess að þörf sé á að rekja forsögu málsins fram að stefnubirtingu en kærandi hafi látið það ógert í kvörtun málsins.  

Kærði kveðst hafa sent formlegt erindi til fasteignasölunnar D ehf. þann 12. júlí 2019, þ.e. starfsstöð kæranda, þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu á móttöku bréfa sem fylgt hafi erindinu og afstöðu fasteignasölunnar til framkominnar kröfu á hendur henni. Í tilgreindu bréfi hafi verið útlistað með hvaða hætti fasteignasalar hefðu ekki gætt að ákvæðum laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa við umrædda sölu, sbr. einkum 11. – 13. gr. laganna. 

Vísað er til þess að þann 31. júlí 2019 hafi borist svar frá C, fasteignasala og fyrirsvarsmanni fasteignasölunnar, þar sem því hafi verið hafnað að fasteignasalinn hefði ekki gætt að ákvæðum laga nr. 70/2015. Er á það bent að kærandi hafi fengið afrit af því svarbréfi. Kveðst kærði hafa verið í símasamskiptum við fasteignasöluna í kjölfar þess varðandi það hvaða fasteignasali bæri ábyrgð á umræddri sölu og skjalagerð. Kærði hafi svo loks sent tölvubréf til C og kæranda þann 16. október 2019 þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvort hinn fyrrgreindi væri ábyrgur sem fasteignasali ef á reyndi. 

Kærði vísar til þess að í svari C, dags. 22. október 2019, sem kærandi hafi fengið afrit af, hafi verið tiltekið að C væri stjórnarmaður fasteignasölunnar og hefði það hlutverk að hafa faglega umsjón með störfum annarra fasteignasala og aðstoðarmanna fasteignasölunnar. Hafi því nafn hans komið fram á þeim skjölum sem stafa frá fasteignasölunni. Þá vísar kærði til þess að eftirfarandi hafi komið fram í svarbréfinu: „...almennt er horft til þess að sá sem vottar skjöl er sá aðili sem ber ábyrgð á því skjali sbr. 16. gr. laga um sölu fasteigna“. 

Kærði vísar til þess að kærandi hafi vottað undirliggjandi skjöl sem fasteignasali og hafi hann því verið meðstefndi í málinu. Byggir kærði á að af fyrrgreindum samskiptum hafi verið ljóst að kærandi hefði hafnað með öllu ábyrgð sinni sem fasteignasali í umræddu máli. 

Kærði kveðst aldrei hafa litið til kæranda sem lögmanns í tilgreindum samskiptum, heldur fasteignasala, í samræmi við efni máls. Vísar kærði jafnframt til samskipta sinna við kæranda og C eftir að kvörtun í máli þessu hafði verið beint til nefndarinnar. Kveðst kærði þannig hafa tekið fram í tölvubréfi til tilgreindra aðila þann 13. febrúar 2020 að ef þeir sem fasteignasalar vildu einfalda málið um þetta efni, þ.e. hvaða fasteignasala væri réttilega stefnt sem ábyrgum fyrir viðkomandi sölu, væri ágætt að klára það fyrir þingfestingu málsins. Er vísað til þess að því erindi hafi ekki verið svarað. 

Í samræmi við framangreint byggir kærði á að hann hafi ekki með störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Kærði hafi þannig sent bréf á viðkomandi fasteignasölu þar sem kynntar hafi verið framkomnar kröfur umbjóðanda hans. Kærandi og C hafi svarað því bréfi og hafnað kröfum. Samkvæmt því hafi það verið eini kostur umbjóðanda kærða að stefna málinu til þess að fá skorið úr um undirliggjandi ágreining.    

Niðurstaða 

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar. Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að málið lúti að ágreiningi umbjóðanda hans við kæranda vegna sölumeðferðar fasteignar en ekki að lögmannsstörfum kæranda. Eigi málið því ekki undir nefndina. 

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætluðu broti aðilans, sem lögmanns, gegn 30., 31. og 36. gr. siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Breytir engu í því samhengi þótt undirliggjandi ágreiningur umbjóðanda kærða við kæranda kunni að varða störf hins síðargreinda sem löggilts fasteignasala. 

Samkvæmt því fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, undir valdsvið nefndarinnar. Þá verður að líta svo á að álitaefni um hvort atvik að baki kvörtunarefni geti hlutrænt séð fallið undir tilgreind ákvæði siðareglna lögmanna sé atriði sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en geti ekki varðað frávísun þess frá nefndinni. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til að vísa málinu frá í heild sinni líkt og kærði krefst fyrir nefndinni. 

Varðandi formhlið málsins er þess á hinn bóginn að gæta að kröfugerð kæranda í málinu lýtur meðal annars að því að  kærða verði gert að biðjast afsökunar á framferði sínu og að kæranda verði úrskurðaðar miskabætur. 

Um tilgreindar kröfur kæranda er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjalla í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir: 

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er: 

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum; 
  1. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ; 
  1. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna. 

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um og taka til skoðunar fyrrgreindar kröfu kæranda sem lúta að því að kærða verði gert að biðjast afsökunar á framferði sínu og að kæranda verði úrskurðaðar miskabætur. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa tilgreindum kröfum kæranda á hendur kærða frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir, sbr. 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.  

Samkvæmt því kemur til efnisúrlausnar í málinu sú krafa kæranda að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. 

Í IV. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um samskipti lögmanna innbyrðis. Er þar mælt fyrir um í 30. gr. að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila. Þá er kveðið á um í 1. mgr. 31. gr. siðareglnanna að í innbyrðis deilum beri lögmanni, sem hyggst kæra annan lögmann fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn Lögmannafélags Íslands aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málsefnið. Heimilt er þó að víkja frá þessari reglu ef brýna nauðsyn ber til vegna eðlis málsins, sbr. 2. mgr. 31. gr. siðareglnanna. 

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 1. mgr. 36. gr. að lögmaður skuli jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomnar kröfur skjólstæðings síns og gefa kost á að ljúka máli með samkomulagi. Þetta gildir þó ekki, ef lögsókn má ekki bíða vegna yfirvofandi réttarspjalla eða annars tjóns á hagsmunum skjólstæðings, eða ef atvikum að öðru leyti hagar svo til að rétt sé og nauðsynlegt að hefja lögsókn án tafar. 

III. 

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærða hafa borið að kynna kæranda skaðabótakröfu skjólstæðings síns áður en til málshöfðunar kom með stefnubirtingu þann 6. febrúar 2020. Þar sem kærði hafi látið það ógert hafi hann gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn 30., 31. og 36. gr. siðareglna lögmanna. 

Líkt og áður er rakið taka 30. og 31. gr. siðareglna lögmanna til innbyrðis samskipta lögmanna. Varðandi sakarefni málsins verður ekki framhjá því litið, þótt kærandi sé sjálfstætt starfandi lögmaður, að undirliggjandi ágreiningur skjólstæðings kærða laut meðal annars að sölumeðferð fasteignar hjá fasteignasölunni D ehf. frá júnímánuði 2017 en kærandi er skráður meðal starfsmanna á vefsíðu tilgreindrar fasteignasölu á grundvelli löggildingar hans til sölu fasteigna. Er ekkert komið fram í málinu sem bent getur til þess að atvik að baki kvörtun geti hlutrænt séð fallið undir 30. gr. siðareglnanna. 

Varðandi tilvísun til 31. gr. siðareglna lögmanna er þess að gæta að kærði vann og undirritaði stefnu þann 24. janúar 2020 fyrir hönd síns umbjóðanda sem leiddi meðal annars til málshöfðunar á hendur kæranda með birtingu stefnu þann 6. febrúar 2020. Ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að sú málshöfðun hafi lotið að ætlaðri bótaskyldu vegna starfa kæranda við sölumeðferð nánar tilgreindrar fasteignar sem umbjóðandi kærða hafði fest kaup á í júní 2017. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að sá ágreiningur hafi verið á milli umbjóðanda kærða annars vegar og kæranda hins vegar. Var ritun og birting stefnunnar þannig liður í lögmannsstörfum kærða í þágu umbjóðanda síns en ágreiningslaust er að viðkomandi umbjóðandi er ekki lögmaður. Verða þær skyldur sem hvíla á lögmönnum samkvæmt 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna ekki heimfærðar til innbyrðis deilna sem umbjóðandi lögmanns kann að eiga í við annan lögmann. Í því samhengi verður ekki framhjá því litið að kærði hefur skýlausa kröfu til þess sem lögmaður að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðinga sína, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. 

Með vísan til framangreinds er hvorki unnt að leggja til grundvallar að málsaðilar eigi eða hafi átt í innbyrðis deilum sem lögmenn í skilningi 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna né að stefna sú sem kærði undirritaði fyrir hönd umbjóðanda síns, dags. 24. janúar 2020, hafi falið í sér kæru fyrir yfirvöldum eða dómstólum af hálfu kærða vegna starfa kæranda. Samkvæmt því eru ekki efni að áliti nefndarinnar til að telja að 31. gr. siðareglnanna hafi tekið til hinna umþrættu atvika í máli þessu.  

Líkt og áður greinir var kæranda birt hin umþrætta stefna þann x. febrúar 20xx þar sem þess var krafist að kæranda yrði gert að greiða umbjóðanda kærða óskipt með öðrum stefndu skaðabótakröfu að fjárhæð 4.647.002 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Samkvæmt því fór um skyldur kærða gagnvart kæranda samkvæmt V. kafla siðareglna lögmanna þar sem mælt er fyrir um skyldur lögmanns við gagnaðila, svo sem áður er rakið. 

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir undanfarandi samskiptum áður en til málshöfðunar kom. Er þar meðal annars gerð grein fyrir afriti bréfa sem kærði beindi til fyrirsvarsmanns fasteignasölunnar D ehf. þann 12. júlí 2019 þar sem því var meðal annars hreyft að „fasteignasalinn“ hefði ekki gætt að ákvæðum 11. – 13. gr. laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa við sölumeðferð viðkomandi fasteignar jafnframt því sem óskað var eftir afstöðu „fasteignasölunnar“ til erindisins. Þá var þar tiltekið að látið yrði reyna á málið fyrir dómi ef ekki umsemdist.  

Fyrir liggur að í áframhaldandi tölvubréfasamskiptum kærða og fyrirsvarsmanns fasteignasölunnar, þ.e. á tímabilinu frá 31. júlí til 22. október 2019, var því hvorki borið við af hálfu kærða fyrir hönd síns umbjóðanda að kærandi hefði viðhaft skaðabótaskylda háttsemi við sölumeðferð fasteignarinnar né var nokkur slík fjárkrafa þar höfð uppi sem síðari dómkrafa tók til.  

Að áliti nefndarinnar verður skýrlega leitt af málsgögnum að kærði hafi ekki fyrir málshöfðun þann x. febrúar 20xx kynnt sérstaklega fyrir kæranda, sem gagnaðila, framkomnar kröfur umbjóðanda síns og með því veitt kæranda kost á að ljúka málinu með samkomulagi. Var háttsemi kærða gagnvart kæranda að þessu leyti í andstöðu við 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna. Getur engu breytt í því efni að mati nefndarinnar þótt kærði hafi áður óskað eftir afstöðu fasteignasölunnar sjálfrar til ætlaðra brota samkvæmt lögum nr. 70/2015 í undirliggjandi máli enda um tvo sjálfstæða aðila að ræða, þ.e. annars vegar fasteignasöluna D ehf. og hins vegar kæranda. Þá verður ekki fallist á með kærða að kæranda hafi mátt vera ljóst af fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum að kröfur kynnu að verða hafðar uppi á hendur honum persónulega fyrir dómi. 

Líkt og áður greinir gildir 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna ekki í þeim tilvikum þegar lögsókn má ekki bíða vegna yfirvofandi réttarspjalla eða annars tjóns á hagsmunum skjólstæðings, eða ef atvikum að öðru leyti hagar svo til að rétt sé og nauðsynlegt að hefja lögsókn án tafar, sbr. 2. mgr. 36. gr. siðareglnanna. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til að slík atvik sem 2. mgr. 36. gr. siðareglnanna tekur til hafi verið fyrir hendi þegar kærði höfðaði mál fyrir hönd síns umbjóðanda á hendur kæranda með birtingu stefnu þann x. febrúar 20xx. Hefur kærði ekki heldur borið því við fyrir nefndinni. Samkvæmt því verður að telja að sú háttsemi kærða, að hafa ekki kynnt kæranda kröfur umbjóðanda síns fyrir lögsóknina, hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 36. gr. siðareglnanna og telst hún aðfinnsluverð.   

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Kröfum kæranda, A lögmanns, um að kærða, B lögmanni, verði gert að biðjast afsökunar á framferði sínu og að kæranda verði úrskurðaðar miskabætur, er vísað frá nefndinni. 

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að kynna ekki kæranda, A lögmanni, fjárkröfur skjólstæðings síns og gefa honum með því kost á að ljúka viðkomandi máli með samkomulagi fyrir lögsókn, er aðfinnsluverð 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður 

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður  

Valborg Þ. Snævarr lögmaður 

 

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

 

________________________ 

Sölvi Davíðsson