Mál 21 2020

Mál 21/2020

Ár 2020, fimmtudaginn 17. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2020:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 11. september 2020 erindi kæranda, A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna, sbr. einnig 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 15. september 2020 og barst hún þann 2. október sama ár. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 5. október 2020. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust til nefndarinnar þann 23. október 2020 og voru þær kynntar kærða með bréfi þann 26. sama mánaðar. Loks bárust frekari athugasemdir vegna málsins frá kærða þann 3. nóvember 2020 og var kærandi upplýstir um það efni með bréfi dags. 10. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum var C ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms x. apríl 20xx í máli nr. G-xx/xxxx. Var kærandi skipaður skiptastjóri í þrotabúinu sama dag. Fyrir liggur að skiptastjóri beindi boðunarbréfi til fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila þann x. apríl 20xx vegna skýrslugjafar sem fyrirhuguð var þann x. sama mánaðar. Þá mun kærandi hafa gefið út innköllun vegna skiptanna sem birt var hið fyrra sinn í Lögbirtingablaði þann x. apríl 20xx.

Kærandi hefur upplýst fyrir nefndinni að eftir eignaleit í kjölfar skipunar hans sem skiptastjóra hafi komið í ljós fasteign sem tilheyrði þrotabúinu að D  í Reykjavík. Aðrar eignir hafi ekki fundist að frátöldum lítilsháttar fjármunum í viðskiptabanka búsins.

Fyrir liggur að kærandi móttók tölvubréf frá héraðsdómi vegna búsins þann x. apríl 20xx þar sem upplýst var um að fyrirsvarsmaður þrotaaðila hefði í hyggju að leggja fram endurupptökubeiðni og að af þeim sökum væri óskað eftir að kærandi myndi halda að sér höndum á meðan það ferli væri í gangi. Staðfesti kærandi sama dag að hann myndi bíða með frekari aðgerðir í þágu búsins „fram í næstu viku“ og að hann teldi varhugavert að bíða mikið lengur með hagsmuni búsins.

Kærði upplýsti í tölvubréfi til kæranda, dags. x. apríl 20xx, að hann færi með hagsmunagæslu í þágu fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila sem hefði í hyggju að leggja fram beiðni um endurupptöku málsins í héraði. Lýsti kærði því að mikilvægt væri af þeim sökum að innköllun yrði ekki gefin út. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að innköllun hefði verið gefin út.

Í kjölfar fyrirspurnar kæranda upplýsti fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila um þann x. apríl 20xx að hann kannaðist ekki við boðun skiptastjóra og að hann kæmist ekki þann dag til skýrslugjafar. Kveðst kærandi hafa ákveðið að bíða með nýja boðun til skýrslugjafar í ljósi fyrri samskipta um fyrirhugaða kröfugerð um endurupptöku málsins fyrir dómi.

Kærandi hefur lýst því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að þrotabúinu hafi borist kauptilboð í fyrrgreinda fasteign þann x. maí 20xx og að af þeim sökum hafi hann óskað samdægurs fregna frá héraðsdómi um stöðu málsins þar. Kom fram í svari dómsins þann x. sama mánaðar að ekkert hefði gerst í málinu og að endurupptökubeiðni hefði ekki borist. Þá hefur verið upplýst fyrir nefndinni að ekki hafi komið til slíkrar endurupptökubeiðni á síðari stigum.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréf sem kærandi beindi til E hf. þann x. maí 20xx, en tilgreindur banki mun hafa verið veðhafi viðkomandi fasteignar. Kom fram í tölvubréfinu að borist hefði tilboð í fasteignina, sem væri eina eign þrotabúsins, að fjárhæð x. milljónir króna sem þýddi að lögveðskröfur og áhvílandi veðskuldir fengjust greiddar að fullu. Hins vegar myndi tilboðsverð ekki duga fyrir öllum almennum kröfum sem lýst hefði verið á því stigi. Kvaðst kærandi ekki hafa samþykkt tilboðið og að hann vildi leita afstöðu bankans sem veðhafa eignarinnar fyrst en tilboðið gilti til kl. 23:00 hinn x. maí 20xx. Í svari bankans til kæranda, dags. x. maí 20xx, kom fram að tilboðsverð væri talsverð lækkun frá kauptilboði sem bankanum hefði verið kynnt í októbermánuði 20xx. Þá var því lýst að bankinn gerði ekki athugasemd við sölu að því gefnu að allar áhvílandi kröfur hans yrðu greiddar. Þyrfti skiptastjóri sjálfur, þ.e. kærandi, að meta hvort tilboðsverðið væri ásættanlegt söluverð.

Kærandi lýsir því að hann hafi samþykkt kauptilboðið degi síðar fyrir hönd þrotabúsins, þ.e. x. maí 20xx, og að gengið hafi verið frá kaupsamningi þann x. júní sama ár.

Kærði beindi tölvubréfi til kæranda vegna þrotabúsins þann x. júní 20xx en upplýst hefur verið að aðilar hafi jafnframt rætt saman í síma fyrr þann dag. Í tölvubréfi kærða kom fram að fasteignin að D í Reykjavík væri eign umbjóðanda aðilans, þ.e. F ehf., að grundvöllur eignarhaldsins væri kaupsamningur frá x. desember 20xx og að kröfu á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. yrði lýst. Vakti kærði jafnframt athygli á að upplýsingar um sölu fasteignarinnar hefðu komið fram í fyrri ársreikningi og skattframtölum þrotaaðila. Áskildi kærði umbjóðanda sínum rétt til þess að krefjast bóta á tjóni sem hann yrði fyrir, til að mynda ef eignin hefði verið seld undir markaðsvirði hennar. Þá gerði kærði athugasemdir við að sala eignarinnar hefði farið fram án þess að skýrsla hefði verið tekin af þrotamanni, óskað hefði verið eftir bókhaldi búsins og á meðan skiptastjóri hefði verið upplýstur um fyrirhugaða endurupptökubeiðni. Af þessum sökum væri farið fram á að kærandi, sem skiptastjóri, héldi að sér höndum og/eða félli frá sölunni þangað til afstaða til sértökukröfu umbjóðanda kærða lægi fyrir.

Í svari kæranda til kærða, dags. x. júní 20xx, kom fram að búið væri að undirrita kaupsamning um fasteign búsins. Auk þess hefði veðhafi ekki kannast við þá sölu fasteignarinnar sem umbjóðandi kærða lýsti.

Í svörum kærða til kæranda, dags. x., x. og x. júní 20xx, voru ítrekaðar fyrri gagnabeiðnir, þar á meðal um að afhent yrði afrit af undirrituðu kauptilboði, upplýsingar um söluþóknun lögmannsstofu kæranda, afrit af boðun fyrirsvarsmanns í skýrslutöku eftir fyrri afboðun og afrit af samskiptum kæranda við héraðsdóm vegna málefna búsins. Í áframhaldandi samskiptum málsaðila til x. júní 20xx kom fram hverjir væru umbjóðendur kærða við búskiptin og fyrir hvaða aðila gagnabeiðni hefði verið sett fram.

Þann x. júní 20xx sendi kærandi kröfuskrá þrotabúsins í tölvubréfi til umboðsmanna kröfuhafa, þar á meðal kærða. Var meðal annars tiltekið í kröfuskrá að kærði væri skráður fyrir lýstri sértökukröfu F ehf. nr. 15 í kröfuskrá og að skiptatsjóri hefði hafnað þeirri kröfu þar sem fylgigögn styddu ekki kröfuna á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.

Með tölvubréfi fulltrúa kæranda til kærða, dags. x. júní 20xx, var fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila og umbjóðandi kærða boðaður á ný til skýrslugjafar vegna málefna búsins þann x. júlí 20xx. Þann sama dag var óskað eftir af hálfu kæranda að fyrrum bókari þrotaðila myndi afhenda bókhald aðilans án tafar.

Fyrir liggur að skiptafundur var haldinn í þrotabúinu þann x. júní 20xx og er ágreiningslaust að kærði sótti þann fund fyrir hönd þriggja kröfuhafa. Meðal málsgagna er að finna fundargerðardrög frá þeim fundi, sem kærandi sendi til lögmanna kröfuhafa þann sama dag með ósk um yfirferð og athugasemdir ef einhverjar væru. Svo sem í drögunum greinir mótmælti kærði afstöðu kæranda, sem skiptastjóra, um höfnun fyrrgreindrar sértökukröfu auk þess sem hann gerði ýmsar athugasemdir við störf skiptastjóra á fundinum og krafðist tiltekinna gagna. Þá mun hafa verið ákveðið á fundinum að honum yrði ekki slitið heldur frestað í því skyni að veita kæranda færi á að leggja fram umbeðin gögn og til að atkvæðagreiðsla gæti farið fram um nánar tilgreind málefni búsins.

Af fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum frá x. júní til x. júlí 20xx verður ráðið að lögmenn ýmissa kröfuhafa, þar á meðal kærði, hafi gert verulegar athugasemdir við fundargerðardrög kæranda  jafnframt því sem krafa hafi verið gerð um að kærandi boðaði til framhaldsfundar vegna skiptanna sem haldinn skyldi innan viku frá fyrri fundi. Ítrekaði kærði jafnframt í tölvubréfi til kæranda þann síðastgreinda dag, sem lögmenn nánar tilgreindra kröfuhafa fengu jafnframt afrit af, beiðni um afhendingu þeirra gagna sem rætt hafði verið um á skiptafundinum og að uppfærð fundargerð yrði send. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að gögin yrðu send og að hann væri að vinna í því að finna tíma sem gengi upp sem fyrst en að hann gæti ekki lofað því að það næðist í „næstu viku en það yrði þá í síðasta lagi í vikunni þar á eftir.

Í áframhaldandi tölvubréfasamskiptum kæranda og lögmanna kröfuhafa þann x. júlí 20xx kom fram af hálfu kærða að fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaðila gæti hliðrað til í dagskránni hjá sér og frestað boðaðri skýrslutöku til þess að koma mætti fyrir framhalds skiptafundi á þeim tíma. Kvaðst kærandi hins vegar ekki vilja fresta skýrslunni meira en orðið hefði. Ítrekuðu lögmenn annarra tilgreindra kröfuhafa fyrri gagna- og upplýsingabeiðni úr hendi kæranda, sem skiptastjóra, í tölvubréfum dagana x. og x. júlí 20xx.

Þann x. júlí 20xx beindi kærði fyrir hönd umbjóðanda síns F ehf. skriflegum aðfinnslum til héraðsdóms eftir ákvæði 76. gr. laga nr. 21/1991 vegna starfa kæranda sem skiptastjóra viðkomandi þrotabús. Var kærandi upplýstur um það efni í tölvubréfi kærða þann sama dag jafnframt því sem lögmenn annarra kröfuhafa við búskiptin fengu slíka tilkynningu.

Í tölvubréfi kærða til kæranda, sem sent mun hafa verið kl. 12:30 þann x. júlí 20xx, var því lýst að fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila, þ.e. umbjóðandi kærða, teldi nauðsynlegt að fresta fyrirhugaðri skýrslutöku og óskað eftir að nýr fundartími yrði fundinn. Kærandi hafnaði þeirri beiðni í tölvubréfi til kærða sem sent var kl. 13:01 þann sama dag jafnframt því sem krafist var að bókhald þrotabúsins yrði afhent ekki seinna en við boðaða skýrslutöku. Í áframhaldandi samskiptum aðila kom fram af hálfu kærða að umbjóðandi hans teldi rétt að afstaða héraðsdóms til aðfinnslna lægi fyrir áður en skýrsla yrði gefin og að því þyrfti hann að afboða sig. Kærandi kvaðst á hinn bóginn ekki reiðubúinn að fresta skýrslunni nema veigamikil rök lægju fyrir auk þess sem ítrekuð var beiðni um bókhaldsgögn. Þá var eftirfarandi tiltekið í tölvubréfum kærða til kæranda kl. 13:39 og 13:42 þennan sama dag:

Ég get komið bókhaldi til skiptastjóra, t.a.m. þegar boðað verður til framhalds skiptafundar.

Umbjóðandi minn getur afhent bókhald þegar skiptastjóri hefur tíma í dagskrá sinni.

Í enn öðru tölvubréfi sem kærði sendi til kæranda og lögmanna annarra kröfuhafa við búskiptin kl. 13:37 þann x. júlí 20xx var eftirfarandi tiltekið:

G fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins hefur boðað forföll í skýrslutöku á morgun kl. 14:00. Vegna þessa sé ég ekki betur en að skiptastjóri hafi lausan tíma fyrir skiptafund á þeim tíma sem fyrirhugað var að hafa skýrslutöku. – Til upplýsinga fyrir aðra kröfuhafa þá gerði umbjóðandi minn aðfinnslur við störf skiptastjóra fyrr í dag, sbr. meðfylgjandi.

Fyrir liggur að skýrsla var tekin af fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila á skrifstofu kæranda, sem skiptastjóra, í samræmi við boðun þann x. júlí 20xx. Af málsgögnum verður jafnframt ráðið að kærandi hafi átt í samskiptum við kærða og fyrrum bókhaldsþjónustuveitanda þrotaaðila fyrir skýrslutökuna og að bókhaldið hafi verið afhent fyrir upphaf skýrslutökunnar. 

Á meðal málsgagna er jafnframt að finna tölvubréf sem kærði sendi til kæranda þann x. ágúst 20xx vegna þrotabúsins. Var þar tiltekið að umbjóðandi kærða hefði engin viðbrögð fengið frá kæranda, þ.e. hvorki um boðun á ágreiningsfund né hugmynd um mögulegar sættir. Jafnframt því hefði ekki enn verið boðað til framhaldsskiptafundar.

Með úrskurði héraðsdóms x. október 20xx í máli nr. x-xxxx/20xx var kæranda vikið úr starfi skiptastjóra í þrotabúinu, en til sóknar í málinu var meðal annars F ehf. sem kærði annaðist hagsmunagæslu fyrir. Var tiltekið í forsendum úrskurðarins það mat dómsins að kærandi hefði brotið alvarlega gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum samkvæmt lögum og að framferði hans hefði verið með þeim hætti að ekki þætti réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum.

Líkt og áður greinir hafði kærandi áður beint kvörtun í máli þessu til nefndarinnar, þ.e. þann 11. september 2020.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta áminningu eða öðrum viðeigandi viðurlögum að mati nefndarinnar. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða.

Kærandi vísar til þess að kvörtun varði samskipti hans, sem skipaðs skiptastjóra í þrotabúi C ehf., og hins kærða lögmanns vegna málefna þrotabúsins. Hafi kærði með háttsemi sinni gert á hluta kæranda sem stríði gegn lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna. Hljóti vinnubrögð kærða að teljast vítaverð og ekki í samræmi við góða og gegna lögmannshætti, sbr. 1., 2., 3., 11., 25., 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

Varðandi hin ætluðu brot vísar kærandi í fyrsta lagi til þess að kærði hafi gætt andstæðra hagsmuna margra umbjóðenda gagnvart kæranda og með því brotið gegn 11. gr. siðareglna lögmanna. Byggir kærandi á að baki því skýlausa banni sem kveðið sé á um í greininni liggi sjónarmið tengd sjálfstæði lögmanna og að lögmaður leggi ætíð það til málanna sem hann veit satt og rétt, þar á meðal að veita skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans og láti ekki óviðkomandi hagsmuni hafa áhrif á störf sín.

Kærandi byggir á að augljóst sé að kærði hafi sinnt andstæðum hagsmunum margra umbjóðenda í einu og sama málinu og hafi til að mynda mætt á skiptafund þann x. júní 20xx fyrir hönd H lögmannsstofu sem sé kröfuhafi í búinu, fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila, sem og F ehf. og J ehf. sem lýst hafi sérstökukröfum í búið.

Kærandi bendir á að F ehf. haldi því fram að eina eign búsins tilheyri félaginu og því séu hagsmunir þess bundnir við að sú eign verði tekin undan skiptum. Af því myndi leiða eignaleysi búsins og að ekkert fengist upp í lýstar kröfur. H hafi hins vegar sem kröfuhafi hagsmuni af því að eitthvað fáist upp í kröfu félagsins og að búið verði ekki gert eignalaust. Þá kunni fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila að hafa allt aðra hagsmuni af búskiptunum, svo sem varðandi mögulega rannsókn skiptastjóra á fjárreiðum búsins, úttektum úr búinu og fleira í þeim dúr.

Samkvæmt því sé ljóst að hagsmunirnir sem kærði gæti fari ekki saman og séu því andstæðir. Hafi háttsemi kærða því brotið í bága við 11. gr. siðareglna lögmanna sem og 3. og 8. gr. þeirra.

Í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar vísaði kærandi jafnframt til þess að lögmenn geti ekki lengur komist hjá banni 11. gr. siðareglna lögmanna með því að afla samþykkis skjólstæðinga sinna fyrir hagsmunagæslunni þrátt fyrir mögulega hagsmunaárekstra. Væri bannið til að stuðla að sjálfstæði lögmannastéttarinar. Sé því ekki lengur hægt að bera samþykki skjólstæðinga fyrir sig, fari lögmaður með andstæða hagsmuni, líkt og áður hafi verið.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að kærði hafi beitt kæranda þvingunum með ólögmætum hætti og með því brotið gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1., 2., 3. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi bendir á að samkvæmt 3. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 teljist skiptastjóri opinber sýslunarmaður. Skylda til að verða við kvaðningu skiptastjóra um að mæta á fund hans og veita honum upplýsingar og láta honum í té gögn sem hann krefst vegna gjaldþrotaskipta hvíli á stjórnarmönnum gjaldþrota félags, endurskoðanda, framkvæmdastjóra, deildarstjóra og öðrum samsvarandi forráðamönnum félagsins eða stofnunarinnar, svo og þeim sem höfðu látið af slíkum störfum áður en til gjaldþrotaskipta kom, sbr. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991.

Um hin ætluðu brot kærða að þessu leyti vísar kærandi til þess að kærði hafi reynt að þvinga kæranda, sem opinberan sýslunarmann, til þess að halda framhaldsfund með ólögmætri þvingun sem falist hafi í því að neita að hlíta skýru lagaboði. Vísar kærandi sérstaklega í því skyni til eftirfarandi efnis í tölvubréfum kærða til kæranda frá 9. júlí 2020:

Ég get komið bókhaldi til skiptastjóra, t.a.m. þegar boðað verður til framhalds skiptafundar.

Umbjóðandi minn getur afhent bókhald þegar skiptastjóri hefur tíma í dagskrá sinni.

Kærandi byggir á að með háttsemi þessari hafi kærði gert tilraun til þess að beita opinberan sýslunarmann ólögmætri þvingun sem tengst hafi störfum hans sem lögmanns. Telur kærandi að sú háttsemi kærða varði ámælum, hið minnsta aðfinnslum. Feli hin ámælisverða hegðun kærða í sér þvingun til handa kæranda í þeim tilgangi að ná fram skiptafundi. Sé ekki unnt að líða slík vinnubrögð, enda um brot á framangreindum reglum að ræða. Að auki standi réttarfarsleg úrræði til boða samkvæmt lögum nr. 21/1991 í þeim tilvikum þegar kröfuhafi telur skiptastjóra ekki sinna kröfu um boðun til skiptafundar. Hafi kærði átt að nýta sér þau lagalegu úrræði í stað þess að leggjast svo lágt að reyna að þvinga skiptastjóra með þessum hætti.

Vísað er til þess að kærði geti ekki beitt þeirri vörn fyrir sig að hann hafi verið að framfylgja vilja og ósk umbjóðanda síns með athæfinu. Eigi kærði að efla rétt og hrinda órétti og aðeins leggja það til málanna sem hann veit satt og rétt. Í því felist að kærði eigi ekki að fylgja eftir óskum umbjóðanda sem stangast á við lög og reglur, sbr. í þessu tilviki 1. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess hafi kærði farið út fyrir þau mörk sem 18. gr. laga nr. 77/1998 setji lögmönnum. Hafi kærði þannig reynt að beita ólögmætum aðgerðum til þess að ná fram óskum umbjóðenda sinna.

Þá telur kærandi að nefndin verið einnig að taka tillit til þess að lögmaður eigi að standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar, sbr. 3. gr. siðareglna lögmanna. Í því felist að lögmaður megi ekki láta stjórnast af hagsmunum annarra, þar með talið umbjóðenda, til þess að viðhafa nokkuð það sem stangist á við lög og reglur og grefur undan trú almennings til sjálfstæðra og faglegra vinnubragða lögmanna. Sömu rök eigi við um heiður lögmannastéttarinnar og skyldur kærða samkvæmt 2. gr. siðareglnanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar var þeirri staðhæfingu kærða mótmælt að beðist hefði verið afsökunar á orðalagi umrædds tölvubréfs. Áréttar kærandi að lögmenn verði að gæta að því að láta ekki hagsmunagæslu fyrir hönd umbjóðanda hlaupa með sig í gönur, jafnvel þótt kapp færist í kinn. Með athæfinu hafi kærði reynt að koma umbjóðanda sínum undan skýru lagaboði og þannig hindrað framgang réttar og stuðlað að framgangi óréttar.

Í þriðja lagi vísar kærandi til þess að kærði hafi viðhaft dónaskap í garð kæranda og með því brotið gegn 25. og/eða 34. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi byggir á að kærði hafi gerst brotlegur á framangreindum reglum með því að hafa sýnt af sér rakinn dónaskap með því að senda tölvubréf á tiltekna kröfuhafa og lögmenn þeirra þann 9. júlí 2020. Hafi tilgangurinn verið að koma höggi á kæranda og að koma fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila undan skýrslu og tefja afhendingu bókhalds búsins. Bendir kærandi á að sem starfandi skiptastjóri hafi hann haft stöðu gagnaðila í málinu en að engu að síður sé einnig hægt að heimfæra atvikið undir 25. gr. siðareglnanna í ljósi þess að kærandi sé einnig lögmaður.

Kærandi byggir aukinheldur á að allt framangreint sýni að kærði hafi hegðað sér án nokkurs tillits til þeirra skyldna sem á honum hvíla samkvæmt 1. og 2. gr. siðareglna lögmanna. Hafi hegðun hans verið lögmannastéttinni til minnkunar og í öllu falli ekki til þess fallin að vernda heiður hennar. Þannig hafi kærði gerst sekur um að beita opinberan sýslunarmann ólögmætri þvingun sem stangist á við ákvæði 1. – 3. gr. siðareglna lögmanna. Áréttar kærandi jafnframt að góðir lögmannshættir séu ekki tæmandi taldir í siðareglunum, sbr. 44. gr. þeirra, og að skoða þurfi því sérstaklega í málinu hvort kærði hafi gerst brotlegur við góða lögmannshætti almennt.

Kærandi hafnaði því í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar að það hefði verið nauðsynlegur þáttur í hagsmunagæslu fyrir umbjóðanda að senda tölvubréf, líkt og kærði gerði þann 9. júlí 2020, á tiltekna kröfuhafa og lögmenn þeirra til að tilkynna þeim að tími hefði losnað í dagskrá skiptastjóra svo ekkert stæði því í vegi að halda skiptafund degi seinna. Hafi tilgangurinn verið öðrum þræði að koma höggi á kæranda og koma fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila undan skýrslu og tefja afhendingu bókhalds. Með háttsemi sinni hafi kærði leitast við að æsa aðra kröfuhafa upp gegn skiptastjóra, í því skyni að setja skiptastjóra undir pressu, og dreifa þannig athyglinni frá kærða sjálfum. Fyrir liggi að ekki sé boðað til skiptafundar með slíkum hætti, líkt og kærði þekki, hvað þá að kærði hafi getað ráðstafað tíma annarra með slíku athæfi. Þá lúti kvörtunin ekki að þeirri ákvörðun umbjóðanda kærða að vilja ekki mæta í skýrslutöku heldur framferði kærða við að koma þeim skilaboðum á framfæri.

III.

Kærði krefst þess að kröfu kæranda sem komi fram undir kröfulið nr. 1 verði vísað frá úrskurðarnefndinni og að öllum kröfum kæranda að öðru leyti verið hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði kveðst hafna því að hafa brotið gegn lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna í tengslum við ágreining F ehf. vegna starfa kæranda sem skiptastjóra þrotabús Fasteignafélagsins C ehf. Þá kveðst kærði einnig hafna því að hafa gerst brotlegur í starfi í tengslum við hagsmunagæslu í þágu fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila.

Kærði byggir á að vísa eigi kvörtun kæranda sem lúti að 11. gr. siðareglna lögmanna frá nefndinni enda eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni til sóknar fyrir kröfunni. Í framkvæmd hafi úrskurðarnefnd lögmanna metið það svo að skylda lögmanns til þess að taka ekki að sér ósamrýmanlega hagsmuni snúi fyrst og fremst að skjólstæðingum hans, sbr. úrskurð í máli nr. 8/2015, sem í tilfelli kærða hafi veitt samþykki sitt fyrir hagsmunagæslunni, sbr. úrskurð í máli nr. 28/2016. Sé kærandi ótengdur þriðji aðili sem hafi enga lögvarða hagsmuni af hagsmunagæslu kærða gagnvart þeim umbjóðendum sem fjallað sé um í kvörtun. Beri því að vísa kvörtun kæranda að þessu leyti frá nefndinni.

Um þetta efni byggir kærði á til vara að hann hafi ekki gerst brotlegur við 11. gr. siðareglna lögmanna, eða eftir atvikum öðrum ákvæðum siðareglnanna.

Vísar kærði hvað þetta varðar í fyrsta lagi til þess að hann hafi ekki gætt hagsmuna H slf. við gerð kröfulýsingar við búskiptin. Komi skýrt fram í kröfulýsingu og kröfuskrá að annar lögmaður sé tilgreindur lögmaður félagsins. Hafi kærði þannig fyrst fengið upplýsingar um lýsta kröfu H slf. í viðkomandi þrotabú þegar kröfuskrá skiptastjóra hafi verið send kröfuhöfum í aðdraganda skiptafundar. Kærði hafi hins vegar verið bókaður mættur fyrir hönd félagsins á skiptafundinn x. júní 2020 í fundargerðardrögum. Hafi þar ekki verið um að ræða endanlega fundargerð þar sem kröfuhafar hafi tekið yfir skiptafund og frestað  honum með atkvæðagreiðslu vegna synjunar kæranda á að afhenda fundarmönnum gögn um sölu fasteignarinnar að D í Reykjavík. Þá hafi kröfuhafar gert margvíslegar og ítrekaðar athugasemdir við fundargerðardrögin sem kærandi hafi hunsað. Vísar kærði jafnframt til þess að krafa lögmannsstofunnar hafi engin áhrif haft á hagsmunagæslu kærða, enda hafi viðkomandi umbjóðendur samþykkt fyrir sitt leyti áframhaldandi hagsmunagæslu hans í málinu.

Í öðru lagi mótmælir kærði því sem röngu að hann hafi mætt á skiptafundinn fyrir hönd fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila. Vísar kærði um það efni sérstaklega til fyrirliggjandi fundargerðardraga. Er því lýst að hið rétta sé að kærði hafi mætt fyrir hönd F ehf., sem lýst hafi sértökukröfu í fasteignina að D, og J ehf., sem lýst hafi sértökukröfu vegna lausamuna sem hafi haft óverulegt fjárhagslegt gildi og bókhaldsgagna. Hafi hagsmunir tilgreindra kröfuhafa ekki verið andstæðir enda krafist afhendingar viðkomandi eigna utan skuldaraðar. Þá hafi krafa J ehf. engin áhrif haft á aðra kröfuhafa enda verðmæti viðkomandi muna óverulegt. Styðji fyrirliggjandi gögn við skiptin það efni enda í engu vikið að kröfu tilgreinds aðila. Þá hafi kærandi, sem skiptastjóri, afhent viðkomandi félagi þá lausamuni sem kröfugerð hafi tekið til en með því hafi hagsmunagæslu kærða verið lokið.

Í þriðja lagi vísar kærði til þess að hagsmunagæsla í þágu fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila hafi aðallega falist í milligöngu vegna samskipta kæranda og fyrirsvarsmannsins í tengslum við afboðun skýrslutöku og afhendingu bókhaldsgagna. Þá hafi kærði mætt með fyrirsvarsmanninum í skýrslutöku hjá kæranda. Kærði vísar til þess að umbjóðendur hans hafi verið upplýstir um hagsmunagæslu hans og veitt samþykki sitt fyrir henni. Það eitt og sér leiði til þess að hafna eigi kröfu kæranda.

Í fjórða lagi bendir kærði á að kærandi hafi ekki talið ástæðu til þess að gera athugasemdir við hagsmunagæslu kærða fyrr en eftir að kærði hafi gert aðfinnslur fyrir hönd umbjóðanda til héraðsdóms vegna starfa kæranda og beint kvörtun til nefndarinnar. Hafi það verið gert eftir upplýsingagjöf fulltrúa K hf. á skiptafundi um að kærandi hefði sagt ósatt um meintan veðhafafund sem kærandi hafði upplýst ranglega um að hefði farið fram.

Með vísan til alls framangreinds hafnar kærði því að hafa gerst brotlegur við 11. gr. siðareglna lögmanna, eða eftir atvikum önnur ákvæði reglnanna, með hagsmunagæslu fyrir fyrrum fyrirsvarsmann þrotaaðila og þeirra kröfuhafa sem hann hafi lýst sértökukröfum fyrir enda hagsmunir aðila ekki andstæðir.

Kærði hafnar því að hafa beitt kæranda ótilhlýðilegri þvingun í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna. Vísar kærði til þess að kröfuhafar hafi tekið yfir skiptafund þann 30. júní 2020 í kjölfar þess að kærandi hafi neitað að leggja fyrir fundinn gögn sem vörðuðu sölu áðurgreindrar fasteignar. Vegna þessa hafi tillaga um frestun fundar verið lögð fram af hálfu fundarmanna og skiptastjóra falið að boða til framhaldsfundar innan sjö daga til þess að leggja fram umbeðin gögn. Hafi tillagan um frestun fundar verið samþykkt af öllum fundarmönnum, fundi frestað og skiptastjóra falið að boða til framhaldsfundar. Í kjölfar þess hafi kröfuhafar óskað eftir upplýsingum frá kæranda, sem skiptastjóra, hvenær hann hygðist boða til fundarins. Á sama tíma og fulltrúar kröfuhafi hafi átt í samskiptum við kæranda um boðun framhaldsfundar hafi kærði jafnframt átt í samskiptum við kæranda vegna afhendingar á bókhaldi þrotaaðila.

Kærði bendir á að hann hafi á tilgreindum tíma ekki átt neina aðkomu að afhendingu bókhaldsins eða meintum töfum þar á. Þá hafi hann hvorki haft bókhaldið undir höndum né upplýsingar um hvar það væri að finna.

Kærði kveðst vissulega hafa tekið fram í tölvubréfi til skiptastjóra að hann gæti „komið bókhaldi til skiptastjóra, t.a.m. þegar boðað verður til framhalds skiptafundar.“ Með þeim orðum hafi kærði átt við að hann gæti tekið að sér að koma með bókhaldið til skiptastjóra á framhaldsfundinn sem kröfuhafar hefðu falið skiptastjóra að boða til innan sjö daga frá frestun fyrri fundar. Hafi því aðeins verið um dagaspursmál að ræða varðandi afhendingu bókhaldsins. Í orðum kærða hafi hvorki falist tilraun til þess að koma í veg fyrir afhendingu bókhaldsins né tilraun til þvingunar, líkt og kærandi haldi fram í kvörtun.

Kærandi lýsir því að í framhaldi af svari hans, sem kunni að hafa verið óheppilegt með hliðsjón af ágreiningi um störf kæranda, hafi kærandi brugðist við með þeim hætti að hann teldi að túlka mætti orð kærða sem kúgunarstarfsemi. Vegna þeirra viðbragða kæranda hafi kærði brugðist strax við og upplýst kæranda að hann skyldi sjá til þess að bókhaldi félagsins yrði komið í hendur kæranda. Um leið og kærði hafi fengið upplýsingar um að hluti bókhaldsins væri á rafrænu formi hafi hann sett sig í samband við viðkomandi bókhaldsstofu og séð til þess að kærandi fengi fullt aðgengi að því. Hafi kærandi fengið rafrænan aðgang að bókhaldi félagsins þennan sama dag, þ.e. þann x. júlí 2020. Degi síðar hafi svo bókhaldsmöppur verið afhentar. Kveðst kærði hafa beðið kæranda afsökunar á óheppilegu orðalagi við sama tækifæri, í viðurvist fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila.

Samkvæmt því kveðst kærði hafna kröfu kæranda. Hafi kærði ekki haft bókhaldið undir höndum auk þess sem hann hafi engin áhrif haft á það hvort eða hvenær það yrði afhent. Telur kærði að upphlaup kæranda kunni að skýrast af þeirri staðreynd að hluti kröfuhafa hafi lýst yfir óánægju á skiptafundi þegar í ljós hafi komið að kærandi hefði hvorki tekið skýrslu af fyrirsvarsmanni né haft bókhald félagsins undir höndum við sölu fasteignarinnar þó svo að ágreiningur hafi verið uppi um eignarhald hennar. Kveðst kærði ekki hafa skýringar á því hvers vegna kærandi hefði ekki fengið bókhaldið afhent áður en hann seldi fasteignina.

Að endingu um þetta efni byggir kærði á að hin meinta háttsemi feli ekki í sér þau atvik sem talin séu upp í 35. gr. siðareglna lögmanna.

Vegna síðasta kvörtunarefnisins þá kveðst kærði hafna ávirðingum um að hafa sýnt kæranda rakinn dónaskap í þeim tilgangi að koma höggi á hann sem skiptastjóra sem og að hafa tekið þátt í að reyna að koma fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila undan skýrslutöku.

Um þetta efni bendir kærði í fyrsta lagi á að fyrirsvarsmaðurinn hafi upplýst sig um að hann hefði boðað forföll í fyrirhugaða skýrslutöku x. júlí 2020. Hafi kærði aðeins komið þeim upplýsingum áleiðis til kæranda. Hafi kærði enga aðkomu átt að þeirri ákvörðun og engar upplýsingar haft um ástæður fyrir afboðun fyrirsvarsmannsins.

Í öðru lagi kveðst kærði aðeins hafa komið upplýsingum á framfæri sem snert hafi hagsmuni kröfuhafa búsins, en fyrir liggi að kærandi hafi komið í veg fyrir að kröfuhafar gætu hist á framhaldsskiptafundi til nauðsynlegrar ráðagerðar og ákvarðanatöku. Vegna þeirrar erfiðu stöðu, þar sem kröfuhafar hafi ekki fengið upplýsingar frá kæranda sem skiptastjóra og mikilvægar upplýsingar frá K hf. um að kærandi hefði veitt kröfuhöfum rangar upplýsingar, hafi kröfuhafar tekið ákvörðun um að eiga samskipti sín á milli og halda hvor öðrum upplýstum í gegnum tölvubréfsamskipti. Hafi þau samskipti átt sér stað frá x. júní 2020 og kærandi fengið í öllum tilvikum afrit af þeim. Sé tölvupóstur sá sem vísað sé til í kvörtun hluti af þeim samskiptum kröfuhafa. Bendir kærði á að kærandi hafi ekki talið þessi samskipti óeðlilegri en svo að hann svaraði öllum kröfuhöfum búsins þann x. júlí 2020 með eftirfarandi hætti:

Það er mjög tortryggilegt B hvað þú leggur þig mikið fram núna til þess að koma umbj. þínum hjá því að gefa skýrslu hjá skiptastjóra og afhenda bókhaldið“.

Varðandi ofangreint efni bendir kærði á að óvíst sé hvort kærandi hafi með þessu ætlað sér að koma höggi á kærða eða hvort ætlunin hafi verið að saka kærða um refsiverða háttsemi. Kveðst kærði áskilja sér rétt til þess að koma að kvörtun vegna þessa á síðari stigum.

Kærði telur að umrædd samskipti séu hluti af nauðsynlegri hagsmunagæslu vegna starfa kæranda sem skiptastjóra viðkomandi þrotabús. Hafi kærandi ítrekað hunsað beiðni um upplýsingar er varði störf hans sem skiptastjóri búsins. Þannig hafi meðal annars verið óskað eftir afriti af undirrituðu kauptilboði og upplýsingum um söluþóknun í tölvubréfi þann x. júní 2020. Hafi það tölvubréf verið ítrekun á fyrri gagnabeiðni sem sett hafi verið fram á fundi þann x. júní 2020. Þá hafi krafan verið ítrekuð í tölvubréfum x. og x. júní og loks x. ágúst 2020. Vísar kærði jafnframt til ítrekaðra krafna kröfuhafa um gögn og framhaldsfund frá x. júní til x. júlí 2020. Hafi gagnabeiðni kröfuhafa í reynd verið hunsuð af kæranda þangað til hluti þeirra hafi verið lagður fram í dómi þann x. september 20xx, þ.e. með greinargerð kæranda í aðfinnslumáli nr. x-xxxx/2020.

 

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Kvörtun kæranda í málinu lýtur í fyrsta lagi að ætluðu broti kærða gegn 11. gr. siðareglna lögmanna, þ.e. með því að kærði hafi gætt andstæðra hagsmuna þriggja kröfuhafa við gjaldþrotaskipti þrotabús C ehf. sem kærandi hafi verið skiptastjóri í sem og hagsmuna fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila. Hafi sú háttsemi kærða jafnframt verið í andstöðu við 3. og 8. gr. siðareglnanna. Kærði hefur á hinn bóginn andmælt tilgreindum málatilbúnaði og krafist þess aðallega að kröfuliðnum verði vísað frá nefndinni þar sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni vegna hins ætlaða brots en til vara að honum verði hafnað.

Í II. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum. Er þar kveðið á um í 1. mgr. 11. gr. að lögmaður megi ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku.  Skal lögmaður jafnframt varast að taka að sér nýjan skólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Sama gildir um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur lögmannsstofa eða reka lögmannsstofu í félagi, sbr. 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna.

Í sama kafla siðareglnanna er meðal annars kveðið á um í 1. mgr. 8. gr. að lögmanni beri að annast hagsmunagæslu í þágu skjólstæðinga sinna án tillits til eigin hagsmuna eða annarra utanaðkomandi atriða er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft. Þá er þar kveðið á um í 3. mgr. að lögmaður skuli ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Þá er loks tiltekið í 3. gr. siðareglnanna, sem mælir fyrir um góða lögmannshætti almennt, að lögmaður skuli vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Skal lögmaður ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns.

Ágreiningur í þessum þætti lýtur meðal annars að því hvort kvörtunarefnið geti í eðli sínu falið í sér kærði hafi gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Að mati nefndarinnar er hér um að ræða atriði sem þarf að taka til efnislegrar úrlausnar á grundvelli þeirra skilyrða sem mælt er fyrir um fyrrgreindri lagagrein til þess að bera kvörtun undir nefndina. Samkvæmt því er ekki unnt að vísa kvörtunarefninu frá nefndinni á grundvelli skorts á lögvörðum hagsmunum, líkt og kærði byggir á, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar í málum nr. 8/2015 og 28/2016. Verður því að hafna kröfu kærða um að kvörtun kæranda að þessu leyti verði vísað frá nefndinni.

Varðandi hið efnislega mat er á hinn bóginn til þess að líta að skylda lögmanns til að taka ekki að sér ósamþýðanlega hagsmuni, sbr. 11. gr. siðareglnanna, snýr fyrst og fremst að skjólstæðingum hans. Að áliti nefndarinnar fæst ekki með nokkru móti séð að kærði hafi með hagsmunagæslu sinni í þágu umbjóðenda við gjaldþrotaskipti viðkomandi þrotabús brotið gegn kæranda. Hefur kærandi þannig engin haldbær rök fært fyrir því í málinu hvernig hin ætlaða brotlega háttsemi kærða á að hafa gert á hans hlut í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í samræmi við framangreint verður hvorki talið að kærandi geti komið fram fyrir nefnda umbjóðendur kærða gagnvart nefndinni né að hann geti að lögum haft uppi kröfur í máli þessu á grundvelli eigin hagsmuna vegna þeirra atvika sem hér um ræðir.

Verður í þessu ljósi að hafna því að kærði hafi gert á hlut kæranda, í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, vegna þessa kvörtunarefnis.

III.

Kvörtun kæranda í málinu lýtur í öðru lagi að ætlaðri ólögmætri þvingun kærða gagnvart kæranda. Nánar tiltekið er kvörtun kæranda á því að reist að kærði hafi gerst brotlegur gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 1., 2., 3. og 35. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa reynt að þvinga kæranda, sem opinberan sýslunarmann, til þess að halda framhaldsfund við gjaldþrotaskiptin með ólögmætri þvingun sem falist hafi í því að neita að hlíta skýru lagaboði. Kærði hefur mótmælt málatilbúnaði kæranda um þetta efni og bent á að hann hafi aðeins í hinum umþrættu samskiptum tekið fram að hann gæti komið bókhaldi þrotabúsins til skiptastjóra á fyrirhuguðum framhaldsfundi vegna skiptanna en að hann hafi hins vegar hvorki haft það undir höndum á tilgreindum tíma né haft áhrif á það hvort eða hvenær það yrði afhent.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Áður er rakið efni 3. gr. siðareglna lögmanna en í 1. gr. þeirra er tiltekið að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í 2. gr. siðareglnanna er kveðið á um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Þá er því lýst í 35. gr. þeirra að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en nánar er lýst í greininni hvað telst meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi.

Sá ágreiningur sem hér um ræðir tekur til efnis tölvubréfa sem kærði sendi til kæranda þann x. júlí 2020 í tengslum við fyrirhugaða skýrslutöku kæranda, sem skiptastjóra, yfir umbjóðanda kærða og fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila og afhendingu bókhaldsgagna þrotaaðila. Líkt og nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan lýsti kærði því í tölvubréfi til kæranda þennan dag að umbjóðandi hans teldi nauðsynlegt að fresta hinni boðuðu skýrslutöku uns afstaða héraðsdóms til framkominna aðfinnslna í garð kæranda lægi fyrir. Kærandi kvaðst á hinn bóginn ekki reiðubúinn að fresta skýrslunni nema veigamikil rök lægju fyrir því auk þess sem hann ítrekaði fyrri kröfu um afhendingu bókhaldsgagna þrotaaðila. Í þeim umþrættu tölvubréfum sem kærði sendi til kæranda í kjölfar þeirra samskipta var eftirfarandi tiltekið:

Ég get komið bókhaldi til skiptastjóra, t.a.m. þegar boðað verður til framhalds skiptafundar.

Umbjóðandi minn getur afhent bókhald þegar skiptastjóri hefur tíma í dagskrá sinni.

Líkt og áður greinir voru hin umþrættu ummæli kærða sett fram í tölvubréfi í framhaldi samskipta sem lutu að beiðni kærða fyrir hönd umbjóðanda um frestun skýrslugjafar hjá kæranda. Að mati nefndarinnar verður vegna þeirra ummæla sem hér um ræðir að líta til þess að skiptafundi sem haldinn var þann x. júní 2020 var frestað samkvæmt kröfu nánar tilgreindra kröfuhafa, þar á meðal umbjóðenda kærða, meðal annars í því skyni að veita kæranda, sem skiptastjóra, kost á að leggja fram umbeðin gögn sem kærði hafði raunar kallað eftir ítrekað fyrir skiptafundinn svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Af eftirfarandi tölvubréfasamskiptum lögmanna ákveðinna kröfuhafa og skiptastjóra í kjölfar fundarins verður ráðið að lögmennirnir hafi staðið í þeirri trú að boðað yrði til skiptafundar innan viku frá hinum frestaða fundi. Í svari kæranda við erindi lögmanna um boðun framhaldsfundar og afhendingu gagna, dags. x. júlí 2020, kom fram af hálfu aðilans um þetta efni að hann gæti ekki lofað að það næðist að boða til fundar í „næstu viku en það yrði þá í síðasta lagi í vikunni þar á eftir.“ Samkvæmt því mátti kærði ætla, á grundvelli upplýsingagjafar kæranda, að framhaldsfundur vegna skiptanna gæti í síðasta lagi farið fram á tímabilinu 13. – 17. júlí 2020.

Í hinum umþrættu tölvubréfum kærða þann x. júlí 2020 lýsti aðilinn því að hann gæti til að mynda komið bókhaldi til skiptastjóra þegar boðað yrði til framhaldsskiptafundar og að umbjóðandi hans gæti afhent bókhaldið þegar kærandi, sem skiptastjóri, hefði tíma í dagskrá sinni. Að mati nefndarinnar er ekki unnt að fallast á með kæranda að í efni ummælanna samkvæmt orðanna hljóðan hafi falist þvingun kærða gagnvart kæranda, sem opinberum sýslunarmanni, um að bókhaldsgögn þrotaaðila yrðu ekki afhent nema áður yrði boðað til skiptafundar. Auk þess að lýsa því að umbjóðandi sinn gæti afhent bókhaldsgögnin þegar kærandi hefði tíma í dagskrá sinni tiltók kærði það eitt, í kjölfar þess að beiðni um frestun skýrslugjafar hafði verið sett fram, að hann gæti tekið að sér að afhenda viðkomandi bókhaldsgögn á skiptafundi sem kærði mátti réttilega ætla að gæti farið fram, eða í öllu falli yrði boðað til, innan nokkurra daga samkvæmt fyrirmælum kæranda.

Varðandi hina ætluðu ólögmætu þvingun verður jafnframt ekki framhjá því litið að mati nefndarinnar að samskipti vegna rafrænnar afhendingar bókhaldsgagna fóru fram síðar þennan sama dag og að til afhendingar þeirra kom degi síðar, þ.e. áður en kærandi tók skýrslu af fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila þann x. júlí 2020.

Í samræmi við allt framangreint verður ekki talið að mati nefndarinnar að kærði hafi viðhaft slíka ólögmæta þvingun gagnvart kæranda sem kvörtun hins síðargreinda tekur til. Samkvæmt því verður ekki talið að í efni og framsetningu hinna umþrættu tölvubréfa kærða til kæranda þann x. júlí 2020 hafi falist háttsemi sem hafi verið í andstöðu við 18. gr. laga nr. 77/1998 eða 1., 2., 3. og 35. gr. siðareglna lögmanna. 

IV.

Í þriðja og síðasta lagi er kvörtun kæranda á því reist að kærði hafi sýnt af sér rakinn dónaskap og brotið gegn 25. og 34. gr. siðareglna með því að hafa sent eftirfarandi tölvubréf á tiltekna kröfuhafa og lögmenn þeirra þann x. júlí 2020:

G fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins hefur boðað forföll í skýrslutöku á morgun kl. 14:00. Vegna þessa sé ég ekki betur en að skiptastjóri hafi lausan tíma fyrir skiptafund á þeim tíma sem fyrirhugað var að hafa skýrslutöku. – Til upplýsinga fyrir aðra kröfuhafa þá gerði umbjóðandi minn aðfinnslur við störf skiptastjóra fyrr í dag, sbr. meðfylgjandi.

Byggir kærandi á því að tilgangur kærða með tölvubréfinu hafi verið að koma höggi á kæranda og að það hafi verið liður í þeirri fyrirætlan að koma fyrirsvarsmanni undan skýrslu og tefja afhendingu bókhaldsgagna þrotaaðila.

Kærði hefur á hinn bóginn mótmælt málatilbúnaði kæranda um þetta efni og bent á að umrædd samskipti hafi verið hluti af nauðsynlegri hagsmunagæslu vegna starfa kæranda sem skiptastjóra viðkomandi þrotabús. Hafi kærandi þannig ítrekað hunsað beiðni um að veita upplýsingar er varðað hafi störf hans sem skiptastjóra búsins auk þess sem hann hafi skirrst við að boða til framhaldsfundar vegna skiptanna. Þá hafi umbjóðandi kærða, og fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila, verið búinn að boða forföll vegna skýrslugjafar hjá skiptastjóra er hið umþrætta tölvubréf var sent.

Samkvæmt 25. gr. siðareglna lögmanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Skulu lögmenn sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

Í 34. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Svo sem fyrr er rakið og nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan höfðu lögmenn ýmissa kröfuhafa, þar á meðal kærði, óskað ítrekað eftir við kæranda í kjölfar skiptafundarins þann x. júní 2020 og þar til hið umþrætta tölvubréf var sent þann x. júlí sama ár að umbeðin gögn er vörðuðu þrotabúið yrðu afhent og að boðað yrði til framhaldsfundar vegna skiptanna. Hafði kærandi ekki enn orðið við þeim beiðnum er kærði sendi áðurgreint tölvubréf þar sem því var lýst að fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila hefði boðað forföll í fyrirhugaða skýrslutöku þann næsta dag og að vegna þessa sæi hann ekki betur en að kærandi hefði lausan tíma fyrir skiptafund á þeim tíma. Að mati nefndarinnar fólst í þessu efni ekki annað en ábending kærða til skiptastjóra og lögmanna þeirra kröfuhafa er látið höfðu sig málið varða um mögulegan fundartíma vegna framhaldsfundar, sem ítrekað hafði verið óskað eftir.

Samkvæmt því er ekki unnt að fallast á með kæranda að efni og framsetning hins umþrætta tölvubréfs af hálfu kærða hafi verið með þeim hætti að koma hafi átt höggi á kæranda sem skiptastjóra þrotabúsins. Er þá einnig til þess að líta að lögmenn þeirra kröfuhafa sem fengu erindið sent höfðu áður lýst afstöðu sinni gagnvart kæranda varðandi mikilvægi þess að boðað yrði til framhaldsfundar án ástæðulauss dráttar og að til afhendingar umbeðinna gagna er vörðuðu þrotabúið kæmi. Þá verður ekki leitt af efni og framsetningu tölvubréfsins að í því hafi falist fyrirætlan kærða um að koma fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila undan skýrslutöku eða tefja afhendingu bókhaldsgagna.

Með hliðsjón af því verður ekki talið að kærandi hafi leitt í ljós í málinu að kærði hafi ekki sýnt honum þá virðingu í ræðu, riti og framkomu sem áskilin er í siðareglum lögmanna. Samkvæmt því verður ekki talin þörf á að greina hvort líta hafi átt á kæranda sem lögmann eða gagnaðila skjólstæðings kærða, í skilningi 25. og 34. gr. siðareglna lögmanna, í þeim samskiptum sem hér um ræðir.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson 

Valborg Þ. Snævarr

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson