Mál 25 2020

Mál 25/2020

Ár 2021, miðvikudaginn 31. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2020:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 15. október 2020 erindi A, en það lýtur annars vegar að ágreiningi um endurgjald í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn við kærða, B lögmann, og hins vegar að því að kærði hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum. Er vísað til þess í erindi kæranda að það sé sett fram fyrir hönd fjölskyldu C.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 20. október 2020 og barst hún þann 9. nóvember sama ár. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 10. nóvember 2020. Hinn 23. nóvember 2020 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir frá kæranda og voru þær sendar kærða þann 24. sama mánaðar. Loks bárust frekari athugasemdir vegna málsins frá kærða þann 11. desember 2020 en þær voru kynntar kæranda með bréfi þann sama dag. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni verður ráðið að leiðir aðila hafi fyrst legið saman árið 2013 en kærði hefur lýst því að kærandi hafi þá leitað til sín ásamt öðrum erfingjum C með beiðni um hagsmunagæslu varðandi endurupptöku máls Hæstaréttar nr. xxx/xxxx. Greinir aðila ekki á um að umrætt verk hafi verið ærið og sýnst nánast ómögulegt í upphafi, en kærði lýsir því í málatilbúnaði sínum að það hafi lotið að því að fá fram endurupptöku viðkomandi máls, niðurstöðu Hæstaréttar snúið og krefjast og/eða semja um bætur til handa erfingjum í kjölfar þess.

Kærði hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum að hans fyrsta verk í viðkomandi hagsmunagæslu hafi verið að stuðla að því að fá fram nauðsynlegar lagabreytingar. Hafi öll sú vinna farið fram án greiðslu af hálfu kæranda og annarra erfingja C eða reikningsgerðar.

Ágreiningslaust er í málinu að í kjölfar þess unnu kærði og aðrir lögmenn á lögmannsstofu hans að beiðni til D um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. xxx/xxxx en hún mun hafa verið lögð fram þann x. mars 20xx. Samkvæmt beiðni endurupptökubeiðenda, þar á meðal kæranda, var kærði skipaður talsmaður þeirra samkvæmt 1. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 29. gr. laga nr. 78/2015. Mun þess jafnframt hafa verið óskað í endurupptökubeiðni að kostnaður vegna endurupptökumálsins yrði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna vinnuskýrslu kærða og lögmannsstofu hans vegna hagsmunagæslu í þágu endurupptökubeiðenda, þar á meðal kæranda, í fyrrgreindu endurupptökumáli, en hún tekur til tímabilsins frá 26. mars 2014 til 5. september 2016. Samkvæmt vinnuskýrslunni vörðu kærði og aðrir lögmenn á lögmannsstofu hans alls 488 klukkustundum í málareksturinn á tilgreindu tímabili. Er því lýst í málatilbúnaði kærða að tímagjald lögmannsstofunnar samkvæmt gjaldskrá hafi verið 23.500 krónur auk virðisaukaskatts og hafi því heildarendurgjald vegna reksturs endurupptökumálsins verið að fjárhæð 14.220.320 krónur með virðisaukaskatti. Þá hafi tilgreind vinnuskýrsla verið lögð fyrir D við rekstur málsins og kærandi verið upplýstur um það efni.

Með úrskurði D x. febrúar 20xx í máli nr. x/xxxx var fallist á beiðni endurupptökubeiðenda, erfingja C, um endurupptöku á dómi í hæstaréttarmálinu nr. xxx/xxxx. Þá var tiltekið í úrskurðarorði að þóknun talsmanns endurupptökubeiðenda, þ.e. kærða í máli þessu, að fjárhæð 6.138.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skyldi greiðast úr ríkissjóði. Var tiltekið í forsendum úrskurðarins það mat D að sú fjárhæð væri „hæfilega“ ákveðin.

Aðila í máli þessu greinir á um á hvaða grundvelli hafi átt að reikna þóknun vegna lögmannsstarfa kærða og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans í þágu viðkomandi erfingja C, þar á meðal kæranda. Þannig hefur kærandi vísað til þess fyrir nefndinni að loforð hafi verið veitt við upphaf hagsmunagæslu kærða um það efni að enginn lögmannskostnaður myndi leggjast á herðar erfingjanna umfram það sem greitt yrði úr ríkissjóði. Samkvæmt því hafi kærði fengið greitt að fullu vegna þeirrar vinnu sem hafi tekið til endurupptökumálsins, sbr. úrskurð D frá x. febrúar 20xx. Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að ekki hafi verið sendir reikningar undir meðferð vinnu hans í þágu kæranda og annarra erfingja þar sem samkomulag hafi verið um að þóknun yrði gerð upp þegar vinnu væru lokið að fullu og eftir atvikum ætlunarverkinu náð, þ.e. með breytingum á lögum, endurupptöku viðkomandi máls og útgreiðslu bóta til erfingja frá ríkinu. Hefði það jafnframt verið markmið aðila að ná því fram að ríkið greiddi áfallinn lögmannskostnað.

Engra skriflegra gagna nýtur fyrir nefndinni um þetta efni og stendur því þar orð gegn orði.

Fyrir liggur að fyrrgreint mál sætti endurupptöku í Hæstarétti. Hefur kærði lýst því fyrir nefndinni að þar sem hann hafi ekki haft réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti á þeim tíma hafi aðilar sammælst um að E lögmaður myndi annast þann þátt málsins. Sé sú málsmeðferð, hagsmunagæsla og gjaldtaka því ekki til umfjöllunar í máli þessu. Hafi þannig engin vinna verið skráð í vinnuskýrslu kærða og lögmannsstofu hans vegna hæstaréttarmálsins, þó kærði hafi tekið ríkan þátt í þeim undirbúningi með kæranda og viðkomandi lögmanni.

Með dómi Hæstaréttar x. september 20xx í máli nr. xxx/20xx voru dómfelldu í hæstaréttarmálinu nr. xxx/xxxx sýknaðir af þeim sakargiftum sem endurupptökumálið tók til. Var allur áfrjunarkostnaður málsins greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda C að fjárhæð 9.672.000 krónur.

Ágreiningslaust er að kærandi og aðrir erfingjar C fólu kærða, að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/xxxx, að annast hagsmunagæslu vegna sáttaumleitana við ríkið um greiðslu skaðabóta á grundvelli fyrrgreinds sýknudóms. Hefur kærði lýst því fyrir nefndinni að vinna við þann þátt verkefnisins, sem lýst sé sem síðari hluta reikningsins í kvörtun kæranda, hafi samtals verið að fjárhæð 1.792.110 krónur með virðisaukaskatti. Taki sá þáttur til alls 61,5 klukustunda á tímagjaldinu 23.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Á meðal málsgagna er jafnframt að vinna vinnuskýrslu kærða vegna þessa þáttar sem tekur til tímabilsins frá 24. febrúar 2017 til 20. maí 2019, en hún lýsir sömu forsendum og áður greinir. Af henni og málatilbúnaði kærða verður ráðið að í hagsmunagæslunni á tilgreindu tímabili hafi falist kröfugerð og samningaviðræður við sérstaka nefnd annars vegar sem ríkið hafi skipað af þessu tilefni og hins vegar á síðari stigum við settan ríkislögmann. Hefur kærði um þetta efni jafnframt lagt fyrir nefndina fundargerð viðkomandi nefndar, dags. x. febrúar 20xx, minnispunkta kærða fyrir hönd umbjóðenda til nefndarinnar, dags. x. sama mánaðar, og frumvarp til laga um .....................

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna tölvubréfasamskipti sem kærði átti við kæranda og aðra erfingja C í apríl- og maímánuði 2019. Lutu þau að stöðu sáttaumleitana við ríkið varðandi greiðslu skaðabóta og fjárhæð þeirra. Staðfesti kærandi  meðal annars í tölvubréfi til kærða þann 15. maí 2019 vilja erfingja til að ganga að tilboði, „að upphæð ..........“ Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að samningar hafi ekki tekist á þessum grundvelli, en kærandi hefur lýst því að málið hafi strandað á því að ekki hafi verið kveðið á um rétt erfingja til málshöfðunar til að sækja frekari bætur fyrir dómstólum.

Þann 6. júní 2019 sendi einn erfingja tölvubréf til kærða, en kærandi fékk meðal annars afrit af tölvubréfinu. Þar var því lýst að fjölskyldan hefði ákveðið að leita til annars lögmanns um hagsmunagæslu vegna viðræðna við stjórnvöld. Var jafnframt þakkað fyrir framlag kærða til þeirra sigra sem unnist hefðu í málinu.

Kærði svaraði fyrrgreindu tölvubréfi degi síðar, þann 7. júní 2019, þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum með ákvörðun kæranda og annarra erfingja. Kvaðst kærði vilja hitta aðila á fundi til að heyra sjónarmið um hina breyttu nálgun. Þá var eftirfarandi tiltekið í tölvubréfinu:

„...Við höfum alltaf talað okkar í millum um að í samningum okkar við ríkið myndum við reyna að tryggja að ríkið greiddi lögmannskostnað vegna vinnu minnar sem lögmanns þannig að sá kostnaður myndi ekki hafa áhrif á bótagreiðslur til ykkar til lækkunar. Það er ljóst að þessi ákvörðun ykkar um að skipta nú um lögmann gerir að verkum að ég mun ekki koma að endanlegri samningagerð við ríkið og/eða dómsmál eftir atvikum, verði ákveðið að fara þá leið, við sókn bótagreiðslna vegna væntanlegs uppgjörs. Því eru forsendur brostnar fyrir því að uppgjör vegna vinnu mín sem lögmanns fari fram á þann hátt. – Í lögum og siðareglum lögmanna er ráð fyrir því gert að í tilvikum sem þessum, þ.e. þegar skipt er um lögmann og mál fært yfir til annars lögmanns, að fram fari fullnaðaruppgjör við fyrri lögmanninn sem hafði með málareksturinn að gera áður en málið er formlega fært yfir til nýs lögmanns. – Mig langar því að spyrja ykkur um það hvernig þið sjáið að þetta uppgjör geti farið fram þannig að yfirfærsla málsins geti gengið farsællega eftir.

Í áframhaldandi tölvubréfasamskiptum aðila þann 7. júní 2019 lýstu erfingjar yfir nánari ástæðum fyrir því að leitað hefði verið til annars lögmanns með hagsmunagæslu í málinu. Var því jafnframt lýst að erfingjar myndu „standa við að greiða þér og mun F gera kröfu um þóknun til þín við uppgjör málsins.“ Lýsti kærði því að hann myndi skila kröfu á grundvelli vinnuskýrslu til hins nýja lögmanns auk þess að tilkynna ríkislögmanni og forsætisráðuneyti um breytta hagsmunagæslu í málinu.

Fyrir liggur jafnframt að kærði átti í tölvubréfasamskiptum við hinn nýja lögmann kæranda og annarra erfingja varðandi afhendingu gagna og uppgjörsmál dagana 7. – 13. júní 2019. Lýsti hinn síðargreindi því meðal annars að hann myndi gera kröfu um þóknun til handa kærða við uppgjör málsins en slíkt hefði til þessa „þótt fullnægjandi í þessum sakamálum og afleiddu málum þeim tengdum.“ Kom fram af hálfu kærða að hann myndi taka saman tímaskýrslur og senda til lögmannsins. Hins vegar ætti lögmannsstofa hans enga beina fjárkröfu á hendur ríkinu heldur aðeins kröfu á viðkomandi umbjóðendur. Væri það óviðkomandi kærða og lögmannsstofu hans ef ríkið tæki ákvörðun um að greiða þann kostnað. Varðandi fyrirspurn kærða um hvert senda ætti uppgjörsreikning lýsti nýr lögmaður kæranda og annarra erfingja að rétt væri að senda hann beint til umbjóðenda. Þá kom eftirfarandi fram af hálfu hins nýja lögmanns:

...Persónulega tæki ég samt mið af eðli málsins (bótauppgjör) og því að þetta er borgunarfólk sem engin ástæða er til að efast um að muni greiða skuldir sínar. Ég geri svo ráð fyrir að þessar bætur verði greiddar inná vörslureikning minn og ég myndi þá bara gera upp af kröfunum til ykkar að því marki sem henni væri ekki mótmælt, en á svo sem ekki von á því að svo verði án þess að hafa kynnt mér það.

Þann 30. janúar 2020 beindi kærði á ný erindi til lögmanns kæranda og annarra erfingja C. Óskaði kærði þar eftir upplýsingum um hvort senda ætti reikning vegna vinnu lögmannsstofu kærða beint til erfingjanna. Kvaðst kærði jafnframt hafa beðið með alla reikningsgerð á sínum tíma, þ.e. þegar lögmansskiptin hefðu átt sér stað, þar til greiðsla hefði borist frá ríkinu. Í svari lögmannsins þann sama dag kom fram að eðlilegast væri að kærði myndi senda þeim reikning fyrir vinnunni.

Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að lögmannsstofa kærða hafi gert reikning vegna starfa í þágu erfingja C þann 11. september 2020 að fjárhæð 9.874.430 krónur með virðisaukaskatti og að hann hafi verið sendur í heimabanka G, ekkju C. Hefur kærandi lýst því fyrir nefndinni að reikningnum hafi hvorki fylgt sundurliðun né útskýring, en kærði hafi afhent þau gögn í bréfi, dags. 21. september 2020, sem er meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Í tilgreindu bréfi kærða til kæranda og annarra erfingja var því meðal annars lýst að hann hefði upplýsingar um að endanleg niðurstaða málsins hefði verið á þann veg að samið hefði verið um bætur í viðkomandi máli og lögmannskostnaður greiddur. Var jafnframt tiltekið að um væri að ræða reikning vegna ógreiddrar vinnu samkvæmt tímaskýrslum, samkvæmt eftirfarandi sundurliðun:

            „Ógreiddar vinnustundir vegna endurupptökumáls  2013 – 2017

                        488 klst. x 23.500.-                                         kr. 11.468.000.-

                        24% vsk.                                                         kr. 2.752.320.-

                        Samtals                                                          kr. 14.220.320.- m. vsk.

                        Frádregin greiðsla frá D                               kr. 6.138.000.- m.vsk.

                        Eftirstöðvar                                                    kr. 8.082.320.- m. vsk.

            Ógreiddar vinnustundir vegna funda, samningaviðræðna o.fl. 2017 - 2019

                        61,5 klst. x 23.500.-                                        kr. 1.445.150.-

                        24% vsk.                                                         kr. 346.860.-

                        Samtals                                                          kr. 1.792.110.- m. vsk.

 

                                                                                   Samtals kr. 9.874.430.-

 

Ekki verður ráðið af málsgögnum að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins eftir þennan tíma en kvörtun var sem áður greinir beint til nefndarinnar þann 15. október 2020.

II.

Kærandi krefst þess að reikningur kærða B fyrir hönd H lögmanna, sem birtur var á heimabanka G, þann 11. september 2020, að fjárhæð 9.874.430 krónur með virðisaukaskatti, verði felldur niður en til vara að áskilið endurgjald samkvæmt reikningnum verði lækkað verulega. Þá krefst kærandi þess að nefndin ákvarði um möguleg viðurlög eða kveði á um áminningu kærða vegna ætlaðrar brotlegrar háttsemi hans.

Í kvörtun er vísað til þess að hún lúti að tilhæfulausum reikningi frá kærða fyrir hönd H lögmanna að fjárhæð 9.874.430 krónur. Taki reikningurinn annars vegar til áranna 2013 – 2017 en fyrir það tímabil hafi kærði hins vegar þegar fengið greitt. Hljóti hinar meintu kröfur ennfremur að teljast niður fallnar vegna fyrningar og tómlætis kærða. Vísað er til þess að reikningurinn taki hins vegar til lögmannsþjónustu á árunum 2017 – 2019. Á því tímabili hafi kærða verið sagt upp störfum þar sem hann hafi grafið undan hagsmunum kæranda og fjölskyldu í sáttaviðræðum við ríkið. Sé það skoðun kæranda að kærði eigi af þeim sökum ekki rétt á þeim fjármunum sem krafa á tímabilinu taki til.

Varðandi forsögu málsins vísar kærandi til þess að fjölskyldu C, fyrrum dómþola, hafi þann 11. september 2020 borist tilhæfu- og tilefnislaus reikningur frá H lögmönnum að fjárhæð 9.874.430 krónur. Hafi tilgreindur reikningur verið sendur og birtur inn á heimabanka G, ekkju C. Reikningnum hafi hvorki fylgt sundurliðun né útskýring, en kærði hafi afhent umbeðin gögn í bréfi, dags. 21. september 2020. Hafi þá komið í ljós að hinn umþrætti reikningur var tvískiptur.

Í fyrsta lagi hafi reikningurinn þannig tekið til áranna 2013 – 2017 og séu því hinar meintu kröfur þriggja til sjö ára gamlar. Hafi þeim kröfum ekki verið haldið fram fyrr af hálfu kærða enda hafi hann fengið greitt úr ríkissjóði fyrir vinnu sína og ekki gert neinn reka að því að innheimta fyrir vinnu umfram það. Sé því ljóst að krafan sé fallin niður vegna fyrningar og tómlætis kærða.

Nánar tiltekið vísar kærandi til þess að kærði sé að innheimta umfram það sem ríkissjóður hafi greitt honum samkvæmt úrskurði D í máli nr. x/20xx. Á engum tímapunkti hafi kæranda eða öðrum erfingjum verið gerð grein fyrir áformum kærða um að hann myndi innheimta gjald samkvæmt öðru og margföldu mati hans á vinnuframlagi en því sem ríkisvaldið mæti rétt hverju sinni. Þvert á móti hafi hinu gagnstæða verið lofað, þ.e. að örugglega myndi enginn lögmannskostnaður leggjast á herðar erfingjanna. Þannig sé ekki kannast við þá „ætlun aðila“ sem kærði hafi lýst um að fyrir hafi legið samkomulag um meint fjárhagslegt uppgjör að „ætlunarverkinu“ loknu. Hafi kærða borið að upplýsa fyrirfram um að þjónusta hans væri í reynd mun dýrari en það sem greiðslur úr ríkissjóði myndu ná yfir og að búast mætti við margra milljóna króna reikningi við starfslok hans. Vísar kærandi því jafnframt á bug að við uppsögn kærða hafi verið gefnar yfirlýsingar af hálfu erfingja C um eitthvert „uppgjör“ við kærða, líkt og kærði vísi til í bréfi. Samkvæmt því virðist eitthvað órætt standa að baki þeim umþrætta reikningi sem málið tekur til.

Varðandi handahófskennd vinnubrögð kærða bendir kærandi á að með sýknudómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/20xx hafi málskostnaður fjölskyldunnar, 9.672.000 krónur, verið greiddur úr ríkissjóði til E lögmanns. Hafi kærði kynnt fjölskyldunni um breytt fyrirsvar fyrir dómi tæpum tveimur vikum fyrir málflutninginn í Hæstarétti, án þess að umboð hafi legið fyrir, til að mynda um viðkvæmar persónuupplýsingar. Er vísað til þess að kærði hafi ákveðið að innheimta ekki fyrir umrætt tímabil, þ.e. aðdragandann að dómi Hæstaréttar, gjald umfram það sem dómurinn mat hæfilegt að ríkissjóður tæki á sig fyrir lögmannskostnað. Á engum tímapunkti hafi kærði gert grein fyrir því að hann teldi þetta tiltekna mat Hæstaréttar ásættanlegt, svo sem í samanburði við mat D á hans vinnu. Undirstriki athugasemdaleysi kærða við þessa greiðslu og þögnin um hana við umþrætta reikningsgerð, hversu handahófskennd og raunar óskipuleg vinnubrögð kærða hafi verið varðandi innheimtu.

Kveðst kærandi binda vonir við að nefndin ákvarði um niðurfellingu þessa hluta reikningsins. Byggir kærandi ennfremur á að háttsemi kærða að þessu leyti hafi verið í andstöðu við 10. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að síðari hluti reikningsins taki til vinnu kærða á árunum 2017 – 2019. Á því tímabili hafi kærða verið sagt upp áður en lögmannskostnaður við mál C heitins var greiddur úr ríkissjóði.

Vísað er til þess að uppsögn kærða hafi byggt á því að kærandi og aðrir erfingjar C hafi ekki treyst því að kærði ynni með hagsmuni þeirra að leiðarljósi, en slíkt hafi átt sér langan aðdraganda. Hafi skjalfestar ásakanir kærða um að erfingjar tækju hugsunarlaust á móti óskilgreindum „samsæriskenningum“ og „rógburði“ í hans garð verið í takti við langvarandi smánun á þeirra eigin persónum, siðferði og greindarfari sem kærði hafi staðið fyrir. Hafi uppsögnin verið flótti frá því.

Kærandi bendir á að í kjölfar áðurnefnds sýknudóms Hæstaréttar hafi kærði endurtekið talað niður fjárkröfur fjölskyldunnar á hendur íslenska ríkinu. Hafi hann gert það milliliðalaust og því væntanlega líka gagnvart fulltrúum ríkisins. Er því lýst að kærði hafi sagt að kærandi og fjölskylda mættu hreinlega ekki við því að taka við eins miklum peningum og krafist væri, þeir myndu einungis spilla. Þess í stað hafi kærði hvatt til þess að því yrði tekið sem ríkið byði, þó svo að slíkt þýddi meðal annars uppgjöf á réttinum til að fara með málið áfram til dómstóla. Þá mættu kærandi og fjölskylda alls ekki vera staðin að því að „rugga bát[i]“ stjórnvalda sem kærði hafi augljóslega viljað þóknast.

Kærandi byggir á að með þessu hafi kærði í reynd unnið gegn þeim hagsmunum sem hann hafi átt að gæta. Fari því þannig fjarri að græðgi hafi stýrt aðgerðum í málinu. Þvert á móti hafi minning C heitins verið höfð að leiðarljósi, sem kærði hafi hins vegar ítrekað sýnt að hann hafi ekki gert.

Kærandi bendir jafnframt á að annar skaðlegur hluti af „samningstækni“ kærða í kjölfar dóms Hæstaréttar hafi falist í því að einangra fjölskylduna frá öðrum fyrrum dómþolum. Hafi kærði ítrekað talað illa um hitt fólkið sem staðið hafi sömu megin borðsins og kærandi og fjölskylda. Hafi síðar komið í ljós að samstaða með öðrum hafi einmitt verið það sem komið hafi kæranda og fjölskyldu langleiðina að því markmið sem kærði hafi ætíð talið sem fjarstæðu, þ.e. að ná að halda inni í samningum við ríkið rétti til að fara með bótakröfur fyrir dómstóla að lokinni innborgun inn á kröfur í samræmi við lög.

Kærandi byggir á að það hljóti að vera í verkahring lögmanna að tala fyrir málstað skjólstæðinga, en ekki brjóta þá niður. Eigi slíkt ekki hvað síst við í málum þar sem ríkið hafi brotið alvarlega á fólki í viðkvæmri stöðu. Sé það á grundvelli þess tjóns sem kærði hafi unnið á rétti kæranda og fjölskyldu, og hvernig hann hafi grafið undan undirliggjandi hagsmunum, sem óskað sé eftir niðurfellingu á þeim hluta reikningsins sem snúi að árunum 2017 -2019. Til vara sé gerð krafa um meiriháttar frádrátt af heildarupphæðinni. Er vísað til þess að sá hluti reikningsins standist enga skoðun hvað tímafjölda varðar.

Kærandi byggir jafnframt á að háttsemi kærða að þessu leyti hafi brotið í bága við ýmsar greinar siðareglna lögmanna, einkum 1. og 8. gr. þeirra.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er tekið undir þá staðhæfingu að verkefnið, þ.e. að sækja sýknu fyrir C, hafi verið nærri ómögulegt í ljósi viljaleysis hins opinbera. Af þeim sökum hafi kærandi og fjölskylda haft mjög takmarkaðar væntingar um nokkurs konar bótauppgjör að endurupptökuferlinu loknu. Veltir kærandi því upp hvorki kærði hefði virkilega gert kröfu um þær fjárhæðir sem nú ræðir, umfram það sem stofnanir ríkisins hefðu metið rétt og sanngjarnt endurgjald, ef Hæstiréttur hefði til að mynda ekki sýknað í málinu.

Kærandi byggir á að aldrei hefði verið leitað til kærða nema á þeim grunni sem lýst hefði verið í kvörtun málsins, þ.e. á grundvelli loforðs kærða um að enginn kostnaður félli til vegna lögmannsstarfa kærða umfram það sem kynni að koma úr ríkissjóði. Bendir kærandi á að engin manneskja hefði farið með kærða í þvílíka óvissuferð sem beiðni um endurupptöku málsins hefði verið nema þannig hefði verið staðið að málum. Auk þess hafi kærði aldrei gefið til kynna að nokkrar „eftirstöðvar“ væru eftir í kjölfar úrskurðar D hvað þá að hugsanlegar bætur, ef til sýknudóms kæmi, mætti nýta til að gera þær upp. Er vísað til þess að ef kærði hefði afhjúpað þær væntingar sínar, til að mynda við og með endurnýjun umboðs síns við einhver tímamót, hefði kærandi og fjölskylda leitað þá þegar til annars lögmanns.

Er einnig á það bent að kærði hafi sem sérfræðingi borið að tryggja að umbjóðendur hans hefðu frá upphafi hreinskilnar og gegnsæjar upplýsingar um hans fyrirætlanir varðandi gjaldtöku. Hafi það ekki verið í verkahring kæranda og fjölskyldu að setja sérfræðingnum skriflegar skorður eftir að hafa fengið munnleg vilyrði fyrir því sem áður greinir. Hafi kærandi og fjölskylda mátt treysta því að kærði stæði í góðri trú með loforðum sínum. Séu fullyrðingar kærða um ætlað samkomulag og yfirlýsingar í aðra veru úr lausu lofti gripnar.

Kærandi bendir á að það hafi ekki verið svo að lögmannskostnaður hafi verið greiddur beint til hlutaðeigandi. Þvert á móti hafi sá kostnaður verið greiddur beint til lögmanna.

Vísað er til þess að kærði bendi á staðhæfingar um tímabilið fyrir sýknudóm Hæstaréttar til að sýna fram á að hann hafi raunverulega haft hagsmuni kæranda og fjölskyldu fyrir brjósti. Bendir kærandi um það efni á að ætlaður skortur á hagsmunagæslu kærða hafi aðeins þýðingu fyrir þann hluta reikningsins sem taki til tímabilsins eftir sýknudóm Hæstaréttar haustið 20xx. Fyrir fyrra tímabil hafi kærði þegar fengið greitt, líkt og áður greinir.

Kærandi vísar því á bug að kærði hafi verið svo gott sem búinn að semja í málinu þegar að til uppsagnar hans kom. Er á það bent að eftir það tímabil hafi verið tekin út tilvísun til fullnaðaruppgjörs í frumvarpi ráðherra. Í því hafi falist sigur sumarsins og haustsins 20xx, sem einmitt hafi hafist eftir uppsögn kærða. Hafi íþyngjandi, heftandi og niðrandi bótauppgjöri með því verið umvarpað í ívilnandi og uppbyggilegt uppgjör.

Vísað er til þess að uppgjör á milli aðila hafi átt að snúast um þær stundir sem kærði sat í nafni kæranda og fjölskyldu eftir sýknudóminn. Beri að skoða orð núverandi lögmanns kæranda og fjölskyldu í því ljósi. Í stað þess að ganga til uppgjörs út frá þeim forsendum hafi kærði hins vegar sent reikning upp á margar milljónir fyrir mál sem löngu hafi verið afgreitt með úrskurði D. Hafi engum getað dottið í hug að svo glórulaus krafa yrði gerð af hálfu kærða.

Um ætluð handahófskennd vinnubrögð kærða bendir kærandi á að þóknun E lögmanns fyrir Hæstarétti hafi verið tæplega 10.000.000 króna. Þær milljónir hafi lögmaðurinn fengið greiddar fyrir ca. hálfs mánaðar undirbúning og flutning ræðu fyrir Hæstarétti. Veltir kærandi því upp hvort kærði hafi virkilega látið lögmanninum eftir þá upphæð og hvort hún hafi þannig engin áhrif haft á þær „eftirstöðvar“ sem kærði vísi nú til. Vísar kærandi til þess að ef kærði væri samkvæmur sjálfum sér, og gengi samviskulega til verks, myndi hann gera skilmerkilega grein fyrir þessum þætti en ekki láta hann hverfa.

Kærandi lýsir því að óskandi væri, og raunar eðlilegt, ef að eina úrlausnaratriðið fyrir nefndinni sneri að því endurgjaldi sem kærði áskildi sér fyrir störf eftir sýknudóm Hæstaréttar. Telur kærandi að athyglisvert væri að heyra meira um þá kröfugerð sem kærði kveðst hafa unnið og fá röksemdafærslu fyrir því hvernig það hafi tekið þrjár klukkustundir í vinnslu. Er sérstaklega um það efni á það bent að skjalið hafi í öllum megindráttum komið frá kæranda og fjölskyldu.

III.

Kærði kveðst mótmæla því alfarið að umræddur reikningur sé tilhæfulaus og krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað að öllu leyti. Þá kveðst kærði einnig mótmæla með öllu þeim ásökunum og ávirðingum sem fram koma í kvörtun kæranda.

Um forsögu málsins vísar kærði til þess að leiðir aðila hafi fyrst legið saman árið 2013 en þá hafi kærandi ásamt öðrum erfingjum C leitað eftir aðstoð kærða og hagsmunagæslu varðandi endurupptöku máls Hæstaréttar nr. xxx/xxxx. Hafi verkefnið verið umfangsmikið og fordæmalaust, en markmiðið í grunninn hafi verið að fá fram endurupptöku málsins, fá niðurstöðu dóms Hæstaréttar snúið og krefjast og/eða semja um bætur til handa erfingjunum. Frá upphafi hafi verið ljóst að verkefnið tæki tíma og yrði erfitt, og í reynd ómögulegt í upphafi, enda hafi þágildandi lög landsins komið í veg fyrir að markmiðin gætu gengið eftir.

Í samræmi við framangreint hafi fyrsta verk kærða og lögmannsstofu hans verið að stuðla að því að fá fram nauðsynlegar lagabreytingar. Hafi öll sú vinna farið fram án greiðslu af hálfu kæranda og annarra erfingja C eða reikningsgerðar og sé sú vinna því ekki hluti af máli þessu.

Í kjölfar þess hafi tekið við meginþáttur í vinnu kærða og lögmannsstofunnar, þ.e. vinna við beiðni til D, sbr. fyrirliggjandi vinnuskýrslur. Hafi þeirri vinnu lokið með árangursríkum hætti, sbr. úrskurð D þann x. febrúar 20xx í máli nr. x/20xx þar sem fallist var á beiðni um endurupptöku á dómi Hæstaréttar í máli nr. xx/xxxx. Vísar kærði til þess að vinna við þennan þátt verkefnisins sé það sem kærandi vísi til sem fyrri hluta reiknings lögmannsstofu kærða. Taki hún til tímabilsins frá 26. mars 2014 til 5. september 2016. Tilgreindum vinnuskýrslum hafi verið skilað til D við rekstur málsins, eins og kærandi hafi verið upplýstur um. Hafi heildarendurgjald verið að fjárhæð 14.220.320 krónur með virðisaukaskatti en það hafi tekið til 488 klukkustunda vinnu á tímagjaldinu 23.500 krónur auk virðisaukaskatts, í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofunnar. Í úrskurði D hafi hins vegar verið kveðið á um lægri þóknun, eða 6.138.000 krónur með virðisaukaskatti. Eftirstöðvar vegna þeirrar vinnu hafi því staðið í 8.082.320 krónur með virðisaukaskatti, líkt og fram komi í reikningi til kæranda.

Kærði vísar til þess að þar sem einungis hafi verið um áfangasigur að ræða, sem grunnstoð að því endanlega markmiði að fá fram sýknudóm og knýja fram bætur úr hendi ríkisins, hafi aðilar verið sammála um að setja til hliðar um sinn þá vinnu sem ógreidd hafi verið. Af þeim sökum hafi ekki verið gefnir út reikningar til kæranda vegna þeirrar vinnu heldur hafi verið að því stefnt að þess yrði á síðari stigum krafist að ríkið greiddi þann kostnað, þ.e. þegar kæmi að samningaviðræðum um bætur á síðari stigum. Hafi sú tilhögun því verið höfð á milli aðila að lögmannsstofa kærða myndi ekki innheimta reikninga fyrir vinnu kærða úr hendi kæranda jafnóðum og þeir féllu til, heldur að vinnan yrði gerð upp þegar verkinu væri lokið að fullu.

Vísað er til þess að næsta skref í málinu hafi verið endurupptaka þess fyrir Hæstarétti. Þar sem kærði hafi á þeim tíma ekki haft réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti hafi aðilar sammælst um að E lögmaður tæki þann þátt að sér. Ekkert hafi verið athugavert við þá tilhögun auk þess sem hvorki kærandi né aðrir erfingjar hafi gert athugasemdir við það efni. Bendir kærði þó á að vinna við undirbúning málflutnings fyrir Hæstarétti sé ekki til skoðunar í þessu máli, enda hafi hún verið í höndum og á ábyrgð annars lögmanns. Í samræmi við það sé engin vinna vegna þess þáttar skráð í vinnuskýrslur kærða og lögmannsstofunnar, þó kærði hafi tekið ríkan þátt í þeim undirbúningi með kæranda og viðkomandi lögmanni. Þessum þætti hafi lokið með dómi Hæstaréttar x. september 20xx í máli nr. xxx/20xx, þar sem C var sýknaður af þeim sakargiftum sem hann hafði verið sakfelldur fyrir með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/19xx.

Kærði kveðst hafa tekið aftur upp þráðinn í hagsmunagæslu fyrir kæranda í framhaldi þeirrar niðurstöðu, til að vinna að lokahnykk verkefnisins, þ.e. að knýja fram bætur til handa erfingjum C á grundvelli fyrrgreinds sýknudóms. Vinna við þann þátt verkefnisins, sem kærandi tiltaki sem seinni hluta reikningsins, sé samtals að fjárhæð 1.792.110 krónur með virðisaukaskatti. Sé um að ræða vinnu í 61,5 klukkustundir á tímagjaldinu 23.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Kærði bendir á að vinna við þennan þátt hafi fyrst og fremst falist í kröfugerð og samningaviðræðum við annars vegar sérstaka nefnd sem ríkið hafi skipað af þessu tilefni og hins vegar á síðari stigum við settan ríkislögmann þegar sáttaviðræður við nefndina höfðu siglt í strand. Á lokastigum þeirra samningaviðræðna milli kærða fyrir hönd erfingja C og ríkislögmanns hafi verið komin sú niðurstaða að erfingjum skyldu greiddar samtals rúmlega .......... króna í bætur þar sem gert hafi verið ráð fyrir skattfrelsi bótagreiðslnanna auk þess sem greiðslurnar myndu ekki hafa áhrif á framtíðargreiðslur bótaþega úr almannatryggingum eða lífeyrissjóðum. Auk þessa hefði sú hugmynd verið rædd og nokkur samhljómur um að ríkið greiddi 5% lögmannsþóknun miðað við umsamdar bætur. Vísar kærði til þess að kærandi hafi tekið fram í tölvubréfi þann 15. maí 2019 að tilgreindu tilboði skyldi tekið. Hafi því ekki stefnt í annað en að verkefnið væri á lokametrunum.

Kærði vísar til þess að þvert á það og honum að óvörum hafi kærandi hins vegar sent tölvubréf skömmu síðar, eða þann 6. júní 2019, þar sem komið hefði fram að kærandi hygðist leita til annars lögmanns. Hafi boð kærða um fund um það efni verið hafnað. Í áframhaldandi tölvubréfasamskiptum hafi kærði bent á að ef þetta yrði niðurstaðan þá þyrftu aðilar að ræða um einhvers konar uppgjör vegna vinnu lögmannsstofunnar. Í svari kæranda hafi komið fram orðrétt: „Við munum standa við að greiða þér og mun F gera kröfu um þóknun til þín við uppgjör málsins.

Kærði kveðst hafa átt í samskiptum við hinn nýja lögmann í kjölfar þessa, þ.e. um framangreint uppgjör, og hafi niðurstaðan verið að bíða með reikningsgerð þar til niðurstaða fengist í samningaviðræðum kæranda við ríkið. Bendir kærði á að í þeim samskiptum komi fram sá skilningur hins nýja lögmanns að samkomulag hafi verið milli undirritaðs og kæranda þess efnis að greitt yrði fyrir vinnu kærða og lögmannsstofu hans við uppgjör bótagreiðslna, en fram til þess tíma yrði kæranda ekki sendur reikningur vegna vinnunnar. Er vísað til þess að lögmaðurinn hafi aðeins getað haft þann skilningi eftir samtöl við kæranda.

Bent er á að um það bil hálfu ári síðar, eða þann x. janúar 20xx, hafi erfingjar C fengið greiddar samtals ....... krónur í bætur, þ.e. bætur sömu fjárhæðar og kærði hafi náð samningum um við ríkið. Erfingjunum hafi jafnframt verið greiddar samtals 8.550.000 krónur í lögmannskostnað. Hafi þær bætur vegna lögmannskostnaðar verið greiddar beint til erfingjanna, eins og tiltekið sé í  dómi Héraðsdóms Reykjavíkur x. október 20xx í máli nr. x-xxx/xxxx. Vísar kærði til þess að telja verði sérstakt og almennt ekki í samræmi við tilefni bótagreiðslna, að sérstakar bætur skuli greiddar beint til erfingja sem taki þær til sín þegar fyrir liggur að þeir hafa ekki innt af hendi neinar greiðslur til lögmanna, a.m.k. ekki til kærða í máli þessu.

Kærði kveðst hafa átt í samskiptum við lögmann kæranda í kjölfar fregna um útgreiðslu bóta. Hafi lögmaðurinn þá beint því til kærða að senda kæranda reikning fyrir vinnunni.

Varðandi réttmæti reikninga vísar kærði til þess að unnar vinnustundir hafi verið skráðar samtímis í tímaskráningakerfi lögmannsstofu hans. Á tímabilinu 2013 – 2017 hafi kærði, ásamt öðrum lögmönnum á stofu hans, unnið að tveimur sambærilegum málum. Hafi tímaskráningu verið háttað þannig að unnum tímum hafi verið skipt til helminga á milli málanna. Þar sem vinna í hinu málinu varðaði sérstaklega tiltekinn þátt þess máls hafi tímar vegna þeirrar vinnu verið fjarlægðir úr vinnuskýrslum þar sem þeir varði ekki kæranda.Við undirbúning málsins og ritun og vinnslu endurupptökubeiðni hafi til að mynda verið háð vitnamál í héraðsdómi og fleira líkt og vinnuskýrslur beri með sér.

Vísað er til þess að það liggi í hlutarins eðli, enda ágreiningslaust, að aldrei hafi verið ætlunin að lögmannsstofa kærða fengi ekki greitt fyrir vinnu sína. Á hinn bóginn hafi það verið markmið aðila að sú greiðsla kæmi frá ríkinu við lok málsins og uppgjör þess. Hafi það ítrekað verið rætt enda skýri það hvers vegna ekki hafi verið sendir reikningar samhliða unnum tímum. Þá hafi forenda þess að fyrirkomulagið myndi halda vitaskuld verið sú að lögmannsstofa kærða lyki við gerð samninga við ríkið og fengi greitt í samræmi við það.

Kærði bendir á að til þess hafi ekki komið þar sem samstarfi aðila hafi einhliða verið slitið af hálfu kæranda á sama tíma og niðurstöður samninga við ríkið um greiðslu skaðabóta hafi legið fyrir og aðeins hafi átt eftir að klára undirritun. Við þau slit á vinnusambandi aðila hafi brostið fyrri forsendur um greiðslu ríkisins á lögmannskostnaði beint til stofunnar enda hafi stofan ekki komið að fullnaðaruppgjöri. Við brotthvarf kæranda frá lögmannsstofunni hafi bæði kærandi og nýr lögmaður erfingja C lýst því yfir að útistandandi reikningar yrðu greiddir, þ.e. að greitt yrði fyrir vinnu stofunnar. Hafi þó verið ákveðið að bíða með útsendingu reikninga, eins og nýr lögmaður þeirra hafi verið upplýstur um, til hagsbóta fyrir kæranda, þ.e. þar til ríkið hefði innt af hendi þá bótagreiðslu sem samið hafi verið um.

Um ávirðingar kæranda og glósur þess efnis að kærði hafi ekki unnið með hagsmuni kæranda að leiðarljósi vísar kærði til þess að þær séu með öllu rangar og úr lausu lofti gripnar. Bendir kærði á þann árangur sem náðst hafi á öllum stigum málsins fyrir kæranda og erfingja C. Þá liggi fyrir að lokaniðurstaða málsins hvað bætur til kæranda varðar sé sú sama og fyrir hafi legið þegar kærði lét af málinu.

Kærði vísar á bug umfjöllun kæranda um að hann hafi með einhverjum hætti dregið úr réttindum eða möguleikum erfingja C. Bendir kærði á að hið rétta sé að hann hafi rakið með kæranda hver réttarstaðan væri í flóknu máli og hvar tækifærin og hætturnar lægju. Hljóti það að teljast rétt og góð vinnubrögð lögmanns að greina stöðu umbjóðanda síns með raunhæfum hætti. Vísar kærði í því sambandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. x-xxx/20xx þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfum dánarbús C.

Vísað er til þess að allar áætlanir og vinnubrögð í tengslum við vinnuna hafi verið unnin í samráði við kæranda og aðra erfingja C. Vísar kærði í því samhengi til nálgunar sem lögð var fram varðandi það hvernig mætti nálgast vinnu varðandi greiðslu bóta, sbr. minnispunkta frá xx. febrúar 20xx. Kveðst kærði mótmæla fullyrðingum kæranda um hið gagnstæða sem röngum og ámælisverðum. Jafnframt því vísar kærði til þess að hann hafi frá öndverðu átt góð og vinsamleg samskipti við kæranda og erfingja C. Allt tal um annað sé tilbúningur af hálfu kæranda. Þá kveðst kærði mótmæla öllum öðrum ávirðingum kæranda sem fjarstæðukenndum.

Í samræmi við framangreint krefst kærði þess að nefndin staðfesti þá kröfu lögmannsstofunnar óbreytta sem liggur fyrir í málinu enda séu engar forsendur til að fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu eða lækkun kröfunnar.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að aðilar hafi gert með sér samkomulag um vinnu lögmannsstofu kærða við að ná fram endurupptöku á hinu umrædda sakamáli, knýja fram sýknudóm og bótagreiðslu í framhaldinu. Eins liggi fyrir að greiðslur til lögmannsstofunnar fyrir þá vinnu hafi átt að vera árangurstengdar.

Kærði vísar til þess að það mál sem kærandi hafi borið undir stofuna hafi verið afar stórt í sniðum. Hafi þannig verið ljóst frá upphafi að til að sinna því vel og eygja von um árangur þyrfti að leggja fram gíðarmikla vinnu. Hafi legið fyrir í upphafi að aðeins undirbúningsvinnan myndi hlaupa á milljónum króna. Á þeim grundvelli hafi aðilar komist að samkomulagi um að lögmannsstofan myndi taka verkið að sér á þeim forsendum að ef stofunni tækist að ná fram bótum á síðari stigum þá yrði gerð krafa í því uppgjöri um sérstakar bætur vegna lögmannsaðstoðar, sem renna myndu til lögmannsstofunnar. Hafi samkomulagið verið afar hagkvæmt fyrir kæranda, sem myndi njóta mikillar vinnu án nokkurra útgjalda, á meðan fjárhagslega áhættan og fjármögnun vinnunnar hafi legið hjá lögmannsstofunni. Ljóst sé hins vegar að lykilforsenda og skilyrði þessa samkomulags hafi verið að lögmannsstofan héldi utan um málið alla leið til enda, nema samið yrði um annað sérstaklega á síðari stigum eða ef sú staða kæmi upp að útilokað væri að lögmannsstofan næði þeim árangri sem að var stefnt.

Ítrekar kærði, vegna málatilbúnaðar kæranda, að greiðslur samkvæmt samkomulaginu hafi átt að vera árangurstengdar. Sú staðreynd að stofan hafi ekki sent kæranda einn einasta reikning á nærri sex ára vinnutímabili hljóti að staðfesta að slíkt samkomulag hafi verið í gildi og að kærandi hafi verið meðvitaður um það.

Bendir kærði um þetta efni á að engin lögmannsstofa hefði farið með umbjóðendur sína í x ára óvissuferð, með ómældri vinnu sem umbjóðendur höfðu takmarkaðar væntingar til að myndu skila árangri, ef umbjóðendurnir gætu á lokametrunum ákveðið að bætur fyrir lögmannskostnað eða árangurstengdar greiðslur vegna vinnunnar myndu renna til annarra lögmanna eða til umbjóðendanna sjálfra.

Kærði vísar til þess að staðreyndin sé sú að kærandi hafi tilkynnt honum þann 6. júní 2019 að ákveðið hefði verið að leita til annars lögmanns. Sú uppsögn hafi komið kærða mjög á óvart, enda tilefni uppsagnarinnar óútskýrt og í engu samræmi við það sem hafði áður gerst. Í svörum kæranda og lögmanns hans við fyrirspurn kærða um uppgjör við þau tímamót hafi komið fram að gerð yrði krafa um þóknun til kæranda við uppgjör málsins. Í samræmi við það geti það ekki hafa komið kæranda á óvart að gerður hafi verið reikningur í septembermánuði 2020 vegna vinnunnar.

Varðandi árangur sem náðst hafi í málinu undir stjórn kærða vísar hann til þess að fyrir liggi að tilboð hafi legið fyrir um greiðslu bóta að fjárhæð ........... króna sem kærandi hafi samþykkt. Þremur vikum síðar hafi kærandi tilkynnt að ákveðið hefði verið að skipta um lögmann en í kjölfarið hafi verið lokið við sáttauppgjör sem falið hafi í sér greiðslu sömu bótafjárhæðar og lögmannsstofa kærða hafi náð samningi um.

Kærði vísar til þess að fullyrðingar kæranda, um að ekki hafi verið samið um þann möguleika samhliða bótagreiðslum að kærandi gæti á síðari stigum höfðað mál á hendur ríkinu, séu fráleitar. Komi enda fram í frumvarpi því sem orðið hafi að lögum af þessu tilefni að ekki væri hægt að takmarka rétt fólks til að leita á náðir dómstóla til að ná fram frekari réttindum en samið væri um.

Kærði ítrekar að hann geri alvarlegar athugasemdir við þann málatilbúnað kæranda sem lýtur að því kærði hafi ekki gætt sem skyldi hagsmuna kæranda í hvívetna. Er vísað til þess að staðreyndin sé sú að hagsmunagæsla kærða hafi hafist við afar erfiðar aðstæður og lokið þá fyrst eftir að samið hafi verið um bótagreiðslur til handa kæranda og öðrum erfingjum við ríkið um greiðslur að fjárhæð ......... króna. Til viðbótar þessu hafi umsamdar bótagreiðslur verið skattfrjálsar, auk þess sem þær hefðu ekki áhrif á önnur réttindi. Sé sjónarmiði kæranda um forsendur uppsagnar og takmakaða hagsmunagæslu því mótmælt sem fráleitu og röngu.

Vísað er til þess að í athugasemdum kæranda komi fram að þær greiðslur sem eyrnamerktar hefðu verið málskostnaði við uppgjör á bótagreiðslum frá ríkinu hafi verið greiddar til lögmanna, eða alls 8.500.000 krónur. Bendir kærði á að hann hafi engar greiðslur þegið af þeim fjármunum úr hendi kæranda. Á hinn bóginn liggi fyrir að ef þessar greiðslur hefðu runnið til lögmannsstofu kærða hefði verið litið svo á að fullnaðaruppgjör hefði farið fram. Svo hafi ekki verið. Kveðst kærði enga ábyrgð bera á því að kærandi hafi ráðist í möguleg þjónustukaup ótiltekinna lögmanna eftir að samið hafi verið við ríkið um bótagreiðslur.

Með vísan til þess krefst kærði þess að nefndin staðfesti réttmæti þess reiknings sem gefinn var út vegna vinnu lögmannsstofu hans við gæslu hagsmuna kæranda og annarra erfingja C. Enn fremur kveðst kærði krefjast þess að viðurkenndir verði réttur stofunnar til að innheimta dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar.

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða og í öðru lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.

I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Ágreiningur í þessum þætti lýtur að reikningi sem lögmannsstofa kærða gaf út á hendur kæranda og öðrum erfingjum C þann 11. september 2020 að fjárhæð 9.874.430 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt nánari sundurliðun reikningsins tók hann annars vegar til ætlaðra ógreiddra vinnustunda vegna starfa kærða og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans á árunum 2014 – 2017 í tengslum við endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. xxx/xxxx, en sá liður reikningsins var að fjárhæð 8.082.320 krónur með virðisaukaskatti. Hins vegar tók reikningurinn til ætlaðra ógreiddra vinnustunda vegna funda, samningaviðræðna o.fl. á árunum 2017 – 2019, að heildarfjárhæð 1.792.110 krónur með virðisaukaskatti.

Varðandi hið fyrrgreinda efni liggur fyrir að kærði og aðrir lögmenn á lögmannsstofu hans unnu að beiðni til D um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. xxx/xxxx en hún mun hafa verið lögð fram þann x. mars 20xx. Samkvæmt beiðni endurupptökubeiðenda, þar á meðal kæranda, var kærði skipaður talsmaður þeirra undir rekstri endurupptökumálsins samkvæmt 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 29. gr. laga nr. 78/2015. Mun þess jafnframt hafa verið óskað í endurupptökubeiðni að kostnaður vegna endurupptökumálsins yrði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt fyrirliggjandi vinnuskýrslu kærða vörðu lögmenn á lögmannsstofu hans alls 488 klukkustundum í endurupptökumálið á tímabilinu frá 26. mars 2014 til 5. september 2016 á tímagjaldinu 23.500 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því mun áskilið endurgjald vegna þess þáttar hafa numið 14.220.320 krónum með virðisaukaskatti. Jafnframt hefur verið upplýst að kærði hafi lagt tilgreinda vinnuskýrslu fram við rekstur málsins fyrir D.

Svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan var fallist á beiðni endurupptökubeiðenda, þ.e. kæranda og annarra erfingja C, um endurupptöku á dómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/xxxx með úrskurði D þann x. febrúar 20xx í máli nr. x/20xx. Þá var tiltekið í úrskurðarorði að þóknun talsmanns endurupptökubeiðenda, þ.e. kærða í máli þessu, að fjárhæð ......... krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skyldi greiðast úr ríkissjóði. Var tiltekið í forsendum úrskurðarins það mat D að sú fjárhæð væri „hæfilega“ ákveðin.

Kærandi reisir málatilbúnað sinn fyrir nefndinni á því að kærði hafi fengið að fullu greitt fyrir vinnu sína í tengslum við beiðni um endurupptöku og rekstur málsins fyrir D sem endaði með úrskurði í máli nr. x/20xx. Hefur kærandi um það efni vísað til úrskurðarorðs þar sem mælt hafi verið fyrir um fjárhæð þóknunar kærða vegna reksturs málsins og að hún skyldi greidd úr ríkissjóði. Þá hafi kærði veitt loforð við upphaf lögskipta aðila um að enginn lögmannskosntaður myndi leggjast á herðar kæranda og annarra erfingja umfram það sem greitt yrði úr ríkissjóði.

Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að ekki hafi verið sendir reikningar undir meðferð vinnu hans í þágu kæranda og annarra erfingja þar sem samkomulag hafi verið um að þóknun yrði gerð upp þegar vinnu væru lokið að fullu og eftir atvikum ætlunarverkinu náð, þ.e. með breytingum á lögum og útgreiðslu bóta til erfingja frá ríkinu. Hafi það jafnframt verið markmið aðila að ná því fram að ríkið greiddi áfallinn lögmannskostnað. Hafi þær forsendur brostið er kærandi og aðrir erfingjar hafi sagt kærða upp störfum þann 6. júní 2019. Eigi kærði heimtingu á hæfilegu endurgjaldi í samræmi við fyrirliggjandi vinnuskýrslur og gjaldskrá lögmannsstofu hans. Nemi ógreidd fjárhæð vegna reksturs málsins fyrir D 8.082.320 krónum, sem gerð hafi verið krafa um í fyrri lið hins umþrætta reiknings.

Í málinu liggur hvorki fyrir skriflegt umboð né önnur gögn sem varpað gætu ljósi á hvernig gjaldtöku hafi átt að vera háttað vegna viðkomandi lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda og annarra erfingja. Liggur þannig ekkert fyrir um að kærði hafi gert kæranda grein fyrir á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð í samræmi við áskilnað 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna, þar á meðal ef til þess kæmi að samningssambandi aðila yrði slitið áður eða án þess að til bótagreiðslu kæmi frá ríkinu í samræmi við það sameiginlega markmið sem aðilar hafa lýst fyrir nefndinni. Þá liggur heldur ekkert fyrir um að kærði hafi gert kæranda eða öðrum erfingjum grein fyrir hvert heildarendurgjald gæti orðið vegna starfans, þ.e. hvorki við upphaf lögskipta aðila né undir rekstri hagsmunagæslunnar á árunum 2014 – 2019, sbr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Stendur hér því orð gegn orði um þetta efni, líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan.

Með hliðsjón af framangreindu verður að mati nefndarinnar vegna þess hluta reikningsins sem hér um ræðir, þ.e. meðferð viðkomandi máls fyrir D, að leggja til grundvallar að um rétt kærða til þóknunar vegna þeirra starfa hafi alfarið farið samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í þágildandi 1. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var kveðið á um að ef beiðni um endurupptöku væri ekki hafnað þegar í stað skyldi hún og gögnin, sem henni fylgdu, send til gagnaðila og hann krafinn skriflega um greinargerð um viðhorf sín til hennar innan tiltekins frest. Hefði dómfelldi borið fram beiðnina og staðið sjálfur að henni gæti D þó fyrst skipað honum lögmann og gefið honum kost á að gera beiðni á nýjan leik. Við frekari meðferð á beiðni um endurupptöku væri nefndinni skylt að skipa dómfellda eða ákærða lögmann til að gæta réttar hans ef hann óskaði eftir því. Þá var tiltekið að nefndin skyldi ákveða þóknun lögmanns vega starfa hans fyrir henni og að sú ákvörðun væri endanleg.

Þá var jafnframt mælt fyrir um það í þágildandi 4. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008 að kostnaður af beiðni dómfellda um endurupptöku og af nýrri meðferð málsins ef á hana yrði fallist skyldi greiddur úr ríkissjóði nema dómfelldi hefði komið henni til leiðar með gögnum sem hann mátti vita að væru ósönn. Að öðru leyti færi um sakarkostnað eftir almennum reglum.

Eins og áður greinir var fallist á beiðni endurupptökubeiðenda, þar á meðal kæranda, um endurpptöku á dómi í hæstaréttarmálinu nr. xxx/19xx með úrskurði D x. febrúar 20xx í máli nr. x/20xx. Var í úrskurðinum jafnframt ákvörðuð þóknun kærða, sem talsmanns endurupptökubeiðenda, í samræmi við fyrrgreindar lagaheimildir en hún var metin hæfileg að fjárhæð ........ krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá liggur fyrir að hinn umþrætti reikningur kærða á hendur kæranda og öðrum erfingum C, sem er að þessu leyti að fjárhæð 8.082.320 krónur með virðisaukaskatti, er tilkominn vegna meintrar ógreiddrar þóknunar vegna starfa kærða sem talsmanns við reksturs fyrrgreinds máls fyrir D, þ.e. fjárhæð reikningsins að þessu leyti er mismunur á úrskurðari þóknun annars vegar og þeirri þóknun sem kærði áskildi sér á grundvelli tímaskýrslu og gjaldskrár hins vegar.

Eins og málið liggur fyrir nefndinni verður hvorki talið að lögbundin né samningsbundin stoð hafi verið fyrir kröfugerð í hinum umþrætta reikningi frá septembermánuði 2020 vegna vinnu kærða og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans við rekstur málsins nr. x/20xx fyrir D, að fjárhæð 8.082.320 krónur með virðisaukaskatti. Fyrir liggur að þóknun kærða vegna starfa hans sem talsmanns erfingja C var ákvörðuð af D í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 88/2008 og greiddist sú þóknun úr ríkissjóði. Þá hefur ekki verið leitt í ljós að mati nefndarinnar að slíku samningssambandi hafi verið til að dreifa á milli kærða og viðkomandi erfingja um greiðslu þóknunar umfram það sem kveðið var á um í tilgreindum lögum og úrskurður D í máli nr. x/20xx tók mið af. Samkvæmt því verður ekki talið að kærði hafi sýnt fram á í máli þessu að lögmannsstofa hans hafi átt heimtingu til frekari þóknunar úr hendi kæranda og annarra erfingja en tiltekið var í úrskurði D x. febrúar 20xx, sem áður er lýst. Eru því ekki efni til annars en að fallast á með kæranda að kærði eigi ekki rétt til umkrafinnar þóknunar að þessu leyti, þ.e. að fjárhæð 8.082.320 krónur með virðisaukaskatti, úr hendi kæranda og annarra erfingja C og sætir hinn umþrætti reikningur því lækkun með þeim hætti sem kveðið er á um í úrskurðarorði.

 

III.

Fyrir liggur að kærandi og aðrir erfingjar C leituðu á ný með beiðni um hagsmunagæslu til kærða í kjölfar dóms Hæstaréttar x. september 20xx í máli nr. xxx/20xx, svo sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Liggur þannig fyrir að kærði annaðist fyrir þeirra hönd sáttaumleitanir við ríkið, á einkaréttarlegum grundvelli, vegna kröfu um bótagreiðslu með hliðsjón af sýknudómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/20xx. Er ágreiningslaust að einkaréttarlegu samningssambandi var þar til að dreifa á milli aðila vegna þeirrar hagsmunagæslu. Verður jafnframt talið að mati nefndarinnar að skoða verði fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti frá júnímánuði 2019, sem lýst er í málsatvikalýsingu að framan, með hliðsjón af því samningssambandi en ekki með tilliti til þeirrar hagsmunagæslu sem kærði annaðist sem talsmaður við rekstur málsins nr. x/20xx fyrir D.

Sá hluti hins umþrætta reiknings sem hér um ræðir er að fjárhæð 1.792.110 krónur með virðisaukaskatti en hann tók til alls 61,5 klukkustunda vinnu á tímabilinu frá 24. febrúar 2017 til 16. maí 2019 á tímagjaldinu 23.500 krónur auk virðisaukaskatts. Kærandi hefur hins vegar á því byggt að kærði hafi ekki annast viðkomandi hagsmunagæslu sem skyldi, þvert á móti hafi hann talað niður hagsmuni kæranda og annarra erfingja. Á grundvelli þess tjóns sem kærði hafi unnið á rétti kæranda og annarra erfingja beri að fella niður eða lækka þann hluta reikningsins sem hér um ræði.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Að mati nefndarinnar hefur á engan hátt verið leitt í ljós í málinu að kærði hafi unnið gegn þeim hagsmunum sem honum var falið að gæta gagnvart íslenska ríkinu í þágu kærnada og annarra erfingja C. Af þeim málsgögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina verður þannig ekki annað ráðið en að kærði hafi í hvívetna rækt þau störf sem honum var trúað fyrir af alúð og að hann hafi neytt allra lögmætra úrræða til gæta hinna lögvörðu hagsmuna, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Enn síður verður talið að skilyrði séu til að fella niður eða lækka áskilda þóknun vegna starfa kærða í þágu kæranda og annarra erfingja á viðkomandi tímabili, þ.e. frá 24. febrúar 2017 til 16. maí 2019, á þeim grundvelli sem kærandi vísar til í málatilbúnaði sínum.

Að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þ. á. m. tímaskýrslu kærða sem virðist greinargóð um það sem gert var hverju sinni á tímabilinu frá 24. febrúar 2017 til 20. maí 2019 og áskildu tímagjaldi að fjárhæð 23.500 krónur auk virðisaukaskatts sem var ekki úr hófi, er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kæranda og annarra erfingja C á tilgreindu tímabili sé að fjárhæð 1.792.110 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa sinna að þessu leyti var hæfileg. Samkvæmt því er kröfu kæranda, um að hinn umþrætti reikningur vegna lögmannsstarfa kærða að þessu leyti verði felldur niður eða sæti lækkun, hafnað.

Í samræmi við allt framangreint er það niðurstaða nefndarinnar í máli þessu að áskilið endurgjald kærða, samkvæmt útgefnum reikningi lögmannsstofu hans vegna starfa í þágu kæranda og annarra erfingja C, sæti lækkun og telst hæfileg fjárhæð hans 1.792.110 krónur með virðisaukaskatti. Þá verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn ákvæðum laga eða siðreglna lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, og annarra erfingja C, sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð reiknings sem lögmannsstofa kærða mun hafa gefið út þann 11. september 2020 vera 1.792.110 krónur með virðisaukaskatti.

Kærði, B lögmaður, hefur ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson