Mál 31 2020

Mál 31/2020

Ár 2021, fimmtudaginn 25. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2020:

A ehf.

gegn

B ehf.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. nóvember 2020 erindi C lögmanns, fyrir hönd kæranda, A ehf., en í því er lýst ágreiningi kæranda við kærða, B ehf., um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Fyrirsvarsmaður kærða er D.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 24. nóvember 2020, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Andsvör kærða bárust þann 9. desember 2020 og voru þau send kæranda til athugasemda með bréfi þann 17. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.  

Málsatvik og málsástæður

I.

Kærandi er einkahlutafélag sem veitir lögmannsþjónustu. Kærði er einkahlutafélag og er skráður tilgangur þess byggingastarfsemi, kaup, sala og rekstur fasteigna, hótel- og gistiheimilarekstur, veitingarekstur, lánastarfsemi, kaup, sala og eignarhald á verðbréfum, hlutabréfum og skyldur rekstur. Ágreiningur í þessu máli lýtur að rétti kæranda til endurgjalds eða fjárhæð þess fyrir störf sem lögmennirnir E og C hjá kæranda inntu af hendi í þágu kærða á tímabilinu frá júlí 2017 til október 2019.

Fram hefur komið af hálfu málsaðila fyrir nefndinni að lögmenn hjá kæranda hafi veitt kærða lögmannsþjónustu um áratugaskeið. Hefur kærandi vísað til þess að fyrirsvarsmaður kærða hafi jafnan óskað eftir þjónustu lögmanna kæranda en að reikningsgerð í gegnum árin hafi byggt á skráðum verkskýrslum og jafnan tekið til ákveðins tímabils, oft 1 – 2 ár, eða í samræmi við umfang verkefna á hverjum tíma. Hafi kærði aldrei gert athugasemdir við það verklag.

Varðandi þann reikning sem málið varðar þá hefur kærandi vísað til þess fyrir nefndinni að hann hafi að langstærstu leyti tekið til vinnuframlags lögmanna í þágu kærða á árunum 2018 og 2019. Hafi sú lögmannsþjónusta tengst fasteign í eigu kærða, þ.e. nánar tiltekið F við G í Reykjavík. Við lok réttarsambands og lögskipta aðila þann 30. október 2019 hafi enn verið ólokið málum er tengst hafi F, rekstri einkamáls gegn H vegna ágreinings um túlkun leigusamnings, matsmáli sem jafnframt hafi verið rekið gegn H vegna ágreinings um leigufjárhæð, ágreiningi við J vegna efnda á leigusamningi og réttmæti riftunar, ágreiningi við K um eignarhald viðkomandi lóðar auk smærri mála. Hefur sá málatilbúnaður kæranda um tilgreiningu verkefna ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu kærða fyrir nefndinni.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréfasamskipti á milli C lögmanns hjá kæranda og D, fyrirsvarsmanns kærða, frá 29. og 30. október 2019. Í tölvubréfi fyrirsvarsmannsins hinn síðarnefnda dag voru gerðar ýmsar athugasemdir við starfshætti lögmannsins og því lýst að hann teldi ekki hagsmunum sínum betur borgið með málið í höndum lögmannsins. Svaraði lögmaðurinn þeim athugasemdum samdægurs og tiltók að hann gæti ekki unnið undir slíkum formerkjum sem fyrirsvarsmaður kærða hefði lýst. Þá var eftirfarandi tiltekið í tölvubréfi lögmannsins:

Ég mun taka afrit af öllum gögnum í þeim málum sem ég er með fyrir þig, svo þú getir nálgast það á skrifstofu minni og grípa jafnframt til nauðsynlegra ráðstafana svo ekki verði af réttarspjöll. – Þá mun ég reikningsfæra vinnu mína og sér þér reikning ásamt verkskýrslu.“ 

Þann 1. nóvember 2019 sendi C lögmaður þrjú tölvubréf til kærða vegna mála sem enn var ólokið við lok réttarsambands aðila. Var þar í fyrsta lagi um að ræða tölvubréf þar sem upplýst var um stöðu matsmálsins nr. xxx/201x, kærði gegn J, og að gögn málsins væru tilbúin til afhendingar á skrifstofu kæranda. Í öðru lagi var um að ræða tölvubréf sem tók til upplýsinga um stöðu héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/201x, kærði gegn H, og að gögn málsins væru tilbúin til afhendingar á skrifstofu kæranda. Þá var í þriðja lagi um að ræða tölvubréf þar sem upplýst var annars vegar um að gagnamappa vegna ágreinings við K um eðli lóðarréttinda væri tilbúin til afhendingar á skrifstofunni og hins vegar að gögn vegna ágreinings við J vegna riftunar leigusamnings o.fl. yrðu tilbúin til afhendingar innan skamms.

Málsgögn fyrir nefndinni bera með sér að sonur fyrirsvarsmanns kærða hafi móttekið þau gögn, sem fyrrgreind tölvubréf frá 1. nóvember 2019 tóku til, dagana 14. og 22. sama mánaðar á skrifstofu kæranda. Átti fyrrgreindur lögmaður og fyrirsvarsmaður kærða jafnframt í tölvubréfasamskiptum vegna tilgreindrar gagnaafhendingar á tímabilinu frá 13. – 22. nóvember 2019. Kom þar meðal annars fram ósk lögmannsins um fund til að fara yfir vinnuframlag kæranda og uppgjör en í svari fyrirsvarsmanns kærða kom fram að hann væri væntanlegur til landsins og að þá skyldu þeir hittast. Ítrekaði lögmaðurinn í tölvubréfum til fyrirsvarsmanns kærða dagana 20. desember 2019, 24. mars og 13. maí 2020 vilja til að klára uppgjör aðila.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna verkskýrslu kæranda vegna vinnu lögmanna í þágu kærða á tímabilinu frá 4. júlí 2017 til 25. október 2019. Er þar gerð grein fyrir vinnu lögmannanna E og C á umræddu tímabili, þ.e. hvaða daga unnið var í verkum í þágu kærða, hvaða vinnuframlag var innt af hendi og tímalengd þeirra. Samkvæmt verkskýrslunni unnu lögmennirnir tveir í alls 263.30 klukkustundir í þágu kærða vegna ýmissa mála. Þá er í verkskýrslunni jafnframt að finna tilgreiningu á útlögðum kostnaði kæranda í þágu kærða vegna einstakra mála.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna gjaldskrá kæranda sem útgefin var þann 1. janúar 2019. Að því er sakarefni málsins varðar þá var þar tiltekið í 4. gr. að grunngjald fyrir tímavinnu eiganda væri að fjárhæð 29.800 krónur auk virðisaukaskatts, nema um annað væri samið. Í 1. gr. gjaldskrárinnar var jafnframt vísað til þess að útlagður kostnaður í hverju máli skyldi alltaf greiðast af viðskiptamanni. Þá var því lýst í 9. gr. að vegna ferðalaga væri gjaldtaka miðuð við þann tíma sem ferð tæki, auk alls ferða- og dvalarkostnaðar. Akstur innan „stór- Reykjavíkursvæðisins“ væri að fjárhæð 3.500 krónur hver ferð.

Samkvæmt gögnum málsins lýtur ágreiningur að reikningi sem kærandi gaf út vegna framangreindra lögmannsstarfa í þágu kærða. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. 3965 þann 29. september 2020 að fjárhæð 9.847.972 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var því lýst að hann tæki annars vegar til ýmissar lögfræðiþjónustu og hagsmunagæslu í þágu kærða samkvæmt verkskýrslu fyrir verktímabilið frá júlí 2017 til október 2019, þ.e. til alls 263.30 vinnustunda á tímagjaldinu 29.800 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því var þóknunarliður reikningsins að fjárhæð 7.846.340 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var hins vegar tiltekið á reikningnum að hann tæki til kostnaðar vegna aksturs, þingfestingargjalds, aðkeyptrar mætingar fyrir dómi og ábyrgða- og stöðugjalda. Voru þeir kostnaðarliðir að fjárhæð 107.590 krónur auk virðisaukaskatts, en undirliggjandi reikningar og fylgiskjöl þar að baki eru meðal málsgagna fyrir nefndinni.

C lögmaður sendi reikninginn ásamt fylgigögnum fyrir hönd kæranda í tölvubréfi til fyrirsvarsmanns kærða þann 29. september 2020. Svar fyrirsvarsmanns kærða frá sama degi ber með sér að hann hafi þá móttekið reikninginn og andmælt honum gagnvart kæranda. Vísaði fyrirsvarsmaðurinn meðal annars til þess að reikningurinn væri ekkert miðað við það tjón sem kærandi hefði valdið kærða og að um „vonarpening“ væri að ræða af hálfu kæranda. Voru jafnframt gerðar athugasemdir við áskilið tímagjald kæranda samkvæmt reikningnum.

Þann 2. nóvember 2020 beindi kærandi innheimtubréfi til kærða vegna reikningsins frá 29. september 2020 en það var jafnframt sent í tölvubréfi til fyrirsvarsmanns kærða þennan sama dag. Í svari fyrirsvarsmanns kærða þennan sama dag var ítrekað að greiðsluskyldu samkvæmt reikningnum væri hafnað.

Aðilum mun ekki hafa tekist að jafna ágreining sín í milli um rétt kæranda til endurgjalds fyrir lögmannsstörf í þágu kærða og/eða fjárhæð þess. Var málinu af þeim sökum beint til úrskurðarnefndar lögmanna af hálfu kæranda þann 19. nóvember 2020 á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að greiða sér 9.847.972 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. október 2020 til greiðsludags. Kærandi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. Þá krefst kærandi þess að kveðið verði á um að úrskurður nefndarinnar sé aðfararhæfur gagnvart kærða, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Í erindi kæranda er því lýst að ágreiningur snúist um fjárhæð og rétt til endurgjalds úr hendi kærða vegna vinnuframlags kæranda, sbr. fyrirliggjandi reikning frá 29. september 2020. Um lagaheimild fyrir erindinu vísar kærandi til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Vísað er til þess að kærði hafi notið umbeðinnar lögfræðiþjónustu kæranda um áratugaskeið eða allt frá síðustu aldamótum vegna fjölmargra álitaefna sem tengst hafi viðamikilum rekstri og eignum kærða. Hafi kærði jafnan óskað eftir lögfræðiþjónustu frá kæranda í hverju verkefni fyrir sig, ýmist með tölvubréfum, á fundum eða í símtölum.

Kærandi vísar til þess að haldin hafi verið samtímaskráð verkskýrsla um þau þjónustuverkefni sem unnið hafi verið við á hverjum tíma. Útskuldun kæranda hafi jafnan tekið til ákveðins tímabils, sem oft á tíðum hafi náð yfir 1 – 2 ár byggt á fyrirliggjandi verkskýrslum, sérstaklega varðandi verkefni sem hafi verið umfangsmikil og tímafrek. Hafi sá háttur á reikningsgerð ekki valdið vandkvæðum í gegnum tíðina.

Vísað er til þess að sá reikningur sem málið varði taki til tímabilsins frá júlí 2017 til október 2019, en langstærsti hluti vinnuframlags starfsmanna kæranda hafi þó verið unnin á árunum 2018 og 2019. Hafi sú vinna tengst fasteign í eigu kærða, nánar tiltekið F við G í Reykjavík. Um sé að ræða reikning vegna vinnuframlags lögmanna kæranda, þ.e. þeirra E lögmanns og C lögmanns, sem í heild sé 263.30 klukkustundir á tímagjaldinu 29.800 krónur auk virðisaukaskatts. Jafnframt því sé aksturskostnaður að fjárhæð 45.500 krónur og útlagður kostnaður í samræmi við gögn að fjárhæð 62.090 krónur. Þá sé virðisaukaskattur að fjárhæð 1.894.042 krónur. Um tilgreint vinnuframlag vísar kærandi til fyrirliggjandi verkskýrslu sem greinir hvað hvor lögmaður vann að, hvenær og umfang vinnuframlagsins.

Kærandi vísar til þess að þann 30. október 2019 hafi kærði óskað eftir að kærandi léti af verktöku fyrir sig þar sem hann teldi málefnum sínum betur borgið annars staðar. Hafi kærandi þá enn unnið að ýmsum málum fyrir kærða er náð hafi yfir umrætt tímabil, en þau hafi tengst F og rekstri einkamáls gegn H vegna ágreinings um túlkun leigusamnings, matsmáli sem jafnframt hafi verið rekið gegn H vegna ágreinings um leigufjárhæð, ágreiningi við J vegna efnda á leigusamningi og réttmæti riftunar, ágreiningi við K um eignarhald lóðar auk annarra smærri málefna. Hafi öllum umræddum málum verið ólokið er kærði hafi sagt upp þjónustu sinni við kæranda. Bendir kærandi á að ítarlega sé greint frá tilgreindum verkefnum í verkskýrslu, þ.e. hvenær unnið hafi verið að málum, tímagjaldi ásamt skýringum um þá vinnu sem unnin hafi verið hverju sinni.

Kærandi bendir á að hann hafi afhent kærða öll málsgögn í þeim málum sem hann hafi unnið að fyrir kærða til að valda ekki réttarspjöllum, þ.e. í kjölfar þess að kærði hafi óskað eftir að kærandi léti af frekari verktöku. Hafi gögnin verið afhent 14. og 22. nóvember 2019 án athugasemda frá kærða. Kveðst kærandi jafnframt þá hafa óskað eftir fundi með fyrirsvarsmanni kærða til að ræða uppgjörsmál. Hafi fyrirsvarsmaður kærða borið fyrir sig önnum og því að hann væri erlendis. Kærandi hafi hins vegar ítrekað beiðnina í nokkur skipti en án árangurs. Kærandi hafi svo loks gefið út reikning þann er mál þetta varðar og sent til kærða ásamt verkskýrslu að baki reikningnum.

Vísað er til að kærði hafi hafnað að greiða fyrir vinnuframlag kæranda, meðal annars á þeim grundvelli að kærandi hafi valdið honum tjóni án nánari tilgreiningar.

Varðandi reikningsgerð í málinu vísar kærandi til þess að sú krafa sem þar greini byggi á tímagjaldi samkvæmt gjaldskrá kæranda, útgefinni 1. janúar 2019, en þar komi fram að tímagjald sé að fjárhæð 29.800 krónur auk virðisaukaskatts. Kveðst kærandi hafa bæði fyrir og eftir útgáfu reikningsins leitast við að ná samkomulagi við kærða um uppgjör þessa kostnaðar, en án árangurs.

Kærandi byggir á að kærði hafi verið verkbeiðandi um öll þau verkefni sem lögmenn kæranda hafi unnið að. Styður kærandi kröfur sínar við almennar meginreglur kröfu- og samningaréttar, meðal annars um efndir skuldbindinga og að greiða beri fyrir umbeðna þjónustu. Þá er þess krafist að dráttarvextir af kröfunni reiknist einum mánuði eftir útgáfu reikningsins en þann dag hafi reikningurinn verið sendur kærða.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni þannig að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði vísar til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að kærandi hafi valdið sér tjóni. Hafi kærði þegar gert kæranda „áfangareikning“ vegna þess tjóns, að fjárhæð 12.000.000 króna. Samkvæmt því eigi kærði kröfu á kæranda en ekki öfugt. Um hið ætlaða tjón vísar kærði í fyrsta lagi til þess að það taki til útlagðs og greidds kostnaðar, sem hlaupi á milljónum króna, við það að hefja málin að nýju hjá öðrum lögmönnum. Í öðru lagi hafi athafnir lögmanna kæranda valdið gríðarlegri röskun á lífi fyrirsvarsmanns kærða sem hafi þurft að grípa inní og freista þess að koma viðkomandi málum til annarra lögmanna. Hafi í því falist gríðarleg vinna við utanumhald, kynningar, gagnaöflun, upplýsingagjöf og annað er nýir lögmenn hafi krafist við yfirtöku mála. Ekki hafi því þannig verið treystandi að lögmenn kæranda hefðu séð málið í „réttu ljósi“ og því hafi nýir lögmenn kærða þurft að setja sig inn í málin frá grunni enda ekki viljað fara með fleipur þess fyrri. Hafi þar með verið um að ræða eðlilega kröfu um vandaða vinnuhætti. Jafnframt því hafi þar mikið verið til baga og tafir orðið á viðskilnaði kæranda við afhendingu gagna. Í þriðja lagi kveðst kærði rekja tjón sitt til gríðarlegs tekjutaps vegna seinkunar á málarekstri.

Kærði byggir á að allt framangreint nemi margfaldri fjárhæð þess reiknings er kærandi hafi gert og umþrættur er í málinu. Lýsir kærði því að tilgreindar ástæður geti kallað á skaðabótamál á hendur kæranda og eigendum þess persónulega. Nær hefði verið ef kærði hefði sent kvörtun til nefndarinnar vegna háttsemi lögmanna kæranda og óhóflegrar gjaldtöku.

Kærði vísar til þess að hann hafi rætt þessi mál við C lögmann. Sé því ósvinna af hans hálfu að freista þess að fá nefndina til aðstoðar við innheimtu reikningsins og láta eins og engin sé sök kæranda eða eigenda þess. Sé kærandi að fiska í gruggugu vatni og muni hann aldrei, nema með sérstakri góðvild, fá nokkuð greitt. Væri sanngjarnra manna siður að bíða og sjá til að leikslokum.

Kærði bendir á að lögmenn þeir sem tekið hafi við viðkomandi málum frá kæranda séu enn að yfirfara, greina og vinna sig að rótum málavaxta. Að þeirra sögn hafi sú vinna reynst þrautin þyngri.

Vísað er til þess að C lögmaður hjá kæranda hafi þekkt vel til allra mála kærða í gegnum árin, eða allt frá stofnun kærða. Hljóti hann að hafa gert sér grein fyrir því að með því að taka að sér málin þyrfti hann að fórna skíða- og golfferðum til að halda þétt utan um hagsmuni kærða. Það hafi lögmaðurinn ekki gert. Lögmaðurinn hafi heldur ekki fylgt fyrirmælum umbjóðanda um að halda ekki einkafundi með tilgreindum innheimtulögmanni, án viðveru fyrirsvarsmanns kærða, um málefni þess máls er lögmaðurinn hafi unnið að fyrir kærða. Þar sem lögmaðurinn hafi sinnt hagsmunagæslu í þágu kærða um lengri tíma, geti hann ekki skotið sér á bakvið ókunnugleika.

Kærði vísar til þess að áskilið tímagjald sé það hæsta sem hann hafi séð frá lögmönnum. Aldrei hafi verið samið um slíkt ofurgjald. Ekki hafi þó verið vanþörf á slíku gjaldi miðað við takmarkaða viðveru lögmannsins sem leitt hafi til sinnuleysis og glataðra hagsmuna kærða.

Veltir kærði því upp hvort ekki sé rétt að fella Lögmannafélag Íslands niður og jafnvel kröfuna um námið sem kosti samfélagið meira en tárum taki. Komi menn illa lærðir úr skólum enda námið óhnitmiðað. Vísar fyrirsvarsmaður kærða til þess að hann ætti að hafa rétt til að ganga í félagið, þ.e. telji nefndin sig hafa aðkomu að málinu, til að geta átt von á að njóta mögulegs jafnræðis á við aðra félagsmenn um niðurstöðu í málinu.  

Niðurstaða

                                                                          I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sína eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

 

II.

Ágreiningslaust er í málinu að lögmenn hjá kæranda hafi veitt kærða lögmannsþjónustu um áratugaskeið. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar í málinu að mati nefndarinnar að réttarsamband aðila hafi verið viðvarandi þar til því var slitið í lok októbermánaðar 2019, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Kærandi hefur lýst því fyrir nefndinni að gefnir hafi verið út reikningar í gegnum árin á kærða sem tekið hafi til ákveðins tímabils, oft 1 – 2 ár, eða í samræmi við umfang verkefna á hverjum tíma. Hafi þeir byggt á skráðum verkskýrslum, líkt og við eigi í máli þessu. Hefur sá málatilbúnaður kæranda ekki sætt andmælum af hálfu kærða fyrir nefndinni.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að reikningi sem kærandi gaf út vegna lögmannsstarfa í þágu kærða sem tók til tímabilsins frá júlí 2017 til október 2019. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. 3965 þann 29. september 2020 að fjárhæð 9.847.972 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var því lýst að hann tæki annars vegar til ýmissar lögfræðiþjónustu og hagsmunagæslu í þágu kærða samkvæmt verkskýrslu fyrir verktímabilið frá júlí 2017 til október 2019, þ.e. til alls 263.30 vinnustunda á tímagjaldinu 29.800 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því var þóknunarliður reikningsins að fjárhæð 7.846.340 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var hins vegar tiltekið á reikningnum að hann tæki til kostnaðar vegna aksturs, þingfestingargjalds, aðkeyptrar mætingar fyrir dómi og ábyrgða- og stöðugjalda. Voru þeir kostnaðarliðir að fjárhæð 107.590 krónur auk virðisaukaskatts, en undirliggjandi reikningar og fylgiskjöl þar að baki eru meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Áður en til fyrrgreindrar reikningsgerðar kom hafði kærandi látið kærða í té gögn þeirra mála sem enn var ólokið við lok réttarsambands aðila. Verður ráðið af málsgögnum að sú gagnaafhending hafi farið fram í nóvember 2019. Jafnframt því liggur fyrir að kærandi óskaði ítrekað eftir viðræðum við kærða frá þeim tíma og fram að útgáfu reikningsins um uppgjörsmálefni vegna hinnar veittu lögmannsþjónustu.

Fyrir nefndinni hefur kærði ekki gert athugasemdir við tilgreiningu kæranda á þeim verkum og þeirri lögmannsþjónustu sem veitt var á fyrrgreindu tímabili, þ.e. frá júlí 2017 til október 2019. Samræmist sú tilgreining, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, þeirri verkskýrslu sem liggur til grundvallar að baki hinum umþrætta reikningi.

Með hliðsjón af framangreindu og eins og málið liggur fyrir að öðru leyti eru ekki skilyrði til annars að mati nefndarinnar en að leggja til grundvallar að kærandi hafi veitt kærða lögmannsþjónustu vegna þeirra verka sem tilgreind eru í verkskýrslu á tímabilnu frá 4. júlí 2017 til 25. október 2019 enda samræmist slíkt jafnframt málsgögnum. Þá verður jafnframt að líta til þess að kærði hefur engar athugasemdir gert fyrir nefndinni um fjölda þeirra vinnustunda sem lögmenn hjá kæranda vörðu í málin samkvæmt verkskýrslunni.

Kærði hefur á hinn bóginn borið því við að lögmenn kæranda hafi valdið sér tjóni við hagsmunagæsluna og að gerður hafi verið „áfangareikningur“ vegna hins ætlaða tjóns að fjárhæð 12.000.000 króna. Nemi tjón kærða vegna háttsemi kæranda margfaldri fjárhæð hins umþrætta reiknings í máli þessu.

Hvað þetta varðar er til þess að líta að kærði hefur engin gögn lagt fyrir nefndina um þetta efni, þ.e. hvorki varðandi ætlaða saknæma og ólögmæta háttsemi lögmanna kæranda eða í hverju hún á að hafa falist né um hið ætlaða tjón aðilans af þeim sökum. Samkvæmt því og með hliðsjón af valdsviði nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, verður ekki talið að skilyrði séu til að taka afstöðu til hinnar ætluðu bótaskyldu háttsemi kæranda eða tjóns kærða í máli þessu.

Hið áskilda endurgjald kæranda samkvæmt hinum umþrætta reikningi var grundvallað á gjaldskrá kæranda sem útgefin var þann 1. janúar 2019. Með hliðsjón af því og að teknu tilliti til þess að réttarsamband aðila hafði verið viðvarandi um áratugaskeið verður ekki talið að áskilið tímagjald eigenda hjá kæranda samkvæmt reikningnum, að fjárhæð 29.800 krónur auk virðisaukaskatts, hafi verið óhóflegt. Þá er einnig til þess að líta að í 1. gr. gjaldskrárinnar var vísað til þess að útlagður kostnaður í hverju máli skyldi alltaf greiðast af viðskiptamanni jafnframt því sem því var lýst í 9. gr. hennar að vegna ferðalaga væri gjaldtaka miðuð við þann tíma sem ferð tæki, auk alls ferða- og dvalarkostnaðar. Þar á meðal væri akstur innan „stór- Reykjavíkursvæðisins“ að fjárhæð 3.500 krónur hver ferð. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kostnaðarliðir reikningsins hafi samræmst gjaldskrá kæranda en þeir þeir fá jafnframt stoð í framlögðum gögnum fyrir nefndinni.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þ. á m. verkskýrslu kæranda sem virðist greinargóð um það sem gert var hverju sinni og hefur ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu kærða, er það mat nefndarinnar að það endurgjald sem áskilið var fyrir lögmannsstörf kæranda í þágu kærða samkvæmt reikningi nr. 3965 sem gefinn var út þann 29. september 2020 sé hæfilegt, sbr.  1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því verður fallist á kröfu kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði en krafa aðilans um dráttarvexti fær fulla stoð í 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Úrskurði þessum má fullnægja með aðför, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.       

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B ehf., greiði kæranda, A ehf., 9.847.972 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. október 2020 til greiðsludags.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson