Mál 5 2020

Mál 5/2020

Ár 2020, föstudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2020:

A,

gegn

B lögmanni og C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. mars 2020 erindi D lögmanns fyrir hönd kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærðu, B lögmaður og C lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Líkt og áður greinir fer D lögmaður með málið fyrir hönd kæranda fyrir nefndinni.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerðum vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 5. mars 2020 og bárust þær dagana 12. mars og 4. maí sama ár. Kæranda voru kynntar greinargerðir kærðu með bréfi dags. 6. maí 2020 þar sem honum var jafnframt veittur kostur á að hafa uppi frekari athugasemdir. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 14. maí 2020 og voru þær sendar til kærðu með bréfi næsta dag. Loks bárust frekari athugasemdir vegna málsins frá kærða B þann 5. júní 2020 sem kynntar voru kæranda með bréfi sama dag. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila.

Málið var tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi athugasemda málsaðila og framlagðra gagna af þeirra hálfu.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt kvörtun og öðrum málsgögnum lýtur ágreiningur í málinu að kröfulýsingum sem kærðu lýstu fyrir hönd nánar tilgreindra umbjóðenda sinna í dánarbú E. Nánar tiltekið er um að ræða fjórar kröfulýsingar, dags. 26. desember 2019, þar sem lýstar kröfur eru í hverju tilviki að höfuðstólsfjárhæð 214.200.000 krónur en með dráttarvöxtum og kostnaði að heildarfjárhæð 1.366.028.652 krónur. Er því lýst í kröfulýsingum að um sé að ræða eignakröfur í F samkvæmt 57. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. auk áfallandi dráttarvaxta. Þá var að öðru leyti í kröfulýsingunum vísað til málsins nr. E-x sem mun vera rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Tilgreindar kröfulýsingar bera með sér að þær hafi verið mótteknar af skiptastjóra dánarbúsins þann 27. desember 2019.

Kvörtun málsins er reist á því að kærðu hafi verið ljóst að þeir aðilar sem kærðu lýstu fyrrgreindum kröfum fyrir í dánarbú E ættu ekki viðkomandi kröfuréttindi. Í ofanálag hafi kærðu haft uppi andmæli í skjóli hinna tilhæfulausu krafna gegn ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi E um að afhenda kæranda eignir sem dánarbúið hefði tímabundið í sínum vörslum. Með því hafi kærðu gert á hlut kæranda með háttsemi sem brotið hafi í bága við 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. siðareglna lögmanna.

Meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna stefnu sem þingfest mun hafa verið í Héraðsdómi Reykjaness þann x. nóvember 2014, sbr. málið nr. E-x, en kærandi hefur meðal annars vísað til tilgreinds máls varðandi grandsemi kærðu um heimildarbrest umbjóðenda þeirra vegna fyrrgreinda kröfulýsinga en málið er enn rekið fyrir héraðsdómi. Í tilgreindri stefnu eru umbjóðendur kærðu meðal stefnenda málsins sem höfðað var á hendur Kópavogsbæ aðallega en til vara á hendur E. Er því lýst í stefnunni að stefnendur séu réttmætir lögerfingjar í dánarbúi G og að þeir hafi tekið við umræddri hagsmunagæslu fyrir hönd búsins samkvæmt 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Lúta kröfur stefnenda í dómsmálinu aðallega að því að H verði gert að greiða dánarbúi G eignarnámsbætur að nánar tilgreindum fjárhæðum auk vaxta en til vara að E verði gert að skila dánarbúinu því fé sem hann hafi veitt viðtöku úr hendi H vegna eignarnáms á viðkomandi landi en ellegar greiða skaðabætur að sömu fjárhæð auk vaxta.

Kærandi hefur jafnframt lagt fyrir nefndina boðun skiptastjóra í dánarbúi G til skiptafundar, dags. x. febrúar 2020. Í tilgreindu fundarboði var því lýst að á fyrirhuguðum skiptafundi yrði tekin fyrir tillaga kærðu fyrir hönd umbjóðenda um að skiptastjóri gæfi út skiptayfirlýsingu (afsal) sem yrði þinglýst á jörðina F í samræmi við dóm Hæstaréttar x. júní 2016 í máli nr. x/xxx. Hefur kærandi aukinheldur lagt fram skrifleg mótmæli lögmanns síns vegna tillögunnar, dags. 2. mars 2020, en ekki þykir ástæða til að reifa þau sérstaklega í ljósi sakarefnis málsins.

Fyrir liggur að skiptafundur var haldinn í dánarbúi G þann x. mars 2020. Á fundinum lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu sinni að rétt væri að fara áfram með búið sem gjaldfært samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Vísaði skiptastjóri til þess að staðfest hefði verið með dómi Hæstaréttar að beinn eignaréttur yfir jörðinni væri á hendi dánarbúsins. Ljóst væri, meðal annars samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, að nægilegar eignir væru í búinu til að standa straum af greiðslu lýstra krafna og skiptakostnaðar. Var þeirri afstöðu skiptastjóra mótmælt á fundinum af hálfu lögmanns kæranda og fulltrúa skiptastjóra í dánarbúi E. Reyndist ekki unnt að jafna þann ágreining á fundinum og var honum því vísað til dóms með bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjaness, dags. x. mars 2020.

Meðal málsgagna er jafnframt að finna fundargerð skiptafundar í dánarbúi E frá x. febrúar 2020. Er þar meðal annars tiltekið að kærðu hafi mótmælt afstöðu skiptastjóra til kröfu kæranda í dánarbúið fyrir hönd sinna umbjóðenda. Vísar kærandi til þess að í skjóli hinna tilhæfulausu kröfulýsinga hafi kærðu haft uppi andmæli gegn ákvörðun skiptastjóra um að afhenda kæranda eignir sem dánarbúið hefði haft tímabundið í sínum vörslum. Hafi kærðu með þeirri háttsemi einnig gert á hlut kæranda.  

Kærandi hefur enn fremur fyrir nefndinni vísað til dóma Hæstaréttar nr. xx/xxx og xxx/xxxx. Í ljósi sakarefnis málsins þykir ekki ástæða til að rekja efni þeirra umfram það sem greinir í málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni um það efni, sbr. kafla II. á eftir.

Líkt og áður greinir beindi kærandi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 2. mars 2020.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærðu verði veitt áminning vegna háttsemi sinnar. Þá krefst kærandi jafnframt málskostnaðar úr hendi kærðu vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hann sé næstur í röð arftaka jarðarinnar F samkvæmt þinglýstri erfðaskrá J. Taki kærandi við jörðinni af næsta arftaka á undan sem hafi verið E. Er tiltekið að E hafi andast á árinu 2018 og dánarbú hans verið tekið til opinberra skipta. Hafi kærðu lýst kröfum í dánarbúið sem þeir hafi mátt vita að væru tilhæfulausar með öllu. Þá hafi kærðu mætt á skiptafundi á grundvelli hinna tilhæfulausu krafna og mótmælt því að kærandi fengi að taka við réttmætum arfi.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna skuli lögmaður svo til mála leggja sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá skuli lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar í lögmannsstörfum sínum, sbr. 2. gr. siðareglnanna. Byggir kærandi á að kærðu hafi ekki gætt að þessum mikilvægu reglum í máli sem varði hagsmuni kæranda, sem enn sé á barnsaldri, miklu.

Kærandi bendir á að kærðu hafi lýst kröfum í dánarbú E fyrir hönd fjögurra nafngreindra umbjóðenda sinna, sbr. fyrirliggjandi kröfulýsingar að heildarfjárhæð 5.464.114.608 krónur. Er á því byggt að kærðu hafi verið ljóst að þeir aðilar sem kröfum var lýst fyrir í dánarbú E ættu ekki viðkomandi kröfuréttindi, þ.e. ef á annað borð yrði viðurkennt að dánarbúið ætti að greiða kröfu af slíkum toga. Jafnvelt þótt svo kynni að verða að þeim yrði síðar afhent réttindin sem arfur, þá væri sá tími ekki kominn og hin ætluðu réttindi því ekki á hendi umbjóðenda kærðu.

Á það er bent að kærðu reki í félagi við aðra lögmenn mál fyrir sömu aðila og lýst hafi kröfum í dánarbúið, en undir þeim formerkjum að dánarbú G eigi kröfuna, sbr. mál nr. E-x sem rekið sé fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Vísar kærandi um málsatvik þess máls til dóms Hæstaréttar í máli nr. xxx/xxxx þar sem glöggt komi fram að krafan sem kærðu lýstu í dánarbúið fyrir tilgreinda einstaklinga í eigin þágu en ekki í þágu dánarbús G hafi verið talin ætluð eign dánarbúsins.

Vísað er til þess að arfi hafi ekki verið úthlutað úr dánarbúi G, en kærðu hafi eftir lýsingu krafnanna í dánarbú E lagt fram tillögu til skiptastjóra dánarbús G þess efnis að „eignum“ dánarbúsins yrði úthlutað til erfingja. Bendir kærandi á að fjölmargir gallar séu á þeirri tillögu sem enn hafi ekki verið afgreidd.

Kærandi byggir á að kærðu hafi samkvæmt framangreindu verið ljóst þegar þeir lýstu kröfum í dánarbú E að umbjóðendur þeirra hefðu engar eignaréttarlegar heimildir fyrir kröfunum fyrr en mögulega eftir úthlutun úr dánarbúi G. Langt sé í að svo geti orðið.

Samkvæmt því hafi kærðu ekki lagt hér til mála það sem þeir vissu sannast að lögum og þeirra samvisku. Byggir kærandi jafnframt á að það sé ekki til að auka heiður lögmannastéttarinnar að lýsa með gáleysislegum hætti tilhæfulausum kröfum í dánarbú í opinberum skiptum. Í ofanálag hafi kærðu haft uppi andmæli í skjóli hinna tilhæfulausu krafna gegn ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi E um að afhenda kæranda eignir sem dánarbúið hefði tímabundið í sínum vörslum. Vísar kærandi um það til efni fundargerðar frá 26. febrúar 2020. Sé sú háttsemi ekki heldur til að auka heiður lögmannastéttarinnar heldur grafi hún þvert á móti undan stöðu lögmanna og einkarétti þeirra til að flytja mál. Teljist slíkt eðlileg háttsemi af hálfu lögmanna megi hleypa hverjum sem er að slíkum störfum.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að í greinargerðum kærðu sé ekkert vikið að því atriði sem kvartað sé yfir, þ.e. að þeir hafi lýst kröfum fyrir hönd umbjóðenda í dánarbú E vegna kröfuréttinda sem umbjóðendurnir hafi ekki ráðið yfir. Bendir kærandi einnig á að kærði C vísi ranglega til þess að kvörtunin lúti að erfðadeilum um F enda hafi verið leyst úr því álitaefni fyrir dómstólum. Þá hafi kærði Guðjón ekki látið þess getið að bæði aðal- og varakrafa í málinu nr. E-x, sem rekið sé fyrir Héraðsdómi Reykjaness, hafi verið gerð í þágu dánarbús G en ekki í þágu umbjóðenda kærða.

Kærandi ítrekar að kærðu hafi vitað að umbjóðendur þeirra hefðu ekki forræði á þeim kröfum sem lýst var í dánarbú E. Hafi kærðu verið grandsamir um vanheimild umbjóðenda sinna. Séu það ekki góðir lögmannshættir að mati forráðamanns kæranda.

Vísað er til þess að dánarbú G væri eigandi ætlaðrar kröfu á hendur H. Hafi fyrrgreint dómsmál verið höfðað í þágu dánarbúsins samkvæmt 3. mgr. 68. gr. laga nr. 21/1991 og krafa gerð um að dánarbúinu yrði dæmdar bætur. Sama gildi um varakröfu á hendur E í því máli.

Vísað er til þess að á grundvelli hinnar heimildarlausu kröfugerðar, hafi kærðu mætt á skiptafundi í dánarbúi E og mótmælt fyrir hönd umbjóðenda samþykki skiptastjóra um að afhenda kæranda jörðina F með arfi samkvæmt erfðaskrá J. Vísar kærandi auk þess til bréfs skiptastjóra í dánarbúi G til Héraðsdóms Reykjaness, dags. 16. mars 2020, ásamt tillögu kærðu um skiptayfirlýsingu. Bent er á að af tillögunni verði ráðið að kvörtun málsins sé rétt um að umbjóðendur kærðu hafi ekki á sinni hendi þau réttindi sem umþrættar kröfulýsingar lúta að. Komi þannig fram að kærðu beiðist skilríkja fyrir rétti sem umbjóðendur þeirra hafi ekki fengið í hendur. Sé grandsemi kærðu um heimildarbrest umbjóðenda því augljós.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða, Guðjóns Ólafs Jónssonar lögmanns, með þeim hætti að þess sé krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði Guðjón vísar til þess að fyrir Héraðsdómi Reykjaness sé nú rekið málið nr. E-x: Erfingjar G gegn aðallega H og til vara E þar sem stefnendur halda aðallega fram einni kröfu, en til vara annarri og til þrautavara að E, nú heitinn, skuldi stefnendum 2.250.000.000 krónur, sbr. fyrirliggjandi stefnu.

Vísað er til þess að eftir andlát E á árinu 2018 hafi skiptastjóri tekið við búinu og auglýst eftir kröfum í dánarbúið. Kveðst kærði að sjálfsögðu hafa lýst kröfum í dánarbúið. Séu hinar lýstu kröfur sundurliðaðar þrautavarakröfur þeirra stefnanda sem um ræði í máli nr. xx/xxx sem rekið sé fyrir Héraðsdómi Reykjaness, auk dráttarvaxta. Lýsir kærði því að lögmanni kæranda hafi að sjálfsögðu mátt vera ljóst hvernig stæði á kröfulýsingunum og breyti engu þar um þótt kærandi sé enn á táningsaldri.

Í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar vísar kærði B til þess í fyrsta lagi að hann hafi ekki lýst persónulegum kröfum í dánarbú E heldur þvert á móti umbjóðendur hans. Samkvæmt lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. sé hverjum manni, sem telur sig eiga kröfu á dánarbú, heimilt að lýsa kröfum sínum. Það sé síðan skiptastjóra viðkomandi dánarbús að taka afstöðu til krafna og athuga grundvöll þeirra. Þá sé það grundvallarréttindi lögmanns að vera ekki samsamaður umbjóðanda sínum, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Telji kærandi að umbjóðendur kærða hafi gert á sinn hlut geti hann gert bótakröfu þar um á hendur umbjóðendunum, en ekki sé rétt að gera kröfu um viðurlög á hendur viðkomandi lögmönnum.

Í öðru lagi bendir kærði á að sé það rétt sem greini í kvörtun hefðu kærðu gert á hlut dánarbús G en ekki kröfuhafa þess. Samkvæmt því sé það skiptastjóri dánarbús G að reka málið fyrir úrskurðarnefndinni. Það hafi hann auðvitað ekki gert.

Í þriðja og síðasta lagi bendir kærði á að krafan sem kærandi lýsi hafi aldrei verið viðurkennd með dómi og sé því aukinheldur óljóst á hvaða grunni þetta mál sé rekið fyrir nefndinni.

IV.

Skilja verður málatilbúnað kærða, C lögmanns, með þeim hætti að þess sé krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði C vísar til þess að kvörtunin varði heiður lögmannastéttarinnar, sem kærandi telji í húfi vegna erfðadeilna um F sem staðið hafi í um x ár. Kærði kveðst fagna því að kærandi og lögmaður hans vilji standa vörð um heiður lögmannastéttarinnar. Þá vísar kærði til þess að hann muni hér eftir sem hingað til gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við lög og rétt. Að öðru leyti hafi kærði ekkert um kvörtunina að segja.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá er tiltekið í 2. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

II.

Svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan lýstu kærðu fjórum kröfum fyrir hönd nánar tilgreindra umbjóðenda sinna í dánarbú E sem mótteknar voru af hálfu skiptastjóra búsins þann 27. desember 2019. Á sama tíma ráku kærðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrir hönd sömu umbjóðenda en í þágu dánarbús G, samkvæmt heimild í 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., á hendur Kópavogsbæ aðallega en til vara á hendur E, sbr. málið nr. E-x, en ágreiningslaust er að þrautavarakröfur á hendur hinum síðastgreinda tóku til sömu krafna og kærðu lýstu síðar í dánarbúið sem fyrr greinir. Þá liggur fyrir að kærðu mótmæltu fyrir hönd umbjóðenda sinna afstöðu skiptastjóra til lýstrar kröfu kæranda í viðkomandi dánarbú á skiptafundi sem haldinn var þann 26. febrúar 2020.

Líkt og áður er rakið er kvörtun kæranda í málinu reist á 27. gr. laga nr. 77/1998 og á því byggt að kærðu hafi verið ljóst að umbjóðendur þeirra ættu ekki viðkomandi kröfuréttindi sem áðurgreindar kröfulýsingar í dánarbú E tóku til. Jafnframt því hafi kærðu haft uppi andmæli í skjóli hinna tilhæfulausu krafna gegn ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi E um að afhenda kæranda eignir sem dánarbúið hefði tímabundið í sínum vörslum. Með því hafi kærðu gert á hlut kæranda með háttsemi sem brotið hafi í bága við 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. siðareglna lögmanna.

Um þetta efni er þess að gæta að kærðu lýstu hinum umþrættu kröfum í dánarbúið á grundvelli hagsmunagæslu í þágu umbjóðenda sinna eftir innköllun skiptastjóra, sbr. 56. og 57. gr. laga nr. 20/1991. Jafnframt verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að að mótmæli kærðu fyrir hönd umbjóðenda gagnvart afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfu kæranda við skiptin hafi verið lögð fram samkvæmt heimild í 1. mgr. 60. gr. laganna.

Vegna sakarefnis málsins verður að mati nefndarinnar að líta til þess að kærðu bar, líkt og lögmönnum endranær, að rækja af alúð þau störf sem þeir sinntu í þágu umbjóðenda sinna og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna þeirra, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 sem og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Að sama skapi höfðu kærðu kröfu til að vera ekki samkenndir þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem þeir gættu í málinu, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglnanna.

Með hliðsjón af fyrrgreindum meginreglum, sem gilda um störf lögmanna, verður að áliti nefndarinnar að játa lögmönnum ríkt svigrúm til að neyta lögmætra úrræða í hagsmunagæslu þeirra í þágu umbjóðenda. Að mati nefndarinnar liggur ekki annað fyrir en að hinar umþrættu kröfulýsingar kærðu í þágu umbjóðenda þeirra sem og þau mótmæli sem þeir viðhöfðu fyrir hönd umbjóðendanna undir dánarbússkiptunum gagnvart afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á lýstri kröfu kæranda, teljist til lögmætra úrræða í framangreindum skilningi enda voru umræddar ráðstafanir, sem liður í hagsmunagæslunni, viðhafðar á grundvelli heimilda í lögum nr. 20/1991. Geti hvorki breytt í því samhengi þótt fyrirséð hafi verið að ágreiningur yrðu um hinar lýstu kröfur umbjóðenda kærðu við skipti dánarbúsins né að á sama tíma hafi verið til meðferðar hjá héraðsdómi mál sem laut meðal annars að sömu kröfum sem hafðar voru uppi í þágu dánarbús G af umbjóðendum kærðu.

Samkvæmt því liggur ekki annað fyrir að mati nefndarinnar en að kærðu hafi hagað hagsmunagæslu í málinu í þágu umbjóðenda sinna í samræmi við það sem lög og siðareglur lögmanna buðu. Þá verði ekki annað talið en að með hinum umþrættu kröfulýsingum, dags. 26. desember 2019, og mótmælum sem höfð voru uppi á skiptafundi þann 26. febrúar 2020 hafi kærðu verið að neyta lögmætra úrræða í því skyni að gæta ætlaðra hagsmuna sinna umbjóðenda. Verður þannig hvorki talið að kærðu hafi gengið lengra í þeim efnum en lög og siðareglur lögmanna heimiluðu né að þeir hafi með hinni umþrættu háttsemi gert á hlut kæranda í máli þessu.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærðu hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi verið í andstöðu við 2. mgr. 1. gr. eða 2. gr. siðareglna lögmanna.

Rétt þykir að hver aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærðu, B lögmaður og C lögmaður, hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson