Mál 7 2020

Mál 7/2020

Ár 2020, föstudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2020:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. mars 2020 erindi A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. C lögmaður fer með mál kæranda fyrir nefndinni.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 20. mars 2020 og barst hún þann 20. apríl sama ár. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 22. sama mánaðar. Hinn 18. maí 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann 22. sama mánaðar. Svar kærða barst 30. júní 2020 og var það sent til kæranda þann 2. júlí sama ár með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Varðandi sakarefni málsins þá liggur fyrir samkvæmt málsgögnum að D var birt fyrirkall og ákæra þann x. desember 201x vegna máls nr. S-x sem fyrirhugað var að þingfesta í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. sama mánaðar. Samkvæmt fyrirkallinu óskaði aðilinn eftir þegar við birtingu að kærandi yrði skipaður verjandi hans í málinu. Áttu fyrrgreindir aðilar í beinu framhaldi af því í tölvubréfasamskiptum vegna málsins þar sem kærandi staðfesti meðal annars að hann gæti annast verjendastörf í málinu. Þá móttók kærandi boðun Héraðsdóms Reykjavíkur til þingfestingar málsins þann x. desember 201x.

Þann 6. desember 2019 sendi fyrrgreindur D á ný tölvubréf til kæranda þar sem hann upplýsti um að lögmaður hefði haft samband við sig símleiðis og boðið aðstoð í málinu þar sem hann væri ekki með „skráðan lögfræðing.“ Lýsti D því jafnframt í tölvubréfinu að hann hefði ritað nafn kæranda á fyrirkallað og að vonir hans stæðu til að kærandi fengi gögn málsins. Í áframhaldandi samskiptum þeirra kom fram úr hvaða númeri hefði verið hringt og að það væri skráð á kærða í máli þessu.

Ágreiningslaust er að kærandi setti sig í samband við kærða í framhaldi þessa þann 6. desember 2019 og gerði athugasemdir við þá háttsemi kærða að hafa sett sig í samband við fyrrgreindan skjólstæðing kæranda. Á meðal málsgagna er jafnframt að finna tölvubréf sem kærði sendi til kæranda þennan sama dag, undir yfirskriftinni „símtal“, en þar sagði meðal annars:

Ég kann því vægast sagt afar illa að þú skulir hringja í mig í mikilli geðshræringu og bera á mig ótilgreindar sakir. Þegar mér loks gefst tækifæri til að svara þér í símann skellir þú á mig og gerir það öðru sinni þegar ég hringi í þig aftur. Hvað gengur þér til?

Þessi háttsemi sín er ekki í samræmi við 25. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi hefur jafnframt lagt fyrir nefndina yfirlýsingu D, dags. 12. desember 2019, sem lýtur að efni samtals hans og kærða frá 6. sama mánaðar, en hún er nánar tiltekið svohljóðandi:

Tilefni bréfs þessa er símtal sem ég fékk frá símanúmerinu xxx-xxxx þann 6. desember 2019 kl. 11:19. Viðmælandi minn kynnti sig með nafninu B og að hann væri lögmaður. Hann bauð mér hjálp vegna máls sem átti að þingfesta þann x. desember 201x hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Jafnframt tjáði hann mér að ég hefði engan skráðan lögfræðing í málinu. Ég sagði honum að ég væri með skráðan lögmann, sem var A. Eftir það kvaddi B mig í símanum.

Kærandi hefur jafnframt lagt fyrir nefndina afrit frétta sem birtar voru á vefmiðlinum frettabladid.is dagana x. og x. janúar 20xx. Ekki þykir þörf á að reifa efni þeirra sérstaklega vegna sakarefnis málsins umfram það sem greinir í málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni, sbr. nánar kafla II. á eftir.

Fyrir liggur að kærði óskaði eftir að eiga stutt samtal við kæranda með tölvubréfi þann 26. mars 2020. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að hann vissi ekki hvað hann ætti að ræða við kærða en ef að málið lyti að kvörtun í málinu væri rétt að hafa samband við lögmann kæranda. Kvaðst kærði í framhaldinu vilja ræða í vinsemd við kæranda um málið en ekki mun hafa orðið af slíkum viðræðum málsaðila.

Meðal málsgagna er jafnframt að finna útprent af dagskrá Héraðsdóms frá x. apríl 20xx, tölvubréf E lögreglumanns til F lögmanns frá x. apríl 20xx, dóm Héraðsdóms Reykjavíkur x. janúar 20xx í máli nr. S-x og yfirlýsingu eins af ákærðu í tilgreindu máli, dags. 20. apríl 2020, sem kærði sinnti verjendastörfum fyrir. Um tilgreind gögn, sem kærði hefur lagt fyrir nefndina, vísast til málatilbúnaðar aðilans fyrir nefndinni sem gerð er grein fyrir í kafla III.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærði verði áminntur fyrir brot á siðareglum lögmanna vegna háttsemi sinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærandi byggir á að kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna með því að hafa sett sig í samband við skjólstæðing kæranda og falast eftir máli sem skjólstæðingurinn hafi leitað til kæranda með.

Um málsástæður og lagarök vísar kærandi til 2., 25. og 26. gr. siðareglna lögmanna. Byggir kærandi á að 26. gr. siðareglnanna, um að lögmaður megi ekki setja sig beint í samband við umbjóðanda eða skjólstæðing annars lögmanns, sé skýr og afdráttarlaus og að það undanþiggi ekki tilvik þar sem dagskrá dómstólanna geymi ekki  upplýsingar um lögmann sem vinni að máli. Fyrir liggi að kærði hafi sett sig í samband við skjólstæðing kæranda, að eigin frumkvæði og án þess að skjólstæðingurinn hefði óskað eftir slíkum samskiptum. Ekkert samþykki hafi legið fyrir af hálfu kæranda um að kærði mætti hegða sér með þessum hætti auk þess sem engin brýn nauðsyn hafi krafist þess. Hafi tilgangur kærða með símtali til skjólstæðings kæranda verið augljós og að með þeirri háttsemi hafi kærði brotið gegn siðareglum lögmanna. Engu breyti í því sambandi þó að kærði hafi hugsanlega ekki haft upplýsingar um það að skjólstæðingurinn nyti þegar aðstoðar lögmanns. Þá hafi kærði augljóslega látið sér í léttu rúmi liggja að það væri langlíklegasta staðan, enda hafi málið verið í gangi í þó nokkurn tíma áður en því var beint til dóms.

Kærandi telur einnig sérstaka ástæðu til að fjalla í víðara samhengi um þau vinnburögð kærða sem séu tilefni kvörtunarinnar. Þannig sé það almennt á vitorði lögmanna að kærði og samstarfsmaður hans, F lögmaður, stundi það kerfisbundið að setja sig beint í samband við fólk sem þurfi að svara til saka fyrir dómi í því skyni að leita eftir verkefnum. Láti þeir það ekki trufla sig þó aðrir lögmenn hafi áður tekið málin að sér. Vísar kærandi um þetta efni meðal annars til fyrirliggjandi frétta frá x. og x. janúar 20xx.

Kærandi bendir á að vinnulag kærða og fyrrgreinds samstarfsmanns hans hafi leitt af sér að margir sakborningar, sem hafi haft verjendur fyrir, hafi ákveðið að skipta yfir til þeirra sem gefi til kynna að þeir hafi ekki einungis beint spjótum sínum að verjendalausu fólki. Þá sé það þekkt að þeir hafi náð til sín skjólstæðingum annarra lögmanna með ósannindum sem gangi meðal annars út á að bannað sé að vera með sama verjanda við rannsókn og fyrir dómi eða að þeir séu að hringja frá héraðsdómi sem hafi úthlutað þeim verkinu.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kæranda að lögmannastéttin hafi á stundum átt undir högg að sækja í opinberri umræðu og séu margar skýringar á því. Ein skýringin sé vafalaust sú að lögmenn komi gjarnan að erfiðum og viðkvæmum málum og að í þeirri hlut komi oft að færa fólki vond tíðindi. Rík ástæða sé til að bregðast við því þegar lögmenn hagi sér með þeim hætti sem kærði og samstarfsmaður hans geri, en með háttsemi sinni skaði þeir ekki einungis þá lögmenn sem verði bein fórnarlömb þeirra heldur stéttina almennt vegna neikvæðrar umræðu, sem í þessu tilviki hafi ratað í fjölmiðla.

Byggir kærandi á að kærði og samstarfsmaður hans hafi annan skilning á siðareglum lögmanna en þorri kollega þeirra og að þeir virðist jafnvel vera ósammála reglunum. Athugasemdir um að þessi eða hinn sé ekki með „skráðan“ lögmann þjóni eingöngu þeim tilgangi að afvegaleiða fólk. Sé slík umræða ekki samboðin stétt lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að ljóst sé af málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni að hann viðurkenni brot það sem kvörtun taki til og gangist einnig við því að hafa kerfisbundið stundað að hringja í fólk sem sætir ákæru fyrir dómi í því skyni að afla sér viðskipta. Hafi kærði látið sig engu varða þó að fólkið nyti aðstoðar annars lögmanns.

Kærandi kveðst mótmæla öllum rökstuðningi kærða þess efnis að hann hafi verið í einhverjum rétti þegar hann valdi að hringja í skjólstæðing kæranda. Þá hafnar kærandi staðhæfingum um að formgalli sé á kvörtuninni enda atvik „einföld og skýr“ líkt og kærði vísi sjálfur til.

Kærandi kveðst furða sig á þeim sjónarmiðum sem kærði haldi fram gagnvart kvörtun í málinu og þeim þversögnum sem þar sé að finna. Sé þannig erfitt að átta sig á hvort kærði álíti háttsemi sína standast siðareglur eða hvort hann telji að 26. gr. þeirra stríði gegn ákvæðum stjórnarskrár eða jafnvel að óþarft sé vegna annarra ástæðna að virða hana. Megi þannig af efni málatilbúnaðar kærða merkja að hann telji sig ekki bundinn af neinni reglu er gangi út á að hann megi ekki snúa sér beint til fólks sem fyrir nýtur aðstoðar annars lögmanns. Samkvæmt því sé allur málatilbúnaður kærða um að kæranda hafi fyrst borið að leita sátta eða fara einhverja vægari leið undarlegur. Auk þess hafi kærandi heldur ekki getað vænst þess að kærði myndi breyta háttalagi sínu eða biðjast afsökunar á broti sínu í ljósi ítrekaðrar háttsemi hans að þessu leyti sem hafi haldið áfram eftir fjölmiðlaumfjöllun um málið í janúarmánuði 20xx.

Kærandi bendir á að kærði leggi mikla áherslu á það að hann hafi ekki vitað að skjólstæðingur kæranda nyti aðstoðar lögmanns þegar hið umþrætta símtal átti sér stað þann x. desember 20xx, enda hafi skjólstæðingurinn ekki verið með „skráðan“ verjanda í dagskrá héraðsdóms. Um þetta efni bendir kærandi á að kærði hafi horft framhjá því að upplýsingar um verjandann hafi legið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Auk þess liggi fyrir að dagskrá dómstóla sé ekki áreiðanleg heimild um það hvort fólk hafi lögmann eða ekki. Jafnframt því sé það ekki tilgangur með birtingu á dagskrá dómstóla að gefa lögmönnum veiðileyfi á fólk sem þar er nafngreint, sbr. þau viðbrögð sem orðið hafa hjá héraðsdómstólum um að hætta nafnbirtingu sakborninga í dagskránni vegna ónæðis á samfélagsmiðlum og símtala kærða og samstarfsmanns hans til þeirra sem þar eru nafngreindir.

Varðandi málatilbúnað kærða um að 26. gr. siðareglna lögmanna nái ekki yfir tilvik það sem kvörtun kæranda lýtur að bendir kærandi á að orðalag ákvæðisins sé skýrt og bjóði ekki upp á slíka þrönga túlkun sem kærði haldi fram. Byggir kærandi á að tilgangur ákvæðisins gangi meðal annars út á að lögmenn sýni þá virðingu og tillitssemi að hafa ekki samband við viðskiptavini annarra lögmanna. Sé starfsumhverfi lögmanna talsvert flóknara en svo að ákvæðið geti einungis átt við í þeim tilvikum sem kærði fjalli um. Þá er á það bent að tilvik það sem kvörtun taki til varði ekki óhappatilvik enda hafi kærði viðurkennt að hafa hringt viljandi í skjólstæðing kæranda. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið öruggt að skjólstæðingurinn nyti þegar aðstoðar annars lögmanns hafi ekki verið um óhapp að ræða heldur ásetningsverk sem kærði hafi réttlætt og talið sig í fullum rétti með.

Kærandi kveðst ekki halda því fram að um gáleysi kærða hafi verið að ræða. Þvert á móti komi skýrt fram í kvörtun að kærði hafi viljandi hringt í skjólstæðing kæranda og látið sig engu varða að líklegt væri að skjólstæðingurinn nyti aðstoðar annars lögmanns. Komi jafnframt fram mjög skýr ásetningur um þetta efni í málatilbúnaði kærða sjálfs fyrir nefndinni.

Vegna málatilbúnaðar kærða bendir kærandi jafnframt á að hann hafi aldrei heyrt um að aðgangur sakborninga að lögmönnum hér á landi hafi verið talinn vandkvæðum bundinn. Auðvelt sé að finna lögmenn í litlu samfélagi eins og á Íslandi. Hafi kærði talið þetta raunverulegt vandamál hafi honum verið í lófa lagið að vekja athygli á því hjá Lögmannafélagi Íslands eða jafnvel í fjölmiðlum. Telur kærandi að ónæðissímtöl kærða og samstarfsmanns hans hafi ekki verið „þjónusta við réttarríkið“ heldur eingöngu ósvífin leið til verkefnaöflunar.

Kærandi vísar til þess að um 500 sjálfstætt starfandi lögmanna sé að finna á landinu og að mikil samkeppni ríki meðal þeirra. Telur kærandi ljóst að stór hluti af þessum lögmönnum hefðu áhuga á að bæta við sig verkefnum en að þeir hafi þó ekki kosið að fara þá leið sem kærði og samstarfsmaður hans hafi farið. Ef niðurstaða þessa máls yrði sú að slík háttsemi eins og kærði sýndi stæðist siðareglur þýddi það að þeir fjölmörgu lögmenn sem vildu bæta á sig verkefnum á sviði sakamála gætu farið að taka upp sömu vinnubrögð. Um þann skaða sem af því myndi hljótast þyrfti vart að fjölyrða, enda slíkt ekki til þess fallið að auka traust til lögmanna.

Að endingu vísar kærandi til þess að málið snúist um að almenningur geti borið traust til lögmanna og að lögmenn geti haft traust sín á milli í samskiptum og sýni hver öðrum virðingu. Framferði kærði og samstarfsmanns hans hafi hins vegar einkennst af virðingarleysi fyrir öðrum lögmönnum og fólki sem þurfi á aðstoð lögmanna að halda. Virðing á milli lögmanna sé mikilvægur þáttur í að skapa traust bæði inn á við og út á við í störfum lögmanna og gangi tilgangur 26. gr. siðareglnanna út á að treysta það.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinnin en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Í báðum tilvikum er þess krafist að kæranda verði gert að greiða kærða kostnað vegna rekstrar málsins fyrir nefndinni.

Varðandi afmörkun á kvörtun vísar kærði til þess að kröfugerð kæranda í málinu lúti að því að kærði verði áminntur vegna þeirra atvika sem áttu sér stað þann 6. desember 2019. Byggir kærði á að önnur málsatvik séu tæplega til umfjöllunar og ættu ekki að koma til skoðunar við meðferð málsins hjá nefndinni. Þannig lúti megnið af málsatvikalýsingu kæranda, sem aðallega byggi á getgátum og sögusögnum, að öðrum atvikum, á ótilgreindum tíma sem jafnframt taki til framferðis annars lögmanns. Kveður kærði erfitt að sjá hvernig slík umfjöllun geti samræmst 25. gr. siðarelgna lögmanna. Þá sé í reynd afar erfitt að sjá hvernig kærandi telji að kærði hafi gert á hans hlut, enda hafi háttsemi kærða engin áhrif haft á störf kæranda auk þess sem ekki verði annað ráðið en að sakborningur sá er símtalið hafi fengið hafi notið þjónustu kæranda. Auk þess sé skýrt í málsgögnum að ásetningur kærða hafi aðeins verið að bjóða fram þjónustu sína ef að sakborningur nyti ekki aðstoðar lögmanns.

Í málatilbúnaði kærða er því mati aðilans lýst að kærandi hafi með kvörtun sinni í málinu brotið gegn 25. gr. siðareglna lögmanna. Eðlilegra hefði verið að ræða við kærða og sjá hvort hægt væri að sættast í málinu. Ef það hefði ekki borið árangur hefði kærandi getað beitt öðru og vægara úrræði sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, þ.e. að fara þess á leit við stjórn Lögmannafélags Íslands að leysa úr deilunni. Sé það vítavert að gera enga tilraun til sáttaumleitana og forkastanlegt af hálfu kæranda að synja slíkri umleitan kærða.

Varðandi kröfu um frávísun vísar kærði til þess að raunveruleg atvik málsins séu einföld og skýr. Þrátt fyrir það eyði kærandi drjúgum hluta kvörtunar sinnar í umfjöllun um málefni sem varði hvorki kvörtunarefni né kærða. Telur kærði að ekki sé hægt að leysa úr þeim ásökunum sem kærandi hefur borið á hann á grundvelli ærumeiðandi aðdróttana og sögusagna. Beri því að vísa málinu frá nefndinni með vísan til 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. einnig til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar í máli nr. 39/2018.

Þá renni frekari stoðum undir frávísun að kærandi hafi ekki kallað eftir sjónarmiðum kærða áður en kvörtun var send til nefndarinnar. Jafnframt því hafi kærði látið hjá líða að leita sátta, hafnað sáttaumleitan kærða auk þess sem vægara úrræði 2. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hafi ekki verið beitt.

Varðandi kröfu um höfnun bendir kærði í fyrsta lagi á það fordæmisgildi sem úrskurður í máli þessu kann að hafa verði fallist á kröfur kæranda. Bendir kærði á að kvörtun taki til eins símtals til aðila sem hafi verið ákærður í sakamáli þar sem hann hafi verið spurður um hvort hann nyti aðstoðar lögmanns þar sem enginn verjandi væri skráður í birtri dagskrá héraðsdóms. Er vísað til þess að kærði hafi ekki haft upplýsingar um það hvort að viðkomandi nyti aðstoðar verjanda og að hann hafi lokið símtalinu um leið og í ljós hafi komið að sakborningur nyti aðstoðar annars lögmanns. Sé þetta efni staðfest í yfirlýsingu viðkomandi sakbornings.

Kærði bendir á að það gerist vafalaust daglega að lögmenn ræði við einstaklinga sem njóta aðstoðar annars lögmanns. Gætu lögmenn lítið aðhafst ef þeim væri óheimilt að hafa samband við einstaklinga af þeim sökum einum að mögulegt væri að viðkomandi nyti aðstoðar lögmanns. Slíka reglu leiði ekki af eðlilegri túlkun á efni 26. gr. siðareglna lögmanna. Slíkri reglu væri auk þess ekki hægt að framfylgja og myndi einnig hafa þau áhrif að lögmenn gætu lítið sem ekkert aðhafst að eigin frumkvæði. Ef að nefndin fallist á kröfur kæranda sé þar með fallist á að lögmaður brjóti gegn 26. gr. siðareglnanna með því að hafa samband við aðila sem þegar nýtur aðstoðar lögmanns, hvort sem lögmaður hefur vitneskju um það réttarsamband eða ekki og þrátt fyrir að lögmaður hætti samskiptum um leið og í ljós kemur að viðkomandi nýtur þegar aðstoðar annars lögmanns. Væri sú nýja regla sem þá yrði mótuð þannig að hægt væri að fremja brot gegn 26. gr. siðareglnanna af gáleysi og þrátt fyrir að lögmaður hefði engan ásetning til þess að eiga í samskiptum við umbjóðendur annarra lögmanna eða þess þá heldur að reyna að hafa af þeim viðskipti. Bendir kærði á að slíkt fordæmi væri sérstaklega varhugavert í ljósi þess að hann hafi látið af háttseminni um leið og honum var kunnugt um þá staðreynd að aðili naut aðstoðar kæranda í málinu.

Í öðru lagi byggir kærði á að 26. gr. siðareglna lögmanna sé fyrst og fremst til að varna því að lögmaður geti í þeim tilvikum sem tveir aðilar deila og báðir njóta aðstoðar lögmanns, snúið sér beint að skjólstæðingi til að semja eða hafa áhrif á hans afstöðu eða lyktir máls á annarlegan máta. Fjalli 1. mgr. þannig um þau tilvik þegar lögmaður hefur sjálfur frumkvæði að slíkum samskiptum og 2. mgr. þegar frumkvæðið er hjá skjólstæðingi. Samkvæmt því byggir kærði á að ákvæðið sé fyrst og fremst stutt réttaröryggissjónarmiðum og að því sé ætlað að ná yfir þau tilvik þegar tveir aðilar deila og báðir njóta aðstoðar lögmanns. Bendir kærði um þetta efni á úrskurði nefndarinnar í málum nr. 4/2007, 1/2018 og 41/2018.

Kærði vísar í þessu samhengi einnig til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 6/2008. Byggir kærði á að af úrskurðinum verði ráðið að ásetning þurfi til að koma svo unnt sé að ræða um brot gegn 26. gr. siðareglna lögmanna. Geti lögmaður enda ekki sýnt öðrum lögmanni lítilsvirðingu ef hann veit ekki um tilvist hans eða réttarsamband hans við skjólstæðing. Væri samkvæmt því ótæk niðurstaða að áminna lögmann fyrir brot á greininni án ásetnings. Bendir kærði einnig á að í sama úrskurði komi fram að tilgangur greinarinnar sé að koma í veg fyrir að aðili verði fyrir réttarspjöllum fái hann ekki notið aðstoðar og ráðgjafar lögmanns síns í máli. Telur kærði að þessi túlkun sé öllu mikilvægari og að hún lýsi kjarna ákvæðisins. Ljóst sé að háttsemi kærða brjóti ekki gegn ákvæðinu ef að tilgangur þess sé að verja hagsmuni einstaklings sem sótt sé að af refsivörslukerfinu. Þvert á móti var og sé ásetningur kærða aðeins að bjóða fram aðstoð sína ef sú staða er uppi að viðkomandi njóti ekki þegar aðstoðar lögmanns.

Varðandi meint gáleysi kærða vísar aðilinn til þess að nafn ákærða hafi verið birt í opinberri dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur án þess að neinn verjandi hafi verið tilgreindur. Um það sé ekki ágreiningur á milli málsaðila enda byggi kærandi á meintu gáleysi kærða. Byggir kærði á að hann hafi mátt, með hliðsjón af hinni birtu dagskrá, leiða líkur að því að ákærði nyti ekki aðstoðar lögmanns. Hafi kærði þó allt að einu farið með gát og spurt ákærða hvernig þeim málum væri háttað og lokið samtalinu þegar í ljós hafi komið að ákærði væri með lögmann í málinu. Bendir kærði á að lögmenn og aðrir eigi að geta treyst birtri dagskrá dómstóla hverju sinni. Allt að einu sé rétt að lögmenn sýni aðgát sem kærði hafi og gert í máli þessu.

Um þetta efni vísar kærði einnig til þess að þótt sakborningur hafi haft tilefndan verjanda á rannsóknarstigi leiði það ekki sjálfkrafa til þess að hann hafi sama verjanda skipaðan fyrir dómi, sbr. meginreglur IV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Séu lögmenn, sem á fyrri stigum hafa eftir atvikum mætt í skýrslutöku með sakborningi sem tilnefndir verjendur, ekki þar með orðnir lögmenn viðkomandi aðila um alla framtíð.

Kærði telur jafnframt að horfa verði á málið í stærra samhengi. Sé það ekki ofsögum sagt að sá hópur samfélagsins, sem kemst upp á kant við refsivörslukerfið, eigi um sárt að binda. Það að lögmenn skuli sýna sakamálum áhuga og setji sig í samband við aðila sem sæta ákæru sé jákvætt en ekki neikvætt. Auðvitað verði að gæta að siðareglum lögmanna og hafa ekki samband við aðila þegar fyrir liggur að þeir hafi þegar verjanda, svo sem þegar nafn verjanda er tilgreint í birtri dagskrá dómstólanna. Heilt yfir sé afleiðingin af viðleitni kærða sú að fleiri aðilar muni njóta aðstoðar verjanda fyrir dómi en ella hefði verið. Það eitt og sér auki réttaröryggi þeirra sem ákæru sæta. Bendir kærði einnig um þetta efni á tölvubréf tilgreinds lögreglumanns, sem annast hafi um lengri tíma birtingu fyrirkalla í sakamálum, þar sem fram komi það álit að í um helmingi tilvika óski ákærðu ekki eftir tilteknum verjanda í sínu máli. Bendir kærði einnig á dóm í máli S-x og yfirlýsingu skjólstæðings síns í því máli sem er á meðal málsgagna.

Í samræmi við framangreint byggir kærði á að viðleitni hans sé í raun þjónusta við réttarríkið. Viðleitni kærða leiði til þess að fleiri njóti aðstoðar verjanda í sakamálum. Sé því hvimleitt og sárt fyrir kærða að sitja undir kvörtun af þessu tagi, sérstaklega í ljósi þess að kærði hafi sýnt aðgát og lokið samtali sínu við ákærða þegar í stað eftir að upplýst var um réttarsamband hans við kæranda.

Kærði vísar í þriðja lagi til þess að samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna skuli viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt, ef að atvik fyrri málsliðar hafa átt sér stað. Fyrir liggi að kærði hringdi í sakborning um klukkan 11:00 þann x. desember 20xx. Sakborningur hafi samstundis haft samband við sinn lögmann, þ.e. kæranda í málinu. Loks hafi kærandi haft samband við kærða fyrir kl. 12:00 þann sama dag símleiðis eða innan við klukkustund eftir upphaflegt samtals. Í framhaldi af því hafi kærði reynt að hringja aftur í kæranda auk þess að senda til hans tölvubréf þennan sama dag.

Samkvæmt því telur kærði ljóst að honum hafi ekki gefist færi á að hafa samband við kæranda áður en kærandi hafði samband við kærða innan við klukkustund eftir að atvik urðu. Hafi kærði ekki með þessu sýnt kæranda lítilsvirðingu í samskiptum svo að stangist á við 25. eða 26. gr. siðareglnanna, enda hafi staðið til að hafa samband við kæranda síðar þennan sama dag.

Kærði vísar til 73. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Byggir kærði á að sú túlkun á 26. gr. siðareglnanna sem kærandi leggi til feli í sér umtalsverða skerðingu á athafnafrelsi lögmanna og að hún feli í sér réttindaskerðingu í skilningi fyrrgreindra mannréttindaákvæða. Fæli svo víðtæk skerðing á grundvelli framsals á valdi í sér brot á lagaáskilnaðarreglu téðra stjórnarskrárákvæða.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar er vísað til þess að hið eiginlega og afmarkaða kvörtunarefni kæranda sé einfalt og skýrt, þ.e. ákveðið símtal þar sem kærði spurði sakborning í sakamáli hvort hann nyti aðstoðar lögmanns. Í kjölfar svars sakborningsins um að svo væri hafi kærði lokið samtalinu án tafar enda ekki vilji kærða að ræða málið frekar í ljósi hagsmunagæslu kæranda. Bendir kærði á að fyrir liggi skrifleg staðfesting viðkomandi sakbornings um þetta efni. Sé því hvimleitt og sárt fyrir kærða að sitja undir kvörtun í málinu, sérstaklega í ljósi þess að kærði hafi sýnt aðgát og lokið samtalinu við ákærða þegar í stað og í ljós hafi komið að hann nyti lögmannsaðstoðar. Með þeirri háttsemi hafi kærði einnig sýnt kæranda virðingu og tillitssemi.

Kærði bendir á að þrátt fyrir hið einfalda og afmarkaða kvörtunarefni sé málatilbúnaður kæranda óljós og villandi og fullur af órökstuddum, ósönnuðum og ærumeiðandi fullyrðingum í garð kærða. Þá fari drjúgur hluti kvörtunar í að fjalla um tilgreinda og meinta háttsemi annars lögmanns. Þegar af þeirri ástæðu eigi að vísa málinu frá nefndinni.

Kærði áréttar að heimild til að bera mál undir nefndina á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sé háð því skilyrði að kærandi telji lögmann hafa gert á sinn hlut með þeirri háttsemi sem kvartað sé undan. Vísar kærði til þess að erfitt sé að sjá hvernig hið eiginlega og afmarkaða umkvörtunarefni kæranda uppfylli þetta skilyrði enda fjalli kvörtun og andmæli kæranda að megninu til um önnur atvik á ótilgreindum tíma og meint framferði annars lögmanns í því samhengi.

Er á það bent að kærði hafi andstætt kæranda stutt mál sitt með rökstuddum hætti og með framlagningu gagna varðandi fullyrðingar sem ágreiningur sé um. Þrátt fyrir fyrirliggjandi gögn fullyrði kærandi ranglega að kærði hafi látið sér í léttu rúmi liggja að „langlíklegast“ væri að sakborningur sá sem fékk símtal frá kærða væri með annan lögmann. Kærði kveðst vísa tilgreindri fullyrðingu kæranda alfarið á bug enda hafi kærandi enga tilraun gert til að rökstyðja hana eða leggja fram gögn henni til sönnunar.

Niðurstaða

I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en um stoð fyrir þeirri kröfugerð hefur kærði vísað til 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem fram kemur að ef í máli eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri máls, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, geti nefndin vísað því frá.

Varðandi kröfu um frávísun hefur kærði vísað til þess fyrir nefndinni að kærandi hafi eytt drjúgum hluta kvörtunar í umfjöllun um málefni sem varði hvorki kvörtunarefni né kærða. Byggir kærði á að ekki sé hægt að leysa úr þeim ásökunum sem kærandi hafi borið á hann á grundvelli ærumeiðandi aðdróttana og sögusagna. Auk þess hafi kærandi ekki kallað eftir sjónarmiðum kærða áður en kvörtun var send til nefndarinnar. Þá hafi kærandi jafnframt látið hjá líða að leita sátta, hafnað sáttaumleitan kærða auk þess sem vægara úrræði 2. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hafi ekki verið beitt.

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að atvik að baki meginkvörtunarefni kæranda gagnvart kærða eru einföld og skýr, eins og raunir báðir málsaðilar hafa vísað til fyrir nefndinni. Lýtur sakarefni málsins þannig að því hvort kærði hafi gert á hlut kæranda með því að hafa haft samband við skjólstæðing kæranda þann x. desember 20xx og boðið fram lögmannsþjónustu nyti skjólstæðingurinn ekki þegar aðstoðar lögmanns í viðkomandi máli. Að mati nefndarinnar er ótvírætt að slíkt sakarefni á undir valdsvið hennar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Ekki er ágreiningur á milli málsaðila um atvik að þessu leyti en þau samrýmast jafnframt öðrum málsgögnum. Samkvæmt því er hvorki um það að ræða í málinu að í því séu sönnunaratriði sem örðugt er að leysa úr undir rekstri þess né að málið teljist ekki nægilega upplýst. Eru því engin skilyrði til að vísa málinu í heild sinni frá nefndinni á grundvelli 2. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Þá eru engin efni til að vísa málinu frá nefndinni á þeim grundvelli að sáttaumleitanir hafi ekki farið fram á milli málsaðila áður en kvörtun var beint til nefndarinnar eða að kærandi hafi ekki beitt því úrræði sem vísað er til í 2. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Á hinn bóginn er þess að gæta að í kvörtun kæranda og síðari málatilbúnaði hans fyrir nefndinni hefur verið vísað til ýmissar ætlaðrar háttsemi kærða og nánar tilgreinds samstarfsmanns hans í öðrum málum en eiginlegt kvörtunarefni kæranda sjálfs tekur til. Að áliti nefndarinnar hefur kærandi engan reka gert að því í málinu að upplýsa um hvernig sú ætlaða háttsemi kærða á að hafa gert á hans hlut í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 auk þess sem um ótilgreind mál ræðir sem ekki eru studd nokkrum gögnum. Þá liggur fyrir að málatilbúnaður kæranda að þessu leyti hefur að nokkru verið beint að öðrum lögmanni sem ekki á aðild að máli þessu, í samræmi við framsetningu kvörtunar kæranda, og hefur þar af leiðandi ekki átt þess kost að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum á framfæri fyrir nefndinni gegn málatilbúnaði kæranda. Þegar af þessum ástæðum verður að fallast á með kærða að ekki séu skilyrði til að taka til umfjöllunar og úrlausnar í máli þessu önnur ætluð atvik en þau sem varða með beinum hætti það meginkvörtunarefni kæranda sem áður er lýst.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í IV. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um innbyrðis samskipti lögmanna. Er þar tiltekið í 1. mgr. 25. gr. að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þá segir í 1. mgr. 26. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skuli þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

III.

Líkt og áður greinir er ekki ágreiningur á milli málsaðila um málsatvik vegna þess kvörtunarefnis sem hér er til úrlausnar. Liggur þannig fyrir að þann x. desember 20xx hafði kærði samband við ákærða í máli nr. S-x sem fyrirhugað var að þingfesta í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. sama mánaðar. Um forsögu þess hefur kærði vísað til þess að nafn ákærða hafi komið fram á dagskrá sem birt sé á vefsíðu héraðsdómstólanna og að hann hafi þar ekki verið með „skráðan lögmann“ í viðkomandi máli. Hafi kærði í samtalinu spurst fyrir um hvort ákærða nyti aðstoðar lögmanns þar sem enginn verjandi væri skráður í hinni birtu dagskrá. Þá hafi símtalinu lokið um leið og í ljós hafi komið að ákærði nyti aðstoðar annars lögmanns, þ.e. kæranda í þessu máli. Fær málatilbúnaður kærða að þessu leyti, sem ekki hefur sætt andmælum, stoð í skriflegri yfirlýsingu viðkomandi viðmælanda, dags. 12. desember 2019, en efni hennar er rakið í málsatvikalýsingu að framan.

Kvörtun kæranda í málinu er á því reist að kærði hafi gert á hlut kæranda með framangreindri háttsemi sem varði við 2., 25. og 26. gr. siðareglna lögmanna. Hafi kærði þannig með brotlegum hætti sett sig í samband við skjólstæðing kæranda, að eigin frumkvæði, og falast eftir máli sem skjólstæðingurinn hafi leitað til kæranda með, sbr. fyrirliggjandi fyrirkall og tölvubréfasamskipti kæranda og viðkomandi skjólstæðings frá x. desember 20xx. Hafi skjólstæðingurinn ekki óskað eftir slíkum samskiptum frá kærða auk þess sem hvorki hafi legið fyrir samþykki kæranda fyrir símtalinu né nokkur brýn nauðsyn. Breyti engu í því efni þó að kærði hafi hugsanlega ekki haft upplýsingar um að skjólstæðingurinn nyti þegar aðstoðar lögmanns. Þá hafi kærði augljóslega látið sér í léttu rúmi liggja að það væri langlíklegasta staðan, enda hafi málið verið í gangi í þó nokkurn tíma áður en því var beint til dóms.

Með hliðsjón af fyrrgreindum atvikum verður að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að kærða hafi verið ókunnugt um að kærandi hafi tekið að sér að annast verjendastörf í þágu ákærða í málinu nr. S-x fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er hið umþrætta símtal fór fram þann x. desember 20xx. Fær það jafnframt stoð í eftirfarandi athöfnum kærða sem lauk símtalinu þá þegar og viðmælandinn upplýsti um að hann nyti lögmannsaðstoðar kæranda í málinu. Freistaði kærði þess þannig hvorki að hafa áhrif á val viðmælandans á verjanda í hinu fyrirhugaða sakamáli fyrir dómi né að afla sér viðskipta með rangri, ófullnægjandi eða villandi upplýsingum í skilningi 2. mgr. 42. gr. siðareglna lögmanna. Þá liggur ekki annað fyrir í málinu en að kærandi hafi annast hagsmunagæslu í þágu ákærða í fyrrgreindu sakamáli í héraði sem skipaður verjandi, í samræmi við ósk ákærða þar að lútandi.

Í samræmi við allt framangreint verður að áliti nefndarinnar að telja að kærði hafi sýnt kæranda slíka virðingu og tillitssemi sem áskilin er í 25. gr. siðareglna lögmanna með því að ljúka hinu umþrætta símtali þá þegar og honum var ljóst að kærandi færi með mál viðkomandi fyrir dómi. Með hliðsjón af því að ekkert liggur fyrir um að kærða hafi verið kunnugt um réttarsamband kæranda og skjólstæðings hans verður heldur ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda í máli þessu með háttsemi sem stríði gegn 1. mgr. 26. gr. siðareglnanna.  Þá verður ekki talið, eins og atvikum er háttað í máli þessu, að háttsemi kærða hafi varðað við heiður lögmannastéttarinnar þannig að í bága hafi farið við 2. gr. þeirra. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu um að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson