Mál 9 2020

Mál 9/2020

Ár 2020, föstudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2020:

A ehf.

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. apríl 2020 erindi C lögmanns fyrir hönd kæranda, A ehf., en það lýtur annars vegar að ágreiningi um endurgjald í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn við kærða, B lögmann, og hins vegar að því að kærði hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum. D lögmaður gætir hagsmuna kærða í málinu fyrir nefndinni.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7. apríl 2020 og barst hún þann 11. maí sama ár. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 12. maí 2020. Hinn 5. júní 2020 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir frá kæranda og voru þær sendar kærða þann sama dag. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila er ágreiningslaust að C lögmaður, fyrirsvarsmaður kæranda, annaðist hagsmunagæslu í þágu E ehf. og höfðaði meðal annars fyrir þess hönd mál á hendur F ehf. í janúarmánuði 2019. Var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem það hlaut málsnúmerið E-x.

Fyrir liggur að bú E ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann x. febrúar 2019. Var kærði skipaður skiptastjóri þrotabúsins þennan sama dag.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi og þrotabú E ehf. hafi gert með sér samning um málflutningsumboð og þóknun fyrir málflutningsstörf þann 16. apríl 2019. Í 2. gr. samningsins var vísað til fyrrgreinds máls nr. E-x sem rekið var fyrir héraðsdómi og tiltekið að kæranda og tilgreindum lögmönnum á lögmannsstofunni væri veitt umboð til þess að gæta hagsmuna þrotabúsins við rekstur málsins og til að gera ítrustu kröfur fyrir hönd þess á hendur stefnda í málinu. Var því lýst að umboðið tæki til hvers konar ráðstafana sem eðlilegar og nauðsynlegar væru vegna málarekstursins. Þá var eftirfarandi ákvæði að finna í 3. gr. samningsins um lögmannsþóknun vegna málarekstursins:

Hafa þrotabúið og lögmannsstofan gert með sér eftirfarandi samkomulag um þóknun fyrir rekstur málsins:

Vinnist málið að heild eða hluta, og málskostnaður er dæmdur af hálfu F ehf. fær lögmannsstofan þá kröfu framselda að öllu leyti til sín.

Vinnist málið að heild eða hluta, en málskostnaður er látinn niður falla, greiðir þrotabúið lögmannsstofunni kr. 500.000 sem heildargreiðslu vegna rekstur málsins.

Tapist málið þannig að engar greiðslur fáist dæmdar frá gagnaðila, greiðir þrotabúið lögmannsstofunni kr. 500.000 sem heildargreiðslu vegna rekstur málsins.

Við framangreindar fjárhæðir bætist við virðisaukaskattur. Um er að ræða heildargreiðslu vegna vinnu lögmannsstofunnar frá undirritun samkomulags þessa og engar frekari kröfur verða gerðar af hálfu lögmannsstofunnar á hendur þrotabúinu vegna rekstur málsins.

Ágreiningslaust er að fulltrúi kærða undirritaði samkomulagið fyrir hönd kærða í þágu þrotabúsins. Staðfesti fulltrúinn fyrir hönd kærða þennan sama dag í sérstöku skjali, með yfirskriftinni „MÁLFLUTNINGSUMBOГ, að kæranda væri veitt umboð til þess að fara með viðkomandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Fyrir liggur samkvæmt málsgögnum að þrotabú E ehf. og F ehf. gerðu með sér samkomulag um uppgjör og niðurfellingu málsins nr. E-x þann x. október 2019. Undirritaði fulltrúi kærða samkomulagið fyrir hönd þrotabúsins. Var meðal annars mælt fyrir í samkomulaginu um nánar tilgreinda greiðslu hins stefnda félags til þrotabúsins og að í kjölfar hinnar umsömdu greiðslu skyldu aðilar fella niður dómsmálið án kostnaðar. Var því jafnframt lýst að í samkomulaginu fælist fullnaðaruppgjör á milli aðila vegna málsins og að í kjölfar greiðslu og nánari ráðstafana samkvæmt því ætti hvorugur aðila frekari kröfur á hendur hinum.

Kærandi hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að honum og lögmönnum stofunnar hafi verið með öllu ókunnugt um efni og tilvist þessa samkomulags. Hafi kærandi þannig fyrst fengið vitneskju um samkomulagið í janúarmánuði 2020, þ.e. þegar um vika var í aðalmeðferð málsins nr. E-x í héraði samkvæmt dagskrá dómsins. Fær það jafnframt stoð í fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum frá 6. janúar 2020, sem eru meðal málsgagna.

Málsgögn bera með sér að samkomulag þrotabús E ehf. og F ehf. frá 16. október 2019 hafi verið efnt samkvæmt efni sínu.

Með tölvubréfi lögmanns hjá kæranda til fulltrúa kærða, dags. 11. nóvember 2019, var upplýst um að aðalmeðferð í málinu nr. E-x færi fram x. janúar 2020. Ekki verður séð af málsgögnum að því erindi hafi verið sérstaklega svarað af hálfu kærða eða fulltrúa hans.

Dómþing var haldið í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-x þann x. janúar 2020. Af hálfu þrotabús E ehf. sóttu þing fulltrúi kærða sem og lögmaður hjá kæranda. Samkvæmt endurriti úr þingbók var í þinghaldinu lagt fram fyrrgreint samkomulag málsaðila um uppgjör og niðurfellingu málsins og tiltekið að samkvæmt því væri málið niðurfellt. Í framhaldi af því var eftirfarandi bókað í þingbók eftir lögmanni frá kæranda:

Lögmaður stefnanda, G, upplýsir að lögmenn hafi ekki verið upplýstir um það fyrr en 6. janúar 2020 að skiptastjóri hafi lokið málinu með sátt utan réttar. Leggur hann fram nr. 72, samning um málflutningsumboð og nr. 73, skýrslu um unnar vinnustundir í málinu. Þar sem kröfu lögmanns um úrskurð um málskostnað verður ekki að komið vegna niðurfellingar málsins er lögmanni nauðugur sá einn kostur að hafa uppi kröfu á hendur skiptastjóri vegna þrotabúsins.

Kærandi hefur lagt fyrir nefndina tímaskýrslu sína vegna hagsmunagæslu í þágu þrotabús E ehf. í tengslum við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-x. Tekur skýrslan til tímabilsins frá 17. apríl 2019 til 13. janúar 2020. Samkvæmt henni vörðu lögmenn kæranda alls 69,50 klukkustundum í hagsmunagæsluna á tilgreindu tímabili á tímagjaldinu 26.500 krónur auk virðisaukaskatts. Þá er jafnframt í skýrslunni að finna yfirlit yfir útlagðan kostnað kæranda í þágu þrotabúsins, sem var alls að fjárhæð 84.000 krónur.

Þann 31. janúar 2020 gaf kærandi loks út reikning á hendur þrotabúi E ehf. en hann tók mið af þeim forsendum sem fram höfðu komið í fyrrgreindri tímaskýrslu. Samkvæmt því tók reikningurinn til kröfu vegna lögmannsþóknunar að fjárhæð 1.841.750 krónur auk virðisaukaskatts sem og til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 84.000 krónur. Var heildarfjárhæð reikningsins því að fjárhæð 2.366.770 krónur með virðisaukaskatti.

Kærandi sendi tilgreindan reikning og tímaskýrslu að baki honum til fulltrúa kærða þann 31. janúar 2020. Fulltrúi kærða hafnaði reikningnum í tölvubréfi þann 2. febrúar 2020 þar sem jafnframt var óskað eftir leiðréttum reikningi til samræmis við samkomulagið frá 16. apríl 2019. Í framhaldi af því, nánar tiltekið þann 3. febrúar 2020, tilkynnti kærandi fulltrúa kærða um að ágreiningi um endurgjald vegna málsins yrði vísað til úrskurðarnefndar lögmanna.

Ekki verður ráðið af málsgögnum að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins eftir 3. febrúar 2020.

II.

Kærandi krefst fyrir nefndinni aðfararhæfs úrskurðar um að kærða verði gert að greiða kæranda 2.367.770 krónur. Þá verður að skilja málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í kvörtun er vísað til þess að hún lúti annars vegar að ágreiningi á milli kæranda og kærða um þóknun. Um það efni er vísað til þess að kærði hafi veitt kæranda málflutningsumboð vegna reksturs dómsmáls sem þrotabú E ehf. hafi verið aðili að, en kærði sé skiptastjóri búsins. Hafi verið gengið frá samningi aðila er meðal annars hafi tekið til þóknunar vegna hagsmunagæslu kæranda fyrir kærða. Síðar hafi kærði gengið frá samkomulagi við gagnaðila dómsmálsins um uppgjör og niðurfellingu þess þar sem kveðið hafi verið á um niðurfellingu málsins og að málskostnaður skyldi niður falla. Hafi kærandi ekki verið upplýstur um samkomulagið og ekki fengið vitneskju um það fyrr en skömmu fyrir fyrirhugaða aðalmeðferð málsins.

Kærandi kveðst hafa gefið út reikning vegna hagsmunagæslu fyrir kærða á grundvelli tímaskýrslu. Hafi kærði hafnað reikningnum á þeirri forsendu að samið hafi verið um 500.000 króna þóknun fyrir vinnu kæranda í þágu þrotabúsins. Kveðst kærandi ekki fallast á afstöðu kærða um fjárhæð þóknunar og krefst þess því að nefndin fjalli um rétt til þóknunar og endurgjald vegna viðkomandi lögmannsstarfa.

Nánar um þetta efni vísar kærandi til þess að hann hafi gætt hagsmuna E ehf. en að þeirri hagsmunagæslu hafi lokið þegar félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann x. febrúar 2019. Hafi kærði þá verið skipaður skiptastjóri í þrotabúinu.

Vísað er til þess að þann 16. apríl 2019 hafi verið gerður samningur á milli kærða og kæranda þar sem kærði hafi veitt kæranda umboð til þess að gæta hagsmuna þrotabúsins við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-x. Dómsmál þetta hafi kærandi rekið með mikilli gagnaöflun, enda málið umfangsmikið. Í samningnum hafi verið kveðið á um fyrirkomulag þóknunar til kæranda vegna reksturs málsins, sbr. 3. gr. samningsins. Fyrir liggi að kærandi hafi gætt hagsmuna þrotabúsins í málinu á tímabilinu frá 17. apríl 2019 til 13. janúar 2020, sbr. fyrirliggjandi vinnuskýrslu. Hafi kærða verið ljóst umfang þessarar vinnu eins og vikið sé að í samningi á milli þrotabúsins og gagnaðila að dómsmálinu.

Varðandi samning aðila frá 16. apríl 2019 ítrekar kærandi að þar hafi verið fjallað um fyrirkomulag þóknunar vegna hagsmunagæslu. Málið hafi verið rekið fyrir dómstólum en kærði viljað semja um þóknun við kæranda kæmi til þess að málið tapaðist fyrir dómi. Skyldu þá greiðast 500.000 krónur í þóknun til kæranda. Ef málið ynnist og dæmdur yrði málskostnaður úr hendi gagnaðila gengi hann hins vegar til kæranda.

Vísað er til þess að kærði hafi gripið til þess ráðs að semja um niðurstöðu málsins og tekið við greiðslu úr hendi gagnaðila. Hafi kærði þannig kosið undir rekstri málsins að semja beint við gagnaðila málsins án vitundar kæranda sem hafi haft rekstur málsins undir höndum. Með þeirri háttsemi hafi kærði sniðgengið kæranda. Hafi kærði þannig samið við gagnaðila um bótagreiðslu að fjárhæð 18.500.000 krónur þrátt fyrir að allar löglíkur hafi verið fyrir því að þrotabúið myndi vinna málið fyrir dómi. Byggir kærandi á að með framgöngu sinni hafi kærði útilokað kæranda frá því samningsbundna úrræði að fá greiddan dæmdan málskostnað á grundvelli tímaskýrslu vegna vinnunnar. Hafi kærði þannig einhliða ákveðið að fella málið niður án kostnaður sem og án vitundar eða samráðs við kæranda.

Kærandi vísar til þess að honum hafi verið ókunnugt um samkomulag, dags. 16. október 2019, um niðurfellingu málsins og efndir þess samnings með greiðslu þann 21. sama mánaðar. Hafi kærandi fyrst verið upplýstur um það efni þann 6. janúar 2020 þegar lögmaður gagnaðila hafi upplýst um efnið. Þá hafi aðalmeðferð málsins verið fyrirhuguð viku síðar eða þann 13. janúar 2020 en á þeim tíma hafi undirbúningur máls verið á lokastigi með undirbúningi vitna o.fl.

Kærandi byggir á að kærða hafi verið í lófa lagið að upplýsa kæranda um samkomulag það sem hann hafi gert við gagnaðila. Verði að líta svo á að framganga kærða feli ekki aðeins í sér virðingarleysi heldur einnig gáleysi og hirðuleysi. Vísar kærandi um það efni til 25. gr. siðareglna lögmanna sem og til 29. gr. þeirra varðandi persónulega ábyrgð kærða á greiðslu þóknunar til kæranda.

Kærandi kveðst hafa gefið út reikning vegna vinnu við hagsmunagæslu á grundvelli vinnuskýrslu. Hafi kærði hafnað þeim reikningi með tölvubréfi og talið að greiðsla þóknunar ætti að vera að fjárhæð 500.000 krónur. Mótmælir kærandi afstöðu kærða og teljur ljóst að kærði sé vísvitandi að reyna að hlunnfara kæranda. Samkvæmt því gerir kærandi kröfu um að honum verði úrskurðuð þóknun að fjárhæð 1.841.750 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð 442.040 krónur auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 84.000 krónur, eða samtals 2.367.770 krónur.

Þá byggir kærandi á að kærði hafi gerst sekur um brot á góðum lögmannsháttum og gerir kröfu um að úrskurðarnefndin fjalli um það með vísan til málavaxta, sbr. 25. og 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að aðilanum hafi verið ókunnugt um að kærði stæði í samningaviðræðum vegna viðkomandi héraðsdómsmáls og að aldrei hafi verið upplýst um slíkt. Þá hafi kæranda með öllu verið ókunnugt um samkomulag sem kærði hafi gert þann 16. október 2019 sem falið hafi í sér að málið skyldi fellt niður. Hafi kærandi ekki fengið vitneskju um það efni fyrr en þann 6. janúar 2020 líkt og rakið sé í kvörtun.

Kærandi kveður rétt að aðalmeðferð málsins hafi verið frestað í tvígang samkvæmt ákvörðun héraðsdómara á meðan beðið var eftir að héraðsdómur, Landsréttur og Hæstiréttur leystu úr ágreiningi vegna endurupptöku sýslumanns á kyrrsetningu í málinu. Þegar ákvörðun Hæstaréttar, dags. x. október 2019, lá fyrir hafi héraðsdómari boðað til þinghalds þann x. nóvember 2019. Í þinghaldinu hafi aðalmeðferð verið ákveðin þann x. janúar 2020. Um það efni hafi kærði verið upplýstur þann sama dag. Hafi kærði þá ekki upplýst kæranda um það að hann hefði einum mánuði áður, án vitundar og vitneskju kæranda, samið um niðurfellingu málsins við gagnaðila og um að málskostnaður skyldi niður falla.

Kærandi mótmælir því að fulltrúi kærða hafi sinnt málinu að öllu leyti. Þvert á móti hafi kærði mætt á starfsstöð kæranda gagngert til þess að taka við málsgögnum og fá upplýsingar um yfirstandandi málarekstur hins gjaldþrota félags.

Kærandi bendir á að samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. m.a. 73. gr. laganna, falli á þrotabúið skuldbindingar á meðan á gjaldþrotaskiptum stendur sem skiptastjóri bakar því eða einhver sá sem hann hefur heimilað að skuldbinda það að lögum. Er vísað til þess að kærði hafi samið við kæranda fyrir hönd þrotabúsins og hafi reikningi kæranda því réttilega verið beint að þrotabúinu.

Vísað er til þess að kærði hafi í starfi sínu sem skiptastjóri verið opinber sýslunarmaður. Samkvæmt 77. gr. laga nr. 21/1991 beri kærða að bæta tjón sem hann kann að valda öðrum í starfi sem skiptastjóri eftir almennum skaðabótareglum.

Að endingu áréttar kærandi aðfinnslur vegna háttsemi kærða í starfi sem lögmanns og opinbers sýslunarmanns. Þá er áréttuð krafa um að nefndin fjalli um þann þátt með viðeigandi viðurlögum, sbr. einnig 25. og 43. gr. siðareglna lögmanna.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.

Vísað er til þess að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur x. febrúar 2019 hafi bú E ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta og kærði skipaður skiptastjóri búsins. Fram að úrskurði um gjaldþrotaskipti hafi kærandi gætt hagsmuna E ehf. en þá hafi nokkur mál verið til meðferðar hjá héraðsdómi, þar á meðal mál sem sé tilurð kvörtunar kæranda, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-x. Er vísað til þess að í tilgreindu máli hafi E ehf. krafið stefnda um 100.000.000 króna á grundvelli reiknings sem gefinn hafi verið út þann 7. janúar 2019, eða tæpum mánuði fyrir úrskurð um gjaldþrotaskipti. Þá hafi kærði og fulltrúi hans, sem sé lögmaður, skipt með sér verkum varðandi málefni þrotabúsins og hafi fulltrúinn sinnt þessu tiltekna máli.

Kærði kveðst hafna þeirri fullyrðingu kæranda alfarið að „allar löglíkur voru fyrir því að þb. E ehf. myndi vinna málið fyrir dómi“. Er vísað til þess að kærði, fulltrúi hans og annar lögmaður, sem fenginn hafi verið til þess að leggja óháð mat sitt á málið, hafi metið sem svo að meiri líkur en minni væru á því að málið myndi tapast ef dæmt yrði í því. Er í því samhengi á það bent að málið hafi verið höfðað með stefnu, dags. 23. janúar 2019, eða tveimur vikum áður en bú félagins var tekið til gjaldþrotaskipta, en viku fyrr hafi eignir stefnda verið kyrrsettar. Er vísað til þess að málatilbúnaður E ehf. í málinu hafi borið þess merki að reynt hafi verið að koma í veg fyrir gjaldþrotaskipti, kaupa tíma og knýja á um peningagreiðslu frá stefnda, þar sem mikil pressa hafi verið vegna kyrrsetningar eigna. Þá hafi legið fyrir í samskiptum fulltrúa kærða og kæranda að reynt yrði að semja um málið.

Kærði vísar til þess að þrotabúið og kærandi hafi gert með sér samkomulag, dags. 16. apríl 2019, þar sem ákveðið hafi verið að kærandi fengi umboð til að sinna rekstri málsins fyrir dómi gegn þóknun. Við gerð samkomulagsins hafi verið búið að skila greinargerð í málinu og málflutningur fyrirhugaður en honum hafi verið ítrekað frestað. Þrátt fyrir að kærandi hafi sinnt málinu fyrir dómi hafi fulltrúi skiptastjóra verið í samskiptum við lögmann stefnda vegna málsins, án nokkurrar aðkomu kæranda, auk þess sem stefndi var stærsti einstaki kröfuhafi þrotabúsins.

Vísað er til þess að eftir því sem leið á málið hafi fyrirsvarsmaður stefnda farið að vera í beinum samskiptum við fulltrúa kærða, með vitund lögmanns stefnda, en sem fyrr án aðkomu kæranda. Hafi þeim samskiptum lokið þannig að undirritað var samkomulag á milli þrotabúsins og stefnda um uppgjör og niðurfellingu málsins. Í framhaldi af því hafi fulltrúi hjá kæranda sent reikning með tölvubréfi vegna vinnu við rekstur málsins. Hafi fulltrúi kærða hafnað þeim reikningi og óskað eftir að hann yrði leiðréttur til samræmis við samkomulag aðila.

Varðandi aðalkröfu um frávísun vísar kærði til þess að kvörtun snúi að skiptastjóra þrotabúsins. Óumdeilt sé að kærandi gerði samning við þrotabúið varðandi rekstur málsins. Samkvæmt því sé ekkert réttarsamband á milli kæranda og skiptastjórans persónulega, auk þess sem reikningur lögmannsstofu kæranda sé stílaður á þrotabúið. Er vísað til þess að telji kærandi sig eiga kröfu vegna vinnu í þágu þrotabúsins, á grundvelli samkomulags, eigi kærandi að krefja þrotabúið um greiðslu hans með því að lýsa kröfu í þrotabúið á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna, og reka ágreining á grundvelli þeirra laga. Það hafi kærandi hins vegar ekki gert.

Kærði bendir á sama hátt á að ef kærandi telur framferði eða störf kærða sem skiptastjóra aðfinnsluverð beri honum að koma kröfu eða kvörtun sinni á framfæri gagnvart héraðsdómara, sbr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt því liggi fyrir að fulltrúi kærða hafi sinnt málinu, öllum samskiptum aðila og komið fram fyrir hönd þrotabúsins vegna málsins. Sé kvörtun um aðfinnslur við störf kærða sem skiptastjóra því ranglega að honum beint.

Kærði vísar til þess að nefndin hafi í mörgum úrskurðum sínum hafnað því að fjalla um störf skiptastjóra á þeirri forsendu að löggjafinn hafi fellt ágreining um störf þeirra í ákveðinn farveg, sbr. einkum 76. gr. laga nr. 21/1991, og vísað þeim frá nefndinni. Með vísan til þess og hvernig málum sé háttað sé því gerð krafa um að málinu verði vísað frá nefndinni.

Kærði krefst þess til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Um það efni vísar kærði í fyrsta lagi til þess að kærandi og þrotabúið hafi gert með sér samning sem kveði á um endurgjald/þóknun kæranda vegna reksturs málsins, sbr. 3. gr. samningsins. Komi þar skýrt fram að ef málið tapist fái lögmannsstofan greiddar 500.000 krónur auk virðisaukaskatts sem heildargreiðslu vegna málsins, sömuleiðis ef málið vinnist að heild eða hluta en málskostnaður félli niður. Fyrir liggi að málskostnaður hafi verið látinn niður falla við niðurfellingu málsins. Samkvæmt því sé ljóst að kærandi eigi rétt á 500.000 króna greiðslu úr hendi þrotabúsins. Hafi þrotabúið boðið þá greiðslu í samræmi við efni samningsins. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu kæranda. Þá sé ekki þörf á að fjalla frekar um fjárkröfu kæranda, tímaskráningu, tímagjald eða annað tengt henni, enda hafi ekki á nokkurn hátt verið samið um vinnu á slíkum grundvelli.

Í öðru lagi bendir kærði á að kærandi hafi samið við þrotabúið um rekstur málsins en ekki kærða persónulega. Geti skiptastjóri því hvorki talist „umbjóðandi“ kæranda í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 auk þess sem fyrir liggi að kærði leitaði ekki persónulega sem lögmaður aðstoðar eða álits kæranda í skilningi 29. gr. siðareglna lögmanna. Auk þess sé sérstaklega tiltekið í 29. gr. siðareglnanna að hún eigi ekki við hafi verið samið um annað, líkt og eigi við í málinu.

Í þriðja lagi kveðst kærði hafna því alfarið að hafa gerst brotlegur við 25. gr. siðareglna lögmanna. Jafnframt mótmælir kærði því harðlega að hann hafi „vísvitandi hlunnfarið“ kæranda með gerð samkomulags við stefnda eða á annan hátt. Líkt og fram hafi komið hafi fulltrúi kærða sinnt málinu, komið fram fyrir hönd þrotabúsins í því og verið í samskiptum við aðila máls, þar á meðal kæranda. Sé ávirðingum kæranda um að kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna því ranglega beint að kærða auk þess sem þær eigi sér ekki stoð. Er á það bent að skiptastjórar þrotabúa starfi fyrir kröfuhafa og að þeim beri skyldi til þess að gæta hagsmuna þeirra. Hafi kærandi verið meðvitaður um það frá fyrstu skrefum að reynt yrði að semja í málinu enda talið að slíkt væri hagsmunum kröfuhafa fyrir bestu. Hafi kærði eða fulltrúi hans haft fulla heimild til þess að semja um málið án nokkurs samráðs við kæranda. Lúti skylda þrotabúsins gagnvart kæranda að því að efna samkomulagið sem gert hafi verið.

Í samræmi við allt framangreint telur kærði hvorki rök né heimild til þess að fallast á fjárkröfu kæranda í málinu, að hún verði gerð aðfararhæf og að kærði sé persónulega ábyrgur. Auk þess séu engin rök til þess að fjalla um kvörtun kæranda. Sé því óhjákvæmilegt að hafna kröfum kæranda.

Niðurstaða

I.

Kröfugerð kæranda í málinu lýtur annars vegar að því að kærða verði gert að greiða honum 2.367.770 krónur samkvæmt reikningi sem gefinn var út á hendur þrotabúi E ehf. þann 31. janúar 2020.

Um tilgreinda kröfu kæranda er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Varðandi þá kröfu sem hér um ræðir þá er valdsvið nefndarinnar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Er slíkt hið sama áréttað í 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem fram kemur að hlutverk nefndarinnar sé að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.

Fyrir liggur að fjárkrafa kæranda á hendur kærða á rót sína að rekja til hagsmunagæslu sem lögmenn hjá kæranda önnuðust í þágu þrotabús E ehf. vegna reksturs málsins nr. E-71/2019 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Er fjárkröfunni beint persónulega að kærða sem skiptastjóra búsins en hann var skipaður til að annast þau störf af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. febrúar 2019.

Um þetta efni er þess að gæta, svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan, að þann 16. apríl 2019 var gerður samningur um málflutningsumboð og þóknun fyrir málflutningsstörf á milli kæranda og þrotabús E ehf. Var tiltekið í samningnum að kæranda og tilgreindum lögmönnum kæranda væri veitt umboð til þess að gæta hagsmuna þrotabúsins við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-x jafnframt því sem mælt var fyrir um hvernig þóknun vegna starfans skyldi háttað. Var því þannig meðal annars lýst í 3. gr. samningsins að ef málið myndi vinnast að heild eða hluta en málskostnaður félli niður myndi þrotabúið greiða kæranda 500.000 krónur auk virðisaukaskatts sem heildargreiðslu vegna rekstur málsins. Skyldi sama endurgjald koma í hlut kæranda úr hendi þrotabúsins ef málið myndi tapast fyrir dómi.

Svo sem greinir í málsatvikalýsingu gerðu þrotabúið og gagnaðili þess í dómsmálinu með sér samkomulag um uppgjör og niðurfellingu málsins þann 16. október 2019, en samkomulagið var undirritað af fulltrúa kærða fyrir hönd búsins. Var í samkomulaginu mælt fyrir um nánar tilgreinda greiðslu hins stefnda félags til þrotabúsins og að í kjölfar hinnar umsömdu greiðslu skyldi dómsmálið fellt niður án kostnaðar. Mun samkomulagið hafa verið efnt samkvæmt efni sínu og var dómsmálið fellt niður á dómþingi í héraði þann x. janúar 2020. Gaf kærandi út reikning á hendur þrotabúinu í framhaldi af því vegna viðkomandi lögmannsstarfa, nánar tiltekið þann 31. janúar 2020, en hann var að sömu fjárhæð og kröfugerð kæranda á hendur kærða í máli þessu tekur til.

Að mati nefndarinnar verður ótvírætt ráðið af málsgögnum að réttarsamband vegna hagsmunagæslu í tengslum við rekstur málsins nr. E-x í héraði hafi verið á milli kæranda og þrotabús E ehf. Er í því samhengi þá einkum litið til fyrrgreinds samnings tilgreindra aðila frá 16. apríl 2019 sem og til sérstaks málflutningsumboðs sem kæranda var veitt þennan sama dag af hálfu þrotabúsins. Kemur því ekki til álita að ábyrgð kærða á greiðslu kröfunnar verði reist á 29. gr. siðareglna lögmanna. Hér verður heldur ekki framhjá því litið að kærandi gaf út reikning vegna lögmannsstarfanna á hendur þrotabúinu í kjölfar niðurfellingar málsins, svo sem áður er rakið. Samkvæmt því verður ekki talið að slíkt samningssamband sé eða hafi verið á milli kæranda og kærða persónulega sem 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er afmörkuð við, sbr. einnig 1. tölul. 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Þá liggur fyrir að um meðferð krafna á hendur þrotabúi skal farið samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. einkum XVII. og XVIII. kafla laganna. Þegar af þeim ástæðum verður ekki hjá því komist að vísa fjárkröfu kæranda á hendur kærða frá nefndinni.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Líkt og áður er rakið hefur kærandi krafist þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi hans í störfum sem skiptastjóri þrotabús E ehf. Um hina ætluðu brotlegu háttsemi hefur kærandi vísað til þess að kærði hafi samið um niðurstöðu dómsmálsins og tekið við greiðslu úr hendi gagnaðila fyrir hönd þrotabúsins án vitundar kæranda sem rekið hafi málið í þágu búsins. Með þeirri háttsemi hafi kærði sniðgengið kæranda og útilokað kæranda frá því samningsbundna úrræði að fá greiddan málskostnað á grundvelli tímaskýrslu. Þá hafi kærða verið í lófa lagið að upplýsa kæranda um samkomulag það sem gert hafi verið við gagnaðila þrotabúsins þann 21. október 2019. Hafi framganga kærða ekki aðeins falið í sér virðingarleysi heldur einnig gáleysi og hirðuleysi. Vísar kærandi um það efni til 25. gr. siðareglna lögmanna þar sem fram kemur í 1. mgr. að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þá skulu lögmenn sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings, sbr. 2. mgr. 25. gr. siðareglnanna.

Í 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er kveðið á um að ef í máli er réttarágreiningur, sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar, vísi hún málinu frá.

Fyrir liggur að ágreiningur í þessum þætti málsins lýtur annars vegar að ráðstöfun kærða, sem skiptastjóra þrotabús E ehf., sem fólst í gerð samkomulags við gagnaðila um uppgjör og niðurfellingu héraðsdómsmálsins nr. E-x þann x. október 2019 án vitundar kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fer skiptastjóri með forræði þrotabús og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess á meðan gjaldþrotaskiptum stendur. Samkvæmt ákvæðinu kemur skiptastjóri jafnframt fram af hálfu búsins fyrir dómi og gerir samninga og aðra löggerninga í nafni þess.

Varðandi ætluð brot kærða gegn 25. gr. siðareglna lögmanna er hins vegar til þess að líta að ekki verður séð að kærði hafi haft aðkomu að þeim samskiptum og skorti á upplýsingagjöf til kæranda vegna lúkningar héraðsdómsmálsins nr. E-x sem hér um ræðir en þau voru á forræði annars lögmanns fyrir hönd þrotabúsins líkt og glögglega verður ráðið af málsgögnum. Verður því ekki annað ráðið af kvörtun og málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni en að kvörtun sé að því leyti beint að kærða á grundvelli stöðu hans sem skiptastjóra búsins.

 

Skiptastjórar í þrotabúum eru skipaðir af héraðsdómi, sbr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Það er ekki skilyrði að þeir séu starfandi lögmenn, sbr. 2. mgr. greinarinnar.

Í 76. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram að þeim sem á kröfu á hendur búinu sé meðan á gjaldþrotaskiptum stendur heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara sem hefur skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram eða berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert skal hann kveðja skiptastjóra og þann sem kann að hafa haft uppi aðfinnslur á sinn fund til að tjá sig um málefnið. Í 2. mgr. 76. gr. laganna er svo fjallað um úrræði héraðsdómara, telji hann aðfinnslurnar á rökum reistar.

Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af orðalagi framangreindra ákvæða laga nr. 21/1991 en að löggjafinn marki þar ákveðnum ágreiningsmálum og álitaefnum, er varða meðal annars ágreining um störf skiptastjóra, þann farveg að fela skuli eingöngu hlutaðeigandi héraðsdómstóli úrlausn þeirra, sbr. til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar 6. október 2017 í máli nr. 5/2017. Samkvæmt því geti ekki komið til greina að um störf skiptastjóra sé jafnframt fjallað á öðrum vettvangi, jafnvel þótt um sé að ræða starfandi lögmenn.

Í samræmi við framangreint verður að mati nefndarinnar að telja að kvörtunarefni kæranda, sem áður er lýst og með tilliti til þess hvernig þau eru sett fram í kvörtun, lúti að þáttum sem varði beint starfsskyldur kærða sem skiptastjóra sem afmarkaðar eru í lögum nr. 21/1991. Samkvæmt því og að teknu tilliti til fyrrgreindra heimilda laga nr. 21/1991, sbr. einkum 76. gr. laganna, fellur ágreiningsefnið utan valdsviðs nefndarinnar. Verður því að vísa málinu í heild sinni frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson