Mál 32 2020

Mál 32/2020

Ár 2021, miðvikudaginn 26. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2020:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. nóvember 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B, hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

C lögmaður fer með mál kærða fyrir nefndinni.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 1. desember 2020 og barst hún þann 18. janúar 2021. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 20. janúar 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 19. febrúar 2021 og voru þær sendar til lögmanns kærða með bréfi þann 22. sama mánaðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 10. mars 2021 og voru þær sendar til kæranda þann 12. sama mánaðar þar sem jafnframt var upplýst um að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur í málinu að kærði sinnti ýmsum störfum í þágu lögmannsstofu kæranda á árunum 2012 til 2016. Ágreiningur er á milli aðila um ýmis atvik hvað það samstarf varðar sem og um lok þess. Hér verður gerð grein fyrir málsatvikum eins og þau verða ráðin af gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndinni. Gerð verður sérstök grein fyrir atvikalýsingu málsaðila, að því marki sem þörf er á vegna sakarefnis málsins, í umfjöllun um málatilbúnað þeirra að öðru leyti fyrir nefndinni.

Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að kærandi hafi annast hagsmunagæslu fyrir ýmsa aðila allt frá árinu 2011, þar á meðal fyrir D og E. Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna samkomulag, dags. 26. nóvember 2012, um rekstur dómsmála, hagsmunagæslu við skipti dánarbús, þóknun o.fl. sem gert var á milli sjö tilgreindra erfingja annars vegar og kæranda og lögmannsstofu hans hins vegar. Var í samkomulaginu meðal annars kveðið á um hagsmunatengda þóknun vegna lögmannsstarfa kæranda í málinu.

Ágreiningslaust er í málinu að kærði hafði aðkomu að hagsmunagæslu í viðkomandi máli í gegnum samstarf það sem hann átti við kæranda og lögmannsstofu hans á fyrrgreindu tímabili.

Þann x. nóvember 20xx var þingfest í héraðsdómi mál nr. E-xxx/xxxxx sem 10 tilgreindir erfingjar höfðu höfðað á hendur F aðallega en til vara á hendur G. Var tiltekið í stefnu að kærandi færi með málið fyrir hönd sex af stefnendum málsins en aðalkrafa var að fjárhæð X krónur. Þingbók viðkomandi máls hefur jafnframt verið lögð fyrir nefndina. Í endurriti hennar frá x. ágúst 20xx var bókað að kærði hefði tekið við málinu af kæranda vegna þeirra sex stefnenda sem áður greinir. Í þinghaldi sem háð var þann x. júlí 20xx var hins vegar bókað í þingbók að kærði sækti þing fyrir D og E og að hann færi nú með málið fyrir þeirra hönd.

Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að kærandi hafi veikst í ársbyrjun 2016. Ágreiningur er hins vegar um hvort og þá hve lengi kærandi hafi verið ófær um að sinna lögmannsstörfum af þeim sökum.

Á meðal málsgagna er að finna bréf sem H, þáverandi lögmaður, sendi til J þann x. mars 20xx en J mun hafa annast fyrirsvar fyrir hluta erfingjahópsins á grundvelli umboðs þar að lútandi. Í bréfinu var því lýst að J hefði ekki lengur umboð D og E til að undirrita samninga í tengslum við héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/xxxx eða nokkur önnur mál tengd skiptameðferð viðkomandi dánarbús. Var því jafnframt lýst að öll umboð væru afturkölluð og að D og E myndu sjá sjálf um sín mál framvegis, þar með talið rekstur fyrrgreinds dómsmáls.

Þann 4. september 2019 var sent tölvubréf fyrir hönd J til kærða en kærandi fékk jafnframt afrit af því. Var þar vísað til fyrrgreinds samkomulags frá 26. nóvember 2012 og að þær samningsskuldbindingar sem þar kæmu fram giltu einnig um D og E. Þá var meðal annars tiltekið að kærði hefði upplýst að hann vildi ekki sitja fundi með kæranda en með því væri verið að vinna gegn hagsmunum viðkomandi erfingja.

Kærði svaraði því erindi samdægurs, án þess þó að kærandi fengi afrit af tölvubréfinu. Tiltók kærði meðal annars í tölvubréfinu að umbjóðendur hans, þ.e. D og E, hefðu afturkallað umboð það sem þau hefðu veitt kæranda og að því kæmi kærandi ekki fram fyrir hönd neins aðila í málinu. Væri aðkoma utanaðkomandi aðila til þess fallin að flækja málið frekar en að einfalda það eða leysa. Lýsti kærði því hins vegar að ef kærandi eða einhver annar lögmaður sýndi fram á umboð sitt til hagsmunagæslu í málinu væri sjálfsagt af hálfu kærða að funda með viðkomandi lögmanni. Þá var eftirfarandi tiltekið af hálfu kærða:

Hlutverk mitt í þessu máli er að gæta hagsmuna umbjóðenda minna D og E og hefur ekki staðið á mér að sitja fundi með öðrum erfingjum málsins eða lögmönnum þeirra verði slíku við komið – hins vegar sé ég ekki að það þjóni tilgangi að sitja fundi með utanaðkomandi aðilum eða ráðgjöfum nema sérstakt tilefni sé til slíkra fundahalda. Hverjum og einum erfingja er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að leita sér utanaðkomandi ráðgjafar og hefur undirritaður ekki gert athugasemdir við það.

Fyrir liggur að kærandi fékk framangreint tölvubréf kærða framsent til sín. Fylgdi hann því eftir með tölvubréfi til kærða, dags. 5. nóvember 2019, sem ýmsir aðrir aðilar og lögmenn fengu afrit af. Í tölvubréfinu gerði kærandi grein fyrir málsatvikum eins og þau horfðu við honum, þar á meðal um réttarsamband við D og E og það samkomulag um þóknun sem gert hafði verið þann 26. nóvember 2012. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu:

Standi vilji þinn til þess að umbj. þ. greiði 10% af tilvonandi arfi til mín, auk þess sem þau verða að borga þér, verður svo að vera. Mér hefur ekki borist umboð til þín og því sendi ég afrit af þessum pósti til D og E. Mér finnst að þau þurfi að vita að þau þurfi að borga mér um 20-25 m.kr., miðað við þær tölur sem þú hefur að sögn sjálfur nefnt. Ef að því kemur vænti ég eðlilegs samstarfs, þ á m. að þú munir svara tölvupóstum framvegis.

Í tölvubréfinu tiltók kærandi jafnframt að hann myndi skjóta málinu til úrskurðarnefndar lögmanna og jafnframt höfða mál fyrir héraðsdómi á hendur kærða, félagi kærða og viðkomandi umbjóðendum ef þörf yrði á.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréf sem kærandi sendi til nánar tilgreindra stefnenda og lögmanna þeirra í málinu nr. E-xxxx/xxxx þann x. febrúar 20xx. Upplýsti kærandi þar að enn vantaði gögn frá nánar tilgreindum aðilum, þar á meðal D og E, vegna fyrirhugaðrar gjafsóknarbeiðni. Í svörum D kom fram að þau hefðu þegar afgreitt málið fyrir sitt leyti.

Kærandi sendi tölvubréf til D og E þann 8. maí 2020, en kærði fékk jafnframt afrit af því. Kvaðst kærandi þar meðal annars ekki vita hvað kærði væri að gera með málið þar sem hann mætti sjaldan í þinghöld. Jafnframt því hefði kærði hvorki fyrr né síðar látið í sér heyra, þrátt fyrir fyrrgreint tölvubréf kæranda frá 5. nóvember 2019, eða tilkynnt um að hann hefði tekið við hagsmunagæslu í málinu. Þá óskaði kærandi eftir að hann yrði látinn vita með skriflegum hætti fyrir 25. sama mánaðar ef vilji væri til að láta einhvern annan en kæranda eða fulltrúa hans flytja viðkomandi mál fyrir héraðsdómi. Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi jafnframt sent tölvubréfið í ábyrgðarpósti til viðtakenda þess, þar á meðal kærða.

Þann 29. maí 2020 sendi kærandi á ný tölvubréf til kærða en dómari í málinu nr. E-xxxx/xxxxx og lögmenn annarra stefnenda fengu jafnframt afrit af því. Í tölvubréfinu kvaðst kærandi ítrekað hafa reynt að ná í kærða sem hafi engu svarað, en þar væri um að ræða brot gegn siðareglum lögmanna. Ítrekaði kærandi jafnframt að hann hefði málflutningsumboð frá D og E. Óskaði kærandi eftir svörum um það hvaðan kærði hefði málflutningsumboð í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/xxxx sem og eftir gögnum þar að lútandi.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til kærða þann 4. júní 2020. Var þar vísað til svarleysis kærða og að kærandi hefði ákveðið að hann sjálfur eða fulltrúi hans myndu flytja viðkomandi mál fyrir héraðsdómi þar sem kærði hefði ekki sýnt fram á málflutningsumboð. Afrit af tölvubréfinu fengu héraðsdómari í málinu nr. E-xxxx/xxxx, aðstoðarmaður dómara sem og lögmenn annarra stefnenda.

Fyrrgreind D og E sendu bréf, dags. 8. ágúst 2020, til kæranda sem bar yfirskriftina „Ítrekun á afturköllun umboðs.“ Var eftirfarandi meðal annars tiltekið í bréfinu:

Í ljósi framgöngu yðar síðastliðin misseri er nauðsynlegt að árétta það sem yður er þegar kunnugt að við undirrituð höfum fyrir margt löngu afturkallað lögmannsumboð sem yður var veitt til hagsmunagæslu fyrir okkar hönd í málefnum tengdum mögulegum erfðarétti okkar á dánarbú K, er lést x. 19xx og málafylgja sem leitt hafa af því. – Ofangreindar staðreyndir geta ekki hafa dulist yður, enda hafið þér ekki sinnt hagsmunagæslu eða komið fram fyrir hönd okkar vegna ofangreindra mála allt frá byrjun ársins 2016. – Í samræmi við ákvæði í samningi við yður, dagsettum 26. nóvember 2012, höfum við greitt inn á reikning lögmannsstofu yðar kr. 120.000,- auk virðisaukaskatts. [..] Með fyrrnefndri greiðslur er hagsmunagæslu, f.h. undirritaðra, á árunum 2012 – 2016 gerð upp í samræmi við fyrrnefnt samkomulag.

Kærandi hefur upplýst fyrir nefndinni að hann hafi móttekið tilgreint bréf þann 20. ágúst 2020. Kærandi svaraði bréfinu með erindi, dags. 3. september 2020. Tiltók kærandi þar meðal annars að hann hefði ekki fyrr verið upplýstur um afturköllun umboðsins og að fullyrðingar væru ekki réttar um að hann hefði ekki gætt hagsmuna viðkomandi aðila frá ársbyrjun 2016. Þá lýsti kærandi því að hin móttekna greiðsla væri alls ekki fullnaðargreiðsla samkvæmt samkomulagi aðila frá 26. nóvember 2012.

Dómur var kveðinn upp í málinu nr. E-xxxx/xxxx í héraðsdómi þann x. desember 20xx. Fyrir liggur að kærði annaðist hagsmunagæslu og málflutning fyrir hönd stefnendanna D og E við aðalmeðferð málsins. Í forsendum dómsins er meðal annars tiltekið að kærði hafi fyrst komið að málinu sem fulltrúi kæranda og að hann hafi ekki fyrr en á síðari stigum tekið sjálfur við sem lögmaður í málinu, þ.e. um mitt ár 2016. Þá hafi því verið mótmælt af hálfu kæranda að fyrrgreindir stefnendur væru búnir að gera upp við hann.

Kærði hefur lagt fyrir nefndina tölvubréf sem áðurgreindur H sendi til hans þann 7. mars 2021. Í tölvubréfinu kveðst H geta staðfest að hann hafi hitt kæranda, væntanlega þann 6. mars 2017, þar sem rætt hafi verið um nauðsyn þess að annar lögmaður tæki við málinu fyrir hönd D og E. Hafi skilningur hans verið sá að kærandi hafi að minnsta kosti frá þeim fundi mátt vera það ljóst að hann hefði ekki lengur umboð þeirra D og E til að vera áfram í fyrirsvari fyrir þau í málinu. Þá hafi kærandi einnig upplýst viðkomandi um sumarið 2019 að best væri ef kærði myndi hætta að vinna í málinu.

Aðilar hafa lagt fram ýmis önnur bréf og tölvubréfasamskipti í málinu sem átt hafa sér stað eftir að kvörtun í þessu máli var móttekin af hálfu nefndarinnar þann 23. nóvember 2020. Með hliðsjón af afmörkun sakarefnisins í kvörtun málsins þykir ekki ástæða til að reifa þau gögn sérstaklega umfram það sem greinir um þau í málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni.

Kvörtun í málinu varðar jafnframt meint brot kærða vegna athafnaleysis gagnvart kæranda í tengslum við málefni L sem mun vera fyrrum umbjóðandi kæranda. Fyrir liggur um það efni að ritari kæranda sendi tölvubréf til kærða þann 17. september 2018 þar sem finna mátti tímaskýrslu vegna vinnu kæranda í þágu viðkomandi aðila. Var tiltekið að leggja þyrfti málskostnaðaryfirlit fram í dómi svo að áskilin þóknun yrði greidd. Var óskað eftir upplýsingum frá kærða um hvernig best væri að haga því. Ritari kæranda fylgdi erindinu eftir með öðru tölvubréfi til kærða þann 9. október 2018. Var þar tiltekið að fyrra erindi væri ítrekað þar sem ekkert svar hefði borist frá kærða.

Kærandi sendi tölvubréf til kærða vegna sama málefnis þann 17. september 2019. Vísaði kærandi þar til fyrirliggjandi tímaskýrslu og að viðkomandi umbjóðandi hefði upplýst um hagsmunagæslu kærða í málinu. Þar sem aðilinn hefði gjafsókn væri nauðsynlegt að heyra frá kærða. Jafnframt áskildi kærandi sér rétt til að leita til úrskurðarnefndar lögmanna og dómstóla og tiltók að málið færi í þann farveg ef ekkert yrði gert fyrir 25. sama mánaðar.

Kærandi sendi loks reikning og tímaskýrslu til kærða í tölvubréfi þann 9. október 2019. Kvaðst kærandi þar ekki hafa annan kost en að stefna kærða fyrir héraðsdóm. Kærði hefur lagt fyrir nefndina tilgreindan reikning sem lögmannsstofa kæranda gaf út gagnvart lögmannsstofu kærða og tímaskýrslu að baki honum. Er reikningurinn að fjárhæð 1.333.620 krónur með virðisaukaskatti og því lýst að hann taki til lögmannskostnaðar vegna vinnu í máli L.

Kærði hefur jafnframt lagt fyrir nefndina dóm Héraðsdóms x. desember 20xx í máli nr. E-xxxx/20xx. Af dóminum verður ráðið að annar lögmaður hafi farið með mál viðkomandi fyrir dómi gegn íslenska ríkinu. Þá var tiltekið í dómsorði að allur gjafsóknarkostnaður stefnanda skyldi greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun fyrrum lögmanns hans, þ.e. kæranda í máli þessu, að fjárhæð 350.000 krónur.

Líkt og áður er rakið var kvörtun í málinu móttekin af hálfu nefndarinnar þann 23. nóvember 2020.

II.

Kærandi krefst þess aðallega í málinu að úrskurðarnefnd leggi til að kærði verði sviptur lögmannsréttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Til vara krefst kærandi þess að kærði verði áminntur vegna brota í störfum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða vegna rekstur málsins fyrir nefndinni.

Varðandi málsatvik vísar kærandi til þess að kærði hafi starfað sem fulltrúi hans á árum áður. Hafi kærði látið af þeim störfum er kærandi hafi veikst í ársbyrjun 2016 en kærði hafi þá tekið með sér ýmsa umbjóðendur kæranda.

Í kvörtun vísar kærandi annars vegar til þess að D og E hafi verið meðal þeirra umbjóðenda, en tilgreindir aðilar eigi tilkall til arfs úr dánarbúi K vegna M í F. Með heimild í lögum nr. 20/xxxx hafi verið rekið dómsmálið nr. E-xxxx/20xx fyrir Héraðsdómi, aðallega gegn F en til vara gegn dánarbúi G. Sé aðalkrafa málsins að fjárhæð x krónur. Liggi fyrir að kærandi hafi sinnt hagsmunagæslu fyrir viðkomandi aðila allt frá árinu 2011. Hafi verið gerður samningur um þóknun, dags. 26. nóvember 2012, þar sem kveðið hafi verið á um að þóknun kæranda skyldi vera hlutdeild í tilvonandi arfi.

Kærandi bendir á að við rekstur dómsmálsins hafi honum borist til eyrna að kærði hefði tekið við hagsmunagæslu fyrir D og E. Hins vegar hafi kærði aldrei látið kæranda vita af því og ekki svarað ítrekuðum tölvubréfum kæranda vegna þessa. Liggi í augum uppi að hagsmunir í málinu séu miklir og því hafi kærði mátt vita hversu mikilvægt það væri að láta kæranda vita af því að hann hefði tekið við hagsmunagæslu í málinu, sér í lagi eftir tölvubréf kæranda. Kveðst kærandi aldrei hafa heyrt af slíkri háttsemi lögmanns í garð annars lögmanns á sínum ferli.

Kærandi vísar til tölvubréfs, dags. 4. september 2019, sem annar umbjóðandi kæranda sendi til kærða vegna tilgreinds máls. Var þar vísað til samningsskyldu gagnvart kæranda og að hún ætti einnig við um D og E. Þá var tiltekið að kærði hefði upplýst að hann vildi ekki sitja fundi með kæranda en með því væri verið að vinna gegn hagsmunum viðkomandi erfingja.

Jafnframt er vísað til svarbréfs kærða til viðkomandi umbjóðanda kæranda frá sama degi, þ.e. þann 4. september 2019. Tiltók kærði þar meðal annars að umbjóðendur hans, þ.e. D og E, hefðu afturkallað umboð það sem þau hefðu veitt kæranda og að því kæmi kærandi ekki fram fyrir hönd neins aðila í málinu. Væri aðkoma utanaðkomandi aðila til þess fallin að flækja málið frekar en að einfalda það eða leysa það. Lýsti kærði því hins vegar að ef kærandi eða einhver annar lögmaður sýndi fram á umboð sitt til hagsmunagæslu í málinu væri sjálfsagt af hálfu kærða að funda með viðkomandi lögmanni.

Kærandi kveðst hafa fengið framangreind tölvubréfasamskipti framsend til sín en á þeim tíma hafi engin afturköllun á umboði hans til handa borist.

Kærandi bendir á að hann hafi sent kærða tölvubréf vegna málsins hinn 5. nóvember 2019. Hafi kærandi þar rakið málsatvik eins og þau horfðu við honum, þar á meðal um réttarsamband hans við D og E og það samkomulag um þóknun sem gert hafði verið þann 26. nóvember 2012. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu:

Standi vilji þinn til þess að umbj. þ. greiði 10% af tilvonandi arfi til mín, auk þess sem þau verða að borga þér, verður svo að vera. Mér hefur ekki borist umboð til þín og því sendi ég afrit af þessum pósti til D og E. Mér finnst að þau þurfi að vita að þau þurfi að borga mér um 20-25 m.kr., miðað við þær tölur sem þú hefur að sögn sjálfur nefnt. Ef að því kemur vænti ég eðlilegs samstarfs, þ á m. að þú munir svara tölvupóstum framvegis.

Í tölvubréfinu tiltók kærandi jafnframt að hann myndi skjóta málinu til úrskurðarnefndar lögmanna og jafnframt höfða mál fyrir héraðsdómi á hendur kærða, félagi kærða og viðkomandi umbjóðendum ef þörf yrði á.

Kærandi vísar til þess að þar sem svör hafi ekki borist frá kærða hafi hann verið nauðbeygður til þess að hafa beint samband við D og E með tölvubréfi, dags. 8. maí 2020, en kærði fékk jafnframt afrit af því. Kvaðst kærandi þar meðal annars ekki vita hvað kærði væri að gera með málið þar sem hann mætti sjaldan í þinghöld. Jafnframt því hefði kærði hvorki fyrr né síðar látið í sér heyra, þrátt fyrir fyrrgreint tölvubréf frá 5. nóvember 2019, eða tilkynnt um að hann hefði tekið við hagsmunagæslu í málinu. Þá óskaði kærandi eftir að hann yrði látinn vita með skriflegum hætti fyrir 25. sama mánaðar ef vilji væri til að láta einhvern annan en kæranda eða fulltrúa hans flytja viðkomandi mál fyrir héraðsdómi.

Kærandi kveðst enn og aftur hafa verið hundsaður og hafi hann því sent á ný tölvubréf til kærða þann 29. maí 2020 í því skyni að fá upplýsingar um þá óvissu sem uppi hafi verið um hagsmunagæslu og lögmannsumboð. Í tölvubréfinu kvaðst kærandi ítrekað hafa reynt að ná í kærða sem hafi engu svarað, en þar væri um að ræða brot gegn siðareglum lögmanna. Ítrekaði kærandi jafnframt að hann hefði málflutningsumboð frá D og E. Óskaði kærandi eftir svörum um það hvaðan kærði hefði málflutningsumboð í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/20xx sem og eftir gögnum þar að lútandi.

Þar sem engin svör bárust frá kærða kveðst kærandi hafa ítrekað sama efni í tölvubréfi hinn 4. júní 2020. Lýsti kærandi því þar að þar sem kærði hefði ekki sýnt fram á málflutningsumboð myndi kærandi eða fulltrúi hans flytja viðkomandi dómsmál. Engin svör hafi hins vegar borist frá kærða við því tölvubréfi.

Kærandi byggir á að um sé að ræða skýrt brot gegn IV. kafla siðareglna lögmanna, sbr. 25. gr. þeirra. Telur kærandi ljóst að kærði hafi ekki sýnt sér neina virðingu eftir starfslok hans sem fulltrúa. Bendir kærandi á að um gríðarlega hagsmuni sé að ræða fyrir kæranda, líkt og kærða megi ljóst vera. Jafnframt sé til þess að líta að kærði hafi svarað tölvubréfi umbjóðanda kæranda samdægurs, en hafi hins vegar ekki enn séð sóma sinn í því að svara einu einasta tölvubréfi kæranda.

Kærandi vísar einnig um þetta efni til 28. gr. siðareglna lögmanna. Hvað þá grein varðar bendir kærandi á að kærði hafi ekki enn haft samband við sig vegna málsins og tilkynnt um hagsmunagæslu í málinu. Þrátt fyrir það hafi kærði byrjað að vinna fyrir D og E á árinu 2017 án þess að fullvissa sig um að hagsmunagæslu kæranda væri lokið.

Vísað er til þess að þetta stórkostlega hirðu- og virðingarleysi hafi leitt til þess að kærandi hafi þurft að hafa beint samband við D og E til að fá upplýsingar um hvort þau hefðu ráðið nýjan lögmann. Hafi tilgreindir aðilar því miður þurft að finna fyrir þessum leiðu deilum lögmanna og megi því ljóst vera að heiður lögmannastéttarinnar hafi þurft að líða fyrir svarleysi kærða. Megi hið sama segja um dómara málsins, sem hafi fengið afrit af tölvubréfum kæranda. Þá hafi aðrir erfingjar í málinu frétt af þessari háttsemi, sem hafi varla aukið traust þeirra til lögmannastéttarinnar, heldur hitt þó heldur. Samkvæmt því byggir kærandi á að háttsemi kærða hafa brotið gegn 2. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að með bréfi frá D og E, dags. 8. ágúst 2020 en mótteknu þann 20. sama mánaðar, hafi kæranda fyrst verið tilkynnt um afturköllun lögmannsumboðsins. Í bréfinu hafi reyndar verið fullyrt að þau hefðu „fyrir margt löngu afturkallað“ lögmannsumboðið, en kærandi vísar til þess að það sé ekki rétt. Hafi þessu efni verið mótmælt í svarbréfi kæranda, dags. 3. september 2020. Engin svör hafi borist við því erindi.

Kærandi telur einnig ljóst að kærði hafi brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna. Hafi kærði augljóslega ekki eflt rétt, heldur einmitt stuðlað að órétti með því að láta kæranda ekki vita af hagsmunagæslu hans. Megi kærða vera ljóst hversu miklir hagsmunir séu undir fyrir kæranda, sem unnið hafi fyrir viðkomandi aðila samkvæmt samkomulagi allt frá árinu 2011 án þess að taka eina krónu fyrir.

Bendir kærandi á að þótt hann hafi hvatt kærða til að fara eftir lögum og siðareglum hafi kærði í engu bætt ráð sitt þar um, heldur kosið að svara tölvubréfum ekki. Þá liggi fyrir að siðareglur séu í eðli sínu ekki tæmandi, sbr. 44. gr. siðareglna lögmanna. Bendir kærandi á að fari svo að ekki sé unnt að heimfæra háttsemi kærða á eitt ákvæði liggi þó í augum uppi að hann hafi sýnt af sér háttsemi sem brjóti gegn siðareglunum sem slíkum.

Í kvörtun vísar kærandi hins vegar til þess að við starfslok hafi kærði tekið með sér mál umbjóðandans L. Hafi tilgreindur aðili fengið gjafsókn til að reka skaðabótamál gegn íslenska ríkinu vegna læknamistaka. Bendir kærandi á að ritari hans hafi sent tímaskýrslu vegna vinnu kæranda í málinu til kærða með tölvubréfi, dags. 17. september 2018, til þess að ganga úr skugga um að kærandi fengi greitt fyrir hans vinnu til samræmis við rétt hans þar um, sbr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Þar sem engin svör hafi borist frá kærða hafi ritarinn ítrekað sama efni í tölvubréfi þann 9. október 2018.

Kærandi vísar til þess að þar sem engin svör hafi borist í tæpt ár hafi hann enn á ný ítrekað erindið með tölvubréfi til kærða, dags. 17. september 2019. Hafi kærandi þar vísað til fyrirliggjandi tímaskýrslu og að viðkomandi umbjóðandi hefði upplýst um hagsmunagæslu kærða í málinu. Þar sem aðilinn hefði gjafsókn væri nauðsynlegt að heyra frá kærða. Jafnframt hafi kærandi áskilið sér rétt til að leita til úrskurðarnefndar lögmanna og dómstóla og tiltekið að málið færi í þann farveg ef ekkert yrði gert fyrir 25. sama mánaðar.

Kærandi bendir á að kærði hafi ekki svarað því erindi heldur en það hafi að endingu verið ítrekað þann 9. október 2019 án þess að svör bærust frá kærða.

Kærandi byggir á að með þessari háttsemi hafi kærði brotið gegn sömu ákvæðum siðareglna lögmanna og áður greinir. Hafi hirðuleysi kærða kostað kæranda töluverða fjármuni, sem hefði auðveldlega verið hægt að komast hjá með eðlilegum samskiptum.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er því lýst að málsatvikalýsingu kærða sé mótmælt enda eigi fullyrðingar hans sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Kærandi vísar til þess að það sæti furðu að málið hafi ekki vakið meiri áhuga hjá kærða en svo að hann hafi sett tölvubréf um það efni beint í ruslpóst. Byggir kærandi á að kærði hafi átt að láta kæranda vita að tölvubréf hans færu framvegis beint í ruslpósthólfið, þ.e. hafi einhver tölvubréf sem kæranda sé ókunnugt um farið fyrir brjóstið á kærða. Liggi hins vegar fyrir af gagnaframlagningu kærða fyrir nefndinni að hann hafi að minnsta kosti séð einhver tölvubréf frá kæranda. Einnig hafi háttsemi kærða að þessu leyti verið í andstöðu við 41. gr. siðareglna lögmanna. Þá liggi fyrir að kærandi sendi kærða tölvubréfið frá 8. maí 2020 einnig í ábyrgðarpósti þar sem það var móttekið á lögmannsstofu kærða.

Kærandi ítrekar að kærði hafi aldrei upplýst um það að hann kærði sig ekki um nein samskipti við kæranda. Hafi kærði enda aldrei svarað neinum erindum kæranda eða sent kæranda erindi. Samkvæmt því hafi kæranda verið ókunnugt um þessa afstöðu kærða. Þá fáist það ekki staðist sem greini í málatilbúnaði kærða um að hann hafi verið skýr og afdráttarlaus um að umbjóðendur kæranda sem leituðu til kærða þyrftu að ljúka uppgjöri og slíta viðskiptasambandi við fyrrverandi lögmann sinn áður en hagsmunagæsla kærða gæti hafist. Bendir kærandi um það efni á ætlaða fullnaðargreiðslu D og E í ágúst 2020.

Varðandi málið lýsir kærandi því að það sé rangt að hann hafi lofað kærða hlutdeild í hlutdeildarsamningi vegna málsins. Jafnframt því sé það rangt að kærði hafi skrifað allar stefnur, greinargerðir og réttarskjöl í dómsmálum sem rekin hafi verið. Þá sé það rangt að kærandi hafi ekki getað sinnt málinu og fullnægt þannig skyldum sínum samkvæmt samningi við erfingja. Um möguleg réttarspjöll vegna útivistar bendir kærandi einnig á að aðrir lögmenn í málinu hefðu auðvitað mætt fyrir sig í þinghöld ef því hefði verið að skipta auk þess sem kærandi hafi haft lögmæt forföll frá þinghaldi, sbr. 97. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Kærandi bendir á að sá gerningur að ráða nýjan lögmann til að gæta réttar síns leiði ekki sjálfkrafa til þess að umboð hins upphaflega lögmanns sé afturkallað. Hafi viðkomandi umboð kæranda í málinu ekki verið afturkallað fyrr en 20. ágúst 2020. Samkvæmt því hafi tilgangur kæranda með fyrirliggjandi samskiptum í málinu ekki verið að kasta rýrð á störf kærða heldur til þess að fá upplýsingar um réttarstöðuna og gæta þannig réttar síns og ekki síður D og E.

Kærandi vísar til þess að fullyrðing kærða um að kærandi hafi ekki mætt í eitt einasta þinghald frá árinu 2016 sé röng. Bendir kærandi í því samhengi meðal annars á endurrit úr þingbók viðkomandi máls frá 31. janúar 2020 þar sem báðir aðilar hafi verið mættir. Auk þess hafi aðrir lögmenn mætt í þinghöld fyrir kæranda. Sé það því rangt að kærandi hafi ekkert gert í málinu frá ársbyrjun 2016,

Um mál L bendir kærandi á að hann hafi einfaldlega sent beiðnir til kæranda um að leggja fram tímaskýrslu kæranda fyrir dómi svo greitt yrði fyrir vinnu hans. Óljóst sé hvernig slíkt geti verið túlkað sem áreiti eða hótanir, líkt og kærði byggi á. Hefði þannig verið auðvelt fyrir kærða að upplýsa kæranda um að hann ætlaði ekki að taka að sér málið.

Kærandi mótmælir því að skilyrði séu til að vísa málinu frá nefndinni.

Um það efni bendir kærandi í fyrsta lagi á að fyrsti tölvupóstur hans til kærða vegna málsins sé dagsettur 5. nóvember 2019. Sé það ekki svo að frestur til að kvarta yfir lögmanni fyrir að svara ekki ítrekuðum tölvubréfum byrji að líða sama dag og fyrsta tölvubréf sé sent. Samkvæmt því beri ekki að vísa málinu frá á grundvelli þessa atriðis.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að hagsmunagæslu hans hafi ekki lokið með því einu að kærði hafi byrjað að starfa fyrir D og E. Þvert á móti hafi kærandi haldið áfram að gæta hagsmuna þeirra systkina. Vísar kærandi um það efni meðal annars til tölvubréfasamskipta frá 26. febrúar 2020. Þar sem umboð kæranda hafi ekki verið afturkallað fyrr en með bréfi, dags. 8. ágúst 2020 en mótteknu þann 20. sama mánaðar, hafi kærandi enga ástæðu haft til að ætla annað en að það væri vilja viðkomandi umbjóðenda að hann gætti hagsmuna þeirra. Ítrekar kærandi að hagsmunagæsla lögmanns sé ekki einskorðuð við að gæta réttar umbjóðanda fyrir dómi. Samkvæmt því séu ekki skilyrði til að vísa málinu frá á grundvelli þessa atriðis enda hafi réttarstaða kæranda breyst til muna með afturköllun umboðsins.

Í þriðja lagi vísar kærandi til þess að engu breyti hvert innihald tölvubréfs kærða til J frá 4. september 2019 var. Það sem kærði segi öðrum manni geti ekki verið skoðað sem skilaboð til kæranda. Þá hafi efni tölvubréfs kæranda til kærða, dags. 5. nóvember 2019, verið þess eðlis að vænta hafi mátt svars frá kærða.

Í fjórða lagi byggir kærandi á að hann hafi fyrst getað verið fullviss um að kærði ætlaði ekki að svara erindum hans vegna máls J í ársbyrjun 2020. Sé einhver vafi þar um beri að túlka hann kæranda í hag.

Kærandi byggir að endingu á að efnislegar varnir kærða séu flestar það innihaldslausar að þær séu varla svaraverðar. Vísar kærandi því til kvörtunar um það sakarefni sem liggi fyrir nefndinni.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er jafnframt vísað til atvika og ætlaðra brota kærða eftir að kvörtun í málinu var beint til nefndarinnar. Með hliðsjón af sakarefni málsins, eins og það var afmarkað í kvörtun málsins, verður ekki talin þörf á að rekja það efni sérstaklega.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði í heild sinni vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst kærði þess að honum verði ákvörðuð hæfileg þóknun vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Í málatilbúnaði kærða er um forsögu málsins vísað til þess að hann hafi byrjað að starfa fyrir lögmannsstofu kærða á árinu 2012, en vinnufyrirkomulag hafi verið mjög óformlegt og verktakagreiðslur undir lögboðnum lágmarkslaunum. Hafi kærandi meðal annars falið kærða að skoða, greina og undirbúa málshöfðanir vegna M. Hafi kærði eytt hundruðum vinnustunda í það mál á næstu þremur og hálfu ári án þess að fá greitt fyrir þá vinnu. Ítrekað hafi verið óskað eftir greiðslu vegna þeirra verka sem og annarra, en án árangurs.

Kærði vísar til þess að viðskiptavinir kæranda hafi þurft að leita leiða til að tryggja hagsmuna sína og leita til annarra lögmanna vegna veikinda kæranda í ársbyrjun 2016. Kveðst kærði hafa hætt að sinna verkefnum í þágu lögmannsstofunnar í september 2016 en þá hafi verið óuppgerð öll vinna hans fyrir stofuna frá 1. janúar 2013. Skipti fjöldi óuppgerðra vinnustunda þúsundum. Samkvæmt því hafi kærði orðið fyrir verulegu fjártjóni þar sem ekki hafi verið staðið við uppgjör gagnvart honum.

Vísað er til þess að kærði hafi leitað til lögmanns til að fá uppgerða vinnu sína í þágu lögmannsstofunnar í september 2016. Eftir ítrekaðar kröfur hafi kærði fengið um 70% vinnutíma greidda, fyrir utan þá tíma sem unnir hafi verið vegna M. Hafi kærði skrifað allar stefnur, greinargerðir og önnur réttarskjöl í þeim fjölda dómsmála sem rekin hafa verið vegna þess máls frá árinu 2012 fyrir þáverandi umbjóðendur kæranda. Sé fjárhagslegt tjón kærða mikið vegna vinnu í þágu kæranda sem hafi hagnýtt sér aflahæfi kærða árum saman án þess að greiða fyrir þau störf.

Vegna þess ágreinings kveðst kærði hafa slitið öllum samskiptum við kæranda. Þrátt fyrir það hafi kærandi og aðilar honum tengdir haldið áfram að áreita kærða ítrekað og endurtekið. Af þeim sökum hafi kærði neyðst til að setja öll tölvubréf sem frá viðkomandi póstföngum hafi komið beint í ruslpósthólf enda hafi þau verið uppföll af aðdróttunum og fúkyrðum og því ekki svaraverð að mati kærða.

Kærði vísar til þess að hann hafi engin mál tekið með sér frá lögmannsstofu kæranda. Hins vegar hafi fyrrverandi umbjóðendur lögmannsstofunnar ítrekað leitað til sín til að kanna hvort hann væri tilbúinn að taka að sér hagsmunagæslu fyrir þeirra hönd. Kærði hafi ávallt verið skýr og afdráttarlaus um að viðkomandi aðilar þyrftu að ljúka uppgjöri og slíta viðskiptasambandi við fyrrverandi lögmann sinn áður en kærði gæti tekið að sér hagsmunagæslu, í samræmi við ákvæði 28. gr. siðareglna lögmanna. Sé það einnig rangt sem fram komi í kvörtun um að kærði hafi starfað sem fulltrúi kærða.

Kærði vísar til þess að kæranda hafi ekki dulist að kærði hefði engan áhuga á samskiptum við hann. Hafi skeytasendingar kæranda einna helst komist til vitneskju kærða þá er aðrir á póstsendingalista kæranda hafi orðið vitni að þeim fúkyrðum sem kærandi hafi haft í frammi í garð kærða og haft samband við kærða af því tilefni.

Varðandi M vísar kærði til þess að J hafi komið fram fyrir hönd þess erfingjahóps sem leitað hafi til kæranda á árinu 2011. Hafi kærði frá árinu 2012 eytt hundruðum klukkustunda í málið að beiðni kæranda á grundvelli loforðs um greiðsluhlutdeild í hlutdeildarsamningi sem lögmannsstofa kæranda hafi gert. Við veikindi kæranda í ársbyrjun 2016 hafi orðið ljóst að kærandi væri ófær um að sinna málinu og fullnægja þannig skyldum sínum samkvæmt hlutdeildarsamningnum við erfingjana sem og kærða.

Vísað er til þess að kærði hafi áfram haldið að sinna mætingum á dómþingum fyrir fyrrum umbjóðendur kæranda, enda ljóst að hagsmunir erfingjanna myndu að engu verða ef útivist yrði, sbr. 2. mgr. 28. gr. siðareglna lögmanna. Í málinu hafi verið lögð fram matsbeiðni og viðbótarmatsbeiðni sem kærði hafi unnið að öllu leyti. Erfingjar málsins hafi þá einnig hafið leit að nýjum lögmanni. Á endanum hafi J ákveðið að leita til N lögmanns en á sama tíma hafi erfingjarnir D og E leitað til kærða og H lögmanns. Hafi H þannig sent yfirlýsingu á J, dags. 24. mars 2017, þar sem öll skjöl sem veitt höfðu honum umboð til að koma fram fyrir hönd D og E voru afturkölluð.

Í samræmi við framangreint bendir kærði á að frá og með janúar 2016 hafi hann sinnt hagsmunagæslu fyrir hönd erfingja málsins enda hafi kærandi verið ófær um að halda uppi hagsmunum vegna veikinda. Hafi kærði gert það í eigin nafni að beiðni erfingjanna fram til mars 2017 er 4/5 hlutar þeirra leituðu til N hrl. en 1/5 hluti þeirra, þ.e. D og E, óskuðu eftir að kærði sinnti áfram hagsmunagæslu fyrir þeirra hönd. Vísar kærði til þess að kærandi hafi ekki mætt í neitt þinghald frá janúar 2016. Hafi umbjóðendur kærða jafnframt ítrekað lýst því yfir við kæranda að hann hefði ekki umboð þeirra til reksturs málsins, enda ekki sinnt því um árabil, og töldu sig hafa slitið samningi við hann og gert upp. Liggur einnig fyrir að ef ekki hefði verið fyrir hagsmunagæslu kærða þá hefði ekki verið gætt hagsmuna þeirra fyrir dómi með tilheyrandi skaða.

Kærði vísar til þess að honum hafi mátt vera ljóst að kærandi, sem ekki hafði mætt í fyrirtökur til að halda uppi hagsmunum fyrrum umbjóðenda sinna í fjögur ár, hefði ekki lengur málflutningsumboð í málinu. Þá megi kæranda vera ljóst að lögmannsumboð veiti lögmanni ekki heimild til að láta af hagsmunagæslu um árabil en eiga síðan einhvers konar tilkall gagnvart umbjóðendum sínum til að krefjast þess að taka aftur upp þráðinn nokkrum árum síðar. Sé það að sjálfsögðu umbjóðendanna að taka ákvörðun um það hverjum þeir veita umboð til hagsmunagæslu. Samkvæmt því telur kærði að kæranda hafi ekki getað dulist að öll þau tölvubréf sem tilgreind eru í kvörtun hafi verið efnislega röng og efnið sett fram gegn betri vitund kæranda. Geti tilgangur kæranda með þessari framgöngu ekki hafa verið annar en að kasta rýrð á störf kærða.

Varðandi mál L vísar kærði til þess að tilgreindur aðili hafi komið að máli við sig eftir starfslok hans hjá lögmannsstofu kæranda á árinu 2016. Hafi kærði gert aðilanum ljóst að hann þyrfti að gera upp við lögmannsstofu kæranda og fá gögn málsins áður en kærði væri reiðubúinn að skoða málið. Vísar kærði til þess að aðilinn hafi fengið útgefinn fullnaðarreikning og gögnin afhent. Hafi kærði tekið að sér skoðun málsins en aldrei aflað umboðs. Þar sem gengið hafi verið frá uppgjöri hafi kærða enga skyldu haft til samskipta við kæranda varðandi málið, hvað þá að svara áreitni og tilhæfulausum kröfum. Í ljósi framgöngu kæranda hafi kærði hins vegar óskað að aðilinn leitaði til annars lögmanns til að halda áfram með málið. Hafi því ekki orðið af frekari vinnu kærða fyrir aðilinn. Bendir kærði á að annar lögmaður hafi rekið málið fyrir héraðsdómi þar sem því hafi lokið með dómi héraðsdóms í máli nr. E-xxxx/xxxx. Með dóminum hafi kæranda verði ákvörðuð þóknun vegna gjafsóknar stefnanda.

Kærði vísar til þess að þrátt fyrir framangreint hafi kærandi ákveðið að beina frekari kröfu um meinta vangreidda þóknun vegna málsins á hendur kærða. Hafi kærandi þannig gefið út reikning að fjárhæð 1.333.620 krónur á hendur kærða vegna hinnar meintu vangoldnu kröfu og hótað kærða lögsókn til innheimtu hennar. Vísar kærði til þess að krafan sé fullkomlega tilhæfulaus.  

Varðandi kröfu um frávísun vísar kærði í fyrsta lagi til þess að kærandi telji það brot á 25. gr. siðareglna lögmanna að kærði hafi ekki svarað tölvubréfum hans. Bendir kærði á að tölvubréf sem kærandi tilgreini í kvörtun sinni vegna máls L séu frá 9. október 2018, 17. september 2019 og 9. október 2019 en að kvörtun í málinu sé dagsett 23. nóvember 2020. Samkvæmt því hafi frestur verið liðinn til að bera erindið undir nefndina vegna framangreindra tölvubréfa. Þá séu framlögð tölvubréf kæranda vegna M frá 5. nóvember 2019 til 4. júní 2020. Byggir kærði á að með hliðsjón af efni samskiptanna frá 5. nóvember 2019 hafi verið komin fram öll þau atriði sem kærandi beri nú undir nefndina. Hafi lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina, vegna þess kvörtunarefnis sem hér um ræðir, því verið liðinn þegar kvörtun kæranda var móttekin af hálfu nefndarinnar.

Í öðru lagi vísar kærði til þess að kvörtun kæranda sé á því reist að kærði hafi hafið vinnu fyrir D og E án þess að hafa fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmanns hafi verið lokið. Bendir kærði á að hann hafi sinnt hagsmunagæslu fyrir dómi, þar með talið sinnt mætingu og lagt inn réttarskjöl í málinu, frá því árið 2016. Hafi kæranda mátt vera ljóst að málið væri rekið fyrir héraðsdómi og að því væri sinnt af kærða. Raunar megi ráða af kvörtun að kæranda hafi verið þetta ljóst árið 2017. Samkvæmt því hafi lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina að þessu leyti verið liðinn er kvörtun var móttekin af hálfu nefndarinnar.

Byggir kærandi á að þeir tímafrestir sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, leiði til þess að ekki eigi að taka kvörtun kæranda til efnisúrlausnar og að vísa beri henni því frá nefndinni.

Í þriðja lagi bendir kærði á að efnisleg svör hans hafi legið fyrir og hafi verið kæranda kunn. Þannig megi upphaf ávirðinga kæranda gegn kærða með tölvubréfi, dags. 5. nóvember 2019, rekja til svars við tölvubréfi kærða til J, dags. 4. september 2019. Er vísað til þess að í tilgreindu tölvubréfi komi fram svar við erindum sem kærandi hafi síðar beint til kærða, þar með talið að umboð hafi verið afturkallað og hvernig fara ætti með ágreining vegna afdrifa hlutadeildarsamnings við kæranda. Efnisleg svör hafi því legið fyrir í tölvubréfi, dags. 4. september 2019, sem kærandi hafi lagt fram með kvörtun í málinu. Ekki verði því séð að það hefði þjónað neinum tilgangi að halda áfram frekari tölvubréfasamskiptum enda hafi afstaða kærða legið fyrir.

Kærði byggir á að sömu málsástæður eigi að leiða til höfnunar á öllum kröfum kæranda.

Varðandi aðalkröfu kæranda bendir kærði á að hann hafi ekki brotið gegn siðareglum lögmanna auk þess sem hann hafi aldrei sætt áminningu nefndarinnar. Beri því að hafna aðalkröfu kæranda um að lagt verði til að kærði verið sviptur lögmannsréttindum. Ennfremur beri að hafna kröfu um áminningu enda hafi kærði ekki brotið gegn siðareglum lögmanna í störfum sínum.

Um meint brot gegn 25. gr. siðareglna lögmanna vísar kærði til þess að tilgreind regla verði ekki túlkuð svo að lögmanni beri skilyrðislaus skylda til að svara öllum tölvubréfum sem honum berast. Allra síst verði sú skylda lögð á lögmann að svara svívirðingum eins og raktar eru í hinu upphaflega tölvubréfi kæranda, dags. 5. nóvember 2019. Hvergi í siðareglunum sé lögð skylda á lögmann að svara öllum erindum frá ótengdum aðilum eða öðrum lögmönnum. Hafi kærandi enga stöðu haft gagnvart kærða sem kallað hafi á skyldu kærða til að svara efnislegum erindum hans frekar. Verði heiðri lögmannastéttarinnar ekki gætt með því að standa í skeytasendingum eins og þeim sem kærandi beindi til kærða, enda orðfæri og framganga varla í samræmi við góða lögmannshætti. Þá verði ekki séð að skortur á svari frá kærði hafi raskað nokkrum hagsmunum eða valdið réttarspjöllum auk þess sem afstaða kærða hafi legið fyrir.

Byggir kærði á að ekkert í framkomnum gögnum eða upplýsingum bendi til þess að kærði hafi ekki sýnt kæranda fulla virðingu og tillitssemi í samræmi við 25. gr. siðareglna lögmanna. Vísar kærði til þess að það sé aftur á móti ámælisvert að kærandi hafi ítrekað ráðist að kærða gegn betri vitund með orðfæri og ásökunum sem brotið hafi gegn siðareglum lögmanna og dreift slíkum áburði um kærða til annarra lögmanna, dómara og aðstoðarmanns dómara.

Á því er byggt að framganga kæranda gagnvart kærða verði með engu móti réttlætt og liggi fyrir að tilgangur kæranda sé annar en látið sé í veðri vaka enda hafi honum ekki getað dulist að hann hefði ekki málflutningsumboð í málinu. Tölvubréf kæranda, dags. 5. nóvember 2019, sé þannig uppfullt af dylgjum og lítilsvirðandi ummælum í garð kærða. Hafi kærandi dreift þessu á aðra lögmenn í þeim eina tilgangi að sverta orðspor kærða. Hafi sú háttsemi kæranda verið í andstöðu við 25., 27. og 30. gr. siðareglna lögmanna sem og 2. gr. reglnanna og tilgang þeirra almennt. Vísar kærði til þess að slík framganga sé ekki svaraverð. Hafi kærði stillt sig um að taka þátt í þeirri orðræðu sem kærandi hafi viðhaft til að forðast að leggjast jafn lágt og kærandi, meðal annars með hliðsjón af siðareglum lögmanna. Samkvæmt því hafi það verið í samræmi við góða lögmannshætti að gæta að sér og láta ekki leiða sig út í slíkan forarpytt sem kærandi beindi samskiptunum í.

Kærði vísar til þess að erfitt sé að átta sig á í hverju brot kærða á 28. gr. siðareglna lögmanna geti falist. Ef kærði hefði ekki takið að sér hagsmunagæslu fyrir D og E megi ætla að þau hefðu orðið fyrir réttarspjöllum enda ljóst að kærandi sinnti ekki hagsmunagæslu fyrir þau þegar kærði tók við málinu sem þá var rekið fyrir héraðsdómi. Skjóti skökku við af hálfu kæranda að telja sig sinna hagsmunagæslu sem rekið hefur verið fyrir héraðsdómi án þess að hafa sjálfur mætt fyrir dóm í fjögur ár og kærði sinnti málinu á sama tíma.

Varðandi meint brot gegn 1. og 2. gr. siðareglna lögmanna vísar kærði til þess að í tölvubréfum kæranda, dags. 29. maí og 4. júní 2020, hafi dómara málsins að ósekju verið blandað inn í samskiptin og áfram haldið með niðrandi ummæli í garð kærða. Þá hafi viðkomandi tölvubréf einnig verið send á aðra lögmenn og umbjóðendur kærða. Hafi kærandi gert það gegn betri vitund og andstætt siðareglum lögmanna.

Kærði bendir á að ekki verði séð að efni umræddra tölvubréfa eigi neitt erindi við umrædda lögmenn eða dómara. Geti kærði tekið undir að tölvubréf kæranda séu ekki til þess fallin að auka veg og virðingu lögmannsstéttarinnar. Hafnar kærði því hins vegar að hann beri nokkra ábyrgð á þeim tölvubréfum sem kærandi kaus að senda og þeim áhrifum sem þau kunna að hafa haft á heiður lögmannsstéttarinnar.

Þá kveðst kærði hafna því að hafa brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna. Ómögulegt sé að sjá hvernig eða með hvaða hætti hagsmunagæsla kærða fyrir D og E hafi brotið gegn ákvæðinu. Þvert á móti hafi allar aðgerðir kærða stuðlað að því að tryggja réttindi með sem bestum hætti.

Varðandi mál L þá hafnar kærði því að skoðun á máli án þess að taka við hagsmunagæslu geti talist brot á siðareglum lögmanna. Annar lögmaður hafi tekið að sér þá hagsmunagæslu. Vísar kærði að öðru leyti til fyrri sjónarmiða um efni 25. gr. siðareglna lögmanna.

Í málatilbúnaði kærða er einnig vísað til nánar tilgreindra atvika og háttsemi varðandi kæranda sem hann telur brot gegn 26., 27. og 30. gr. siðareglna lögmanna. Lýsir kærði því að hann muni beina sjálfstæðu erindi til nefndarinnar varðandi þessa framgöngu kæranda.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar er öllum athugasemdum kæranda mótmælt sem röngum og tilhæfulausum. Vísar kærði sérstaklega til tölvubréfs H, dags. 7. mars 2021, til stuðnings málatilbúnaði sínum. Sé þar tiltekinn sá skilningur H að kærandi hafi að minnsta kosti frá 6. mars 2017 mátt vera ljóst að hann hefði ekki lengur umboð þeirra D og E til að vera áfram í fyrirsvari fyrir þau í málinu enda hefðu þau bæði lýst því yfir í samtali að þau vildu að annar lögmaður tæki við málinu. Þá hafi kærandi ámálgað á fundi sumarið 2019 að best væri ef kærði myndi hætta að vinna í málinu.

Kærði byggir á að fyrrgreint tölvubréf sýni ótvírætt fram á að allur málatilbúnaður kæranda sé efnislega rangur og að kærandi haldi fram gegn betri vitund að lögmannsumboð D og E til hans vegna M hafi ekki verið afturkallað. Liggi það einnig fyrir í því að kærandi hafi hvorki komið fram fyrir þeirra hönd í málinu um árabil, lagt fram neina vinnu fyrir þeirra hönd né heldur verið í sambandi við hina meintu umbjóðendur sína allt frá árinu 2015, þá er hann hóf skyndilega árið 2019 og 2020 herferð sína gegn kærða.

Samkvæmt því liggi fyrir að allar tilraunir kæranda til að kasta rýrð á umboð og störf kærða séu efnislega rangar, fari gegn betri vitund og gegn siðareglum lögmanna.

Kærði kveðst hafna þeirri túlkun kæranda að siðareglur lögmanna leggi þá skyldu á lögmann að bregðast við öllum erindum sem til hans berast. Bendir kærði á að skyldur lögmanna séu gagnvart umbjóðendum sínum. Það eitt og sér að lögmanni berist erindi annars lögmanns kalli ekki á sérstök viðbrögð nema erindið gefi sérstakt tilefni til þess. Þegar efnislegt inntak erindis sé bersýnilega rangt og gegn betri vitund sendanda, og erindið snertir ekki réttmæta hagsmuni umbjóðanda, verði að mati kæranda ekki dregin sú ályktun af siðareglum lögmanna að skylda sé að bregðast við öllum slíkum erindum. Athugasemdir kæranda hafi í engu hnekkt þeim staðreyndum sem lýst hafi verið í greinargerð kærða til nefndarinnar. Þannig hafi kærði brugðist við erindi umbjóðanda kæranda, dags. 4. september 2019, upphaflegt erindi kæranda hafi verið framsending á því tölvubréfi og efnislega ekki kallað á neina skyldu til viðbragða af hálfu kærða.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem réttlætt geti framgöngu hans gagnvart kærða áhrærandi mál L. Bendir kærði á að sönnunarbyrði sé á kæranda sem byrjað hafi málareksturinn með tilhæfulausri kvörtun. Rétt sé að kærði hafi skoðað í einstaka tilvikum tölvuskeyti kæranda í ruslpósthólfi sínu, enda hafi kærandi ekki dregið af sér að dreifa fúkyrðum um kærða víða. Hafi slíkt eðli málsins samkvæmt borist til kærða þó hann hafi ekki séð tölvubréf kæranda af fyrra bragði.

Að öðru leyti telur kærði að málatilbúnaður kæranda sé ekki svaraverður og að hann dæmi sig sjálfur. Kveðst kærði hafna öllum ásökunum kærða sem röngum og ósönnuðum.

Niðurstaða

                                                                          I.

Kærði hefur krafist þess í málinu að því verði í heild sinni vísað frá nefndinni. Hefur kærði einkum um það efni vísað til þess að kvörtunarefni séu of seint fram komin. Samkvæmt þeirri kröfugerð þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Fyrir liggur að kvörtun kæranda lýtur annars vegar að ætlaðri brotlegri háttsemi kærða gagnvart kæranda í tengslum við málefni L, þ.e. að kærði hafi ekki svarað ítrekuðum erindum kæranda vegna fyrrum umbjóðanda hins síðargreinda. Hafi hirðu- og samskiptaleysi kærða gagnvart kæranda verið í andstöðu við ýmis ákvæði siðareglna lögmanna, sbr. einnig 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Varðandi það kvörtunarefni sem hér um ræðir er til þess að líta að kærandi og ritari hans beindu tölvubréfum til kærða vegna málsins dagana 17. september 2018, 9. október 2018, 17. september 2019 og 9. október 2019, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Lýsti kærandi því sérstaklega í fyrrgreindu tölvubréfi, dags. 17. september 2019, að hann myndi leita til úrskurðarnefndar lögmanna og dómstóla ef svör bærust ekki frá kærða vegna erinda kæranda fyrir 25. sama mánaðar. Hefur jafnframt verið upplýst í málinu að kærði tók ekki að sér hagsmunagæslu í þágu fyrrum umbjóðanda kæranda heldur var það dómsmál sem erindi kæranda laut að rekið af hálfu annars lögmanns svo sem dómur héraðsdóms Reykjavíkur x. desember 20xx í máli nr. E-xxxx/xxxx ber með sér. Með dóminum var þóknun kæranda jafnframt ákvörðuð vegna vinnu hans á fyrri stigum í þágu viðkomandi aðila.

Í samræmi við framangreint er að áliti nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi í öllu falli átt þess kost að koma því kvörtunarefni sem hér um ræðir á framfæri við nefndina í septembermánuði 2019, svo sem hann lýsti sjálfur að hann hygðist gera í tölvubréfi til kærða. Er einnig til þess að líta að kærandi hefur engin gögn lagt fyrir nefndina sem fært gætu stoð undir þá staðhæfingu hans að kærði hafi í reynd tekið við hagsmunagæslu í þágu viðkomandi aðila í kjölfar slita á réttarsambandi hans við kæranda. Með hliðsjón af framangreindu var lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina, vegna þessa kvörtunarefnis, því liðinn þegar kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin þann 23. nóvember 2020. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, er tilgreint kvörtunarefni of seint fram komið og verður það því ekki tekið til efnisúrlausnar í málinu svo sem í úrskurðarorði greinir.

Kvörtun kæranda lýtur hins vegar að ætlaðri brotlegri háttsemi kærða gagnvart kæranda í tengslum við hið svonefnda M. Um það efni er tiltekið í kvörtun að hin ætluðu brot lúti að því að kærði hafi ekki svarað ítrekuðum tölvubréfum kæranda varðandi fyrrum umbjóðendur sem farið hafi frá kæranda til kærða. Þá hafi kærði ekki tilkynnt kæranda um að hann hefði tekið við málinu í þágu D og E af kæranda og hafið vinnu fyrir þeirra hönd á árinu 2017. Telur kærandi að háttsemi kærða hafi brotið í bága við 1., 2., 25. gr. og 28. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Varðandi hið síðargreinda efni, þ.e. að kærði hafi ekki tilkynnt kæranda um að hann hefði tekið við fyrrgreindri hagsmunagæslu í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/xxxx og sinnt þeim skyldum sem á lögmenn eru lagðar í 28. gr. siðareglnanna, er til þess að líta að kærandi upplýsti í tölvubréfi til kærða, dags. 5. nóvember 2019, að honum væri kunnugt um viðkomandi hagsmunagæslu kærða og vísaði meðal annars í því skyni til D og E sem umbjóðenda kærða. Samkvæmt því var kæranda í öllu falli ljóst á þeim tíma að öðrum lögmanni, þ.e. kærða, hefði verið falið það verkefni sem kærandi hafði áður sinnt við rekstur héraðsdómsmálsins. Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var jafnframt bókað í þingbók málsins þegar á árunum 2016 og 2017 að kærði hefði tekið við málinu fyrir hönd viðkomandi aðila af kæranda. Var einnig gerð grein fyrir því efni í dómi héraðsdóms í málinu sem kveðinn var upp þann 22. desember 2020. Þá verður einnig að líta til þess að í bréflegu erindi D og E til kæranda, dags. 8. ágúst 2020, var því lýst að þau hefðu fyrir margt löngu afturkallað lögmannsumboð kæranda enda hefði kærandi ekki sinnt hagsmunagæslu eða komið fram fyrir þeirra hönd í viðkomandi máli allt frá byrjun ársins 2016.

Að teknu tilliti til framangreinds, sbr. einkum efni í fyrrgreindu tölvubréfi kæranda frá 5. nóvember 2019, er ekki unnt að leggja annað til grundvallar að mati nefndarinnar en að kærandi hafi átt þess kost að koma því kvörtunarefni sem hér um ræðir á framfæri við nefndina þegar á þeim tíma. Með hliðsjón af því var lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina, vegna nefnds kvörtunarefnis, því liðinn þegar kvörtun kæranda var móttekin af nefndinni þann 23. nóvember 2020. Samkvæmt því og með vísan til fyrrgreindra heimilda er það niðurstaða nefndarinnar að kvörtunarefnið sé of seint fram komið og því vísað frá nefndinni.

Að mati nefndarinnar eru hins vegar ekki skilyrði til að vísa kvörtun kæranda frá að því er varðar þau kvörtunarefni að kærði hafi ekki svarað ítrekuðum tölvubréfum kæranda á árunum 2019 og 2020 í tengslum við hið svonefnda M. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar að því leyti.

II.

Svo sem áður greinir getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í 2. gr. siðareglnanna er tiltekið að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í IV. kafla siðareglna lögmanna er fjallað um samskipti lögmanna innbyrðis. Er þar tiltekið í 25. gr. að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

Þá er kveðið á um í 41. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

III.

Ágreiningur í þeim þætti málsins sem eftir stendur lýtur að ætlaðri brotlegri framgöngu kærða gagnvart kæranda með því að svara ekki ítrekuðum tölvubréfum varðandi hagsmunagæslu í þágu D og E.

Um þetta kvörtunarefni liggur í fyrsta lagi fyrir tölvubréf sem kærandi sendi til kærða þann 5. nóvember 2019. Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan gerði kærandi þar grein fyrir málsatvikum eins og þau horfðu við honum, þar á meðal um réttarsamband við D og E og það samkomulag um þóknun sem gert hafði verið þann 26. nóvember 2012. Laut tölvubréfið þannig að atvikum eins og þau horfðu við kæranda og túlkun hans og viðhorfum á þeim. Af efni tölvubréfsins verður hins í engu ráðið að með því hafi kærandi verið að beina sérstakri fyrirspurn til kærða um ákveðið efni eða að svara hafi að öðru leyti mátt vænta frá kærða vegna erindisins. Með hliðsjón af efni tölvubréfsins verður því hvorki talið að kærði hafi ekki sýnt kæranda slíka samvinnu, virðingu og tillitssemi sem áskilin er í innbyrðis samskiptum lögmanna samkvæmt 25. gr. siðareglna lögmanna né að kærða hafi að öðru leyti borið skylda til að svara erindinu á grundvelli 41. gr. siðareglnanna.

Í öðru lagi er til þess að líta að viðtakendur tölvubréfs kæranda frá 8. maí 2020 voru þau D og E en fyrir liggur að kærði fékk jafnframt afrit af því. Með hliðsjón af því sem og efni tölvubréfsins að öðru leyti, sem er að nokkru lýst í málsatvikalýsingu að framan, telur nefndin einsýnt að erindið sem slíkt hafi ekki lagt sérstaka skyldu á kærða, á grundvelli fyrrgreindra reglna í siðareglum lögmanna, til svara eða viðbragða að öðru leyti gagnvart kæranda. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda vegna þess efnis.

Í þriðja lagi liggja fyrir tölvubréf sem kærandi beindi til kærða dagana 29. maí og 4. júní 2020. Lýsti kærandi því í hinu fyrrgreinda tölvubréfi að hann hefði ítrekað reynt að ná í kærða sem hafi engu svarað. Vísaði hann jafnframt til þess að hann hefði málflutningsumboð frá D og E vegna reksturs héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/xxxx. Óskaði kærandi eftir svörum frá kærða um það hvaðan hann hefði málflutningsumboð í málinu sem og eftir gögnum þar að lútandi. Þá tiltók kærandi í hinu síðargreinda tölvubréfi að vegna svarleysis kærða hefði hann ákveðið að hann sjálfur eða fulltrúi hans myndu flytja viðkomandi mál fyrir héraðsdómi.

Af efni tölvubréfanna liggur fyrir að þeim var beint til kærða vegna aðkomu hans að hagsmunagæslu í þágu D og E við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/xxxx. Samkvæmt því var erindunum beint til kærða vegna lögmannsstarfa hans, sbr. 41. gr. siðareglna lögmanna. Með hliðsjón af efni tölvubréfanna, fyrri aðkomu kæranda að hagsmunagæslu í þágu viðkomandi aðila við rekstur héraðsdómsmálsins og því samkomulagi sem gert hafði verið þann 26. nóvember 2012 og tók meðal annars til þóknunar kæranda mátti kærða vera ljóst að það gat varðað kæranda að fá upplýsingar um þá þætti sem erindi hans tóku til.

Einnig er til þess að líta að siðareglur lögmanna leggja þær skyldur á lögmenn að hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings, sbr. 25. gr. siðareglnanna. Í þessu efni felst að lögmenn verða að geta átt í milliliðalausum samskiptum sín í milli vegna þeirra mála sem þeir annast í sínum lögmannsstörfum þar sem gagnkvæm virðing og tillitssemi er jafnframt höfð að leiðarljósi þótt andstæðra hagsmuna eða sjónarmiða sé gætt. Breytir engu um þessar skyldur lögmanna þótt þeir kunni að eiga í innbyrðis deilum sín í milli líkt og á við í tilviki kæranda og kærða svo sem málsgögn bera skýrlega með sér. Með hliðsjón af því verður ekki talið að lögmaður geti sneitt hjá samskiptum við annan lögmann, sem varða lögmannsstörf viðkomandi, með því að setja öll tölvubréf viðkomandi í „ruslpósthólf“ líkt og kærði kveðst hafa gert vegna erinda kæranda og annarra aðila á lögmannsstofu hans.

Fyrir liggur að kærði lét undir höfuð leggjast að svara fyrrgreindum erindum kæranda frá dagana 29. maí og 4. júní 2020. Með hliðsjón af því sem áður greinir verður að telja að samrýmst hefði góðum lögmannsháttum að svara erindunum, sbr. 25. og 41. gr. siðareglna lögmanna. Þá verður og að leggja til grundvallar að hafi kærða talið sér óskylt að svara erindum og fyrirspurnum kæranda á þeim grundvelli að hagsmunagæslu hins síðargreinda í þágu D og E væri lokið, þar á meðal vegna reksturs héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/xxxx, hafi sú skylda hvílt á honum eftir sem áður að upplýsa kæranda um það efni með svari við fyrrgreindum erindum og fyrirspurnum kæranda.

Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að sú háttsemi kærða að svara ekki erindum kæranda, dags. 29. maí og 4. júní 2020, hafi verið í andstöðu við 25. og 41. gr. siðareglna lögmanna og aðfinnsluverð. Á hinn bóginn verður hvorki talið að háttsemin hafi verið slík að í henni hafi falist brot gegn 1. eða 2. gr. siðareglna lögmanna né að grófleiki hennar hafi verið með þeim hætti, með hliðsjón af atvikum öllum, að rétt sé að leggja til að kærði verið sviptur lögmannsréttindum eða að hann sæti áminningu, líkt og kröfugerð kæranda tekur til.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kvörtun kæranda, A lögmanns, er lýtur að ætluðum brotum kærða, B lögmanns, gegn 28. gr. siðareglna lögmanna annars vegar og hins vegar í tengslum við ætlað hirðu- og samskiptaleysi vegna málefna L, er vísað frá nefndinni.  

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að svara ekki erindum kæranda, A lögmanns, dags. 29. maí og 4. júní 2020, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Helgi Birgisson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson