Mál 33 2020

Mál 33/2020

Ár 2021, föstudaginn 30. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2020:

A

gegn

B lögmanni og C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. desember 2020 erindi A, en af því verður helst ráðið að það varði ágreining um skil á innheimtufé vegna kærðu B og C lögmanna.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 11. desember 2020 barst hún þann 28. janúar 2021. Kæranda var send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi dags. 1. febrúar 2021. Var tiltekið í bréfinu að ef engar athugasemdir yrðu gerðar innan þar tilgreinds frests væri þess að vænta að málið yrði tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsins og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni veitti kærandi, fyrir eigin hönd auk tveggja nánar tilgreindra einkahlutafélaga, kærðu og lögmannsstofu þeirra umboð þann 7. janúar 2020 til að móttaka fjármuni sem úthlutað yrði vegna handahafaskuldabréfa í tengslum við nauðungarsölu á 12 tilgreindum eignarhlutum í fasteigninni að D í E. Var jafnframt tiltekið í umboðinu að þess væri óskað að embætti sýslumanns myndi greiða hina innheimtu fjárhæð inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærðu. Meðal málsgagna er óundirritað eintak umboðsins en ekki er ágreiningur um að það hafi verið veitt samkvæmt því efni sem það tekur til.

Ágreiningslaust er einnig í málinu að aðilar gerðu með sér samkomulag þennan sama dag, 7. janúar 2020, þar sem mælt var fyrir um þau verkefni sem lögmannsstofa kærðu tæki að sér í þágu kæranda og þriggja félaga á hans vegum. Var því meðal annars lýst í samkomulaginu að lögmannsstofa kærðu tæki að sér að aðstoða vegna nauðungarsölumeðferða á eignum viðkomandi félaga, semja við kröfuhafa, tryggja hagsmuni kæranda varðandi veðskuldabréf og móttaka söluandvirði við úthlutun. Um þóknun var eftirfarandi tiltekið í samkomulaginu:

Aðilar hafa komist að bindandi samkomulagi um að lögmannsstofan fái greidda þóknun fyrir vinnu sína sem nemur 10% af heildarfjárhæð þeirri sem kemur í hlut ofangreindra félaga eða þess aðila sem þau vísa til. Þóknun skal þó aldrei vera lægri en sem nemur almennu tímagjaldi útseldrar vinnu lögmannsstofunnar, en tímagjaldið er kr. 28.000 auk lögmælts virðisaukaskatts.

Kærandi hefur lagt fyrir nefndina afrit af 12 frumvörpum að úthlutunargerðum á söluverði nánar tilgreindra fasteigna að D í E sem embætti sýslumanns gaf út þann x. janúar 2020. Reisir kærandi málatilbúnað sinn á því fyrir nefndinni að samkvæmt þeim úthlutunargerðum hafi lögmannstofa kærðu móttekið fjármuni í hans þágu að fjárhæð 34.764.485 krónur. Kærðu hafi á hinn bóginn aðeins skilað af því innheimtufé 27.220.000 krónum þrátt fyrir að þóknun til þeirra hafi numið 3.491.588 krónum. Samkvæmt því séu ógreiddar eftirstöðvar af innheimtufé til kæranda, sem kærðu hafi í vörslum sínum, að fjárhæð 4.052.897 krónur.

Um þetta efni hafa kærðu á hinn bóginn bent á að útreikningur kæranda sé rangur. Þannig hafi kærandi ekki tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts á þóknun, að fjárhæð 834.348 krónur, auk þess sem kærandi hafi vantalið skil á innheimtufé að fjárhæð 820.000 krónur en sú fjárhæð hafi verið innt af hendi þann 7. september 2020. Samkvæmt því séu eftirstöðvar vegna þessa máls að fjárhæð 2.413.689 krónur.

Kærðu hafa jafnframt vísað til þess í málinu að lögmannsstofa þeirra hafi tekið að sér ýmis önnur mál í þágu kæranda og félaga honum tengdum á árinu 2020. Hafi þau verkefni meðal annars verið unnin samkvæmt umboði, dags. 27. janúar 2020, sem liggur fyrir undirritað meðal málsgagna. Samkvæmt efni sínu tók það umboð til kæranda og sjö nánar tilgreindra einkahlutafélaga en með því var kærðu veitt umboð til að annast öll málefni varðandi eignir viðkomandi aðila, þar á meðal til að leita tilboða í þær, annast sölu þeirra, hagsmunagæslu og móttaka fjármuni.

Hafa kærðu lýst því nánar fyrir nefndinni í hverju viðkomandi hagsmunagæsla í þágu kæranda og tengdra aðila fólst á árinu 2020. Jafnframt því hafa kærðu lýst því að viðkomandi hagsmunagæsla standi enn og að málum og uppgjöri milli aðila sé því ólokið. Hafa kærðu um það efni meðal annars vísað til tímaskýrslu, sem er meðal málsgagna fyrir nefndinni, sem tiltekur alls 63,45 vinnustundir á árinu 2020 vegna umræddra verka. Sé ógreidd þóknun að þessu leyti að fjárhæð 2.202.984 krónur.

Ekki verður séð af málsgögnum að aðilar hafi átt í sérstökum samskiptum í undanfara þess að kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar.

II.

Af málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni verður helst ráðið að þess sé krafist að áskilið endurgjald vegna lögmannsstarfa kærðu sæti lækkun og að kærðu verði gert að skila til kæranda eftirstöðvum af innheimtufé að fjárhæð 4.052.897 krónur.

Kærandi vísar til þess fyrir nefndinni að hann hafi skrifað undir samning við lögmannsstofu kærðu þann 7. janúar 2020. Samkvæmt samningnum hafi kærðu tekið að sér að innheimta handhafaskuldabréf að fjárhæð 34.764.485 krónur og móttaka fjármuni því tengdu frá embætti sýslumanns vegna söluandvirðis við nauðungarsölu nánar tilgreindra fasteigna að D í E.

Kærandi vísar til þess að að lögmannsstofa kærðu hafi móttekið á sinn fjárvörslureikning greiðslur samkvæmt úthlutunargerðum sýslumanns á söluverði viðkomandi fasteigna. Á hinn bóginn hafi kærðu aðeins staðið kæranda skil á hluta þeirra greiðslna er þeir hafi móttekið, þ.e. nánar tiltekið 3.600.000 krónur og 10.000.000 króna dagana 7. og 30. apríl 2020, 12.800.000 krónur þann 7. maí 2020 og 820.000 krónur þann 7. september sama ár. Samtals hafi kærðu þannig staðið skil á 27.220.000 krónum til kæranda vegna viðkomandi úthlutunargerða.

Kærandi vísar til þess að þóknun til kærðu hafi verið að fjárhæð 3.491.588 krónur. Samkvæmt því séu ógreiddar eftirstöðvar að fjárhæð 4.052.897 krónur sem kærðu hafi ekki skilað til kæranda.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærðu fyrir nefndinni þannig að þeir krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað í málinu.

Kærðu vísa til þess að þeir telji sig ekki hafa verið í neinum deilum við kæranda enda sé vinna í hans málum og uppgjöri ólokið. Er tiltekið að kærandi hafi lýst því yfir að hann muni afturkalla kvörtun sína til nefndarinnar. Mál sem lögmannsstofa kærðu hafi tekið að sér í þágu kæranda og félaga tengd honum séu miklu fleiri og umfangsmeiri en kvörtun taki til. Hafi þjónusta lögmannsstofunnar þannig annars vegar byggt á samningi vegna umræddrar nauðungarsölu, dags. 7. janúar 2020, sem kærandi vísi til og hins vegar til fjölmargra annarra verkefna sem hafi meðal annars verið unnin samkvæmt umboði, dags. 27. janúar 2020.

Varðandi nauðungarsölu að D í E vísa kærðu til þess að réttilega greini í kvörtun að samningur hafi verið undirritaður um lögfræðiþjónustu í tengslum við innheimtu samkvæmt handhafaveðbréfi, að verðmæti 34.764.485 krónur. Einnig sé það rétt sem fram komi í kvörtun um að fjármunir hafi verið greiddir inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærðu líkt og gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.

Kærðu benda hins vegar á að útreikningur sem kærandi reisi málatilbúnað sinn á sé rangur. Réttilega hafi verið tilgreint að innlagnir inn á fjárvörslureikning lögmannsstofunnar hafi numið 34.764.485 krónum sem ráðstafa hafi átt til kæranda í samræmi við óskir hans, að frádreginni þóknun. Hafi sérstakt samkomulag, dags. 7. janúar 2020, verði gert um 10% þóknun vegna nauðungarsölumeðferðar á eignum fjögurra félaga, þ.e. F ehf., G ehf., H ehf. og J ehf. Skyldi annars taka mið af gjaldskrá lögmannsstofu kærðu en þó ekki hærra tímagjaldi en 28.000 krónur auk virðisaukaskatts sem leggja hafi átt við þóknanir. Vísa kærðu til þess að í kvörtun sé greint frá því að 27.220.000 krónum hafi verið skilað til kæranda og að þóknun skyldi vera 3.491.588 krónur. Við þann útreikning hafi kærandi hins vegar ekki tekið tillit til virðisaukaskatts á þóknun að fjárhæð 834.348 krónur. Þá hafi kærandi ekki tiltekið greiðslu að fjárhæð 820.000 krónur þann 7. september 2020. Samkvæmt því séu eftirstöðvar vegna máls þessa að fjárhæð 2.413.689 krónur.

Kærðu vísa til þess að innheimta umræddra veðbréfa hafi aðeins verið hluti þeirrar þjónustu sem lögmannsstofa þeirra hafi tekið að sér í þágu kæranda og félaga á hans vegum. Um það hafi verið ritað umboð hinn 27. janúar 2020 sem falið hafi í sér að lögmannsstofan kæmi fram í málum kæranda og sjö félaga á hans vegum, þ.e. F ehf., G ehf., H ehf., J ehf., L ehf., M ehf. og N ehf. Síðar hafi bæst við félagið P ehf. Byggja kærðu á að um þóknun fyrir þá þjónsutu hafi átt að fara eftir gjaldskrá.

Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að um hafi verið ræða verkefni félaga sem átt hafi eignir en verið vanrækt um lengri tíma. Auk þess hafi verið um að ræða verkefni fyrir kæranda persónulega og hagsmunagæslu í tengslum við skipti á dánarbúi fyrrum maka hans, auk gamalla viðskipta við þriðja mann. Lýsa kærðu því nánar í 12 liðum í hverju vinna þeirra í þágu kæranda og tengdra félaga á árinu 2020 fólst.

Kærðu ítreka að uppgjöri vegna málefna kæranda og tengdra félaga sé ólokið. Samkvæmt tímaskýrslu hafi kærðu varið alls 63,45 klst. á árinu 2020 í vinnu við mál í þágu kæranda og tengdra félaga, þ.e. mál sem ótengd séu innheimtu fyrrgreindra handhafaskuldabréfa. Fyrir liggi gríðarlegt magn af gögnum í tengslum við þá hagsmunagæslu hjá kærðu. 

Niðurstaða

                                                                          I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá kemur fram í 1. mgr. 27. gr. laganna að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna.

Af kvörtun í málinu verður helst ráðið að ágreiningur lúti að ætluðum vanskilum kærðu og lögmannsstofu þeirra á innheimtufé til kæranda.

Í 2. mgr. 13. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum, er hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. siðareglnanna ber lögmanni án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er hann hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns. Ávallt er þó lögmanni rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar vegna þeirra mála, sem lögmaður hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing sinn á hverjum tíma, enda geri lögmaður skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði, sbr. 2. mgr. 14. gr. Þá er tiltekið í 3. mgr. 14. gr. siðareglnanna að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skuli vera greinargóð.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu og umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni að framan er ágreiningslaust að kærðu móttóku á fjárvörslureikning lögmannsstofu sinnar innheimtufé í þágu kæranda á árinu 2020 að fjárhæð 34.764.485 krónur. Lýtur ágreiningur að því hvort kærðu hafi staðið kæranda skil á því innheimtufé að fullu, að frádreginni lögmannsþóknun. Um þetta efni var því meðal annars lýst í athugasemdum kærðu til nefndarinnar vegna kvörtunar kæranda að hinn síðargreindi hefði vantalið skil á innheimtufé að fjárhæð 820.000 krónur jafnframt því sem kærandi hafi ekki lagt virðisaukaskatt á áskilda þóknun kærðu vegna viðkomandi starfa. Þá hafi kærandi í engu gert grein fyrir annarri vinnu kærðu í þágu hans og tengdra félaga samkvæmt umboði sem veitt hafi verið þann 27. janúar 2020. Sé ógreidd þóknun til handa kærðu vegna þeirra starfa að fjárhæð 2.202.984 krónur samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu.

Í 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er tiltekið að ef í máli séu sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál sé að öðru leyti ekki nægilega upplýst, geti nefndin vísað máli frá.

Kvörtun kæranda í máli þessu er fremur frábrotin þótt hún sé studd gögnum að nokkru leyti. Af málatilbúnaði kærðu verður hins vegar ráðið, svo sem að framan greinir, að ágreiningur sé um fjárhæð á skilum á viðkomandi innheimtufé til kæranda, að kærðu hafi innt af hendi frekari lögmannsþjónustu til kæranda og félaga á hans vegum á árinu 2020, að þeim málum sé enn ólokið og að uppgjör eigi eftir að fara fram á milli aðila. Er sá málatilbúnaður jafnframt studdur gögnum af hálfu kærðu.

Kærandi hefur kosið að svara í engu þeim athugasemdum sem kærðu hafa beint til nefndarinnar vegna kvörtunar málsins. Með hliðsjón af því, fyrirliggjandi málsgögnum og að teknu tilliti til heimildar þeirrar sem kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna, sem áður er lýst, er það mat nefndarinnar að málið sé svo vanreifað að úrskurður verður ekki lagður á sakarefni þess. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli 2. mgr. 10. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson