Mál 38 2021

Mál 38/2021

Ár 2022, fimmtudaginn 23. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2021:

A ehf., B ehf., C ehf. og D

gegn

E lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. nóvember 2021 erindi sóknaraðila A, B, C og D, en í því er lýst ágreiningi þeirra við varnaraðila, E lögmann, um fjárhæð endurgjalds vegna lögmannsstarfa samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 10. nóvember 2021 og barst hún þann 2. desember sama ár. Var sóknaraðilum send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 9. desember 2021. Hinn 31. mars 2022 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir sóknaraðila og voru þær sendar varnaraðila þann 4. næsta mánaðar. Svar varnaraðila barst 11. apríl 2022 og var það sent til lögmanns sóknaraðila með bréfi dags. 20. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að endurgjaldi vegna starfa varnaraðila og annarra starfsmanna á lögmannsstofunn F slf. í þágu sóknaraðila. Fyrir liggur að tilgreind hagsmunagæsla stóð yfir frá desembermánuði 2016 og til ársloka 2020 og að hún var viðvarandi á tilgreindu tímabili. Verður einnig ráðið af málsgögnum og málatilbúnaði aðila að reikningar vegna lögmannsstarfanna voru að jafnaði gefnir út mánaðarlega, í fyrsta sinn hinn 31. desember 2016, og að þeir voru samkvæmt fyrirmælum sóknaraðila ýmist gerðir á sóknaraðila A ehf., B ehf. eða C ehf.

Ekki er ágreiningur í málinu um að allir þeir reikningar sem lögmannsstofan gerði á grundvelli hagsmunagæslunnar á fyrrgreindu tímabili voru greiddir af hálfu sóknaraðila. Aðila greinir hins vegar á um hvort vinnuskýrslur hafi fylgt með útgefnum reikningum lögmannsstofunnar, en sóknaraðilar byggja á að svo hafi ekki verið á meðan varnaraðili hefur vísað til þess fyrir nefndinni að ítarlegar vinnuskýrslur hafi verið sendar sóknaraðilum með hverjum reikningi sem gefinn hafi verið út.

Fyrir liggur að meginþungi í vinnu varnaraðila og F slf. í þágu sóknaraðila laut að hagsmunagæslu við skipti á þrotabúi H ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta þann x. september 2016, og krafna búsins á hendur hluta sóknaraðila. Voru þannig rekin þrjú dómsmál vegna krafna þrotabúsins á hendur sóknaraðilum A ehf., D og B ehf., sbr. dóma Landsréttar x. og x. desember 20xx í málum nr. xxx/20xx og xxx/20xx og dóm Hæstaréttar x. október 20xx í máli nr. xx/20xx. Fór varnaraðili með mál tilgreindra sóknaraðila fyrir dómi, en ágreiningslaust er að hann var ábyrgðaraðili gagnvart sóknaraðilum á þeim verkefnum sem F slf. sinnti í þeirra þágu á fyrrgreindu tímabili þótt aðrir starfsmenn lögmannsstofunnar hafi einnig komið að vinnu í þágu sóknaraðila sem hafi verið reikningsfærð.

Varnaraðili hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að hann og aðrir starfsmenn F slf. hafi sinnt fjölmörgum öðrum verkefnum í þágu sóknaraðila á meðan réttarsamband aðila varði. Hefur sá málatilbúnaður og tilgreining varnaraðila á verkþáttum að þessu leyti, sem fá stoð í fyrirliggjandi vinnuskýrslum í málinu, ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila. Er þannig ágreiningslaust að sóknaraðilum var veitt umfangsmikil lögmannsþjónusta á því fjögurra ára tímabili sem um ræðir. Aðila greinir hins vegar á um hvort það endurgjald sem lögmannsstofan áskildi sér og fékk greitt frá sóknaraðilum fyrir þá þjónustu hafi verið óhóflegt.

Sóknaraðilar hafa vísað til þess í málatilbúnaði sínum um hið ætlaða óhóflega endurgjald að þeir hafi greitt alls x krónur til F slf. vegna viðkomandi hagsmunagæslu, að frádregnum x krónum sem dregnar hafi verið frá þóknuninni með kreditreikningum sem gerðir hafi verið þann 31. janúar 2021. Þá hafi útseldir tímar varnaraðila og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans numið 3.446 klukkustundum á því fjögurra ára tímabili sem um ræði.

Um þetta efni hefur varnaraðili hins vegar bent á að heildarfjárhæð þóknana til lögmannsstofu hans vegna vinnu í þágu sóknaraðila hafi numið x krónum, útlagður kostnaður hafi verið x krónur og virðisaukaskattur x króna. Sé framsetning sóknaraðila á fjárhæð endurgjalds því verulega villandi. Þá hafi sóknaraðilar fengið 5% afslátt af tímagjaldi varnaraðila frá öndverðu en sá afsláttur hafi verið hækkaður í 10% á árinu 2019.

Af málsgögnum verður ráðið að eftir lok réttarsambands aðila, þ.e. í janúarmánuði 2021, hafi þeir átt með sér fund þar sem farið var yfir þá verkþætti sem hagsmunagæslan hafði tekið til sem og það endurgjald sem áskilið hafði verið vegna hennar og var greitt á árunum 2017 – 2020. Hafa báðir aðilar lagt fyrir nefndina minnisblað varnaraðila um þetta efni, dags. 14. janúar 2021, sem lýsir meðal annars þeirri vinnu sem innt var af hendi og endurgjaldi vegna hennar.

Í framhaldi af þeim fundi og eftir viðræður aðila mun F slf. hafa veitt sóknaraðilum afslátt af því endurgjaldi sem þegar hafði verið greitt, alls að fjárhæð x króna. Liggja fyrir um þetta efni í málsgögnum kreditreikningar lögmannsstofunnar frá 31. janúar 2021 nr. BSK211004 og BSK211005, samtals að fjárhæð x krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, þ.e. vegna reikninga nr. BSR204292 og BSR204894 sem gefnir höfðu verið út á hendur sóknaraðila C ehf. dagana 30. september og 31. október 2020. Þá liggur fyrir reikningur lögmannsstofunnar nr. BSR211023 frá 31. janúar 2021 að fjárhæð x krónur með virðisaukaskatti sem gerður var vegna afstemmingar í tengslum við fyrrgreinda endurgreiðslu til sóknaraðila. 

Varðandi málsatvik eins og þau horfa við málsaðilum og gögn sem þeir reisa málatilbúnað sinn á vísast að öðru leyti til eftirfarandi kafla II. og III. þar sem gerð er grein fyrir málatilbúnaði aðila í málinu.

Líkt og áður greinir var ágreiningsmáli þessu um fjárhæð endurgjalds varnaraðila vegna starfa í þágu sóknaraðila beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var þann 8. nóvember 2021.

II.

Sóknaraðilar krefjast þess í málinu að áskilið endurgjald vegna starfa varnaraðila í þeirra þágu sæti verulegri lækkun. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að málið varði ágreining um fjárhæð endurgjalds sem varnaraðili og lögmannsstofa hans hafi áskilið sér vegna starfa í þeirra þágu. Byggja sóknaraðilar á að fjárhæð endurgjaldsins sé úr öllu hófi og í engu samræmi við þá vinnu sem eðlilegt hefði verið að inna af hendi vegna þeirra mála sem hagsmunagæslan hafi tekið til.

Vísað er til þess að varnaraðili og aðrir lögmenn á lögmannsstofu hans hafi unnið fyrir sóknaraðila á árunum 2017 til 2021. Hafi meðal annars verið um að ræða hagsmunagæslu vegna þriggja dómsmála, sbr. landsréttarmálin nr. xxx/20xx og nr. xx/20xx og hæstaréttarmálið nr. xx/20xx. Hafi umþrætt endurgjald verið vegna vinnu á viðkomandi dómstigi sem og á fyrri stigum. Þá hafi einnig verið um að ræða vinnu vegna annarra ágreiningsmála sem hafi öll verið sprottin af sömu rót, þ.e. vegna starfa skiptastjóra þrotabús H ehf. Benda sóknaraðilar á að störf varnaraðila og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans séu tilgreind í fyrirliggjandi tímaskýrslum.

Sóknaraðilar vísa til þess að uppgjör vegna vinnunnar hafi farið fram þann 31. janúar 2021 en þá hafi verið gefinn út kreditreikningur sem falið hafi í sér afslátt af heildarvinnu í málinu. Hafi mest af vinnunni vegna dómsmálanna verið skráð undir einu málsnúmeri, líkt og tímaskýrslur beri með sér.

Á það er bent að sóknaraðilar hafi greitt alls x krónur til lögmannsstofu varnaraðila vegna viðkomandi hagsmunagæslu, að frádregnum x krónum sem dregnar hafi verið frá þóknuninni með fyrrgreindum kreditreikningi frá 31. janúar 2021. Þá liggi fyrir að útseldir tímar varnaraðila og annarra lögmanna á lögmannsstofu hans hafi numið 3.446 klukkustundum.

Sóknaraðilar vísa til þess að eðlilegt sé að líta til dæmds málskostnaðar í fyrrgreindum málum til að fá hugmynd um hvert sé eðlilegt endurgjald fyrir störf varnaraðila. Gefi dæmdur málskostnaður til gagnaðila þannig hugmynd um hvað eðlilegt hefði verið að greiða til eigin lögmanns. Er á það bent að dæmdur málskostnaður í dómsmálunum þremur hafi alls numið x krónum. Þótt rétt sé að þar sé um að ræða málskostnað gagnaðilans gefi ekkert til kynna að munur á útlagðri vinnu milli málsaðila sé svo yfirgengilegur að eðlilegt sé að kostnaður sóknaraðila sé um tólffaldur á við kostnað gagnaðila þeirra.

Vísað er til þess að það fyrirkomulag hafi verið haft á við greiðslu reikninga að einn aðili greiddi reikninga vegna vinnu fyrir sóknaraðila A ehf., B ehf. og D hverju sinni. Hafi sóknaraðilar A ehf., B ehf. og C ehf. skipst á því að greiða reikninga vegna vinnunnar, en vísað er til þess að tilgreind félög séu öll í endanlegri eigu sóknaraðila D.

Á það er bent að alls 23 starfsmenn á lögmannsstofa varnaraðila hafi unnið við mál sóknaraðila, með tilheyrandi óhagræði. Hafi þannig hver og einn starfsmaður lögmannsstofunnar sem komið hafi að vinnu við málið þurft að byrja á að kynna sér gögnin í því. Hafi það fyrirkomulag verið viðhaft án samráðs við sóknaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar borið endanlega ábyrgð gagnvart sóknaraðilum á vinnu lögmannsstofunnar og annast hagsmunagæslu í þeirra þágu fyrir dómi. Sé ágreiningi í málinu því beint að varnaraðila sem ábyrgðaraðila gagnvart sóknaraðilum.

Varðandi kröfugerðina vísa sóknaraðilar til þess að þeir telji eðlilegt að hin umþrætta þóknun verði lækkað um 50% að lágmarki sem leiði þó til þess að hún verði töluvert hærri en tildæmdur málskostnaður hafi verið í dómsmálunum þremur.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila vegna málatilbúnaðar varnaraðila er vísað til þess að ekki sé gert lítið úr fjölda þeirra verkefna sem varnaraðili og samstarfsfólk hans hafi tekið á hendur sér fyrir sóknaraðila á því fjögurra ára tímabili sem um ræði, enda hafi allar tímaskýrslur verið lagðar fram í málinu. Sé krafa sóknaraðila hins vegar samt sem áður í samræmi við þá vinnu sem eðlilegt hafi verið að inna af hendi við þau verkefni sem fyrir hafi legið. Telji sóknaraðilar þannig meira en sanngjarnt að greiða um x króna fyrir vinnuna, líkt og málatilbúnaður þeirra sé reistur á.

Sóknaraðilar mótmæla frávísunarkröfu varnaraðila og krefjast þess að henni verði hafnað. Mótmæla sóknaraðilar því þannig í fyrsta lagi að ágreiningsefnið hafi verið lagt fyrir nefndina utan hins lögbundna tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Benda sóknaraðilar á að ágreiningur lúti að reikningum sem gefnir hafi verið út yfir langt tímabil og að hver þeirra hafi aðeins tekið til brots af þeirri heildarþóknun sem greidd hafi verið fyrir þjónustu varnaraðila og lögmannsstofu hans. Hafi fjárhæðin þannig safnast upp yfir langt tímabil.

Sóknaraðilar byggja á að það sé ekki líðandi að umbjóðandi þurfi að kvarta til nefndarinnar innan árs frá fyrsta reikningnum, svo dæmi sé tekið, þegar langt sé í það að hann fái vitneskju um hvað heildarþóknun fyrir málareksturinn verður mikil. Jafnframt mótmæla sóknaraðilar því að tímakýrslur hafi fylgt með öllum reikningum. Auk þess vísa sóknaraðilar til þess að lögmannsstofa varnaraðila hafi rekið mál fyrir þá á þeim tíma er reikningar voru gefnir út og að það hefði verið óviðeigandi og stofnað þeim málarekstri í hættu að leggja ágreiningsefni um þóknun fyrir nefndina á þeim tíma. Beri einnig að líta til útgáfu kreditreikninga í janúarmánuði 2021 sem endurspegli að þeir hafi verið hugsaðir sem hlutfall af þeirri vinnu sem þá hafði átt sér stað. Sé því ljóst að öll fjárhæð þóknunarinnar hafi þá verið til skoðunar og ákvörðunar af hálfu lögmannsstofu varnaraðila. Taki varnaraðili undir það efni enda noti hann hugtakið „afsláttur“ um tilgreinda kreditreikninga. Samkvæmt því sé ekki unnt að miða við fyrra tímamark en 31. janúar 2021 við mat á upphafi þess tímafrests sem lög nr. 77/1998 taki til.

Í öðru lagi mótmæla sóknaraðilar því að vísa beri málinu frá nefndinni á þeim grundvelli að verið sé að reka dómsmál um sömu kröfu. Vísa sóknaraðilar til þess að tilgreint dómsmál lúti að skaðabótakröfu vegna hinnar umþrættu þóknunar. Ekki sé verið að bera þóknunina undir dómstóla sem slíka, heldur lúti sakarefnið að því hveri eigi að bera ábyrgð á því tjóni sem sóknaraðili A ehf. varð fyrir vegna meðal annars riftunar á ráðstöfun fasteignar. Sé greidd þóknun til lögmannsstofu varnaraðila þar á meðal en grundvöllur bótakröfu á hendur lögmannsstofunni í dómsmálinu sé annar.

Sóknaraðilar ítreka að lögmannsstofa varnaraðila hafi ekki verið eina stofa sóknaraðila á viðkomandi tímabili. Þannig hafi félag í sömu samstæðu staðið í málarekstri sem aðrir lögmenn hafi annast hagsmunagæslu í. Hafi það mál verið rekið á fjórum dómstigum en þar hafi endurgjald vegna starfa lögmanna verið miklu lægra en sú þóknun sem greidd hafi verið til lögmannsstofu varnaraðila fyrir hæstaréttarmálið nr. xx/20xx. Vísa sóknaraðilar ennfremur til tveggja annarra mála til stuðnings því gríðarlega misræmis sem verið hafi á milli þóknunar greiddrar til lögmannsstofu varnaraðila annars vegar og til annarra lögmanna sem unnið hafi  fyrir sóknaraðila á sama tímabili hins vegar.

Að endingu benda sóknaraðilar á að þeir hafi gert athugasemdir við tímafjölda og fjárhæð í heild sinni, bæði fyrir og eftir að varnaraðili skilaði minnisblaði sínu um hagsmunagæsluna. Ítreka sóknaraðilar að þeir mótmæla því að ítarlegar tímaskýrslur hafi fylgt öllum reikningum.  

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess í báðum tilvikum að sóknaraðilum verði in solidum gert að greiða sér málskostnað að mati nefndarinnar.

Um málsatvik vísar varnaraðili til þess að F slf. hafi tekið að sér yfirgripsmikil lögmannsstörf fyrir sóknaraðila. Hafi sú þjónusta náð yfir fjögurra ára tímabil, þ.e. frá lokum desember 2016 og út árið 2020. Þá hafi varnaraðili verið í forsvari fyrir að veita þá þjónustu sem sóknaraðilum hafi verið látin í té af lögmannsstofunni en fleiri lögmenn hafi þó komið að vinnu við þau fjölmörg mál sem um hafi verið að ræða hverju sinni.

Vísað er til þess að heildarfjárhæð þóknana fyrir þetta tímabil hafi verið x krónur, útlagður kostnaður x krónur og virðisaukaskattur x króna. Bendir varnaraðili á að sóknaraðilar taki þetta allt saman í eina heildartölu til að gera hana stærri en ella og villi þar með sýn með því að segja að lögmannsþóknun hafi verið töluvert hærri en raun bar vitni.

Varnaraðili vísar til þess að vinna hans í þágu sóknaraðila hafi ekki eingöngu tekið til þriggja dómsmála. Þvert á móti hafi verið um að ræða mjög alhliða lögmannsþjónustu fyrir alla sóknaraðila á fjögurra ára tímabili, svo sem vinnuskýrslur beri með sér. Hafi verkefnin því verið fjölmörg og margbreytileg. Tilgreinir varnaraðili sérstaklega í málatilbúnaði sínum þau verkefni sem unnið var að á tímabilinu og vísar jafnframt um það efni til samantektar í minnisblaði frá 14. janúar 2021.

Vísað er til þess að sóknaraðilar hafi stofnað til samskipta við varnaraðila nánast daglega á stórum hluta af umræddu tímabili. Verði slíkt glögglega ráðið af fyrirliggjandi reikningum og tímaskýrslum. Bendir varnaraðili á að í framkvæmdinni hafi ítarlegar tímaskýrslur ávallt verið sendar með hverjum og einum reikningi sem gefnir hafi verið út mánaðarlega yfir fjögurra ára tímabil. Samkvæmt því hafi sóknaraðilum verið í lófa lagið að gera athugasemdir við einstakar færslur eða verkliði yfir tímabilið. Þá hafi ekki öll samskipti verið reikningsfærð.

Varnaraðili vísar til þess að í upphafi hafi sóknaraðilar notið 5% afsláttar af tímagjaldi varnaraðila samkvæmt gjaldskrá hverju sinni. Hafi verið samið um þann afslátt strax í janúar 2017. Þá hafi samstarfið þróast í ýmsar áttir og ráðgjöf varnaraðila og annarra lögmanna sem komið hafi að málinu verið yfirgripsmikil og tekið til ýmissa mála þótt meginþungi vinnunnar hafi tengst þrotabúi H ehf. Ekkert hafi komið sóknaraðilum á óvart hvað þetta varðar enda ráðgjöf ávallt veitt að þeirra beiðni hverju sinni og reikningsfært vegna hennar mánaðarlega.

Vegna málatilbúnaðar sóknaraðila um fjölda starfsmanna á lögmannsstofu varnaraðila sem komið hafi að málinu vísar varnaraðili til þess að fleiri en hann hafi komið að vinnu fyrir sóknaraðila. Hafi það verið að kröfu sóknaraðila og því ekki að þeim forspurðum, líkt og sóknaraðilar haldi ranglega fram. Hafi þannig bæði fulltrúar og aðrir starfsmenn lögmannsstofunnar iðulega verið í beinu sambandi við sóknaraðila D eða aðra forsvarsmenn sóknaraðila, setið fundi með þeim, sent tölvubréf og tekið símtöl. Ítrekar varnaraðili að alltaf hafi legið fyrir hverjir komu að vinnunni enda reikningsfært vegna hennar mánaðarlega frá 31. janúar 2017 og engar athugasemdir gerðar við það af hálfu sóknaraðila enda reikningar greiddir.

Varnaraðili vísar til þess að á árinu 2019 hafi fastur afsláttur sóknaraðila verið hækkaður í 10% af allri vinnu. Bendir varnaraðili einnig á að hann hafi fellt auk þess niður alls 273 klukkustundir af vinnu fyrir sóknaraðila, líkt og rakið sé í fyrirliggjandi minnisblaði.

Varnaraðili kveðst hafna öllum kröfum sóknaraðila. Standist það enda enga skoðun að ætla að veita sóknaraðilum slíkan afslátt sem kröfugerð þeirra taki til. Þá sé það með öllu haldlaust að ætla að draga ályktun af málskostnaðarákvörðun til gagnaðila um það hvað eigi að teljast réttmæt þóknun eigin lögmanns.

Varðandi aðalkröfu um frávísun málsins vísar varnaraðili til þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Bendir varnaraðili á að við mat á því hvenær kostur hafi verið á að koma á framfæri ágreiningsmáli um þóknun fyrir nefndinni verði að miða við útgáfudag reiknings fyrir þóknun hverju sinni, enda liggi þá fyrir bæði útgefinn reikningur fyrir þóknuninni og tímaskýrsla viðkomandi lögmanns. Ítrekar varnaraðili að á tilgreindu fjögurra ára tímabili hafi reikningur verið sendur mánaðarlega til sóknaraðila jafnframt því sem tímaskýrsla hafi fylgt í öllum tilvikum þar sem öll vinna hafi verið sundurliðuð. Mótmælir varnaraðili því jafnframt harðlega sem röngu að uppgjör vegna fjögurra ára vinnu hafi átt sér stað í janúar 2021. Byggir varnaraðili á að ekkert uppgjör hafi þá átt sér stað heldur vísi sóknaraðilar einungis til þessa tímamarks til að reyna að komast undan frestinum.

Varnaraðili vísar til þess að það eina sem átt hafi sér stað í janúar 2021 hafi verið að þá hafi nýlega verið lokið stærsta dómsmálinu sem vinna varnaraðila hafi lotið að. Í ljósi niðurstöðu þess hafi sóknaraðili D leitað logandi ljósi að leiðum til að lækka með afturvirkum hætti lögfræðikostnað sem hann hafði stofnað til á undanliðnum fjórum árum. Séu fullyrðingar sóknaraðila um uppgjör í janúar 2021 því alrangar, óstaðfestar auk þess sem þær fái engan stuðning í gögnum málsins.

Varnaraðili ítrekar að ágreiningurinn taki til endurgjalds vegna lögmannsstarfa á fjögurra ára tímabili. Hafi síðasti reikningur vegna vinnu varnaraðila verið gefinn út 30. nóvember 2020 í tengslum við beiðni um endurupptöku sem lögð hafi verið fram í desember sama ár. Varðandi reikning þann sem gefinn hafi verið út þann 31. janúar 2021 þá hafi hann verið gerður í tengslum við kreditfærslu og eftiráveittan afslátt en ekki vegna vinnu. Þá hafi hvorki verið reikningsfærð veruleg vinna í nóvember og desemer 2020 né heldur fyrir janúar 2021 eða síðar. Er á því byggt að ekki sé hægt að gera athugasemdir við þóknun sem engin var.

Vísað er til þess að nánast allir reikningar sem sóknaraðilar geri ágreining um hafi verið gefnir út fyrir 8. nóvember 2020, utan tveggja reikninga. Sé þar um að ræða reikning nr. BSR205144 sem gefinn var út þann 30. nóvember 2020 að fjárhæð x krónur og reikning nr. BSR211023 sem gefinn var út þann 31. janúar 2021 að fjárhæð x krónur. Ítrekar varnaraðili að síðari reikningurinn hafi verið afstemming vegna vinnu kærða í október 2020 og gerður í tengslum við eftirágefinn afslátt.

Varnaraðili vísar til þess að eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. xx/20xx hafi sóknaraðilar krafist þess að fá afslátt eftir á af heildarþóknun varnaraðila af fjögurra ára vinnu. Hafi krafan ekki verið sett fram vegna þess að athugasemdir væru gerðar við vinnuna, heldur hafi sóknaraðilum þótt rétt að lögmannsstofa varnaraðila tæki þátt í þeim kostnaði sem sóknaraðilar hefðu orðið fyrir vegna niðurstöðu Hæstaréttar. Varnaraðili hafi verið ósammála því enda allar tímaskriftir eðlilegar og afsláttur af allri vinnu þegar verið verulegar fyrir utan niðurfellingar á fjölda tíma í gegnum allt tímabilið. Er vísað til þess að eftir nokkrar viðræður hafi hins vegar farið svo að varnaraðili veitti afslátt, alfarið umfram skyldu, upp á x króna af vinnu.

Er vísað til þess að vegna þess samkomulags við sóknaraðila hafi lögmannsstofa varnaraðili gefið út tvo kreditreikninga þann 31. janúar 2021, sbr. reikninga nr. BSK211004 og BSK211005, samtals að fjárhæð x krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Útgefinn reikningur frá sama degi hafi hins vegar verið afstemming til að ná þeirri niðurstöðu sem samkomulag hafi orðið um. Vísar varnaraðili til þess að þetta hafi verið gert í þeirri viðleitni að taka þátt í því höggi sóknaraðila sem falist hafi í niðurstöðu Hæstaréttar en án viðurkenningar á því að þóknanir hefðu verið ofteknar enda slíkt fjarri lagi. Hafi þetta einnig verið gert þrátt fyrir að sóknaraðilar hefðu þegar greitt alla útgefna reikninga varnaraðila en samkvæmt því hafi verið um endurgreiðslu að ræða.

Varnaraðili vísar til þess að þrátt fyrir að komið hafi til fyrrgreindra kreditreikninga sé ljóst að sóknaraðilar hafi haft kost á að koma á framfæri ágreiningsmáli fyrir alla fyrri reikninga á fyrri stigum. Er ítrekað að það hafi ekki verið gert og verði ekki gert mörgum árum síðar líkt og sóknaraðilar reyni í þessu máli.

Í ljósi þess að nánast allir umþrættir reikningar voru gefnir út fyrir 8. nóvember 2020 byggir varnaraðili á að vísa beri málinu frá í heild sinni enda sé ótækt að leggja málið upp með þeim hætti sem sóknaraðilar geri. Þá sé tilgangur tímafrestsins skýr. Þannig sé það ekki vilji löggjafans að hægt sé að koma með kvörtun vegna reiknings sem er eldri en eins árs gamall.

Varðandi aðalkröfu um frávísun vísar varnaraðili hins vegar til þess að sóknaraðili A ehf. sé í dómsmáli vegna meints tjóns vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. xx/20xx. Hafi málið aðallega verið höfðað gegn J ehf. en til vara gegn F slf. Í því máli sé allur lögmannskostnaður talinn til tjóns og því hluti af dómkröfu í málinu. Bendir varnaraðili á að samkvæmt því séu sóknaraðilar að koma fram með sömu fjárkröfuna tvisvar á tveimur mismunandi stöðum. Beri nefndinni því einnig að vísa málinu frá í heild sinni á þeim forsendum.

Um þetta efni er jafnframt vísað til þess í viðbótarathugasemdum varnaraðila að sóknaraðilar B ehf. og C ehf. hafi framselt kröfur sínar á hendur F slf. til A ehf. Gerir varnaraðili athugasemd við að sóknaraðilar hafi ekki upplýst um þetta atriði fyrir nefndinni enda skorti framseljendum lögvarða hagsmuni til að kvarta yfir fjárhæð reikninga og krefjast endurgreiðslu þeirra í ljósi framsalsins.

Varðandi varakröfu varnaraðila um höfnun á kröfum sóknaraðila er á því byggt að einungis séu skilyrði fyrir því að tveir reikningar útgefnir af lögmannsstofu varnaraðili geti komið til efnislegrar meðferðar, þ.e. fyrrgreindir reikningar sem gefnir voru út í nóvember 2020 og janúar 2021. Bendir varnaraðili á að hann hafi gefið x króna afslátt af vinnu eftir á og hafi endurgreiðsla samkvæmt því numið margfaldri fjárhæð þessara tveggja reikninga. Hafi sóknaraðilar því fyrir löngu síðan fengið fullan afslátt fyrir þessa tvo reikninga og raunar margfalt meira en það.

Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt tímaskýrslu sem liggi til grundvallar reikningi nr. BSR205144 sé um að ræða útlagðan kostnað og 17.75 klukkustunda vinnu varnaraðila og eins fulltrúa. Hafi reikningurinn meðal annars tekið til þriggja funda utanhúss ásamt vinnu við endurupptökubeiðni, sbr. mál Endurupptökudómstóls nr. xx/20xx. Er vísað til þess að endurupptökubeiðnin hafi verið verulega umfangsmikil enda dómur Hæstarétttar í máli nr. xx/20xx í heild sinni umfangsmikill. Byggir kærði á að ekkert í tímaskýrslu gefi til kynna að umræddur reikningur hafi verið úr hófi. Þá hafi einungis brot af vinnu við gerð endurupptökubeiðni verið reikningsfærð en önnur vinna afskrifuð.

Hvað varðar síðari reikninginn, þ.e. reikning nr. BSR211023, þá ítrekar varnaraðili að þar hafi ekki verið um eiginlegan reikning að ræða vegna vinnu heldur hafi verið um að ræða afstemmingu vegna þess afsláttar sem veittur hafi verið sóknaraðilum eftir á í janúar 2021.

Varnaraðili vísar auk þess til þess að sóknaraðilar hafi notið 10% afsláttar frá gjaldskrá í samræmi við samkomulag eftir að hann hafði verið hækkaður úr 5% á árinu 2019. Séu engar forsendur fyrir veitingu frekari afsláttar í málinu.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila er því mótmælt að ekki hafi verið hægt að gera athugasemdir yfir allt ferlið þar sem hagsmunagæslan hafi þá staðið yfir. Ítrekar varnaraðili að um hver mánaðamót séu reikningar og tímaskýrslur sendar til viðskiptavina frá lögmannsstofu hans. Séu tímaskýrslur ekki skýrar komi oft á tíðum athugasemdir eða mótmæli. Í framhaldi þess eigi sér stað viðræður og málin leyst. Byggir varnaraðili á að ótrúverðugt sé að sóknaraðilar hafi ekki treyst sér til að kvarta undan útgefnum reikningum sem málið varðar.

Varnaraðili kveðst mótmæla harðlega athugasemdum sóknaraðila um efnisatriði, umfang lögfræðivinnu og kröfugerð þeirra í málinu. Áréttar varnaraðili að ekki hafi verið samið fyrirfram um heildarkostnað við málarekstur eða lögfræðivinnu fjögur ár fram í tímann. Því síður hafi verið samið um að það yrði sest niður í framtíðinni til að semja eftir á um afslátt. Þvert á móti hafi verið samið í öndverðu um afslátt af tímagjaldi samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu varnaraðila á hverjum tíma. Eftir sitji einungis það atriði að meta hvort fjöldi tíma hafi verið eðlilegur eða ekki út frá þeim rökum sem sóknaraðilar tefli fram. Byggir varnaraðili á að svo sé. Stoði þannig ekki fyrir sóknaraðila að henda út einhverri ákveðinni tölu, alveg út í loftið, án þess að fara yfir allar verkfærslur í fjögur ár.

Varnaraðili bendir á að hvergi hafi verið á því byggt að lögmannsstofa hans hafi verið eina stofan sem sóknaraðilar hefðu leitað til á því fjögurra ára tímabili sem málið varðar. Vísar varnaraðili til þess að honum hafi verið mjög vel kunnugt um marga aðra lögmenn sem komið hafi að vinnu fyrir sóknaraðila á umræddum tíma.

Málatilbúnaði sóknaraðila um að tímaskýrslur hafi ekki fylgt reikningum er mótmælt. Vísar varnaraðili til þess að allir reikningar frá varnaraðila, allt frá 31. janúar 2017 og eftir það, hafi verið sendir á viðkomandi sóknaraðila en þeim hafi ávallt fylgt ítarleg tímaskýrsla. Því til samræmis hafi allir reikningar verið greiddir, umorða- og athugasemdalaust. Bendir varnaraðili á að það hefði tæplega verið gert nema reikningarnir hefðu verið mótteknir.

Niðurstaða

                                                                          I.

Varnaraðili hefur aðallega krafist þess í málinu að því verði vísað frá nefndinni á grundvelli þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Samkvæmt þeirri kröfugerð þarf að mati nefndarinnar í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins.

Í 1. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sína eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá er tiltekið í 2. málsl. að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmáli um endurgjald frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Fyrir liggur að varnaraðili og lögmannsstofa hans önnuðust hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila um fjögurra ára skeið, þ.e. frá desembermánuði 2016 til ársloka 2020. Af fyrirliggjandi gögnum verður einnig ráðið að hagsmunagæslan var bæði umfangsmikil og viðvarandi allt tímabilið. Þá er ágreiningslaust að reikningar vegna starfa varnaraðila og annarra starfsmanna á lögmannsstofu hans voru að jafnaði gefnir út í lok hvers mánaðar, í fyrsta sinn hinn 31. desember 2016, ýmist á sóknaraðila B ehf., A ehf. eða C ehf.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina lýtur ágreiningur að heildarendurgjaldi sem lögmannsstofa varnaraðila áskildi sér og fékk greitt frá sóknaraðilum samkvæmt öllum þeim reikningum sem útgefnir voru á því fjögurra ára tímabili sem um ræðir. Samkvæmt því tekur ágreiningurinn til fjárhæða allra útgefinna reikninga.

Varnaraðili hefur á því byggt að allir reikningar sem sóknaraðili geri ágreining um hafi verið gefnir út fyrir 8. nóvember 2020, að tveimur reikningum frátöldum sem gefnir hafi verið út þann 30. nóvember 2020 og 31. janúar 2021, sbr. reikninga nr. BSR205144 og BSR211023. Þar sem málið hafi verið lagt fyrir nefndina með erindi sóknaraðila sem móttekið hafi verið þann 8. nóvember 2021 beri að vísa málinu frá nefndinni í heild sinni með vísan til þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 enda hafi endurgjald samkvæmt reikningum nr. BSR205144 og BSR211023 verið óverulegt.

Sóknaraðilar hafa hins vegar mótmælt tilgreindum málatilbúnaði og byggt á því að reikningar hafi verið gefnir út yfir langt tímabil og að hver þeirra hafi aðeins tekið til brots af þeirri heildarþóknun sem greidd hafi verið fyrir þjónustu varnaraðila. Sé það ólíðandi að umbjóðandi þurfi að leggja ágreiningsmál um endurgjald fyrir nefndina innan árs frá hverjum reikningi auk þess sem slíkt hefði í máli þessu teflt málarekstri sóknaraðila í hættu með hliðsjón af störfum varnaraðila í þeirra þágu á sama tímabili. Þá hafi uppgjör ekki átt sér stað fyrr en í janúarmánuði 2021 þegar kreditreikningar voru gerðir af hálfu lögmannsstofu varnaraðila og sóknaraðilum veittur afsláttur af áður greiddum reikningum að fjárhæð x króna.

Líkt og áður greinir liggur fyrir að reikningsgerð vegna hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila var almennt hagað með þeim hætti að reikningar voru gefnir út í lok hvers mánaðar af hálfu lögmannsstofu varnaraðila vegna veittrar lögmannsþjónustu í viðkomandi mánuði. Var tiltekið á hinum umþrættu reikningum að þeir tækju til þóknunar „fyrir lögfræðiþjónustu samkvæmt meðfylgjandi vinnulista“, en afrit þeirra sem sóknaraðilar hafa lagt fyrir nefndina bera með sér í ýmsum tilvikum hvenær þeir voru mótteknir auk þess sem þeir hafa verið áritaðir í einhverjum tilvikum um samþykki af hálfu viðkomandi sóknaraðila sem reikningur var stílaður á. Verður heldur ekki annað ráðið af málatilbúnaði aðila en að reikningarnir hafi í öllum tilvikum verið greiddir af hálfu sóknaraðila. Þá verður ekki ráðið af þeim skriflegu gögnum sem liggja fyrir nefndinni að sóknaraðilar hafi hreyft athugasemdum eða komið á framfæri mótmælum við varnaraðila um það endurgjald sem reikningarnir tóku til, þ.e. á meðan réttarsamband aðila varði.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan er ágreiningur á milli aðila um hvort lögmannsstofa varnaraðila hafi sent vinnuskýrslur að baki öllum reikningum til sóknaraðila við útgáfu þeirra. Eins og atvikum er háttað getur það efni ekki haft þýðingu við mat á upphafi hins lögbundna tímafrests til að leggja ágreiningsmál um endurgjald fyrir nefndina enda ljóst að sóknaraðilar móttóku hina umþættu reikninga, þar sem vísað var til „vinnulista“ til grundvallar þóknun í hverju tilviki, og hlutuðust til um greiðslu þeirra. Samkvæmt því verður að telja að mati nefndarinnar að sóknaraðilum hafi mátt vera ljóst af efni hinna umþrættu reikninga á hverju krafa um endurgjald vegna lögmannsþjónustu væri grundvölluð. Hafi sóknaraðilum því verið í lófa lagið að óska eftir vinnuskýrslum frá varnaraðila í kjölfar móttöku hinna umþrættu reikninga, þ.e. hafi þær ekki fylgt með reikningum við útgáfu þeirra.

Í samræmi við framangreint verður að telja að af efni hinna umþrættu reikninga hafi sóknaraðilum mátt vera ljóst hvaða endurgjald varnaraðili og lögmannsstofa hans áskildu sér vegna lögmannsþjónustu á hverju tímabili.  Samkvæmt því er að mati nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að sóknaraðilar hafi í kjölfar móttöku á hverjum reikningi átt þess kost að koma ágreiningsmáli um endurgjald samkvæmt þeim á framfæri við nefndina. Geti engu breytt í því samhengi þótt varnaraðili og lögmannsstofa hans hafi kosið að veita sóknaraðilum afslátt af áðurgreiddum reikningum í janúarmánuði 2021. Að áliti nefndarinnar voru því lögbundnir tímafrestir til að leggja ágreiningsmál um endurgjald samkvæmt reikningum sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út fyrir 8. nóvember 2020 liðnir er sóknaraðilar lögðu fram erindi sitt til nefndarinnar þann 8. nóvember 2021, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður því að vísa ágreiningsmáli sóknaraðila frá nefndinni að hluta með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir, þ.e. að því marki sem það lýtur að endurgjaldi samkvæmt reikningum lögmannsstofu varnaraðila sem gefnir voru út á hendur sóknaraðilum fyrir 8. nóvember 2020.

Að mati nefndarinnar eru hins vegar ekki skilyrði til að vísa frá nefndinni ágreiningi um endurgjald samkvæmt reikningum nr. BSR205144 og nr. BSR211023 sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila C ehf. dagana 30. nóvember 2020 og 31. janúar 2021. Verður sá afmarkaði ágreiningur því tekinn til efnismeðferðar í málinu.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Í samræmi við þá niðurstöðu sem greinir í I. kafla að framan verður að taka til sérstakrar skoðunar þá reikninga sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út í nóvember 2020 og janúar 2021 á sóknaraðila C ehf. og leggja mat á hvort hið umkrafða endurgjald samkvæmt þeim hafi verið hæfilegt að teknu tilliti til þeirra verkþátta sem þeir tóku til.

Kemur þannig annars vegar til skoðunar reikningur nr. BSR205144 sem útgefinn var þann 30. nóvember 2020. Í sundurliðun kom fram að um væri að ræða þóknun fyrir lögfræðiþjónustu samkvæmt vinnulista en reikningurinn var að fjárhæð x krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt vinnuskýrslu sem liggur fyrir nefndinni tók reikningurinn til vinnu í alls 17.75 klukkustundir í nóvembermánuði 2020, en þar af voru 8 vinnustundir skráðar á varnaraðila á tímagjaldinu 36.600 krónur auk virðisaukaskatts en 9.75 vinnustundir á fulltrúa varnaraðila á tímagjaldinu 24.600 krónur auk virðisaukaskatts. Verður jafnframt ráðið af reikningnum að veittur hafi verið 10% afsláttur af tímagjaldi lögmanna en sá afsláttur mun hafa verið í samræmi við það samkomulag sem komst á milli aðila á árinu 2019.

Tímaskýrsla að baki reikningnum ber með sér að varnaraðili hafi sótt þrjá fundi í mánuðinum í þágu sóknaraðila auk þess sem unnið hafi verið að endurupptökubeiðni í þágu sóknaraðila A ehf. vegna hæstaréttarmálsins nr. xx/20xx. Er tilgreind endurupptökubeiðni, dags. x. desember 20xx, á meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Að mati nefndarinnar verður ekki séð að tímafjöldi sem tilgreindur reikningur F slf. nr. BSR205144 á hendur sóknaraðila C ehf. tók til hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá vinnu sem innt var af hendi í mánuðinum og tímaskýrsla að baki honum tók til. Hafa sóknaraðilar heldur ekki í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni andmælt einstökum færslum í tímaskýrslu að baki viðkomandi reikningi né því að unnið hafi verið að þeim málum í mánuðinum í þeirra þágu sem tímaskýrslan tiltekur. Þá verður ekki talið að áskilið tímagjald varnaraðila eða fulltrúa hans hafi verið úr hófi, en það mun hafa verið í samræmi við gjaldskrá F slf. og þá framkvæmd sem gilt hafði í réttarsambandi aðila frá árslokum 2016. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu skilyrði til þess að lækka áskilda þóknun samkvæmt reikningnum. Felur sú niðurstaða í sér að þóknun sem F slf. áskildi sér vegna starfa í þágu sóknaraðila í nóvembermánuði 2020 var hæfileg.

Hins vegar kemur til skoðunar reikningur nr. BSR211023 sem útgefinn var þann 31. janúar 2021. Í sundurliðun kom fram að um væri að ræða þóknun fyrir lögfræðiþjónustu samkvæmt vinnulista en reikningurinn var að fjárhæð x krónur með virðisaukaskatti.

Svo sem rakið var í málsatvikalýsingu að framan var tilgreindur reikningur gefinn út vegna afstemmingar í tengslum við endurgreiðslu til sóknaraðila í janúarmánuði 2021 samkvæmt kreditreikningum nr. BSK211004 og BSK211005, þ.e. vegna reikninga nr. BSR204292 og BSR204894 sem gefnir höfðu verið út á hendur sóknaraðila C ehf. dagana 30. september og 31. október 2020 vegna lögmannsþjónustu í viðkomandi mánuðum. Hefur málatilbúnaður varnaraðila um þetta efni hvorki sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila, enda samræmist hann málsgögnum að öðru leyti, né hafa þeir viðhaft aðrar efnislegar mótbárur varðandi hinn útgefna reikning frá 31. janúar 2021. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að í reikningnum hafi falist óhóflegt endurgjald vegna starfa í þágu sóknaraðila. 

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða nefndarinnar að áskilin þóknun varnaraðila og F slf., samkvæmt reikningum nr. BSR205144 og nr. BSR211023 sem gefnir voru út á hendur sóknaraðila C ehf. dagana 30. nóvember 2020 og 31. janúar 2021, feli í sér hæfilegt endurgjald.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Ágreiningi um endurgjald vegna lögmannsstarfa varnaraðila, B lögmanns, í þágu sóknaraðila, A ehf., B ehf., C ehf. og D samkvæmt reikningum F slf. sem útgefnir voru fyrir 8. nóvember 2020, er vísað frá nefndinni

Áskilin þóknun varnaraðila og F slf., samkvæmt reikningum nr. BSR205144 og nr. BSR211023 sem gefnir voru út á hendur sóknaraðila C ehf. dagana 30. nóvember 2020 og 31. janúar 2021, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

___________________________

Valborg Þ. Snævarr, formaður

 

___________________________

Einar Gautur Steingrímsson

 

___________________________

Kristinn Bjarnason