Mál 11 2022

Mál 11/2022

Ár 2023, fimmtudaginn 26. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. mars 2022 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað er yfir því að varnaraðili, B lögmaður, með starfsstöð að […], hafi í störfum sínum brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi nefndarinnar til sóknaraðila, dags. 5. maí 2022, var óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum vegna kvörtunarinnar. Var brugðist við því erindi af hálfu sóknaraðila með bréfi, dags. 22. sama mánaðar, auk fylgigagna. Þá lét sóknaraðili nefndinni í té frekari skýringar og gögn þann 10. júní 2022.

Með bréfi nefndarinnar, dags. 31. ágúst 2022, var varnaraðili upplýstur um kvörtun sóknaraðila og fylgigögn að baki henni. Var því jafnframt lýst af hálfu nefndarinnar að á grundvelli fyrirliggjandi gagna og valdsviðs hennar samkvæmt V. kafla laga nr. 77/1998, væri litið svo á að kvörtun tæki annars vegar til verjendastarfa varnaraðila í þágu sóknaraðila á árinu 2021 og hins vegar til ætlaðra hagsmunaárekstra vegna hagsmunagæslu varnaraðila í þágu gagnaðila sóknaraðila vegna hjónaskilnaðar. Þá var varnaraðila veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar og barst hún til nefndarinnar þann 3. október 2022.

Sóknaraðila var send greinargerð varnaraðila til athugasemda með bréfi þann 4. október 2022. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Mál þetta er komið til vegna kvörtunar sóknaraðila í garð varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í samræmi við fyrrgreinda afmörkun tekur kvörtun annars vegar til verjendastarfa sem varnaraðili mun hafa sinnt á rannsóknarstigi og á grundvelli tilnefningar lögreglu í þágu sóknaraðila á árinu 2021. Af fyrirliggjandi tímaskýrslu varnaraðila, sem ekki hefur sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila og gerð var grein fyrir í bréfi varnaraðila til héraðssaksóknara dags. 12. nóvember 2021, verður ráðið að varnaraðili hafi tekið að sér þau störf í þágu sóknaraðila þann 29. janúar 2021 og sinnt þeim til 5. febrúar sama ár en þá var meðal annars eftirfarandi fært í tímaskýrsluna:

5 febrúar. Fundur með [A] að Hólmsheiði kl. 14- 15:30. Farið yfir málið með [A],     samið um lausn [B] frá skyldum verjanda þar til annar verjandi yrði skipaður. Undirritun yfirlýsingar. 3 klst.

Á meðal málsgagna er einnig að finna óundirritað afrit yfirlýsingar sóknaraðila, dags. 5. febrúar 2021, sem varnaraðili hefur vísað til að sóknaraðili hafi undirritað þennan dag. Er þar tiltekið að sóknaraðili samþykki tillögu varnaraðila um að veita honum lausn frá störfum og skyldum verjanda. Þá var tiltekin sú ósk sóknaraðila að C lögmaður yrði tilnefndur nýr verjandi hans.

Samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila sinnti hann ekki frekari verjendastörfum vegna undirliggjandi máls í þágu sóknaraðila eftir 5. febrúar 2021. Þá liggur fyrir að sóknaraðila var tilkynnt þann 29. október 2021 að rannsókn viðkomandi máls hefði verið hætt og var afrit þeirrar tilkynningar send til C lögmanns.

Kvörtun sóknaraðila um þetta efni byggir á að varnaraðili hafi í ýmsum atriðum brotið gegn starfsskyldum sínum við hagsmunagæslu og verjendastörf í þágu sóknaraðila. Auk þess að beina kvörtun til nefndarinnar bera málsgögn með sér að sóknaraðili hafi lagt fram lögreglukærur, dags. 8. mars og 6. apríl 2022, vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi varnaraðila.

Hins vegar lýtur kvörtun sóknaraðila að ætluðum hagsmunaárekstrum vegna hagsmunagæslu sem varnaraðili tók að sér og sinnti í þágu fyrrverandi eiginkonu sóknaraðila vegna hjónaskilnaðar hennar og sóknaraðila. Auk ætlaðra hagsmunaárekstra hefur sóknaraðili vísað til þess að háttsemi varnaraðila við þau störf hafi meðal annars brotið í bága við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hefur sóknaraðili um það efni einkum vísað til tölvubréfs sem varnaraðili sendi til lögmanns sóknaraðila þann 3. mars 2022, en þar var eftirfarandi tiltekið:

Það sem gerðist er að [A] tók 140.000 út af bankareikningi [D] í dag og í peningum. – Staðfesting banka er til staðar. Móðir [D] lagði enga peninga inn á reikning [A], það er misskilningur. – Ég mun ekki láta undan kröfum [A] og held áfram að vinna fyrir [D]. Mun athuga hvort til er upptaka af símtali sem staðfestir að hann samþykkti það, þótt hann vilji ekki viðurkenna það núna. – Þá kannast ég ekki við það síðasta að hann hafi falið mér að kæra eiginkonu sína til lögreglu. – Þá óska ég eftir að samskipti milli mín og [A] verði með þinni milligöngu.

Málsgögn bera með sér að sóknaraðili hafi einnig kært störf varnaraðila að þessu leyti til lögreglu, sbr. bréf þar að lútandi dags. 2. júní 2022.

II.

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í upphaflegu erindi sóknaraðila til nefndarinnar var um kvörtunarefni vísað til fimm þátta. Var þannig í fyrsta vísað til þess að varnaraðili hefði sagt ósatt um að sóknaraðili hefði gefið leyfi fyrir því að varnaraðili yrði lögmaður eiginkonu sóknaraðila. Í öðru lagi vísaði sóknaraðili til ætlaðrar yfirhylmingar og lygi varnaraðila um upphaf undirliggjandi sakamálarannsóknar gagnvart sóknaraðila. Í þriðja lagi vísaði sóknaraðili til þess að varnaraðili hefði vanrækt að sinna verjendastörfum í þágu sóknaraðila, þar á meðal með því að bregðast ekki við þegar upplýst hefði verið opinberlega um nafn og persónulega hagi sóknaraðila við rannsóknina. Í fjórða lagi var vísað til þess að varnaraðili hefði ekki mótmælt ólögmætum húsleitum sem gerðar hefðu verið á heimili sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili í fimmta lagi ekki hlutast til um að bætt yrði úr aðstæðum sóknaraðila á gæsluvarðahldstíma, en þær hafi stefnt lífi sóknaraðila í hættu.

Um málavexti að baki tilgreindum kvörtunarefnum hefur sóknaraðili vísað til þess að á vormánuðum 2021 hafi þáverandi eiginkona hans tilkynnt til lögreglu um ætlaða refsiverða háttsemi sóknaraðila. Kveðst sóknaraðili hafa verið handtekinn í kjölfarði af fullvopnuðum sérsveitarmönnum án þess að vita nokkuð um tilefni þeirra aðgerða. Vísar sóknaraðili til þess að á þeim tíma hafi hann verið illa haldinn af hjartabólgum auk þess að vera öryrki eftir alvarlegt vinnuslys á árinu 2002. Þrátt fyrir þær aðstæður hafi honum verið neitað um aðstoð lögfræðings og læknis í 24 klukkustundir auk þess að fá einungis vatn að drekka.

Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi að endingu fengið aðstoð frá varnaraðila sem tilnefndur hafi verið verjandi hans við rannsókn málsins. Sé varnaraðili kunningi fjölskyldu sóknaraðila. Lýsir sóknaraðili því að hann hafi í framhaldinu verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og vistaður í fangaklefa mikið kvalinn án þess að fá nokkra læknisaðstoð.

Vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi engar athugasemdir gert um ástand og aðbúnað sóknaraðila á gæsluvarðhaldstíma. Hafi þar verið um verulega vanrækslu að ræða. Kveðst sóknaraðili á síðari tíma rannsóknarinnar hafa áttað sig á að þáverandi eiginkona hans hafi borið á hann þær sakir sem hafi verið grundvöllur rannsóknar málsins og að varnaraðili hafi verið upplýstur um það. Þrátt fyrir að hafa þær upplýsingar undir höndum hafi varnaraðili ekkert aðhafst í þágu sóknaraðila við rannsókn málsins.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að varnaraðili hafi upplýst hann um á fundi að eiginkona hans vildi skilnað. Er því jafnframt lýst að varnaraðili hafi óskað eftir að vera lögmaður beggja aðila við hjónaskilnaðinn. Á það hafi sóknaraðili ekki fallist. Með háttseminni hafi varnaraðili haft í hyggju að ná sér í tvöfalt gjald úr hendi umbjóðenda enda hafi hann þekkt góða eignastöðu búsins. Er því lýst að í kjölfar þessa hafi varnaraðili farið fram með lygar og fengið nálgunarbann á sóknaraðila.

Varðandi störf í þágu gagnaðila vegna hjónaskilnaðar bendir sóknaraðili á að fyrir liggi tölvubréf sem varnaraðili sendi lögmanni sóknaraðila þann 3. mars 2022. Byggir sóknaraðili á að ljóst sé af tölvupóstinum að varnaraðili hafi haft einbeittan vilja til að brjóta lög. Haldi hann lögleysunni áfram og ljúgi til um símtal við sóknaraðila sem aldrei hafi átt sér stað. Með háttsemi sinni hafi varnaraðili einnig brotið almenn hegningarlög og persónuverndarlög enda hafi hann þvingað út úr bankastarfsfólki gögn sem varðað hafi bankareikning sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili ranglega þjófkennt sóknaraðila.

 

 

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega í málinu að kvörtun sóknaraðila verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum hans verði hafnað.

Varðandi verjendastörf í þágu sóknaraðila á árinu 2021 vísar varnaraðili til þess að kvörtun lúti að því að hann hafi ekki mótmælt við lögreglu tveimur húsleitum sem farið hafi fram í þágu rannsóknar viðkomandi máls sem hafi verið tilefni gæsluvarðhalds sóknaraðila og tilnefningar varnaraðila sem verjanda. Bendir varnaraðili á að húsleitirnar hafi farið fram án vitundar hans og að upplýsingar um þær hafi borist að þeim loknum og nokkrum dögum síðar. Samkvæmt því hafi varnaraðili ekki haft tök á að krefjast viðveru við húsleitina auk þess sem slíkt hefði engin áhrif haft á rannsóknina. Þá hafi húsleitirnar ekki skilað neinum árangri fyrir rannsókn málsins.

Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á að kvörtun sóknaraðila að þessu leyti sé of seint fram komin og beri því að vísa kvörtunarefninu frá, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Vísar varnaraðili til þess að kvörtun sóknaraðila í málinu hafi verið móttekin þann 21. mars 2022 en sóknaraðili hafi átt kost á að koma henni á framfæri innan frestsins, svo sem þegar þann 5. febrúar 2021 þegar samið hafi verið um lögmannaskipti fyrir sóknaraðila en þá hafi umþrættar húsleitir þegar farið fram.

Varnaraðili vísar í öðru lagi til framlagðrar tímaskýrslu vegna verjendastarfanna sem sýni að verulegur tími hafi farið í verkefnið og varnaraðili þannig lagt sig fram við að gæta hagsmuna sóknaraðila. Bendir varnaraðili aukinheldur á að vinna hans hafi skilað þeim árangri að rannsókn málsins gagnvart sóknaraðila var verið felld niður og málinu þar með lokið. Hafi nýr verjandi sóknaraðila ekki þurft að leggja nema óverulega vinnu í málið eftir skiptin þar sem sóknaraðila hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi aðeins fáeinum dögum eftir að hlutverki varnaraðila lauk.

Varðandi meinta hagsmunaárekstra vegna hagsmunagæslu í þágu eiginkonu sóknaraðila bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi engar skýringar gefið á því efni, þ.e. í hverju hagsmunaárekstrar hafi falist eða hvar þeir hafi legið. Sé krafan því vanreifuð og ekki tæk til umfjöllunar.

Varnaraðili vísar til þess að aðilar hafi þekkst í mörg ár, eða allt frá árinu 2000, og að samskipti þeirra hafi einkennst af gagnkvæmri virðingu og tengst fjölskyldu eiginkonu sóknaraðila. Sé kvörtun sóknaraðila, orðalag hennar, gífuryrði og ranghugmyndir ekki í neinu samræmi við fyrri samskipti sem hafi verið flekklaus. Lýsir varnaraðili því að honum hafi orðið ljóst í samskiptum við sóknaraðila vegna skilnaðarmálsins að hætta kynni að stafa af honum enda hafi hann sætt nálgunarbanni samkvæmt dómum og úrskurðum héraðsdóms og Landsréttar. Hafi sóknaraðili einnig viðhaft alvarlegar hótanir í garð varnaraðila á skiptafundi vegna skilnaðarmálsins.

Varnaraðili bendir á að hann hafi ekki haft á hendi nein störf eða verkefni fyrir sóknaraðila frá því að sóknaraðili veitti honum lausn frá verjendastöfum þann 5. febrúar 2021. Frá þeim tíma hafi varnaraðila verið frjálst að taka að sér verkefni fyrir aðra aðila þótt þau kynnu að varða sóknaraðila.

Vísað er til þess að með hugtakinu hagsmunaárekstur sé átt við þegar sami aðili, þ.e. lögmaður, er í aðstæðum á sama tíma þannig að hagsmunir eins eða fleiri umbjóðenda raskast og skaðist. Verkefni í þágu eins skerðir eða geti skert hagsmuni hins. Sé engum ætlandi að þjóna tveimur aðilum með gagnstæða hagsmuni svo vel fari,

Varnaraðili byggir á að þar sem hann gegni engum trúnaðarskyldum gagnvart sóknaraðila og búi ekki yfir neinum upplýsingum sem leynt skuli fara til hagsbóta fyrir gagnaðila séu engin efnisleg rök fyrir ásökunum um hagsmunaárekstur og beri því að hafna kröfum sóknaraðila. Vísar varnaraðili til þess að hann hafi spurt sóknaraðila í upphafi hvort hann mótmælti fyrirhuguðum lögmannsstörfum í þágu eiginkonu hans við skilnaðinn en sóknaraðili hafi svarað því skýrt og afdráttarlaust að sú hagsmunagæsla sætti engum athugasemdum. Lýsir varnaraðili því að engin skylda hafi hvílt á honum til að bera erindið undir sóknaraðila, en hann hafi engu að síður kosið að gera það vegna fyrri kynna.

Að endingu vísar varnaraðili til þess að kvörtun og fylgigögn beri með sér að sóknaraðili fari offari í grófum ásökunum þar sem jafnframt megi finna rangar og siðlausar ásakanir. Kveðst varnaraðili áskilja sér rétt til að fara fram með skaða- og ómerkingarkröfu síðar gagnvart sóknaraðila.

Niðurstaða

I.

Svo sem fyrr greinir lúta kvörtunarefni sóknaraðila í garð varnaraðila annars vegar að verjendastörfum sem varnaraðili sinnti í þágu sóknaraðila á árinu 2021. Hefur varnaraðili krafist þess að tilgreindu kvörtunarefni verði vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að það sé of seint fram komið.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Svo sem greinir í málsatvikalýsingu að framan bera gögn málsins með sér að varnaraðili hafi verið tilnefndur verjandi sóknaraðila við rannsókn málsins nr. […] og að hann hafi sinnt þeim störfum á tímabilinu frá 29. janúar til 5. febrúar 2021. Hefur varnaraðili vísað til þess í málatilbúnaði sínum að sóknaraðili hafi undirritað yfirlýsingu hinn síðastgreinda dag, en óundirritað afrit hennar er á meðal málsgagna fyrir nefndinni, þar sem hann hafi fallist á lausn varnaraðila frá störfum og að annar tilgreindur lögmaður yrði tilnefndur verjandi á rannsóknarstigi málsins. Þá liggur fyrir að þann 29. október 2021 var sóknaraðila tilkynnt um að rannsókn málsins hefði verið hætt og var afrit þeirrar tilkynningar send til þess lögmanns sem vísað hafði verið til í fyrrgreindri yfirlýsingu.

Sóknaraðili hefur hvorki andmælt málatilbunaði varnaraðila um atvik að þessu leyti né lagt fram gögn sem leiða annað í ljós. Með hliðsjón af því og málsgögnum að öðru leyti er að áliti nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að sóknaraðila hafi þegar í febrúarmánuði 2021 átt þess kom að koma kvörtunarefnum vegna verjendastarfa varnaraðila á framfæri við nefndina. Var lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina, vegna þeirra kvörtunarefna, því liðinn þegar kvörtun sóknaraðila í máli þessu var móttekin þann 21. mars 2022. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eru kvörtunaefni sem lúta að verjendastörfum varnaraðila of seint fram komin og sæta þau því frávísun frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

II.

Líkt og áður greinir getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að áður en lögmaður tekur að sér verk beri honum að vekja athygli þess sem til hans leitar ef hann telur einhverja hættu á að hagsmunirnir sem í húfi eru kunni að rekast á hagsmuni hans sjálfs, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda, eða að samsvarandi tormerki geti risið við rækslu starfans. Þá er tiltekið í 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður skuli varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku.

Það kvörtunarefni sem stendur eftir lýtur að því að hagsmunagæsla varnaraðila í þágu fyrrverandi eiginkonu sóknaraðila við hjónaskilnað þeirra hafi falið í sér hagsmunaárekstra vegna fyrri starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila. Þá er einnig á því byggt að háttsemi varnaraðila við þau störf hafi brotið í bága við lög, sbr. efni þess tölvubréfs sem varnaraðili sendi til lögmanns sóknaraðila þann 3. mars 2022 og tekið er upp í málsatvikalýsingu að framan.

Varðandi hina ætluðu hagsmunaárekstra, sem skilja verður að málatilbúnaður sóknaraðila sé reistur á, er þess að gæta að verjendastörfum varnaraðila í þágu sóknaraðila vegna rannsóknar málsins nr. […] var lokið er hann tók að sér hagsmunagæslu í þágu eiginkonu hans vegna skilnaðar þeirra. Verður þannig ekki ráðið af málsgögnum að varnaraðili hafi haft með höndum nokkra hagsmunagæslu í þágu varnaraðila, á grundvelli réttarsambands lögmanns og skjólstæðings, er hann tók að sér lögmannsstörf í þágu viðkomandi gagnaðila sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að sóknaraðili hafi á tilgreindum tíma verið skjólstæðingur varnaraðila í skilningi 11. gr. siðareglna lögmanna. Þá verður ekki talið, eins og atvikum er háttað, að fyrri verjendastörf varnaraðila í þágu sóknaraðila hafi girt fyrir að hann gæti tekið að sér hagsmunagæslu í þágu fyrrverandi eiginkonu sóknaraðila í skilnaðarmálinu, þ.e. hvorki á grundvelli 2. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 né 11. gr. siðareglnanna.

Varðandi umþrætt tölvubréf sem varnaraðili sendi til lögmanns sóknaraðila, dags. 3. mars 2022, er til þess að líta að varnaraðili gerði þar athugasemdir fyrir hönd umbjóðanda síns við að sóknaraðili hefði tekið fjármuni af bankareikningi umbjóðandans auk þess sem hann upplýsti að staðfesting banka væri til staðar um það efni. Verður hvorki ráðið af efni þessa tölvubréfs né málsgögnum að öðru leyti að varnaraðili hafi þvingað starfsmenn viðkomandi bankastofnunar til að láta af hendi gögn sem varðað hafi bankareikning sóknaraðila eða aðrar persónuupplýsingar um hann. Eins og málið liggur fyrir verður því ekki talið að sóknaraðili hafi leitt í ljós að varnaraðili hafi gert á hans hlut með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kvörtun sóknaraðila, A, er lýtur að verjendastörfum varnaraðila, B lögmanns, á árinu 2021 við rannsókn málsins nr. […], er vísað frá nefndinni.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Hulda Katrín Stefánsdóttir

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson