Mál 23 2022

Mál 23/2022

Ár 2023, þriðjudaginn 14. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. júní 2022 erindi […] lögmanns f.h. sóknaraðila, [A], sem lýtur að endurgjaldi sem varnaraðili, [B] lögmaður, með starfsstöð að Hlíðasmára […] áskildi sér vegna starfa í þágu sóknaraðila vegna slysamáls.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 24. júní 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir starf lögmanna eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Þann 24. ágúst 2022 skilaði varnaraðili inn greinargerð ásamt fylgiskjölum. Greinargerðin var send sóknaraðila til athugasemda með bréfi dags. 6. september 2022 og bárust viðbótarathugasemdir sóknaraðila þann 21. september 2022. Voru þær sendar varnaraðila til athugasemda með bréfi dagsettu 4. október 2022 og bárust viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 21. október 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Þann 24. desember 2019 lenti sóknaraðili í umferðarslysi þegar bifreið var ekið á miklum hraða á aðra bifreið sem sóknaraðili var farþegi í. Við áreksturinn varð sóknaraðili fyrir líkamstjóni og leitaði hann 30. desember 2019 til varnaraðila til að fara með hagsmunagæslu fyrir sína hönd vegna afleiðinga umferðarslyssins. Var sóknaraðili metinn til 10 stiga varanlegs miska og 10% varanlegrar örorku samkvæmt matsgerð dags. 3. nóvember 2021. Í kjölfarið gerði varnaraðili fyrir hönd sóknaraðila kröfu um bætur að fjárhæð samtals 12.659.511 kr. að viðbættri upphæð vegna innheimtuþóknunar lögmanns með virðisaukaskatti í samræmi við almennar reglur þar um eins og kröfubréfið var orðað. Tryggingafélagið féllst á að greiða 9.614.642 kr. í bætur ásamt vöxtum að fjárhæð 757.912 kr. og innheimtuþóknun lögmanns með virðisaukaskatti að fjárhæð 715.874 kr.

Þann 2. desember 2021 fór fram uppgjör milli sóknaraðila og varnaraðila þar sem tilgreint var að frádregin væri lögmannsþóknun til varnaraðila að fjárhæð 3.112.581 kr. með virðisaukaskatti sem sundurliðast með þeim hætti að 715.874 kr. komu frá tryggingafélaginu og 2.354.669 kr. voru dregnar frá bótum sóknaraðila. 

Síðar leitaði sóknaraðili til þess lögmanns sem ber kvörtun þessa undir nefndina fyrir hans hönd og kvað sig þá fyrst hafa orðið ljóst hve hátt endurgjald hann hafði greitt varnaraðila fyrir verkið. Í framhaldinu bar hann kvörtun þessa undir úrskurðarnefnd lögmanna.

II.

Sóknaraðili krefst þess að áskilin þóknun varnaraðila sæti lækkun á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðandi hans eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það geti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. gr. sömu laga.

Vísar sóknaraðili til þess að fyrir uppgjör og samninga um tjónabætur sé þóknun til lögmanns tjónþola almennt sú innheimtuþóknun sem greidd sé af tryggingafélagi að viðbættu 50-75% álagi. Samkvæmt því hefði heildarþóknun í þessu máli átt að vera á bilinu 1.073.811 kr. (715.874 x 1,5) til 1.252.780 kr. (715.874 x 1,75). Þá vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi hins vegar reiknað sér heildarþóknun að fjárhæð samtals 3.112.581 kr. sem sé um 148% hærri þóknun en rótgróin venja sé um í málum sem þessum. Þá kveður sóknaraðili að varnaraðili hafi upplýst sig um að þóknunin væri hefðbundin en sóknaraðili ekki áttað sig á því fyrr en síðar að svo væri ekki. Með vísan til þessa telur sóknaraðili að ekki sé um hæfilegt endurgjald að ræða til varnaraðila eins og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 áskilji.

Sóknaraðili vísar til þess að hann skrifaði undir umboð þann 30. desember 2019 til varnaraðila þar sem vísað var til þess að þóknun færi eftir gjaldskrá lögmannsstofu varnaraðila sem birt væri á heimasíðu hennar en þar stóð í 6. gr. að: „Í málum er snúa að innheimtu bóta vegna líkamstjóna greiðir umbj. tímagjald en þó að lágmarki 15% af bótafjárhæð auk virðisaukaskatts og þess lögmannskostnaðar sem greiddur er af bótaskyldu tryggingafélagi.“. Þóknun í málinu hafi aftur á móti verið gerð upp á grundvelli síðari gjaldskrár sem nú komi fram á nýrri heimasíðu varnaraðila þar sem segir að: „Í málum er snúa að innheimtu bóta greiðir umbj. tímagjald en þó að lágmarki 15% af umkrafinni eða greiddri bótafjárhæð, hvort heldur er hærra, auk virðisaukaskatts og þess lögmannskostnaðar sem greiddur er af bótaskyldum aðila.“

Sóknaraðili telur að í báðum gjaldskrám felist áskilnaður um ósanngjarnt endurgjald fyrir lögmannsstörf sem sé því óskuldbindandi fyrir hann sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Telur sóknaraðili það að taka 15% af bótafjárhæð að viðbættum virðisaukaskatti auk þóknunar frá tryggingafélagi feli í sér ósanngjarnt endurgjald fyrir lögmannsstörf sem bindi ekki sóknaraðila. Þá sé bersýnilega ósanngjarnt að mati sóknaraðila að bera fyrir sig ákvæði þar sem þóknun taki mið af fjárhæð kröfu en ekki greiddum bótum. Jafnframt bendir sóknaraðili á að það ákvæði hafi ekki verið í gildi þegar sóknaraðili skrifaði undir umboð til varnaraðila. Horfa verði til þess að sóknaraðili sé fæddur og uppalinn í Rúmeníu en flutti til Íslands árið 2014.

Þá vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna beri lögmanni að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum og vekja athygli hans á því ef ætla megi að kostnaður verði hár að tiltölu miðað við þá hagsmuni sem séu í húfi. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir því á hvaða grundvelli þóknun sé reiknuð en sú hafi ekki verið raunin í máli kæranda þar sem hann hafi talið að um hefðbundna þóknun væri að ræða og gjaldskránni verið breytt á meðan málið var í ferli.

Sóknaraðili vísar jafnframt til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga en samkvæmt því ákvæði megi víkja samningi til hliðar í heild eða hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Sóknaraðili telur það umboð sem hann undirritaði hjá varnaraðila vera ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju.

Að framanvirtu krefst sóknaraðili þess að áskilið endurgjald varnaraðila samkvæmt uppgjöri sæti lækkun og að sóknaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila 1.859.801 kr. sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Er þá þóknun miðað við 75% álag á þóknun tryggingafélagsins. Fái þá kærði að mati sóknaraðila sanngjarna og hæfilega þóknun í málinu að fjárhæð 1.252.780 kr. með virðisaukaskatti sem sundurliðast með þeim hætti að 715.874 kr. greiðist frá tryggingafélagi og 536.906 kr. greiðist frá sóknaraðila. Ef ekki verði fallist á þau viðmið um endurgjald er óskað þess að nefndin ákvarði hæfilega og sanngjarna þóknun í málinu.

Í viðbótarathugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili staðfesti í greinargerð sinni til nefndarinnar að hafa áskilið sér of háa þóknun við uppgjör málsins, þar sem ekki var miðað við gjaldskrá lögmannsstofu hans sem var í gildi þegar sóknaraðili undirritaði umboð til varnaraðila. Þá telji varnaraðili sig, að sögn sóknaraðila, hafa í kjölfarið endurgreitt sóknaraðila mismun þess sem hann telji sóknaraðila hafa átt að greiða samkvæmt þeirri gjaldskrá sem var í gildi þegar sóknaraðili leitaði fyrst til hans og þeirri gjaldskrá sem í gildi var við uppgjör. Að varnaraðili telji mismuninn þar á samsvara 382.363 kr.

Vísar sóknaraðili aftur til texta 6. gr. gjaldskrár stofu varnaraðila líkt og hún var birt á heimasíðu varnaraðila á þessum tíma. Bendir hann á að bótafjárhæð hafi verið að viðbættum vöxtum samtals 10.372.554 kr. Samkvæmt sóknaraðila hefði hann því átt að greiða 1.929.295 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti ásamt þóknun sem tryggingafélagið greiddi til varnaraðila,  757.912 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, eða samtals 2.687.207 kr.  Sóknaraðili hafi hins vegar greitt 3.112.581 kr. í þóknun sem sundurliðast með þeim hætti að 757.912 kr. komu frá tryggingafélaginu en 2.354.669 kr. voru dregnar af bótum sóknaraðila. Mismunurinn á því sé ekki 382.363 kr. líkt og varnaraðili haldi fram í greinargerð sinni heldur 425.374 kr. (2.354.669 – 1.929.295). Með hliðsjón af framangreindu meðal annars hafnar sóknaraðili því að enginn ágreiningur sé lengur til staðar sem snýr að endurgjaldi sóknaraðila til varnaraðila.

Þá vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili haldi því fram að kvörtun sem lúti að fjárhæð þess endurgjalds sem varnaraðili áskildi vegna starfa í þágu sóknaraðila á tímabilinu 30. desember 2019 til 2. desember 2021 vegna slysamáls, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sé of seint fram kominn með vísan til 26. gr. laganna. Þessu hafnar sóknaraðili alfarið. Þóknunin var tekin af bótum varnaraðila 2. desember 2021 og hafði sóknaraðili þar með frest til 2. desember 2022 til að leggja kvörtun sína fram.

Varðandi rök varnaraðila um að honum hafi verið að fullu heimilt að krefjast hagsmunatengdrar þóknunar vegna starfa sinna í þágu sóknaraðila tekur varnaraðili fram að engar athugasemdir hafi verið við það gerðar. Kvörtun sín snúi að því að sú hagsmunatengda þóknun sem varnaraðili áskildi sér geti ekki talist hæfilegt endurgjald eins og áskilið er í 24. gr. laga nr. 77/1998. Þá kveður sóknaraðili sig aldrei hafa haldið því fram að sú þóknun sem greidd var af tryggingafélaginu til varnaraðila hafi verið hluti af bótagreiðslunni til varnaraðila. Hins vegar kveður sóknaraðili varnaraðila vera að fá þóknun frá tryggingafélaginu fyrir að gæta hagsmuna sóknaraðila og ber varnaraðila að áliti sóknaraðila að horfa til þeirrar fjárhæðar við útreikning á hæfilegri þóknun vegna starfa sinna í þágu sóknaraðila.

Þá vísar sóknaraðili til þess að í greinargerð varnaraðila mótmæli hann harðlega að endurgjald sitt fyrir störf í þágu sóknaraðila hafi verið ósanngjarnt þar sem að endurgjaldið sem hann áskildi sér í upphafi hafi verið skýrlega tilgreint og engar athugasemdir við það gerðar. Bendir sóknaraðili á að í sömu málsgrein segi varnaraðili á hinn bóginn að „endurgjaldið hafi ekki verið rætt neitt sérstaklega af kærða og kæranda þann 30. desember 2019.“ Þarna sé að sögn sóknaraðila um mótsögn að ræða af hálfu varnaraðila og telur lögmaður sóknaraðila það vera í besta falli óljóst hvort þóknun varnaraðila hafi verið útskýrð fyrir sóknaraðila.

Jafnframt vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili telji það vera útilokað að ákvarða að eitthvað tiltekið hlutfall af bótum sé ósanngjarnt þegar ekki sé ljóst í upphafi hverjar bæturnar geti orðið. Sérstaklega vísar sóknaraðili til orða varnaraðila þar sem hann fjallar um að þegar tekið sé hlutfall af hugsanlegum bótum sem þóknun sé tekin áhætta með tjónþola sem geti falið í sér að lögmaður fái afar lítið eða ekkert greitt fyrir sína vinnu eða afar háar fjárhæðir greiddar, fái tjónþolinn miklar bætur. Þannig geti krónutalan ein og sér geti ekki falið það í sér að um sé að ræða ósanngjarnt endurgjald.

Bendir sóknaraðili á að hverju sem þessum rökum líður hafi varnaraðili áskilið sér þriðjung af bótunum í þóknun fyrir vinnu sína. Slíkt telst að mati sóknaraðila vera óhóflegt og ósanngjarnt endurgjald enda um að ræða verulega háa hlutfallslega og óvenjulega þóknun til varnaraðila. Þá skuli horfa til þess að ef tjónþoli fái háar bætur sé oft um að ræða alvarlegt slys sem hafi haft í för með sér miklar varanlegar afleiðingar fyrir tjónþola og í þessu máli sé í meginatriðum um að ræða bætur sem ætlað var að bæta tekjutap sóknaraðila til framtíðar.

Varðandi umfjöllun varnaraðila um að það væri fullkomlega óeðlilegt ef allir lögmenn krefðust sama gjalds fyrir vinnu, þá segir lögmaður sóknaraðila að taka megi undir það enda hafi lögmaður sóknaraðila engin gögn sem staðfesti hvað hefðbundið er í málum sem þessum, að frátöldum þeim málum sem komið hafi á hans borð af þeirri ástæðu að hann var beðinn um að yfirfara bótauppgjörið. Kveður lögmaður sóknaraðila sig aldrei hafa séð dæmi um að lögmaður tjónþola taki eins háa hlutfallslega þóknun og varnaraðili gerði í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Af þeirri reynslu byggi hann rök sín um hvað teljist vera hefðbundið í málum sem þessum. Sóknaraðili kveður sig hins vegar ósammála varnaraðila um að það sé fullkomlega eðlilegt að krefja tjónþola, sem býr við miska og varanlega örorku vegna slyss, um svo háa þóknun. Þá sé það líka þannig að sjónarmið um að rétt sé að innheimta þóknun af kröfu sem gerð er og næst ekki fram frekar en raunverulegri innheimtri fjárhæð bóta leiði öllum tilvikum til óeðlilegrar og ósanngjarnrar niðurstöðu við innheimtu skaðabóta vegna líkamstjóns.

Þá er bent á að í kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndarinnar hafi lögmaður sóknaraðila ekki verið að hvetja til samræmdrar verðlagningar á þjónustu lögmanna til tjónþola heldur að vekja athygli á þeirri þóknun sem varnaraðili tók í umræddu máli. Þá vísar sóknaraðili til þess að í greinargerð varnaraðila segi meðal annars að: „Þannig kunna sumir lögmenn eða lögmannsstofur að innheimta hærra gjald fyrir sína þjónustu en aðrir, sökum þess að þjónustan kann að vera umsvifameiri heldur en sú þjónusta sem aðrir bjóða upp á. Þá getur sérþekking og reynsla skipt miklu máli þegar það kemur að verðlagningu þjónustu.“. Með vísan til framangreinds áréttar sóknaraðili að í 4. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna segi að lögmaður skuli ekki taka að sér verkefni, sem hann viti eða megi vita að hann sé ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Þá hafnar sóknaraðili alfarið rökum varnaraðila um að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eigi við í málinu.

Hvað sjónarmið um samningsfrelsi varði vísar sóknaraðili til 36. gr. laga nr. 7/1936 en samkvæmt því ákvæði má víkja samningi til hliðar í heild eða hluta, eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Sóknaraðili telur umboð það sem hann undirritaði hjá varnaraðila vera ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, enda var mikill munur á samningsstöðu málsaðila við gerð umboðsins þann 30. desember 2019 og bendir sóknaraðili á að í greinargerð varnaraðila er vísað til þess að gjaldtaka hafi ekki verið rædd sérstaklega við sóknaraðila.

Byggir sóknaraðili á að ljóst sé að hvati lögmanns til að ná fram frekari bótum í máli verði takmarkaður ef gjaldskrá hans miðar við að fá þóknun sem samsvarar 15% af gerðri kröfu, en ekki bótafjárhæðinni sjálfri. Það er líka ljóst að sú aðferðarfræði kann að skila einkennilegri gjaldtöku að sögn sóknaraðila, þar sem að há bótakrafa, sem nær ekki fram að ganga nema að óverulegu leyti, getur skilað hárri þóknun, sem er þá ekki í neinu samræmi við árangur af vinnu lögmanns eða raunverulegum hagsmunum tjónþola og eða innheimtri bótafjárhæð. Slíka gjaldskrá kveður sóknaraðili enn í gildi hjá varnaraðila, sbr. það sem fram kemur á heimasíðu varnaraðila.

Ennfremur hafnar sóknaraðili málskostnaðarkröfu varnaraðila alfarið. Bendir sóknaraðili á að með kvörtun til úrskurðarnefndarinnar viðurkenndi varnaraðili að hafa tekið of háa þóknun í málinu. Kvörtun sóknaraðila var því réttmæt og reyndar nauðsynleg til að varnaraðili fengi endurgreiðslu af hálfu varnaraðila.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá en til vara að nefndin úrskurði að það endurgjald sem sóknaraðili greiddi vegna starfa varnaraðila sé eðlilegt í ljósi þess samnings sem aðilar gerðu með sér um störf varnaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að meðtöldum virðisaukaskatti, að mati nefndarinnar.

Mótmælir varnaraðili málavöxtum eins og þeim er lýst í kvörtun sóknaraðila sem röngum, ósönnum og villandi, að því leyti sem sú lýsing samrýmist ekki málavaxtalýsingu varnaraðila.

Varðandi kröfu sína um frávísun vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi undirritað umboð til varnaraðila þann 30. desember 2019 þar sem útlistað hafi verið að um endurgjald fyrir störf varnaraðila myndi gilda gjaldskrá lögmannsstofu þeirrar sem varnaraðili rak á þeim tíma nema um annað væri samið. Frá þeim tíma hafi starfsemi þeirrar lögmannsstofu verið hætt og varnaraðili hafið eigin rekstur á nýrri lögmannsstofu sinni. Sú verðskrá, sem í gildi var við undirritun umboðs var aðgengileg á fyrri vefsíðu varnaraðila og var hún að sögn varnaraðila kynnt fyrir sóknaraðila á ensku. Þar kom fram að: „Í málum er snúa að innheimtu bóta vegna líkamstjóna greiðir umbj. tímagjald en þó að lágmarki 15% af bótafjárhæð auk virðisaukaskatts og þess lögmannskostnaðar sem greiddur er af bótaskyldu tryggingarfélagi.“

Að sögn varnaraðila gerði sóknaraðili á því tímamarki engar athugasemdir við það hvernig þóknun skyldi reiknuð. Þá hafi sóknaraðili ekki á neinu tímamarki gert athugasemdir við útreikning þóknunar fyrir störf varnaraðila, fyrr en með bréfi til úrskurðarnefndar lögmanna. Af þeim sökum þykir varnaraðila rétt að gera grein fyrir því að samkvæmt 26. gr. l. nr. 77/1998 er gert ráð fyrir að hægt sé að skjóta ágreiningi um endurgjald fyrir störf lögmanna til úrskurðarnefndarinnar. Þegar skjólstæðingur lögmanns skjóti máli til nefndarinnar, án þess að hafa nokkurn tíma borið umkvörtunarefni sín fyrir viðkomandi lögmenn, er að mati varnaraðila ljóst að ekki liggi fyrir hvort ágreiningur sé í málinu. Af þeim sökum ætti að mati varnaraðila að vísa málinu frá, liggi ekki fyrir í upphafi að ágreiningur sé á milli aðila.

Telur varnaraðili að sóknaraðila hafi verið fært að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum sínum við gjaldskrá varnaraðila á þeim tíma. Þá vísar varnaraðili til þess að á meðal málsástæðna sóknaraðila sé að verðskrá varnaraðila hafi breyst frá því að gengið var til samninga á milli aðila og þar til greiddar voru út bætur. Hafnar varnaraðili því að honum sé ekki heimilt að breyta verðskrá sinni, en tekur hann undir það sjónarmið að óheppilegt sé að varnaraðili hafi ekki verið upplýstur um umrædda breytingu á verðskrá. Kveður varnaraðili allt að einu að í umboði því sem sóknaraðili skrifaði undir, hvar hann fól varnaraðila að starfa fyrir sig, sé sérstaklega tekið fram að um: „greiðslu þóknunar fari samkvæmt gjaldskrá [þáverandi lögmannsstofu varnaraðila] á hverjum tíma nema samið sé um annað.“. Þá vísar varnaraðili til þess að í 10. gr. verðskrár fyrirtækisins sem birt var á vef félagsins að: „Viðskiptavinir bera ábyrgð á því að kynna sér ákvæði verðskrár þessarar.“ Með öðrum orðum geri verðskráin og það umboð sem sóknaraðili undirritaði, ráð fyrir því að verðlagning stofunnar kunni að taka breytingum.

Kveður varnaraðili að þrátt fyrir það megi skilja afstöðu sóknaraðila, þess efnis að ósanngjarnt sé að bera fyrir sig nýja verðskrá. Þótt varnaraðili fallist ekki á afstöðu sóknaraðila hvað þetta varðar, tók varnaraðili þá ákvörðun að endurgreiða þann 22. ágúst 2022 sóknaraðila mismun þann sem leiddi til þess að hærri þóknun var tekin af bótum hans. Alls nam endurgreiðslan 382.363 kr. Þá voru greiddar 29.690 kr. sem jafnvirði dráttarvaxta frá 2. desember 2021 til 22. ágúst 2022, á mismuninum. Framangreindar upphæðir voru að sögn varnaraðila greiddar með fyrirvara og án þess að greiðslurnar fælu í sér nokkra viðurkenningu á því, að sóknaraðili hafi átt nokkra kröfu á hendur varnaraðila.

Af framangreindu telur varnaraðili leiða að ágreiningur er snúi að því endurgjaldi sem hann áskildi sér úr hendi sóknaraðila sé ekki lengur til úrlausnar fyrir nefndinni, að teknu tilliti til kröfugerðar sóknaraðila og því beri að vísa málinu frá nefndinni.

Þá byggir varnaraðili á því að framangreindu frátöldu, sé ljóst að sú þóknun sem hann áskildi sér úr hendi sóknaraðila hafi verið ákveðin í samningi þeirra á milli, sem undirritaður var 30. desember 2019. Sá tími sem sóknaraðili hafði til að bera málið undir úrskurðarnefnd lögmanna, hafi því verið um garð genginn þegar kvörtun var send þann 22. júní 2022. Byggir varnaraðili á því að það eitt, að endanlegt uppgjör hafi ekki farið fram á milli aðila fyrr en síðar, breyti engu um samning þann um endurgjald sem sóknaraðili vilji, ranglega að mati varnaraðila, meina að brjóti í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 24. gr. l. nr. 77/1998, sbr. einnig 36. gr. l. nr. 7/1936. Endurgjaldið var ákveðið þann 30. desember 2019 og það var frá og með þeim degi sem sóknaraðili gat gert athugasemd við þá þóknun sem samið var um. Með vísan til framangreinds telur varnaraðili að úrskurðarnefnd lögmanna sé annað ófært en að komast að þeirri niðurstöðu, að vísa máli þessu frá nefndinni.

Sé eigi á kröfu hans um frávísun fallist vísar varnaraðili til þess að í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um heimild lögmanna til þess að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín. Í ákvæðinu er sú skylda lögð á herðar lögmanni að upplýsa umbjóðendur sína um hvert endurgjaldið geti verið í heild sinni. Þá sé í 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna svo kveðið á um að lögmenn geti áskilið sér endurgjald sem er tengt niðurstöðu þess máls sem rekið er fyrir umbjóðandann; að endurgjaldið geti verið hærra ef mál vinnist en ef það tapast. Vísar varnaraðili til þess að þessi heimild eigi sér rætur að rekja til fyrirrennara lögmannalaga nr. 77/1998. Þá kveður varnaraðili Hæstarétt Íslands ekki hafa séð ástæðu til þess að fetta fingur út í hagsmunatengingu lögmanna í störfum þeirra, svo framarlega sem þeir veki athygli umbjóðenda sinna á því hvernig fyrirkomulagi gjaldtöku sé háttað. Í þeim efnum vísar varnaraðili til dóma Hæstaréttar nr. 222/1995 og 95/1993 sem lutu bæði að rétti lögmanna til endurgjalds fyrir sín störf í gildistíð laga nr. 61/1942 um málflytjendur. 

Með vísan til framangreinds byggir varnaraðili á því að hann hafi haft fulla heimild til að krefjast hagsmunatengdrar þóknunar vegna starfa sinna í þágu sóknaraðila. Beri að sögn varnaraðila einnig að hafa í huga að samkvæmt þeirri gjaldskrá varnaraðila sem í gildi var þegar sóknaraðili leitaði til hans, var ekki gert ráð fyrir því, að bæði yrði innheimt samkvæmt hagsmunatengingu og vegna þess tíma sem varið var í störfin, sbr. þá meginreglu sem fram komi í dómi Hæstaréttar nr. 423/1996. Þá kveður varnaraðili ljóst að margir lögmenn stilli upp gjaldskrám sínum með sambærilegum hætti og varnaraðili, þar sem þóknun er hagsmunatengd en þó aldrei lægri en sem nemur tímagjaldi og vísar varnaraðili í þeim efnum til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-3649/2016.

Kveður varnaraðili að af hálfu sóknaraðila virðist gæta misskilnings um útreikning þóknunar varnaraðila. Að heildarbætur greiddar til sóknaraðila frá tryggingafélaginu hafi numið 10.372.554 kr. með vöxtum. Varnaraðili hafi áskilið sér 15% þóknun af þeirri greiðslu, alls  1.555.883 kr. og þann innheimtukostnað sem tryggingarfélagið greiddi sérstaklega upp á 577.296 kr. Ofan á framangreindar upphæðir bættist svo virðisaukaskattur að fjárhæð samtals 439.690 kr. Samkvæmt því hafi heildar þóknun hans numið 2.133.179 kr. án virðisaukaskatts en 2.572.869 kr. með virðisaukaskatti. 

Þá vísar varnaraðili til þess að tjónþolar sem njóta ekki lögmannsaðstoðar við innheimtu bóta, fái ekki innheimtuþóknun greidda frá bótaskyldum tryggingafélögum. Það sé því að mati varnaraðila bæði rangt og villandi að gefa til kynna að sú innheimtuþóknun sem greidd var af tryggingafélaginu til sóknaraðila, hafi falið í sér hluta af bótagreiðslu til varnaraðila. Svo sé ekki enda hefði sú þóknun aldrei verið greidd til sóknaraðila ef hann hefði ekki notið lögmannsaðstoðar.

Þá bendir varnaraðili á að ein helsta málsástæða sóknaraðila er að endurgjald varnaraðila fyrir störf í þágu sóknaraðila hafi falið í sér ósanngjarnt endurgjald sem sé óskuldbindandi fyrir hann sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Þessu mótmælir varnaraðili harðlega, enda var endurgjald það sem hann áskildi sér fyrir störf sín í þágu varnaraðila skýrt tekið fram í upphafi og kynnt sóknaraðila, án þess að hann hafi gert við það athugasemdir með nokkrum hætti. Þá sé það ósatt sem fram komi í bréfi sóknaraðila dags. 22. júní 2022 að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila um að þóknunin væri hefðbundin. Hið rétta er að sögn varnaraðila að endurgjaldið hafi ekki verið rætt neitt sérstaklega af varnaraðila og sóknaraðila þann 30. desember 2019, utan þess að varnaraðili kynnti sóknaraðila endurgjaldið og sóknaraðili gerði engar athugasemdir við það. Því til staðfestingar vísar varnaraðili til umboðs þess sem sóknaraðili undirritaði á skrifstofu varnaraðila umræddan dag.

Þá bendir varnaraðili á að í sama bréfi sóknaraðila sé í niðurlagi meðal annars gert að umfjöllunarefni að sóknaraðili sé fæddur og uppalinn í Rúmeníu en flutt til Íslands árið 2014. Af þeim sökum bendir varnaraðili á að samskipti varnaraðila og sóknaraðila á umræddum fundi hafi verið á ensku og það umboð sem sóknaraðili undirritaði verið þýtt fyrir sóknaraðila orð fyrir orð, þannig að engin óvissa væri um hvað þar stæði. Þá var sóknaraðila kynnt gjaldskrá sú sem í gildi var á þessum tíma og hann ekki gert á nokkurn hátt neinar athugasemdir við hana eða hvernig endurgjald varnaraðila yrði ákvarðað fyrir störf hans. Vísar varnaraðili til þess að í umboði því, sem sóknaraðili undirritaði þann 30. desember 2019 segi að um greiðslu þóknunar fari samkvæmt gjaldskrá þáverandi lögmannsstofu varnaraðila á hverjum tíma, nema um annað sé samið.

Vísar varnaraðili til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi verið fjallað um hæfilegt endurgjald lögmanna í þágu skjólstæðinga. Til viðbótar við þá dóma sem fyrr séu nefndir vísar varnaraðili einnig til dóms nr. 447/2006 sem hann telur að megi túlka þannig að meginmáli skipti að endurgjaldið sé ákvarðað strax í upphafi þeirrar vinnu sem lögmenn taki að sér fyrir umbjóðendur sína. Kveður varnaraðili að í fyrirliggjandi máli hafi verðskrá varnaraðila verið kynnt fyrir sóknaraðila strax í upphafi, á tungumáli sem hann þekkti og skyldi. Á því tímamarki hafi engar athugasemdir komið fram frá sóknaraðila um það hvernig þóknunin væri reiknuð. Þá sé ljóst að sögn varnaraðili að sóknaraðili hafi engar athugasemdir gert við það, næstu 905 daga þar á eftir eða þar til þann 22. júní 2022, þegar sóknaraðili gerir það í formi kvörtunar til úrskurðarnefndar lögmanna.

Þá getur varnaraðili þess sérstaklega að sóknaraðili hafði áður fengið tækifæri til þess að gera athugasemdir við gjaldtöku, s.s. þegar bæturnar voru greiddar til hans. Það hafi hann ekki gert heldur ritað undir uppgjörsblað þar sem hann staðfesti að hann féllist á uppgjörið við varnaraðila „án nokkurra fyrirvara“ á tungumáli sem hann talar og skilur. Frá uppgjörinu liðu síðan 202 dagar áður en varnaraðili skaut málinu til úrskurðarnefndar.

Í ljósi framangreinds byggir varnaraðili á því að það endurgjald sem sóknaraðili greiddi varnaraðila fyrir störf sín, hafi uppfyllt skilyrði þess að um sé að ræða sanngjarnt endurgjald. Byggir varnaraðili á því að sé ekki á það fallist að endurgjaldið hafi verið sanngjarnt við uppgjör, þá hafi endurgjaldið, eins og það var gert upp þann 22. ágúst 2022 verið sanngjarnt. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi undirritað skjöl til staðfestingar á því að hann gerði ekki athugasemdir við gjaldtökuna í tvígang, bæði við upphaf hagsmunagæslunnar og við lok hennar. Þá ber að sögn varnaraðila að hafa í huga að hefðu bætur til sóknaraðila orðið litlar eða engar, hefði þóknun varnaraðila tekið hlutfallslegt mið af því. Það er að sögn varnaraðila útilokað að ákvarða að eitthvað tiltekið hlutfall af bótum sé ósanngjarnt, þegar ekki er ljóst í öndverðu hverjar bæturnar geta orðið. Þannig felst í því, þegar tekið er hlutfall af hugsanlegum bótum sem þóknun, að tekin er áhætta með tjónþola. Sú áhætta getur falið í sér að lögmaður fær afar lítið eða ekkert greitt fyrir vinnuna sína eða hann fær háa fjárhæð greidda, vegna þess að tjónþolinn fær miklar bætur. Það eitt að krónutalan sé há, getur að mati varnaraðila ekki eitt og sér falið það í sér að um sé að ræða ósanngjarnt endurgjald.

Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að endurgjaldið sem sóknaraðili greiddi varnaraðila sé hærra en rótgróin venja í málum sem þessum standi til um, sem ósönnuðu enda engum gögnum stutt að 15% þóknun af mögulega greiddum bótum sé langt frá því sem rótgróið er í slysamálum. Þá er að mati varnaraðila fullkomlega óeðlilegt ef allir lögmenn krefðust sama gjalds fyrir sína vinnu. Vísar varnaraðili í því samhengi til þess að á íslandi eru um 1.000 lögmenn með virk réttindi og að bróðurpartur þeirra eru sjálfstætt starfandi einyrkjar sem taki að sér mismunandi verkefni og sérhæfi sig á mismunandi sviðum. Sumir vinni fyrir fáa aðila, aðrir fyrir marga. Verðlagning einstakra lögmanna eða lögmannsstofa á sinni þjónustu hlýtur að sögn varnaraðila að taka mið af þeim þáttum sem hver og einn rekstraraðili telur nauðsynlega. Þannig kunni sumir lögmenn eða lögmannsstofur að innheimta hærra gjald fyrir sína þjónustu en aðrar, sökum þess að þjónustan kann að vera umsvifameiri heldur en sú þjónusta sem aðrir bjóði upp á. Þá geti sérþekking og reynsla skipt miklu máli þegar komi að verðlagningu þjónustu.

Kveður varnaraðili það að gefa til kynna að hefðbundið verð eigi að gilda á þeim markaði sem varnaraðili starfar á, sé ekki bara sérkennilegt heldur stórundarlegt. Telur varnaraðili það gefa til kynna að lögmenn eigi með einhverjum hætti að takmarka samkeppni sín á milli með samstilltri verðlagningu eða verðsamráði. Byggir varnaraðili á að það fæli augljóslega í sér samkeppnishömlur sem brjóti í bága við IV. kafla samkeppnislaga nr. 44/2005. Vísar varnaraðili í þessu samhengi til þess að lögmenn hafi áður reynt að stilla strengi sína saman í verðlagningu þegar Lögmannafélag Íslands lét útbúa sérstakan kostnaðargrunn sem átti að gagnast lögmönnum sem fyrirmynd við útreikning á tímagjaldi lögmannsstofa, sem talið var brjóta gegn 12. gr., sbr. 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 með ákvörðun samkeppnisráðs nr. 5/2004. 

Með vísan til þessa hafnar varnaraðili með öllu sjónarmiðum sóknaraðila um hefðbundna verðlagningu vegna þjónustu við tjónþola í slysamálum. Að mati varnaraðila er það að hvetja til samræmdrar verðlagningar á þjónustu lögmanna á Íslandi hið minnsta vafasamt.

Þá áréttar varnaraðili að málavöxtum eins og þeim er lýst af hálfu sóknaraðila sé af hans hálfu mótmælt sem röngum, ósönnum og villandi að því leyti sem sú lýsing samrýmist ekki málavaxtalýsingum varnaraðila.

Þá styður varnaraðili kröfuréttindi sín um endurgjald við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þannig verði varnaraðili ekki skyldaður til að láta af hendi þau réttindi sem honum tilheyra, nema ef almenningsþörf krefji og til þess þurfi að koma bæði lagafyrirmæli og fullt verð, eins og fram komi í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Kveður varnaraðili að eins og nefndarmönnum í úrskurðarnefnd lögmanna sé vel kunnugt um, þurfi hér að horfa til allra áður talinna sjónarmiða. Megi að mati varnaraðila draga í efa að 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 sé viðhlítandi lagagrundvöllur til þess að úrskurðarnefndin geti svipt þá sem lúta lögsögu nefndarinnar eignum sínum. Vísar varnaraðili til orðalags ákvæðisins og kveður ljóst af lestri þess að lagaheimildin nái ekki á nokkurn hátt til þess að úrskurðarnefndinni sé fært það vald í hendur að stíga inn í eignarréttindi lögmanna þannig að gilt sé gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé á engan hátt búið að uppfylla önnur þau skilyrði sem kveðið er á um í ákvæði stjórnarskrárinnar annars vegar hvað varðar að almenningsþörf krefji og hins vegar að fullt verð komi fyrir.

Þá segir varnaraðili það freistandi fyrir sóknaraðila að byggja rétt sinn á að fá úrskurð um endurgjaldið til varnaraðila á 1. tölul. 3. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndarinnar, hvar segir að hlutverk nefndarinnar sé að „fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð. Endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.“ Kveður varnaraðili að þrátt fyrir að ákvæði málsmeðferðarreglnanna sé að þessu leyti skýrt, sé ljóst að þær málsmeðferðarreglur sem nefndin setji sjálfri sér og ætlist til þess að beita í málum sem snúa að störfum lögmanna, skáki ekki stjórnarskrá lýðveldisins.

Að því virtu hafnar varnaraðili því að úrskurðarnefndin búi yfir lagaheimild til þess að kveða upp úrskurð þar sem fallist er á kröfur sóknaraðila eða varnaraðili á annan hátt sviptur eignarréttindum sínum.

Að lokum telur varnaraðili nauðsynlegt að koma að sjónarmiðum um samningsfrelsi hans og sóknaraðila. Kveður varnaraðili ljóst að bæði hann og sóknaraðili höfðu hvor um sig fullt frelsi til þess að velja hvort gerður yrði samningur þeirra á milli, hvar sóknaraðili fól varnaraðila að innheimta fyrir sig slysabætur. Því til viðbótar hafi hvor aðili um sig fullt frelsi til að velja hvort þeir gengju til samninga við hvorn annan og, í þriðja lagi, höfðu aðilar fullt frelsi til þess að ákveða um hvað yrði samið, þ.e.a.s. aðilar höfðu frelsi til þess að semja um efni samningsins.

Sé samningur ógiltur með stoð í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 kveður varnaraðili að vikið sé frá þeirri grundvallarreglu íslensks réttar að samninga beri að efna. Af því leiði að sá, sem krefjist þess að það skuli gert vegna efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina eða atvika, sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. greinarinnar, ber sönnunarbyrði fyrir því að þessi atriði eigi að valda því að talið verði ósanngjarnt að viðsemjandinn beri samninginn fyrir sig. Þessi sjónarmið hafi ítrekað verið staðfest í dómum Hæstaréttar og vísar varnaraðili þar m.a. til dóma nr. 195/2017 og 834/2014.

Þá vísar varnaraðili til athugasemda með frumvarpi til laga nr. 11/1986 sem breyttu 36. gr. laga nr. 7/1936 í núverandi horf, þar sem hafi meðal annars verið tekið fram að reglan um samningsfrelsi væri ein af grundvallarreglum íslensks réttar og ekki þýðingarminni væri reglan um að gerða samninga bæri að halda. Af þessum reglum leiddi að samningsaðili gæti almennt ekki komið sér hjá því að efna samningsskyldur sínar þó svo að þær mætti telja ósanngjarnar í hans garð, enda væri þá gengið út frá því að samningur hefði verið gerður milli jafnsettra aðila. Kveður varnaraðili því ekki að neita að nokkur munur hafi verið á stöðu málsaðila við gerð samningsins 30. desember 2019 en hins vegar nægi það eitt og sér ekki til þess að samningnum verði vikið til hliðar, enda hafi sóknaraðila verið í lófa lagt, að leita sér frekari upplýsinga um samkeppnisumhverfið á þeim markaði sem varnaraðili starfar á. Hefði sú leit sóknaraðili orðið til þess að hann teldi hag sínum betur borgið annars staðar, hefði sóknaraðili getað ýmist leitað strax til samkeppnisaðila varnaraðila í öndverðu eða fært viðskipti sín til þeirra eftir að gengið var til samninga þann 30. desember 2019. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi hins vegar að eigin sögn ekki gert þetta fyrr en eftir að öll vinna varnaraðila hafði verið unnin í hans þágu og á því verði sóknaraðili að bera hallan af.

Kveður varnaraðili ekki mikla vinnu falla til vegna reksturs slysamála fyrr en farið sé að nálgast stöðugleikapunkt og því flestum lögmönnum að meinlausu ef kúnnar færi viðskipti sín annað, stuttu eftir að til þeirra var stofnað. Að mati varnaraðila er fráleitt að gera kröfu um breytingar á samningum aðila svo löngu eftir að þeir hafi verið að fullu efndir eftir efni sínu.

Að endingu áréttar varnaraðili kröfu sína um málskostnað úr hendi sóknaraðila, þ.m.t. virðisaukaskatts, að mati úrskurðarnefndarinnar. Kröfu sína um málskostnað styður varnaraðili við 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 og 3. mgr. 15. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Að sögn varnaraðila er ljóst af þeim gögnum sem sóknaraðili hefur fært fram fyrir nefndinni, að kvörtun hans uppfylli ekki skilyrði þess að málið verði tekið til efnislegrar úrlausnar. Allt að einu var varnaraðila að sinni sögn annað ófært en að fela öðrum lögmanni að verja umtalsverðri vinnu og tilkostnaði til þess að bregðast við kvörtuninni, enda það skylt skv. 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna. Með vísan til þessa ítrekar varnaraðili kröfu um að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað.

Með viðbótarathugasemdum varnaraðila lagði hann fram greiðslukvittun til handa sóknaraðila upp að fjárhæð 43.011 kr. sem hann segir vera mismun þeirrar þóknunar sem lögmannsstofan áskildi sér skv. gjaldskrá þeirri sem í gildi var þegar sóknaraðili undirritaði umboð til stofunnar 30. desember 2019 og gildi þeirrar þóknunar sem stofan áskildi sér skv. verðskrá þeirri sem í gildi var á uppgjörsdegi þann 2. desember 2021. Jafnframt 4.226 kr. sem eru dráttarvextir á 43.011 kr. frá 2. desember 2021 til 20. október 2022, greiddar með fyrirvara til sóknaraðila. Auk þess lagði varnaraðili fram tölvupóst til lögmanns sóknaraðila þar sem tiltekið er að framangreindar greiðslur séu greiddar með fyrirvara þess efnis að greiðslurnar feli ekki í sér neina viðurkenningu frá varnaraðila á réttmæti þeirra.

Vísar varnaraðili til fyrri málatilbúnaðar síns til úrskurðarnefndarinnar en kveður að vegna útreikningsskekkju í töflureikni hafi mismunur eldri og nýrrar verðskrár verið ranglega útreiknaður þegar endurgreiddur var mismunur þóknunar þann 22. ágúst 2022. Í kjölfar ábendingar lögmanns sóknaraðila dags. 21. september síðastliðinn hafi fjárhæðirnar verið reiknaðar aftur og mismunur auk dráttarvaxta greiddur inn á bankareikning lögmannsstofu sóknaraðila sbr. sundurliðun hér að framan. Þá er beðist afsökunar á þeim mistökum.

Að því frágengnu er öðrum kröfum varnaraðila haldið til streitu og þær ítrekaðar m.t.t. breyttrar fjárhæðar samkvæmt framangreindu. 

Niðurstaða

Af hálfu varnaraðila var þess krafist að máli þessu yrði vísað frá úrskurðarnefndinni. Krafan er reist á því annars vegar að þegar sóknaraðili bar kvörtun þessa undir úrskurðarnefndina var liðið meira en ár frá því að hann átti þess kost á að koma kvörtuninni á framfæri. Hins vegar að ágreiningur aðila um endurgjald sé ekki lengur til úrlausnar fyrir nefndinni að teknu tilliti til kröfugerðar sóknaraðila, þar sem varnaraðili hafi þegar greitt þann mismun sem leiddi af því að við uppgjör gagnvart sóknaraðila af hálfu varnaraðila hafi ranglega verið miðað við nýrri gjaldskrá varnaraðila, sem var breytt frá því sem um var samið þegar sóknaraðili veitti varnaraðila umboð.

Varðandi fyrri frávísunarmálsástæðuna sem lýtur að tímafresti til að bera umkvörtunarefnið undir úrskurðarnefndina þá segir í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn að: „Ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Fyrrgreindar heimildir eru afdráttarlausar um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmálum um endurgjald á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma slíku málum á framfæri.

Í málsatvikalýsingu að framan var gerð grein fyrir því að umboð var undirritað þann 30. desember 2019 þar sem samþykkt var að greitt yrði eftir gjaldskrá varnaraðila sem þá gilti, þá fór uppgjör fram milli sóknaraðila og varnaraðila þann 2. desember 2021. Að mati nefndarinnar er ekki unnt að horfa svo á að réttur skjólstæðings eða lögmanns til að bera upp ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds vegna verks sé bundinn við þann dag sem umboð og/eða verkbeiðni er undirrituð. Ágreiningur um rétt til endurgjalds stofnast almennt ekki fyrr en á þeim tíma sem endurgjaldsins er krafist. Eins og atvikum er hér háttað er því fallist á það með sóknaraðila að miða beri við þann dag sem uppgjör átti sér stað, enda var það fyrst þann dag sem varnaraðili krafði sóknaraðila um endurgjald fyrir sín störf. Samkvæmt því liði ársfrestur til að bera kvörtun þessa undir úrskurðarnefndina þann 2. desember 2022, og var hann því ekki liðinn þegar sóknaraðili lagði fram kvörtun málsins þann 24. júní 2022.

Um síðari frávísunar málsástæðu varnaraðila, þess efnis að ekki sé lengur fyrir úrskurðarnefndinni ágreiningur um endurgjald varnaraðila í þágu sóknaraðila, þá byggir varnaraðili það á því að hann hafi þegar endurgreitt þann mismun sem rekja má til þess að við uppgjör gagnvart sóknaraðila hafi óvart verið miðað við nýja gjaldskrá varnaraðila í stað þeirrar sem í gildi var þegar sóknaraðili undirritaði umboð til varnaraðila og sem umboðið vísaði til sem grundvöll endurgjalds vegna málsins. Krafa sóknaraðila fyrir nefndinni þess efnis að endurgjald til varnaraðila sæti endurskoðun til lækkunar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er ekki einskorðuð við þann mismun sem rekja má til þess að miðað var við ranga gjaldskrá við uppgjör. Þegar af þeirri ástæðu er ekki tilefni til að fallast á síðari frávísunar málsástæðu varnaraðila.

Að framanvirtu verða ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst í máli þessu.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Af málsgögnum má sjá að aðilar gerðu með sér skriflegan samning um þau störf og þá hagsmunagæslu sem varnaraðili tók sannanlega að sér í þágu sóknaraðila 30. desember 2019 og sinnti allt til þess að uppgjör slysabóta fór fram. Aðila greinir á um það hvort varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir áætluðum verkkostnaði í upphafi réttarsambandsins. Í umboði varnaraðila sem er á ensku segir að þóknun varnaraðila skuli vera í samræmi við verðskrá þá sem birt er á þáverandi heimasíðu varnaraðila, sem sóknaraðila hafi verið birt. Þá var á heimasíðu varnaraðila að finna gjaldskrá þar sem tilgreint var hvernig þóknun fyrir innheimtu slysabóta væri háttað, en þannig sagði í 6. gr. gjaldskrárinnar að: „Í málum er snúa að innheimtu bóta vegna líkamstjóna greiðir umbj. tímagjald en þó að lágmarki 15% af bótafjárhæð auk virðisaukaskatts og þess lögmannskostnaðar sem greiddur er af bótaskyldu tryggingafélagi.“.  Hefur sóknaraðili ekki mótmælt því að sér hafi verið kynnt framangreind áskilin þóknun varnaraðila. Af málsgögnum verður því ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi verið upplýstur um áskilda þóknun vegna starfa varnaraðila við innheimtu slysabóta í hans þágu.

Við uppgjör þann 2. desember 2021 miðaði varnaraðili hins vegar við nýja gjaldskrá sína í stað þeirrar sem um var samið milli aðila í umboði þeirra frá 30. desember 2019. Hafði þá 6. gr. gjaldskrárinnar er lýtur að fjárhæð endurgjalds fyrir innheimtu slysabóta verið breytt og kvað þá um að: „Í málum er snúa að innheimtu bóta greiðir umbj. tímagjald en þó að lágmarki 15% af umkrafinni eða greiddri bótafjárhæð, hvort heldur er hærra, auk virðisaukaskatts og þess lögmannskostnaðar sem greiddur er af bótaskyldum aðila.“. Af hálfu sóknaraðila voru gerðar athugasemdir við þá gjaldskrá, meðal annars að hagsmunatengd þóknun sé áskilin sem hlutfall af umkröfðum bótum eða greiddri bótafjárhæð, hvort heldur sé hærra. Tekur nefndin undir það með sóknaraðila að með því að áskilja sér endurgjald sem hlutfall af umkröfðum bótum, þar sem þær kröfur séu hærri en greiddar bætur, sé í raun ekki lengur til staðar hagsmunatenging í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sem heimili lögmanni að áskilja sér rétt  til endurgjalds af hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli. Hins vegar liggur fyrir að eftir að mál þetta kom til úrlausnar nefndarinnar hefur varnaraðili greitt sóknaraðila þann mismun sem rekja má til þess að við uppgjör var miðað við síðari gjaldskrá varnaraðila en ekki þá sem í gildi var þegar gengið var til samninga milli aðila. Hefur hann jafnframt greitt dráttarvexti af þeim mismun frá uppgjörsdegi til greiðsludags og beðist afsökunar á þeim mistökum. Að því virtu er ekki lengur fyrir hendi í máli þessi ágreiningur um það hvort varnaraðila hafi verið heimilt að reisa rétt sinn til endurgjalds á síðari gjaldskrá sinni.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og í samræmi við málatilbúnað aðila verður að taka til sérstakrar skoðunar það endurgjald sem varnaraðili áskildi sér á grundvelli umboðs undirritaðs þann 30. desember 2019, sem sakarefni málsins tekur til og leggja mat á hvort hið umkrafða endurgjald samkvæmt þeim hafi verið hæfilegt að teknu tilliti til þeirra verkþátta sem þeir tóku til. Sem fyrr greinir áskildi varnaraðili sér þóknun úr hendi sóknaraðila sem samsvaraði tímagjaldi en þó að lágmarki 15% af bótafjárhæð auk virðisaukaskatts og þess lögmannskostnaðar sem greiddur er af bótaskyldu félagi. Í tilfelli sóknaraðila fékk hann greiddar við uppgjör það sem varnaraðili annaðist fyrir hann, 10.372.554 kr. að meðtöldum vöxtum, ásamt þóknun sem tryggingafélagið greiddi vegna starfa lögmanns í þágu sóknaraðila 715.874 kr. með virðisaukaskatti. Á grundvelli gjaldskrár þeirrar sem aðilar sömdu eftir átti sóknaraðili því að greiða varnaraðila 1.929.295 kr. með virðisaukaskatti af sínum bótum auk þess sem í skaut varnaraðila félli sú þóknun sem tryggingafélagið greiddi til varnaraðila 715.874 kr. með virðisaukaskatti. Samtals kom þannig í hlut varnaraðila að teknu tillit til framangreindra endurgreiðslna af hans hálfu eftir að mál þetta barst nefndinni, 2.687.207 kr. í þóknun.

Það er markmið skaðabóta að gera tjónþola fjárhagslega eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Af þeirri meginreglu leiðir að hann á rétt á því að fá greidda úr hendi þess, sem bótaábyrgð ber, þóknun lögmanns, sem hann hefur leitað til í því skyni að fá ráðgjöf og aðra aðstoð við að gera bótakröfu og fá hana upp gerða, að því tilskildu að þóknunin feli í sér hæfilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir störf lögmannsins, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Lögmönnum er heimilt að semja um endurgjald við skjólstæðinga fyrir þau verk sem þeir taka að sér, svo fremi sem það endurgjald sé hæfilegt og feli ekki í sér ósanngjarnt endurgjald. Þannig þekkjast dæmi þess að lögmenn sem taki að sér innheimtu slysabóta semji um þóknun samkvæmt tímagjaldi, eftir hagsmunatengdri þóknun og í sumum tilfellum á báða bóga, eftir því hvort er hærra. Hvernig svo sem það á horfir þarf hið endanlega endurgjald að vera hæfilegt og ekki ósanngjarnt. Þrátt fyrir að þekkt sé að tryggingafélög greiði almennt þóknun eftir viðmiðunarskrám sínum þekkjast dæmi þess að þau hafi verið dæmd til að greiða lögmannsþóknun sem er hærri en því nemur, þegar það er sannað að endurgjald lögmanns sé hæfilegt sbr. í dæmaskyni dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-3649/2016 þar sem tryggingafélag var dæmt til að greiða tjónþola bætur samkvæmt tímaskráningu sem var hærra endurgjald en eftir viðmiðunarreglum tryggingafélagsins, enda hafði tímagjald lögmannsins verið metið hæfilegt að þeirri fjárhæð sem krafist var úr hendi félagsins á grundvelli 1. mgr. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þótt það sé rétt sem fram kemur af hálfu varnaraðila að njóti tjónþoli lögmannsaðstoðar fái hann bætur greiddar úr hendi tryggingafélags fyrir þóknun lögmanns, en að þær bætur séu ekki greiddar hafi hann ekki leitað sér lögmannsaðstoðar, þá er raunin eftir sem áður sú að sú lögmannsþóknun sem tryggingafélög greiða tjónþolum felur í sér bætur í formi annars fjártjóns sem eiga að miða að því að gera tjónþola sem næst kemst fjárhagslega skaðlausa. Sú skylda hvílir hins vegar á tjónþolum að takmarka tjón sitt og í því felst meðal annars að huga að því hvaða endurgjald hann samþykkir að greiða fyrir aðstoð við að innheimta slysabætur og að tryggingafélögum verði ekki gert að greiða endurgjald sem sé ekki hæfilegt í skilningi framangreindra ákvæða. Sé horft til gjaldskrár varnaraðila er ljóst að tjónþolar líkt og sóknaraðili njóta í engu góðs af þeim bótum sem tjónþolar fái greiddar vegna þóknunar lögmanns, heldur fékk varnaraðili þær greiddar og til viðbótar 15% auk virðisaukaskatt af þeim bótum sem sóknaraðili fékk greiddar að öðru leyti. Áskildi varnaraðili sér því í raun þóknun sem samsvaraði umtalsvert meira en 15% auk virðisaukaskatts af greiddum bótum til handa sóknaraðila. Sé endurgjald varnaraðila skoðað í samhengi þeirra hagsmuna sem það er tengt við, sem eru bætur fyrir tímabundna og varanlega starfs- og lífsgæðaskerðingu auk annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar sóknaraðila, og að teknu tilliti til þess að slysamál sóknaraðila var hvorki flókið eða tímafrekt að umfangi miðað við hefðbundin umferðarslysamál, þykir áskilið endurgjald varnaraðila ekki hæfilegt.

Að mati nefndarinnar fól loforð sóknaraðila um endurgjald til handa varnaraðila þannig í sér ósanngjarnt endurgjald í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sem skuldbindi hann ekki. Af hálfu varnaraðila hafa verið færð rök fyrir því að ekki sé grundvöllur til að skikka lögmenn alla til að starfa eftir sömu töxtum, enda um samkeppnismarkað að ræða. Eins og fyrr hefur komið fram er ekki ágreiningur um það atriði. Hins vegar hafa af hálfu varnaraðila ekki verið færð rök fyrir öðru viðmiði sem réttara væri að miða við í stað þess sem nefndin hefur samkvæmt ofangreindu metið ósanngjarnt endurgjald. Í samræmi við framangreint fellst nefndin á þá kröfu sóknaraðila að endurgjald varnaraðila vegna starfa í þágu sóknaraðila við innheimtu slysabóta vegna umferðarslyss sem hann lenti í þann 24. desember 2019 nemi fjárhæð 1.252.780 kr. með virðisaukaskatti. Taka þær forsendur mið af því að 75% álag sé lagt á þóknun tryggingafélagsins til varnaraðili, sem sundurliðast með þeim hætti að 715.874 kr. greiðist frá tryggingafélagi og 536.906 kr. greiðist frá sóknaraðila, hvoru tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti. Í samræmi við þá niðurstöðu verður varnaraðila gert að endurgreiða sóknaraðila fjárhæð 1.859.801 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti að frádregnum innborgunum þann 22. ágúst 2022 að fjárhæð 412.053 kr. og þann 20. október 2022 að fjárhæð 47.237 kr.

Eins og úrslitum máls þessa er háttað þykir ekki tilefni til að fallast á kröfu varnaraðila um að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, [A], sætir lækkun og skal fjárhæð endurgjaldsins vera  1.252.780 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila 1.859.801 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti að frádregnum innborgunum þann 22. ágúst 2022 að fjárhæð 412.053 kr. og þann 20. október 2022 að fjárhæð 47.237 kr.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

____________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson, ritari