Mál 24 2022

Mál 24/2022

Ár 2022, miðvikudaginn 30. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. júlí 2022 erindi sóknaraðila, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við varnaraðila, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum varnaraðila í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 4. ágúst 2022 og barst hún þann 26. sama mánaðar. Var sóknaraðila send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 7. september 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að sóknaraðili hafi leitað til lögmannsstofu varnaraðila í kjölfar umferðarslyss sem hún lenti í þann 7. nóvember 2018. Liggur fyrir um það efni umboð, dags. 23. nóvember 2018, sem sóknaraðili veitti lögmannsstofu varnaraðila til að innheimta og taka við skaðabótum vegna líkamstjóns af völdum slyssins. Þá verður ráðið af málsgögnum að lögmannsstofa varnaraðila hafi móttekið gögn frá C hf. vegna slyssins þann 17. desember 2018 og að tjónstilkynning hafi verið send degi síðar af hálfu lögmannsstofunnar fyrir hönd sóknaraðila.

Fyrir liggur að sóknaraðili leitaði á ný til lögmannsstofu varnaraðila þann 24. apríl 2019 vegna líkamstjóns af völdum frítímaslyss sem hún hafði lent í tveimur dögum fyrr. Veitti sóknaraðili þá lögmannsstofu varnaraðila umboð til hagsmunagæslu vegna þess máls. Lögmannsstofa varnaraðila óskaði eftir áverkavottorði og gögnum úr sjúkraskrá sóknaraðila frá þar til bærum aðilum í bréfi og tölvubréfi, dags. 16. maí 2019. Voru þau gögn móttekin þann 6. júní 2019 en ítrekun hafði verið send degi fyrr.

Sóknaraðili mun hafa lent í umferðarslysi á ný þann 12. september 2019 og leitaði hún til lögmannsstofu varnaraðila í kjölfar þess og veitti henni umboð vegna málsins þann 26. sama mánaðar. Óskaði varnaraðili eftir lögregluskýrslu vegna slyssins í tölvubréfi þennan sama dag. Liggur jafnframt fyrir að varnaraðili átti í tölvubréfasamskiptum við sóknaraðila, D og E hf. vegna slyssins á tímabilinu frá október til desember 2019. Þá er á meðal málsgagna að finna tvær gagnabeiðnir, dags. 13. febrúar 2020, sem lögmannsstofa varnaraðila sendi fyrir hönd sóknaraðila þann 13. febrúar 2020 vegna fyrrgreindra umferðarslysa.

Þann x. apríl 2020 sendi lögmannsstofa varnaraðila tjónstilkynningu til C hf. vegna þess frítímaslyss sem sóknaraðili hafði orðið fyrir þann x. apríl 20xx. Fyrir liggur einnig að varnaraðili svaraði fyrirspurn sóknaraðila um stöðu mála þann 4. september 2020 þar sem meðal annars var upplýst að fljótlega yrði tímabært að láta meta sóknaraðila vegna slysanna. Þá liggur fyrir að varnaraðili sendi sjúkragögn vegna sóknaraðila til viðkomandi tryggingafélags þann 2. nóvember 2020.

Fyrir liggur að aðilar áttu í tölvubréfasamskiptum dagana 1. og 7. desember 2020. Upplýsti sóknaraðili þannig um stöðu sína hinn fyrrgreinda dag og kvaðst þar meðal annars ekki hafa náð að nýta árið vel þar sem hún hefði hvorki getað farið til sjúkraþjálfara né fengið tíma jafn oft hjá heimilislækni og hún hafi áður gert. Þá ætti hún eftir að fara í myndtöku hjá bæklunarlækni. Í svari varnaraðila hinn síðargreinda dag kom fram að hann hefði óskað eftir sjúkraskrá sóknaraðila fyrr á árinu til að fá yfirlit um stöðuna. Lýsti varnaraðili því einnig að þau skyldu fara í „stóru sóknina“ þegar sóknaraðili væri komin úr meðferð hjá bæklunarlækni og þegar önnur meðferð hefði verið fullreynd.

Á meðal málsgagna er að finna tjónstilkynningu sem varnaraðili sendi til E hf. fyrir hönd sóknaraðila þann x. febrúar 20xx. Þann sama dag sendi varnaraðili tölvubréf til þeirra tryggingafélaga sem í hlut áttu vegna þeirra þriggja slysa sem sóknaraðili hafði lent í á árunum 2018 og 2019. Lýsti varnaraðili því í tölvubréfinu að tímabært væri að senda sóknaraðila í mat og lagði því til að gagnaöflun færi af stað. Í því fælist að varnaraðili myndi óska eftir viðeigandi gögnum og útbúa matsbeiðni. Þá myndi kostnaðar skiptast samkvæmt samkomulagi á milli félaganna.

Í tölvubréfi varnaraðila til sóknaraðila, dags. 19. febrúar 2021, var því lýst að tímabært væri að hefja „lokasóknina“ vegna slysanna jafnframt því sem óskað var eftir nánar tilgreindum upplýsingum. Í svari sóknaraðila, dags. 22. febrúar 2021, lýsti sóknaraðila högum sínum og kvaðst þurfa „komast að betri læknum“ áður en farið yrði í mat. Staðfesti varnaraðili næsta dag að það væri í lagi að bíða með matið og að þau hefðu tíma til að minnsta kosti 31. desember 2022 til að klára málið „þannig að við getum bara tekið þetta í rólegheitunum á þeim hraða sem þú vilt.“

Í tölvubréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 9. júní 2021, kvaðst hún meðal annars hafa hitt sérfræðilækni og að þörf væri á aðgerð í framhaldinu. Í svari varnaraðila þann 12. júní 2021 óskaði hann eftir upplýsingum um tímasetningu aðgerðinnar og voru þau svör veitt samdægurs af hálfu sóknaraðila.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréfasamskipti varnaraðila við C hf. frá marsmánuði 2021 til 6. janúar 2022. Af þeim samskiptum verður ráðið að varnaraðili hafi sent umbeðin sjúkragögn til tryggingafélagsins og að matsfrestur vegna frítímaslyss sóknaraðila hafi verið framlengdur til ársloka 2022 vegna seinkunar á þeirri aðgerð sem hún þurfti að undirgangast. Þá er á meðal málsgagna að finna tölvubréfasamskipti varnaraðila við E hf. frá 12. febrúar og 11. nóvember 2021 vegna málsins.

Fyrir liggur að málsaðilar áttu í tölvubréfasamskiptum í ágúst- og septembermánuði 2021, þar á meðal varðandi fund og endurgreiðslu útlagðs sjúkrakostnaðar. Ítrekað sóknaraðili í tölvubréfi þann 10. nóvember 2021 að hún þyrfti að fá endurgreiðslu útlagðs kostnaðar sem fyrst jafnframt því sem hún tiltók að henni þætti samskipti aðila vera „mjög erfið“ og að henni þætti erfitt að ná í varnaraðila. Í svari varnaraðila næsta dag kom fram að hann hefði sent kvittanir á viðkomandi tryggingafélag en að það flækti málið að um þrjú slys væru að ræða og að félögin þyrftu að ákveða kostnaðarskiptingu sín á milli. Baðst varnaraðili jafnframt velvirðingar á ef hann hefði svarað sóknaraðila seint og kvaðst myndi bæta sig í þeim efnum.

Af málsgögnum verður ráðið að aðilar hafi átt í frekari tölvubréfasamskiptum í marsmánuði 2022, þar á meðal vegna endurgreiðslu útlagðs kostnaðar og fyrirhugaðrar aðgerðar sóknaraðila.

Fyrir liggur að sóknaraðili leitaði til annarrar lögmannsstofu um hagsmunagæslu vegna málsins og liggur fyrir umboð þar að lútandi, dags. 13. maí 2022. Var tiltekið í því umboði að í því fælist afturköllun á umboð til varnaraðila og lögmannsstofu hans. Varnaraðili var upplýstur um þetta efni með bréfi dags. 16. maí 2022 jafnframt því sem nýr lögmaður sóknaraðila óskað eftir að fá öll þau gögn sem varnaraðili kynni að hafa undir höndum vegna málefna sóknaraðila.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréfasamskipti varnaraðila við nýjan lögmann sóknaraðila í maí- og júnímánuði 2022. Í þeim samskiptum kom fram að ágreiningur kynni að vera uppi um þá þóknun sem varnaraðili og lögmannsstofa hans höfðu áskilið sér samkvæmt vinnuskýrslu vegna starfa í þágu sóknaraðila.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var einn reikningur gefinn út af lögmannsstofu varnaraðila vegna lögmannsstarfa í þágu sóknaraðila. Var þannig gefinn út reikningur nr. 449 þann 1. júlí 2022 að fjárhæð 654.007 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var tiltekið að um væri að ræða lögmannsþóknun samkvæmt tímaskýrslu vegna vinnu við skaðabótamál sóknaraðila vegna þriggja slysa. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa verið send á fyrri stigum sem og við útgáfu reikningsins, var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa varnaraðila á tímabilinu frá 23. nóvember 2018 til 10. mars 2022 í alls 18.25 klukkustundir. Var útselt tímagjald að fjárhæð 28.900 krónur auk virðisaukaskatts.

Líkt og áður greinir varð ágreiningur á milli aðila um fjárhæð endurgjaldsins og beindi sóknaraðili því erindi vegna máls þessa til nefndarinnar þann 28. júlí 2022.

II.

Að mati nefndarinnar verður að skilja málatilbúnað sóknaraðila með þeim hætti að þess sé annars vegar krafist að áskilin þóknun varnaraðila samkvæmt reikningi nr. 449 sæti verulegri lækkun, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar verði að skilja málatilbúnað sóknaraðila í erindi til nefndarinnar með þeim hætti að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Sóknaraðili vísar til þess í málatilbúnaði sínum að hún hafi leitað til lögmannsstofu varnaraðila í nóvembermánuði 2018 vegna líkamstjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi í sama mánuði. Kveðst sóknaraðili hafa undirritað umboð þann 23. nóvember 2018 og varnaraðili tekið að sér hagsmunagæslu í hennar þágu vegna málsins. Þá lýsir sóknaraðili því að hún hafi einnig orðið fyrir líkamstjóni í slysum dagana 22. apríl og 12. september 2019 og leitað til lögmannsstofu varnaraðila vegna þess.

Sóknaraðili vísar til þess að hún hafi aldrei heyrt neitt frá lögmannsstofu varnaraðila. Hafi hún ítrekað haft samband við lögmannsstofuna án þess að fá upplýsingar eða svör. Vegna þessa hafi sóknaraðili haft samband við viðkomandi tryggingafélög sem kvatt hafi hana til þess að ræða við varnaraðila.

Sóknaraðili kveðst hafa verið orðin verulega áhyggjufull um stöðu málanna á árinu 2021 en í september það ár hafi hún loks fengið fund með varnaraðila. Hafi ekkert komið útúr þeim fundi annað en upplýsingar frá varnaraðila um að hann ætlaði að klára málin á árinu. Þar sem það hafi ekki gerst og ekkert heyrst frá varnaraðila er komið var fram á árið 2022 hafi sóknaraðili haft samband við aðra lögmannsstofu sem tekið hafi að sér hagsmunagæslu í hennar þágu. Hafi hinn nýi lögmaður tjáð sóknaraðila að krafa vegna fyrsta slyssins gæti fyrnst í nóvember 2022 og að líklega væri of seint að sækja bætur vegna frímtímaslyssins frá 22. apríl 2019 vegna þriggja ára fyrningarfrests samkvæmt skilmálum frítímaslysatrygginga.

Sóknaraðili kveðst hafa fengið reikning frá varnaraðila að fjárhæð 654.007 krónur vegna vinnu hans við málið. Lýsir sóknaraðili því að hún geti ekki fellt sig við þá upphæð vegna vinnu varnaraðila og sé því leitað til nefndarinnar.

Sóknaraðili byggir á að hinn umþrætti reikningur frá lögmannsstofu varnaraðila sé ósanngjarn og ekki í samræmi við þá vinnu sem varnaraðili hafi innt af hendi í málunum. Vísar sóknaraðili um það efni til fyrirliggjandi tímaskýrslu og bendir á að hún hafi aldrei verið fulla eina klukkustund á fundum með varnaraðila. Þá skrái varnaraðili einnig 25 mínútur í hvert sinn fyrir ritun og móttöku tölvubréfa, sem geti ekki staðist.

Einnig er vísað til þess að ljóst sé að varnaraðili hafi ekki óskað eftir upplýsingum um heilsufar sóknaraðila fyrir slysin eða aflað vottorða frá þeim sérfræðilæknum sem sóknaraðili hafi leitað til. Er um það efni bent á að sóknaraðili hafi verið mikið hjá sjúkraþjálfara á grundvelli tilvísunar frá heimilislækni. Ætti vottorð sjúkraþjálfara þannig að vera ákveðin sönnun um afleiðingar slysanna sem og beiðnir um sjúkraþjálfun og vottorð heimilislæknis. Kveðst sóknaraðili jafnframt hafa leitað til sérfræðilækna vegna afleiðinga slysanna.

Samkvæmt því byggir sóknaraðili á að varnaraðili hafi í maímánuði 2022 ekki enn verið búinn að afla gagna vegna málsins þannig að hægt væri að biðja um mat samkvæmt skaðabótalögum og skilmálum vátryggingafélaga á afleiðingum slysanna til að krefjast bóta. Hafi sóknaraðili leitað til varnaraðila vegna þess, þ.e. til að sækja slysabætur vegna líkamstjóns. Hafi varnaraðili þannig valdið sóknaraðila fjártjóni með sinnuleysi í málinu.

Sóknaraðili vísar til þess að hún óski eftir að nefndin meti hinn umþrætta reikning og tímaskýrslu að baki honum. Byggir sóknaraðili á að fjárhæð reikningsins standist ekki og að hún sé að minnsta kosti helmingi of há. Kveðst sóknaraðili einnig gera kröfu um að reikningurinn verið tekinn úr heimabanka þar til úrskurðað hafi verið í málinu.

Sóknaraðili byggir einnig á að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna hennar eins og lögmenn eigi að gera í málum af þessum toga, svo sem með öflun upplýsinga um fyrra heilsufar og vottorða um raunverulegar afleiðingar slysanna. Hafi varnaraðili látið það ógert. Jafnframt því hafi varnaraðili látið undir höfuð leggjast með að biðja um mat á afleiðingum slysanna en slíkt hafi átt að gerast í síðasta lagi er ár var liðið frá síðasta slysinu. Sé enda sönnunarstaða erfið þegar langur tími er liðinn frá slysum.  

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að sóknaraðili verði úrskurðuð til að greiða lögmannsstofu hans 654.007 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna starfa í þágu sóknaraðila, samkvæmt reikningi nr. 449 frá 1. júlí 2022. Til vara krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði úrskurðuð til þess að greiða lögmannsstofu hans lægri fjárhæð sem sé hæfileg þóknun að mati nefndarinnar.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi leitað til lögmannsstofu hans þann 23. nóvember 2018 vegna umferðarslyss sem hún hafi orðið fyrir þann 7. sama mánaðar. Hafi lögmannsstofunni verði falið að innheimta bætur vegna slyssins með umboði sóknaraðila tilgreindan dag. Því er lýst að þennan sama dag hafi málið verið skráð í málakerfi lögmannsstofunnar og gagnaöflun farið af stað, þar á meðal könnun á því hvaða tryggingafélög ættu í hlut. Hafi ein klukkustund verið skráð í tímaskýrslu vegna þessa.

Vísað er til þess að þann 17. desember 2018 hafi varnaraðili móttekið gögn frá C hf. sem send hafi verið í tölvubréfi. Kveðst varnaraðili hafa yfirfarið þau gögn, vistað inn á málið og fært hálfa klukkustund í tímaskrá. Þá lýsir varnaraðili því að gerð hafi verið tjónstilkynning næsta dag og hún send til fyrrgreinds tryggingafélags. Hafi ein klukkustund verið færð í tímaskrá vegna þess.

Í málatilbúnaði varnaraðila er vísað til þess að sóknaraðili hafi upplýst þann 24. apríl 2019 að hún hefði lent í öðru slysi tveimur dögum fyrr, þ.e. þegar hún hafi dottið og ökklabrotnað. Er því lýst að sama dag hafi sóknaraðili skrifað undir umboð þar sem lögmannsstofu varnaraðila var falið að innheimta bætur vegna slyssins. Málið hafi verið skráð í málakerfi og fleira en ekki skráðir tímar vegna þess.

Varnaraðili bendir á að þann 16. maí 2019 hafi verið óskað eftir afriti af sjúkraskrá sóknaraðila frá slysdeginum 22. apríl 2019 og að hálf klukkustund hafi verið skráð í tímaskrá vegna þess. Hafi tilgreint erindi verið ítrekað þann 5. júní sama ár en þá hafi verið skráðar 15 mínútur vegna málsins. Sjúkraskráin hafi loks verið móttekin þann 6. júní 2019, hún vistuð inn á mál sóknaraðila og yfirfarin og skráðar 15 mínútur í tímaskrá.

Varnaraðili gerir grein fyrir því að sóknaraðili hafi komið til fundar þann 26. september 2019 þar sem hún hafi upplýst að hún hefði lent á ný í umferðarslysi, þ.e. þann 12. sama mánaðar. Hafi hún á fundinum falið lögmannsstofu varnaraðila að innheimtu bætur vegna þess slyss. Kveðst varnaraðili í framhaldi af því hafa skráð málið í kerfi lögmannsstofunnar og óskað eftir lögregluskýrslu um tjónsatburðinn. Þá hafi verið skráðar tvær klukkustundir á málið í tímaskrá þennan dag.

Varnaraðili vísar til þess að þann 7. október 2019 hafi hann óskað eftir skýrslu um umferðarslysið frá 12. september 2019 hjá D en þá hafi verið færðar 15 mínútur í tímaskrá. Því er lýst að tilgreindur aðili hafi þurft að fá bílnúmer viðkomandi ökutækis sem sóknaraðili hafi verið í og því hafi varnaraðila sent fyrirspurn um það í tölvubréfi til sóknaraðila þann 19. október 2019 og fært samhliða 15 mínútur í tímaskrá. Þar sem svör hafi ekki borist frá sóknaraðila hafi varnaraðili sent ítrekun þann 28. nóvember 2019 og fært 15 mínútur í tímaskrá. Kveðst varnaraðili hafa móttekið umbeðnar upplýsingar frá sóknaraðila þann 1. desember 2019, komið þeim til D og ritað sóknaraðila tölvubréf. Fyrir þá vinnu hafi varnaraðili skráð 15 mínútur í tímaskrá.

Um frekari vinnu bendir varnaraðili á að þann 13. og 14. desember 2019 hafi verið send tölvubréf á E hf. vegna umferðarslyssins 12. september 2019 en skráðar hafi verið 15 mínútur vegna hvors erindis. Kveðst varnaraðili einnig hafa hringt í sóknaraðila þann 13. febrúar 2020 til að taka stöðuna og upplýsa um gang mála. Er því lýst að í kjölfar þess hafi verið rituð bréf þar sem óskað hafi verið eftir sjúkraskrám sóknaraðila frá 1. janúar 2018. Hafi ein og hálf klukkustund verið skráð vegna þess.

Varnaraðili vísar til þess að þann 17. apríl 2020 hafi verið gerð tjónstilkynning til C hf. vegna slyssins 22. apríl 2019, en þar hafi sóknaraðili verið með slysatryggingu í frítíma. Hafi tjónstilkynningin verið send félaginu ásamt öðrum gögnum með tölvubréfi þennan sama dag. Hafi varnaraðili skráð samtals eina klukkustund og 15 mínútur vegna þessarar vinnu.

Varnaraðili bendir á að aðilar hafi átt í tölvubréfasamskiptum um stöðu mála dagana 1. og 4. september 2020 en þá hafi verið skráðar 15 mínútur vegna vinnu. Kveðst varnaraðili jafnframt hafa skráð 30 mínútna vinnu þann 2. nóvember 2020, þ.e. vegna yfirlestrar sjúkragagna og sendingar þeirra til tryggingafélags. Þá er því lýst að aðilar hafi átt með sér tölvubréfasamskipti dagana 1. og 7. desember 2020 þar sem varnaraðili upplýsti meðal annars að best væri að bíða eftir að meðferð sóknaraðila hjá bæklunarlækni lyki áður en lokagagnaöflun færi fram.

Varnaraðili vísar til þess að þann 11. febrúar 2021 hafi tjónstilkynning á formi E hf. verið fyllt út og send til félagsins. Síðar sama dag hafi verið sent tölvubréf til C hf. og fyrrgreinds tryggingafélags þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu félaganna til þess að hefja lokagagnaöflun, skiptingu kostnaðar vegna þessa o.fl. Er vísað til þess að fyrir þessa vinnu hafi verið skráð ein klukkustund og 15 mínútur.

Vísað er til þess að sent hafi verið tölvubréf til sóknaraðila þann 19. febrúar 2021 þar sem greint hafi verið frá því að tímabært væri að hefja lokasóknina jafnframt því sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvar hún hefði verið hjá sjúkraþjálfara. Hafi verið skráðar 15 mínútur vegna tölvubréfsins. Bendir varnaraðili á að í svari sóknaraðila, dags. 22. febrúar 2021, hafi hún meðal annars óskað eftir að beðið yrði með að fara í örorkumat vegna áframhaldandi læknismeðferðar. Vísar varnaraðili til þess að fyrir yfirlestur tölvubréfsins og svar við því þann 23. febrúar 2021 hafi verið skráðar 30 mínútur.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi sent tölvubréf til C dagana 11. og 30. mars 2021. Vegna þeirra tölvubréfa hafi verið færðar 30 mínútur í tímaskrá. Kveðst varnaraðili jafnframt hafa verið í tölvubréfasamskiptum við sóknaraðila dagana 9. og 12. júní 2021 vegna fyrirhugaðrar aðgerðar sóknaraðila og að skráðar hafi verið 30 mínútur vegna þeirrar vinnu, þar á meðal vegna vinnu við athugun á mats- og tilkynningarfrestum. Þann 14. júní 2021 hafi varnaraðili svo sent aftur tölvubréf til sóknaraðila án þess að skráðar hefðu verið vinnustundir í tímaskrá.

Því er lýst að aðilar hafi átt í tölvubréfasamskiptum dagana 30. og 31. ágúst 2021 vegna fyrirhugaðs fundar og að 15 mínútur hafi þá verið skráðar í tímaskrá. Hafi fundur verið haldinn þann 2. september 2021 og skráð ein klukkustund vegna hans og undirbúnings varnaraðila. Kveðst varnaraðili jafnframt hafa sent tölvubréf til sóknaraðila þann 22. september og skráð á það 15 mínútur. Þá hafi verið send tölvubréf til tveggja tryggingafélaga og sóknaraðila þann 11. nóvember 2021, meðal annars vegna fyrirhugaðrar aðgerðar sóknaraðila næsta dag, og skráðar 45 mínútur vegna þeirrar vinnu.

Varnaraðili vísar til þess að dagana 22. nóvember 2021, 27. desember 2021, 6. janúar 2022 og 4. mars 2022 hafi verið send tölvubréf til C hf. og að skráðar hafi verið 15 mínútur í hvert skipti. Þá hafi tölvubréf frá sóknaraðila verið yfirfarið þann 10. mars 2022 og því svarað og skráðar 30 mínútur í tímaskrá.

Á það er bent að varnaraðili hafi móttekið erindi frá annarri lögmannsstofu þann 15. maí 2022 en í því hafi verið að finna umboð sóknaraðila til viðkomandi sem og afturköllun á umboði til lögmannsstofu varnaraðila. Kveðst varnaraðili hafa svarað því erindi 16. maí 2022 og óskað meðal annars eftir upplýsingum um hvernig sóknaraðili hefði hug á að gera upp við lögmannsstofu hans vegna vinnunnar. Því er lýst að í svari frá nýjum lögmanni sóknaraðila, dags. 18. maí 2022, hafi komið fram að sóknaraðili væri ekki tilbúin að samþykkja að reikningur frá lögmannsstofu varnaraðila yrði greiddur við uppgjör. Réttast væri að vísa ágreiningnum til úrskurðarnefndar lögmanna, þó þannig að varnaraðili ætti fyrst að senda öll málsgögn til lögmannsins til mats á fjölda vinnustunda.

Varnaraðili lýsir því að í svari hans sama dag hafi hann upplýst að ef sóknaraðili hefði hug á að véfengja vinnuframlag lögmannsstofu hans þyrfti hún að leita beint til úrskurðarnefndar lögmanna. Kveðst varnaraðili hafa ítrekað það efni þann 9. júní 2022 og að reikningur yrði gefinn út næstu mánamót. Bendir varnaraðili á að í svari sóknaraðila næsta dag hafi komið fram að hún vildi bera reikninginn undir nefndina en að varnaraðili ætti þó skilið að fá „laun fyrir þá vinnu sem hann gerði.“

Vísað er til þess að þann 29. júní 2022 hafi varnaraðili sent reikning lögmannsstofu hans nr. 449 ásamt tímaskýrslu, sem þegar hafði verið send, og upplýst um að krafa yrði stofnuð í heimabanka. Kveðst varnaraðili hafa móttekið tölvubréf frá sóknaraðila sama dag þar sem hún upplýsti að hún ætlaði að reyna sitt besta til að kæra varnaraðila fyrir áreitni. Bendir varnaraðili á að slík kæra hafi þó ekki verið lögð fram.

Varnaraðili vísar til 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn varðandi rétt til hæfilegs endurgjalds fyrir störf lögmanna. Varnaraðili vísar til málsgagna um þá vinnu sem búi að baki tímaskráningu sem umþrættur reikningur hafi grundvallast á. Byggir varnaraðili ennfremur á að tímagjaldið 28.900 krónur auk virðisaukaskatts, sé hóflegt. Er einnig á það bent að lögmannsstofa varnaraðila hafi unnið að þremur málum í þágu sóknaraðila síðan 22. nóvember 2018, þ.e. í um þrjú og hálft ár.

Vísað er til þess að lágmark tímaskráningar fyrir hvert hafið verk hafi verið 15 mínútur en ekki 25 mínútur eins og sóknaraðili haldi ranglega fram. Samkvæmt því sé tímaskýrsla varnaraðila ekki tilbúningur heldur skráning raunverulegrar vinnu í þágu sóknaraðila. Hafnar varnaraðili því einnig að hann hafi ekki unnið að málinu eða óskað eftir læknisfræðilegum gögnum. Þvert á móti hafi varnaraðili óskað eftir slíkum gögnum og haft hug á að afla fleiri gagna þegar sóknaraðili hafi óskað eftir að beðið yrði með gagnaöflun þar til meðferð væri lokið.

Varnaraðili byggir á að það hafi ekki verið við hann að sakast að skaðabótamál sóknaraðila hafi dregist. Hafi dráttur málsins átt rætur að rekja til þes að sóknaraðili hefði lent í þremur slysum og óskað sjálf eftir að beðið yrði með örorkumat. Kveðst varnaraðili ennfremur hafna því að sóknaraðili hafi „ekki heyrt neitt frá lögmannsstofunni“ og „aldrei fengið neinar upplýsingar.“ Sýni málsgögn þannig tíð samskipti á milli aðila. Þá telur varnaraðili að mats- og fyrningarfrestir séu ekki liðnir, þar sem varnaraðili hafi óskað eftir framlengingu á þeim í kjölfar beiðni sóknaraðila um að beðið yrði með örorkumatið. Samkvæmt því hafnar varnaraðili því að hann hafi valdið sóknaraðila fjártjóni.

Niðurstaða

                                                                          I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að lögmannsstofa varnaraðila hafi tekið að sér þrjú slysamál í hennar þágu á árunum 2018 og 2019 en að hún hafi hvorki heyrt frá stofunni né fengið upplýsingar eða svör um stöðu mála. Hafi hún því neyðst til að leita til annarrar lögmannsstofu um hagsmunagæsluna á árinu 2022. Byggir sóknaraðili á að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna hennar sem skyldi, svo sem með öflun nauðsynlegra gagna um fyrra heilsufar og afleiðingar slysanna. Þá hafi varnaraðili látið undir höfuð leggjast með að biðja um mat á afleiðingum slysanna en slíkt hafi átt að gerast í síðasta lagi er ár var liðið frá síðasta slysi sem sóknaraðili hafi lent í. Varnaraðili hefur á hinn bóginn mótmælt tilgreindum málatilbúnaði sem röngum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða og tilkynna skjólstæðingi sínum ef það dregst eða ætla má að það dragist. Þá er loks tiltekið í 41. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni jafnframt að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Að mati nefndarinnar verður ekki leitt af málsgögnum að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með þeim hætti sem lýst er í kvörtun. Fyrir liggur að varnaraðili annaðist hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila vegna þriggja slysamála frá nóvembermánuði 2018 og til maímánaðar 2022 þegar réttarsambandi aðila var slitið. Bera málsgögn með sér, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, að aðilar hafi átt með sér regluleg tölvubréfasamskipti á meðan réttarsambandið varði, þar á meðal um stöðu og framvindu mála, auk þess að hittast á fundum. Verður heldur ekki annað ráðið af málsgögnum en að varnaraðili hafi svarað þeim erindum sem til hans bárust vegna starfa í þágu sóknaraðila án ástæðulauss dráttar. Jafnframt því liggur fyrir að varnaraðili annaðist tjónstilkynningar og samskipti við viðkomandi tryggingafélög á tímabilinu auk þess að afla gagna frá öðrum þriðju aðilum, þar á meðal sjúkragögn vegna sóknaraðila. Þá upplýsti varnaraðili um í tölvubréfi til sóknaraðila hinn 19. febrúar 2021 að tímabært væri að hefja „lokasóknina“ vegna málsins, sem hann hafði einnig boðað gagnvart viðkomandi tryggingafélögum í tölvubréfi þann 11. sama mánaðar, en þeirri sókn var frestað á grundvelli fyrirmæla í tölvubréfi sóknaraðila þann 22. febrúar 2021.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið sem og með hliðsjón af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina, verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Er ekki annað fram komið í málinu að áliti nefndarinnar en að varnaraðili hafi átt í samskiptum við sóknaraðila á meðan réttarsambandið varði, upplýst um stöðu mála og framvindu og ráðist í nauðsynlega gagnaöflun miðað við stöðu mála á hverjum tíma. Með tilliti til þess að undirliggjandi mál tók til þriggja slysa sem sóknaraðili lenti í og varðaði að minnsta kosti tvö tryggingafélög verður einnig talið að varnaraðili hafi rekið málið áfram með hæfilegum hraða, en það samræmdist einnig óskum sóknaraðila um að beðið yrði með endanlegt mat uns hún hefði undirgengist nauðsynlega aðgerð. Þá verður talið að mati nefndarinnar að varnaraðili hafi neytt lögmætra úrræða, í samráði við sóknaraðila, til að gæta þeira hagsmuna sem um var að tefla, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998. Með vísan til þeirrar niðurstöðu verður að hafna málatilbúnaði sóknaraðila á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998.

III.

Ágreiningur er einnig á milli aðila um það endurgjald sem varnaraðili áskildi sér vegna þeirra starfa sem hann tók að sér í þágu sóknaraðila. Hefur sóknaraðili þannig á því byggt að fjárhæð endurgjaldsins sé úr hófi en varnaraðili hefur hins vegar mótmælt þeim málatilbúnaði.

Fyrir liggur að á meðan réttarsamband aðila varði, þ.e. frá 23. nóvember 2018 til 16. maí 2022, hélt varnaraðili vinnuskýrslu og færði þar til bókar þá verkþætti sem unnið var að hverju sinni í þágu sóknaraðila. Samkvæmt henni vörðu varnaraðili og aðrir starfsmenn á lögmannsstofu hans alls 18.25 klukkustundum í málið á tímabilinu, en sú vinna tók meðal annars til samskipta við sóknaraðila og viðkomandi tryggingafélög, gerð gagnabeiðna og tjónstilkynninga, sem og móttöku og yfirferð gagna. Voru allir tilgreindir þættir liðir í þeirri hagsmunagæslu að innheimta slysabætur fyrir hönd sóknaraðila vegna líkamstjóns hennar af völdum þriggja slysa.

Sá reikningur sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila og ágreiningur lýtur að samræmist efni fyrrgreindrar vinnuskýrslu. Nánar tiltekið er um að ræða reikning nr. 449 sem gefinn var út þann 1. júlí 2022 að fjárhæð 654.007 krónur með virðisaukaskatti. Var því lýst á reikningnum að hann tæki til vinnu lögmanns í 18.25 klukkustundir á tímagjaldinu 28.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var því lýst á reikningnum að um væri að ræða lögmannsþóknun samkvæmt tímaskýrslu vegna vinnu við skaðabótamál sóknaraðila vegna viðkomandi slysa.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað. Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Líkt og greinir í málsatvikalýsingu að framan veitti sóknaraðili lögmannsstofu varnaraðila umboð vegna allra þeirra slysamála sem hagsmunagæslan tók til, sbr. umboð dags. 23. nóvember 2018, 24. apríl og 26. september 2019. Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður hins vegar ekki séð að varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir áætluðum verkkostnaði í upphafi réttarsambandsins eða á hvaða grundvelli þóknun vegna þeirra starfa yrði reiknuð, þ.e. hvort hún yrði hagsmunatengd við skaðabætur sem kynnu að verða greiddar sóknaraðila svo sem almennt tíðkast í málum af þesum toga eða áskilin á grundvelli tímgjalds.

Í fyrri úrskurðum hefur nefndin lagt til grundvallar að skylda lögmanns til að upplýsa skjólstæðing sinn um verkkostnað, sbr. framangreind ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna, sé virk á meðan verkinu vindur fram. Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi fyrst verið upplýst um áfallnar vinnustundir og áskilda þóknun vegna starfa varnaraðila við lok réttarsambands aðila, þ.e. í tölvubréfi þann 16. maí 2022.

Að mati nefndarinnar er eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið nokkurt tillit til þess að ekkert liggur fyrir um að varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir áætluðum verkkostnaði né á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð. Hins vegar verður einnig að líta til þess að almennt kemur ekki til þess að þóknunar sé krafist af hálfu lögmanna í slíkum slysabótamálum sem hagsmunagæslan tók til fyrr en við málslok. Vísaði varnaraðili raunar til þess í tölvubréfi til nýs lögmanns sóknaraðila þann 16. maí 2022, sem sóknaraðili fékk einnig afrit af, að áður en málsgögn yrðu afhent þyrfti annað hvort að greiða fyrir vinnu samkvæmt tímaskýrslu sem þá var fyrirliggjandi eða lýsa því yfir og ábyrgjast að lögmannskostnaðurinn yrði greiddur við uppgjör málsins. Var því hafnað af hálfu sóknaraðila að lögmannskostnaðurinn yrði gerður upp við uppgjör málsins. Hvorki voru hins vegar þá né undir rekstri málsins fyrir nefndinni gerðar athugasemdir við að varnaraðili hefði áskilið sér endurgjald á grundvelli tímagjalds. Hafa mótmæli sóknaraðila þannig lotið að fjölda þeirra vinnustunda sem hinn umþrætti reikningur lögmannsstofu varnaraðila tekur til.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og í samræmi við málatilbúnað aðila verður að taka til sérstakrar skoðunar fyrrgreindan reikning sem sakarefni málsins tekur til og leggja mat á hvort hið umkrafða endurgjald samkvæmt honum hafi verið hæfilegt að teknu tilliti til þeirra verkþátta og þeirrar hagsmunagæslu sem varnaraðili sannanlega sinnti í þágu sóknaraðila frá nóvember 2018 til maí 2022.

Hvað það efni varðar verður að mati nefndarinnar ekki séð að tímafjöldi sá sem tilgreindur er í vinnuskýrslu varnaraðila og lá til grundvallar hinum umþrætta reikningi sem gefinn var út á hendur sóknaraðila hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá vinnu og verkþætti sem varnaraðila var falið að sinna. Verður þá einnig að líta til þess að reikningurinn tók til hagsmunagæslu sem staðið hafði yfir í rúmlega þrjú og hálft ár og tók til þriggja slysa sóknaraðila. Jafnframt verður ekki framhjá því litið að þeir verkþættir sem tilgreindir eru í tímaskýrslu lutu að nauðsynlegri vinnu við innheimtu slysabóta, svo sem samskiptum við tryggingafélög og gagnaöflun. Þá verður ekki talið að áskilið tímagjald varnaraðila, að fjárhæð 28.900 krónur auk virðisaukaskatts, hafi verið úr hófi.  

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu skilyrði til að lækka áskilda þóknun samkvæmt hinum umþrætta reikningi sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila þann 1. júlí 2022. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa varnaraðila áskildi sér vegna starfa í þágu sóknaraðila var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu sóknaraðila um að áskilið endurgjald varnaraðila sæti lækkun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa í þágu sóknaraðila, A, sbr. reikning F ehf. nr. 449 frá 1. júlí 2022 að fjárhæð 654.007 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson