Mál 25 2022

Mál 25/2022 

Ár 2022, þriðjudaginn 20. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2022: 

A og B 

gegn 

C lögmanni  

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. júlí 2022 erindi sóknaraðila, [A] og [B], sem lýtur að kvörtun í garð varnaraðila, [C] lögmanns, með starfsstöð að […], vegna ætlaðrar háttsemi í störfum sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. 

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 4. ágúst 2022 og barst hún þann 29. sama mánaðar. Var sóknaraðilum send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 6. september 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 22. september 2022 og viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 12. október sama ár. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila eftir þann tíma og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort háttsemi varnaraðila í störfum í þágu umbjóðanda við meðferð kvörtunarmáls sóknaraðila fyrir Persónuvernd hafi brotið í bága við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að forsögu málsins megi rekja til þess að sóknaraðilar hafi talið að nánar tilgreindir aðilar stunduðu ólögmæta rafræna vöktun með mælaborðsmyndavél í bifreið sem lagt hefði verið nálægt heimili sóknaraðila. Munu sóknaraðilar hafa beint fyrirspurn um lögmæti slíkra athafna til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 30. júlí 2021 en fengu þau svör þann 3. ágúst sama ár að rétt væri að beina slíkum erindum til Persónuverndar. 

Í framhaldi af því, þ.e. í ágústmánuði 2021, beindu sóknaraðilar kvörtun til Persónuverndar vegna málsins. Auk atvika málsins lýstu sóknaraðilar því meðal annars í erindi til Persónuverndar að um væri að ræða hatursfullar ofsóknir viðkomandi í þeirra garð jafnframt því sem reynt væri að eyðileggja mannorð þeirra og heilsu enda fælist í háttseminni einelti. 

Persónuvernd sendi bréf til annars þeirra sem kvörtun sóknaraðila hafði beinst gegn þann 26. ágúst 2021. Var þar gerð grein fyrir þeirri kvörtun sem hafði borist jafnframt því sem viðkomandi var veittur kostur á að tjá sig um hana. Mun sá aðili hafa leitað í framhaldi af því til varnaraðila með málið sem tók að sér hagsmunagæslu í hans þágu vegna meðferðar málsins fyrir Persónuvernd. 

Á meðal málsgagna er að finna erindi sem varnaraðili sendi til Persónuverndar fyrir hönd síns umbjóðanda þann 1. september 2021. Lúta kvörtunarefni málsins að tilgreindu erindi varnaraðila en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið: 

Ásakanir kvartenda eiga ekki við nein rök að styðjast og yrði tímafrek úrvinnsla málsins að öllu leyti sóun á tíma og mannuði stofnunarinnar en umbjóðandi hefur skilning á skyldum Persónuverndar, sbr. VII. kafla laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. 

Umbjóðandi minn hefur á engum tímapunkti haldið uppi rafrænu eftirliti með kvartendum, lagt þá í einelti, truflað þeirra einkalíf eða á [...] brotið gegn lögvörðum réttindum þeirra á nokkurn hátt. Eru ásakanir kvartenda með öllu óskiljanlegar, óviðurkvæmilegar og meiðandi. Vekur framganga kvartenda upp spurningar um andlega heilsu þeirra og andlegt atgervi allt. 

Gögn málsins bera með sér að með bréfi Persónuverndar, dags. 23. júní 2022, hafi sóknaraðilum verið boðið að tjá sig um svör þau sem varnaraðili hafi sent stofnuninni fyrir hönd umbjóðandans. Kom lögmaður sóknaraðila frekari athugasemdum á framfæri vegna málsins til Persónuverndar með bréfi, dags. 4. júlí 2022. Kom meðal annars fram í þeim athugasemdum að vottur væri á kynþáttafordómum í garð annars sóknaraðila í málatilbúnaði varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda enda væri það hvorki sóun á tíma né mannauði Persónuverndar að stofnunin sinnti sínu lögbundna hlutverki. Var því einnig lýst að athugasemdir varnaraðila og umbjóðanda hans sem vörðuðu andlega heilsu og atgervi sóknaraðila fælu í sér tilraun til að sverta mannorð þeirra. 

Af málsgögnum verður ekki ráðið hverjar lyktir tilgreinds máls fyrir Persónuvernd urðu, en svo sem fyrr greinir beindu sóknaraðilar máli þessu til nefndarinnar með erindi sem móttekið var þann 13. júlí 2022. 

Sóknaraðilar krefjast þess í málinu að varnaraðili verði áminntur vegna brota í starfi, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. 

Sóknaraðilar vísa til þess að kvörtun sé beint að varnaraðila vegna háttsemi hans í störfum sem brotið hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. 

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að varnaraðili hafi haldið uppi vörnum fyrir hönd gagnaðila þeirra við meðferð máls sem rekið hafi verið fyrir Persónuvernd. Hafi varnaraðili í þeim störfum haft uppi hatursorðræðu í garð sóknaraðila auk þess að fara fram með ósannindi og rógburð. Þá hafi sú háttsemi haft slæm áhrif á meðferð málsins fyrir Persónuvernd og tafið rekstur þess. 

Varðandi kvörtun vísa sóknaraðilar til efnis í bréfi sem varnaraðili hafi ritað til Persónuverndar vegna málsins, dags. 1. september 2021. Vísa sóknaraðilar sérstaklega til þess að í bréfinu hafi komið fram af hálfu varnaraðila að málsmeðferð vegna kvörtunar sóknaraðila til Persónuverndar væri tímasóun fyrir starfsmenn stofnunarinnar. Með því efni hafi varnaraðili reynt að þvinga Persónuvernd til að fella niður kvörtunarmálið en það hafi lotið að alvarlegri háttsemi umbjóðenda varnaraðila, þ.e. rafrænni vöktun við heimili sóknaraðila sem falið hafi í sér brot á einkalífi þeirra. Þá hafi varnaraðili einnig tiltekið að framganga sóknaraðila vekti upp spurningu um andlega heilsu þeirra og andlegt atgervi allt. Með þeim skrifum hafi varnaraðila haldið fram gagnvart stjórnvaldi að sóknaraðilar væru ekki í lagi. 

Sóknaraðilar byggja á að háttsemi varnaraðila að þessu leyti hafi verið óþolandi og falið í sér kynþáttafordóma. Hafi varnaraðili þannig leyft sér að bera út rógburð um heilsufar sóknaraðila. Krefjast sóknaraðilar þess því að varnaraðila verði veitt áminning fyrir þann rógburð og þau meiðyrði sem fram komu í bréfi hans til Persónuverndar, dags. 1. september 2021. 

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar var vísað til þess að allt sem fram kæmi í málatilbúnaði varnaraðila væri lygi frá honum og umbjóðendum hans. Vísuðu sóknaraðilar ennfremur til þess að varnaraðili gæti ekki endurtekið þann rógburð í málsmeðferð fyrir stjórnvaldi sem umbjóðendur hans kynnu að hafa haldið fram gagnvart honum. Þá voru þar jafnframt gerðar verulegar athugasemdir við framgöngu umbjóðenda varnaraðila í undirliggjandi máli, en það efni fellur utan sakarefnis máls þessa fyrir nefndinni.  

III. 

Skilja verður málatilbúnað varnaraðila með þeim hætti að þess sé krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. 

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda vegna kæru sem sóknaraðilar hafi beint til Persónuverndar gagnvart honum. Hafi kæran lotið að ætlaðri rafrænni vöktun umbjóðandans á heimili sóknaraðila og þar af leiðandi brotum á persónuverndarlögum. Þá hafi í kæru sóknaraðila einnig komið fram ásökun á hendur umbjóðandanum um einelti, ofsóknir, frelsissviptingu og ásetning til að framkvæma refsiverðan verknað. 

Varnaraðili lýsir því að umbjóðandi hans hafi upplýst um samskipti sín og unnustu við sóknaraðila. Hafi þær lýsingar umbjóðandans bent til þess að hann væri í reynd þolandi í málinu en ekki gerandi í samskiptum við sóknaraðila. Hafi umbjóðandinn þannig lýst því hvernig annar sóknaraðila hefði ráðist að honum þegar hann hafi lagt bifreið sinni gegnt heimili sóknaraðila á lögmætan hátt. Hafi sóknaraðilinn með hávaða og ógnandi hegðun þá fullyrt að engum væri heimilt að leggja á umræddum stað þrátt fyrir að umbjóðandi varnaraðila hefði oft séð bifreið á vegum sóknaraðila í sama stæði. Hafi þessi hegðun sóknaraðila endurtekið sig þegar umbjóðandinn hafi lagt bifreiðinni síðar á sama stað. Þá hafi umbjóðandi varnaraðila veitt því eftirtekt að annar sóknaraðila hefði málað gangstéttarbrún fyrir framan hús þeirra með gulum lit sem gefið hafi til kynna að lögmæt yfirvöld hefðu bannað lagningu bifreiða þar þrátt fyrir að slíku banni hefði ekki verið fyrir að fara. 

Varnaraðili vísar til þess að umbjóðandi hans hafi ákveðið að leggja í annað bifreiðastæði við götuna vegna ögrandi og ógnandi framkomu sóknaraðila. Hafi sú ákvörðun engu breytt og ágeng og dónaleg háttsemi sóknaraðila haldið áfram. Þá hafi umbjóðandi varnaraðila komið þrívegis að bifreið sinni útataðri í hvítum seigum vökva að morgni. 

Varnaraðili vísar til þess að umbjóðandi hans hafi keypt notaða mælaborðsmyndavél til þess að taka upp akstur bifreiðarinnar. Hafi hann gert það í kjölfar umferðaróhapps þar sem ágreiningur hafi orðið um tildrög þess. Er því lýst að umbjóðandinn hafi reynt að koma myndavélinni í notkun en ekki tekist vegna tækniörðugleika. Þá hafi innbyggð rafhlaða aðeins dugað í nokkrar mínútur og hún því aðeins getað verið virk eftir gangsetningu bifreiðarinnar. Þar sem nauðsynlegur tengibúnaður í rafmagn hafi ekki verið í bifreiðinni hafi aldrei komið til notkunar myndavélarinnar. 

Varnaraðili kveðst hafa sent svar fyrir hönd umbjóðanda til Persónuverndar þar sem því hafi verið lýst með litríkum  hætti og orðum umbjóðandans hvernig hann hefði upplifað samskiptin við sóknaraðila. Hafi umbjóðandi varnaraðili þannig ekki talið að kæran ætti við rök að styðjast og að rannsókn á aðstæðum væri óþörf ráðstöfun á tíma starfsmanna stofnunarinnar. Hafi umbjóðandinn enda aldrei átt frumkvæði að samskiptum við sóknaraðila, hann ekki leitað eftir slíkum samskiptum og í raun óttast um öryggi sitt og sambýliskonu í samskiptum við þau. Jafnframt því hafi umbjóðandinn áður horft upp á sóknaraðila veitast að öðrum nágrönnum með hávaða og látum. Þá hafi umbjóðandinn talið sig hafa ástæðu til að hafa áhyggjur af andlegri heilsu sóknaraðila og hvort hann eða sambýliskonu hans ættu í hættu á að verða fyrir ofbeldi af þeirra hálfu eða munnlegum árásum og niðurlægingu. 

Varnaraðili byggir á að lögmaður sem gæti hagsmuna umbjóðanda eigi rétt á því að vera ekki samsamaður málstað hans, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Kveðst varnaraðili hafna með öllu ásökunum sóknaraðili sem og því að hann hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum. Þá hafi svör hans í þágu umbjóðanda til Persónuverndar verið í samræmi við 1. mgr. 8. gr. siðreglnanna. 

Varnaraðili byggir ennfremur á að ekkert í málflutningi hans geti talist til hatursorðræðu, meiðyrða, uppspuna eða fordóma. Þá hafi varnaraðili ekki dreift neinum upplýsingum er varðað hafi sóknaraðila. Þvert á móti hafi varnaraðili haldið uppi eðlilegum vörnum í þágu umbjóðanda sem hvorki hafi haft „slæm áhrif“ á mál sóknaraðila gegn umbjóðandanum né falið í sér „þvingun“ gagnvart Persónuvernd til að fella mál þeirra niður. 

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila vísar hann til þess að fram hafi komið frekari ásakanir í hans garð af hálfu sóknaraðila eftir upphaflega kvörtun. Kveðst varnaraðili hafna öllum þeim nýju ávirðingum sem ósannindum. Lýsir varnaraðili því að hann hafi engin samskipti átt við sóknaraðila heldur aðeins tekið að sér hagsmunagæslu fyrir umbjóðanda vegna kæru sóknaraðila til Persónuverndar og ritað bréf í samræmi við óskir hans. 

Ítrekar varnaraðili að hann hafi ekki haft uppi nein ósannindi gagnvart sóknaraðilum, ekki sýnt af sér kynþáttahatur og ekki lagt neinn í einelti. Auk þess hafi varnaraðili hvorki reynt né dottið í hug að múta embættismönnum íslenskra ríkisstofnana. Þá hafi varnaraðili ekki sýnt af sér neina háttsemi sem réttlæti þær alvarlegu ásakanir sem settar hafi verið fram af hálfu sóknaraðila. 

Niðurstaða 

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. 

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er því þar lýst í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.  

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan þá annaðist varnaraðili hagsmunagæslu í þágu gagnaðila sóknaraðila vegna kvörtunar sem sóknaraðilar höfðu beint til Persónuverndar í tengslum við ætlaða ólögmæta rafræna vöktun. Lýtur kvörtun sóknaraðila í máli þessu að því að framganga varnaraðila í þeirri hagsmunagæslu hafi verið í andstöðu við lög og siðareglur lögmanna. Hafi varnaraðili þannig viðhaft hatursorðræðu í garð sóknaraðila auk þess að fara fram með ósannindi og rógburð, þar á meðal um andlega heilsu og atgervi sóknaraðila.  

Gerð er grein fyrir hinum umþrættu ummælum sem ágreiningsefni aðila tekur til í málsatvikalýsingu að framan. Eins og þar greinir þá tiltók varnaraðili meðal annars í erindi sem hann beindi fyrir hönd umbjóðanda síns til Persónuverndar þann 1. september 2021, í tilefni af kvörtun sóknaraðila til stjórnvaldsins, að framganga sóknaraðila vekti upp spurningar um „andlega heilsu þeirra og andlegt atgervi allt.“ 

Hvað þetta efni í umþrættu erindi varnaraðila til Persónuverndar varðar er til þess að líta að ekki verður séð að mati nefndarinnar að andleg heilsa og atgervi sóknaraðila hafi getað haft nokkra þýðingu við málsmeðferð eða úrlausn þess stjórnsýslumáls er rekið var á grundvelli kvörtunar sóknaraðila í garð umbjóðanda varnaraðila. Verður þvert á móti að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að bollaleggingar um slíkt efni, sem viðhafðar voru í erindi varnaraðila til stjórnvaldsins, hafi verið málinu með öllu óviðkomandi. Er þess einnig að gæta að þótt ritun erindisins hafi verið liður í hagsmunagæslu varnaraðila í þágu viðkomandi umbjóðanda og að hann hafi átt kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætti, í samræmi við efni 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, bar varnaraðila eftir sem áður að gæta þeirra skyldna gagnvart sóknaraðilum, sem gagnaðilum umbjóðanda hans, sem kveðið er á um í V. kafla siðareglnanna. Bar varnaraðili þannig ábyrgð á að efni og framsetning þess erindis sem hann beindi til Persónuverndar fyrir hönd umbjóðanda síns þann 1. september 2021 samræmdist áskilnaði siðareglnanna þótt hann yrði ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætti. Verður því ekki talin stoð fyrir málatilbúnaði varnaraðila á þeim grundvelli að hann hafi notað „litrík“ orð umbjóðanda síns við skrifin og að hann hafi því verið ábyrgðarlaus af þeim. 

Með hliðsjón af fyrrgreindum sjónarmiðum er það mat nefndarinnar að fyrrgreint efni í hinu umþrætta erindi varnaraðila hafi farið umfram þau mörk sem 34. gr. siðareglna lögmanna setja lögmönnum um háttsemi og samskipti gagnvart gagnaðilum umbjóðenda þeirra. Er þá til þess að líta að þær athugasemdir sem lutu að ætlaðri andlegri heilsu og atgervi sóknaraðila voru settar fram í erindi til stjórnvalds og gátu ekki, eins og atvikum var háttað, haft þýðingu við meðferð og úrlausn viðkomandi stjórnsýslumáls. Samkvæmt því verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt sóknaraðilum, sem gagnaðilum umbjóðanda hans, fulla virðingu og tillitssemi í skilningi fyrrgreinds ákvæðis siðareglnanna. Telst sú háttsemi varnaraðila aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. 

Það athugast að í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar var vikið að annarri ætlaðri háttsemi í störfum varnaraðila en upphafleg kvörtun í málinu tók til en hún afmarkaði sakarefni málsins. Þegar af þeirri ástæðu koma ekki til úrlausnar í máli þessu önnur möguleg kvörtunarefni í garð varnaraðila en tilgreind voru í upphaflegu erindi sóknaraðila sem móttekið var af hálfu nefndarinnar þann 13. júlí 2022. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Sú háttsemi varnaraðila, [C] lögmanns, að lýsa því í skriflegu erindi til Persónuverndar, dags. 1. september 2021, að framganga sóknaraðila, [A] og [B], vekti upp spurningar um andlega heilsu þeirra og atgervi allt, er aðfinnsluverð. 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Valborg Þ. Snævarr, formaður 

Einar Gautur Steingrímsson 

Kristinn Bjarnason 

Rétt endurrit staðfestir 

 

________________________ 

Sölvi Davíðsson