Mál 31 2022

Mál 31/2022 

Ár 2023, miðvikudaginn 14. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2022: 

A 

gegn 

B lögmanni 

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. október 2022 kvörtun [C] lögmanns f.h. [A] gegn [B] lögmanni, vegna þeirrar háttsemi að hljóðrita símtal fulltrúa varnaraðila við sóknaraðila án samþykkis varnaraðila og leggja fram sem sönnunargagn í dómsmáli.  

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 24. október 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum vegna málsins barst til nefndarinnar þann 8. desember 2022 og var hún send sóknaraðila til athugasemda. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust nefndinni 28. desember 2022 og var varnaraðila þá veitt færi á að skila inn frekari athugasemdum með bréfi þann 4. janúar 2023. Viðbótar athugasemdir varnaraðila bárust síðan nefndinni 15. febrúar 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Sóknaraðili er fyrirsvarsmaður [D] ehf. sem annaðist viðgerðir á þaki fasteignarinnar [...] á árinu 2021. Varnaraðila er lögmaður fyrrum leigutaka tiltekins rýmis í fasteigninni. Umbjóðandi varnaraðila leigði téð rými af fyrri eiganda fasteignarinnar. Eftir eigendaskipti á fasteigninni kom upp ágreiningur milli umbjóðanda varnaraðila og nýs eiganda fasteignarinnar varðandi áframhaldandi leigu á rýminu. Leit umbjóðandi varnaraðila svo á að leigusamningur aðila hafi liðið undir lok er hann rýmdi leigurýmið þann 30. júní 2021, en leigusali taldi að komist hafi á ótímabundinn leigusamningur um leigurýmið og að umbjóðanda varnaraðila bæri því að greiða áfram húsaleigu. Jafnframt deildu aðilar um nothæfi rýmisins frá júlí 2021 til áramóta þess árs vegna þakframkvæmdanna sem sóknaraðili vann í eigninni og ástands rýmisins að öðru leyti þegar umbjóðandi varnaraðila rýmdi það. Sá ágreiningur rataði fyrir dómstóla þar sem varnaraðili gætti áfram hagsmuna umbjóðanda hans. 

Þann 16. júní 2022 hringdi fulltrúi varnaraðila í sóknaraðila, sem var mögulegt vitni í dómsmálinu og spurði m.a. um ástand leigurýmisins og þaksins sem deilt var um í dómsmálinu. Vísaði fulltrúinn til fyrra símtals þeirra á milli og kvaðst vera að hringja til að staðfesta upplýsingar sem hann fékk við það tilefni. Í aðdraganda aðalmeðferðar dómsmálsins sendi fulltrúi varnaraðila tölvupóst til lögmanns sóknaraðila þann 16. október 2022 þar sem hann upplýsti um að nýtt dómskjal yrði lagt fram í málinu. Dómskjalið var hljóðupptaka af símtali fulltrúa varnaraðila og sóknaraðila þann 16. júní 2022 auk endurrits af símtalinu. Lögmaður stefnanda í dómsmálinu brást við með því að senda dómara málsins tölvupóst þar sem hann tók fram að símtalið hafi verið hljóðritað án vitundar og vilja sóknaraðila, sem hafi talið sig blekktan og afvegaleiddan með háttseminni. Boðaði dómari til fyrirtöku í málinu sem fór fram þann 19. október 2022 þar sem dómari ákvað að heimila framlagninguna hljóðupptökunnar og endurritsins. Sóknaraðili gaf síðan vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins þann 24. október 2022. Við það tilefni spurði varnaraðili hann meðal annars út í meint misræmi í svörum hans fyrir dómi samanborið við hljóðupptökuna.  

Hljóðupptakan varð þannig eitt deiluefnið í dómsmálinu. Sóknaraðili kveður símtalið hafa verið hljóðritað án hans samþykkis og vitundar og að með þeirri háttsemi auk þess að leggja hana fram í dómsmálinu hafi verið gert á hans hlut í trássi við lögmannalög og siðareglur lögmanna.  

Jafnframt bar sóknaraðili kvörtun undir Fjarskiptastofu sem komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun nr. […] að fulltrúi varnaraðila hafi brotið gegn 1. mgr. 48. gr. þágildandi fjarskiptalaga nr. 81/2003 með því að tilkynna sóknaraðila ekki í upphafi símtals þeirra á milli að það yrði hljóðritað.  

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila á þann veg að hann telji varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögmannalögum og siðareglum og krefjist þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, nánar tiltekið að varnaraðila verði gert skylt að sæta sviptingu lögmannsréttinda sinna.  

Lýsir sóknaraðili málsatvikum nánar sem svo að þann 24. október 2022 hafi lögmanni sóknaraðila borist tölvupóstur frá fulltrúa varnaraðila, sem innihélt upptöku af símtali fulltrúans við sóknaraðila síðan 16. júní 2022 og endurrit þess. Sóknaraðili kveðst þá hafa þegar verið boðaður sem vitni í framangreindu dómsmáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.   

Kveðst sóknaraðili hafa brugðið enda ekki vitað að símtalið hafi verið hljóðritað. Fól sóknaraðili því lögmanni að gæta hagsmuna hans vegna þessa, m.a. með því að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. 

Bendir sóknaraðili á að í hljóðupptökunni megi heyra fyrst hringingu, síðan sé upplesinn fyrirvari um að símtalið kunni að vera hljóðritað, því næst heyrist önnur hringing og loks svari sóknaraðili. Sóknaraðili hafi því aldrei verið upplýstur um að símtalið kynni að vera hljóðritað.   

Sóknaraðili hafði á þeim tíma verið kvaddur sem vitni fyrir dóm við aðalmeðferð í framangreindu dómsmáli þann 24. október 2022, en sú aðalmeðferð fór fram eftir að kvörtun þessi var borin undir nefndina. Byggir sóknaraðili á að varnaraðili hafi getað lagt fram spurningar fyrir sóknaraðila sem vitni í málinu við aðalmeðferð þess, líkt og lögmaður stefnanda hafi réttilega gert. 

Byggir sóknaraðili á að varnaraðili og fulltrúi hans hafi gerst brotlegir gegn 7. gr. siðareglna lögmanna sem kveði á um að lögmaður megi ekki án vitundar hlutaðeigandi hraðrita, taka upp á hljóðbönd, myndbönd, eða á annan viðlíka hátt símtöl, viðtöl, fundi eða aðrar viðræður, hvort sem lögmaður sé sjálfur aðili að þeim eða ekki. Slíkar upptökur megi heldur ekki nota sem sönnunargagn í dómsmálum. Séu slíkar upptökur afritaðar skuli lögmaður senda aðilum staðfest eintak þeirra.  

Þá vísar sóknaraðili til þess sem fram komi í bókun varnaraðila í fyrirtöku hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, þess efnis að varnaraðili teldi siðareglur lögmanna vera hátternisreglur frjálsra félagasamtaka sem dómari væri ekki bundinn af. Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hafi gerst brotlegur gegn 91. gr. fjarskiptalaga nr. 70/2022, sbr. 48. gr. þágildandi fjarskiptalaga nr. 81/2003, sem sé þó ekki kvörtunarefni fyrir nefndinni, en gefi að mati sóknaraðila hugmynd um alvarleika brots varnaraðila. 

Telur sóknaraðili framangreind ummæli varnaraðila fyrir héraðsdómi, sýna að varnaraðili láti sér siðareglur lögmanna í léttu rúmi liggja og telji sig óbundinn af þeim.  

III. 

Skilja verður málatilbúnað varnaraðila sem svo að hann hafni kröfum sóknaraðila um að hafa gerst brotlegur gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Varnaraðili hafnar því að hafa gerst brotlegur gegn 1. mgr. 7. gr. siðareglna lögmanna og telur að atferli sitt hafi að öllu leyti verið í anda 1. og 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna.   

Varðandi þá bókun sem varnaraðili lagði fram í þinghaldi í máli héraðsdóms Reykjavíkur nr. […], bendir varnaraðili á að hann hafi réttilega bent á að dómurinn væri ekki bundinn af siðareglum lögmanna. Bókunin hafi verið lögð fram þar sem að lögmaður sóknaraðila byggði í téðu þinghaldi á siðareglum lögmanna sem málsástæðu gegn framlagningu hljóðupptökunnar og endurritsins í málinu. Kveðst varnaraðili sannarlega vera bundinn af siðareglum lögmanna í störfum sínum sem lögmaður og taki þær mjög alvarlega. Aðrir en lögmenn séu hins vegar óbundnir af siðareglunum, líkt og héraðsdómarar.  

Kveðst varnaraðili sérstaklega hafa ákvæði 1. og 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna í huga í öllum hans störfum, en þrátt fyrir orðalag ákvæðanna, telur varnaraðili ákvæðið ekki fela í sér almenna stefnuyfirlýsingu heldur grundvallarreglu sem beri að hafa ávallt í heiðri í störfum lögmanna.  

Um málsatvik vísar varnaraðila til þess að umbjóðanda hans hafi verið stefnt í málinu til að greiða sex mánaða húsaleigu á grundvelli leigufjárhæðar sem stefnandi hafi ákveðið einhliða, að því er virtist, auk sex mánaða til viðbótar vegna uppsagnarfrests. Að leigusamningur aðila hafi liðið undir lok mánaðarmótin maí/júní 2021, en umbjóðandi hans hafi haldið áfram að hagnýta húsnæðið til og með 26. júní 2021 og greitt leigu þann tíma. Mánaðarmótin júní/júlí 2021 hafi [D] ehf. á hafist handa við að rífa þakið ofan af þeim hluta húsnæðisins þar sem leigurými umbjóðandi varnaraðila var staðsett, auk þess sem öll klæðning og einangrun var rifin úr húsnæðinu. Kvað varnaraðila húsið með öllu ónothæft til jóla 2021, þ.e. á tímabili sem umbjóðandi varnaraðila var krafinn um húsaleigu vegna.  

Vísar varnaraðili til þess að leigusali hafi byggt á því fyrir dómi að ótímabundinn leigusamningur hefði komist á milli aðila og að stefndi hefði haldið áfram að hagnýta húsnæðið sbr. 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Að mati varnaraðila voru kröfur leigusalans óforskammaðar og settar fram af óheiðarleika og gegn betri vitund, en um það segi í dómsforsendum málsins að nægjanlega hafi verið leitt í ljós að fyrirsvarsmaður leigusala hafi vitað að umbjóðandi varnaraðila hefði ekkert nýtt leigurýmið eftir 26. júní 2021 og húsnæðið hafi verið með öllu ónothæft á því tímabili. Að sögn varnaraðila hefðu kröfur leigusalans verið umbjóðanda hans fjárhagslega ofviða, hefðu þær náð fram að ganga.  

Kveðst varnaraðili hafa rætt við sóknaraðila, sem var vitni í málinu, til að kanna hvað hann hefði um að vitna. Í því samtali hafi komið skýrt fram hvenær umbjóðandi varnaraðila flutti úr leigurýminu auk þess að húsnæðið hefði verið ónothæft frá þeim tíma fram að jólum 2021. Þá hafi einnig komið fram að sóknaraðili vildi halda fyrirsvarsmanni leigusala góðum því hann hefði ekki enn gert upp við sóknaraðila að fullu vegna verksins, sem var 34 milljóna króna framkvæmd.   

Vísar varnaraðili til þess að fulltrúi hans hafi síðan rætt símleiðis við sóknaraðila þann 16. júní 2022 og símtalið verið hljóðritað fyrir slysni á tölvu hans, án þess að ásetningur hafi staðið til þess. Rekur varnaraðili það til vankunnáttu fulltrúans á símkerfið, enda hafi fulltrúinn ekki verið búinn að starfa lengi hjá varnaraðila á þeim tíma. Kveðst varnaraðili þó ekki hafa talið það koma að sök m.t.t. upplýsingaskyldu gagnvart viðmælanda, þar sem augljóst hafi verið á upptökunni að símtalið „gæti verið hljóðritað“ af sóknaraðila sjálfum. Vísar varnaraðili til þess að meginregla þágildandi 48. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 áskildi að það væri nægjanlegt að þeim sem hringdi væri tilkynnt um að hann væri mögulega hljóðritaður svo báðir mættu hljóðrita símtalið, í samræmi við skilyrði Persónuverndar. Hljóðupptakan hafi því verið í símkerfinu, en aldrei hafi staðið til að nýta hana.  

Til vara, komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að umrædd meginregla 48. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 eigi ekki við byggir varnaraðili á að undantekningaregla 2. mgr. 48. gr. laganna eigi við. Vísar varnaraðili til þess að í lögskýringargögnum við umrætt undantekningarákvæði sé sérstaklega tekið fram að tilgangur þess sé að koma til móts við þarfir atvinnulífsins og hafi fjármálafyrirtæki verið sérstaklega nefnd í því sambandi. Að mati varnaraðila verði að telja lögmannsrekstur vera skyldan atvinnurekstur og fullkomlega sambærilegan við fjármálafyrirtæki; bæði sýsli með peninga viðskiptamanna og eru undirlagðar ströngu og skýru regluverki, svo sem tilkynningarskyldu vegna gruns um peningaþvætti, o.fl. Þá sé vilji löggjafans nokkuð skýr hvað þetta varðar.  

Kveðst varnaraðila hafa orðið ljóst þegar leið á aðalmeðferð málsins að afstaða sóknaraðila hefði breyst og lék um varnaraðila grunur að sóknaraðili væri fjárhagslega háður stefnanda málsins og að það hefði áhrif á það hvað sóknaraðili myndi bera um fyrir dómi. Sá grunur hafi síðan reynst á rökum reistum að sögn varnaraðila, enda verið talsvert ósamræmi í því sem sóknaraðili bar um fyrir dómi og því sem kom fram í umræddu símtali þann 16. júní 2022. Auk þess sem sóknaraðili hafi að sögn varnaraðila upplýst fyrir um að hafa verið að vinna fleiri verki fyrir fyrirsvarsmann leigusala fyrir dóminum. Telur varnaraðili að leiða mega af því líkur á að misræmið hefði orðið enn meira ef ekki hefði verið fyrir framlagningu umræddrar hljóðupptöku. Taldi varnaraðili greinilegt að sóknaraðili, sem var lykilvitni í málinu að mati varnaraðila, væri mjög fjárhagslega háður fyrirsvarsmanni stefnanda og að framburður sóknaraðila fyrir dómi hafi litast mjög af þeirri staðreynd. Þá hafi jafnframt komið fram við aðalmeðferð málsins að lögmaður stefnanda hafi hringt í eitt vitnið og reynt að hafa áhrif á framburð vitnisins í andstöðu við 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.  

Telur varnaraðili óeðlilegt að stefnandi í dómsmálinu og sóknaraðili, sem eitt lykilvitni þess, séu í viðskiptum hjá sömu lögmannsstofu. Þykir varnaraðila slíkt benda til þess að aðilarnir eigi svipaðra hagsmuna að gæta.  

Kveðst varnaraðili hafa lent í erfiðri aðstöðu er honum varð ljós breytt afstaða sóknaraðila sem vitnis í málinu. Við það tilefni hafi skarast á skyldur hans annars vegar samkvæmt 1. mgr. 7. gr. siðareglna lögmanna og hins vegar samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna. Taldi varnaraðili mögulegt að sóknaraðili myndi bera ljúgvitni fyrir dómi sem gæti leitt til þess að málið tapaðist ranglega. Sökum þess taldi varnaraðili að 1. gr. siðareglna lögmanna vægi þyngra en 1. mgr. 7. gr. eins og atvikum var háttað, enda brýnar aðstæður til staðar svo órétti væri hrint og hið sanna leitt í ljós í málinu. Þá hafi legið fyrir að hljóðupptakan væri í samræmi við 48. gr. þágildandi fjarskiptalaga nr. 81/2003, þannig hafi varnaraðili metið það sem svo að hann væri innan þess ramma sem 1. mgr. 7. gr. siðareglna lögmanna setur.  

Byggir varnaraðili á að framangreint megi horfa á með lögjöfnun við meginreglu sakamálaréttarfars um að heimilt sé að leggja fram sönnunargögn í sakamáli þótt láðst hafi að afla heimildar fyrir öflun þeirra, svo hægt sé að leiða hið rétta í ljós. Ítrekar varnaraðili að meginhlutverk lögmanna sé að efla rétt og hrinda órétti.  

Vísar varnaraðili til þess að í aðdraganda aðalmeðferð málsins þann 24. október 2022, hafi fulltrúi hans sent lögmanni sóknaraðila tölvupóst að kvöldi 16. október 2022 þar sem hann upplýsti lögmanninn um tilvist hljóðupptökunnar, sendi afrit af henni og endurrit og upplýsti um að hún yrði lögð fram sem dómskjal í málinu. Daginn eftir, þann 17. október 2022 hafi yfirmaður lögmanns sóknaraðila hringt fyrst í fulltrúa varnaraðila og í kjölfarið haft samband beint við varnaraðila. Að sögn varnaraðila viðhafði lögmaðurinn svívirðingar og hótanir í garð varnaraðila í símtalinu sem samrýmist ekki 1. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna.  

Lýsir varnaraðili því að dómari málsins hafi þá boðað til aukaþinghalds þann 19. október 2022 þar sem yfirmaður lögmanns sóknaraðila, hafi sakað varnaraðila um skjalafölsun, sem hann hafði jafnframt gert í tölvupóstsamskiptum þeirra á milli og við dómara dagana á undan. Nánar tiltekið að dómskjal í málinu sem varnaraðili lagði fram fyrir hönd umbjóðanda hans væri falsað. Um var að ræða skjáskot af símskeytum milli málsaðila. Kom að sögn varnaraðila á daginn að ósamræmi væri í skilaboðum í síma málsaðila, líkt og að viðtakandinn hefði eytt út hluta þeirra. Vísar varnaraðili til forsendna dómsins þar sem var kveðið á um að: „Að mati dómsins hefur stefnandi ekki fært neinar sönnur á að skjáskot af farsíma fyrirsvarsmanns stefnda sé fölsuð. Þótt þessi samskipti finnist ekki í samskiptum fyrirsvarsmanns stefnanda og stefnda, eins og þau birtast í farsíma fyrirsvarsmanns stefnanda, telur dómurinn stefnanda ekki hafa fært óyggjandi sönnur á að fyrirsvarsmaður hans hafi ekki borist skilaboðin. Því verður lagt til grundvallar niðurstöðu dómsins að þau hafi borist honum.“  

Telur varnaraðila að horfa verði á orð dómsins með upphafsorð 1. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna í huga. Vísar varnaraðili til þess að sú háttsemi að leggja fram fölsuð sönnunargögn í dómsmáli í því skyni að hafa áhrif á úrslit dómsmáls varði við fangelsisrefsingu allt að tveimur árum. Því hafi ásakanirnar sem lögmaðurinn bar á varnaraðila verið alvarlegar. Kveðst varnaraðili hafa krafist þess að dómari ávítti lögmann stefnanda vegna þessa en dómari málsins beint því til lögmanna að útkljá það mál fyrir LMFÍ.  

Kveður varnaraðili umbjóðanda sinn því hafa falið honum að leggja fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna gagnvart þeim lögmanni.  

Þá bendir varnaraðili á að hann hafi fengið tölvupóst frá lögmanni stefnanda í málinu, þann 1. nóvember 2022 þar sem lagt var til að aðilar sættu sínar deilur og óskað var eftir sáttatillögu. Kveðst varnaraðili hafa boðið fram afsökunarbeiðni en því erindi aldrei verið svarað. Telur varnaraðili ljóst að lögmaðurinn hafi verið að leitast eftir peningagreiðslu gegn því að málið yrði fellt niður af hálfu sóknaraðila. Slíkt telur varnaraðili vera á mörkum fjárkúgunar.  

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar áréttar sóknaraðili að fulltrúi varnaraðila hafi hljóðritað símtalið þeirra á milli með ólögmætum hætti. Jafnframt að hann hafi í framhaldinu lagt hljóðupptökuna fyrir dómi í trássi við siðareglur og almenn lög. Þá hafi varnaraðili í greinargerð til nefndarinnar gert tilraun til þess að villa um og/eða fegra gjörðir sínar. Telur sóknaraðili flest það sem fram kemur í greinargerð varnaraðila ekki eiga erindi fyrir úrskurðarnefndinni og það mál sem sé til umfjöllunar.  

Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi sýnt af sér algjört þekkingarleysi á siðareglum lögmanna. Áréttar varnaraðili að 7. gr. siðareglna lögmanna sé skýr um að hljóðritun sé bönnuð, án vitundar hlutaðeigandi. Hafnar sóknaraðili málatilbúnaði varnaraðila um hvernig það kom til að símtalið var hljóðritað sem röngum og villandi. Þá bendir sóknaraðili á að það sé eitt, að umrætt símtal hafi verið hljóðritað en annað að hljóðupptakan hafi síðan verið notuð í dómsmáli. Í 7. gr. siðareglna lögmanna sé beinlínis bannað að lögmaður noti slíkar upptökur sem sönnunargagn í dómsmáli. Bendir sóknaraðili á að samkvæmt greinargerð varnaraðila hafi hann talið sig óbundinn af ákvæðinu vegna uppkominna aðstæðna.  

Hafnar sóknaraðili öllum ásökunum varnaraðila í hans sem röngum. Sóknaraðili kveðst hafa verið boðaður sem vitni í einkamáli, en varnaraðili því ákveðið að reyna að hagnýta sér hina ólögmætu hljóðupptöku símtalsins.  

Vegna málatilbúnaðar varnaraðila þess efnis að hann hafi þurft að leggja hljóðupptökuna fram í dómsmálinu því sóknaraðili hafi breytt aðstöðu sinni til sakarefnis málsins bendir sóknaraðili á að hljóðupptakan og endurrit hennar voru lögð fram áður en sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dómi. Telur sóknaraðili ómögulegt fyrir sóknaraðila að vita á þeim tímapunkti hvernig sóknaraðili myndi síðar svara spurningum fyrir dómi. Byggir sóknaraðili á að ekkert hafi gefið til kynna að hann ætlaði sér að vitna um atvik með einum eða öðrum hætti fyrir dómi. Skorar sóknaraðili  á varnaraðila að leggja fram gögn til stuðnings þeim málatilbúnaði hans.  

Telur sóknaraðili framgöngu varnaraðila sanna að varnaraðila skortir þekkingu á siðareglum lögmanna og tilgangi þeirra. Vísar sóknaraðili til þess að í greinargerð varnaraðila telji hann hljóðritunina uppfylla öll skilyrði almennra laga og af þeim sökum hafi hann mátt standa að hljóðrituninni og leggja hann fram í dómi. Því mótmælir sóknaraðili alfarið. Jafnframt virðist sóknaraðila sem að varnaraðili reyni að réttlæta háttsemi sína með því að halda því fram að með lögjöfnun megi beita sannleiksreglunni úr lögum um meðferð sakamála í ágreiningi sem lýtur réttarfarsreglum laga um meðferð einkamála. Því mótmælir sóknaraðili einnig og bendir á að sannleiksreglan sé ekki hluta af einkamálaréttarfari, þar sem málsforræðisreglan og útilokunarreglan gildi.   

Vísar sóknaraðili til þess að það mál sem varnaraðili geri skil í greinargerð sinni, sé honum alfarið óviðkomandi, enda hafi sóknaraðili ekki verið aðili að því. Þá eigi lýsingar varnaraðila á störfum yfirmanns lögmanns sóknaraðila, ekkert erindi í máli þessu. Auk þess feli þær í sér alvarlegar aðdróttanir og dylgjur í garð lögmanns sem á ekki aðild að máli þessu.  

Vegna umfjöllunar varnaraðila um samskipti sóknaraðila og lögmanns hans, kveðst lögmaður sóknaraðila hafa sinnt nokkrum málum fyrir sóknaraðila og gert sóknaraðila grein fyrir þessum hagsmunaárekstri þegar hann fékk vitneskju um skýrslugjöf sóknaraðila í dómsmálinu sem yfirmaður sóknaraðila rak fyrir stefnanda málsins.  

Vekur sóknaraðili sérstaklega athygli á að honum varði ekkert um ofangreint einkamál eða samskipti lögmanna á milli, sem varnaraðili fjalli um í greinargerð til nefndarinnar.  

Upplýsir lögmaður sóknaraðila um að hafa lagt fram kæru á hendur varnaraðila og fulltrúa hans til Fjarskiptastofu fyrir hönd sóknaraðila, þann 31. október 2022, en að honum hafi borist athugasemdir varnaraðila og fulltrúa hans til Fjarskiptastofu í kjölfarið.  

Leggur sóknaraðili þær athugasemdir fram með viðbótaathugasemdum sínum til nefndarinnar. Mótmælir sóknaraðili því sem þar komi fram annars vegar um að varnaraðili hafi kynnt honum að símtalið kynni að vera hljóðritað og hins vegar að tilraunum fulltrúa varnaraðila til að firra sig ábyrgðar að hann sem fulltrúi varnaraðila geti ekki borið persónulega ábyrgð vegna kvörtunarinnar.  

Byggir sóknaraðili á að varnaraðili og fulltrúi hans hafi brotið gróflega á sér. Er það mat sóknaraðila að varnaraðili skeyti engu um siðareglur lögmanna.  

Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi brotið með vítaverðum og vísvitandi hætti á siðareglum lögmanna, enda komi fram í greinargerð varnaraðila til nefndarinnar að varnaraðili hafi meðvitað ákveðið að fara á svig við siðareglur lögmanna. Sóknaraðili áréttar kröfu sína um að varnaraðila verði gert að sæta sviptingu réttinda.  

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar hann margt það sem fram kom í greinargerð hans til nefndarinnar. Telur varnaraðili viðbótarathugasemdir sóknaraðila til nefndarinnar að mestu fela í sér persónuníð gagnvart varnaraðila og fulltrúa hans.  

Varnaraðili leggur fram endurrit vitnisburðar sóknaraðila fyrir héraðsdómi í umræddu dómsmáli og kveður að af samanburði þess framburðar og hljóðupptökunnar af símtalinu megi sjá ósamræmi og telur varnaraðili sóknaraðila ekki hafa svarað sannleikanum samkvæmt fyrir dómi. Vísar sóknaraðili til tiltekinna hluta símtalsins, t.d. þegar sóknaraðili segir fyrirsvarsmann stefnanda í málinu eiga eftir að gera upp við hann og sóknaraðili kveðst vera tilbúinn að hjóla í hann á fullu ef hann geri ekki upp við hann. Fyrir dómi hafi sóknaraðili aftur á móti reynt að snúa út úr er hann var spurður út í þetta atriði. Jafnframt hafi sóknaraðili í símtalinu staðfest að leigurýmið hafi verið ónothæft vegna framkvæmda á vegum leigusalans á sex mánaða tímabili, frá lokum júní 2021 til jóla 2021, sem og að fullyrða að ekkert dót frá umbjóðanda varnaraðila hafi verið þar inni. Til móts hafi sóknaraðili gefið í skyn fyrir dómi að umbjóðandi varnaraðila hafi ekki verið búinn að rýma leigurýmið sem deilt var um í málinu og reynt að draga úr fyrri frásögn um hvort húsnæðið hafi verið nothæft. Þá hafi fyrirsvarsmaður stefnanda skýrt svo frá fyrir dómi að sóknaraðili og fyrirtæki hans, [D] ehf., væru að vinna í fleiri verkum fyrir hann en sóknaraðili hins vegar þverneitað fyrir það í fyrstu, en síðan dregið í land þegar gengið var á hann með misræmið.  

Þá fjallar varnaraðili nánar um þær athugasemdir sem hann hafði uppi í garð yfirmanns lögmanns sóknaraðila í greinargerð. Telur varnaraðili fullt tilefni fyrir nefndina til að skoða það af sjálfsdáðum, enda mögulega um að ræða mjög alvarlegt brot á 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna, sem og 1. og 2. mgr. 1. gr. reglnanna. 

Með hliðsjón af öllu ofangreindu telur varnaraðili að leiða megi líkur að því að sóknaraðili hafi hugsanlega verið undir þrýstingi til að bera vitni fyrir dómi á ákveðinn hátt. Kveðst varnaraðili hafa talið slíkt mögulegt í ljósi breyttrar hegðunar sóknaraðila fyrir aðalmeðferð málsins. Þá þótti varnaraðila framkoma og hegðun beggja lögmanna stefnanda undir rekstri málsins, þ.e. lögmanns sóknaraðila og yfirmanns hans, gefa varnaraðila fullt tilefni til að ætla að sú kynni að vera raunin. Virðist varnaraðila það einmitt hafa orðið raunin þegar uppi er staðið og vísar hann til endurrits símtalsins og vitnisburðar sóknaraðila fyrir dómi því til stuðnings.  

Telur varnaraðili umrædda hegðun lögmannanna ganga í berhögg við ákvæði 25. gr., 27. gr., 30. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna.  Vísar varnaraðili til þess að það sé frumskylda lögmanna að efla rétt og hrinda órétti, sbr. 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna. Taldi varnaraðili sig því nauðbeygðan að leggja fram fyrir dómi umrætt símtal sem kvörtun málsins snýst um. Bendir varnaraðili á að með framlagningunni hafi sóknaraðili verið settur í þá stöðu að geta ekki borið ljúgvitni fyrir dómi.  

Að framanvirtu ítrekar varnaraðili mótmæli hans um að hafa gerst brotlegur gegn 1. mgr. 7. gr. siðareglnanna og telur varnaraðili að atferli sitt hafi verið að öllu leyti í anda 1. og 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna. 

Niðurstaða 

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. Vísast jafnframt um þetta til 2. tölul. 3. gr. og 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. 

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna áðurlýstrar háttsemi varnaraðila og fulltrúa varnaraðila sem fólst í að hljóðrita símtal milli fulltrúa varnaraðila og sóknaraðila og leggja þá hljóðupptöku fram í dómsmáli sem sóknaraðili var hafði verið kvaddur til að gefa vitnaskýrslu í, án vilja og vitneskju sóknaraðila.  

Samkvæmt 7. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki, án samþykkis hlutaðeigandi, hljóðrita eða taka upp í mynd, samskipti manna á milli svo sem samtöl, símtöl, fundi eða aðrar viðræður, hvort sem lögmaðurinn er sjálfur þátttakandi í þeim eða ekki. Upptökur sem aflað hefur verið í andstöðu við 1. málsl. þessarar málsgreinar má ekki nota sem sönnunargögn í dómsmálum. 

Samkvæmt 3. málsl. 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, hafi hann samband við vitni, að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins. 

Líkt og greinir í málsatvikalýsingu að framan hringdi fulltrúi varnaraðila í sóknaraðila þann 16. júní 2022 og ræddi þar við hann um atriði sem lutu að ágreiningsefni áðurnefnds dómsmáls. Var símtalið hljóðritað í símakerfi varnaraðila án þess að sóknaraðili væri varaður við því og lagði varnaraðili hljóðupptöku símtalsins síðar fram í téðu dómsmáli ásamt endurriti símtalsins.  Með framangreindri háttsemi, sem fólst í því annars vegar að hljóðrita símtalið milli fulltrúa varnaraðila og sóknaraðila, án þess að afla samþykkis sóknaraðila eða upplýsa hann sannanlega um að símtalið kynni að vera hljóðritað og hins vegar að leggja hljóðupptökuna fram í dómsmáli, hefur varnaraðili gerst brotlegur gegn skýlausu ákvæði 1. mgr. 7. gr. siðareglna lögmanna. Komst Fjarskiptastofa að því í ákvörðun […] að hljóðritunin hafi verið andstæð þágildandi fjarskiptalögum nr. 81/2003. Ákvæði 7. gr. siðareglnanna er afdráttarlaus bannregla og verður ekki fallist á það með varnaraðila að sú háttsemi hans hafi verið réttlætanleg eftir aðstæðum. Þykir sú háttsemi varnaraðila jafnframt ekki samrýmast tillitsskyldum lögmanns gagnvart vitni í skilningi 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.  

Að framanvirtu er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Með þeim brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.  

Það athugast að varnaraðili hefur borið því við í málinu að störf annars lögmanns sem tengsl hafi við málið hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus varnaraðili að lýsa hinum ætluðu brotum að þessu leyti í greinargerð með andsvörum og viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður varnaraðila að því leyti því ekki til úrlausnar í málinu.  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu. 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Kristinn Bjarnason, formaður  

Einar Gautur Steingrímsson 

Valborg Þ. Snævarr 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

 

________________________ 

Arnar Vilhjálmur Arnarsson