Mál 4 2022

Mál 4/2022

Ár 2022, miðvikudaginn 25. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. janúar 2022 erindi sóknaraðila, A, sem lýtur að kvörtun í garð varnaraðila, B lögmanns, vegna ætlaðrar háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 26. janúar 2022 og barst hún þann 18. febrúar sama ár. Var sóknaraðila send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 21. febrúar 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins  bárust til nefndarinnar þann 11. mars 2022 en viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 20. apríl sama ár. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila eftir þann tíma og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort háttsemi varnaraðila í störfum fyrir C vegna málefna D ehf. hafi brotið í bága við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að umbjóðandi varnaraðila sé eigandi 50% hlutafjár í D ehf. en að sóknaraðili sé eigandi annarra hluta í félaginu. Jafnframt því liggur fyrir að umbjóðandi varnaraðila var skráður framkvæmdastjóri félagsins uns tilkynnt var um breytingu þar á þann 9. september 2020. Frá þeim tíma mun sóknaraðili hafa verið eini stjórnarmaður félagsins, framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Ágreiningur aðila um hvort fyrrgreind tilkynning um breytingu á framkvæmdastjórn hafi verið lögmæt fellur utan sakarefnis málsins.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þá lýtur kvörtun sóknaraðila að tveimur atvikum í hagsmunagæslu og störfum varnaraðila. Er þannig annars vegar ágreiningur um hvort framganga varnaraðila í tölvubréfasamskiptum við E, sem mun hafa annast færslu bókhalds fyrir D ehf., dagana 1. – 3. febrúar 2021 hafi verið andstæð lögum eða siðareglum lögmanna. Eru tilgreind tölvubréfasamskipti á meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Hins vegar er ágreiningur um hvort starfshættir varnaraðila við rekstur héraðsdómsmálsins nr. X-xxxx/20xx hafi verið andstæðir lögum eða siðareglum lögmanna, en þar annaðist varnaraðili hagsmunagæslu í þágu C vegna kröfu stjórnar D ehf. um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Nánar tiltekið lýtur kvörtun sóknaraðila að eftirfarandi efni í greinargerð þeirri sem varnaraðili vann í þágu umbjóðanda síns og lagði fram á dómþingi í fyrrgreindu héraðsdómsmáli þann x. maí 20xx:

Hefur stjórnarformaður tekið fé af bankareikningum félagsins og vörubirgðir án nokkurra heimilda ásamt öðrum ráðstöfunum sem varnaraðili hefur kært til lögreglu þar sem málið er komið á ákærusvið.

Í framhaldi af framlagningu fyrrgreindrar greinargerðar mun lögmaður sóknaraðila hafa óskað eftir upplýsingum hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um hvort kæra hefði borist og ef svo væri hvar málið væri statt innan lögreglunnar. Í svari embættisins við þeirri fyrirspurn, dags. 31. maí 2021, var upplýst að rétt væri að sóknaraðila hefði verið kærður til lögreglu vegna málefna D ehf. Málið væri hins vegar ekki komið á ákærusvið heldur biði það úthlutunar til rannsóknarlögreglumanns.

Varnaraðili hefur upplýst að fyrrgreint efni í greinargerð til héraðsdóms hafi byggt á upplýsingum sem hann hafi fengið símleiðis frá lögreglu. Upplýsingar frá lögreglu hafi reynst rangar um það að málið væri komið á ákærusvið og hafi allir hlutaðeigandi aðilar að héraðsdómsmálinu nr. X-xxxx/20xx verið meðvitaðir um það. Þá hafi það efni enga þýðingu haft í málinu, þ.e. hvort kæruefni gagnvart sóknaraðila væri til rannsóknar hjá lögreglu eða hvort það væri komið á ákærusvið.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur x. nóvember 20xx í máli nr. X-xxxx/20xx var kröfu D ehf. hafnað um að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var sú niðurstaða grundvölluð á eftirfarandi forsendum, en úrskurðurinn mun ekki hafa sætt kæru til Landsréttar:

Af fyrirliggjandi gögnum, málatilbúnaði varnaraðila og því sem fram er komið um afstöðu fyrirsvarsmanns sóknaraðila verður ráðið að mál þetta snýst í raun um ágreining eiganda sóknaraðila, sem hvor um sig er eigandi helmingshlutar, um fjárhagsmálefni tengd félaginu. Fyrir liggur að fáum vikum áður en annar eigendanna sem á einn sæti í stjórn félagsins setti fram beiðni fyrir þess hönd um að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta höfðu átt sér stað þreifingar milli eigendanna um að annar þeirra myndi kaupa hinn út úr félaginu og að í þeim þreifingum hafi þeir verið sammála um að nettóvirði helmingshlutar næmi einhverjum milljónum króna. Þá liggur sömuleiðis fyrir að eigendur sóknaraðila hafa deilt um stjórnun félagsins og lögmæti hluthafafunda og m.a. vísað erindum sem þetta varða til úrlausnar atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis. Þá er og óumdeilt með aðilum að meint ógjaldfærni sóknaraðila varðar m.a. óinnheimtar kröfur á eigenda. Við þessar aðstæður verður ekki á það fallist að skilyrði séu til að taka sóknaraðila til gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli sem sóknaraðili krefst í þessu máli, heldur verða eigendur félagsins, ef þeir geta ekki náð samkomulagi um framtíð þess, að fara að ákvæðum samþykkta þess um slit á félaginu eða skipti. Með vísan til þessa og að öðru leyti með vísan til gagna málsins verður talið að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á skilyrði séu til þess eftir ákvæðum laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sóknaraðila sem móttekið var þann 20. janúar 2022.

II.

Að mati nefndarinnar verður að leggja þann skilning í málatilbúnað sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. sömu laga.

Sóknaraðili vísar til þess að kvörtun sé beint að framgöngu varnaraðila og kröfum hans um að þriðji aðili afhendi gögn sem sá aðili hafi ekki haft heimild til að afhenda. Jafnframt því hafi varnaraðili beitt viðkomandi þriðja aðila þrýstingi og haft í hótunum við hann. Þá lýsir sóknaraðili því að kvörtun varði jafnframt lygar varnaraðila, gegn betri vitund, fyrir dómi sem geti haft áhrif á niðurstöðu dómara í öðru máli.

Sóknaraðili byggir á að framganga varnaraðila hafi verið með þeim hætti að hún geti ekki talist til vandaðrar lögmennsku þar sem varnaraðila hljóti að hafa verið ljóst að viðkomandi þriðji aðili hefði ekki heimild til að framkvæma fyrirmæli varnaraðila. Hafi varnaraðili þannig haft í hótunum og krafist þess að látið yrði undan honum „núna strax“. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi ýjað að því við tilgreindan þriðja aðila að hann virti ekki hlutleysi og færi ekki að lögum og reglum. Hafi þar verið um algjörlega tilhæfulausar ásakanir á hendur vammlausri konu að ræða sem ekki hafi verið beinn aðili máls sem varnaraðili hafi tekið að sér og beitt sér af mikilli hörku í.

Nánar tiltekið kveðst sóknaraðili annars vegar kvarta yfir ógnandi og óréttmætum kröfum varnaraðila í tölvubréfum dagana 1. – 3. febrúar 2021. Hafi varnaraðili í tilgreindum tölvubréfum gert kröfu um að bókari D ehf. myndi afhenda nánar tilgreind bókhaldsgögn sem viðkomandi hafi ekki haft heimild til. Þá hafi bókarinn ekki haft nokkra upplýsingaskyldu gagnvart þeim aðila sem varnaraðili hafi komið fram fyrir.

Sóknaraðili kveðst óska álits nefndarinnar á því hvort varnaraðili hafi brotið gegn 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna með efni tölvubréfanna. Lýsir sóknaraðili því jafnframt að umbjóðandi varnaraðila hafi ekki verið framkvæmdastjóri D ehf. á þeim tíma sem varnaraðili hafi beitt sér hvað harðast. Hafi umbjóðanda varnaraðila þannig verið vikið frá störfum vegna alvarlegs refsiverðs athæfis þegar varnaraðili kom að hagsmunagæslu í málinu.

Hins vegar lýtur kvörtun sóknaraðila að því að varnaraðili hafi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sagt vísvitandi ósatt um stöðu máls sem kært hafði verið til lögreglu. Hafi varnaraðili þannig fullyrt ranglega að kærumálið væri statt á ákærusviði lögreglunnar. Bendir sóknaraðili á að málið hafi hvorki á þeim tíma né nú verið rannsakað og sé með öllu óljóst hvort af rannsókn verði. Lýsir sóknaraðili því að það hljóti að teljast alvarlegt mál og vonandi einsdæmi að lögmaður ljúgi að dómara í réttarsal.

Sóknaraðili lýsir því að kvörtunarefni þetta varði eftirfarandi efni í greinargerð sem varnaraðili lagði fram fyrir hönd umbjóðanda síns fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. X-xxxx/20xx:

Hefur stjórnarformaður tekið fé af bankareikningum félagsins og vörubirgðir án nokkurra heimilda ásamt öðrum ráðstöfunum sem varnaraðili hefur kært til lögreglu þar sem málið er komið á ákærusvið.

Sóknaraðili lýsir því að rétt sé að umbjóðandi varnaraðila hafi kært sig til lögreglu. Sé efni kærunnar uppspuni frá rótum sem verði mætt ef þurfa þykir. Fyrir liggi hins vegar samkvæmt tölvubréfi frá viðkomandi lögreglustjóraembætti, dags. 31. maí 2021, að málið var þá ekki statt á ákærusviði eins og varnaraðili hafði ranglega lýst í greinargerð til héraðsdóms. Kveðst sóknaraðili því óska álits nefndarinnar á því hvort varnaraðili hafi brotið 20. gr. siðareglna lögmanna með því að segja ósatt fyrir dómi um stöðu kærunnar.

Sóknaraðili byggir á að allt yfirbragð vinnubragða varnaraðila beri vott um óvandaða lögmannshætti. Gefi þau atvik sem kvartað sé yfir góða mynd af vinnubrögðum hans og alvarleika brotanna, þótt þau séu ekki tæmandi talin. Krefst sóknaraðili þess því að varnaraðili verði gert að sæta áminningu fyrir háttsemi sína.

Í málinu liggja jafnframt fyrir ítarlegar viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málatilbúnaðar varnaraðila fyrir nefndinni. Bendir sóknaraðili þar á að greinargerð varnaraðila sé uppfull af rógburði, rangfærslum og ósannindum. Þar sem þau atvik lúta að mestu að innbyrðis efnislegum ágreiningi á milli hluthafa í D ehf. en ekki að sakarefni máls þessa fyrir nefndinni þykir ekki ástæða til að reifa sérstaklega það efni umfram það sem áður er lýst varðandi málatilbúnað sóknaraðila.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili kveðst hafna alfarið ásökunum og ávirðingum sóknaraðila og byggir á að hann hafi annast hagsmunagæslu í þágu síns umbjóðanda í samræmi við lög og siðareglur lögmanna. Sé ljóst að sóknaraðili hafi ráðist að mannorði varnaraðila með algjörlega órökstuddum hætti.

Í málatilbúnaði varnaraðila er gerð að nokkru grein fyrir þeirri hagsmunagæslu sem hann hefur sinnt fyrir hönd umbjóðanda síns sem mun vera helmingseigandi í fyrirtækinu D ehf. á móti sóknaraðila. Er jafnframt lýst þeim innbyrðis deilum hluthafa sem átt hafa sér stað á umliðnum misserum og aðkomu varnaraðila að hagsmunagæslu því tengdu.

Varnaraðili byggir á að málatilbúnaður sóknaraðila eigi sér ekki stoð og mótmælir þeim kvörtunarefnum sem að honum er beint.

Annars vegar hafnar varnaraðili því alfarið að það hafi ekki verið eðlilegt og nauðsynlegt fyrir hagsmuni umbjóðanda hans, í ljósi allra aðstæðna, að krefjast þess að fá bókhaldsgögn frá bókara D ehf. Á grundvelli hagsmunagæslunnar hafi varnaraðili þannig fyrir hönd umbjóðandans óskað eftir að fá bókhald félagsins frá bókara þess. Hafi það verið gert svo umbjóðanda varnaraðila væri unnt að rækja lögbundið hlutverk sitt sem framkvæmdastjóri félagsins, sbr. 4. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hafi umbjóðandinn, sem framkvæmdastjóri félagsins, ítrekað og lengi óskað eftir bókhaldsgögnum og að ársreikningur yrði kláraður. Þá hafi umbjóðandi varnaraðila hafnað því frá upphafi að staðið hafi verið lagalega rétt að uppsögn hans sem framkvæmdastjóra félagsins og umbjóðandinn því borið skylda auk ábyrgðar til að ganga eftir að fá þessi gögn.

Varnaraðili bendir einnig á að það hafi verið viðtekin og samþykkt venja frá upphafi samstarfs í viðkomandi félagi, þar sem báðir hluthafar hafi átt 50% eignarhlut hvor, að algjört jafnræði væri milli hluthafa án tillits til formlegrar stöðu. Hafi þannig báðir hluthafar getað fengið allar þær upplýsingar sem þeir hafi óskað eftir um bókhaldið, bankareikninga eða aðrar greiðslur. Jafnframt því liggi fyrir að umbjóðandi varnaraðila hafi verið framkvæmdastjóri og eigandi helmings hlutafjár í félaginu. Eigi slíkur aðili rétt til aðgangs að bókhaldsgögnum þegar stjórn félags neiti í marga mánuði að verða við lögboðinni skyldu að boða til hluthafafundar, óeðlilegar úttektir séu af bankareikningum félagsins, innbrot hafi átt sér stað í vörulager þess og lager hefur verið færður yfir í annað félag.

Varnaraðili vísar til þess að umbjóðandi hans hafi haft verulegar áhyggjur af stöðu mála hjá félaginu, ekki síst í ljósi lagalegrar ábyrgðar hans. Hafi hann því talið nauðsynlegt að fá bókhaldsgögn til að sjá hvað væri að gerast í félaginu, sérstaklega í ljósi þeirra litlu upplýsinga sem umbjóðandinn hafi getað séð og voru óeðlilegar. Af þeim sökum hafi umbjóðandi varnaraðila ákveðið að kæra sóknaraðila til lögreglu.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili verði að svara því hvernig hægt sé að lesa einhverja hótun eða ásökun úr þeim tölvubréfum varnaraðila sem kvartað sé yfir. Sé hér um algjörlega tilhæfulausar ásakanir að ræða.

Hins vegar bendir varnaraðili á að kvörtun í málinu sé fráleit í alla staði og í raun ekki svaraverð, hvað þá að varnaraðili hafi sagt eitthvað vísvitandi ósatt í dómsal sem haft hafi einhver áhrif á úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X-xxxx/20xx.

Varnaraðili bendir á að umþrætt efni í greinargerð sem lögð var fram í héraðsdómsmálinu nr. X-xxxx/20xx hafi byggt á upplýsingum frá lögreglu. Hafi lögregla þannig veitt varnaraðila þær upplýsingar í síma að viðkomandi mál væri komið á ákærusvið. Hafi varnaraðili tekið þær upplýsingar trúanlegar og gildar. Hafi það efni verið sett í greinargerð af bestu vitund til að upplýsa dóminn um stöðu mála samkvæmt svari lögreglu. Þegar lögmaður sóknaraðila hafi upplýst varnaraðila í fyrirtöku þann x. júní 20xx að málið væri ekki komið á ákærusvið hafi sú fullyrðing verið könnuð og tölvubréf sent til aðstoðarsaksóknara þann x. sama mánaðar. Hafi þá verið staðfest að rangar upplýsingar hefðu verið veittar varnaraðila um stöðu kærumálsins.

Bendir varnaraðili samkvæmt því á að í dómsmálinu hafi verið upplýst og á allra vitorði að málið væri ekki komið á ákærusvið enda um misskilning að ræða. Samkvæmt því hafnar varnaraðili því að hann hafi í störfum sínum brotið gegn 20. gr. siðareglna lögmanna. Hafi þannig verið um að ræða málavexti í dómsmáli sem settir voru fram í greinargerð samkvæmt beinum upplýsingum frá lögreglu. Eðlilegt hafi verið fyrir varnaraðila að ganga að því sem vísu að upplýsingarnar væru réttar. Sé því fráleitt að halda því fram að varnaraðili hafi gefið dómstólum vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar.

Varnaraðili vísar aukinheldur til þess að engu hafi skipt fyrir hagsmuni eða nokkuð annað varðandi dómsmálið hvort kærumál umbjóðanda hans hjá lögreglu gegn sóknaraðila væri á rannsóknarstigi eða ákærustigi. Sé ljóst að varnaraðili hafi alls ekki af ásetningu eða vísvitandi brotið gegn 20. gr. siðareglnanna. Þá liggi fyrir að allir hlutaðeigandi aðilar að dómsmálinu voru upplýstir og meðvitaðir um stöðu kærumálsins hjá viðkomandi lögreglustjóraembætti.

Samkvæmt því mótmælir varnaraðili því í heild sinni að hann hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gögn lögum eða siðareglum lögmanna.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í III. kafla siðareglna lögmanna er mælt fyrir um samskipti lögmanna og dómstóla. Er þar tiltekið í 20. gr. að lögmaður megi aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Í V. kafla siðareglnanna er svo kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er því þar lýst í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá er tiltekið í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en því er jafnframt lýst í greininni hvað telst meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi.

II.

Svo sem fyrr greinir lýtur kvörtunarefni sóknaraðila annars vegar að því að framganga varnaraðila í tölvubréfasamskiptum við bókara D ehf. dagana 1. – 3. febrúar 2021 hafi verið andstæð siðareglum lögmanna, sbr. einkum 34. og 35. gr. þeirra. Þannig hafi varnaraðili krafist gagna sem viðkomandi aðili hafi ekki haft heimild til að afhenda. Þá hafi varnaraðili ennfremur í samskiptunum beitt þrýstingi og haft í hótunum.

Um þetta efni er þess að gæta að sóknaraðili var ekki aðili að þeim umþrættu samskiptum sem kvörtunarefnið tekur til heldur voru þau milliliðalaus á milli varnaraðila annars vegar og sjálfstætt starfandi bókara hins vegar. Að mati nefndarinnar verður málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti heldur ekki skilin með öðrum hætti en að hin ætlaða brotalega háttsemi varnaraðila hafi beinst gegn tilgreindum bókara en ekki sóknaraðila persónulega. Lýtur kvörtunarefnið þannig að atvikum er varða samskipti varnaraðila við þriðja mann en ekki að því að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila svo sem áskilið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því, sem og með hliðsjón af efni hinna umþrættu tölvubréfa sem varnaraðili sendi dagana 1. – 3. febrúar 2021, verður ekki talið að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila í skilningi fyrrgreinds ákvæðis vegna þess kvörtunarefnis sem hér um ræðir.

Kvörtunarefni sóknaraðila gagnart varnaraðila lýtur hins vegar að því að varnaraðili hafi við rekstur málsins nr. X-xxxx/20xx fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sagt vísvitandi ósatt um stöðu máls sem kært hafi verið til lögreglu. Hafi varnaraðili þannig tiltekið í greinargerð til dómsins að umbjóðandi hans hefði kært sóknaraðila til lögreglu fyrir nánar tilgreinda háttsemi en ranglega fullyrt einnig að málið væri statt á ákærusviði viðkomandi embættis. Hið rétta sé að rannsókn málsins hafi þá enn ekki verið hafin. Byggir sóknaraðili á að varnaraðili hafi með þessari háttsemi brotið gegn 20. gr. siðareglnanna enda hafi hann sagt ósatt um atvik fyrir dómi.

Hin umþrættu ummæli í greinargerð varnaraðila eru tekin orðrétt upp í málsatvikalýsingu að framan. Ekki er ágreiningur um að efni þeirra var rangt að því leyti að viðkomandi kærumál var ekki statt á ákærusviði líkt og tiltekið hafði verið í greinargerðinni. Hefur varnaraðili hins vegar vísað til þess að efni greinargerðarinnar að þessu leyti hafi byggt á munnlegum upplýsingum frá lögreglu sem reynst hafi rangar. Hafi þar verið um mistök að ræða sem leiðrétt hafi verið undir rekstri héraðsdómsmálsins nr. X-xxxx/20xx.

Eins og atvikum er háttað verður heldur ekki talið að mati nefndarinnar að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila, í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, vegna þessa kvörtunarefnis. Er þá í fyrsta lagi til þess að líta að ekki eru efni til að rengja þær skýringar sem varnaraðili hefur veitt vegna efni greinargerðarinnar að þessu leyti, þ.e. að það hafi byggt á munnlegum upplýsingum sem komið hafi frá lögreglu. Í öðru lagi er einnig fram komið í málinu að viðkomandi efni var leiðrétt undir rekstri viðkomandi máls í héraði þar sem allir hlutaðeigandi voru upplýstir og meðvitaðir um raunverulega stöðu kærumálsins. Þá verður ekki fram hjá því litið að hið umþrætta efni greinargerðarinnar hafði enga þýðingu við úrlausn héraðsdómsmálsins, sbr. þær forsendur í úrskurði héraðsdóms í máli nr. X-xxxx/20xx sem lýst er í málsatvikalýsingu að framan. Samkvæmt öllu framangreindu verður því ekki talið að varnaraðili hafi gegn betri vitund gefið dómstólum rangar upplýsingar um staðreyndir, svo sem málatilbúnaður sóknaraðila er reistur á.

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðili hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson