Mál 7 2022

Mál 7/2022

Ár 2023, miðvikudaginn 26. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 18. febrúar 2022 erindi sóknaraðila, [A] sem lýtur að kvörtun í garð varnaraðila, [B] lögmanns, með starfsstöð að [...].

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 22. febrúar 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist sé á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum vegna málsins barst til nefndarinnar þann 23. mars 2022 og var hún send sóknaraðila til athugasemda með bréfi þann 25. mars 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 29. apríl 2022 auk nýrra gagna og viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 20. maí 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Kvörtun málsins lýtur að samskiptum sóknaraðila og varnaraðila sem fram fóru í tölvupóstum daginn 15. desember 2021 í tengslum við stjórnarfund einkahlutafélags þann 10. desember 2021.

Þau málsatvik sem hafa þýðingu fyrir efni kvörtunarinnar eru þau helst að sóknaraðili sinnti hlutverki ritara á stjórnarfundi í einkahlutafélagi sem fram fór í gegnum fjarfundarbúnað þann 10. desember 2021. Umbjóðandi varnaraðila sat í stjórn einkahlutafélagsins og sótti fundinn. Varnaraðili sat einnig fundinn með umbjóðanda sínum sem hann kveður hafa atvikast með þeim hætti að umbjóðandinn hafi átt í tæknilegum örðugleikum við að tengjast fundarhaldara úr eigin tölvu og hafi því óskað eftir því að fá að sitja fundinn þess í stað í gegnum tölvu varnaraðila á skrifstofu hans, enda munu skrifstofur þeirra vera staðsettar í sama húsi. Þannig hafi varnaraðili að sinni sögn setið á eigin skrifstofu meðan fundurinn fór fram og hann því setið fundinn ásamt umbjóðanda sínum. Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa sótt fundinn óboðinn og án vitneskju annarra fundarmanna. Það hafi sóknaraðila fyrst orðið kunnugt um í tölvupóstssamskiptum við varnaraðila eftir að fundinum hafði lokið, sem nánar verður vikið að neðar. Sóknaraðili kveður eiganda lögmannsstofu þeirrar sem varnaraðili starfar á, einnig hafa mætt á fundinn rafrænt og óboðinn í upphafi fundarins, í gegnum fjarfundarbúnað. Að sögn sóknaraðila vísaði stjórnarformaður félagsins lögmanninum af fundinum eftir að öðrum fundarmönnum varð kunnugt um viðveru hans þar og sérstaklega tekið fram að ef einhverjir aðrir væru viðstaddir fundinn sem ekki hefðu til þess heimild, þá bæri þeim að yfirgefa fundinn hið snarasta, þar sem fundurinn væri fyrir þá eina sem boðaðir hefðu verið til hans, stjórnarmenn einkahlutafélagsins og sóknaraðila sem fundarritara

Í lok stjórnarfundarins mun umbjóðandi varnaraðila hafa sett fram bókun sem sóknaraðili ritaði niður í fundargerð. Í kjölfar fundarins sendi sóknaraðili fundargerðina til fundarmanna með tölvupósti þann 15. desember 2021 þar sem hann óskaði staðfestingar þeirra á efni fundargerðarinnar. Við því brást umbjóðandi varnaraðila með því að óska þess að texti bókunarinnar eins og hún birtist í fundargerðinni yrði breytt á tiltekinn veg. Því neitaði sóknaraðili að verða við þar sem sú breyting hafi að hans sögn ekki samrýmst efni bókunarinnar líkt og hún hafi orðrétt verið rituð niður eftir umbjóðandi varnaraðila á stjórnarfundinum. Því næst áframsendi umbjóðandi varnaraðila svar sóknaraðila á varnaraðila og í framhaldinu átti varnaraðili og sóknaraðili í beinum tölvupóstssamskiptum sem fóru öll fram þann 15. desember 2021.

Kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndarinnar lýtur að þeim samskiptum, einkum þeim orðum sem varnaraðili lét falla í þeim fjórum tölvupóstum sem hann sendi sóknaraðila þennan dag, en efni tölvupóstanna sem sóknaraðili vísar til og kvartar undan er eftirfarandi:

Úr fyrsta tölvupósti varnaraðila til sóknaraðila: „Eins og kemur fram í upphafi fundargerðar þá voru miklar truflanir á streymi fundarins en það var samt ákveðið að fundi skyldi fram haldið. Ákvörðun um það að halda fund með þessum hætti er alfarið á ábyrgð stjórnar enda hefði verið hægt að halda hann með mætingu stjórnarmanna eins og gert var á aðalfundi nema að ekki var öllum boðið. En það kom svo sem ekkert á óvart miðað við vinnubrögð sem viðhöfð eru við stjórn þessa félags. Þessi bókun var og er það sem [umbjóðandi varnaraðila] lagði fram í upphafi fundar og stendur hún. Eftir að okkur var ljóst hvernig fundarhöldum væri háttað sendi ég á þig bókun fyrirfram [...]“

 

Úr öðrum tölvupósti varnaraðila til sóknaraðila: „[Umbjóðandi varnaraðila] sat fundinn í gegnum tölvuna mína þar sem tækniörðugleikar voru með streymi í gegnum apple tölvuna hans. Hann reyndi að tjá sig í gegnum það kerfi sem honum var boðið uppá en á hann var ekki hlustað hvað þá að hann fengi orðið. Augljóst var að á hann var og yrði ekki hlustað enda hafði hann þegar lagt til fjármuni til félagsins og því ekki lengur not fyrir hann. Þessi vinnubrögð þín og annarra í þessu svokallað félagi er hreint út sagt með ólíkindum og ámælisverð. Þarf að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri.“

 

Þá vísar sóknaraðili til svar síns til varnaraðila þar sem sagði:  „Vinnubrögð mín? Við að rita fundargerð? Hvernig eru þau ámælisverð eða til frásagnar yfirhöfuð“. Því hafi varnaraðili meðal annars svarað svo til í þriðja tölvupósti sínum til sóknaraðila: „Þú/[fyrirtæki þitt] hefur séð um svokallað bókhald þessa félags og ég geri ráð fyrir að ríkulega hafi verið greitt fyrir þá þjónustu. Bíð spenntur eftir sundurliðuðum rekstrarreikningi en eignarhald á þessu félagi er tengt þér sem 50% eiganda og […] sem a.m.k. stjórnarformanns. Verð fyrsti maður til þess að draga til baka og biðjast afsökunar ef rangt reynist.“  Vísaði varnaraðili þar til félags í eigu sóknaraðila, sem er annað félag en hann stjórnaði umræddum stjórnarfundi í.

Þeim tölvupósti svaraði sóknaraðila sem svo: „Kæri [varnaraðili], Ég fékk úthlutuðu því verkefni á stjórnarfundi X sl. föstudag að rita þar fundargerð. Þegar ég hafði (amk. mestmegnis) lokið því hlutverki þá sendi ég drögin að þeirri fundargerð á stjórnarmenn til samþykktar eða athugasemda. Mér bárust athugasemdir sem erfitt var að setja inn í fundargerðina, þar sem ekki var um lýsingu á atburðum fundarins að ræða, heldur viðbrögð eins hluthafa við því sem fram fór á stjórnarfundinum ([…] sat ekki fundinn, það var […]). Af ástæðu sem ég skil ekki enn, ákvað einn stjórnarmanna að draga þig inn í þau samskipti þar sem þú átt ekkert erindi. Og þar slærð þú frá þér, vegur að manni og öðrum með mjög óvægnum og fullkomlega órökstuddum hætti – með hótunum um orðsporssvertingu, hvorki meira né minna. Ég spyr þig því enn einu sinni, hvað þekkir þú til vinnubragða minna inni í þessu félagi yfirhöfuð og hvaða erindi eiga þær upplýsingar inn í samskipti fyrrverandi stjórnar X ehf. sem vinnur nú að því að ganga frá fundargerð stjórnarfundar? Og ef rétt reynist, hvað varst þú að gera á stjórnarfundi X, óboðinn? Því ef þú þekkir ekkert til minna vinnubragða get ég ekki séð að mér sé neinn annar kostur en að íhuga vandlega kæru á framkomu þinni til siðanefndar Lögmannafélagsins. Undir órökstuddum meiðyrðum sem byggja á óskhyggju og óskiljanlegum ályktunum, verður ekki setið þegjandi. Því síður hótunum um orðsporssvertingu.“  

Barst þá fjórði og síðasti tölvupóstur varnaraðila til sóknaraðila umræddan dag: „Staðan er sú að stjórnarmaður (fyrrum) í félaginu og hluthafi hefur ekki fengið þau gögn sem hann á rétt á að fá afhent. Bókhald félagsins hefur verið unnið að félagi ([félagi sóknaraðila]) sem er stjórnar af stjórnarformanni X ehf. og hluthafa (meirihluta). [...] En eins og ég sagði þá var tölvan hans [fyrirsvarsmanns umbjóðanda míns] ekki eða með lélegt samband á þessu streymi og kom hann askvaðandi inn á skrifstofu mína, en [fyrirsvarsmaður umbjóðanda míns] er með skrifstofu í sama húsnæði og fékk aðgang að þessu streymi úr minni tölvu með þó misgóðum árangri. Ég var búinn að undirbúa umbj. minn vel fyrir þennan fund m.a. með bókun. Ég sat ekki stjórnarfund heldur aðstoðaði umbj. minn með tengingu af fyrr greindum ástæðum. Þá leitaði umbj. minn eftir aðstoð vegna þess að fundargerð endurspeglaði ekki að sem hann reyndi að koma á framfæri sbr. neðangreint þ.e. áframsendan póst. Skv. umbj. mínum hefur þú / [félagið þitt] staðið að bókhaldi félagsins og því ert þú meira en fundarritari stjórnar. Þú sérð um bókhald félagsins og stjórnarformaður ([…]) kynnti þig sem lögfræðing félagsins á aðalfundinum sem ég sat. Vil ítreka að ég verð fyrsti maður til að draga til baka og biðjast afsökunar ef rangt reynist.“ Frekari samskipti fóru ekki á milli aðila á þessum tíma sem fjallað er um í gögnum málsins

Sóknaraðili telur varnaraðila hafa haft frammi í tölvupóstunum ávirðingar og aðdróttanir um ámælisverða hegðun af sinni hálfu, hótað að valda sér hneykslisspjöllum, haft uppi aðdróttanir um lögbrot við störf tengd öðru félagi, sett fram ósannindi og ávirðingar um sig og aðra aðila og jafnframt hafa staðfest að hafa verið viðstaddur stjórnarfundinn 10. desember 2021 í leyfisleysi án þess að hafa gefið sig fram. Umræddar ávirðingar og aðdróttanir og ósannindi í sinn garð telur sóknaraðili varnaraðila hafa sett fram flestar í eigin nafni, án tilefnis og án þess að þekkja til sín af eigin raun þegar samskiptin áttu sér stað. Þá hafi ummælin verið í engu samhengi við efni tölvupóstanna sem vörðuðu staðfestingu á fundargerð stjórnarfundarins 10. desember 2021. Varnaraðili hefur mótmælt málatilbúnaði varnaraðila fyrir nefndinni, þ.m.t. að hafa gert á hlut sóknaraðila, hafa haft frammi hótanir um að valda honum hneykslisspjöllum og að hafa sett fram ummælin í eigin nafni.

II.

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila vegna reksturs máls þessa fyrir úrskurðarnefndinni.

Í kvörtun til nefndarinnar kveður sóknaraðili varnaraðila hafa verið ráðinn til starfa af umbjóðanda sínum til þess að gæta hagsmuna hans gagnvart fyrirtækjum sem sóknaraðili hafi m.a. unnið fyrir. Telur sóknaraðili að umbjóðandi varnaraðila hafi sagt sína hlið umtalsvert skreytta sem hafi leitt til þess að andúð varnaraðila á sóknaraðila annars vegar og fyrirsvarsmanns umræddra félaga hins vegar hafi orðið persónuleg og skinið í gegn frá fyrstu samskiptum varnaraðila.

Lýsir sóknaraðili atvikum í stuttu máli sem svo að umbjóðandi varnaraðila hafi verið stjórnarformaður í einkahlutafélagi ásamt fleirum. Sóknaraðili var fengin til þess að rita fundargerð á einum stjórnarfundi. Á fundinum setti umbjóðandi varnaraðila fram bókun sem að sögn sóknaraðila var orðrétt rituð upp eftir honum í fundargerð. Að loknum fundi hafi drögin að fundargerðinni verið send til stjórnarmanna til yfirlestrar og athugasemda. Umbjóðandi varnaraðila hafi svarað þeim tölvupósti með ósk um að breytt yrði innihaldi bókunarinnar. Sóknaraðili hafi bent á að ný útgáfa bókunarinnar væri ekki í samræmi við orð umbjóðanda varnaraðila á fundinum. Umbjóðandi varnaraðila hafi áframsent það svar til allra stjórnarmanna einkahlutafélagsins, ásamt eiganda lögmannsstofunnar sem varnaraðili starfar á.

Strax í fyrsta svari hafi varnaraðili sett fram ósannindi um atburðarásina og aðdróttanir um ámælisverð vinnubrögð við stjórn félagsins. Varnaraðili hafi sett þau orð fram í eigin nafni að mati sóknaraðila en ekki fyrir hönd umbjóðanda síns. Telur sóknaraðili mikilvægt að árétta að sex einstaklingar hafi setið stjórnarfundinn samkvæmt fundarborði, fimm verið í mynd, en umbjóðandi varnaraðila einn verið án myndar. Kom síðan í ljós að sögn sóknaraðila að umbjóðandi varnaraðila var ekki einn, heldur með tvo lögmenn með sér, án heimildar inni á fundinum. Það hafi því verið fjögur vitni að því sem umbjóðandi varnaraðila sagði og staðfestu þau öll að sögn sóknaraðila að fundargerðin væri rétt rituð eins og hún var borin upp til samþykktar. Vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili upplýsti í samskiptunum sem fylgdu á eftir að hann hafi aðstoðað umbjóðanda sinn við ritun bókunarinnar, sem varnaraðili haldi ranglega fram að hafi legið fyrir við upphaf fundarins. Varnaraðili hafi að sögn sóknaraðila orðið uppvís að því síðar í samskiptunum að viðurkenna að hafa orðið vitni að fundinum, að hafa í leyfisleysi setið hann. Kveður sóknaraðili það vera blekkingu og það vera úrskurðarnefndar að meta hvort sú blekking séu vinnubrögð sem samræmast ákvæðum siðareglna lögmanna.

Vísar sóknaraðili til þess að bréf varnaraðila hafi orðið samtals fjögur þennan eftirmiðdag og í hverju og einu þeirra hafi varnaraðili sett fram ávirðingar í garð sóknaraðila og annarra sem komið hafi að rekstri umrædds einkahlutafélags. Svo alvarlegar ávirðingar að mati sóknaraðila, að ekki verði undir því setið. Telur sóknaraðili um hreinan atvinnuróg hafa verið að ræða og lagði fram samskipti aðila með kvörtun sinni til nefndarinnar.

Vísar sóknaraðili til þess að í bréfum varnaraðila hafi verið bæði settar fram aðdróttanir um lögbrot sóknaraðila ásamt því að settar voru fram hótanir um hneykslisspjöll, sem sóknaraðili vísar til að varnaraðili hafi talið nauðsynlegar öðrum til varnaðar að sinni sögn. Kveður sóknaraðili að þegar hann hafi gengið á varnaraðila og reynt að fá einhverjar efnislegar skýringar hafi komið í ljós að varnaraðili hafi engar efnislegar upplýsingar um vinnubrögð sóknaraðila, en einungis endursögn umbjóðanda síns og ályktanir byggðar á því sem sóknaraðili kveður kolrangar upplýsingar og ósannleik. Vísar sóknaraðili til þess að dómaframkvæmd hafi ítrekað greint á milli frásagna í fyrstu persónu og endursagnar samkvæmt orðrómi.

Telur sóknaraðili hegðun lögmannsins í póstsamskipum vera bersýnileg brot á 2. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Hótanir um hneykslisspjöll álítur sóknaraðili vera skýrt brot á 2. undirlið 1. mgr. 35. gr. sömu reglna. Nánari útlistun sé að finna í fylgibréfi kvörtunar.

Í fylgibréfi með kvörtun var vikið nánar að málsatvikum, rökstuðningi og kvörtunarefni með beinni tilvísun til hvers og eins tölvupósts sem gerð eru skil ofar í úrskurðinum. Þar vísar sóknaraðili til þess að kvörtunin varði ómaklegar aðdróttanir varnaraðila sem virðist ófær um að greina á milli sjálfs síns og umbjóðanda síns og þeim hótunum sem varnaraðili hafi sett fram í eigin nafni en ekki fyrir hönd umbjóðanda síns, sem byggi að fullu og öllu á röngum upplýsingum sem honum geti einungis hafa borist til eyrna frá umbjóðanda sínum ef nokkrum. Vísar sóknaraðili til þess að það hafi komið í ljós í lok samskipta síns og varnaraðila að varnaraðili hafði engar beinar upplýsingar um sóknaraðila heldur einungis upplýsingar frá þriðja aðila sem trúlega hafi þá komið frá umbjóðanda varnaraðila.

Áréttar sóknaraðili að hann hafi aldrei hitt eða rætt við varnaraðila fyrir þann tíma sem efni kvörtunarinnar lýtur að, sem eru stjórnarfundurinn 10. desember 2021 og tölvupóstssamskipti aðila 15. desember 2021. Kveður sóknaraðili sig hafa verið móttakanda nokkurra tölvupósta til upplýsinga í aðdraganda stjórnarfundarins og sent lögmanninum eitt skjal í tölvupósti að beiðni stjórnarformanns félagsins. Á fundardag móttók sóknaraðili einn tölvupóst frá lögmanninum klukkutíma eftir að stjórnarfundur var settur og varðaði efni fundarins. Það séu öll kynni varnaraðila af sóknaraðila af beinni upplifun. Allt annað séu því frásagnir þriðja aðila eða eigin hugarburður varnaraðila en stafi ekki frá persónulegri upplifun varnaraðila á sóknaraðila. Telur sóknaraðili þetta nauðsynlegar upplýsingar til að setja í samhengi við það sem sóknaraðili álítur verulega óhóflegan árásarham varnaraðila í sinn garð strax frá fyrsta tölvupósti hans til sín, árásarhams sem hafi engan rétt átt á sér og beri að ávíta fyrir.

Víkur sóknaraðili í fylgibréfi sínu með kvörtun nánar yfir málsatvik og setur kvörtun í samhengi við fylgiskjöl, einkum tölvupóstssamskipti aðilanna. Þar segir að umbjóðandi varnaraðila sé óbeinn hluthafi í einkahlutafélagi ásamt fleirum og sat þar í stjórn þar til í desember 2021. Þann 10. desember 2021 hafi stjórnarfundur í félaginu verið haldinn að undirlagi umbjóðanda varnaraðila og allir fimm stjórnarmenn boðaðir til fundarins ásamt sóknaraðila sem var falið að rita fundargerð fundarins. Vegna samkomutakmarkana hafi fundurinn verið haldinn í gegnum Teams fjarfundabúnað og voru allir fundarmenn, að frátöldum umbjóðanda varnaraðila, í mynd á fundinum. Í upphafi fundarins hafi borist mjög furðuleg hljóð úr ranni tengingar umbjóðanda varnaraðila við fundinn og strax í kjölfarið hafi eigandi lögmannsstofu varnaraðila gefið sig fram og kvartað undan hljóði fundarins, en hann hafi ekki verið boðaðir til fundarins og átti því ekkert erindi þangað. Stjórnarformaður félagsins mun í kjölfarið hafa vísað lögmanninum af fundinum og tiltekið sérstaklega að ef einhverjir aðrir væru viðstaddir fundinn sem ekki hefðu til þess heimild því þeir hefðu ekki verið boðaðir, þá bæri þeim að yfirgefa fundinn hið snarasta, þar sem fundurinn væri fyrir þá eina sem boðaðir hefðu verið til hans, stjórnarmenn einkahlutafélagsins og sóknaraðila sem fundarritara. Truflanir hafi að sögn sóknaraðila áfram komið frá tölvu umbjóðanda varnaraðila en eftir ábendingar um að orsakir truflananna væru líklegast skvaldur og umhverfishljóð í nágrenni við hann hafi skyndilega stöðvast allar þær hljóðtruflanir og fundurinn getað farið fram. Að sögn sóknaraðila staðfestu aðrir fundarmenn að engar hljóðtruflanir væru hjá þeim. Í lok fundarins mun umbjóðandi varnaraðila hafa sett fram áðurnefnda bókun sem orðrétt hafi verið rituð upp eftir honum í fundargerðina. Að loknum fundinum sendi sóknaraðili drög að fundargerð til stjórnmanna til yfirlestrar og athugasemda. Barst þá svar frá umbjóðanda varnaraðila um að hann vildi breyta innihaldi bókunarinnar. Kveður sóknaraðili að umbjóðandi varnaraðila hafi viljað setja fram bókun í nafni hluthafans, ályktun hluthafans á því sem fram fór á stjórnarfundinum, augljóslega ritaða eftir að óvæntu atburðirnir í upphafi fundarins áttu sér stað. Sóknaraðili staðfesti móttöku bókunarinnar en benti á að orðalag hennar væri í engu samræmi við orð umbjóðanda varnaraðila á fundinum. Hafi umbjóðandi varnaraðila þá tekið ákvörðun um að áframsenda svar sóknaraðila til varnaraðila.

Lýsir sóknaraðili því sem svo að varnaraðili hafi ákveðið að blanda sér í umræður stjórnarmanna og sent frá sér svar við pósti sóknaraðila á alla stjórnarmenn einkahlutafélagsins, ásamt eiganda lögmannsstofu varnaraðila. Strax í fyrsta pósti hafi varnaraðili sett fram ósannindi um atburðarásina og aðdróttanir um ámælisverð vinnubrögð við stjórnun félagsins. Leggur sóknaraðili áherslu á eftirfarandi orð í fyrsta tölvupósti varnaraðila: „Eins og kemur fram í upphafi fundargerðar þá voru miklar truflanir á streymi fundarins en það var samt ákveðið að fundi skyldi fram haldið. Ákvörðun um það að halda fund með þessum hætti er alfarið á ábyrgð stjórnar enda hefði verið hægt að halda hann með mætingu stjórnarmanna eins og gert var á aðalfundi nema að ekki var öllum boðið. En það kom svo sem ekkert á óvart miðað við vinnubrögð sem viðhöfð eru við stjórn þessa félags. Þessi bókun var og er það sem [umbjóðandi varnaraðila] lagði fram í upphafi fundar og stendur hún. Eftir að okkur var ljóst hvernig fundarhöldum væri háttað sendi ég á þig bókun fyrirfram [...]“

Vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi sett orðin fram í eigin nafni en ekki fyrir hönd umbjóðanda síns. Þá áréttar sóknaraðili að það hafi fjögur vitni, þ.e. hinir stjórnarmennirnir sem sátu fundinn, borið orð umbjóðanda varnaraðila á fundinum vitni og staðfestu þau öll að sögn sóknaraðila að fundargerðin væri rétt rituð eins og hún var borin upp til samþykktar. Af því og efni tölvupóstsins telur sóknaraðili að varnaraðili hafi gerst brotlegur gegn 1. gr. siðareglna lögmanna um að lögmaður skuli svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Vísar sóknaraðili til þess að fullyrðing um að bókun hafi legið fyrir eða verið lögð fram í upphafi fundar sé röng og fjögur vitni geti borið um það, til viðbótar við sóknaraðila sjálfan. Jafnframt vísar sóknaraðili til 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem áréttað er að lögmanni beri að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum en málflutningur varnaraðila sé allur setur fram í eigin nafni en ekki fyrir hönd umbjóðanda hans, fullyrðingar séu hans eigin en ekki umbjóðanda hans og að hinu sama gegni um ávirðingar hans. Þá vísar sóknaraðili til 34. gr. siðareglna lögmanna um að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Telur sóknaraðili ávirðingar varnaraðila um vinnubrögð og háttalag og ásakanir um mismunun við skipulag og undirbúning funda ekki bera með sér að varnaraðili sé fær um að bera virðingu fyrir gagnaðila umbjóðanda síns, hvað þá sýna hana.

Kveður sóknaraðili sig hafa svarað tölvupósti varnaraðila og reynt þar að átta sig á þeim upplýsingum sem fram höfðu komið. Hvort varnaraðili hafi verið á fundinum án þess að láta af sér vita, sem sóknaraðila virtist af pósti hans að dæma, þar sem hann væri fær um að setja fram persónulega endursögn á því sem þar hafði fram farið. Eins hafi sóknaraðili spurt sérstaklega um staðfestingu á því að bókun hafi verið sett fram í upphafi fundar og hver hefði þá sett slíka bókun fram, því ekki hafi það komið fram á fundinum. Sóknaraðili áréttaði þar að sinni sögn hlutverk sitt sem fundarritara í þeim tilgangi að árétta að ávirðingar í garð sóknaraðila vegna ritunar fundargerðarinnar væru hugsanlega talsverð framhleypni. Tilgangur sóknaraðila var að hans sögn sá að reyna halda umræðu tölvupóstssamskiptanna við efni hans, um ritun og frágang fundargerðar stjórnarfundarins.

Við því hafi borist eftirfarandi svar frá varnaraðila sem sent var á alla stjórnina, þar sem bætt hafi verið ríflega í ávirðingar: „[Umbjóðandi varnaraðila] sat fundinn í gegnum tölvuna mína þar sem tækniörðugleikar voru með streymi í gegnum apple tölvuna hans. Hann reyndi að tjá sig í gegnum það kerfi sem honum var boðið uppá en á hann var ekki hlustað hvað þá að hann fengi orðið. Augljóst var að á hann var og yrði ekki hlustað enda hafði hann þegar lagt til fjármuni til félagsins og því ekki lengur not fyrir hann. Þessi vinnubrögð þín og annarra í þessu svokallað félagi er hreint út sagt með ólíkindum og ámælisverð. Þarf að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri.

Telur sóknaraðili þann tölvupóst jafnframt bera með sér að varnaraðili hafi verið vitni að því sem fram fór á stjórnarfundinum og því verið viðstaddur fundinum í leyfisleysi og án þess að gefa sig fram er sérstaklega var eftir því kallað í upphafi fundarins. Kveður sóknaraðili ósannindi hafa haldið áfram um það sem fram fór á fundinum og ávirðingar vera umtalsverðar. Þá vísar sóknaraðili til þess sem fram kemur í lok tölvupóstsins sem hann kveður beinar hótanir varnaraðila um að valda sér hneykslisspjöllum. Telur sóknaraðili ferns konar brot gegn siðareglum lögmanna koma fram í tölvupóstinum. Í fyrsta lagi brot gegn 1. gr. þar sem fullyrðing um að ekki hafi verið á umbjóðanda varnaraðila hlustað á fundinum vera ranga, hrein og klár ósannindi, sem fjögur vitni geti borið um til viðbótar við sóknaraðila. Það stangist einnig á við bókun sem sett var fram í upphafi fundar að umbjóðandi varnaraðila hafi ekki fengið orðið. Jafnframt skjóti það í skjön í ljósi þess að eigandi lögmannsstofu varnaraðila hafi fengið orðið í upphafi fundar í gegnum tengingu umbjóðanda varnaraðila. Í öðru og þriðja lagi brot gegn 2. mgr. 8. gr. og 34. gr. með sama hætti og gilti um fyrri tölvupóst varnaraðila. Í fjórða lagi brot gegn 1. mgr. 35. gr., sbr. 2. undirlið ákvæðisins þar sem sé áréttað að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum eins og að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli er geti valdið gagnaðila hneykslisspjöllum. Vísar sóknaraðili í þeim efnum annars vegar til þess að hótun um að vara þurfi fólk á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri við „þess háttar fólki“ sem viðhefur vinnubrögð sem að mati varnaraðila séu „með ólíkindum og ámælisverð“ sé skýrt og augljóst brot á ákvæðinu. Hins vegar vísar sóknaraðili til þess að þegar litið sé til þess að sök sóknaraðila ein geti verið ritun fundargerðarinnar, sem hafi verið eina umræðuefni tölvupóstsþráðarins og fjórir af fimm stjórnarmönnum staðfest að í fundargerðinni hafi verið rétt haft eftir stjórnarmanninum, þá telur sóknaraðili ljóst að eitthvað allt annað en hagsmunagæsla varnaraðila á málefnum umbjóðanda síns hafi verið að ræða í tjáningu varnaraðila þennan eftirmiðdag.

Kveður sóknaraðili mikilvægt að árétta á þeim tímapunkti  að varnaraðili hafi ekki nefnt eitt einasta dæmi, máli sínu til stuðnings, um ámælisverð vinnubrögð sóknaraðila, heldur einungis vísað til þess sem fram fór á stjórnarfundinum samkvæmt persónulegum ósönnuðum vitnisburði varnaraðila um atburði þar. Viðbrögð sóknaraðila hafi verið stutt enda kveður hann sig hafa verið gáttaða og enn að reyna halda sig við efni póstþráðarins: „Vinnubrögð mín? Við að rita fundargerð? Hvernig eru þau ámælisverð eða til frásagnar yfirhöfuð?“.

Kveður sóknaraðili sig ekki hafa þurft að bíða lengi eftir svari og enn hafi varnaraðili aukið við persónulegar ávirðingar og aðdróttanir í garð sóknaraðila, en þá hafi loks komið í ljós að mati sóknaraðila, að varnaraðili væri ófær um að halda sig við efnið og reynt að blanda alls kyns óskyldum atriðum varðandi deilur umbjóðanda varnaraðila við stjórnarformann einkahlutafélagsins inn í umræðu um frágang fundargerðar stjórnarfundar. Allt í persónulegri tjáningu varnaraðila sjálfs en sóknaraðili leggur áherslur á eftirfarandi ummæli: „Þú/[fyrirtæki þitt] hefur séð um svokallað bókhald þessa félags og ég geri ráð fyrirríkulega hafi verið greitt fyrir þá þjónustu. Bíð spenntur eftir sundurliðuðum rekstrarreikningi en eignarhald á þessu félagi er tengt þér sem 50% eiganda og […] sem a.m.k. stjórnarformanns. Verð fyrsti maður til þess að draga til baka og biðjast afsökunar ef rangt reynist.“  Álítur sóknaraðili varnaraðila hér viðurkenna bókstaflega að hann sé í eigin nafni að setja fram ásakanir og ávirðingar í garð sóknaraðila, en láti svo lítið að ætla sóknaraðila að afsanna ásakanirnar og þá fyrst muni hann draga þær til baka.

Efni þriðja tölvupóstsins telur sóknaraðili brjóta gegn 1. gr. siðareglna lögmanna á þann veg að fullyrðing varnaraðila um að hann hafi ekki fengið kynningu á sundurliðuðum rekstrarreikningi sé röng og tvö vitni geti um það borið sem og það komi fram í fundargerð aðalfundar félagsins sem haldinn var í beinu framhaldi af stjórnarfundinum, að stjórnarformaður hafi farið yfir fjárhag félagsins, m.a. þróun kostnaðar og að lögmenn umbjóðanda varnaraðila, þ.m.t. varnaraðili sjálfur, hafi ekki gert athugasemd við fundargerðina. Jafnframt þar sem aðdróttanir varnaraðila um að sóknaraðili hafi ekki sinnt bókhaldsstörfum í þágu einkahlutafélagsins af góðri samvisku séu ósannaðar fullyrðingar. Hið sama gildi um ályktanir varnaraðila um ríkulega endurgjöf með aðdróttunum um að hún hafi verið óeðlilega mikil. Einnig þar sem varnaraðili viðurkenni í lok bréfsins ávirðingar og aðdróttanir og yfirlýsir að hann muni draga þær til baka ef þær reynist rangar, en í því felist að mati sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki sönnun á fullyrðingum sínum og honum sé ófært að leggja fram neina sönnun og því geti fullyrðingarnar ekki staðið óáreittar. Þá feli efni tölvupóstsins einnig í sér brot gegn 2. mgr. 8. gr. siðareglnanna með sama hætti og fyrri tölvupóstar varnaraðila. Hið sama gildi um 34. gr. sem hafi verið brotin með sama hætti og í fyrri tölvupóstum varnaraðila, sem hafi verið brotin að mati sóknaraðila með ávirðingum varnaraðila um vinnubrögð og háttalag og aðdróttanir um vanrækslu við færslu bókhalds og einhvers konar óeðlilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem beri ekki með sér að varnaraðili sé fær um að bera virðingu fyrir gagnaðila umbjóðanda síns, hvað þá sýna hana.

Í áframhaldandi samskiptum aðila gerði sóknaraðili enn tilraun til þess að setja áherslur á efni póstþráðarins, ritun fundargerðar, frágang hennar og samþykki með svohljóðandi tölvupósti: „Kæri [varnaraðili], Ég fékk úthlutuðu því verkefni á stjórnarfundi X sl. föstudag að rita þar fundargerð. Þegar ég hafði (amk. mestmegnis) lokið því hlutverki þá sendi ég drögin að þeirri fundargerð á stjórnarmenn til samþykktar eða athugasemda. Mér bárust athugasemdir sem erfitt var að setja inn í fundargerðina, þar sem ekki var um lýsingu á atburðum fundarins að ræða, heldur viðbrögð eins hluthafa við því sem fram fór á stjórnarfundinum ([…] sat ekki fundinn, það var […]). Af ástæðu sem ég skil ekki enn, ákvað einn stjórnarmanna að draga þig inn í þau samskipti þar sem þú átt ekkert erindi. Og þar slærð þú frá þér, vegur að manni og öðrum með mjög óvægnum og fullkomlega órökstuddum hætti – með hótunum um orðsporssvertingu, hvorki meira né minna. Ég spyr þig því enn einu sinni, hvað þekkir þú til vinnubragða minna inni í þessu félagi yfirhöfuð og hvaða erindi eiga þær upplýsingar inn í samskipti fyrrverandi stjórnar X ehf. sem vinnur nú að því að ganga frá fundargerð stjórnarfundar? Og ef rétt reynist, hvað varst þú að gera á stjórnarfundi X, óboðinn? Því ef þú þekkir ekkert til minna vinnubragða get ég ekki séð að mér sé neinn annar kostur en að íhuga vandlega kæru á framkomu þinni til siðanefndar Lögmannafélagsins. Undir órökstuddum meiðyrðum sem byggja á óskhyggju og óskiljanlegum ályktunum, verður ekki setið þegjandi. Því síður hótunum um orðsporssvertingu.“

Þeim tölvupósti hafi varnaraðili svarað með fjórða tölvupósti sínum þar sem sóknaraðili telur hann loksins hafa áttað sit á alvarleika málsins, en gert lítið til þess að draga nokkuð af því sem áður hafði verið sagt til baka. Sagði varnaraðila þar að:  „Staðan er sú að stjórnarmaður (fyrrum) í félaginu og hluthafi hefur ekki fengið þau gögn sem hann á rétt á að fá afhent. Bókhald félagsins hefur verið unnið að félagi ([félagi sóknaraðila]) sem er stjórnar af stjórnarformanni X ehf. og hluthafa (meirihluta). [...] En eins og ég sagði þá var tölvan hans [fyrirsvarsmanns umbjóðanda míns] ekki eða með lélegt samband á þessu streymi og kom hann askvaðandi inn á skrifstofu mína, en [fyrirsvarsmaður umbjóðanda míns] er með skrifstofu í sama húsnæði og fékk aðgang að þessu streymi úr minni tölvu með þó misgóðum árangri. Ég var búinn að undirbúa umbj. minn vel fyrir þennan fund m.a. með bókun. Ég sat ekki stjórnarfund heldur aðstoðaði umbj. minn með tengingu af fyrr greindum ástæðum. Þá leitaði umbj. minn eftir aðstoð vegna þess að fundargerð endurspeglaði ekki að sem hann reyndi að koma á framfæri sbr. neðangreint þ.e. áframsendan póst. Skv. umbj. mínum hefur þú / [félagið þitt] staðið að bókhaldi félagsins og því ert þú meira en fundarritari stjórnar. Þú sérð um bókhald félagsins og stjórnarformaður ([…]) kynnti þig sem lögfræðing félagsins á aðalfundinum sem ég sat. Vil ítreka að ég verð fyrsti maður til að draga til baka og biðjast afsökunar ef rangt reynist.

Hér telur sóknaraðili loks hafa komið í ljós að upplýsingar um verkefni og eftir atvikum hugsanleg vinnubrögð sóknaraðila, hafi lögmaðurinn engar beinar upplýsingar um af eigin raun heldur einungis frásagnir og hugsanlegar upplifanir annarra. Kveður sóknaraðili varnaraðila byggja á þeim þær árásir á persónu sóknaraðila og hótanir um hneykslisspjöll, vegna verka sem tengjast ekki ritun fundargerðarinnar. Efni fjórða tölvupóstsins telur sóknaraðili jafnframt brjóta gegn sömu siðareglu ákvæðum. Brot gegn 1. gr. felist í því að fullyrðing um að umbjóðandi varnaraðila hafi ekki fengið þau gögn sem hann eigi rétt á að fá afhent sé röng. Að því marki sem einhvers hafði verið óskað þá hafi verið orðið við því. Þetta kveður sóknaraðili að varnaraðili hafi vitað á þessum tíma, því hann hafði m.a. sjálfur verið viðstaddur slíka upplýsingagjöf.  Þá hafi fullyrðing um að bókhald félagsins væri unnið af félagi sem væri í meirihluta eigu stjórnarformanns X vera ranga, stjórnarformaður eigi 25% hlut í félaginu óbeint í gegnum einkahlutafélag. Þá séu enn ósannindi höfð frammi langt fyrir utan efni póstþráðarins, sem var frágangur á fundargerð stjórnarfundar. Enn fremur hafi varnaraðili verið búinn að undirbúa umbjóðanda sinn fyrir stjórnarfundinn með bókun, þá hafi umbjóðandinn geta lesið bókunina upp, þegar hann var sérstaklega spurður hvað hann vildi láta bóka. Það hafi umbjóðandi varnaraðila ekki gert, af því dregur sóknaraðili þá ályktun að það hafi verið vegna þess að umbjóðandi varnaraðila hafi ekki verið undirbúinn undir fundinn með skriflegri bókun. Þá telur sóknaraðili tölvupóstinn fela í sér brot gegn 2. mgr. 8. gr. með sama hætti og fyrri tölvupóstar, nema þá að í þessum fjórða tölvupósti hafi ekki allur málflutningur varnaraðila verið settur fram í eigin nafni en þó sé hluti hans þess eðlis. Jafnframt telur sóknaraðili varnaraðila hafa brotið gegn 34. gr. siðareglnanna með sama hætti og í fyrri tölvupóstum varnaraðila, en þær ávirðingar standi óafturkallaðar.

Byggir sóknaraðili á því að eftir standi að varnaraðili hafi sett fram órökstuddar ávirðingar og aðdróttanir ásamt hótanir í garð sóknaraðila, langt umfram það sem tilefni var til með hliðsjón af því hvað var til umræðu í þessum tölvupóstssamskiptum: ritun og frágangur sóknaraðila á fundargerð stjórnarfundar stjórnar sem látið hafði af störfum. Kveður sóknaraðili að varnaraðili hafi viðurkennt að um ávirðingar og aðdróttanir séu að ræða og lýst því yfir að hann muni draga þær til baka ef rangar reynist. Varnaraðili hafi ekki reynt að færa neinar sönnur á fullyrðingar sínar og hafi ekkert sér til málsbóta annað en hvatvísi og eftir atvikum reynsluleysi. Enn í dag hafi varnaraðili ekki dregið þær ávirðingar sínar til baka. Vísar sóknaraðili til þess að ávirðingarnar séu svo alvarlegar að ekki verði undir þeim setið, enda um hreinan atvinnuróg að ræða. Ásamt aðdróttunum um lögbrot sóknaraðila og vanrækslu og hótunum um að valda sér hneykslisspjöllum sem varnaraðili hafi talið vera nauðsynlegar að sinni sögn, öðrum til varnaraðar. Krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlaga vegna háttsemi sinnar auk þess sem krafist er málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir úrskurðarnefndinni.   

III.

Varnaraðili kveður sig hafa sinnt hagsmunagæslu fyrir umbjóðanda sinn og þrjú tilgreind félög tengd honum, tvö sem umbjóðandi hans eigi alfarið en hið þriðja eigi umbjóðandi hans tæplega fimmtungshlut í gegnum annað af áðurnefndum félögum. Þá eigi umbjóðandi hans helmingshlut í fjórða félagi á móti bróður sóknaraðila. Kveður varnaraðili að sóknaraðili hafi séð um bókhald og greiðslu reikninga félaga umbjóðanda varnaraðila í gegnum félag sitt. Að sögn varnaraðila hefur félag umbjóðanda varnaraðila greitt sóknaraðila ríflega 100 milljónir fyrir þjónustu sína á síðastliðnum fimm árum.

Vísar varnaraðili til þess að haustið 2021 hafi umbjóðandinn leitað til sín og falið honum að gæta hagsmuna hans og félaganna, gagnvart sóknaraðila og bróður hans. Tilefnið hafi verið að umbjóðandi hans taldi ýmislegt í viðskiptum og starfsaðferðum sóknaraðila og bróður hans orka tvímælis. Í þeirri vinnu sem á eftir fór kveður varnaraðili sig hafa fengið fjölmörg gögn sem snéru að viðskiptasambandi framangreindra aðila, m.a. allt bókhald félaga sem umbjóðandi varnaraðila tengdist auk afrita samskipta umbjóðanda varnaraðila við sóknaraðila og bróður hans. Við þá yfirferð vaknaði sá grunur að framin hefðu verið refsiverð brot af sóknaraðila og bróður hans. Vakti þar sérstaka athygli varnaraðila gríðarlegt magn óútskýrðra reikninga sem félög í eigu umbjóðanda hans höfðu greitt til félaga sem lutu að sögn varnaraðila, yfirráðum sóknaraðila og bróður hans svo sem félags sóknaraðila og tveggja annarra tilgreindra félaga. Einnig kveður varnaraðili gríðarlega skuldasöfnun hafa átt sér stað við tengda aðila í tveimur félögum, öðru þeirra því félagi sem sóknaraðili sinnti ritun fundargerðar í á stjórnarfundinum 10. desember 2021. Kveður varnaraðili að sóknaraðili hafi haft aðgang að og heimild til þess að ráðstafa fjármunum af reikningum félaga umbjóðanda varnaraðila, til greiðslu reikninga sem vörðuðu reksturinn sérstaklega.

Til þess að varpa frekara ljósi á fjölmargar færslur, sem umbjóðandi varnaraðila taldi að þörfnuðust frekari skýringa við, var óskað eftir því við sóknaraðila að afhent væru afrit þeirra reikninga ásamt fylgiskjölum sem félög umbjóðanda varnaraðila höfðu verið látin greiða til félaga undir stjórn sóknaraðila og/eða bróður hans. Þeirri umleitan segir varnaraðili hafa verið hafnað af sóknaraðila og bróður hans. Telur umbjóðandi varnaraðila að ástæðu þess megi rekja til þess að einhverjir umræddra reikninga sem félögum hans hefur verið gert að greiða hafi verið tilhæfulausir að hluta eða öllu leyti. Vísar varnaraðili til þess að fjárhæð reikninga þar sem fylgiskjöl vanti nemi rúmum 1,8 milljörðum króna. Kveður varnaraðili þessa synjun um afhendingu bókhaldsgagna félags í eigu umbjóðanda varnaraðila hafa orðið til þess að krafist var innsetningar í gögnin fyrir héraðsdómi Reykjaness. Þá hafi umbjóðandi varnaraðila falið honum að kæra málið til héraðssaksóknara, enda var að sögn varnaraðila grunur um stórfellt bókhalds- og auðgunarbrot, þar sem umbjóðandi varnaraðila og félög í hans eigu væru ætluð fórnarlömb sóknaraðila. Metur varnaraðili það sem svo að kvörtun sóknaraðila sé sett fram gegn betri vitund sóknaraðila, í þeim eina tilgangi að baka varnaraðila tjón vegna hagsmunagæslu sinnar í þágu umbjóðanda síns.

Varðandi kröfu sína um frávísun vísar varnaraðili til þess að samkvæmt kvörtun sóknaraðila séu gerðar margvíslegar kröfur á borð við að varnaraðili verði sviptur réttindum sínum til að vera lögmaður í fjórtán daga, að varnaraðili verði skikkaður til þess að sitja námskeið í efni siðareglna lögmanna honum til endurmenntunar, að varnaraðili verði látinn gefa út og undirrita og afhenda sóknaraðila í eigin persónu ítarlega afsökunarbeiðni sem skuli skrifuð eftir kúnstarinnar reglum og að varnaraðili verði látinn greiða sóknaraðila málskostnað vegna rekstur málsins fyrir nefndinni. Kveður varnaraðili að málatilbúnaður sóknaraðila sé haldinn verulegum annmörkum sem geri varnaraðila ókleyft að halda uppi fullnægjandi efnisvörnum í málinu. Þá geri sóknaraðili kröfur í málinu sem ekki sé hægt að fullnægja með úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna. Vísar varnaraðili til þess að úrskurðarnefndin hafi ekki vald til þess að skikka lögmenn til þess að sitja tiltekin námskeið eða þvinga þá til þess að skrifa bréf til fólks út í bæ og afhenda Jóni eða Gunnu, þar sem viðkomandi eru beðnir afsökunar á hinu eða þessu.

Auk framangreinds telur varnaraðili ljóst að sjónarmið og kröfur sóknaraðila séu fullkomlega vanreifaðar og útilokað sé fyrir varnaraðila að átta sig á því, hvaða kröfur eru gerðar í málinu nákvæmlega eða undan hverju verið sé að kvarta. Þá kveður varnaraðili kröfu um málskostnað engum gögnum studd og enga tilraun gerða til þess að undirbyggja hana með nokkrum hætti.

Um varakröfu sína vísar varnaraðili fyrst til þess að af málatilbúnaði sóknaraðila, sem varnaraðila þykir þó illskiljanlegur, megi draga þá ályktun að sóknaraðili telji varnaraðila hafa brotið gegn 1., 2. mgr. 8. gr., 34. gr. og 1. mgr. 35. gr. siðareglna lögmanna. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili fjalli í löngu máli um þau atvik sem hann telji að heimfæra megi undir framangreind ákvæði siðareglna. Um málatilbúnað sóknaraðila varðandi 1. gr. siðareglnanna kveður varnaraðili að svo virðist sem sóknaraðili eigi í erfiðleikum með að skilja inntak ákvæðisins og að málavextir þessa máls líkt og þeir blasi við varnaraðila og umbjóðanda hans, séu umdeildir. Segir varnaraðili ljóst að aðilar þeirra undirliggjandi mála sem nú séu til meðferðar fyrir dómstólum og hjá ákæruvaldi séu ekki sammála um atvik og málavexti. Því sé einfaldlega hafnað að varnaraðili hafi með nokkrum hætti brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna. Kveður varnaraðili það liggja fyrir að umbjóðandi hans lagði fram bókun á aðalfundi og var sá þáttur sem sneri að varnaraðila, að rita bókunina, unnin samkvæmt þeim reglum og kröfum sem gerðar séu til lögmanna. Að sögn varnaraðila þurfi ekki að færa frekari rök fyrir framangreindu, enda ekki á forræði fólks út í bæ að ákvarða nokkuð um það, hvað varnaraðili viti sannast eftir lögum eða sinni samvisku.

Varðandi meint brot varnaraðila gegn 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna sem varði það að lögmanni beri að forðast það að samkenna sig skjólstæðingi sínum, byggir varnaraðili á því að sóknaraðili misskilji inntak ákvæðisins og þeirra stjórnarskrárvörðu réttinda borgara á Íslandi að fá að tjá skoðanir sínar. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili geri athugasemdir við það sem hann telji vera málflutning varnaraðila í málinu og að fullyrðingar varnaraðila séu settar fram í nafni varnaraðila en ekki umbjóðanda síns. Því hafnar varnaraðili. Varðandi samskiptin sem fram hafa farið á milli varnaraðila og sóknaraðila kveður varnaraðili ekki verða hjá því komist að nefndin horfi til tilurðar þeirra mála sem eru á borði varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda síns. Byggir varnaraðili á því að hann hafi ekki á nokkurn hátt gengið lengra í orðavali og samskiptum sínum við sóknaraðila en umbjóðandi varnaraðila hafi sjálfur gert. Telur varnaraðili ljóst að sóknaraðila geti ekki hafa dulist að ummæli þau, sem varnaraðili lét eftir sér hafa í málinu, hafi falið í sér afstöðu umbjóðanda varnaraðila í málinu. Þá sé að sögn varnaraðila annað útilokað en að lögmönnum sé játað aukið svigrúm til þess að tjá afstöðu sína og umbjóðenda sinna í þeim málum sem þeim er falið að leysa úr, innan þeirra marka sem siðareglur og lög setja. Vísar varnaraðili í þeim efnum til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 16/2020.

Varðandi meint brot varnaraðila gegn 34. gr. siðareglna lögmanna, um að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu hafnar varnaraðili því að hafa gerst brotlegur gegn ákvæðinu.

Vísar varnaraðili til þess að skoðanir manna á því hvað sé tilhlýðileg virðing eða fyrir neðan allar hellur sé breytilegt milli einstaklinga. Að engin viðurkenndur mælikvarði sé til um það hvað teljist vera hæfileg virðing og hvað ekki. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili geri það að umtalsefni sínu að varnaraðili hafi ekki borið fyrir honum nægjanlega virðingu og þannig gerst brotlegur gegn téðu ákvæði siðareglnanna. Þessu lýsir varnaraðili sig vera ósammála og telur sig þvert á móti hafa sýnt sóknaraðila að fullu þá virðingu sem hann hafi áunnið sér í samskiptum sínum við varnaraðila og í þeim samskiptum og viðskiptum sem hann hafi átt við umbjóðanda varnaraðila. Vísar varnaraðili til fylgiskjala málsins um að umbjóðandi varnaraðila gruni sóknaraðila og viðskiptafélaga hans og bróður um gríðarlega umfangsmikil auðgunarbrot, þar sem umbjóðandi varnaraðila og félög í hans eigu séu fórnarlömbin. Kveður varnaraðili samskipti aðila hafa augljóslega borið þess merki og augljóst að umbjóðandi varnaraðila og sóknaraðila væri mikið niðri fyrir í málinu.

Þrátt fyrir framangreint hefur sóknaraðili að mati varnaraðila ekki bent á einstök tilfelli sérstaklega, sem honum finnist vega að virðingu sinni. Vísar varnaraðili sérstaklega til þeirra orða sem sóknaraðili hafi lagt þunga áherslu á, þar sem varnaraðili sagði þörf á að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri og telur að miðað við það sem á undan hafi gengið á þeim tímapunkti, sem samskiptin áttu sér stað, hafi verið fullt tilefni fyrir sig að vera hvassyrtan í samskiptum sínum við sóknaraðila. Byggir varnaraðili að það eitt að beitt sé kjarnyrtri íslensku, brjóti ekki í bága við siðareglur lögmanna. Þá sé lögmönnum ekki bannað að lýsa skoðunum sínum á mönnum, málefnum og hegðan einstaklinga. Ummæli varnaraðila þess efnis að vara þurfi fólk við einstaklingum sem hann kveður á pari við sóknaraðila hafi vissulega verið hvöss, en falli fullkomlega innan marka tjáningarfrelsisins, siðareglna lögmanna og þeirra laga sem um lögmenn gilda. Þá telur varnaraðili ljóst að ummælin feli ekki í sér hótun um nokkurn skapaðan hlut, heldur hafi varnaraðili einfaldlega lýst skoðunum sínum, sem engar heimildir séu til að takmarka með nokkrum hætti. Eins og að framan greini hafi lögmenn fullt frelsi til að tjá skoðanir sínar og verði ekki settar ríkari takmarkanir á lögmenn heldur en aðra einstaklinga hvað það varði.

Þá hafnar varnaraðili meintu broti sínu gegn 1. mgr. 35. gr. siðareglna lögmanna, þess efnis að hann hafi gerst brotlegur með því að beita sóknaraðila ótilhlýðilegum þvingunum eins og að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli er geti valdið gagnaðila hneykslisspjöllum, til framdráttar umbjóðanda sínum. Kveður varnaraðili engin gögn liggja fyrir í málinu sem renni stoðum undir það að hann hafi beitt eða hótað að beita sóknaraðila ótilhlýðilegum þvingunum eða uppljóstra um atferli er geti valdið gagnaðila hneykslisspjöllum. Hið rétta sé að sögn varnaraðila að hann hafi hótað að ráðast í lögmætar aðgerðir gegn sóknaraðila og viðskiptafélaga hans, ef ekki yrði fallist á þær kröfur í málinu. Byggir varnaraðili á að lögmenn hafi fulla heimild til þess að beita gagnaðila sínum öllum þeim lögmæltu aðgerðum sem í boði séu hverju sinni. Þær aðgerðir kunni vissulega að leiða til hneykslisspjalla fyrir sóknaraðila, en gerist það, þá sé orsökin hegðun sóknaraðila sjálfs og möguleg lögbrot, en ekki varnaraðili sem hafi það eina verkefni að gæta að hagsmunum umbjóðanda síns.

Þá vísar varnaraðili til þess til viðbótar við framangreint að nefndarmenn í úrskurðarnefndinni, sem séu sjálfstætt starfandi lögmenn á Íslandi, kunni að vera vanhæfir til þess að sitja í nefnd sem fari með agavald yfir sjálfstætt starfandi lögmanni á samkeppnismarkaði. Þá sé ljóst að a.m.k. einn nefndarmanna gæti hagsmuna gagnaðila í skilnaðarmáli sem sé til meðferðar hjá eiganda lögmannsstofu varnaraðila, sem hann sé fulltrúi hjá. Vísar varnaraðili í þeim efnum til þess að um hæfi nefndarmanna til þátttöku í meðferð einstakra mála fari eftir reglum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Samkvæmt framansögðu telur varnaraðili að fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni tilgreinds nefndarmanns í efa með réttu sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum komi fram að hinar sérstöku hæfisreglur hafi ekki eingöngu það markmið að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á efni stjórnvaldsákvarðana, heldur sé þeim einnig ætlað að stuðla að því að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að stjórnvöld leysi úr máli á hlutlægan hátt. Vísar varnaraðili til þess að af lögskýringargögnum verði þannig ráðið að með hæfisreglunum sé leitast við eftir megni að koma í veg fyrir að stjórnsýslan glati trausti sínu hjá borgunum, með því að aðstæður bendi til þess að ekki sé leyst úr einstöku máli á hlutlægan hátt.

Vísar varnaraðili áfram til þess að við mat á því hversu strangar hæfiskröfur skuli gera í stjórnsýslunni sé almennt viðurkennt að líta verði til eðlis þess máls sem sé til úrlausnar og þeirra réttarheimilda sem úrlausn máls byggir á. Þannig skuli t.a.m. gera strangari kröfur þegar um sé að ræða matskennd atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir aðila máls, eins og raunin sé í þessu máli. Þá telur varnaraðili að líta verði til tegundar máls og stöðu þess aðila sem hefur ákvörðunarvald í málinu og þannig verði gerðar hvað strangastar hæfiskröfur til þeirra starfsmanna/stjórnvalda/nefndarmanna sem líkja hvað mest dómstólum að skipulagi og starfsháttum. Hvað fyrirliggjandi mál varði sé að mati varnaraðila um að ræða mjög matskennda úrlausn, sem sé í höndum aðila sem hafi sett sér málsmeðferðarreglur. Þá sé úrskurðarnefnd lögmanna í eðli sínu afar sambærileg dómstólum hvað starfshætti varði. Kveður varnaraðili það einkenna úrskurðarnefnd lögmanna að hún sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem eigi ekki frumkvæði að deilumálum þeim sem undir hana eru borin og því hægt að draga þá ályktun að um nefndina gildi ströngustu hæfisreglur. Telur varnaraðili að sú staðreynd að ákvarðanir nefndarinnar eru matskenndar og kunni að vera verulega íþyngjandi, auk þess að vera lokaniðurstaða á stjórnsýslustigi, ætti að leiða til þess að hæfisreglurnar séu enn strangari en ella.

Vísar varnaraðili til þess að mati Umboðsmanns alþingis sé áhersla löggjafans á að stjórnsýslan sé framkvæmd með þeim hætti að traust skapist á milli hennar og borgaranna grundvallarsjónarmið við skýringu hæfisreglna stjórnsýslulaganna sem leiðir til þess að skýra beri ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga eftir atvikum rúmt, sbr. álit Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3261/2001. Með hliðsjón af hlutverki nefndarinnar kveður varnaraðili verða að ljá traustssjónarmiðum og hæfisreglum sem byggja á þeim einstaklega mikið vægi þegar lagt er mat á hæfi þeirra sem sitja í nefndinni til að taka þátt í meðferð einstakra mála. Kveður varnaraðili virðingu nefndarmanna fyrir hinum sérstöku hæfisreglum vera nauðsynlegt skilyrði fyrir eðlilegum samskiptum lögmanna og nefndarinnar og því trausti sem nefndin verði að njóta. Í því sambandi er að sögn varnaraðila rétt að hafa í huga að hinar sérstöku hæfisreglur hafi ekki eingöngu að markmiði að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á efni ákvarðana, heldur sé þeim einnig ætlað að stuðla að því að þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt. Að þessu sögðu telur varnaraðili að hann geti ekki treyst því að nefndin leysi úr þessu máli á hlutlægan hátt á meðan tilgreindur nefndarmaður gæti hagsmuna gagnaðila umbjóðanda þess lögmanns sem varnaraðili sé skráður fulltrúi hjá.

Þá fjallar varnaraðili jafnframt um hæfi nefndarmanna í úrskurðarnefndinni með hliðsjón af stærð samkeppnismarkaðar þess sem lögmenn starfa á. Byggir varnaraðili á að færa megi sterk rök fyrir því að það sé fullkomlega óeðlilegt að úrskurðarnefnd lögmanna sé skipuð sjálfstætt starfandi lögmönnum, sem starfi á jafn litlum samkeppnismarkaði og Ísland er. Þannig séu að sögn varnaraðila um 900 lögmenn með virk málflutningsréttindi á Íslandi, á markaði sem að mati varnaraðila sé örmarkaður eftir öllum skilgreiningum sem hægt sé að leggja til grundvallar. Samkeppni um einstök viðskipti geti því verið hörð. Það að örfáir einstaklingar á samkeppnismarkaði skuli fara með agavald yfir kollegum sínum geti vart talist eðlilegt að mati varnaraðila. Bendir varnaraðili á að í Noregi sé sú nefnd sem hafi eftirlit með lögmönnum samansett af fólki sem ekki eru bara lögmenn, heldur einum dómara sem er formaður, tveimur lögmönnum, einum fulltrúa neytenda og einum fulltrúa atvinnulífsins. Nefndin sé skipuð af dómsmálaráðuneytinu og verði ekki séð að nefndin hafi sérstök tengsl við norska lögmannafélagið. Allt þetta telur varnaraðili draga úr líkunum á því að lögmenn geti einir ráðið úrslitum í málum sem varði kollega þeirra.

Í þessu sambandi ber að mati varnaraðila einnig að taka fram að nefndarmaður geti orðið vanhæfur til meðferðar stjórnsýslumáls snerti það fjárhagslega samkeppnisstöðu hans eða fyrirtækis hans sem hann er í fyrirsvari fyrir enda þótt hvorki hann né fyrirtækið teljist aðili þess máls á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, sbr. m.a. álit Umboðsmanns Alþingis í málum nr. 999/1994 og nr. 5192/2007. Kveður varnaraðili að ekki verði betur séð en að allir nefndarmenn í úrskurðarnefnd lögmanna séu í beinni samkeppni við þá lögmannsstofu sem varnaraðili starfi á, auk þess sem að minnsta kosti einn nefndarmanna gæti hagsmuna gagnaðila þess lögmanns sem varnaraðili starfi sem fulltrúi hjá.

Kveður varnaraðili það að einstaka nefndarmenn séu að sinna hagsmunum gagnaðila lögmannsstofunnar sem varnaraðili starfi hjá, bendi til þess að atvinnurekandi varnaraðila og ofangreindir nefndarmenn séu að sinna þörfum sambærilegra skjólstæðinga sem eiga sambærilegra hagsmuna að gæta. Ákvarðanir sem nefndin tekur í krafti valdheimilda sinna gagnvart lögmönnum, þ.e. um að áminna þá eða leggja til við ráðherra sviptingu starfsréttinda, gæti að mati varnaraðila haft áhrif á orðspor þeirra í faglegum efnum og um starfshætti þeirra og gæti einnig verið liður í að starfsréttindi þeirra verði felld niður. Telur hann slíka íþyngjandi ákvörðun með tilheyrandi réttaráhrifum vera endanlega á stjórnsýslustigi og feli í sér inngrip í atvinnufrelsi viðkomandi sem verndað er í stjórnarskránni. Ekki verði að mati varnaraðila fram hjá því litið við úrlausn málsins í ljósi þess að áminning eða réttindasvipting hafi ótvíræð áhrif á samkeppnisstöðu lögmanns. Auk þess telur varnaraðili að það verði að teljast afar óeðlilegt að veita lögmönnum sem séu sjálfstætt starfandi slíkt vald yfir samkeppnisaðilum sínum. Af þeim sökum telur varnaraðili ekki hægt að fullyrða hvaða áhrif eða þýðingu niðurstaða nefndarinnar gæti haft fyrir samkeppni milli atvinnurekenda varnaraðila og nefndarmanna. Þannig beri nefndarmönnum að hans mati í þessari stöðu fyrst og fremst að taka ákvörðun til hæfis áður en afstaða sé tekin til efnis máls, enda telji varnaraðili að það séu fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni nefndarmanna með réttu samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Beiting hinna matskenndu hæfisreglna byggist á heildstæðu mati á öllum atvikum máls á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hæfisreglan hefur verið fyllt með. Telji nefndin að þau atriði sem að framan eru rakin, leiði ekki til vanhæfis nefndarmanna, bendir varnaraðili á að úrlausn um hæfi verði að byggjast á heildstæðu mati á öllum atvikum. Hér að ofan hafi verið reifuð nokkur atriði sem hvert um sig ætti að leiða til vanhæfis að mati varnaraðila og þá sérstaklega sé litið heildstætt á málið. Heldur varnaraðili því fram að ofangreindir samverkandi þættir hljóti að leiða til vanhæfis. Að strangar hæfisreglur gildi um nefndina þar sem ásýnd hlutleysis sé mikilvæg, nefndarmenn reki mál fyrir hönd umbjóðenda sinna þar sem atvinnurekanda varnaraðila sé lögmaður gagnaðila, nefndarmenn hafi fjárhagslega og samkeppnislega hagsmuni af úrlausn málsins og hafa framtíðarhagsmuni af niðurstöðunni að mati varnaraðila. Kveður varnaraðili samverkandi samlegðaráhrif þessara þátta vera meiri en samtal hvers og eins atriðis í tómarúmi.

Að lokum er það mat varnaraðila að kvörtun sóknaraðila feli í sér tilraun til að beita varnaraðila þvingunum, svo hann hætti afskiptum af máli tengdum honum. Léti varnaraðili háttalag sóknaraðila ráða störfum sínum, telur hann ljóst að það myndi fela í sér brot við siðareglum og þá gagnvart umbjóðanda sínum. Telur varnaraðili því að beiti úrskurðarnefndin sér í málinu, með þeim hætti sem sóknaraðili krefst, muni það hafa afdrifarík áhrif á störf allra lögmanna, enda geti þá allir sem ekki séu sáttir við hagsmunagæslu lögmanna einfaldlega sent inn kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og með því lagt steina í götu þeirra sem sinna störfum sínum vandlega.

IV.

Í viðbótar athugasemdum til nefndarinnar svarar sóknaraðili fyrst athugasemdum varnaraðila um þekkingu og færni sóknaraðila sem fram komu í greinargerð hans til nefndarinnar. Þá lýsir sóknaraðili því að fyrirtæki í sinni eigu sem varnaraðili hafi gert að umtalsefni sínu í greinargerð til nefndarinnar hafi veitt umbjóðanda varnaraðila stoðþjónustu, sem fólst í margvíslegri þjónustu sem studdi þá kjarnaþjónustu sem umbjóðandi varnaraðila veitti viðskiptavinum sínum. Kveður sóknaraðili forsvarsmann umbjóðanda varnaraðila hafa sett fram vilja sinn um fyrirkomulag samstarfsins og eftir þeim vilja hafi verið unnið, undir stjórn og á ábyrgð stjórnenda umbjóðenda varnaraðila og vísar í þeim efnum til svara sóknaraðila til varnaraðila frá 16. febrúar 2021 sem lagt var fyrir nefndina, þegar sóknaraðili kveður sig hafa sent varnaraðila öll bókhaldsgögn umbjóðanda hans vegna téðs fyrirtækis í eigu sóknaraðila eins og óskað hafði verið eftir. Fjallar sóknaraðili um veltu fyrirtækisins umbjóðanda varnaraðila, meintar fjárhæðir tilhæfulausra reikninga og það hvernig umfjöllun varnaraðila þar að lútandi séu fjarstæðukenndar ásakanir, en væru þær réttar þá hafi umbjóðandi varnaraðila skilað röngum ársreikningum og skattframölum til hins opinbera. Eru svör sóknaraðila sett í samhengi við umfjöllun í greinargerð varnaraðila til nefndarinnar og þeirrar aðfararbeiðni sem henni fylgdi, en ásakanirnar kveður sóknaraðili vera fjarstæðukenndar. Hafnar sóknaraðili ásökunum sem fram komu í greinargerð varnaraðila um að sóknaraðili hafi útgefið tilhæfulausa reikninga til félags umbjóðanda varnaraðila. Vekur sóknaraðili jafnframt athygli á því að málflutningur um tilhæfuleysi reikninga félags síns séu í besta falli að koma upp um mjög vafasamt athæfi umbjóðanda varnaraðila sjálfs, allt í senn gagnvart viðskiptavinum hans sjálfs, gagnvart útgefendum reikninganna og gagnvart ríkissjóði og réttarvörslukerfinu. Þá telur sóknaraðili það ótrúverðugt að umbjóðandi varnaraðila haldi fram að vegna reikninga hans hafi verið greiddir tæpir tveir milljarðar á fimm árum án þess að forsvarsmaður umbjóðanda varnaraðila hafi haft um það grænan grun. Vísar sóknaraðili til þess að allan þann tíma sem fyrirtæki sitt hafi veitt umbjóðanda varnaraðila þjónustu hafi legið fyrir að hann gat valið sér annan aðila til að sækja sér þá þjónustu sem hann keypti af því, enda hafi samstarfið byggst á samningi með þriggja mánaða uppsagnarfresti og þegar á það reyndi hafi félag sóknaraðila gefið eftir tvo af þeim.

Sóknaraðili vísar til þess að umbjóðandi varnaraðila hafi fyrst leitað til lögmannsstofu varnaraðila haustið 2021, ríflega ári eftir að viðskiptasambandi fyrirtækis sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila lauk. Varnaraðili hafi því aldrei verið vitni af nokkru því sem fram hafi farið innan þess viðskiptasambands, heldur upplifi það einvörðungu utan frá í gegnum frásögn þriðja aðila og eftir atvikum út frá gögnum sem honum hafi einhliða verið lögð til löngu eftir að atburðir hafi átt sér stað. Að þetta staðfesti varnaraðili í greinargerð sinni. Vísar sóknaraðili til þess að hann hafi móttekið þrettán tölvupósta frá varnaraðila og af þeim innihaldi sex rógburð af stigvaxandi gráðu, að því er sóknaraðila virðist, stigvaxandi eftir því hversu vel tilraunir varnaraðila hafi gengið til að fá mál þetta fyrir úrskurðarnefndinni fellt niður.

Vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi fyrst átt bein samskipti við sig með tölvupósti þann 15. desember 2021 sem eru þau samskipti sem kvartað er undan. Varnaraðili hafi þar blandað sér inn í umræðuþráð þáverandi stjórnar einkahlutafélags sem sóknaraðili sá ekki ástæðu til að nefna eða sérgreina og hóf varnaraðili þar strax ómaklegar og óútskýrðar árásir á sóknaraðila og fleiri aðila, sem hafi verið fullkomlega ótengt efni þeirrar umræðu sem varnaraðili hafi verið að blanda sér inn í og án nokkurs aðdraganda. Kveður sóknaraðili að varnaraðili hafi verið í óhóflegum árásarham að því er sóknaraðila virtist vegna þess að sóknaraðili hafi ekki samþykkt möglunarlaust beiðni umbjóðanda varnaraðila um að settur yrði inn í fundargerðina texti sem innihélt efni sem ekki hafði komið fram á fundinum.

Vísar sóknaraðili til þess að samskiptin hafi verið til þess eins að ganga frá fundargerð stjórnarfundarins og ekkert annað. Að ekkert annað hafi átt erindi inn í þau samskipti en að varnaraðila hafi verið ófært að halda sig við efnisatriði málsins og virt að engu leikreglur málefnalegrar umræðu. Ítrekar sóknaraðili að í þeim tölvupóstssamskiptum sem fram fóru 15. desember 2021, sem voru eina ástæðan fyrir kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar, hafi hvergi neitt efnislegt fram komið um það sem staðið hafi að baki aðdróttunum varnaraðila. Þannig hafi varnaraðili að mati sóknaraðila slengt fram fullyrðingum samhengislaust, m.a. vegna starfa sóknaraðila fyrir ótengt félag og dróttað að svikum án þess að færa nokkur rök fyrir sínu máli. Það sé sú framkoma sem kvartað er undan, framkoman sem kvartað er undan. Framkoma sem að mati sóknaraðila fól í sér skýlaust brot á siðareglum lögmanna.

Áréttar sóknaraðili að hann hafi reynt að láta kvörtunina snúast um aðalatriðin, þ.e. orðin sem sögð voru um sóknaraðila, ekki aðra. Ákvörðun varnaraðila um að senda til úrskurðarnefndarinnar tölvupóstssamskiptin í heild sinni, án yfirstrikana, bæti engu við um efnisatriði málsins að mati sóknaraðila. Þau dragi að mati sóknaraðila ekkert úr aðdróttunum varnaraðila í garð sóknaraðila, hótununum sem þar hafi verið settar fram eða loforðum um að draga þær til baka að skilyrðum uppfylltum. Kveður sóknaraðili að ef nokkuð, sýni þau betur heildarsamskiptin sem áttu sér stað þennan eftirmiðdag og sýni svart á hvítu ofstopann í framkomu lögmannsins. Það sem sóknaraðili strikaði yfir hafi annars vegar verið persónuupplýsingar einstaklinga sem hafi ekkert með ummæli varnaraðila í garð sóknaraðila að gera og hins vegar ávirðingar varnaraðila í garð þriðja aðila sem ekki hafði vettvang í samskiptunum til að bera hendur fyrir höfuð sér.

Þá bendir sóknaraðili á að í málsvörn varnaraðila vegna þess hluta kvörtunar sóknaraðila sem lýtur að framkomu varnaraðila að staðhæfa um að bókun hafi verið lögð fram í upphafi fundar, sem sóknaraðili kvað vera rangt, svari varnaraðili svo að málið hafi varðað bókun á aðalfundi einkahlutafélagsins. Vísar sóknaraðili til þess að enginn efist um að bókun sem umbjóðandi varnaraðila lagði fram á aðalfundi hafi varnaraðili ritað, en það sé ekki háttsemin sem kvartað sé undan. Kvartað sé undan þeim samskiptum sem fram fóru í kjölfar stjórnarfundar félagsins 15. desember 2021 og þar hafi varnaraðili fullyrt að bókun hafi verið lögð fram í upphafi þess fundar, og þá vísað til stjórnarfundarins en ekki aðalfundarins. Vísar sóknaraðili til þess að þannig standi óhrakin sú ábending sín um ósannsögli varnaraðila í tölvupóstssamskiptum við varnaraðila.

Varðandi þá athugasemd varnaraðila að virðing sé áunninn og að sóknaraðili hafi þannig verðskuldað þá óvirðingu sem honum hafi verið sýnd vísar sóknaraðili til þess aftur að umrædd samskipti sín við varnaraðila hafi verið fyrstu samskipti þeirra og fyrir þau hafi engin samskipti átt sér stað þeirra á milli. Því geti persónuleg upplifun varnaraðila á sóknaraðila ekki hafa verið nein og hið minnsta alls ekki á þeim vettvangi sem varnaraðili haldi fram.

Bendir sóknaraðili á að þegar hann hafi ritað kvörtunina til úrskurðarnefndarinnar hafi honum ekki borist nein af þeim ásökunum sem hann sitji nú undir á öðrum vettvangi og sem sóknaraðili telur varnaraðila velja að nýta sér í þessu máli sem þvældum rökstuðningi fyrir rógburði í sinn garð þremur mánuðum áður. Kveður sóknaraðili sig hafa gert varnaraðila grein fyrir að hann myndi leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefndina ef varnaraðili drægi orð sín ekki aftur í desember 2021 og hann hafi lokið kvörtunina þann 11. febrúar 2022, undirritað hana næsta dag og afhent Lögmannafélaginu nokkrum dögum síðar. Það sé því alrangt að sögn sóknaraðila, að nokkuð annað hafi verið undirliggjandi kvörtun hans til úrskurðarnefndarinnar, annað en hversu ofboðið honum hafi verið að sitja undir innantómum aðdróttunum varnaraðila. Aðdróttunum fyrir vinnubrögð sín í þágu annars félags sem hann kveður varnaraðila ekki hafa fært nein rök fyrir. Þá telji sóknaraðili varnaraðila tala í þversögn við sjálfan sig, þannig haldi hann því fram annars vegar að vinnubrögð sóknaraðila fyrir umrætt þriðja félag séu með ólíkindum, líkt og kvartað hafi verið undan, meðan hann beiti sér á öðrum vettvangi fyrir hönd umbjóðanda síns til að kvarta undan upplýsingaskorti á starfsemi þess sama félags. Kveður sóknaraðili hið rétta í málinu vera að umbjóðandi varnaraðila, með aðstoð varnaraðila, standi fyrir persónulegum árásum á sóknaraðila og tengda aðila, árásum sem lýst hafi verið að linni þegar umbjóðandi varnaraðila hafi fengið greiðslu.

Sóknaraðili kveður tímalínu málsins sýna að varnaraðili hafi sagt sig frá öllum störfum umrædds umbjóðanda síns þar til honum hafi orðið kunnugt um kvörtun þessa til nefndarinnar, en þá hafi hann hætt við og kallað til sín aftur þann hluta ágreiningsmála umbjóðandans sem lúti að sóknaraðila persónulega og félagi hans. Lítur sóknaraðili á framkomuna sem persónulega hefnd varnaraðila vegna kvörtunarinnar og vísar í þeim efnum einnig til meintra orða varnaraðila á fundi með lögmanni sóknaraðila þann 15. mars 2022, þar sem hann hafi að sögn sóknaraðila í vitna viðurvist gert það að ófrávíkjanlegri forsendu þess að sættir gætu náðst í ágreiningsmálum milli umbjóðanda síns og gagnaðila, að sóknaraðili félli frá kvörtun sinni til nefndarinnar.

Um tilvísun varnaraðila til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 16/2020 bendir sóknaraðili á að í því máli hafi orðin „umbjóðandi minn“ komið hið minnsta þrisvar sinnum fram í einhverri mynd í þeim samskiptum sem til umfjöllunar voru, þar með talið í lokin. Í þeim samskiptum sem hér ræði um hafi varnaraðili aldrei vísað til umbjóðanda síns, með þeim hætti að skilja mætti orðin sem svo að um væri að ræða málflutning fyrir hönd umbjóðanda sinn, fyrr en í fjórða bréfinu, þegar mestur rógburðurinn var yfirstaðinn og er enn óafturkallaður.

Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili vísi ítrekað í tjáningarfrelsið sitt í greinargerð til nefndarinnar og af því sé ljóst að hann viðurkenni að um persónulega tjáningu hans sé að ræða í þeim tölvupóstum sem hér séu til umræðu. Sóknaraðili vísar í þeim efnum jafnframt til þess að í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar sé sérstök heimild til að setja tjáningarfrelsi skorður með lögum, meðal annars vegna réttinda eða mannorðs annarra og að slíka takmörkun sé að finna í 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá sé varnaraðili ábyrgur orða sinna rétt eins og aðrir einstaklingar sem ganga lengra en tjáningafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar heimilar, lesið í heild sinni. Vísar sóknaraðili til þess að dómstólar hafi ítrekað við mat sitt á mörkum tjáningarfrelsis greint á milli þess hvort um frásögn af beinni upplifun aðila er að ræða, eða frásögn af atburðum sem aðrir upplifðu en frásagnaraðilinn komst að eftir að atburðir áttu sér stað og vísar í þeim efnum í dæmaskyni til dóms Hæstaréttar nr. 693/2010 og héraðsdóms í máli nr. E-564/2020. Að persónuleg frásögn einstaklings af eigin upplifun hafi verið talin innan marka tjáningarfrelsisins, en endursögn aðila af upplifun annarra utan þess og vísar þar í dæmaskyni aftur til sama fordæmis héraðsdóms í máli nr. E-564/2020 þar sem hluti ummæla hafi verið álitin persónuleg upplifun en hluti ummæla endursögn af upplifun annarra. Áréttar sóknaraðili að hann hafi aldrei hitt varnaraðila og eigi ekki nein bein efnisleg samskipti við hann fyrr en umræddan dag í þeim tölvupóstsamskiptum sem eru andlag kvörtunarinnar. Því geti varnaraðili ekki verið að lýsa eigin upplifun af sóknaraðila í þeim. Þá vegna þess að varnaraðili blandi inn í þetta mál vinnu sinni fyrir umbjóðanda sinn gagnvart fyrirtæki því sem sóknaraðili starfar hjá, þá varðar sá málarekstur ekki vinnu sóknaraðila fyrir téð félag, auk þess sem að þeir atburðir hafi allir gerst löngu áður en umbjóðandi varnaraðila leitaði til varnaraðila til aðstoðar.

Að ofanvirtu áréttar sóknaraðili að óhjákvæmilegt sé að komast að annarri niðurstöðu en að persónuleg tjáning varnaraðila á sóknaraðila og aðdróttanir hans og hótanir vegna starfa sóknaraðila fyrir þriðja félag, teljist ámælisverð hegðun lögmanns sem eigi að vera að gæta hagsmuna umbjóðanda síns en kunni sér ekki hófs. Sé því óhjákvæmilegt að úrskurðarnefndin ávíti varnaraðila fyrir ummæli sín.

Vísar sóknaraðili til siðareglna lögmanna sem séu til að tryggja háttvísi lögmanna og að sérhverjum aðila sé sýnd virðing, óháð því hvaða ásökunum hann sé borinn. Að tryggja kurteisi og málefnalegar rökræður um ágreiningsefnið hverju sinni. Þá telji sóknaraðili að varnaraðili sé að fylgja eftir hótunum sínum í tíðræddum tölvupóstum með greinargerð sinni til nefndarinnar þar sem hann beri sig rógburði með því að blanda tilhæfulausum málarekstri umbjóðanda síns á hendur félagi sóknaraðila inn í ágreining vegna vinnu sóknaraðila fyrir annað félag. Að það sanni enn á ný tilhneigingu varnaraðila til að fara út fyrir efni ágreiningsins hverju sinni.

Þá bendir sóknaraðili á að með efnistökum í greinargerð varnaraðila hafi hinn kærði lögmaður staðið við þá hótun sem hann setti fram í tölvupóstssamskiptum sínum í desember um að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri, með rógburði. Kveður sóknaraðili það að blanda tilhæfulausum málarekstri félags umbjóðanda varnaraðila á hendur félagi sóknaraðila inn í samskipti á vettvangi úrskurðarnefndar sem varðar vinnu sóknaraðila vegna annars félags, virðist einungis í þeim tilgangi gert að rægja sóknaraðila á sem flestum stöðum. Sýnir það að mati sóknaraðila enn á ný að lögmaðurinn nái ekki valdi á álitaefninu og ætti það að mati sóknaraðila hugsanlega að vera sjálfstætt úrskurðarefni til áminningar lögmannsins fyrir störf hans og málatilbúnað. Kveður sóknaraðili varnaraðila í málsvörn sinni vegna kvörtunar sóknaraðila hafa með gegndarlausu málþófi og óskýrum málatilbúnaði og málalengingum berlega komið til skila að honum séu ekki tæk rök sem vatni geta haldið eða réttlætt orðaflaum þann sem varnaraðili viðhafði einn eftirmiðdag í desember. Svo virðist sem málatilbúnaður varnaraðila sé með öllu byggður á sandi að því er virðist í þeim eina tilgangi að valda sóknaraðila og tengdum aðilum óþægindum.

Að endingu mótmælir sóknaraðili greinargerð varnaraðila til nefndarinnar sem rangri og ósannaðri að því leyti sem hún er ósamrýmanleg lýsingum sínum. Þá vísar sóknaraðili til þess að talsverðum tíma hafi verið varið í að verjast árásum sem fram hafi verið settar af hálfu varnaraðila og teljist það sem málskostnaður í máli þessu eins og ef sóknaraðili hefði notið þjónustu lögmanns við þá vinnu við ritun kvörtunar og greinargerðar, sem nauðsynleg hafi verið til að grípa til varnar gegn meiðyrðum og rógburði varnaraðila, setta fram í tölvupóstssamskiptum þann 15. desember 2021 og nokkrum sinnum síðan og náði hápunkti í greinargerð varnaraðila, sem innihaldi ógrynni af ósannindum og villandi framsetningu. Bendir sóknaraðili á að hann starfi sem ráðgjafi og hafi tímagjald sem sé ekki ósvipað tímagjaldi lögmanna, gegn útgáfu reikninga og með hefðbundinni tímaskýrslu. Leggur sóknaraðili fram tímaskýrslu sína vegna málsins og gefur upp sitt tímagjald. Mótmælir sóknaraðili jafnframt kröfu varnaraðila um málskostnað sem órökstuddri og að henni beri að vísa frá. Áréttar sóknaraðili kröfur sínar um að varnaraðili verði ávíttur fyrir orð sín og framkomu.

V.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar fyrir nefndinni vegna málsins og fyrri málsatvikalýsinga. Telur varnaraðili að þær kröfur sem tilgreindar eru í kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar geti verið þær einu sem komið geta til efnislegrar umfjöllunar hjá nefndinni. Lætur varnaraðili við það sitja að vísa til fyrri sjónarmiða sinna til nefndarinnar um þær kröfur.

Þá telur varnaraðili vandasamt fyrir lesendur texta sóknaraðila að skilja kjarnann frá hisminu. Athugasemdir sóknaraðila við greinargerð varnaraðila hafi talið heilar átta blaðsíður og miðað við tímaskýrslu hafi það tekið þrjá heila vinnudaga að taka athugasemdirnar saman. Bendir sóknaraðili á að þrátt fyrir þann gríðarlega tíma sem sóknaraðili segist hafa varið í verkið, sé þar fjallað um flest annað en efnisatriði kvörtunar þessa máls sem liggur fyrir nefndinni. Að mati varnaraðila eigi athugasemdir sóknaraðila fátt skylt við skrif lögfræðings sem vilji láta taka sig alvarlega. Allt að einu hafi sóknaraðili í tvígang að mati varnaraðila slysast til að koma inn á efnisatriði upphaflegrar kvörtunar og tilefni sé til að bregðast við. Annars vegar þar sem sóknaraðili geri að umfjöllunarefni að umbjóðandi varnaraðila hafi ekki gerð sérstaklega grein fyrir því að hann héldi á lofti skoðunum umbjóðanda síns í samskiptum sínum við sóknaraðila. Kveður varnaraðili ljóst að í samskiptum sínum við sóknaraðila hafi varnaraðili haldið á lofti málstað umbjóðanda síns og um það geti engum dulist sem lesi samskiptin. Hins vegar á öðrum stað velji sóknaraðili enn á ný að slíta úr samhengi ummæli varnaraðila í því sem varnaraðili telur von sóknaraðila um að ekki verði eftir því tekið. Framan á tilvitnunina sem sóknaraðili geri sér mat úr vanti orðið þarf fyrir framan tilvísun í orð varnaraðila um að þurfa að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri. Byggir varnaraðili á þetta sé ámælisverð framsetning.

Mótmælir varnaraðili síðan kröfu sóknaraðila um málskostnað að nýju. Þá sé það tímagjald sem krafist sé greiðslu á harðlega mótmælt. Vísar varnaraðili til þess sem fram kom í upphaflegri greinargerð varnaraðila til nefndarinnar, um að krafa sóknaraðila um málskostnað væri engum gögnum studd. Kveður varnaraðili sóknaraðila hafa ákveðið að bregðast við þeirri staðreynd og bæta um betur og snara hressandi tímaskýrslu sem sé rýr í roðinu þegar hún sé betur skoðuð. Telur varnaraðili þann gríðarlega fjölda tíma sem sóknaraðili fullyrði um að hafa varið í málatilbúnaðinn vekja vægast sagt athygli, en að sóknaraðili hafi varið í heildina sem samsvarar átta heilum vinnudögum í að koma efni sínu á úrskurðarnefndina. Telur varnaraðili tímaskráninguna ótrúverðuga og kveður þar um að ræða eftiráskýringu, sem sé útbúin sérstaklega til þess að bregðast við mótmælum varnaraðila við málskostnaðarkröfu sóknaraðila í upphaflegri kvörtun til nefndarinnar.

Kveður varnaraðili algjörlega ósannað að sóknaraðili hafi varið heilum 63,5 klukkutímum í að útbúa kvörtun sína og athugasemdir til úrskurðarnefndarinnar. Þá sé ljóst að hafi sóknaraðili varið öllum þessum tíma til bréfasendinga sinna til úrskurðarnefndarinnar, sem varnaraðili mótmælir harðlega, hafi sóknaraðili að engu gætt að því að reyna takmarka tjón sitt vegna málsins.

Að lokum áréttar varnaraðili kröfur sínar og mótmæli sín við málavöxtum eins og sóknaraðili lýsir þeim sem röngum, ósönnum og villandi að því leyti sem þeir samrýmast ekki málavaxtalýsingu varnaraðila. 

Niðurstaða

Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur varnaraðili gert athugasemdir við hæfi nefndarmanna til setu í málinu. Um það efni hefur varnaraðili annars vegar vísað til þess að nefndarmaður gæti eða hafi gætt hagsmuna gagnaðila umbjóðanda þess lögmanns sem varnaraðili er skráður fulltrúi hjá og hins vegar til þess að óeðlilegt sé að nefndin sé skipuð sjálfstætt starfandi lögmönnum sem fari með agavald yfir kollegum sínum á litlum samkeppnismarkaði. Vísar varnaraðili um þetta efni til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti séu fyrir hendi aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Um skipun nefndarinnar fer samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Skipun nefndarinnar er í samræmi við ákvæðið sem er því lögformlega skipuð. Þannig er einn nefndarmaður skipaður af Lögmannafélagi Íslands samkvæmt samþykktum félagsins, einn skipaður af ráðherra og einn skipaður af Hæstarétti Íslands. Varnaraðili hefur engin haldbær rök fært fyrir því í málinu að núverandi skipun nefndarinnar brjóti í bága við tilgreint lagaákvæði.

Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um það hvenær starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur til meðferðar máls. Í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna matskennda hæfisreglur sem felur í sér grunnreglu um sérstakt hæfi, en 1.-5. tölul. sem eiga ekki við hér, fela í sér nánari útfærslur á henni. Í lögskýringargögnum með lögunum er kveðið á um að til að starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu verði hann að hafa einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Þar koma einnig til skoðunar hagsmunir venslamanna og annarra þeirra sem eru í svo nánum tengslum við starfsmanninn að almennt verði að telja hættu á að þau geti haft áhrif á hann. Þá verði eðli og vægi hagsmunanna að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun málsins. Þá getur mjög náin vinátta eða fjandskapur við aðila máls valdið vanhæfi. Með vináttu sem valdi vanhæfi nægir ekki að aðeins sé um að ræða kunningsskap eða að fyrir hendi séu þær aðstæður, t.d. á fámennum stöðum, að „allir þekki alla“, heldur verður vináttan að vera náin. Svo óvinátta valdi vanhæfi verður að vera um að ræða einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni starfsmanns. Ekki nægir að aðili máls álíti starfsmann sér fjandsamlegan. Hins vegar, í þeim tilvikum þar sem slegið hefur í brýnu með starfsmanni og aðila máls og annar hvor hefur sýnt af sér óviðeigandi framkomu eða viðhaft ósæmilegt orðbragð, mundi starfsmaður talinn vanhæfur, a.m.k. þar sem úrslit máls hefðu verulega þýðingu fyrir aðila. Að mati nefndarinnar getur það eitt ekki leitt til vanhæfis að nefndarmaður í málinu gæti eða hafi gætt hagsmuna gagnaðila umbjóðanda lögmanns þess sem varnaraðili er skráður fulltrúi hjá.

Samkvæmt framansögðu og þar sem kærði hefur ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geta verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni nefndarmanna með réttu í efa, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður ekki fallist á kröfu kærða um að nefndarmenn málsins víki sæti vegna vanhæfis.

II.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Krafan er reist á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé haldinn verulegum annmörkum og sé svo óskýr og vanreifaður að varnaraðila sé ófært að átta sig á því nákvæmlega hvaða kröfur séu gerðar í málinu eða undan hverju sé kvartað. Sökum þess sé ómögulegt fyrir varnaraðila að halda uppi fullnægjandi efnisvörnum í málinu. Þá sé í kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar gerðar kröfur til handa varnaraðila, sem ekki sé hægt að fullnægja með úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. Vísast jafnframt um þetta til 2. tölul. 3. gr. og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna.

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila með þeim hætti að krafist sé þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Er ljóst af erindi sóknaraðila að hann telji varnaraðila hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem varnaraðili álítur stríða gegn lögum eða siðareglum lögmanna í skilningi 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þrátt fyrir að kröfur sóknaraðila í kvörtun rúmist sumar hverjar ekki innan valdheimilda nefndarinnar, er kvörtunin að mati nefndarinnar nægilega skýr um það hvers sé kvartað undan og ekkert því til fyrirstöðu að úrskurðarnefndin leysi úr efni kvörtunarinnar út frá þeim valdheimildum sem nefndin hefur lögum samkvæmt. Telur nefndin málatilbúnað sóknaraðila ekki haldin slíkum annmörkum eða svo óskýran og vanreifaðan að varðað geti við frávísun.

Að framanvirtu eru ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst.

III.

Kvörtun sóknaraðila í máli þessu lýtur að því að varnaraðili hafi í störfum sínum brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna með ummælum sem hann lét falla í tölvupóstum til sóknaraðila og með því að hafa heimildarlaust setið stjórnarfund í félagi ásamt umbjóðanda sínum, en sóknaraðili sinnti því hlutverki að annast ritun fundargerðar á þeim stjórnarfundi. Auk þess að hafa látið téð orð, sem sóknaraðili telur hafa falið í sér ávirðingar og aðdróttanir í sinn garð, falla í eigin nafni en ekki í nafni umbjóðanda síns. Jafnframt hafi varnaraðili hótað sér hneykslisspjöllum með eftirfarandi orðum: „Þarf að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri.“

Varðandi þann hluta kvörtunar sóknaraðila að varnaraðili hafi sótt stjórnarfundinn 10. desember 2021 í heimildarleysi er rétt að horfa til þess að kvörtun samkvæmt 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 tekur til þess þegar lögmaður hefur gert á hlut þess sem kvartar með þeim hætti sem nánar greinir í ákvæðinu, lögmannalögum og eftir ákvæðum siðareglna lögmanna. Óháð því hvort varnaraðili hafi sótt téðan stjórnarfund í heimildarleysi líkt og sóknaraðili vísar til, verður að mati nefndarinnar ekki séð hvernig sú háttsemi kann að hafa gert á hlut sóknaraðila, sem samkvæmt að eigin sögn, átti þau einu tengsl við félagið að hafa fengið það hlutverk að rita fundargerð stjórnarfundarins. Þykir því ekki tilefni til að fjalla nánar um það atriði.

Varðandi þau ummæli sem varnaraðili lét falla vísast í fyrsta lagi til þess að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hann hefur kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Mikilvægt er, að mati nefndarinnar, að lögmenn gæti þess að greina eins og kostur er á milli eigin sjónarmiða og sjónarmiða og hagsmuna umbjóðenda þeirra, svo sem skylt er að gera samkvæmt ákvæðinu. Að mati nefndarinnar getur orðaval og framsetning þeirra í skrifum lögmanna skipt máli í þessu sambandi.

Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, svo sem að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum

Þegar horft er til þeirra samskipta og gagna sem lögð eru fram þykir ljóst að þær ásakanir sem umbjóðandi varnaraðila hefur borið á sóknaraðila eru alvarlegar. Með hliðsjón af úrskurði nefndarinnar í máli 16/2020 má horfa til þess við mat á því hvort gætt hafi verið að ofangreindum ákvæðum siðareglna lögmanna, hvort varnaraðili hafi gengið lengra en umbjóðandi hans sjálfur hefði gert. Með hliðsjón af efni póstanna og þeirrar staðreyndar að samskipti varnaraðila til sóknaraðila hófust við það að umbjóðandi varnaraðila áframsendi á varnaraðila póstsamskipti hans við sóknaraðila, verður að telja að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst að bréf varnaraðila fólu í sér framlengingu af óskum og afstöðu umbjóðanda varnaraðila til málsins og þannig endurspeglaði það afstöðu umbjóðanda varnaraðila til kvörtunarefnisins. Þá verður að mati nefndarinnar að játa lögmanni svigrúm, innan þeirra marka sem siðareglur lögmanna setja, til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns. Þótt telja verði að varnaraðili hefði mátt gæta betur að því að greina á milli þeirra ummæla sem hann lét falla í nafni umbjóðanda síns annars vegar og í eigin nafni hins vegar, virðast ummælin endurspegla afstöðu umbjóðanda hans í málinu og þess alvarleika sem það er litið af hans hálfu.

Að mati nefndarinnar gildir það um flest þau ummæli sem varnaraðili lét falla í samskiptum aðila og sóknaraðili hefur kvartað sérstaklega undan, en þó gegni öðru máli um eftirfarandi ummæli varnaraðila til sóknaraðila ú tölvupósti þann 15. desember 2021, þar sem segir m.a. að: „Þessi vinnubrögð þín og annarra í þessu svokallað félagi er hreint út sagt með ólíkindum og ámælisverð. Þarf að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri.“ Lýsir varnaraðili þar vinnubrögðum sóknaraðila sem svo að þau séu með ólíkindum og ámælisverð án þess þó að séð verði að tilefni né nauðsyn hafi verið fyrir slíkum gífuryrðum í samskiptum aðila sem vörðuðu í grunninn vinnu sóknaraðila við ritun á fundargerðar stjórnarfundar í einkahlutafélagi. Að mati nefndarinnar fór varnaraðili úr hófi fram í garð sóknaraðila og sýndi þar gagnaðila skjólstæðings síns ekki þá virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings síns eftir 34. gr. siðareglna lögmanna. Hið sama gildir um þau orð varnaraðila að þurfa að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri. Óljóst er af þeim orðum hvort þau feli í sér framlengingu af gagnrýni varnaraðila í garð sóknaraðila eða hvort í þeim felist beinlínis hótun varnaraðili um að ljóstra upp um atferli, sem geti valdið sóknaraðila hneykslisspjöllum í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. siðareglna lögmanna, en sé sú raunin verður ekki séð með hvaða hætti sú hótun hafi verið sett fram til framdráttar máli skjólstæðings síns. Á hvorn veg sem á horfir þykja framangreind ummæli ekki samrýmast skyldum lögmanns að sýna gagnaðila skjólstæðings síns þá virðingu í riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings síns í skilningi lögmannalaga nr. 77/1998 og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Með vísan til framangreinds telur nefndin að varnaraðili hafi brotið gegn IV. kafla siðareglna lögmanna gagnvart sóknaraðila í skrifum sínum til hans þann 15. desember 2021. Hefur varnaraðili með ummælunum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna og er það aðfinnsluvert.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðilans, [B] lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað.

Sú háttsemi, [B] lögmanns, að lýsa vinnubrögðum sóknaraðila, [A], í tölvupósti þann 15. desember 2021 sem ámælisverðum og með ólíkindum og segjast þurfa að vara fólk við þess háttar fólki á sem flestum stöðum við sem flest tækifæri, er aðfinnsluverð.

Málskostnaður fellur niður.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson