Mál 9 2022

Mál 9/2022

Ár 2022, 13. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2022:

 

A

gegn

B lögmanni

 

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. febrúar 2022 erindi kæranda, A, þar sem lýst er ágreiningi við kærðu, B, annars vegar um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærðu í störfum sínum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærðu var veitt tækifæri á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 22. febrúar 2022 og barst hún nefndinni 15. mars s.á. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi þann sama dag. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust nefndinni þann 6. apríl 2022 og voru þær kynntar kærðu með bréfi 8. apríl s.m. Lokaathugasemdir kærðu bárust 2. maí 2022 og voru þær kynntar kæranda með bréfi 4. maí s.m., þar sem jafnframt var tilkynnt að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar eða athugasemda af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi allra nefndarmanna til meðferðar málsins og komu varamenn inn í stað þeirra.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var 21. febrúar 2022.

 

Af málsgögnum verður ráðið að þann 2. nóvember 2020 hafi kærandi hitt kærðu og fulltrúa hennar á fundi á skrifstofu kærðu þar sem kærandi hafi óskað eftir því að kærða tæki að sér hagsmunagæslu fyrir hana, þar sem barnsfaðir hennar hafði stefnt henni vegna lögheimilis sonar þeirra. Ákveðið hafi verið að gagnstefna strax í upphafi til þess að krefjast fullrar forsjár fyrir kæranda og breytinga á umgengni.

 

Með hliðsjón af málsgögnum sendi fulltrúi kærðu tölvubréf til kæranda 3. nóvember 2020 þar sem segir m.a.:

“Sæl A – Ég þarf að skoða hvort þú uppfyllir skilyrði til gjafsóknar…”.

 

Kærandi virðist hafa sent umbeðin gögn varðandi gjafsókn til fulltrúa kærðu en ekki fengið afgerandi svör til baka.

 

Kærða sendi kæranda fyrstu tímaskýrslu málsins í tölvubréfi 3. desember 2020 þar sem henni var tilkynnt að í reynd væri um tvö dómsmál að ræða sem í hagræðingarskyni væru rekin sem eitt mál. Jafnframt hafi kærða óskað eftir greiðslu inn á málið. Með hliðsjón af tímaskýrslu fyrir tímabilið 2. nóvember til 30. nóvember 2020 hafi tímagjald kærðu verið kr. 25.500 og tímagjald fulltrúans kr. 19.500. Í heild hafi fjöldi tíma verið 36,67 klst. og upphæð reiknings numið kr. 993.285. Hafi kærandi og kærða sammælst um að skipta fjárhæðinni í 3-4 greiðslur og kvaðst kærða gefa út reikninga jafnóðum og stofna kröfur í heimabanka.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sendi kærandi kærðu fyrirspurn varðandi mögulega gjafsókn í tölvubréfi 4. desember 2020 þar sem segir:

 

“Ég er að velta fyrir mér, hvernig er það með gjafsókn, á ég ekki neinn kost á slíku?”

 

Kærða svarar tölvubréfinu samdægurs með eftirfarandi:

 

“Sæl þú þarf að vera með ansi lágar tekjur til að eiga kost á því en ættir að fá am.k. mestan málskostnaðinn til baka ef C tapar málinu. Hvað ertu með háar tekjur á ársgrundvelli?”

 

Kærandi kvaðst þá hafa rætt við fulltrúa kærðu í byrjun nóvember um gjafsókn og sent henni skattaskýrslur en ekki fengið svör frá henni. Um þetta segir í tölvubréfi frá kæranda til kærðu 4. desember 2020:

 

“Ok ég vildi bara kanna möguleikann, ég var búin að spyrja D og senda skattaskýrslur en hafði ekki fengið endanlegt svar frá henni. Býst þá við að það sé úti.”

 

Kærða hafi í kjölfarið skipt kr. 993.285 í fjórar greiðslur sem kærandi greiddi samkvæmt kröfum í heimabanka sínum á tímabilinu 9. desember 2020 til 6. mars 2021. 

 

Samkvæmt málsgögnum var næsta tímaskýrsla ásamt reikningi send 2. júní 2021 fyrir tímabilið 27. desember 2020 til 19. febrúar 2021 og nam reikningsfjárhæðin kr. 245.195 með virðisaukaskatti vegna 7,75 klst., auk kr. 5.100 vegna mætingar lögmanns. Greiddi kærandi  reikninginn samdægurs. Sjá má af þessum gögnum að tímagjald vegna vinnu kærðu hafði hækkað í kr. 27.500 og tímagjald fulltrúa í kr. 24.500.

 

Aftur hafi tímaskýrsla og reikningur borist kæranda í tölvubréfi 21. október 2021. Tímaskýrsla hafi verið vegna 7,75 klst. og hafi reikningsfjárhæð því átt að hljóða upp á kr. 257.133 með virðisaukaskatti. Meðfylgjandi reikningur hafi hins vegar hljóðað upp á kr. 250.000 og var hann greiddur samdægurs.  

 

Þann 11. nóvember 2021 hafi svo borist í tölvubréfi tímaskýrsla frá kærðu til kæranda vegna ógreiddrar vinnu, þar sem kærða hafi jafnframt boðið kæranda að skipta greiðslu. Með hliðsjón af gögnum málsins virðist tímaskýrslan vera vegna tímabilsins 4. febrúar 2021 til 1. nóvember 2021 og er fjöldi skráðra tíma vegna málsins 48,25 klst., að fjárhæð kr. 1.610.915, auk greiðslu að fjárhæð kr. 10.416 vegna tilvísanaskrár eða samtals kr. 1.621.331 með virðisaukaskatti. Greiddi kærandi kr. 1.000.000 í fjórum greiðslum á tímabilinu 19. nóvember 2021 til 1. febrúar 2022 og hafði þá í heild greitt kærðu kr. 2.488.480 frá upphafi hagsmunagæslunnar.

 

Síðasti reikningur kærðu hafi svo borist kæranda 15. mars 2022 ásamt vinnuskýrslu og hljóðaði hann upp á kr. 562.650 vegna 16,5 klst., og heildarþóknun vegna málsins því komin í kr. 3.051.130.

 

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi eftir aðalmeðferð 1. febrúar 2022 sótt gögn málsins á skrifstofu kærðu og þar séð vinnuskýrslu málsins, sem gefið hafi til kynna að heildarkostnaður vegna vinnu kærðu og fulltrúa hennar hafi numið kr. 3.471.429. Kærða hafi hins vegar ekki innheimt umrædda þóknun að fullu og jafnframt virðist heildarþóknun vera lægri en skráðir tímar og tímagjald segja til um.  

 

II.

Að mati úrskurðarnefndar lögmanna verður að skilja málatilbúnað kæranda í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti annars vegar að ágreiningi um endurgjald kærðu í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 en hins vegar að meintu broti á lögum eða siðareglum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærandi lýsir því að hafa hitt kærðu í fyrsta skiptið 2. nóvember 2020 og hafi þá óskað eftir því að kærða tæki að sér mál fyrir hana þar sem barnsfaðir kæranda hafði stefnt henni vegna lögheimilis sonar þeirra. Kærða hafi þá spurt hvort D, löglærður fulltrúi og starfsmaður hennar, mætti sitja fundinn með þeim. Kærandi kveðst hafa samþykkt það, þar sem hún hafi ekki vitað betur en að D væri enn í námi eða að afla sér málflutningsréttinda. Kærandi hafi hins vegar aldrei verið spurð hvort hún vildi hafa þær báðar sem lögmenn sína og greiða þóknun fyrir.

 

Á fundinum kveðst kærandi hafa spurt hvort hún gæti óskað eftir fullri forsjá í leiðinni fyrst það væri nú þegar farið af stað dómsmál. Kærða hafi þá sagt að hægt væri að gagnstefna og hvatt kæranda til þess. Kærandi lýsir því að hún hafi engar upplýsingar fengið um að gagnstefna fæli í sér aukinn kostnað og áhættu en að halda einungis uppi vörnum. Hún hafi heldur ekki verið upplýst um að kærða hygðist láta fyrrnefndan fulltrúa sinn vinna að málinu með sér og krefja kærðu um tvöfaldan kostnað. Þá hafi hún ekki verið upplýst um að færi hún fram á fulla forsjá yrði gert forsjárhæfnismat sem kærandi gæti þurft að greiða fyrir eða leggja út fyrir. Eins hafi hún ekki fengið upplýsingar um hvað málið gæti tekið langan tíma eða að mál sem þessi væri oft reynt að sætta. Að endingu kveðst kærandi ekki hafa fengið upplýsingar um möguleika á gjafsókn, styrkjum, bótum eða tryggingum, færi svo að hún sæti uppi með málskostnað. Kærandi lýsir því að þegar hún hafi spurt kærðu um gjafsókn hafi henni verið sagt að hafa ekki áhyggjur þar sem málið væri auðunnið og þá væri það barnsfaðir hennar sem þyrfti að greiða allt. Málinu hafi svo lokið með dómsúrskurði 24. nóvember 2021 og lýsir kærandi því að samkvæmt honum hafi allt verið óbreytt, lögheimili barnsins hafi áfram verið hjá henni og forsjá sameiginleg. Þá hafi málsaðilum verið gert að standa straum af eigin lögmannskostnaði. 

 

Kærandi lýsir því að kærða hafi sent henni reglulega rukkun fyrir lögfræðikostnaði og hafi fyrsti reikningurinn, samtals að fjárhæð kr. 993.285, komið eftir að búið var að gagnstefna í málinu 3. desember 2020. Kærandi kveðst þá fyrst hafa fengið upplýsingar um að málin væru í raun tvö, rekin sem eitt. Flestir vinnutímar hafi verið skráðir á fulltrúa kærðu sem hafi bæði ritað greinargerð kæranda og gagnstefnuna. Kærandi kveðst hafa verið ósátt við að fulltrúi kærðu væri að vinna í málinu, þar sem hún hafi falið kærðu að taka að sér hagsmunagæsluna og skrifað undir umboð þess efnis. Kærandi hafi ekki sett sig upp á móti því að fulltrúi kærðu safnaði saman upplýsingum og ljósritaði skjöl en aldrei samþykkt að fulltrúinn skrifaði bæði greinargerð og gagnstefnu og að hún ætti að bera fullan kostnað af því. Í framhaldinu hafi kærandi óskað eftir fundi með kærðu til að fá útskýringar á þessu. Kærandi lýsir því að eftir þá beiðni hafi fulltrúi kærðu dregið sig í hlé frá vinnunni og kærða verið í meira sambandi við sig. Hins vegar hafi aldrei orðið af umræddum fundi.

 

Kærandi bendir á að áfram hafi þó verið tímafærslur vegna vinnu fulltrúans í vinnuskýrslunum og einnig hafi verið mikið um færslur þar sem kærða og fulltrúi hennar unnu sömu verkliði. Þá telji kærandi engu líkara en að vinnuskýrslur hafi verið settar fram til þess eins að villa um fyrir henni. Þrisvar sinnum hafi hún fengið sendar vinnuskýrslur í tölvupósti þar sem hún hafi verið beðin um að millifæra u.þ.b. kr. 250.000 upp í kostnað. Þann 11. nóvember 2021 hafi kærandi svo fengið vinnuskýrslu vegna ógreidds kostnaðar að fjárhæð kr. 1.621.331. Reikningurinn frá 3. desember 2020 sem kærandi hafði verið búin að greiða hafi ekki verið inn í þeirri tölu og því hafi kærandi áætlað að sú fjárhæð sem hún hafi lagt inn á kærðu á árinu, kr. 758.574 hafi verið innborgun inn á reikninginn frá 11. nóvember 2021. 

 

Kærandi lýsir því að hún hafi þann 1. febrúar 2022 sótt gögn í málinu og þar hafi hún fundið vinnuskýrslur kæranda. Þá fyrst hafi hún áttað sig á að heildarkostnaður málsins væri kominn í kr. 3.471.429, sem var mun hærri tala en kærandi taldi heildarkostnaðinn vera miðað við þá reikninga sem hún hafði fengið senda, en kærandi hafði þá þegar greitt kærðu kr. 2.488.480. Í framhaldinu hafi kærandi farið að kynna sér lög og siðareglur lögmanna þar sem m.a. komi skýrt fram að lögmaður sé skyldugur til þess að upplýsa um kostnað og áætlaðan kostnað og að lögmaður beri einnig ábyrgð á kostnaði annars aðila sem hann fengi til þess að aðstoða sig með mál, nema um annað væri beinlínis samið.

 

Kærandi bendir á að heildarkostnaður lögmanns gagnaðila sé u.þ.b. einni milljón lægri en hjá henni, þrátt fyrir að lögmaður gagnaðila hafi unnið fyrir hann sex mánuðum lengur. Kærandi telur að kærða hafi gróflega brotið á rétti sínum þegar henni voru ekki veittar upplýsingar um kostnað og áhættur í málinu og vegna þess upplýsingaskorts hafi kærandi ekki getað tekið upplýsta ákvörðun um hvort hún gæti staðið undir þeim kostnaði sem fælist í að gagnstefna.

 

Kærandi krefst þess að starfshættir kærðu verði skoðaðir ítarlega, ásamt því að málskostnaður verði lækkaður í samræmi við það sem telst vera rétt. Þá krefst kærandi þess að kostnaðarliðir fulltrúa kæranda verði felldir niður ásamt því að allar taxtahækkanir verði felldar niður þar sem kærandi var hvorki upplýst um taxtann í upphafi né taxtahækkanir.

 

 

III.

Kærða krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá er þess krafist að öllum kröfum sem varða atvik/reikninga sem eru eldri en frá 22. febrúar 2021 verði vísað frá nefndinni.

 

Hvað frávísunarkröfu kærðu snertir bendir hún á að af tímaskýrslum hennar verði ráðið að vinna fyrrum fulltrúa hennar varðandi meintan tvöfaldan lögfræðikostnað, vinna við gagnstefnu og öll vinna í meintri óþökk kæranda hafi átt sér stað utan eins árs frests og eigi því ekki undir nefndina, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Auk ábendingar kærðu þess efnis að kærufrestur sé útrunninn bendir kærða á að kvartanir kærðu eigi ekki við rök að styðjast. Kærandi hafi þannig aldrei upplýst hana um að fulltrúi kærðu væri að starfa í óþökk kæranda, þvert á móti megi sjá að talsverð samskipti voru á milli fulltrúans og kæranda varðandi málið, t.d. hafi fulltrúinn skoðað fyrir hana möguleikann á gjafsókn og hafi kærandi sent fulltrúanum í því skyni skattframtöl ásamt fleiri gögnum og upplýsingum. Kærandi hafi því verið fullkomlega upplýst um að fulltrúi kærðu kæmi að vinnu málsins og hafi hann m.a. setið fyrsta fund kæranda og kærðu. Með aðkomu fulltrúans hafi kærða reynt að takmarka kostnað kæranda af rekstri málsins og ekkert óeðlilegt sé við að fulltrúi vinni að málum þess lögmanns sem hann starfar fyrir.

 

Kærða vísar til þess að allar tímaskýrslur og reikningar hafi verið sendar reglulega til kæranda og þar hafi komið fram sundurliðað hvað kærða hafi unnið í málinu og hvað fulltrúi hennar hafi unnið. Hafi engar athugasemdir borist frá kæranda, hvorki varðandi vinnu fulltrúans né  um kostnað í málinu. Kærandi hafi móttekið tímaskýrslur og reikninga og greitt allt athugasemdalaust í hvert sinn. Hins vegar sé það rétt sem fram komi hjá kæranda að fulltrúi kærðu og kærða hafi báðar skráð tíma vegna fundarins 20. nóvember 2020, en að það hafi verið mistök og tekið hafi verið fullt tillit til þessa í formi afsláttar sem kæranda hafi þegar verið veittur.

 

Kærða bendir á að allar kvartanir kæranda þess efnis að hún hafi ekki fengið upplýsingar um rekstur málsins eigi ekki við rök að styðjast. Samskipti kæranda og kærðu hafi þvert á móti verið mjög tíð eins og t.d. megi sjá af tímaskýrslum málsins. Á öllum stigum hafi kærandi verið upplýst um framgang málsins, tíð tölvupóstsamskipti hafi átt sér stað, sem og símhringingar. Bendir kærða á að kærandi kvarti t.d. undan því að hafa ekki verið upplýst um möguleikann á gjafsókn, styrkjum, tryggingum eða bótum. Af gögnum málsins megi hins vegar glögglega sjá að strax í upphafi hafi kærða skoðað möguleikann á gjafsókn en niðurstaðan verið sú að kærandi hafi verið yfir tekjuviðmiðum. Einnig tekur kærða fyrir að hafa sagt við kæranda að málið væri auðunnið.

 

Þá vísar kærða til þess að strax í upphafi máls hafi kærandi sett fram sjónarmið um að krefjast fullrar forsjár og breyttrar umgengni. Af því tilefni hafi kærða upplýst að til að unnt væri að fara fram á slíkt yrði að leggja fram gagnstefn í dómsmálinu. Hafi kærða talið réttast að gagnstefna til að koma í veg fyrir að það væri á hendi stefnanda að fella málið niður, t.d. ef matsgerð yrði honum óhagstæð.

 

Kærða bendir á að í forsjármálum sé ekki óalgengt að lögfræðikostnaður sé talsverður, enda fari mikil vinna í að reka slík mál. Í því máli sem um ræðir hafi bæði þurft að skrifa greinargerð í aðalsök og gagnstefnu. Þá hafi vinna við öflun matsgerðar og áhersla dómara á að sátt næðist í málinu aukið á vinnuna. Eins hafi farið mikil vinna í að svara tölvupóstum frá kæranda sem fylgst hafi grannt með málarekstrinum, lesið öll gögn og haft skoðun á flestum þáttum málsins.

 

Kærandi hafnar ásökun kærðu um að hún hafi innheimt „tvöfaldan lögfræðikostnað“ og að hún hafi reynt að villa um fyrir kæranda hvað varðar tímaskráningar. Bendir kærða á að þegar kærandi hafði fyrst uppi athugasemdir um kostnað, í tölvupósti 3. febrúar 2022, hafi hún ítrekað gert tilraun til þess að eiga fund með kæranda, fara yfir umkvörtunarefni hennar, ræða málin og útskýra. Kærandi hafi hins vegar hundsað allar slíkar umleitanir.

 

Kærða hafi lagt sig fram um að senda tímaskýrslur fyrir hvern reikning og komið til móts við kæranda, bæði með því að veita afslætti og skipta greiðslum. Kærðu hafi því þótt það miður að upplifun kæranda af þjónustu hennar sé sú sem lýst er í kvörtun.

 

Kærða vísar til þess að kærandi kvarti undan hækkuðu tímagjaldi, en í júní 2021 hafi kærða sent kæranda tímaskýrslu þar sem fram kemur hærra tímagjald en í upphafi. Hafi kærandi engar athugasemdir gert við það. Sama hafi verið gert í október og nóvember 2021 og kærða hafi ekki fengið neinar ábendingar eða athugasemdir um annað en að kærandi væri mjög ánægð með vinnu hennar, bæði meðan á rekstri málsins stóð og jafnvel eftir að dómur féll. Þann 11. nóvember 2021 hafi kærða sent kæranda tímaskýrslu fyrir eftirstöðvum vinnunnar og boðið henni að skipta greiðslum sem hún hafi þegið og í kjölfarið greitt viðkomandi reikninga athugasemdalaust.

 

Kærða bendir á að samanburður á vinnu hennar og vinnu lögmanns gagnaðila sé ekki réttmætur þar sem gagnaðili hafi eingöngu verið að krefjast breytinga á lögheimili en kærandi hafi verið að krefjast breytinga á forsjá og umgengni, sem sé mun viðameira verk og feli m.a. í sér vinnu við öflun matsgerðar.

 

Að endingu vísar kærða til þess að af lestri heildartímaskýrslu megi ráða að kærandi hafi nú þegar greitt kr. 2.488.480, en að reikningsfærðir tímar séu hins vegar kr. 2.777.959. Kærandi hafi þannig fengið u.þ.b. kr. 289.479 í afslátt og ógreiddar eftirstöðvar séu í dag kr. 562.650 með virðisaukaskatti. Kærða hafi því tekið tillit til fundarins í upphafi sem var tvískráður ásamt því að koma til móts við kæranda og fjárhag hennar.

 

 

Niðurstaða

I.

Kröfugerð kæranda í málinu lýtur í fyrsta lagi að því að þóknun kærðu vegna reksturs dómsmáls fyrir kæranda hafi verið umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt geti talist. Kærandi krefst þess að tímaskýrsla og starfshættir lögmannsins verði ítarlega skoðaðir ásamt því að allur kostnaður vegna starfa fulltrúa kærðu verði felldur niður ásamt öllum taxtahækkunum. Kærða hefur hins vegar aðallega krafist þess að tilgreindri kröfu verði hafnað og að öllum kröfum sem varða reikninga eldri en frá 22. febrúar 2021 verði vísað frá nefndinni.

 

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá er þar tiltekið að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

 

Varðandi kröfu um frávísun að hluta hefur kærða vísað til þess sem greinir í síðari málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um frest til að koma ágreiningsmáli um endurgjald á framfæri við nefndina. Að mæti kærðu beri að vísa ágreiningi varðandi þá reikninga sem voru gefnir út og greiddir af hálfu kæranda fyrir 22. febrúar 2021, frá nefndinni þar sem erindi kæranda til nefndarinnar hafi ekki verið móttekið fyrr en 21. febrúar 2022.  

 

Kærða sendi kæranda fyrst tímaskýrslu þann 3. desember 2020 vegna 36,67 klst. og nam heildarfjárhæð kröfu vegna hennar kr. 993.285 með virðisaukaskatti. Þá liggur fyrir að kærandi fékk heimild til þess að skipta fjárhæðinni og voru þrír reikningar gefnir út og greiddir af kæranda á tímabilinu 9. desember 2020 til 17. febrúar 2021. Þrátt fyrir að tímaskýrsla hafi verið send fyrir 22. febrúar 2021 og útgefnir reikningar greiddir af kæranda athugasemdalaust er til þess að líta að heildarkostnaður verksins var óljós í upphafi og varð kæranda ekki fyllilega ljós fyrr en meðferð málsins lauk fyrir dómi.

 

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að kærandi hafi í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, fyrst átt þess kost að koma ágreiningsmáli um heildarendurgjald á framfæri við nefndina 1. febrúar 2022, þ.e. þegar kærandi fékk heildarvinnuskýrslu málsins í hendurnar sem kærða lagði fram við aðalmeðferð málsins. Þegar ágreiningsmálinu var komið á framfæri við nefndina þann 21. febrúar 2022 var því ekki liðinn sá ársfrestur sem mælt er fyrir um í síðari málslið 1. mgr. 26. gr. laganna.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

 

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum og vekja athygli hans á, ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð. Hvíla þessar skyldur eðli málsins samkvæmt hvað ríkast á lögmönnum við upphaf hagsmunagæslu.

 

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærða hafi sett fram áætlun um kostnað í upphafi verksins eða útskýrt með fullnægjandi hætti hvernig þóknun yrði reiknuð. Samskipti málsaðila á verktíma sem liggja fyrir nefndinni varðandi gagnstefnu bera ekki með sér að kæranda hafi verið kynnt sérstaklega hver viðbótarkostnaður vegna þess hluta kynni að verða. Þá bera samskipti aðila einnig með sér að kostnaðarleg áhætta af rekstri málsins hafi ekki verið kynnt kæranda með fullnægjandi hætti og má um það vísa til ummæla kærðu í tölvubréfi 4. desember 2020 þar sem kærandi spyr hvort hún eigi rétt á gjafsókn og kærða svarar á þá leið að tekjur þurfi að vera ansi lágar, en fullyrðir jafnframt að kærandi ætti að fá a.m.k. mestan  hluta málskostnaðar til baka ef gagnaðili tapar málinu.

 

Að mati nefndarinnar liggur þannig ekki fyrir með fullnægjandi hætti að kærða hafi gert kæranda grein fyrir áætluðum verkkostnaði við upphaf hagsmunagæslunnar eða mögulegri kostnaðaráhættu af rekstri málsins og hafi kærandi því ekki getað áttað sig fyllilega á hvert umfang málsins gæti orðið. Er eðlilegt að taka tillit til þess þegar sanngjörn þóknun er metin.

 

Með hliðsjón af gögnum málsins má ráða að kærða hafi gefið út tímaskýrslur og reikninga nokkuð reglulega og að þar hafi komið fram upplýsingar um tímagjald, hækkun tímagjalds, tímafjölda og grundvöll fyrir útreikningi. Þá virðist heildarendurgjald lögmannsins vera lægra en skráðir tímar og tímagjald segja til um og gerir nefndin því ekki athugasemdir við tímagjaldið sjálft, sem er á bilinu frá 19.500 krónum vegna vinnu fulltrúa og upp í 27.500 krónur fyrir vinnu kærðu.

 

III.

Svo sem fyrr greinir annaðist kærða hagsmunagæslu í þágu kæranda og hittust þær fyrst á fundi 2. nóvember 2020 ásamt fulltrúa kærðu. Á þeim fundi komu aðilar sér saman um að kærða tæki að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda, þar sem barnsfaðir hennar hafði stefnt henni vegna lögheimilis sonar þeirra. Ákveðið hafi verið að gagnstefna strax í upphafi til þess að krefjast fullrar forsjár fyrir kæranda og breytingar á umgengni. Hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að skort hafi á upplýsingagjöf kærðu gagnvart kæranda í upphafi hagsmunagæslunnar þar sem ekki hafi verið sett fram áætlun um kostnað strax í upphafi eða útskýrt með fullnægjandi hætti hver viðbótarkostnaður við gerð gagnstefnu kynni að verða eða hvernig þóknun yrði reiknuð. Kærandi hafi því ekki getað áttað sig fyllilega á því hvert umfang málsins gæti orðið eða kostnaðarleg áhætta.

 

Fram hefur komið fyrir nefndinni að kærða hefur gefið út reikninga á hendur kæranda að heildarfjárhæð 3.051.130 krónur. Fyrir liggur að hið umþrætta endurgjald tók til lögmannsstarfa kærðu frá undirbúningi málsvarna í héraðsdómsmáli því sem höfðað var gegn kæranda, þann x. nóvember 20xx, uns því var lokið með úrskurði héraðsdóms í lok árs 2021. Samkvæmt því tók endurgjaldið meðal annars til lögmannsstarfa vegna skrifa á greinargerð og gagnstefnu, skoðunar og öflunar gagna, samskipta við kæranda og reksturs málsins fyrir héraðsdómi að öðru leyti, svo sem að annast mætingar við fyrirtökur málsins, undirbúning aðalmeðferðar auk aðalmeðferðarinnar sjálfrar.

 

Að mati nefndarinnar eru þeir hagsmunir sem til úrslausnar voru í framangreindu dómsmáli bæði viðkvæmir og mikilvægir. Þrátt fyrir það er umræddur ágreiningur að mati nefndarinnar hefðbundinn á því réttarsviði sem um ræðir og þeir hagsmunir sem voru til umfjöllunar í málinu að sama skapi innan þeirra marka sem almennt má gera má ráð fyrir að komi til kasta dómstóla við hagsmunagæslu lögmanna í málum sem lúta að forsjá barna. Telur nefndin því að umfang málsins, sakarefni eða hagsmunir gefi ekki tilefni til aukinnar tímaskráningar umfram það sem almennt má búast við í sambærilegum málum.

 

Ekki er fyllilega ljóst af gögnum málsins hversu margar vinnustundir kærða og fulltrúi hennar inntu af hendi í þágu kæranda, sem og hversu margar þessara vinnustunda urðu svo grundvöllur útgefinna reikninga kærðu. Má þó ráða af gögnum málsins að skráðar vinnustundir kærðu í þágu kæranda hafi verið 122,75 en vinnustundir fulltrúa hennar 99,34. Alls hafi kærða og fulltrúi hennar því skráð 222,09 vinnustundir á verkið en augljóst er að útgefnir reikningar kærðu eru vegna færri vinnustunda. Að framan er rakið að ekki eru gerðar athugasemdir við það tímagjald sem kærða hefur áskilið sér.

 

Það er niðurstaða nefndarinnar að skort hafi á upplýsingagjöf kærðu gagnvart kæranda í upphafi hagsmunagæslunnar. Telur nefndin óhjákvæmilegt að líta til þess við ákvörðun á hæfilegum verklaunum.

 

Með hliðsjón af öllu framansögðu og að teknu tilliti til málsgagna og atvika allra telur nefndin að meta verði heildstætt þann kostnað sem kæranda beri að greiða kærðu vegna hagsmunagæslunnar. Er það mat kærunefndar að sú fjárhæð sem kærða hefur gert kæranda reikninga fyrir sé nokkuð umfram það sem kærandi mátti búast við og hæfilegt getur talist. Telur nefndin að lækka beri þóknun að álitum og rétt að leggja til grundvallar að sú fjárhæð sem kærandi hefur nú þegar greitt til kærðu sé réttmætt endurgjald fyrir vinnu hennar. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir störf kærðu í þágu kæranda, í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998, teljist kr. 2.488.480, með virðisaukaskatti og fellur því útistandandi reikningur frá 15. mars 2022, að fjárhæð kr. 562.650, niður.

 

IV.

Málatilbúnaður kæranda er einnig reistur á því að hagsmunagæsla kærðu í hennar þágu hafi verið ófullnægjandi og að háttsemi hennar hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Þá er jafnframt byggt á því í kæru að kærðu hafi verið óheimilt að fela fulltrúa sínum að sinna hagsmunagæslu fyrir hönd kæranda.

 

Fyrir liggur að skort hafi á upplýsingar kærðu við kæranda við upphaf hagsmunagæslu kærðu þar sem ekki hafi verið sett fram ráðagerð um kostnað í upphafi eða með fullnægjandi hætti gerð grein fyrir hugsanlegum viðbótarkostnaði vegna gagnstefnu eða hvernig þóknun yrði reiknuð. Að öðru leyti  verður ekki að mati nefndarinnar ráðið af málsgögnum að einhverju hafi verið áfátt í hagsmunagæslu kærðu í þágu kæranda og hafi kærða neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna kæranda, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

 

Að sama skapi er það mat nefndarinnar að kærðu hafi verið heimilt að fela fulltrúa sínum að sinna hagsmunagæslu í þágu kæranda. Kæranda var frá upphafi ljóst að nafngreindur fulltrúi kærðu myndi vinna að málinu með kærðu. Reikningar, vinnuskýrslur og tölvupóstsamskipti vegna málsins bera og með sér aðkomu fulltrúans að málinu og ósannað er að það hafi sætt sérstökum andmælum af hálfu kæranda. Kærða hafði yfirumsjón með vinnunni og bar á henni ábyrgð gagnvart kæranda. Sú tilhögun fól ekki í sér framsal á því málflutningsumboði sem kærandi hafði veitt kærðu. Kærða fór eftir sem áður með fyrirsvar málsins og verður ekkert annað ráðið af málsgögnum en að til hafi staðið að hún annaðist jafnframt flutning þess fyrir dómi, sem varð og raunin, sbr. ákvæði 4. mgr. 21. gr. laga um lögmenn. Verður því ekki fallist á framangreindar röksemdir kæranda, sbr. til hliðsjónar niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 172/2015.

 

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærða hafi í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald kærðu, B lögmanns, vegna starfa hennar í þágu kæranda, A, sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera kr. 2.488.480 með virðisaukaskatti.

 Kærða, B lögmaður hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Grímur Sigurðsson, formaður

Helgi Birgisson

Hulda Katrín Stefánsdóttir