Mál 34 2022

Mál 34/2022 

Ár 2023, miðvikudaginn 14. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna. 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2022: 

A 

gegn 

B lögmanni 

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. nóvember 2022 kvörtun [A], gegn [B] lögmanni. 

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 21. nóvember 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum vegna málsins barst til nefndarinnar þann 15. desember 2022 og var hún send sóknaraðila til athugasemda. Í kjölfarið skilaði sóknaraðili viðbótarathugasemdum til nefndarinnar og loks skilaði varnaraðili viðbótarathugasemdum ásamt nýju fylgiskjali. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Málsatvik eru þau helst að þann […] lenti sóknaraðili í vinnuslysi þar sem hann lamaðist upp að bringu. Með umboði dags. 6. desember 2019 fól sóknaraðili [...] lögmannsstofu að gæta hagsmuna sinna vegna slyssins. Með matsgerð dags. 10. ágúst 2021 var sóknaraðili metinn til 100% varanlegrar örorku og 90 stiga varanlegs miska. Þann 14. september 2021 var uppgjör undirritað fyrir hönd sóknaraðila úr slysatryggingu launþega hjá [...]. Var sóknaraðili ósáttur við uppgjörið, bæði fjárhæð þess og að það hafi verið samþykkt án samráðs við hann. 

Í kjölfar uppgjörsins úr slysatryggingu launþega leitaði sóknaraðili til varnaraðila og óskaði þess að hann tæki að sér rekstur skaðabótamálsins. Krafðist varnaraðili innborgunar að fjárhæð 600.000 kr. áður en hann væri reiðubúinn að taka málið til skoðunar sem sóknaraðili greiddi þann 6. október 2021 gegn kvittun útgefinni samdægurs. Á kvittuninni er tilgreint að lögmannsstofa varnaraðila hafi móttekið greiðslu vegna skaðabótamáls sóknaraðila, ráðgjafar og eftirfylgni. Næsta dag, þann 7. október 2021, reikningsfærði varnaraðili innborgunina í heild sinni og gaf út reikning merktan sem innborgun/lögfræðiþjónusta. Þann reikning kannast sóknaraðili ekki við að hafa fengið afhentan. 

Tímaskýrsla varnaraðila tekur til tímabils frá 12. október 2021 til 28. mars 2022 og telur 15 klukkustundir. Dagana 12. og 13. október 2021 eru skráðar samtals fjórar klukkustundir í móttöku og yfirlestur gagna og matsgerðar læknis. Dagana 15. og 18. október 2021 eru skráð samskipti við [...] vegna málsins, þ.m.t. við […] lögmann og frekari yfirferð upplýsinga og gagna. Þann 26. október 2021 er skráður þriggja klukkustunda fundur á [...], þar sem sóknaraðili dvaldi. Ágreiningur er um lengd fundarins sem sóknaraðili kveður hafa varið í mesta lagi í hálftíma. Á tímabilinu 17. janúar til 28. mars 2022 eru skráð frekari tölvupóstssamskipti við [...] og við sóknaraðila. Þann 28. mars 2022 er síðan aftur skráður þriggja klukkustunda fundur með sóknaraðila á [...].  

Mat varnaraðili hagsmunum sóknaraðila betur borgið með því að [...] annaðist áfram skaðabótamál hans og lagði varnaraðili vinnu í að leiða sóknaraðila og lögmenn [...], saman til að rétta úr þeim misskilningi sem upp hafði komið milli þeirra í kjölfar uppgjörsins úr launþegatryggingunni. Náðu sóknaraðili og lögmenn [...] skilningi um stöðu mála og tók varnaraðili því aldrei við rekstri líkamstjónamáls sóknaraðila.   

Tímagjald sóknaraðila nemur 37.700 kr. auk virðisaukaskatts en aðila greinir á um hvort samið hafi verið um að verkið yrði unnið eftir tímagjaldi og hvort að sóknaraðila hafi verið kynnt tímagjaldið og reikningsgrundvöllur vegna starfa varnaraðila. Fjárhæð 600.000 kr. sem sóknaraðili greiddi inn á varnaraðila samsvarar tæplega 13 klukkustundum af vinnu eftir því tímagjaldi. Varnaraðili kveðst hafa ákveðið að krefjast ekki frekari greiðslna frá sóknaraðila fyrir umfram vinnu samkvæmt tímaskýrslu, né fyrir aðra aðstoð sem var óskráð, s.s. aðstoð við skattframtalsskil og vinnu vegna meints eineltismáls starfsmanna [...] í garð sóknaraðila. Sóknaraðili krafðist þess að varnaraðili endurgreiddi sér fjármunina en þeirri kröfu varð varnaraðili ekki við. Leitaði sóknaraðili því með málið til nefndarinnar.  

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila á þann veg að hann telji varnaraðila ekki eiga rétt til endurgjalds fyrir störf í sína þágu og að hann krefjist þess að endurgjald varnaraðila eða fjárhæð þess sæti lækkun, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt krefjist sóknaraðili endurgreiðslu þess sem ofgreitt var.  

Réttindagæslumaður sóknaraðila ritar kvörtun og viðbótarathugasemdir til nefndarinnar fyrir hans hönd. Er á því byggt að sóknaraðili hafi greitt varnaraðila 600.000 kr. fyrir lögfræðiþjónustu sem aldrei var innt af hendi. Kveðst sóknaraðili hafa óskað eftir endurgreiðslu frá varnaraðila þegar honum varð ljóst hversu litla vinnu varnaraðili hafði lagt í málið en varnaraðili neitað að verða við því.  

Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi misnotað aðstöðu sína gagnvart honum, en sóknaraðili er af erlendum uppruna og lamaður upp að bringu eftir vinnuslys. Í málatilbúnaði sóknaraðila er því lýst að hann hafi leitað til varnaraðila vegna misskilnings sem kom upp milli hans og lögmanna [...] vegna líkamstjónamáls sem þeir ráku fyrir hann. Sá misskilningur, sem sóknaraðili rekur til tungumálaörðugleika, varð til þess að sóknaraðili fór að óttast um stöðu mála hjá [...]. Að sögn sóknaraðila krafðist varnaraðili téðrar innborgunar til að málið gæti farið í ferli hjá honum, sem upphaflega hafi átt að vera 740.000 kr., en sóknaraðila hafi síðan verið boðinn afsláttur og einungis þurft að greiða 600.000 kr. Sóknaraðili kveðst hafa hitt varnaraðila í tvö skipti, en þar hafi varnaraðili fullyrt um að hafa lagt mikla vinnu í málið. Byggir sóknaraðili á því að það sé rangt, en hið rétta sé að [...] hafa unnið alla lögfræðivinnuna áður en varnaraðili kom að málinu og að varnaraðili hafi í raun nánast enga vinnu innt af hendi, að því frátöldu að hafa mögulega aðstoðað sóknaraðila við skattframtal. Kveðst sóknaraðili hafa lagt inn á varnaraðila í góðri trú um að hann myndi sinna málinu af fagmennsku, en sú hafi ekki orðið raunin. Sóknaraðili kveðst aldrei hafa fengið útgefinn reikning frá varnaraðila eða tímaskýrslu vegna vinnu varnaraðila heldur einungis kvittun þann dag sem hann greiddi innborgunina til varnaraðila. Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi aldrei verið með umboð í málinu.  

Kveðst sóknaraðili hafa óskað eftir því að varnaraðili kæmi ekki frekar að máli hans og krafist endurgreiðslu, eftir að honum varð ljós misskilningurinn við lögmenn [...]. Þeirri kröfu hafi varnaraðili ekki orðið við. Að sögn réttindagæslumanns sóknaraðila óskuðu starfsmenn [...] einnig eftir því að varnaraðili endurgreiddi sóknaraðila fjármunina, þar sem þeir hafi séð hve litla vinnu varnaraðili vann í þágu sóknaraðila og viljað aðstoða sóknaraðila við að endurheimta fjármunina, enda þótt sárt að horfa upp á sóknaraðila greiða allan þann kostnað að óþörfu.  

III. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að endurgjald hans eða fjárhæð þess vegna starfa í þágu sóknaraðila verði talið hæfilegt skv. 26. gr. laga nr. 77/1998 miðað við þau störf sem hann vann.  

Frávísunarkröfu sinni til stuðnings vísar varnaraðili til þess að samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn beri að skila kvörtun til nefndarinnar innan eins árs frá því að kostur var að leggja hana fram en ella beri úrskurðarnefndinni að vísa henni frá. Kvörtun sóknaraðila varði reikning dags. 7. október 2021 sem var útgefinn í kjölfar greiðslu sóknaraðila þann 6. október 2021. Kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar sem var móttekin 2. nóvember 2022 barst því rúmu ári frá greiðslu sóknaraðila og útgáfu reikningsins. Þar af leiðandi sé kvörtunin of seint fram komin og ber að vísa henni frá sbr. 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.  

Þá hafnar varnaraðili málsatvikum eins og þeim er lýst í kvörtun sóknaraðila, sem hann kveður ekki standast skoðun miðað við samskipti í málinu og þá vinnu sem um var beðið og innt var af hendi.  

Kveðst varnaraðili hafa fengið fregnir af sóknaraðila og vinnuslysi hans frá tengilið sem er samlandi sóknaraðila og að varnaraðila hafi verið tjáð að sóknaraðili væri ósáttur við þá lögmenn sem önnuðust skaðabótamálið hans. Að sögn varnaraðila áttu tengiliðurinn og sóknaraðili mikil samskipti á þessum tíma og þrátt fyrir tilraunir þeirra hafi þeim ekki tekist að ná í [...]. Lýsir varnaraðili því að ósætti sóknaraðila hafi sprottið af samskiptaleysi lögmanna [...], þeirri háttsemi þeirra að taka við greiðslu skaðabóta fyrir hönd sóknaraðila án samráðs við hann, auk þess sem sóknaraðili hafi verið ósáttur við fjárhæð greiddra bóta og lögmannskostnaðar [...]. Tengiliðurinn hafi þá vísað sóknaraðila á varnaraðila. Varnaraðili kveðst ekki hafa verið tilbúinn til að taka við málinu án skoðunar og sóknaraðila gerð grein fyrir því að ef skoða ætti málið þyrfti sóknaraðili að leggja fram gögn til að hægt væri að meta stöðuna og ræða við [...].  

Kveður varnaraðili það viðhafða reglu, að gefnu tilefni, að fá greitt inn á mál áður en vinna sé hafin í þeim. Viðmiðið sé venjulega að greitt sé til tryggingar upphafsvinnu sem á að vinna ef tilefni er til. Að sögn varnaraðila var þetta rætt við sóknaraðila og niðurstaðan verið sú að sóknaraðili greiddi 600.000 kr. samkvæmt framlagðri kvittun í málinu. Reikningur hafi síðan verið útgefinn á sóknaraðila í framhaldinu. Vísar varnaraðili til þess að samkvæmt texta kvittunar hafi greiðsla sóknaraðila verið vegna skaðabótamáls hans, ráðgjafar og eftirfylgni, enda hafi ekki legið ljóst fyrir hvort að efni væri til að taka við málinu. Að sögn varnaraðila stóð til að skoða málið fyrst og ræða við [...] til að kanna stöðuna og athuga hvort eitthvað mætti gera betur. Kveðst varnaraðili hafa gengið frá umboði en sóknaraðili ekki getað undirritað það. Þá lýsir varnaraðili því að hafa gert sóknaraðila grein fyrir tímagjaldi sínu, sem nemur 37.700 kr. auk virðisaukaskatts, áður en sóknaraðili greiddi inn á málið.  

Í málatilbúnaði varnaraðila er lýst þeirri vinnu sem hann vann í þágu sóknaraðila. Honum hafi borist gögn vegna skaðabótamáls sóknaraðila þegar í framhaldi innborgunarinnar, þ.e. kvittanir frá [...]/[...] og matsgerð dags. 10.8.2021 vegna vinnuslyss sóknaraðila, sem hann hafi kynnt sér. Í kjölfarið hafi hann reynt að ná sambandi við tiltekinn lögmann [...], sem reyndist farinn í fæðingarorlof. Þess í stað hafi varnaraðili sett sig í samband við […] lögmann og eiganda [...], rætt við hann um mál sóknaraðila og fengið frekari upplýsingar og gögn. Eftir yfirferð gagnanna kveðst varnaraðili hafa haft samband aftur við sóknaraðila og ráðlagt honum að skipta ekki um lögmann þar sem miklir hagsmunir væru í húfi fyrir hann og starfsmenn [...] sérhæfðir í meðferð skaðabótamála. Kveðst varnaraðili hafa komið á fundi milli sóknaraðila og […] lögmanns á [...] til að þeir gætu farið yfir stöðu mála og […] tekið að sér umsjón á máli sóknaraðila. 

Kveðst varnaraðili hafa farið á fund með sóknaraðila á [...] þann 26. október 2021 til að skýra stöðu skaðabótamáls hans, framgang þess hjá [...] og hvert málið stefndi þrátt fyrir uppgjör á hluta þess. Kveður varnaraðili fundinn hafa varað í þrjár klukkustundir, en auk framangreinds hafi á honum verið rætt um önnur málefni sóknaraðila, varðandi dvöl hans á [...] og meint einelti starfsmanna [...] í garð sóknaraðila. Í framhaldi fundarins hafi aðilar átt í talsverðum samskiptum og sóknaraðila verið umhugað um eineltismálið, auk þess sem sóknaraðili hafi viljað fá útskýringar á sakarábyrgð meints tjónvalds sem olli vinnuslysi því sem hann varð fyrir.  

Kveðst varnaraðili hafa átt annan langan fund með sóknaraðila á [...] þann 28. mars 2022, þar sem farið hafi verið yfir stöðu skaðabótamáls sóknaraðila og eineltismálsins, o.fl. Á þeim fundi kveðst varnaraðili hafa rætt við sóknaraðila um stöðu mála, innborgunina, tímagjaldið hans og hvaða vinna hefði verið unnin. Jafnframt hafi varnaraðili upplýst sóknaraðila um að hann myndi ekki krefja sóknaraðila um frekari greiðslur, en myndi samt aðstoða sóknaraðila áfram. Að sögn varnaraðila kom aldrei fram sú ósk sóknaraðila að innborgunin yrði endurgreidd. Auk framangreinds hafi varnaraðili gengið frá skilum á skattframtölum fyrir sóknaraðila rafrænt án þess að krefjast endurgjalds.  

Vísar varnaraðili til þess að í kjölfar fundarins þann 28. mars 2022 hafi sóknaraðili sent honum tölvupóst þar sem sóknaraðili óskað eftir áframhaldandi stuðningi hans og aðstoð með skaðabótamálið auk annars sem rætt hafði verið. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi bæði notið milligöngu áðurnefnds tengiliðs í samskiptum við sig og að sóknaraðili sé einnig fær í ensku, þ.a.l. hafi tungumálaörðugleikar ekki verið að há honum í samskiptum, hvorki við varnaraðila né við [...].  

Mótmælir varnaraðili því sem röngu að hann hafi tekið við greiðslu án þess að skila nokkru vinnuframlagi. Áréttar varnaraðili þá vinnu sem hann lagði í málið og fyrr er lýst. Vísar varnaraðili jafnframt til samtímagagna því til stuðnings. Þá vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi greitt 600.000 kr. í heildina, sem svari til 13 klukkustunda vinnu samkvæmt gjaldskrá varnaraðila en hann hafi sannanlega innt af hendi meiri vinnu í þágu sóknaraðila en því nemur. Þá áréttar varnaraðili að gjaldskrá sín og tímagjald hafi verið kynnt rækilega fyrir sóknaraðila þegar í upphafi áður en greiðsla sóknaraðila átti sér stað, auk þess sem sóknaraðila hafi verið gerð ítarleg grein fyrir tímafjölda málsins á fundi þeirra þann 28. mars 2022. Auk þess hafi varnaraðili kynnt sóknaraðila ákvörðun sína um að krefja sóknaraðila ekki um frekari greiðslur í ljósi kringumstæðna. Vísar varnaraðili til þess að í framhaldi fundarins hafi sóknaraðili sent sér framangreindan tölvupóst þar sem hann hafi spurst fyrir um hvort varnaraðili yrði samt sem áður til í að vera til staðar fyrir sóknaraðila, þar sem innborgunin væri uppurin. Svaraði varnaraðili því játandi. Þá bendir varnaraðili á að hann hafi verið í sambandi við lögmenn [...] síðast í maí/júní 2022.  

Í viðbótarathugasemdum sem réttindagæslumaður sóknaraðila lagði fram fyrir hönd sóknaraðila er því mótmælt að kvörtunin sé of seint fram komin í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Vísar sóknaraðili til þess að engin vinna hafi farið fram þegar varnaraðili óskaði eftir fyrirframgreiðslu til að skoða mál sóknaraðila þann 6. október 2021 og að ekki beri að miða við þá dagsetningu sem greiðsla fór fram.  

Þá bendir réttindagæslumaður sóknaraðila á að umboð réttindagæslumannsins hafi verið veitt þann 21. september 2022 vegna samtals við lögmann [...] og hann farið í málið eins skjótt og unnt var. Vísar réttindagæslumaður sóknaraðila til þess að aðstæður sóknaraðila séu sérstakar, enda sóknaraðili fatlaður maður af erlendum uppruna í viðkvæmri stöðu sem hafði litla þekkingu á réttarstöðu sinni á Íslandi. Þá áréttar sóknaraðili að aðilar áttu enn í samskiptum í byrjun ársins 2022 eins og gögn málsins sýni. Vísar sóknaraðili í dæmaskyni til þess að með tölvupósti dags. 28. mars 2022 hafi að varnaraðili svarað því játandi að ætla halda áfram með mál sóknaraðila. Telur réttindagæslumaðurinn af því augljóst að mál sóknaraðila sé enn í vinnslu hjá varnaraðila og ekki tilefni til að vísa því frá.  

Áréttar sóknaraðili í viðbótarathugasemdum sínum margt af því sem fram kom í upphaflegri kvörtun til nefndarinnar, m.a. um aðdraganda þess að sóknaraðili leitaði til varnaraðila og um tildrög innborgunarinnar og fjárhæð hennar.  

Telur réttindagæslumaður sóknaraðila sérkennilegt að lögmaður óski eftir fyrirframgreiðslu á mál sem eftir á að greina hvað felist í. Þá séu 600.000 kr. dágóð upphæð til að greiða fyrir þá vinnu lögmanns að ákveða hvort hann ætli að taka málið að sér eða ekki. Áréttar sóknaraðili að honum hafi aldrei verið kynnt tímagjald varnaraðila né fengið nokkrar upplýsingar um það hvaða vinna fælist í þessum 600.000 kr. sem hann var krafinn um, nema fyrst í greinargerð varnaraðila til nefndarinnar. Þá vísar sóknaraðili til þess að enga sundurliðun megi finna á reikningnum sem útskýri hvaða vinnu sóknaraðili sé að greiða fyrir. Auk þess hafi varnaraðili ekki skilað af sér tímaskýrslu vegna málsins.  

Kveður sóknaraðili það rangt að aðilar hafi fundað tvívegis í þrjár klukkustundir hvort sinn og að fundur aðila á [...] þann 26. október 2021 hafi hið mesta varið í hálftíma. Þá kannast sóknaraðili ekki við lýsingar varnaraðila á ýmsum verkum hans í tengslum við meint eineltismál sóknaraðila eða að til hafi staðið að krefja sóknaraðila um greiðslu vegna þess.  

Byggir sóknaraðili á því að í fyrirframgreiðslu sem honum hafi verið gert að greiða felist áskilnaður um ósanngjarnt endurgjald fyrir lögmannsstörf sem sé óskuldbindandi fyrir hann sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Jafnframt að fyrirframgreiðsla sem reynist fela í sér ósanngjarnt endurgjald fyrir lögmannsstörf miðað við umfang máls, bindi aðila ekki. Þá áréttar sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki tekið að sér rekstur skaðabótamálsins heldur ráðlagt sóknaraðila að treysta [...] áfram fyrir rekstri þess. Telur sóknaraðili bersýnilega ósanngjarnt af varnaraðila að áskilja sér 600.000 kr. fyrir þá vinnu. Þá vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna beri lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum og vekja athygli hans á því ef ætla megi að kostnaður verði hár að tiltölu miðað við þá hagsmuni sem í húfi séu. Beri lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.  

Sóknaraðili vísar einnig til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem kveði á um að víkja megi samningi til hliðar í heild eða hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Sóknaraðili telur umboð það sem hann undirritaði hjá varnaraðila vera ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju.  

Með vísan til framangreinds krefst sóknaraðili þess að áskilið endurgjald varnaraðila sæti lækkun og að varnaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.  

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila er áréttað margt það sem fram kom í greinargerð hans til nefndarinnar, þar með talið hvernig innborgun sóknaraðila hafi komið til og að sóknaraðila hafi verið kynnt tímagjald varnaraðila og hve mörgum tímum innborgunin dugði fyrir.  

Leggur varnaraðili samhliða viðbótarathugasemdum sínum fram tímaskýrslu vegna málsins sem hann kveður hafa átt að fylgja með greinargerð sinni. Áréttar varnaraðili með vísan til tímaskýrslunnar að meiri vinna hafi verið lögð í málið en greitt var fyrir með fyrrgreindri innborgun, sem svaraði til 13 klukkustunda vinnu skv. gjaldskrá.  

Mótmælir varnaraðili málatilbúnaði sóknaraðila um tímalengd funda aðila á [...] sem röngum. Jafnframt mótmælir varnaraðili því að hann hafi ekki veitt sóknaraðila lögfræðiaðstoð sem hafi falið í sér raunverulega aðstoð/ráðgjöf og að varnaraðila hafi ekki verið ljóst að greiða skyldi fyrir fundina.  

Þá vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 77/1998 um lögmenn sé í skýringum um 1. og 2.  mgr. 24. gr. kveðið á um að ákvæðin séu að mestu leyti samhljóða 2. gr. þágildandi laga um málflytjendur nr. 61/1942, en að í 3. mgr. síðarnefndra laga hafi verið kveðið á um að loforð um sýnilega ósanngjarnt endurgjald fyrir málflutningsstarf sé ekki skuldbindandi. Áréttar varnaraðili að endurgjald fyrir lögmannsstörf sem hann vann fyrir sóknaraðila hafi ekki verið sýnilega ósanngjarnt.  

Vísar varnaraðili til 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem segi að lögmönnum beri að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Auk þess að áréttað sé í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Kveðst varnaraðili hafa gert það og gætt hagsmuna sóknaraðila í hvívetna og af alúð. Loks áréttar sóknaraðila kröfu sína um frávísun sbr. 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Niðurstaða 

Varnaraðili krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Krafan byggir á því að þar sem að innborgun sóknaraðila var innt af hendi þann 6. október 2021 gegn kvittun og sú innborgun í heild sinni reikningsfærð með reikningi útgefnum þann 7. október 2021, hafi verið liðið meira en ár frá því að sóknaraðili átti þess kost á að koma kvörtuninni á framfæri þegar kvörtun sóknaraðila barst nefndinni þann 2. nóvember 2022.  

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmanni greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá. 

Fyrrgreindar heimildir eru afdráttarlausar um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmálum um endurgjald á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri. 

Að mati nefndarinnar er ekki unnt að horfa svo á að réttur skjólstæðings eða lögmanns til að bera upp ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess, sé bundinn við þann dag sem innborgun á mál fer fram né þann dag sem sú innborgun er reikningsfærð að fullu, sérstaklega ef sú reikningsfærsla á sér stað áður en vinnan sem hún á að greiða fyrir er unnin líkt og á við í þessu máli. Af gögnum málsins er ljóst að varnaraðili vann enn í máli sóknaraðila á árinu 2022. Af því leiðir að ágreiningur þessi um rétt varnaraðila til endurgjalds eða fjárhæð þess var borinn undir nefndina á því sama ári, en erindi sóknaraðila barst nefndinni þann 2. nóvember 2022. Að framanvirtu verða því ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst í máli þessu, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.   

Ágreiningur málsins lýtur að rétti varnaraðila til endurgjalds fyrir störf hans í þágu sóknaraðila eða fjárhæð þess sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Heimild til að bera slíkan ágreining undir nefndina er lögfest í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og áréttuð í 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni.  

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.  

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað. 

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni óheimilt að krefjast fyrirframgreiðslu úr hendi skjólstæðings síns umfram það sem ætla má að verði hæfileg þóknun vegna starfans. 

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað. 

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu og umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni að framan er ágreiningslaust að sóknaraðili leitaði til varnaraðila með ósk um að hann tæki að sér líkamstjónamál sóknaraðila, vegna ósættis sóknaraðila við störf þeirra lögmanna sem þá unnu að því. Varnaraðili krafðist innborgunar áður en hann tæki málið til skoðunar og greiddi sóknaraðili því 600.000 kr. til varnaraðila gegn kvittun. Eftir að hafa yfirfarið matsgerð, gögn og átt samskipti við sóknaraðila og lögmenn þá sem önnuðust líkamstjónamál hans, mat varnaraðili hagsmunum sóknaraðila betur borgið áfram í þeirra höndum. Reyndist ósætti sóknaraðila við störf þeirra lögmanna að rekja til misskilnings og lagði varnaraðili vinnu í að rétta úr þeim misskilningi. Samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila lagði hann 15 klst. í verkið á tímabilinu 12. október 2021 til 28. mars 2022, en aðila greinir á um skráningar í tímaskýrslu, sérstaklega lengd tveggja heimsókna varnaraðila á dvalarstað sóknaraðila sem fyrr er lýst. Jafnframt greinir aðila á um tiltekin aukastörf varnaraðila í þágu sóknaraðila sem ekki eru skráð í tímaskýrslu málsins.  

Þá greinir aðila á um það hvort varnaraðili hafi kynnt sóknaraðila hvernig endurgjaldi vegna starfa varnaraðila skyldi háttað eða áætlaðan verkkostnað, svo sem tímagjald varnaraðila sem nemur 37.700 kr. auk virðisaukaskatts. Jafnframt hvort sóknaraðili hafi fengið afrit þess reiknings sem varnaraðili gaf út þann 7. október 2021 og hvort varnaraðili hafi kynnt sóknaraðila framvindu verksins og tímafjölda, en það var fyrst í viðbótarathugasemdum til nefndarinnar sem sóknaraðili fékk afhent afrit af tímaskýrslu varnaraðila.  Þá liggur enginn samningur, verkbeiðni eða umboð fyrir í málinu eða annað gagn sem varpað getur ljósi á það hvernig aðilar sömdu sín á milli um endurgjald fyrir störf varnaraðila. Að mati nefndarinnar uppfyllti varnaraðili að þessu leyti því ekki skyldur sínar samkvæmt 2. mgr. 10. gr. og 15. gr. siðareglna lögmanna.  

Að mati nefndarinnar kann fjárhæð fyrirframgreiðslunnar að hafa þótt hæfileg þegar hún var innt af hendi, fyrir það verk sem sóknaraðili taldi að varnaraðili væri að fara vinna í sína þágu, þ.e. að taka við rekstri líkamstjónamáls sóknaraðila. Svo fór hins vegar að varnaraðili tók ekki við rekstri líkamstjónamálsins, heldur lagði vinnu í að rétta farveg þess, í að eiga samskipti við sóknaraðila og við þá lögmenn sem þegar ráku málið. Að teknu tilliti til þess telur nefndin það verk sem varnaraðili vann í raun vera lítið að umfangi. Telur nefndin að varnaraðila hafi mátt vera ljóst skömmu eftir að hann tók við málinu hvert umfang þess væri. Strax í upphafi hafi varnaraðila átt að vera fært að athuga hvort uppgjörið úr launþegatryggingunni væri rétt og hvort möguleikar og tilefni væri til frekari aðgerða í málinu. Að því virtu telur nefndin fjárhæð fyrirframgreiðslunnar vera umfram það sem telja mætti hæfilega þóknun vegna starfans og áskilið endurgjald varnaraðila ekki hæfilegt.  

Að öllu framanvirtu, fól loforð sóknaraðila um endurgjald til handa varnaraðila að mati nefndarinnar þannig í sér ósanngjarnt endurgjald í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sem er ekki skuldbindandi fyrir sóknaraðila. Er því óhjákvæmilegt að nefndin áætli hæfilegt endurgjald með hliðsjón af umfangi þess verks sem varnaraðili vann og atvika málsins allra og þykir það hæfilega ákvarðað 200.000  kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Í samræmi við þá niðurstöðu verður varnaraðila gert að endurgreiða sóknaraðila fjárhæð 400.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.  

Þá gerir nefndin athugasemd við þá háttsemi varnaraðila að reikningsfæra fyrirframgreiðslu sóknaraðila í heild sinni daginn eftir að hún var innt af hendi og fimm dögum áður en varnaraðili hóf að vinna í máli sóknaraðila m.v. tímaskýrslu varnaraðila. Fól sú háttsemi í sér óheimila fyrirframgreiðslu úr hendi skjólstæðings umfram það sem varnaraðili mátti á þeim tíma ætla að yrði hæfileg þóknun vegna starfans í skilningi 5. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað. 

Áskilið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, [A], sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 200.000 krónur með virðisaukaskatti. Varnaraðili, [B] lögmaður, endurgreiði sóknaraðila 400.000 krónur með virðisaukaskatti.  

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Kristinn Bjarnason, formaður  

Einar Gautur Steingrímsson 

Valborg Þ. Snævarr 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

 

________________________ 

Arnar Vilhjálmur Arnarsson