Mál 1 2023

Mál 1/2023

Ár 2023, þriðjudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. janúar 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna starfa varnaraðila í tengslum við opinber skipti á dánarbúi móður sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 27. janúar 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 21. mars 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni 11. apríl 2023 ásamt frekari gögnum. Viðbótarathugasemdir varnaraðila bárust nefndinni þann 24. maí 2023. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 31. ágúst 2023 þar sem ákveðið var að beina þyrfti tilmælum til varnaraðila um að veita frekari upplýsingar varðandi málið sem bárust nefndinni í kjölfarið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvik eru þau helst að varnaraðili var skipaður skiptastjóri í opinberum skiptum á dánarbúi móður sóknaraðila með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. júlí 2020. Mikill ágreiningur ríkti milli erfingja vegna atvika í aðdraganda skiptanna og við sjálf skiptin svo sem varðandi skiptingu innbús dánarbúsins sem varnaraðili þurfti að leysa úr. Þá voru eignir í búinu sem þurfti að koma í verð, einkum fasteign að […], Reykjavík. Skipti dánarbúsins stóðu yfir í um eitt og hálft ár en frumvarp til úthlutunar úr búinu var samþykkt á skiptafundi þann 4. janúar 2022 og síðar staðfest efnislega óbreytt á fundi þann 11. febrúar 2022 án athugasemda. Samdægurs sendi lögmaður sem vann fyrir sóknaraðila og þrjá aðra erfingja, tölvupóst á varnaraðila og vísaði til þess að frumvarpið hafi verið samþykkt án athugasemda fyrr þann dag og óskaði úthlutunar til þeirra erfingja sem hann starfaði fyrir.

Óumdeilt er að ósætti hafi verið milli erfingja og að einhverju leyti í garð varnaraðila vegna skiptanna, en af gögnum málsins er ekki að sjá að neinum ágreiningi vegna starfa hans hafi verið vísað til héraðsdóms meðan á skiptunum stóð.

Þann 24. febrúar 2022 var varnaraðili í samskiptum við fulltrúa sýslumanns varðandi frágang skiptanna þar sem hann óskaði staðfestingar á nokkrum atriðum og bað um upplýsingar um hvert hann ætti að greiða erfðafjárskattinn. Næsta dag þann 25. febrúar 2022 svaraði fulltrúi sýslumanns bréfinu og leiðbeindi um að greiða skyldi erfðafjárskattinn beint inn á tilgreindan reikning embættisins.

Þann 18. október 2022 sendi varnaraðili fyrirspurn á sýslumann um hvort það væri ekki örugglega allt frágengið gagnvart sýslumanni sem viðkæmi skiptum dánarbúsins. Þeirri fyrirspurn svaraði fulltrúi sýslumanns samdægurs á þann veg að svo væri og að búið væri að skrá að skiptum væri lokið. 

Í janúar 2023 barst erfingjum hinnar látnu innheimtubréf vegna vangoldins erfðafjárskatts. Við skiptalok hafði varnaraðili haldið eftir erfðafjárskatti og af tilkynningunni taldi sóknaraðili ljóst að varnaraðili hafði ekki staðið skil af honum. Af því tilefni beindi sóknaraðili kvörtun til nefndarinnar sem hann lýsti sem svo að það stafaði frá sér og þremur öðrum erfingjum dánarbúsins, en einungis sóknaraðili undirritaði erindið og ekkert umboð frá öðrum tilgreindum erfingjum fylgdi með. Í erindinu kvartaði sóknaraðili undan störfum varnaraðila við skipti dánarbúsins og skiptakostnaði sem hann þáði vegna skiptanna auk þess að lista upp kröfur sem hann vildi beina til varnaraðila og nefndarinnar í tengslum við skiptin.

Þann 31. janúar 2023 greiddi varnaraðili erfðafjárskattinn sem hann hafði haldið eftir vegna búskiptanna til sýslumanns, í kjölfar þess að hafa fengið upplýsingar um að skatturinn væri vangoldinn. Auk þess greiddi varnaraðili dráttarvexti sem lagðir höfðu verið á erfðafjárskattsskuldina og óskaði þess síðan við fulltrúa sýslumanns að fjárhæð dráttarvaxtanna yrði endurgreidd honum þar sem skuldin hafi stafað af misskilningi milli hans og embættisins í tengslum við erfðafjárskattinn.

Í tölvupósti sýslumannsfulltrúa til varnaraðila þann 30. ágúst 2023 staðfesti fulltrúinn að mistök hefðu sannarlega orðið vegna fyrri samskipta embættisins við varnaraðila og við afgreiðslu erfðafjárskattsins hjá sýslumanni þar sem varnaraðila hafi ekki verið send álagning vegna erfðafjárskattsins líkt og venjubundið er. Kveðst varnaraðili hafa það verklag að greiða erfðafjárskatt vegna dánarbúa aldrei fyrr en formleg tilkynning bærist og því hafi honum ekki verið skilað fyrr til Skattsins.

Skilja verður kvörtun sóknaraðila sem svo að hann krefjist þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Byggir kvartandi á því að skipti dánarbúsins hafi tekið óhóflega langan tíma, en þau hafi staðið yfir rúmlega eitt og hálft ár, meðal annars hafi tekið of langan tíma að ljúka sölu fasteignar dánarbúsins með tilsvarandi kostnaði fyrir dánarbúið o.fl.

Kveðst sóknaraðili hafa þurft að ýta á eftir varnaraðila í hverju einasta skrefi ferlisins og að varnaraðili hafi ekkert frumkvæði sýnt að samskiptum vegna málsins. Þá hafi varnaraðili að sögn sóknaraðila, ekki sinnt óskum erfingja í tengslum við skipti innbús dánarbúsins og því hafi loks farið svo að erfingjar hafi eftirlátið öðrum tilteknum erfingja flest innbúið til að ljúka ágreiningi um innbúið án frekari tafar.

Vísar sóknaraðili til þess að hafa orðið misboðið þegar þeim barst innheimtubréf frá Skattinum vegna erfðaskatts sem varnaraðili hafi þó dregið af arfshluta erfingjanna við skiptalok en varnaraðili ekki staðið skil á.

Í kvörtun til nefndarinnar tekur sóknaraðili fram að auk hans sjálfs standi að baki kvörtuninni þrír aðrir nafngreindar erfingjar hinnar látnu.

Í kvörtun til nefndarinnar listar sóknaraðili upp fimm kröfur sem hann vill gera vegna málsins. Í fyrsta lagi að varnaraðili standi skil á erfðafjárskatti sem dregin var af arfshluta erfingja. Í öðru lagi að endurskoðað verði tímafjölda við skiptin. Í þriðja lagi að þóknun til fasteignasala vegna sölu fasteignar dánarbúsins verði útskýrð enda hafi hún verið of há að mati sóknaraðila. Í fjórða lagi er kvartað undan þeim mikla tíma sem skiptin tóku. Loks er gerð krafa um afsal vegna sölu á fasteign dánarbúsins. 

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá nefndinni. Til vara að öllum kröfum sóknaraðila á hendur honum verði hafnað. Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Í greinargerð til nefndarinnar rekur varnaraðili með ítarlegum hætti framvindu skiptanna, aðgerðir sem gripið var til vegna þeirra, samskipti vegna málsins og málsatvik að öðru leyti með vísan til framlagðra gagna og skiptafundargerða.

Frávísunarkröfu sína styður varnaraðili eftirfarandi sjónarmiðum. Vísar varnaraðili til þess að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 1. mgr. 27. gr. sömu laga skuli erindi lagt fram til nefndarinnar eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Vísar varnaraðili til þess að allar umkvartanir sóknaraðila varði atvik sem áttu sér stað meira en ári áður en erindi var lagt fyrir nefndina.

Þá byggir varnaraðili á því að hann hafi verið opinberlega skipaður skiptastjóri yfir dánarbúi og sóknaraðili hafi verið erfingi búsins. Ekki hafi verið um að ræða réttarsamband umbjóðanda og lögmanns í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn heldur hafi farið um störf varnaraðila eftir ákvæðum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Vísar varnaraðili til þess að í ákvæðum síðastnefndra laga séu sjálfstæðar heimildir til að gera athugasemdir við störf skiptastjóra og skiptakostnað sem sóknaraðila og öðrum erfingjum hafi verið ítrekað bent á hefðu þeir athugasemdir við störf hans en kusu að nýta sér ekki. Þá vísar varnaraðili til þess að við skiptalok hafi allir erfingjar fallið frá því að gera athugasemdir við skiptakostnað og störf hans.

Þá vísar varnaraðili til þess að meira en ár sé liðið frá því að sóknaraðilum gafst kostur á að koma athugasemdum vegna starfa hans á framfæri í skilningi áðurnefndra ákvæða lögmannalaga. Allar athugasemdir í erindi sóknaraðila varði störf hans á árinu 2021 en skiptum hafi lokið í febrúar 2022. Vísar varnaraðili til þess að ákvæðið sé afdráttarlaust um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmálum frá sér sé lengri tími en eitt ár liðið frá því að kostur var að koma athugasemdum vegna endurgjalds eða vegna starfa lögmanns á framfæri.

Sé eigi á frávísun málsins fallist vísar varnaraðili til þess að hann hafi samþykkt að taka við dánarbúskiptum sem fyrir lá að í voru miklir ágreiningur milli erfingja. Kveðst varnaraðili hafa sinnt búskiptunum af kostgæfni og fylgt skyldum sínum eftir ákvæðum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. í hvívetna. Í búinu hafi verið hatrammar deilur milli tveggja erfingja sérstaklega. Lýsir varnaraðili að mikill ágreiningur hafi átt sér stað við meðferð skiptanna, hvernig hann hafi tekist á við þá á skiptafundum og reynt að miðla málum, ítrekað leiðbeint aðilum um rétt til að bera ágreining undir dómstóla o.s.frv. Deilur aðila hafi m.a. tekið til úthlutana innbús dánarbúsins sem erfitt reyndist að ná fram ákvörðun um. Bendir varnaraðili á að engar mótbárur bárust við einstaka ákvörðunum hans sem skiptastjóra við búskiptin.

Þá bendir varnaraðili á að hann hafi ítrekað gert grein fyrir skiptakostnaði, hvað hann hafi greitt sér í skiptakostnað, tímafjölda við skiptin o.fl. Kveðst varnaraðili einnig hafa orðið við öllum beiðnum erfingja um framlagningu tímaskýrslna auk þess sem slíkt hafi legið fyrir við skiptalok. Þrátt fyrir það kveðst varnaraðili hafa verið beðinn um að skipta jafnvel hlutum sem voru verðlausir og höfðu jafnvel lítið sem ekkert tilfinningalegt gildi fyrir erfingja óháð ábendingum hans um að slíkt væri tímafrekt og kostnaðarsamt.

Þá bendir varnaraðili á að lögmaður sóknaraðila hafi fallið frá öllum athugasemdum sínum um framgang skiptanna við skiptalok og engar athugasemdir gert við framlagðar tímaskýrslur og reikninga.

Að mati varnaraðila fer fjarri að nokkuð sé athugunarvert við tíma og framvindu skiptanna miðað við ágreiningsmál í búinu og þeirra ráðstafana sem grípa þurfti til, en skiptin tóku um eitt og hálft ár frá úrskurðardegi til skiptaloka. Bendir varnaraðili sérstaklega á að skiptin hafi dregist vegna viðgerða á fasteign dánarbúsins, dráttar við sölu fasteignarinnar, ágreining við kaupendur um galla í íbúðinni, skipti á innbúi, kæru erfingja til lögreglu, frágang frumvarps, samskipta við sýslumann vegna erfðafjárskýrslu, auk þess sem farsótt hafi sett sín strik í reikninginn. Þá drógust skipti nokkrum sinnum vegna samskipta erfingja sem bjuggu út á landi en mikil krafa var hjá erfingjum að vera þátttakendur í öllu sem skiptin vörðuðu þrátt fyrir að njóta sjálf liðsinnis lögmanns.

Kveðst varnaraðili hafa leitað til fasteignasala og falið honum sölu eignarinnar í almennri sölu enda hafi krafa erfingja verið að sala eignarinnar gengi skjótt og vel. Kveðst varnaraðili hafa samið um 2,5% söluprósentu sem væri eðlilegt í almennri sölu eignar. Að sögn varnaraðila stóð téður fasteignasali sig vel enda hafði honum tekist að finna kaupendur sem buðu í eignina í samræmi við væntingar erfingja um kaupverð áður en varnaraðila tókst að semja við fleiri fasteignasala. Síðar hafi komið upp ágreiningur við kaupendurna og varnaraðili tekið að sér að verja hagsmuni dánarbúsins við það tilefni sem hafi endað með því að kaupendurnir féllu frá öllum kröfum vegna meintra galla.

Þá segir varnaraðili mikla vinnu hafa farið í að kanna mögulegt eignatilkall dánarbúsins í jörðina Seljanes sem hafi verið gert með samþykki erfingjanna sem hafi reynst flókið verkefni.

Varðandi beiðni um afhendingu afsals vegna Austurbrúnar 39 kveðst varnaraðili ekki kannast við slíka kröfu á fyrri stigum en að afsalshafar séu kaupendur eignarinnar. Hins vegar leggur varnaraðili fram afrit afsalsins með greinargerð sinni til nefndarinnar til að verða við þessum óskum sem fram komu í erindi til nefndarinnar.

Varnaraðili hafnar því að hafa neitað að upplýsa erfingja um framgöngu skiptanna heldur hafi hann ávallt verið reiðubúinn að veita svör um það og aldrei skorast undan því. Bendir varnaraðila á nokkur dæmi þess í gögnum málsins.

Þá mótmælir varnaraðili lýsingum málsatvika í erindi sóknaraðila og fylgiskjölum svo sem varðandi skiptingu innbús og mögulegt tjón af sölumeðferð fasteignarinnar. Bendir varnaraðili á að ómögulegt hafi verið að selja fasteignina strax við upphaf skipta enda engin samstaða um slíkt. En jafnvel ef það hefði verið mögulegt þá hafi fasteignaverð hækkað mikið á téðu tímabili og hafi orðið einhverjar tafir á sölu eignarinnar hafi erfingjar ekki orðið fyrir tjóni vegna þess.

Þá hafnar varnaraðili því að hafa hyglað einum erfingja umfram aðra við skipti dánarbúsins heldur kveðst varnaraðili ávallt hafa gætt jafnræðis milli erfingja.

Varðandi meintar tafir við skiptingu innbús hafnar varnaraðili því og vísar til fundargerðar því til stuðnings um framkvæmd skiptingar innbús og tæmingar íbúðar.

Varðandi tafir við búskiptin vegna anna skiptastjóra bendir varnaraðili á að í tveimur mánuðum, júní og september 2021 hafi orðið tafir vegna anna skiptastjóra líkt og algengt sé hjá lögmönnum í þeim mánuðum. Þá hafi orðið tafir þegar covid farsóttin var í hápunkti.

Mótmælir varnaraðili því að ýtt hafi þurft á eftir sér í hverju skrefi ferilsins líkt og sóknaraðili byggir á í erindi til nefndarinnar.

Mótmælir varnaraðili því jafnframt að erfingjar hafi þurft að gefa eftir hömlu til að skipta innbúi og selja íbúð dánarbúsins heldur kveður varnaraðili hið rétta vera að erfingjar, þ.m.t. sóknaraðili hafi aldrei gefið nokkuð eftir við skipti á innbúi og jafnvel gert athugasemdir við að sonur eins erfingjans fengi að vera inn í íbúðinni til að farga verðlausum hlutum sem eftir stóðu og höfðu ekkert tilfinningalegt gildi.  

Varðandi kröfu sóknaraðila um að staðin yrðu skil á erfðafjárskatti sem dreginn var af arfshluta erfingja kveðst varnaraðili hafa gert það og að umboðsmaður sóknaraðila hafi verið upplýstur um það áður en sóknaraðili bar kvörtun sína undir LMFÍ.

Varðandi kröfu um að tímafjöldi sé óásættanlegur og kröfu um endurútreikning á því vísar varnaraðili til fyrri athugasemda auk þess sem hann hafi strax á fyrsta skiptafundi upplýst um að hann myndi taka sér greiðslur af fé búsins upp í áfallna þóknun sína meðan á skiptum stæði. Að sögn varnaraðila voru erfingjar ávallt upplýstir um slíkt og þann tímafjölda sem var unninn. Tímaskýrslur hafi legið frammi og verið afhentar um leið og þeirra var óskað. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu umboðsmanna erfingja við þau verk sem unnin voru, tímaskýrslurnar og þann tíma tímafjölda sem þar var að finna. Því sé engin þörf á endurútreikningi og ítrekar varnaraðili þá miklu vinnu sem fór í verk sem sóknaraðili sjálfur óskaði sérstaklega eftir og ágreinings sem erfingjarnir stofnuðu sjálfir til.

Varðandi þóknun fasteignasala kveðst varnaraðili hafa kynnt söluþóknun hans á skiptafundi. En sem framar greinir hafi eignin farið á almenna sölu og samið verið um þóknun sem væri 2,5% sem sé að mati varnaraðila eðlilegt á fasteignamarkaði. Þá var íbúðin seld á nákvæmlega því verði sem erfingjarnir vonuðust eftir.

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar lýsir sóknaraðili því að þegar þeim sem skráð eru fyrir upphaflegu erindi til nefndarinnar varð ljóst að dánarbú foreldra þeirra væri komið í opinber skipti hafi það verið þeim mikil vonbrigði þar sem þeir hafi staðið í þeirri trú að skipti á svo litlu búi væru hvorki flókin né tímafrek og hægt væri að skipta hlutum úr innbúi með því að draga einfaldlega um þá.

Tekur sóknaraðili fram að þeir erfingjar eigi ekkert persónulega út á varnaraðila að setja sem hafi oftast komið fram af kurteisi þó undantekningar hafi verið þar á, en þau hafi athugasemdir við þann tíma og sérstaklega þóknun hans upp á 6.238.750 kr. og þær aðferðir sem skiptastjóri hafi viðhaft við skiptin. Eins og fram kom í upphaflegu erindi var það að endingu sú vanræksla varnaraðila á að standa ekki skil á erfðafjárskatti sem hann hélt eftir við skiptalok sem varð til þess að leitað var með erindi til nefndarinnar eftir ábendingu frá Skattinum um að honum hafi ekki verið skilað.

Vísar sóknaraðili til þess sem fram komi í greinargerð varnaraðila þess efnis að erfingjar hafi alltaf viljað vera viðstaddir skiptafundi þrátt fyrir að vera með lögmann. Kveður sóknaraðili það vera rétt enda um skiptingu á dánarbúi foreldra þeirra að ræða. Um Seljaness jarðhlutann áréttar sóknaraðili að það hafi verið gerðarbeiðandi, þ.e. einn erfinginn, sem óskaði þess að það yrði skoðað og aðrir erfingjar hafi að lokum fallist á að gera tilboð í þann jarðhluta til að koma því máli frá svo það ylli ekki frekari töfum á búskiptunum. Að sögn sóknaraðila tók varnaraðili alltaf fram við skiptin að hann færi með völdin í þeim en að erfingjum væri í lófa lagið að kvarta til LMFÍ.

Hafnar sóknaraðili því alfarið að neinar ærumeiðingar hafi birst í garð skiptastjóra í erindi þeirra til nefndarinnar. Vísar sóknaraðili til samskiptagagna í málinu gagnvart varnaraðila og bendir á það sem hann telur varnaraðila taka út úr samskiptunum sem tilraun til þess sem sóknaraðila virðist til að kasta rýrð á erfingja.  

Leggur sóknaraðili fram til nefndarinnar samantekt af fjöldamörgum tölvupóstum við varnaraðila við skiptin til stuðnings erindi sínu til nefndarinnar og áréttar margt af því sem fram kom í upphaflegu erindi til nefndarinnar með ítarlegri hætti í samhengi tölvupóstanna.

Að sögn sóknaraðila benti varnaraðili þeim margendurtekið á þann möguleika að leggja fram kvörtun til úrskurðarnefndarinnar en það hafi þeim ekki hugnast á þeim tíma þar sem það hefði einungis verið til þess fallið að auka á sársauka þeirra vegna málsins alls.  Mótmælir sóknaraðili því sem röngu og ósönnuðu að erfingjar hafi viljað selja fasteign dánarbúsins strax eftir að varnaraðili tók við skiptum búsins. Ítrekar sóknaraðili þá skoðun sína að það sé óboðlegt að skipti á svo einföldu búi hafi tekið jafn langan tíma og raun ber vitni.

Þá telur sóknaraðili málatilbúnað varnaraðila til þess fallin að kasta rýrð á erfingjana og sig og gera þá tortryggilega í augum úrskurðarnefndarinnar. Vísar sóknaraðili til þess að erfingjar hafi lagt kvörtunina fram eftir ábendingu frá Skattinum sem sóknaraðila og erfingjum þótti fylla mælinn í þessu langdregna og sársaukafulla ferli. Sóknaraðili hafnar alfarið kröfu varnaraðila um þóknun vegna greinargerðar og andsvara sinna og vísar auk þess til þeirrar þóknunar sem varnaraðili hafi þegar fengið vegna dánarbúskiptanna sem að mati sóknaraðila verði að teljast fullnægjandi.

Þá byggir sóknaraðili á að utanumhald varnaraðila á dánarbúinu hafi ekki verið fullnægjandi og vísar m.a. í þeim efnum til þess að erfðafjárskattinum sem haldið var eftir hafi ekki verið skilað.

Varðandi frávísunarkröfu varnaraðila telur sóknaraðili að rangt sé með mál farið hjá varnaraðila um að liðið sé meira en ár frá því að unnt var að koma kvörtuninni á framfæri þegar svo var gert enda hafi hún verið lögð fram 25. janúar 2023 og uppgjör dánarbúsins var dagsett 11. febrúar 2022.

V.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar til nefndarinnar og fyrri málatilbúnað.

Varðandi ársfrestinn til að bera erindið undir nefndina vísar varnaraðili til þess að þó töluverð vinna hafi verið innt af hendi af hans hálfu eftir þann tíma sem atvik þau sem kvartað er undan áttu sér stað og tímaskýrslur málsins varði, svo sem vinna hans gagnvart sýslumanni um frágang skiptanna, þá hafi hann ekki gert neina reikninga sérstaklega vegna þeirrar vinnu heldur gefið kostnaðinn eftir gagnvart búinu.

Þá víkur varnaraðili í andsvörum sínum að gögnum sem sóknaraðili lagði fram með viðbótarathugasemdum sem mörg hver eru sömu gögn og hann sjálfur hafði týnt saman og lagt fyrir nefndina með tilsvarandi vinnu og fyrirhöfn. Auk þess séu þar gögn svo sem tölvupóstsamskipti sóknaraðila og annarra erfingja við lögmann þeirra sem séu varnaraðila áður ókunn og honum óviðkomandi. Þá bendir varnaraðili á það sem hann telur misræmi í málsatvikalýsingu sóknaraðila og þeim gögnum sem hann leggur fyrir nefndina svo sem í tengslum við fráfall erfingja um kröfur gagnvart skiptingu innbúsins o.fl.

Ítrekar varnaraðili að öll samskipti hans vegna málsins hafi verið fagleg og jafnræðis gætt meðal erfingja. 

Niðurstaða

I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins eins og það hefur verið lagt fyrir nefndina.

Fyrir liggur að erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist annars vegar á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en í því er lýst ósk um að nefndin endurskoði rétt varnaraðila til endurgjalds fyrir störf hans við skipti áðurnefnds dánarbús eða fjárhæð þess. Hins vegar er það reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn enda telur sóknaraðili varnaraðila hafa gert á hlut sinn og annarra erfingja í áðurnefndu dánarbúi með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Í 1. mgr. 27. gr. sömu laga er kveðið á um að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Með vísan til málsatvika og málsástæðna aðila sem framar greinir og ofangreindra lagaheimilda er ljóst að mati nefndarinnar að þau sakarefni sem hér um ræðir áttu sér stað á tímabili frá 2020 til 4. janúar 2022. Þá var úthlutunargerð samþykkt án athugasemda 4. janúar 2022 þar sem skiptakostnaður varnaraðila vegna starfa hans við búskiptin kom skýrlega fram. Sú úthlutunargerð varð síðan óbreytt samþykkt aftur á skiptafundi án athugasemda í kjölfarið. Að áliti nefndarinnar er ekki unnt að miða við annað en að sóknaraðili hafi átt þess kost að koma ágreiningsefni varðandi skiptakostnað á framfæri við nefndina miðað við 4. janúar 2022. Voru því lögbundnir tímafrestir til að leggja málið fyrir nefndina að þessu leyti liðnir þegar kvörtun sóknaraðila í máli þessu var móttekin þann 25. janúar 2023.

Samkvæmt ofangreindu verður ekki hjá því komist að vísa tilgreindu ágreiningsefni frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 1. tölul. 3. gr. og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Auk framangreinds liggur fyrir að varnaraðili var skipaður skiptastjóri í opinberum skiptum á dánarbúi móður sóknaraðila og efni erindis sóknaraðila varðar atvik sem áttu sér stað undir rekstri þeirra búskipta. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1991 fer um skipti dánarbúa eftir ákvæðum þeirra laga og e.a. ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt þeim lögum er heimilt, meðan á opinberum skiptum stendur, að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra fyrir héraðsdómara sem hefur skipað hann. Í slíkum tilvikum hafa kvartanir til nefndarinnar sem samkvæmt áðurnefndum lögum heyra undir héraðsdómara að leysa úr, verið taldar varða réttarágreining sem leiðir til þess að nefndinni ber að vísa málinu frá samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Telur nefndin því óháð framangreindum tímafresti að um hafi verið að ræða kvörtun sem fellur ekki undir valdsvið nefndarinnar að skera úr um og því hefði verið óhjákvæmilegt að vísa erindinu frá nefndinni að því er varðar öll kvörtunarefni sóknaraðila nema varðandi háttsemi varnaraðila í kjölfar búskiptanna. Gegnir þannig öðru máli um þann hluta kvörtunarinnar sem snýr að seinum skilum erfðafjárskatts sem varnaraðili hélt eftir frá síðasta skiptafundi og var ekki skilað fyrr en 31. janúar 2023 í kjölfar innheimtubréfs til erfingja frá hinu opinbera og kvörtunar sóknaraðila til nefndarinnar og þannig löngu eftir skiptalok dánarbúsins.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.  

Líkt og framar greinir hélt varnaraðili eftir fjármunum við samþykkt endanlegrar úthlutunargerðar úr dánarbúi móður sóknaraðila til greiðslu á erfðafjárskatti. Skilaði varnaraðili þó ekki þeim fjármunum til sýslumanns fyrr en tæplega ári síðar eða þann 31. janúar 2023. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. skal skiptastjóri standa skil á erfðafjárskatti þegar frumvarp hefur verið samþykkt. Þeir fjármunir sem varnaraðili hélt eftir til að standa skil á erfðafjárskatti voru eign erfingjanna sem átti að greiða til hins opinbera vegna þeirra. Bar varnaraðila skylda til að standa skil á þeim fjármunum svo fljótt sem verða mátti. Fyrir liggur að þann 25. febrúar 2022 leiðbeindi sýslumannsfulltrúi varnaraðila um hvert hann ætti að greiða erfðafjárskattinn og hafði varnaraðili sjálfur gert frumvarp og erfðafjárskattsskýrslu þar sem reiknað hafði verið út fjárhæð erfðafjárskattsins og sú skýrsla staðfest til bráðabirgða af sýslumanni. Hafði varnaraðili þannig að mati nefndarinnar allar nauðsynlegar upplýsingar til að geta staðið skil á erfðafjárskattinum. Að mati nefndarinnar bar varnaraðila að standa skil á þeim erfðafjárskatti sem hann hélt eftir fjármunum til að greiða án tafar. Telst sú háttsemi varnaraðila að halda þeim fjármunum erfingjanna í sínum vörslum allan þann tíma sem framar greinir ekki samrýmast skyldum varnaraðila til að viðhafa góða lögmannshætti og að rækja störf sín af alúð sbr. 18. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Þá ber að horfa til þess að sóknaraðili lagði erindið fyrir nefndina þann 25. janúar 2023 eftir að berast innheimtubréf vegna vangoldins erfðafjárskatts. Í greinargerð varnaraðila til nefndarinnar hélt hann því fram að erfðafjárskatturinn hafi verið greiddur áður en sóknaraðili lagði erindi sitt fyrir nefndina og að hann hafi gert þeim grein fyrir því. Eftir ítrekuð tilmæli til varnaraðila bárust loks gögn sem sýndu að varnaraðili skilaði erfðafjárskattinum ekki fyrr en 31. janúar 2023. Liggur því ljóst fyrir að mati nefndarinnar að varnaraðili veitti rangar upplýsingar til nefndarinnar sem voru til þess fallnar að villa fyrir nefndinni og hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi þannig bæði vanrækt skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt siðareglum lögmanna og lögmannalögum við skil á vörslufjár auk þess að veita nefndinni rangar upplýsingar um málið í kjölfarið. Með þeim brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Varnaraðili gerði kröfu um málskostnað vegna reksturs þessa máls fyrir nefndinni sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sbr. einnig 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Eftir úrslitum þessa máls þykir rétt að varnaraðili beri sinn kostnað vegna rekstur málsins sjálfur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, B lögmaður, sætir áminningu.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson