Mál 11 2023

Mál 11/2023

Ár 2023, þriðjudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2023:

B lögmaður f.h. þb. C

gegn

A lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. mars 2023 kvörtun B lögmanns, f.h. sóknaraðila, þb. C gegn varnaraðila, A lögmanni, vegna málatilbúnaðar sem varnaraðili byggir á fyrir hönd skjólstæðings síns í dómsmáli sem sóknaraðili rekur gegn honum og sóknaraðili telur ganga gegn betri vitund varnaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 6. mars 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 27. mars 2023 ásamt viðbótargögnum. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni 12. apríl 2023. Þá bárust viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 2. maí 2023. Málið var tekið til umræðu á fundi nefndarinnar þann 31. ágúst 2023 og í kjölfarið var beint fyrirspurn til beggja málsaðila um það hvort þeir samþykktu að fresta afgreiðslu málsins meðan beðið yrði dóms Landsréttar í máli nr. […] þar sem hann kynni að mati nefndarinnar að varpa nánara ljósi á sönnunaratriði í málinu. Lýstu báðir málsaðilar þeirri afstöðu sinni að telja málið nægilega upplýst óháð niðurstöðu téðs dómsmáls. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili, þrotabú C, höfðaði þann 19. desember 2018 mál á hendur [...], syni þrotamanns. Varnaraðili tók til varnar fyrir dómi fyrir hönd sonarins.

Í málinu krafðist sóknaraðili þess að rift yrði afsali þrotamanns á öllum eignarhlutum í félaginu  [...] ehf. til umbjóðanda varnaraðila samkvæmt kaupsamningi dags. 13. janúar 2014. Jafnframt var þess krafist að umbjóðanda varnaraðila yrði gert að afhenda þrotabúinu hlutina aftur gegn greiðslu á söluverði hlutanna að fjárhæð 1.133.000 kr. að viðlögðum dagsektum.

Í málinu sem er til meðferðar hjá Landsrétti, byggir sóknaraðili meðal annars á því að salan á umræddum hlutum félagsins hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir 28. apríl 2016 og að áðurnefndur kaupsamningur hafi verið dagsettur aftur í tímann. . Sú dagsetning sem miðað verður við að afsal hlutanna  hafi farið fram til umbjóðanda varnaraðila kann að hafa mikla þýðingu fyrir hagsmuni aðila, enda styðja matsgerðir í málinu að gífurleg verðmætaaukning hafi orðið á hlutunum frá þeim tíma sem kaupsamningurinn er dagsettur til þess tíma sem þrotabúið byggir á að sala hlutanna hafi í fyrsta lagi átt sér stað.

Þann 27. október 2022 kvað héraðsdómur upp dóm í málinu þar sem lagt var til grundvallar að kaupsamningurinn hafi verið gerður 13. janúar 2014, enda ekki talið sannað að salan hafi átt sér stað á öðrum degi. Fallist var á framangreinda riftunarkröfu sóknaraðila en kröfu um að umbjóðanda varnaraðila yrði gert að skila hlutunum í  [...] ehf. var hins vegar vísað frá dómi.

Sóknaraðili kærði frávísun dómkröfunnar til Landsréttar. Með úrskurði Landsréttar í máli nr. […] var niðurstaða héraðsdóms um frávísun kröfunnar staðfest.

Þann 20. desember 2022 fékk sóknaraðili afhent gögn frá héraðssaksóknara, sem aflað hafði verið með húsleitum hjá aðilum sem tengdust félaginu  [...] ehf., þ.m.t. umbjóðanda varnaraðila og hjá þrotamanni. Meðal þeirra gagna sem lögð hafa verið fyrir nefndina er tölvupóstur sem ber með sér að stafa frá þrotamanni til fjármálafyrirtækis síðan 16. september 2015 þar sem hann vísar til þess að hann sé eini eigandi  [...]-samstæðunnar.

Þann 7. janúar 2016 sendir fulltrúi fjármálafyrirtækis tölvupóst á þrotamann og varnaraðila í tengslum við fjármögnun fyrir samstæðu  [...] ehf. þar sem meðal annars var óskað eftir tilteknum upplýsingum og gögnum til að unnt væri að framkvæma áreiðanleikakönnun. Meðal þeirra upplýsinga sem óskað var eftir var sönnun um eignarhald tiltekinna félaga í eigu þrotamanns, m.a. endurskoðaða ársreikninga o.fl. Tók varnaraðili saman af því tilefni gögn þar sem því var lýst að þrotamaður væri eigandi  [...]-samstæðunnar og sendi fjármálafyrirtækinu. Þar á meðal voru teikningar af fyrirtækjasamsetningu þrotamanns þar sem hann var birtur efstur í keðjunni sem 100% eigandi félaganna sem fylgdu fyrir neðan. Á þeirri mynd má sjá félagið  [...] ehf. og dótturfélög. Jafnframt ársreikning  [...] ehf. 2014 á ensku, undirritaðan af endurskoðanda, þar sem fram kemur að þrotamaður sé 100% eigandi félagsins. Þann 18. janúar 2016 sendi varnaraðili annan póst á fjármálafyrirtækið með frekari gögnum til staðfestingar á eignarhaldi þrotamanns. Meðal þeirra gagna er yfirlýsing dags. 15. janúar 2016 þar sem staðfest er að þrotamaður sé raunverulegur eigandi  [...] ehf. og allra félaga í þeirri félagasamstæðu, hluthafaskrá í  [...] ehf. dags. 15. janúar 2016 þar sem fram kemur að þrotamaður eigi félagið, staðfestingarbréf endurskoðanda frá 11. september 2015 þar sem staðfest er að þrotamaður sé eigandi  [...]-samstæðunnar og upplýsingar um helstu eignir þrotamanns auk nýrrar myndar af fyrirtækjaeignum þrotamanns þar sem sýnt er að hann eigi  [...] ehf.

Óskaði sóknaraðili eftir leyfi til að kæra áðurnefndan úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar. Umbjóðandi varnaraðila lagðist gegn beiðni sóknaraðila um kæruleyfi til Hæstaréttar á þeim grundvelli að engin lagaheimild stæði til slíks. Auk þess væru almenn skilyrði fyrir kæruleyfi væru ekki uppfyllt í málinu og áréttaði hann að sjónarmið sóknaraðila um dagsetningu kaupsamningsins vörðuðu efnishlið málsins og gætu því aðeins komið til skoðunar við efnisúrlausn málsins.

Með ákvörðun Hæstaréttar dags. 31. janúar 2023 var beiðni sóknaraðila um kæruleyfi hafnað á þeim grundvelli að ekki stæði fyrir því lagaheimild að sækja um kæruleyfi til réttarins í þeim tilfellum þar sem Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að vísa máli frá að hluta eða öllu leyti frá dómi.

Í niðurstöðu héraðsdóms var lagt til grundvallar að viðskiptin með hlutina í  [...] ehf. hafi átt sér stað 13. janúar 2014 líkt og umbjóðandi varnaraðila byggði á, enda taldist annað ósannað. Málið bíður nú meðferðar fyrir Landsrétti og byggir varnaraðili í greinargerð til Landsréttar líkt og í héraði, á því fyrir hönd umbjóðanda síns að viðskiptin með hlutina í  [...] ehf. hafi átt sér stað 13. janúar 2014. Sóknaraðili telur að vegna fyrri aðkomu varnaraðila að málum þrotamanns sé ljóst að félagið  [...] ehf. hafi tilheyrt þrotamanni fram til ársins 2016 og að sökum áðurgreindra tölvupósta hljóti varnaraðili að vita að svo hafi verið. Telur sóknaraðili því að varnaraðili hafi gerst brotlegur við siðareglur lögmanna enda hafi málatilbúnaður hans fyrir dómstólum gengið í berhögg við skyldur hans sem lögmanns til að veita dómstólum aldrei gegn betri vitund rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði og að leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Jafnframt hafi hann stuðlað að því að sönnunargögnum hafi verið spillt eða leynt í trássi við siðareglur lögmanna.

Byggir sóknaraðili á því að mjög miklu máli skipti að sýna fram á það hvort framsalið á  [...] ehf. frá þrotamanni til sonar hans, umbjóðanda varnaraðila, hafi átt sér stað 13. janúar 2014 eða eftir 28. apríl 2016 vegna þess verðmunar sem er á hlutum í félaginu á milli þessara dagsetninga. Telur sóknaraðili áðurnefnd gögn sem honum bárust frá héraðssaksóknara þann 20. desember 2022 sýna ótvírætt að varnaraðili hafi ítrekað staðfest árið 2016 að þrotamaður væri eigandi  [...] ehf. á því ári. Vísar sóknaraðili til þess að ef húsleitir héraðssaksóknara hefðu ekki átt sér stað hefðu þessi mikilvægu sönnunargögn aldrei komið inn í málið milli þrotabúsins og umbjóðanda sóknaraðila.

Telur sóknaraðili einkennilegt að varnaraðili, sem hafi verið í lykilhlutverki í tölvupóstsamskiptunum 7.-18. janúar 2016 hafi síðan skrifað heilu greinargerðirnar fyrir umbjóðanda sinn í málaferlum gegn þrotabúinu þar sem málsgrundvöllurinn hafi alfarið byggt á því að þrotamaður hafi ekki verið eigandi að  [...] ehf. í janúar 2016 heldur hafi umbjóðandi sóknaraðila? eignast félagið þann 13. janúar 2014 og átt það frá þeim degi til þessa dags.

Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi aldrei útskýrt þetta misræmi og að ekki verði betur séð en að greinargerðir umbjóðanda varnaraðila innihaldi rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir málsins. Auk þess séu þær ekki í samræmi við þær yfirlýsingar um eignarhald á  [...] ehf. sem varnaraðili sendi frá sér í janúar 2016. Telur sóknaraðili að hafa verði í huga að greinargerðirnar hafi verið afhentar íslenskum dómstólum og meðferð málsins hjá þeim dómstólum byggi á fullyrðingum sem komu fram í þessum greinargerðum. Þannig kveður sóknaraðili Héraðsdóm Reykjaness hafa komist að þeirri niðurstöðu, á grundvelli þessara gagna, að framsal hlutanna  hafi átt sér stað þann 13. janúar 2014 og bendir á að lesa megi í úrskurð Landsréttar frá 14. desember 2022 á þann hátt að umbjóðandi varnaraðila sé tekinn trúanlegur um það að framsalið hafi átt sér stað í janúar 2014.

Framangreint kveður sóknaraðili vera ástæðu fyrrgreindra ummæla sem fram komu í bréfi hans til Hæstaréttar 17. janúar 2023. Byggir sóknaraðili á því að með vísan til framangreinds sé varnaraðila fyrirmunað að halda því fram að viðskiptin hafi átt sér stað á árinu 2014. Vísar sóknaraðili í þessu samhengi til 20. gr. siðareglna lögmanna og II. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn. 

Byggir sóknaraðili á að fullyrðingar varnaraðila sem fram koma í greinargerðum til dómstóla um að umbjóðandi hans hafi keypt hlutina í  [...] ehf. þann 13. janúar 2014 vera í engu samræmi við tölvupósta varnaraðila og gögn sem hann lét frá sér fara í janúar 2016 þar sem fullyrt var um að þrotamaður ætti hlutina á árinu 2016. Bendir sóknaraðili á að þeir dómar hafi fallið áður en téð gögn lágu fyrir sem sanni að mati varnaraðila með ótvíræðum hætti að framsal þrotamanns til umbjóðanda varnaraðila hafi ekki átt sér stað fyrr en um mitt ár 2016 líkt og sóknaraðili hafi byggt á frá upphafi.

Bendir sóknaraðili á frekari fullyrðingar í framangreinda veru í greinargerð varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda hans til Landsréttar í kærumálinu og ítrekar að gögnin frá héraðssaksóknara hafi ekki legið fyrir þegar Landsréttur kvað upp sinn úrskurð heldur. Meðal þeirra fullyrðinga er að sú mikla verðmætaaukning hlutanna í  [...] ehf., sem Landsréttur leggur til grundvallar að hafi orðið á árunum 2014 til 2016 í samræmi við matsgerðir í málinu, hafi ekki einungis mátt rekja til markaðsaðstæðna heldur hafi fjárfestingar stjórnenda dótturfélaga  [...] ehf. á því tímabili einnig átt stóran þátt í að auka virði hluta í félaginu. Þá bendir sóknaraðili á sambærilegan málatilbúnað í greinargerð varnaraðila fyrir umbjóðanda hans til Hæstaréttar, þar sem andmælt var kæruleyfisbeiðni þrotabúsins.

Þá bendir sóknaraðili á að umfjöllun um framangreint komi fram í greinargerð hans í aðalsök í áfrýjunarmáli nr. […] til Landsréttar þann 3. janúar 2023. Jafnframt bendir sóknaraðili á að greinargerð varnaraðila til Landsréttar hafi verið skilað þann 8. febrúar 2023 án þess að leitast hafi verið við að útskýra hvernig á því standi að varnaraðili, sem undirritar greinargerðina hafi byggt á því sem staðreynd árið 2016 að þrotamaður ætti  [...] ehf., en byggi í greinargerðunum í umræddu dómsmáli á að umbjóðandi varnaraðila hafi keypt félagið 13. janúar 2014 og átt það frá þeim tíma.

Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi verið lögmaður þrotamanns um langt skeið og m.a. mætt með honum í skýrslutökur hjá skiptastjóra og átt við skiptastjóra töluverð tölvupóstsamskipti og orðsendingar fyrir hönd þrotamannsins. Í desember 2018 hafi sóknaraðili síðan höfðað dómsmálið gegn syni þrotamanns, umbjóðanda varnaraðila í dómsmálinu, vegna framsals þrotamanns á aðaleign búsins til sonarins, þ.e. félaginu  [...] ehf. sem var efst í félagasamstæðu þrotamanns. Varnaraðili hafi síðan sem lögmaður umbjóðanda síns í málinu byggt á því fyrir hans hönd fyrir dómi að framsalið á  [...] ehf. hafi átt sér stað árið 2014 líkt og að framar greinir. Vísar sóknaraðili til þess að gögnin sem bárust frá héraðssaksóknara þann 20. desember 2022 sanni ótvírætt að salan á félaginu  [...] ehf. til sonar þrotamanns hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir 28. apríl 2016. Það hvenær framsalið átti sér stað hafi gífurlega mikla þýðingu fyrir verðmæti hlutanna í samhengi krafna sóknaraðila. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili sem staðfesti í tölvupóstum frá 2016 að þrotamaður hafi átt  [...] ehf. árið 2016, hafi ekki mátt byggja á því fyrir dómstólum að framsalið hafi átt sér stað árið 2014, því það fari gegn ákvæðum siðareglna lögmanna, einkum 2. mgr. 1. gr. og 20. gr.

Sóknaraðili vísar til greinargerðar sinnar til Landsréttar dags. 8. febrúar 2023 og til fyrrgreindra málsatvikalýsinga til stuðnings því hvernig sannleikur málsins horfi við frá sínum sjónarhóli. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi aldrei útskýrt það misræmi sem fram komi í tölvupóstum varnaraðila vegna starfa hans í þágu þrotamanns síðan 2015 og 2016 þar sem staðfest sé eignarhald þrotamanns á félaginu árið 2016 og svo í greinargerðum sem varnaraðili skilar fyrir hönd umbjóðanda síns í umræddu dómsmáli vegna framsals hlutanna í  [...] ehf. frá þrotamanni til umbjóðanda varnaraðila. Byggir sóknaraðili á að ekki verði betur séð en að greinargerðirnar sem sóknaraðili undirritar, innihaldi rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir málsins og séu ekki í samræmi við þær yfirlýsingar um eignarhald á  [...] ehf. sem varnaraðili sendi frá sér í janúar 2016. Bendir sóknaraðili á að greinargerðirnar hafi verið afhentar íslenskum dómstólum og meðferð málsins hjá þeim dómstólum byggi á fullyrðingum sem fram komi í þessum greinargerðum. Þannig hafi Héraðsdómur Reykjaness komist að þeirri niðurstöðu út frá þessum málsgrundvelli, að framsalið hafi átt sér stað þann 13. janúar 2014.

Þá telur sóknaraðili að lögmaður sem hafi þá vitneskju sem framar er lýst, geti í engum tilvikum haldið öðru fram gagnvart dómstólum en að viðskiptin með hlutina í  [...] ehf. hafi átt sér stað á árinu 2016 og að varnaraðila sé fyrirmunað að halda því fram að viðskiptin hafi átt sér stað á árinu 2014. Vísað sóknaraðili í þeim efnum m.a. til 20. gr. siðareglna lögmanna og II. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi vitað að þrotamaður hafi verið eigandi að félaginu  [...] ehf. á árinu 2016 og hafi sent frá sér tölvupósta og skjöl því til sönnunar eins og áðurnefnd gögn sýni. Byggir sóknaraðili á því að þrátt fyrir þá vitneskju hafi varnaraðili skrifað heilu greinargerðirnar fyrir hönd umbjóðanda síns í málaferlum við sóknaraðila, þar sem málsgrundvöllurinn byggi alfarið á því að þrotamaður hafi ekki verið eigandi  [...] ehf. í janúar 2016 heldur hafi sonur þrotamanns sem nú er umbjóðandi varnaraðila, eignast  [...] ehf. þann 13. janúar 2014 og átt félagið frá þeim degi til dagsins í dag. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi með framkomu sinni gerst brotlegur við ákvæði 2. mgr. 1. gr.,  1. mgr. 19. gr., 20. gr., 1. mgr. 21. gr. og 22. gr. siðareglna lögmanna.

III.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila á hendur honum verði hafnað. Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Bendir varnaraðili á að kvörtun málsins sé lögð fram í nafni sóknaraðila sem sé þrotabú. Bendir varnaraðili á að ákvörðun um að leggja fram þá kvörtun verði því að hafa verið tekin af kröfuhöfum á kröfuhafafundi eða af skiptastjóra sjálfum. Skorar varnaraðili á sóknaraðila að leggja fram gögn um það hvernig ákvörðun hafi verið tekin um að leggja þá kvörtun fram, þ.e. hvort kröfuhafafundur hafi ákveðið það eða skiptastjóri sóknaraðila sjálfur sem ritar kvörtunina til nefndarinnar í nafni sóknaraðila. Komi í ljós að skiptastjóri hafi sjálfur upp á sitt einsdæmi tekið upp á því að leggja fram kvörtunina, byggir varnaraðili á að sóknaraðili verði sjálfur að bera ábyrgð á þeim ummælum og ásökunum sem fram komi í kvörtuninni og áskilur varnaraðili sér rétt til að senda kvörtun til nefndarinnar vegna starfa lögmannsins og þeirra ásakana sem fram koma í kvörtuninni.

Varnaraðili hafnar fullyrðingum og málatilbúnaði í kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar.

Varnaraðili byggir á því að í kvörtun sóknaraðila séu ekki einungis ítrekaðar ávirðingar úr bréfi sóknaraðila til Hæstaréttar þann 17. janúar 2023 heldur sé bætt við nýjum og þungum ásökunum, þ. á m. um að varnaraðili hafi brotið ákvæði siðareglna sem banni lögmönnum að spilla eða leyna sönnunargögnum og geri kröfu um að lögmenn sýni dómstólum virðingu. Byggir varnaraðili á því með sama hætti og fyrr, að hafi skiptastjóri sóknaraðila upp á sitt eindæmi tekið upp á því að leggja kvörtunina til nefndarinnar verði hann að bera ábyrgð á þeim ummælum og ásökunum sem fram komi í henni. Þá mótmælir varnaraðili því harðlega að hafa brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna sem tilgreindar eru í kvörtuninni.

Byggir varnaraðili á því að hann hafi ávallt lagt allt til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku, sbr. 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna. Í þessu máli kveðst varnaraðili eingöngu hafa haldið uppi sjónarmiðum og málsástæðum eins og þau horfi við umbjóðanda hans, enda sé honum það skylt sem lögmanni.

Mótmælir varnaraðili því að hafa með einhverjum hætti ekki sýnt dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu sbr. 1. mgr. 19. gr. siðareglna lögmanna. Bendir varnaraðili á að hvergi hafi verið bent á nokkuð sem styðji fullyrðingar um með hvaða hætti hann eigi að hafa gerst brotlegur við ákvæðið.

Með vísan til alls framangreinds hafnar varnaraðili því að hafa gegn betri vitund gefið dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði sbr. 20. gr. siðareglna lögmanna.

Varnaraðili mótmælir harðlega að hafa með einhverjum hætti stuðlað að því að sönnunargögnum yrði spillt eða leynt sbr. 1. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Telur varnaraðili að af málatilbúnaði sóknaraðila megi ráða að ætlast hefði mátt til þess að hann afhenti gagnaðila umbjóðanda síns samskipti við umbjóðandann eða aðra umbjóðendur og gögn sem hann hafi fengið í störfum sínum fyrir þá. Að mati varnaraðila eru slíkar fullyrðingar þvert á lögbundnar trúnaðarskyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Jafnframt sé alfarið horft fram hjá því að aðilar hafi forræði á sönnunarfærslu í einkamálum. Telur varnaraðili það fela í sér mjög alvarlegt brot á siðareglum lögmanna að ásaka hann um að spilla eða leyna sönnunargögnum að ósekju og án nokkurs tilefnis. Að mati varnaraðila er óhugsandi að það verði látið óátalið.

Þá byggir varnaraðili á því að hann hafi ávallt kappkostað að vanda málatilbúnað fyrir dómstólum og stuðlað á annan hátt  að greiðri og góðri málsmeðferð af hans hálfu. Kveður hann fullyrðingar um annað órökstuddar og úr lausu lofti gripnar.

Ítrekar varnaraðili að hann hafi ekki persónulega byggt á neinu í umræddu dómsmáli, enda sé hann ekki aðili þess. Hann hafi hins vegar sinnt starfi sínu sem lögmaður og skilað greinargerðum í málinu til dómstóla fyrir hönd umbjóðanda síns. Þar hafi málsatvikum og málsástæðum verið lýst eins og þau horfi við umbjóðanda hans. Varnaraðili kveður umbjóðanda sinn ekki telja neinar varnir í málinu ekki standast skoðun.  

Áskilur varnaraðili sér rétt til að hafa uppi sérstaka kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna síðar vegna ásakana um alvarleg brot sem varnaraðili leggur fram í nafni þrotabúsins til nefndarinnar sem sóknaraðili telur varða við sjálfstætt brot gegn 25. og 27. gr. siðareglna lögmanna.

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar til nefndarinnar og fyrri málatilbúnað og málsatvikalýsingar.

Sóknaraðili hafnar því að trúnaðarskylda sóknaraðila gagnvart skjólstæðingi sínum standi í vegi fyrir því að hann útskýri persónulega hvers vegna umbjóðandi hans kjósi að haga málatilbúnaði sínum með tilteknum hætti. Telur sóknaraðili þau sjónarmið haldlaus og ítrekar að varnaraðila beri að virða siðareglur lögmanna í einu og öllu.

Vísar sóknaraðili til þess að hvergi í greinargerð varnaraðila reyni hann að halda því fram að hann hafi ekki staðfest að þrotamaður hafi ekki átt félagið árið 2016, enda komi það skýrt fram í tölvupóstum og öðrum gögnum sem stafi frá honum, að þrotamaður átti enn félagið á þeim tíma. Sökum þess telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki mátt byggja á því í greinargerðum sem hann undirritaði að þrotamaður hafi selt félagið til sonar síns árið 2014 sbr. 20. gr. siðareglna lögmanna. Að mati sóknaraðila bar varnaraðila að benda viðkomandi á að leita til annars lögmanns ef hann treysti sér ekki til að byggja á þessari réttu vitneskju sinni í málinu.

Telur sóknaraðili lýsingar varnaraðila um ágreiningsefni milli aðila dómsmálsins ekki neinu máli skipta fyrir kvörtun þessa. Þá vísar sóknaraðili til þess að þar byggi varnaraðili á því að sem lögmaður umbjóðanda síns, hafi varnaraðila borið að halda öllum málsástæðum á lofti eins og þær horfðu við umbjóðanda hans. Þessu er sóknaraðili ósammála og bendir á að varnaraðili er og hefur verið lögmaður þrotamanns í mörg ár og sem slíkur gefið út staðfestingar um að þrotamaður hafi átt félagið  [...] ehf. árið 2016. Því hafi honum verið óheimilt að byggja á öðru í vörn sinni fyrir son þrotamanns, umbjóðanda hans í dómsmálinu, sbr. 20. gr. siðareglna lögmanna.

Kveður sóknaraðili þann málatilbúnað varnaraðila að opinber skráning  [...] ehf. hafi verið á þá leið að þrotamaður ætti félagið allt þar til 29. apríl 2016 og því hafi verið eðlilegt að hann hafi ekki gert athugasemdir við lýsingar á eignarhaldinu, vera útúrsnúning enda staðfesti varnaraðili margsinnis á árinu 2016 að þrotamaðurinn væri eigandi að  [...] ehf. Það að þrotamaður hafi verið skráður eigandi í opinberum skrám að  [...] ehf. fram til 29. apríl 2016, styrkir að mati sóknaraðila bara það að eigendaskiptin yfir til sonar þrotamanns hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir það tímamark.

Sóknaraðili mótmælir því að sönnun hafi ekki tekist um að kaupsamningurinn hafi ekki verið gerður fyrr en árið 2016. Telur sóknaraðili að ný gögn sem því bárust 20. desember 2022 sanni ótvírætt að kaupsamningurinn um  [...] ehf. hafi ekki verið útbúinn fyrr en árið 2016 þó kaupsamningurinn hafi verið áritaður um dagsetningu miðað við árið 2014.  Þá bendir sóknaraðili á að þrátt fyrir að hann telji það engu skipta fyrir kvörtunarmál þetta, þá sé á því byggt af hálfu þrotabúsins í dómsmálinu að umræddar vottanir kaupsamningsins standist ekki skoðun.

Vegna áskorunar varnaraðila í greinargerð til nefndarinnar upplýsir sóknaraðili um að tveir langstærstu kröfuhafar þrotabúsins hafi verið upplýstir um aðgerðir í búinu, þ.m.t. hafi verið haft samráð við stærsta kröfuhafa búsins og sá næst stærsti látinn vita um málið og undanfara þess. Þá bendir sóknaraðili á að skiptastjóra sé heimilt að taka ákvörðun fyrir hönd búsins um að þrotabúið sendi kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og þurfi ekki samþykki kröfuhafa til. Varðandi athugasemdir varnaraðila um að skiptastjóri sóknaraðili hafi sett fram enn alvarlegri ásakanir í kvörtun til nefndarinnar sem send var fyrir hönd sóknaraðila gagnvart varnaraðila, byggir sóknaraðili á að það geti ekki falið í sér brot að sóknaraðili kvarti undan lögmanni til úrskurðarnefndar lögmanna og enn síður geti slík kvörtun þrotabús leitt af sér enn þyngri viðurlög í öðru máli sem rekið er fyrir úrskurðarnefndinni.

Þá byggir sóknaraðili á því að 18. gr. laga nr. 77/1998 sem varnaraðili vísi til í greinargerð til nefndarinnar og lúti að skyldu lögmanna til að rækja í hvívetna þau störf sem þeim er trúað fyrir af alúð og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna, takmarkist einmitt við lögmæt úrræði eins og skýrt komi fram í texta greinarinnar.

Þá byggir þrotabúið á því að sjónarmið varnaraðila um að hann eigi kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gæti fyrir skjólstæðing hans, eigi ekki við í þessu tilviki þar sem varnaraðili hafi tekið virkan þátt í atburðarásinni sem átti sér stað á árinu 2016 og mátti því aðeins byggja á því sem hann vissi sannast eftir lögum og sinni samvisku, sbr. og 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna.

V.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar kveðst varnaraðili hafa haft samband við skiptastjóra þrotabús […] ehf., stærsta kröfuhafa þrotabús C og óskað eftir upplýsingum um hvort kvörtunin í þessu máli hafi verið borin undir hann eða bréfið til Hæstaréttar dags. 17. janúar 2023. Að sögn varnaraðila upplýsti skiptastjóri þb. […] ehf. um að hann hafi haft samráð við skiptastjóra sóknaraðila varðandi kvörtunina en að málefnið hafi ekki verið borið undir kröfuhafa á kröfuhafafundi í þrotabúinu. Þar af leiðandi byggir varnaraðili á því að skiptastjóri sóknaraðila hafi einn og óstuddur tekið ákvörðun um að senda framangreint bréf til Hæstaréttar og kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og verði skiptastjórinn að bera ábyrgð samkvæmt siðareglum lögmanna á þeim ummælum og ásökunum sem þar koma fram. Þá byggir varnaraðili á því að niðurstaða þess efnis að skiptastjóri sóknaraðila geti haft uppi alvarlegar og ítrekaðar ásakanir á hendur öðrum lögmanni í skjóli stöðu sinnar sem skiptastjóri án þess að bera á því ábyrgð samkvæmt siðareglum geti ekki staðist og væri órökrétt. Ítrekar varnaraðili áskilnað af sinni hálfu til að leggja fram sérstaklega kvörtun vegna þeirra ásakana til úrskurðarnefndarinnar.

Þá mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu að hann sé lögmaður þrotamanns. Kveður varnaraðili rétt að hann hafi verið lögmaður þrotamanns og margoft komið fram fyrir hans hönd, veitt upplýsingar og tekið þátt í samskiptum. Í öll þau skipti kveðst varnaraðili hafa byggt á upplýsingum sem koma fram í opinberum skráningum eða hann hafi fengið frá umbjóðanda sínum. Hafnar varnaraðili því alfarið að hafa nokkurn tímann gegn betri vitund gefið dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Þá áréttar varnaraðili margt það sem fram hafði komið í fyrri greinargerðum hans til nefndarinnar m.a. um tímamark skráninga eignarhalds félagsins og fyrirliggjandi upplýsingar á þeim tíma sem áðurnefnd samskipti áttu sér stað 2016. Byggir varnaraðili á að það hafi verið eðlilegt að hann gerði ekki athugasemdir við lýsingu á eignarhaldinu, enda hafi það verið í samræmi við opinbera skráningu eins og fyrr er lýst. Hafnar varnaraðili því að það geti talist útúrsnúningur.

Varnaraðili telur það vekja furðu að sóknaraðili treysti sér að fullyrða að varnaraðili hafi gegn betri vitund gefið dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir, þegar aðeins liggi fyrir gögn um þátttöku varnaraðila í samskiptum sem áttu sér stað fyrir 29. apríl 2016. Bendir varnaraðili á að öll þau samskipti um eignarhald  [...] ehf. hafi verið í samræmi við opinberar skráningar en að sóknaraðili hafi ekki bent á nein samskipti eða gögn sem komið hafi til eftir að opinberum skráningum var breytt. Jafnframt telur varnaraðili vekja furðu að sóknaraðili treysti sér að setja umræddar fullyrðingar fram þegar rannsókn héraðssaksóknara, sem hafi gert húsleitir líkt og fyrr greinir hjá fjölda aðila, hafi ekki fundið neitt sem sýni fram á að kaupsamningurinn um hlutina í  [...] ehf. hafi verið útbúinn eftir 13. janúar 2014. Hvorki gögn, samskipti, vísbendingar eða annað sem gefi slíkt til kynna. Bendir varnaraðili á að það hafi engar vísbendingar fundist um fölsun samninga eða dagsetningu þeirra, hvað þá að sóknaraðili hafi haft einhverja vitneskju um slíkt.

Andstætt því sem sóknaraðili haldi fram telji varnaraðili það einmitt hafa grundvallarþýðingu að vottar hafi mætt fyrir dóm og staðfest það að hafa vottað samninginn á þeim degi sem hann ber með sér, enda sé varnaraðila gefið að sök í málinu að hafa gefið dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um dagsetningu kaupsamningsins.

Hafnar varnaraðili því að hafa með nokkrum hætti gerst brotlegur við siðareglur lögmanna og telur háttsemi hans eingöngu hafa falist í að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns.

Um alvarleika málsins vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki einungis sent sérstakt bréf til Hæstaréttar þar sem hann saki varnaraðila án tilefnis um að hafa sett fram ósannindi, gefið dómstólum rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir gegn betri vitund í greinargerðum til dómstóla landsins. Heldur hafi skiptastjóri sóknaraðila brugðist við því þegar varnaraðili bar hendur fyrir höfuð sér með því að kvarta til úrskurðarnefndar lögmanna, að halda fast í ásakanirnar og byggja á því að hann beri ekki ábyrgð á þeim þar sem hann hafi sett þær fram fyrir hönd þrotabúsins sem hann er í fyrirsvari fyrir. Í þeirri kvörtun hafi ekki verið látið við sitja að halda í fyrri ásakanir heldur bætt í þær og sakað varnaraðila um frekari brot gegn siðareglum lögmanna án þess, að mati varnaraðila, að færa fram nokkurn haldbæran rökstuðning. Telur varnaraðili þá háttsemi skiptastjóra sóknaraðila fela í sér sjálfstætt brot gegn 25. og 27. gr. siðareglna lögmanna og hefur hann því áskilið sér rétt til að bera kvörtun vegna þess undir úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Eins og fram kemur í umfjöllun um málsatvik og málsástæður að framan, lýtur kvörtun sóknaraðili í málinu að því hvort varnaraðili hafi brotið gegn skyldum sínum að lögum með því að gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði og með því að stuðla að því að sönnunargögnum sé spillt eða leynt.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður eftir sem áður gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra.

Samkvæmt 20. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Samkvæmt 21. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki stuðla að því, að sönnunargögnum sé spillt eða leynt, en óskylt er honum og óheimilt, gegn banni skjólstæðings, að láta dómstólum í té gögn og upplýsingar, sem skjólstæðingi eru til sakfellis.

Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni má ráða að varnaraðili var þrotamanni til ráðgjafar m.a. í janúar 2016 er hann sendi tölvupósta til erlends fjármálafyrirtækis samkvæmt beiðni þrotamanns, m.a. til sönnunar um eignarhald þrotamanns á félaginu  [...] ehf. á þeim tíma. Árum síðar tók varnaraðili síðan til varnar fyrir hönd sonar þrotamannsins í máli sem sóknaraðili höfðaði gegn syninum m.a. vegna eignarhlutanna í sama félagi. Byggir varnaraðili á því fyrir dómstólum fyrir hönd umbjóðanda síns, að viðskiptin með hlutina í  [...] ehf. hafi átt sér stað 13. janúar 2014. Af þeim málatilbúnaði leiðir að þrotamaðurinn hafi ekki átt hlutina í janúar 2016 þegar varnaraðili sendi áðurnefnda pósta til sönnunar hins gagnstæða. Telur sóknaraðili m.a. af því ljóst að félagið hafi tilheyrt þrotamanni, en ekki syni hans fram til ársins 2016 og að sökum áðurgreindra tölvupósta hljóti varnaraðili að vita að svo hafi verið. Því telur sóknaraðili varnaraðila hafa verið óheimilt að byggja á öðru í dómsmálinu, jafnvel þótt umbjóðandi hans hafi viljað það, enda væri varnaraðili með því að gerast brotlegur við framangreindar siðareglur.

Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að viðskiptin um hlutina í  [...] ehf. milli þrotamanns og sonarins hafi átt sér stað þann 13. janúar 2014 líkt og greinir í kaupsamningi, enda væri annað talið ósannað. Dómi héraðsdóms hefur verið áfrýjað til Landsréttar í máli nr. […] og bíður þar meðferðar. Í niðurstöðu héraðsdóms var fallist á málatilbúnað varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda síns í málinu sem sóknaraðili telur vera rangan. Sem framan greinir beindi nefndin fyrirspurnum til beggja málsaðila um það hvort þeir samþykktu að fresta afgreiðslu málsins meðan beðið yrði dóms Landsréttar í máli nr. […] þar sem hann kynni að mati nefndarinnar að varpa nánara ljósi á sönnunaratriði í málinu. Lýstu báðir málsaðilar þeirri afstöðu sinni að telja málið nægilega upplýst óháð niðurstöðu téðs dómsmáls. Var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga. Eins og mál þetta liggur fyrir treystir nefndi sér ekki  til að leggja mat á það hvort sóknaraðili hafi talað gegn betri vitund eða veitt rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði, er hann ritaði greinargerðir fyrir hönd umbjóðanda síns til dómstóla. Í því fælist að nefndin endurskoðaði sönnunaratriði sem héraðsdómur hefur þegar leyst úr og sem nú sætir endurskoðun fyrir Landsrétti. Þegar af þeirri ástæðu að fyrir liggur héraðsdómur sem ekki hefur verið hnekkt, með dómi Landsréttar, þar sem lagt er til grundvallar að málatilbúnaður varnaraðila í málinu sé réttur, enda hið gagnstæða ósannað, verður ekki talið að varnaraðili hafi gegn betri vitund veitt dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði sbr. 20. gr. siðareglna lögmanna.

Sóknaraðili hefur jafnframt kvartað undan því að varnaraðili hafi stuðlað að því að sönnunargögnum væri spillt eða leynt þar sem hann hafi ekki lagt áðurnefnd samskiptagögn síðan 2015 og 2016 fram í áðurnefndu dómsmáli, en eina ástæða þess að gögnin liggi nú fyrir er vegna þess að sóknaraðila hafi borist þau eftir húsleitir lögreglu hjá þrotamanni o.fl. aðilum. Ákvæði 21. gr. siðareglna lögmanna bannar lögmönnum að stuðla að því, að sönnunargögnum sé spillt eða leynt. Í ákvæðinu felst hins vegar ekki skylda fyrir lögmenn til að upplýsa gagnaðila um öll gögn og upplýsingar sem þýðingu kunna að hafa í tengslum við ágreiningsmál þeirra eða til að leggja öll slík gögn og upplýsingar fram í dómsmáli aðilanna, enda bryti slík túlkun m.a. gegn grundvallarreglum réttarfars um málsforræði málsaðila og útilokunarreglunnar.

Að framanvirtu telur nefndin ósannað að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Það athugast að varnaraðili hefur borið því við í málinu að framkoma skiptastjóra sóknaraðila sem birtist í málatilbúnaði sóknaraðila til nefndarinnar í málinu hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus varnaraðili að lýsa hinum ætluðu brotum skiptastjórans að þessu leyti í greinargerð með andsvörum til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður varnaraðila þar að lútandi ekki til úrlausnar í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, A lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, þrotabús C, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson