Mál 14 2023

Mál 14/2023

Ár 2023, miðvikudaginn 13. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2023:

A

gegn

B lögmanni og C slf.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. apríl 2023 kvörtun sóknaraðila, A gegn varnaraðila, B lögmanni, og C slf., vegna starfa varnaraðila og annarra lögmanna á lögmannsstofunni við hagsmunagæslu í líkamstjónamáli sóknaraðila auk ágreinings vegna endurgjalds fyrir þau störf.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 14. apríl 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 24. apríl 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni 12. maí 2023 ásamt frekari gögnum. Viðbótarathugasemdir varnaraðila bárust nefndinni þann 30. júní 2023. Þá var í kjölfarið fyrirspurn beint til varnaraðila til skýringarauka við andsvör í ljósi erindis sóknaraðila. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvik eru þau helst að sóknaraðili lenti í slysi þann 2. mars 2016 er hann datt í hálku og hlaut úlnliðsbrot á vinstri úlnlið. Í kjölfarið leitaði hann á bráðamóttöku Landspítalans þar sem hlúð var að brotinu. Í eftirmeðferð á Landspítala átti sér stað vanræksla af hálfu heilbrigðisstarfsmanna sem matsgerð átti síðar eftir að leiða í ljós að jók enn á tjón sóknaraðila.

Þann 18. nóvember 2016 undirritaði sóknaraðili umboð til varnaraðila og lögmannsstofunnar til að gæta hagsmuna hans vegna hálkuslyssins.

Þann 19. desember 2016 undirritaði sóknaraðili síðan annað umboð til handa sömu lögmanna til að athuga réttarstöðu hans vegna hugsanlegra mistaka af hálfu heilbrigðisstarfsmanna við veitingu læknismeðferðar í kjölfar slyssins.

Aflaði lögmannsstofan einhliða matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis og Hannesar Inga Guðmundssonar lögfræðings, dags. 13. júlí 2017. Niðurstaða matsins var að sóknaraðili hafi orðið fyrir 8% varanlegri örorku og 8 stiga varanlegum miska í slysinu þann 2. mars 2016 og batahvörf orðið 2. maí 2016. Í sömu matsgerð var metið hvort meðferðin vegna slyssins hafi falið í sér sjúklingatryggingaratburð og var niðurstaðan sú að svo væri. Mátu matsmenn tjón sóknaraðila af því tilefni vera 10 stiga varanlegan miska og 10% varanlega örorku og batahvörf þann 17. júní 2016. Sendi lögmannsstofan kröfubréf fyrir hönd sóknaraðila á SÍ þann 27. júlí 2017 þar sem farið var fram á tilteknar bætur samkvæmt matsgerðinni auk lögmannsþóknunar samtals að fjárhæð 450.000 kr. að virðisaukaskatti meðtöldum.

Fyrir nefndinni liggur síðan fyrir stefna sem lögmannsstofan ritar á hendur SÍ fyrir hönd sóknaraðila. Þar sem er með ítarlegum hætti gert grein fyrir kröfum sóknaraðila og krafist greiðslu bóta í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar. Stefnan sem merkt er til framlagningar þann 17. október 2017 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur virðist undirrituð sem löglegra birtri af fyrirsvarsmanni SÍ.

Stefnan var hins vegar ekki þingfest þar sem SÍ birti í framhaldinu ákvörðun í máli sóknaraðila þann 12. október 2017 þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um bætur og bótagreiðslur sundurliðaðar. Í ákvörðun bóta af hálfu SÍ virðist sem niðurstaða áðurnefndrar matsgerðar hafi verið lögð til grundvallar en engu að síður neitaði embættið að greiða fyrir kostnað vegna öflunar matsgerðarinnar. Töldu lögmenn stofunnar að fenginni þeirri ákvörðun SÍ, málshöfðun til að krefjast frekari kostnaðar og bóta frá embættinu óvænlegt til árangurs.

Í yfirliti yfir stöðu viðskiptamanns úr bókhaldskerfi lögmannsstofunnar má sjá að lögmannsstofan móttók bótagreiðslur frá SÍ þann 12. október 2013 að fjárhæð 3.649.009 kr. Þá liggur fyrir að reikningsfært var útlagðan kostnað vegna máls sóknaraðila fram að uppgjöri úr tryggingum SÍ að fjárhæð 483.920 kr. sem voru vegna öflunar matsgerðarinnar. Þá var reikningsfærð þóknun lögmannsstofunnar að fjárhæð 1.085.000 kr. að virðisaukaskatti meðtöldum. Kom þannig til greiðslu til sóknaraðila 2.080.089 kr. þann 13. október 2017. Fyrir nefndinni liggur jafnframt fyrir bréf varnaraðila til sóknaraðila dags. 13. október 2017 með efnislýsingunni uppgjör og skilagrein vegna greiðslna SÍ þar sem er tekið fram að bæturnar hafi verið lagðar inn á reikning sóknaraðila. Skilagrein frá lögmannsstofunni frá sama degi þar sem sundurliðaður er áðurnefndur útlagður kostnaður og lögmannskostnaður að meðtöldum virðisaukaskatti og fjárhæð eftirstöðva til sóknaraðila og innleggsreikningur. Auk reiknings til sóknaraðila vegna lögfræðiþjónustu lögmannsstofu varnaraðila sem er í samræmi við skilagreinina að fjárhæð 1.085.000 kr. með virðisaukaskatti. Samrýmist skilagreinin og sundurliðanir hreyfingaryfirliti sóknaraðila fram til þess tíma.

Auk téðra uppgjörsgagna liggur fyrir umboð sóknaraðila til sömu lögmanna dags. 13. október 2017 þar sem þeim er falið að sækja um málskostnaðartryggingu hjá [...] vegna fyrirhugaðrar málssóknar á hendur SÍ í samræmi við uppkast að stefnu sem send var [...].  

Í kjölfarið var leitað afstöðu [...] til bótaskyldu sem félagið hafnaði. Þeirri höfnun var skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem staðfesti höfnunina. Þann 28. janúar 2019 höfðaði lögmannsstofan mál fyrir hönd sóknaraðila á hendur [...] þar sem kröfum hans á hendur félaginu var fylgt eftir. Þá liggur fyrir nefndinni tölvupóstur Steingríms Þormóðssonar lögmanns á lögmannsstofunni til sóknaraðila þann 1. febrúar 2019 þar sem stefnan fylgir í viðhengi og segir í fyrirsögn að svo sé auk þess að málið yrði þingfest 7. febrúar 2019 líkt og varð raunin.

Þann 2. apríl 2020 var dómur uppkveðinn í máli sóknaraðila gegn [...] nr. […] þar sem [...] var sýknað af kröfum sóknaraðila og málskostnaður milli aðila felldur niður.

Samdægurs sendi […] lögmaður á lögmannsstofunni tölvupóst á sóknaraðila þar sem fram kemur eftirfarandi: „Sæl [A], Í dag var kveðinn upp dómur, Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu þínu gegn [...]. Niðurstaðan var sú að [...] var sýknað af kröfum þínum, en málskostnaður var látinn falla niður. Ég sendi þér dóminn og bið þig svo að lesa hann vel yfir og vera svo í sambandi við okkur. Vísa til hjálagðs viðhengis. Óska eftir að þú staðfestir móttöku þessa pósts.“ Sóknaraðili staðfesti móttöku þess tölvupósta fjórum dögum síðar, þann 6. apríl 2020. Málinu var ekki áfrýjað og fól það því í sér endanlega niðurstöðu í máli sóknaraðila gegn [...].

Í málinu liggur síðan fyrir reikningur lögmannsstofunnar til sóknaraðila merktur nr. 1130 að fjárhæð 450.585 kr. að virðisaukaskatti meðtöldum, dags. 16. apríl 2020. Sá reikningur ku aldrei hafa verið greiddur en þrátt fyrir það útgefinn og að sögn varnaraðila, sendur sóknaraðila.

Með innheimtubréfi þann 2. febrúar 2023 krafði lögmannsstofa varnaraðila sóknaraðila um greiðslu 450.585 kr. samkvæmt reikningi nr. 1130 auk dráttarvaxta til greiðsludags og innheimtuþóknunar, allt samtals að fjárhæð 646.585 kr. Undirliggjandi reikningur nr. 1130 er merktur sem lögfræðiþjónustu að fjárhæð 956.250 kr. fyrir virðisaukaskatt en skráður er 62% afsláttur og eftirstöðvum því 450.585 kr.

Þá er fyrir nefndinni ekki lagt með reikningum fram málskostnaðaryfirlit varnaraðila í héraðsdómsmáli milli sóknaraðila og [...]

Með tölvupósti þann 7. mars 2023 sendi […] lögmaður og varnaraðili, tölvupóst á sóknaraðila þar sem segir að umbeðin gögn liggi fyrir á skrifstofu lögmannsstofunnar tilbúin til afhendingar. 

Samdægurs mætti sóknaraðili á skrifstofu varnaraðila með vottaða yfirlýsingu um að hann afturkallaði umboð sitt til lögmannsstofunnar, þ.m.t. varnaraðila. Fór varnaraðila fram á afhendingu allra gagna sem þeir hefðu undir höndum. Á yfirlýsingunni var reitur fyrir varnaraðila til að undirrita sem er óundirritaður. Ágreiningur er um það milli aðila hvað fór fram á téðum fundi en sóknaraðili bar því við í erindi sínu til nefndarinnar að hafa verið hræddur við varnaraðila og óttast að hann hygðist ganga sér í skrokk. Varnaraðili hefur mótmælt því að hafa með nokkrum hætti ógnað sóknaraðila. Þá benti varnaraðili á að á þeim fundi hafi hann lýst því yfir að reikningurinn nr. 1130 yrði felldur niður og staðfesti varnaraðili það í athugasemdum til nefndarinnar. Aukinheldur hafi sóknaraðila staðið til boða að sækja öll gögnin sín á þeim fundi sem búið hafi verið að taka saman fyrir hann af tilefni fundarins og séu nokkur gögn eftir geti hann vitjað þeirra til þeirra hvenær sem er. Varðandi frumrit gagnanna voru þau að sögn varnaraðila lögð fram í dómsmáli sóknaraðila og því ekki lengur í fórum lögmannsstofunnar. Þá kveðst varnaraðili hafa neitað að skrifa undir afturköllun umboðsins á þeim tíma en hafa beðið sóknaraðila og koma aftur síðar og hann myndi undirrita hana eða fara á næstu skrifstofu og láta […] lögmann sem hafði sinnt samskiptum við sóknaraðila, undirrita það fyrir sína hönd en það hafi sóknaraðili ekki gert.

Sóknaraðili krefst þess annars vegar að endurgjald varnaraðila fyrir störf hans í sína þágu  verði endurskoðað sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. sömu laga.

Sóknaraðili gerir alvarlegar aðfinnslur við starfshætti varnaraðila og lögmannsstofunnar sem hann vinni á. Að sögn sóknaraðila var það skýrt í samskiptum hans við varnaraðila að hann myndi einungis samþykkja að fara í dómsmálarekstur að því gefnu að gjafsókn fengist. Hann hafi síðan engar fregnir fengið af málarekstrinum fyrr en um þremur árum síðar þegar honum barst áðurlýst inniheimtubréf 6. mars 2023, dagsett 2. febrúar 2023 frá lögmannsstofu varnaraðila. Kveðst sóknaraðili af því tilefni hafa haft samband við varnaraðila sem hafi gert lítið úr sér og lýst málsatvikum með allt öðrum hætti en sóknaraðili. Lýsingarnar sem varnaraðili bar fyrir sig kveður sóknaraðili ekki vera sannleikanum samkvæmt og þá hafi varnaraðili að sögn sóknaraðila neitað að hafa haldið aftur af bótunum sínum 1.347.527 kr. líkt og sé raunin eða að hafa þegið nokkra þóknun fyrir þeirra störf. Kveðst sóknaraðili hafa leitað til lögfræðings eftir að reyna ræða málin við varnaraðila án árangurs og í kjölfarið ákveðið að fenginni ráðleggingu að fara á skrifstofu varnaraðila með yfirlýsingu um afturköllun umboðs og óska eftir afriti sinna gagna. Varnaraðili hafi neitað að undirrita nokkuð sem sóknaraðili kom með og þegar varnaraðili hafi gagnrýnt hann fyrir þá framkomu sem sóknaraðili kveður sér hafa verið sýnd, hafi varnaraðili sýnt af sér ógnandi tilburði, hótað að hringja á lögreglu og fyrirskipað honum að yfirgefa skrifstofu hans í snatri.

Sóknaraðili kveðst hafa í þrígang þurft að leita sér lögmannsaðstoðar og hafi því ágætis reynslu af því hvernig lögmenn eigi að haga sér. Kveðst sóknaraðili aldrei hafa kynnst viðlíka vinnubrögðum og hjá varnaraðila og hans lögmannsstofu og telur sóknaraðili verulega á sér brotið. Gagnrýnir sóknaraðili sérstaklega þá starfshætti varnaraðila að höfða dómsmál í sínu nafni án þess að ráðfæra sig við sig, en slíku geti fylgt veruleg áhætta. 

Þá telur sóknaraðili óeðlilegt að gefa út reikning og eins þann sem honum barst, án þess að fram komi sú upphæð sem haldið var eftir af hálfu varnaraðila þremur árum áður með tilheyrandi kostnaði eða að hann eigi að borga þriðjung eða tvo þriðju ef fallist yrði á síðari reikning varnaraðila, af þeim heildarbótum sem hann fékk dæmdar fyrir slysið, en með þeim reikningi hafi varnaraðili rukkað sig um 2.303.777 kr.  en bætur hans numið 3.427.616 kr.

Sóknaraðili vísar erindi sínu til stuðnings til 14. gr. siðareglna lögmanna um að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skuli vera greinargerð og bendir á að sá reikningur sem honum barst og hvernig til hans hafi stofnast brjóti að hans mati í bága við ákvæðið. Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðila hafi brotið á sér með því að afhenda sér afrit af skjölum en ekki frumrit og leyfa sér ekki að draga umboð sitt til baka og vísar í þeim efnum til 16. gr. siðareglna lögmanna. Aukinheldur hafi varnaraðili haldið eftir meira en 1.300.000 kr. og skuldi sér því mismuninn.

Þá telur sóknaraðili að framkoma varnaraðila öll í sinn garð eftir að reikningurinn barst í mars síðastliðinn gangi í berhögg við þá háttsemi sem lögmönnum ber að sína skjólstæðingum sínum. Vísar sóknaraðili aukinheldur til þess að varnaraðili hafi á engum tímapunkti reynt að koma til móts við sig, hlustað á sig, eða sýnt sér viðeigandi kurteisi. Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hafi nýtt sér yfirburðarstöðu sína gagnvart sér, bæði sem lögmanni og sem stórvöxnum karlmanni til móts við öryrkja og smávaxna konu og kveðst sóknaraðili hafa upplifað framkomu varnaraðila sem svo að manneskja líkt og hann mætti vera þakklátur fyrir að varnaraðili skyldi hafa boðist til að fella niður síðasta reikninginn.

Sóknaraðili krefst þess að reikningur varnaraðila fyrir rekstur dómsmáls sem hann kveðst skýrt og greinilega hafa sagt varnaraðila að hann vildi ekki fara lengra með án gjafsóknar verði felldur niður. Þá krefst sóknaraðili þess að endurgjald varnaraðila verði að öðru leyti endurskoðað, en að honum verði gert að greiða sanngjarnt og hæfilegt endurgjald fyrir þau störf að reka mál hans fyrir Sjúkratryggingum Íslands, vátryggingafélagi og endurupptökunefnd. Að allt endurgjald sem hann telst eiga rétt til úr hendi varnaraðila verði ákveðið með dráttarvöxtum frá þeim degi sem varnaraðili hélt eftir fjárhæð umfram þá sem sóknaraðili telur honum hafa verið heimilt. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að afhenda sér frumrit gagna sinna og að hann fái að afhenda varnaraðila bréfið sem hann kveðst hafa farið með til þeirra er hann vildi afturkalla umboð sitt til varnaraðila með undirritun varnaraðila og staðfestingu vitna. Loks áréttar sóknaraðili kröfu sína um að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum fyrir framkomu hans í sinn garð, þar sem sóknaraðili kveður varnaraðila hafa hlegið að sér, sýnt sér ógnandi hegðun í krafti kyns og starfstöðu og logið að sér og ætlað sér að endurgreiða aldrei það sem hann hafi haldið umfram heimild.   

III.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá nefndinni en ellegar að þeim verði hafnað.

Varnaraðili bendir á þann tíma sem liðinn er frá því að uppgjör fór fram milli aðila í október 2017 en sóknaraðili sé í reynd að fara fram á endurskoðun endurgjalds fyrir störf við innheimtu bóta á hendur Sjúkratryggingum Íslands árin 2016 – 2017. Vekur varnaraðili athygli á að sá langi tími hafi áhrif á sönnunarstöðu málsins. Byggir varnaraðili á því að liðið sé meira en eitt ár frá því að sóknaraðili átti kost á að koma erindinu á framfæri við nefndina sem eigi að leiða til þess að erindið verði ekki tekið til efnismeðferðar, að minnsta kosti sá hluti þess sem taki til endurgreiðslu á endurgjaldi varnaraðila. Byggir varnaraðili á því að alla jafnan verði að álykta sem svo að framangreindur frestur miði við það tímamark er reikningur fyrir störf lögmanns er útgefin. Bendir varnaraðili á að uppgjör og skilagrein fyrir vinnu lögmannsstofu hans við innheimtu bóta úr hendi SÍ sé frá 13. október 2017. Kveður varnaraðili að sóknaraðili hafi móttekið umrædd gögn og reikning án athugasemda og bætur til varnaraðila verið greiddar í samræmi við þau gögn. Kveðst varnaraðili ekki hafa skilið þá fyrirvaralausu móttöku bóta og gagna með öðrum hætti en svo að sóknaraðili hafi fellt sig við þau málalok. Eftir þau málalok starfaði lögmannsstofan áfram fyrir sóknaraðila við innheimtu slysabóta úr hendi [...] sem krafið var um bætur vegna afleiðinga frístundaslyss. Byggir varnaraðili þannig á að sá tími sem unnt væri að krefjast endurskoðunar á endurgjaldi fyrir vinnu og innheimtu bóta úr hendi SÍ sé löngu liðinn.

Telur varnaraðili hið sama gilda um þóknun vegna starfa lögmannsstofunnar vegna málareksturs sóknaraðila á hendur [...]. Því til stuðnings bendir varnaraðili á að sóknaraðila var send niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur með tölvupósti þann 2. apríl 2020 sem varnaraðili móttók þann 6. apríl 2020. Í beinu framhaldi hafi reikningur verið útgefinn vegna málarekstursins á hendur [...] dags. 16. apríl 2020. Engar athugasemdir hafi borist frá sóknaraðila af því tilefni fyrr en innheimta reikningsins var ítrekuð þann 2. febrúar 2023. Telur varnaraðili annað ófært en að miða upphaf tímamarks til að leggja erindi fyrir nefndina við 16. apríl 2020 og því hafi það verið liðið þegar sóknaraðili lagði fram erindið þann 24. mars 2023. Byggir varnaraðili á að samkvæmt því beri að vísa ágreiningi aðila vegna reikningsins 16. apríl 2020 frá nefndinni og engu máli geti skipt þótt reikningurinn hafi verið ítrekaður 2. febrúar 2023.

Ítrekar varnaraðili að höfðun málsins á hendur [...] hafi verið gert með vitund og vilja sóknaraðila en sóknaraðili hafi meðal annars fengið stefnuna senda þann 1. febrúar 2019, sem var áður en hún var síðan framlögð fyrir dómi. Þá tekur varnaraðili fram að reikningurinn síðan 16. apríl 2020 hafi verið felldur niður. Kveðst varnaraðili hafa fallið frá innheimtu reikningsins í tilefni af mótmælum sóknaraðila og umkrafin skuld vegna vinnu lögmannsstofu varnaraðila væri því hætt og reikningurinn niðurfelldur. Ítrekar varnaraðili það fyrir nefndinni.

Þá byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila um endurskoðun og endurútreikning þóknunar vegna innheimtu bóta á hendur Sjúkratryggingum Íslands sé niðurfallin sökum fyrningar sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 sem og leiði almennar tómlætisreglur til þess að krafa sóknaraðila um endurútreikning og endurgreiðslu sé niðurfallinn.  

Vísar varnaraðili til þess að í greinargerð sóknaraðila sé staðhæft, að sóknaraðili hafi einungis farið á einn fund með þáverandi lögmönnum sínum. Að sögn varnaraðila er sá málatilbúnaður rangur og bendir hann á að varnaraðili hafi undirritað fjögur umboð sem liggi fyrir í málinu og bendir á tölvupóst síðan október 2018 sem sé til marks um að sóknaraðili hafi mætt til fundar á þeim tíma til að fela þeim hagsmunagæslu fyrir sína hönd.

Telur varnaraðili erindi sóknaraðila að öðru leyti sama marki brenndar, og fullt af staðlausum ásökunum og hagfelldum eftiráskýringum sóknaraðila sem varnaraðili eigi erfitt með að verjast þar sem um sé að ræða orð gegn orði. Því byggir varnaraðili á að horfa verði til gagna málsins til sönnunar um atvik málsins en sönnunarbyrði fyrir öðru beri sóknaraðili. Í því samhengi mótmælir varnaraðili sérstaklega þeim málatilbúnaði sóknaraðila að láðst hafi að afla samþykki sóknaraðila fyrir málssókninni á hendur [...] í kjölfar neitunar [...] á bótaskyldu, sem röngum og ósönnuðum. Bendir varnaraðili á tölvupóst sem sendur var sóknaraðila er hann spurðist fyrir um gang mála og tölvupósts sem sóknaraðila var sendur með stefnu málsins og tilkynnt hvenær málið yrði þingfest. Þá hafi varnaraðili undirritað umboð sem heimiluðu varnaraðila og lögmönnum á sömu lögmannsstofu að höfða mál fyrir hönd sóknaraðila ef þörf þótti til greiðslu bóta og beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því ef umboðið átti að vera annað og þrengra en það. Þá hafi sóknaraðili ritað undir annað umboð mánuði síðar til að krefja og sækja bætur úr hendi SÍ. Á hafi sóknaraðili engar athugasemdir haft uppi er niðurstaða málsins var kynnt sóknaraðila í apríl 2020 og reikningur sendur til hans.

Varnaraðili mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að sóknaraðili hafi gert það að skilyrði fyrir málshöfðun af sinni hálfu að gjafsókn fengist fyrir málssókninni og bendir varnaraðili á að gögn málsins og atvik þess öll bendi til annars. Af framangreindu leiði að vísa beri málinu frá nefndinni.

Óháð framangreindum frestum og fyrningu byggir varnaraðili jafnframt á að það endurgjald sem hann hafi tekið fyrir innheimtu bóta úr hendi SÍ hafi verið sanngjarnt, eðlilegt og endurspeglað réttilega þá vinnu sem málið útheimti. Málið hafi verið rekið með hagsmuni sóknaraðila í fyrirrúmi, þ.á m. allra nauðsynlegra læknisfræðilegra gagna aflað og ítrustu kröfur gerðar. Þá hafi lögmenn sóknaraðila lagt út fyrir öllum kostnaði vegna reksturs málsins á hendur [...] og SÍ. Veruleg vinna hafi farið í málið gegn SÍ og hafi lögmenn á lögmannsstofu varnaraðila viljað reyna að ná kostnaði sóknaraðila vegna málsins, m.a. matskostnaði með málsókn, sem sóknaraðili hafi ekki viljað á þeim tíma. Að sögn varnaraðila var sóknaraðila jafnframt við það tilefni gerð grein fyrir því að slíkt mál gæti endað með málskostnaði á hendur honum. Bendir varnaraðili á að búið var að gera stefnu áður en greiðsla barst frá SÍ og kanna með réttaraðstoðartryggingu hjá [...] sem hafi krafist verulegrar vinnu.

Þá lýsir varnaraðili málsatvikum í greinargerð sinni til nefndarinnar og bendir m.a. á að upphaflega hafi málið verið skoðað gagnvart [...] sem frítímaslys en þegar gögn hafi farið að berast hafi þótt sterkar líkur á að mistök hefðu verið gerð við meðferð sóknaraðila í kjölfar slyssins og því í framhaldinu gengið frá nýju umboði til að gæta hagsmuna sóknaraðila gagnvart SÍ. Ákveðið hafi verið að kanna rétt hans þar að fullu áður en haldið yrði áfram með málin gagnvart [...] og þóttu sjúkragögnin sem bárust í kjölfarið að mati varnaraðila greinileg um að mistök hafi þar skeð og slysið yrði bótaskylt hjá SÍ. Var því gengið í að afla matsgerðar af áverkum hans og krafa gerð á hendur SÍ á grundvelli matsgerðarinnar. Þegar engin gögn bárust var farið í að vinna stefnu málsins og leggur varnaraðili fyrir nefndina stefnu gagnvart SÍ vegna sóknaraðila. Lýsir varnaraðili því að þegar haft hafi verið samband við SÍ til að kanna með áritun á stefnuna hafi embættið lýst því yfir að ákveðið hafi verið að una matinu og greiða samkvæmt því inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu varnaraðila án frekari viðræðna. Við svo búið að SÍ hefði tekið ákvörðun um bætur á stjórnsýslustigi og afgreitt málið, þótti tvísýnt að halda áfram með málið fyrir dómstólum sbr. úrskurð Landsréttar í máli nr. […] og að sögn varnaraðila var sóknaraðili upplýstur um það.

Kveður varnaraðili kostnað vegna málsins því hafa verið tekinn af greiðslu SÍ í samráði við sóknaraðila og honum send skilagrein sem útlistaði hvernig það uppgjör færi fram bæði í bréfpósti og jafnvel í tölvupósti um svipað leyti í kringum 13. október 2017 og bæturnar greiddar inn á reikning þann sem sóknaraðili gaf upp. Engar athugasemdir hafi komið fram við það uppgjör bóta og endurgjald lögmanna hans. Að mati varnaraðila var ekki annað að ráða af samskiptum við sóknaraðila en að hann væri sáttur við niðurstöðu málsins.

Kveðst varnaraðili í framhaldi þess uppgjörs hafa farið að ræða mál sóknaraðila gegn [...] vegna frítímaslysatryggingar hans og verið ákveðið í samráði við sóknaraðila að láta á rétt hans reyna fyrir dómstólum. Að sögn varnaraðila var sóknaraðili fullmeðvitaður um málshöfðunina á hendur [...] en grundvöllur hennar hafi verið sú matsgerð sem notuð var gegn SÍ þar sem ein matsspurningin var á þá leið að inna matslækni eftir heildarmiska vegna frítímaslyss þann 2. febrúar 2016. Þar sem um var að ræða ágreiningsmál gegn [...] kom ekki til greina að nota málskostnaðartryggingu sóknaraðila hjá því sama félagi líkt og greini í skilmálum þess. Niðurstaða dómsmálsins hafi komið varnaraðila á óvart og sóknaraðila tilkynnt um dóminn sama dag og hann var uppkveðinn. Þar sem ekki hafi náðst í sóknaraðila kveður varnaraðili þann lögmann sem flutti málið fyrir dómstólum hafa sent sóknaraðila tölvupóst. Kveðst varnaraðili reka minnið til þess að sá sami lögmaður hafi rætt við sóknaraðila um málsúrslitin í síma sem hafi ekki sagst hafa bolmagn til að áfrýja því og því hafi niðurstaðan orðið sú að una dóminum. Af því tilefni hafi verið útgefinn reikningur til handa sóknaraðila á grundvelli tímaskráningar og gefinn afsláttur eins og reikningurinn beri með sér. Kveðst varnaraðili muna eftir því að hafa haft samband við sóknaraðila við útgáfu reiknings og engar athugasemdir gerðar við hann eða nokkuð annað í vinnubrögðum lögmannsstofunnar, en sóknaraðili hafi borið við erfiðum fjárhag sem hafi verið ástæða þess að ekki var reynt að innheimta reikninginn frekar á þeim tíma. Það hafi þó verið gert í byrjun árs 2023 þegar ákveðið var að senda innheimtur á örfáa aðila sem skulduðu enn samkvæmt viðskiptamannareikningi lögmannsstofu varnaraðila, með tilgreindum eftirstöðvum, dráttarvöxtum og öðrum kostnaði. 

Eftir að það innheimtubréf var sent út lýsir varnaraðili því að sóknaraðili hafi hringt og lýst því yfir að ef ekki yrði látið af innheimtunni myndi hann skaða rekstur lögmannsstofunnar með slæmu umtali og orðað það þannig að hann myndi ekki una sér hvíldar fyrr en hann væri búinn að eyðileggja rekstur stofunnar. Þá hafi sóknaraðili tekið fram að hann væri kominn með lögmann sér til liðveislu til að sjá um sín mál. Þá hafi sóknaraðili hringt í annað sinn og lýst því sama og áður og beðið um öll gögn málsins, sem við var orðið og honum boðið að þau yrðu póstlögð eða hann gæti komið og sótt þau. Sóknaraðili hafi kosið að sækja þau sjálfur.

Lýsir varnaraðili því að við komu á lögmannsstofu sína hafi sóknaraðili tekið við þeim gögnum sem lögmenn stofunnar höfðu undir höndum hjá ritara stofunnar. Í framhaldinu hafi sóknaraðili gengið inn á skrifstofu varnaraðila og krafist þess að hann myndi rita á pappíra sem þegar hafi verið búið að votta undirritun á án þess að varnaraðili hafi orðið þeirra votta áskynja af eigin raun. Tekur varnaraðili fram að hann hafi verið í símanum þegar sóknaraðili gekk þar inn með trúnaðargögn á borðinu og því hafi hann beðið sóknaraðila um að yfirgefa skrifstofuna og senda bréfið í tölvupósti eða fá þann lögmann sem annast hafði samskipti við sóknaraðila að undirrita það fyrir hann, þar sem miklar svívirðingar hefðu komið frá sóknaraðila í símtölum og í umrætt sinn þegar hann mætti að sækja gögnin. Að sögn varnaraðila varð sóknaraðili ekki við því heldur hélt áfram uppteknum hætti að ausa úr skálum reiði sinnar með svívirðingum og því hafi varnaraðili slitið símtalinu og sagst ekki eiga annarra kosta völ en að hringja á lögregluna þar sem sóknaraðili neitaði að yfirgefa skrifstofuna. Þegar hann hafi byrjað að slá inn númer lögreglunnar hafi sóknaraðili yfirgefið skrifstofuna. Að endingu tekur varnaraðili fram að langt sé síðan vinna í mál sóknaraðila fór fram og því sé greinargerðin unnin út frá þeim gögnum sem fundust á skrifstofum varnaraðila, sem í fór veruleg vinna.

 

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar áréttar sóknaraðili margt af því sem fram kom í upphaflegu erindi til nefndarinnar.

Varðandi kveðst aldrei hafa fengið reikning eða fullnaðaruppgjör sent né hafi verið haft samband við hann frá lögmannsstofu varnaraðila, hvorki með pósti, tölvupósti eða símtali. Því kveðst sóknaraðili engin tækifæri hafa átt til að mótmæla eða kvarta undan uppgjörinu. Að sögn varnaraðila var það ekki fyrr en honum barst bréf í mars 2023 sem hann gat brugðist við og það hafi hann gert samdægurs. Mótmælir sóknaraðili því að bera nokkra ábyrgð á því að erindið hafi ekki verið fyrr lagt fram eða brugðist við fyrr gagnvart lögmannsstofu varnaraðila og fer hann því fram á að erindi hans til nefndarinnar sé tekið til greinar samkvæmt því. Auk þess telur sóknaraðili að fyrningarfrestur sá sem varnaraðili vísi til geti átt við í þessu tilviki.

Kveðst sóknaraðili aldrei hafa mótmælt því að greiða fyrir þá vinnu sem varnaraðili ynnti af hendi fyrir sig gagnvart SÍ. Lögmannsstofan hafi þó aldrei sent honum neina skilagrein heldur hringt og látið vita að SÍ væri búið að samþykkja að greiða honum bætur og að þeir myndu halda eftir rúmlega 1.300.000 kr. upp í kostnað. Kveðst sóknaraðili muna vel eftir að varnaraðili hafi sourt hvort hann væri sáttur við það, þar sem algengt væri að fólk mótmælti þessu. Segist sóknaraðili hafa játað því og skilið það. Í framhaldi þess hafi varnaraðili sagst muna greiða sér mismuninn þegar kæmi að uppgjöri. Bendir varnaraðili á upplifun sína og ráðleggingar af annarri lögmannsstofu sem hann leitaði til í framhaldinu í tengslum við annað atvik til samanburðar og sönnunar um það hvernig lögmönnum í stofu líkt og varnaraðila beri að hegða sér að mati sóknaraðila.

Kveðst sóknaraðili heldur aldrei mótmæla að greiða fyrir vinnu vegna greiðslu úr tryggingu sinni hjá [...] og ekki heldur vegna úrskurðarnefndar í vátryggingamálum vegna [...] þótt að hann kveðist muna vel eftir þessum tíma eftir að [...] neitaði upphaflega og verið orðinn efins um að setja þetta á annað borð fyrir úrskurðarnefndina. Kveðst sóknaraðili hafa viljað hætta þá en lögmaðurinn hjá lögmannsstofu varnaraðila verið svo viss um að það væri verið að hlunnfara sér og að hann ætti rétt á þessu. Að sögn sóknaraðila sagðist lögmaðurinn hafa unnið svona mál áður og þetta væri ekki réttmætur úrskurður og því væri hann viss um að þetta mál myndi vinnast og af þeirri ástæðu hafi sóknaraðili látið tilleiðast og samþykkt að halda áfram til úrskurðarnefndarinnar. Hins vegar segist sóknaraðili aldrei hafa samþykkt að fara með málið fyrir dómstóla nema að fenginni gjafsókn og það sé það sem málið snérist um. Hafnar sóknaraðili því alfarið að hafa samþykkt slíkan málarekstur. Ítrekar sóknaraðili að hann hafi á þessum tímapunkti ekki haft hugmynd um það hvað gjafsókn væri og að fengnum skýringum varnaraðila hafi hann samþykkt að fengi hann gjafsókn væri það í lagi en ekki ef hann þyrfti að borga, enda hafi bæturnar sem hann fékk frá SÍ verið svo litlar að hann gat ekki leyft sé að eyða þeim í dómsmál sem gæti jafnvel tapast í þriðja sinn, enda hafði [...] og úrskurðarnefndin hafnað honum um bætur áður og hafði sóknaraðili litla trú á að málið gæti unnist. Þetta hafi sóknaraðili þó ekki fengið skriflegt frá varnaraðila, en kveðst hann hafa trúað því að sínir lögmenn færu eftir sínum vilja og óskum og datt ekki í hug að þeir myndu höfða dómsmál í sínu nafni án þess að hafa fyrir því gjafsókn. Telur sóknaraðili þetta vera hverju manni ljóst sem horfi á stöðu hans í heild sinni líkt og fyrr greinir, þ.e. málið verið tvíhafnað af [...] og úrskurðarnefnd og bæturnar frá SÍ verið verulega litlar og sóknaraðili öryrki með óverulegar eigur.

Hafnar sóknaraðili því að hafa móttekið reikning frá varnaraðila án allra athugasemda líkt og varnaraðili haldið fram, né að hafa hringt í varnaraðila og borið sig aumlega eftir að hafa móttekið reikninginn, enda aldrei móttekið hann áður. Bendir sóknaraðili á að hann hafi ekki geta gert athugasemdir við eitthvað sem hann vissi ekki um og var ekki búinn að fá sent. Byggir sóknaraðili á því að hyggist varnaraðili staðhæfa að hann hafi móttekið eitthvað sem hann hafi aldrei móttekið, hljóti varnaraðili að bera sönnunarbyrðina fyrir því, en engin gögn því til sönnunar liggi fyrir í málinu. Hafi hann vitað af téðum reikningi kveðst varnaraðili ekki hafa hikað við að beina erindi fyrir nefndina líkt og hann hafi gert í mars síðastliðinn.

Telur sóknaraðili það óeðlileg vinnubrögð hjá varnaraðila að sitja árum saman á vangoldnum reikningi án þess að reyna innheimtu eða semja um mánaðarlegar greiðslur við skuldarann eða með öðrum hætti leita leiða til að leysa málið, en senda síðan innheimtubréf þremur árum síðar með tilheyrandi kostnaði. Bendir sóknaraðili á að ef fallast ætti á málatilbúnað varnaraðila um að hringt hafi verið í sig þegar reikningurinn var útgefinn og hann borið sig aumlega eins og varnaraðili lýsti í greinargerð sinni til nefndarinnar, hví þá hefði ekki verið reynt að semja um greiðslu. Ítrekar sóknaraðili að hafa aldrei fengið reikninginn og aldrei verið hringt í hann fyrr en tíðnefnt innheimtubréf barst og sóknaraðili samdægurs haft samband við lögmannsstofu varnaraðila.

Kveður sóknaraðili sér hafa leikið grunur allt frá því að hann hringdi í varnaraðila sem hló að hans sögn að sér og sagði sig aldrei hafa greitt þeim krónu, að reikningurinn sem honum barst í kringum mars 2023 að fjárhæð tæplega hálfri milljón króna, hafi verið sá kostnaður sem sóknaraðila hafi raunverulega átt að greiða en varnaraðili séð sér þann leik á borði að halda mismuninum eftir af þeim 1.300.000 kr. sem hann hélt áður eftir.

Þá ítrekar sóknaraðili að hann hafi einungis setið einn fund með lögmönnum á lögmannsstofu varnaraðila og þar hafi enginn þriðji aðili verið viðstaddur líkt og varnaraðili bar við. Sóknaraðili kveðst hins vegar hafa farið á skrifstofu varnaraðila til að undirrita pappíra sem vantaði undirskrift á, en engan sérstakan fund setið til að ræða málin og aldrei verið neinn annar viðstaddur en sóknaraðili og varnaraðili, þótt hann hafi haldið því fram að til staðar hafi verið vitni til staðfestingar um að sóknaraðili hafi samþykkt að fara með málið fyrir dómstóla árum áður. Að sögn sóknaraðila fóru öll samskipti hans við varnaraðila og lögmannsstofuna fram í gegnum síma og þurfti sóknaraðili að eiga allt frumkvæði að öllum samskiptum og eltast við þá nema í það eina skipti þegar hringt hafi verið í hann þegar bæturnar frá SÍ bárust.

Þá mótmælir sóknaraðili lýsingum varnaraðila á fundi þeirra í mars síðastliðinn. Lýsir sóknaraðili því sem áður að hafa heimsótt skrifstofuna af gefnu tilefni og beðið þar ritara stofunnar að undirrita kvittunina um afturköllun umboðsins auk þess að fá frumrit gagna sinna. Ritarinn hafi við það tilefni bent sóknaraðila á að fara á skrifstofu varnaraðila sem sóknaraðili hafi þá gert. Kveðst sóknaraðili ekki hafa orðið var við að varnaraðili væri í símanum og að hefði sú verið raunin hefði sóknaraðili að sinni sögn beðið enda ekki orðin svo reið út í varnaraðila líkt og nú, eftir þann fund sem þar fór fram á milli aðila. Lýsir sóknaraðili framkomu varnaraðila sem hrokafullri og að sér hafi verið neitað um afhendingu frumrita gagna sinna. Þverneitar sóknaraðili því að hafa yfirgefið skrifstofuna vegna hótana varnaraðila um að hringja á lögreglu, enda kveðst sóknaraðili enga háttsemi hafa sýnt af sér sem gæti varðað við lögreglu. Hann hafi enga ógnandi hegðun sýnt af sér þrátt fyrir að hafa hótað því að gera allt sitt til að eyðileggja orðspor stofunnar. Kveðst sóknaraðili hafa farið út því hann varð mikið hræddur þegar varnaraðili, sem er mun stærri og meiri en sóknaraðili, stóð upp frá borði sínu í átt að honum, af ótta um að varnaraðili myndi ganga sér í skrokk. Að sögn sóknaraðila reyndi varnaraðili aldrei að ræða við sig án háðs, aldrei að hlusta á sig eða reyna miðla málum, heldur hló að honum, neitaði um móttöku bréfsins um afturköllum umboðsins og um að fá frumgögn afhent. Telur sóknaraðili að hver einasta manneskja hefði reiðst við framkomunni sem varnaraðili sýndi honum.

Sóknaraðili bendir á að miðað við fréttaviðtal við lögmann sé eðlileg þóknun vegna slysamála um 15% af bótum. Telur varnaraðili að miðað við það sem hann hafi heyrt og séð á þeim reikningum sem hann hafi undir höndum vegna fyrri mála sé eðlileg greiðsla miðað við málarekstur að bætur séu rúmlega hálf milljón króna af þeim bótum sem hann fékk og kveðst sóknaraðili vel muna sætta sig við það. Það sé líka sama upphæð og varnaraðili hafi krafist í reikningnum sem sóknaraðila barst í mars 2023, en sóknaraðili telur að varnaraðili hafi í framhaldinu áttað sig á því að búið væri að borga rúmlega 1.300.000 kr. og því séð sér þann leik á borði að bjóðast til að fella niður reikninginn heldur en að endurgreiða það sem sóknaraðili telur sig eiga inni hjá lögmannsstofu varnaraðila. Lögmannsstofan hafi haldið eftir þriðjungi af þeim bótum sem sóknaraðili fékk og með reikning sem þeir sendu honum í mars hefði upphæðin orðið 2/3 af þeim bótum sem hann fékk, sem hljóti að mati sóknaraðila að teljast mjög óeðlilegt. Auk þess kveður sóknaraðili það ekki í samræmi við góða lögmannshætti að vera ýta máli áfram og áfram til þess eins að lögmaðurinn geti rukkað inn hærri þóknun fyrir aukna vinnu, heldur skuli hlustað á það sem skjólstæðingurinn vilji og virða hans óskir.

Ítrekar sóknaraðili að endingu sannleiksgildi allrar sinnar frásagnar og óskar þess að nefndin fari með málið og að ekki verði fallist á málatilbúnað varnaraðila um fyrningu, enda eigi það ekki við þegar lögmannsstofa varnaraðila hafi legið á reikningnum og inneign sinni sem sóknaraðili telur sig eiga hjá varnaraðila.

V.

Varnaraðili telur viðbótarathugasemdir sóknaraðila verulega frábrugðnar upphaflegu erindi til nefndarinnar og raunar virðist sem svo að borin sé upp nýtt erindi fyrir nefndina.

Bendir varnaraðili á að í upphaflegri kvörtun virtist sóknaraðili leggja höfuðáherslu á að fá endurskoðað það endurgjald sem lögmannsstofa varnaraðila þáði fyrir umbeðna hagsmunagæslu sóknaraðila gegn SÍ. Jafnframt vilji sóknaraðili að lögmannsstofan endurgreiði honum alla þá þóknun sem hann greiddi þeim án athugasemda við uppgjör bóta úr SÍ.

Kveðst varnaraðili ekki geta lagt annan skilning í upphaflega kvörtun en að hún hafi beinst að því að höfðað hafi verið mál fyrir hönd sóknaraðila gegn [...] án samþykkis sóknaraðila. Mótmælir varnaraðili engu að síður þeim málatilbúnaði aftur og bendir á að gögn málsins staðfesti að sínu mati að málssóknin hafi verið með vitund og vilja sóknaraðila. Vísar varnaraðili í þeim efnum aftur til umboða málsins, að sóknaraðili hafi engar athugasemdir gert við stefnuna eftir að fá hana senda þar sem tilkynnt var um að fyrirhugað var að þingfesta málinu hennar gegn [...] þann 7. febrúar 2019. Þá bendir varnaraðili á að skriflegt umboð sóknaraðila frá 18. nóvember 2016, áður en bótauppgjör fór fram á grundvelli bótagreiðslna frá SÍ, þar sem sóknaraðili veitti lögmannsstofu varnaraðila heimild til að höfða mál á hendur [...] án nokkurra fyrirvara. Sönnunarbyrði fyrir hinu gagnastæða hvíli á sóknaraðila.

Þá tekur varnaraðili fram að sóknaraðili hafi ítrekað haft samband símleiðis við annan lögmann stofunnar varðandi rekstur málsins gegn [...] og gegn SÍ og vísar varnaraðili til viðbótarathugasemda sóknaraðila þar sem fram kom að hann hafi haft samband símleiðis við lögmannsstofuna meðan á hagsmunagæslunni stóð vegna málsins til sönnunar um þetta. Þá bendir varnaraðili jafnframt á tölvupóst annars lögmanns stofunnar til sóknaraðila þann 2. apríl 2020 þar sem niðurstaða dómsmálsins og sóknaraðili beðinn um að kynna sér niðurstöðu dómsins og hafa samband við lögmenn sína í kjölfarið. Þann tölvupóst staðfesti sóknaraðili móttöku á  en gerði engar athugasemdir við niðurstöðuna né óskaði áfrýjunar. Kveður varnaraðili það ekki hafa verið fyrr en að reikningurinn frá 16. apríl 2020 var ítrekaður þann 2. mars 2023 sem sóknaraðili bar því við að hafa ekki veitt samþykki sitt fyrir málsókninni á hendur [...]. Ítrekar varnaraðili tómlæti sóknaraðila í þeim efnum.

Ítrekar varnaraðili fyrri lýsingar um framkomulag uppgjörs og athugasemdaleysi sóknaraðila við það tilefni og önnur. Veltir varnaraðili upp þeirri spurningu hvers vegna sóknaraðili hafði ekki samband við höfðun málsins eða þegar hann móttök niðurstöðu þess eða gerði athugasemdir við vinnu lögmanna sinna.

Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi ákveðið að halda ekki til streitu kröfum sínum um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði og lögmannskostnaði gagnvart SÍ. Þrátt fyrir það víki sóknaraðili í athugasemdum til nefndarinnar til þess að hafa haft samband við lögmenn sína er afstaða [...] lá fyrir og síðan úrskurður úrskurðarnefndar í vátryggingamálum um hvort stefna ætti [...]. Með þeim málatilbúnaði telur varnaraðili að sóknaraðili taki undir málatilbúnað sinn, að sóknaraðili hafi verið hafður með í ráðum, hvað varðar framgang málsins, ólíkt því sem haldið hafi verið fram í upphaflegu erindi til nefndarinnar. Sé þetta eitt af fjöldamörgum rangfærslum sóknaraðila í málinu.

Varnaraðili segir reikninginn hafa verið sendan sóknaraðila í almennum pósti líkt og venja sé fyrir á lögmannsstofunni og af þeim sökum sé ekki hægt að fá skriflega staðfestingu á að reikningurinn hafi verið sendur sóknaraðila. Hins vegar bendir varnaraðili á að lögmannsstofan sannanlega gaf út reikninginn og greiddi af honum virðisaukaskatt. Það sé því afar ósennilegt að sóknaraðila hafi ekki verið sendur reikningurinn líkt og hann haldi fram. Mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sérstaklega.

Þá áréttar varnaraðili að niðurstaða í máli sóknaraðila gegn [...] hafi komið lögmönnum stofunnar nokkuð á óvart, enda ekki verið í samræmi við gildandi túlkun á vátryggingaskilmálum, afstöðu annarra tryggingafélaga og síðari dóma sbr. í dæmaskyni dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. […].

Kveðst varnaraðili hafa verið boðinn og búinn til að útskýra forsendur uppgjörsins og hvernig greiðslum var háttað. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki fyrr en við meðferð máls þessa fyrir nefndinni, borið því við að hann væri hlunnfarinn við uppgjör bóta frá SÍ. Því mótmælir varnaraðili harðlega að hagsmunum sóknaraðila hafi ekki verið gætt eftir fremsta megni eða að hún hafi verið óþörf gagnvart SÍ. Vekur varnaraðili í því samhengi á að SÍ virðist leggja til grundvallar í ákvörðun sinni frá 12. október 2017, niðurstöðu matsgerðar þeirrar sem varnaraðilar öfluðu fyrir sóknaraðila.

Þá kveður varnaraðili fjöldamörg dæmi sýna að öflun vottorða og matsgerða sjálfstætt vegna krafna um bætur frá SÍ sýna að slíkt leiði nær undantekningarlaust til þess að miski og varanleg örorka vegna sjúkratryggingaratburðar séu metin hærri en ella. Því sé fullyrðing sóknaraðila um að hagsmunagæsla lögmanna hans hafi verið óþarfar úr lausu lofti gripnar og téðar ráðleggingar ónafngreinds lögmanns þess efnis rangar. Þá bendir varnaraðili á að lögmannsstofan hafi lagt út fyrir öllum kostnaði vegna umræddra mála.

Þá ítrekar varnaraðili að því sé hafnað sem röngu og ósönnuðu að sóknaraðili hafi gert það að skilyrði fyrir málssókninni á hendur [...] að gjafsókn fengist fyrir dómstólum.

Varðandi ársfrestinn til að bera erindið undir nefndina vísar varnaraðili til þess að þó töluverð vinna hafi verið innt af hendi af hans hálfu eftir þann tíma sem atvik þau sem kvartað er undan áttu sér stað og tímaskýrslur málsins varði, svo sem vinna hans gagnvart sýslumanni um frágang skiptanna, þá hafi hann ekki gert neina reikninga sérstaklega vegna þeirrar vinnu heldur gefið kostnaðinn eftir gagnvart búinu.

Þá víkur varnaraðili í andsvörum sínum að gögnum sem sóknaraðili lagði fram með viðbótarathugasemdum sem mörg hver eru sömu gögn og hann sjálfur hafði týnt saman og lagt fyrir nefndina með tilsvarandi vinnu og fyrirhöfn. Auk þess séu þar gögn svo sem tölvupóstsamskipti sóknaraðila og annarra erfingja við lögmann þeirra sem séu varnaraðila áður ókunn og honum óviðkomandi. Þá bendir varnaraðili á það sem hann telur misræmi í málsatvikalýsingu sóknaraðila og þeim gögnum sem hann leggur fyrir nefndina svo sem í tengslum við fráfall erfingja um kröfur gagnvart skiptingu innbúsins o.fl.

Ítrekar varnaraðili að öll samskipti hans vegna málsins hafi verið fagleg og jafnræðis gætt meðal erfingja. 

Niðurstaða

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins eins og það hefur verið lagt fyrir nefndina. Tekið skal fram í upphafi að sóknaraðili hefur í erindi til nefndarinnar meðal annars gert tilteknar kröfur, svo sem að varnaraðila verði gert að undirrita yfirlýsingu sóknaraðila um afturköllun umboðs o.fl., sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar að kveða á um. Kemur það því í úrskurði þessum einungis til úrlausnar að því marki sem unnt er að líta á kröfuna og sjónarmið að baki henni sem kvörtun yfir starfsháttum varnaraðila.

Fyrir liggur að erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist annars vegar á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en í því er lýst ósk um að nefndin endurskoði rétt varnaraðila til endurgjalds fyrir störf hans við innheimtu slysabóta fyrir sóknaraðila eða fjárhæð þess. Hins vegar er það reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn enda telur sóknaraðili varnaraðila hafa gert á hlut sinn við málarekstur slysamálsins og er hann sóttist eftir að afturkalla umboð sitt til varnaraðila og fá gögn málsins afhent, með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Í 1. mgr. 27. gr. sömu laga er kveðið á um að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Eins og framar greinir er á meðal umkvörtunarefna sóknaraðila að ræða atvik síðan 2017 og endurgjald sem þá var greitt. Þannig liggur fyrir að sóknaraðili fékk greiddar bætur frá SÍ þann 12. október 2017 sem lögmannsstofa varnaraðila móttók fyrir hennar hönd. Eins og gögn málsins sýna var bótafjárhæðin í kjölfarið greidd til sóknaraðila, en áður var dregin af fjárhæðinni útlagður kostnaður vegna öflunar matsgerðar og lögmannsþóknun að fjárhæð 1.085.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Að mati nefndarinnar er ekki unnt að miða við annað en að sóknaraðili hafi átt þess kost þegar við móttöku bótanna þann 13. október 2017 að koma á framfæri við nefndina erindi vegna endurgjalds við innheimtu slysabótanna. Ekki hefur verið bent á annað tímamark sem réttara væri að miða við í málinu, en ekki verður á það fallist með sóknaraðila að hann hafi fyrst átt þess kost þegar honum barst áðurnefnt innheimtubréf dags. 2. febrúar 2023 í mars síðastliðinn. Hafði sóknaraðili á þeim tíma látið óátalið í yfir sex ár sú þóknun og útlagður kostnaður sem greiddur hafði verið af bótafjárhæðinni án þess að sóknaraðili hafi gert við það athugasemd svo sannanlegt sé.

Þá er óumdeilt í málinu að aðilar áttu í samskiptum í kjölfar uppgjörsins við SÍ, í tengslum við höfnun [...] á kröfu um bætur úr frítímaslysatryggingu sóknaraðila hjá félaginu vegna hálkuslyssins 2. mars 2016. Jafnframt varðandi kæru til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum í kjölfar höfnunar [...] á bótaskyldu úr frítímaslysatryggingunni. Þá liggur fyrir að varnaraðili móttók þann 6. apríl 2020 afrit af dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 í málinu sem höfðað var af hálfu lögmannsstofunnar fyrir hönd sóknaraðila gegn [...] vegna frítímaslysatryggingarinnar. Telur nefndin að eins og atvikum var háttað verði að leggja til grundvallar að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst að málið hafi verið höfðað í hans nafni í síðasta lagi við móttöku afrits dómsins og þannig hafi sóknaraðili átt þess kost að koma erindi á framfæri við nefndina eigi síðar en 6. apríl 2020 teldi hann ástæðu til.

Líkt og framar greinir er það mat nefndarinnar að ekki sé unnt að miða við annað en að sóknaraðili hafi átt þess kost að leggja erindi fyrir nefndina vegna ofangreindra ágreiningsefna meira en ári áður en það var gert. Voru því lögbundnir tímafrestir til að leggja málið fyrir nefndina að þessu leyti liðnir þegar kvörtun sóknaraðila í máli þessu var móttekin þann 25. janúar 2023. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að vísa tilgreindu ágreiningsefni frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 1. tölul. 3. gr. og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Eftir stendur þá annars vegar kvörtun sóknaraðila varðandi reikning nr. 1130 dags. 16. apríl 2020 sem ítrekaður var með innheimtubréfi dags. 2. febrúar 2023. Varnaraðili hefur lýst því yfir fyrir nefndinni að hann hafi fellt þann reikning niður og er því ekki lengur til staðar ágreiningur um rétt varnaraðila til endurgjalds eða fjárhæð þess vegna vinnu sem fram fór eftir 13. október 2017.

Hins vegar stendur síðan eftir kvörtun sóknaraðila vegna háttsemi og framkomu varnaraðila í sinn garð er hann leitaði á skrifstofu varnaraðila þann 6. mars 2023 og krafðist afhendingar frumgagna sinna og að varnaraðili undirritaði yfirlýsingu til staðfestingar á afturköllun umboðs síns vegna málanna. Eins og áður greinir er mikill munur á frásögnum aðila um það hvað fór nákvæmlega fram á þeim fundi og gögn málsins varpa ekki nánari ljósi á það. Leitaði nefndin eftir skýringum frá varnaraðila vegna kröfu sóknaraðila um afhendingu frumrita gagna sinna og meintrar neitunar varnaraðila á að undirrita yfirlýsingu sóknaraðila um afturköllun umboðs lögmannsstofunnar. Lýsti varnaraðili því, líkt og framar greinir, að frumrit gagna hafi verið lögð fram í dómsmáli sóknaraðila. Jafnframt þá hafi gögn sóknaraðila verið tekin saman að hans ósk í mars síðastliðnum og að því marki sem þau hafi ekki þegar verið sótt muni gögnin standa sóknaraðila til reiðu áfram á lögmannsstofunni. Varðandi yfirlýsinguna um afturköllun umboðs til varnaraðila og lögmannsstofunnar, hefur varnaraðili lýst því að hafa beðið sóknaraðila að koma aftur síðar ef hann ætti að undirrita yfirlýsinguna eða að fá þann lögmann sem annaðist öll samskipti vegna máls sóknaraðila og sat á næstu skrifstofu til að undirrita hana fyrir sína hönd, en það hafi sóknaraðili ekki gert. Eru því uppi í málinu sönnunaratriði varðandi atburðarrás á téðum fundi sem eins og atvikum er háttað er ekki unnt að leysa úr undir rekstri málsins fyrir nefndinni og telur nefndin því óhjákvæmilegt að vísa jafnframt frá þeim hluta erindis sóknaraðila sbr. 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson