Mál 2 2023

Ár 2023, fimmtudaginn 31. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna. 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2023: 

A lögmaður 

gegn 

B lögmanni 

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. janúar 2023 kvörtun sóknaraðila, [A] lögmanns […], gegn varnaraðila, [B] lögmanni [...], vegna starfshátta hans og framkomu gagnvart sóknaraðila í tengslum við birtingu stefnu. 

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna málsins með bréfi dags. 30. janúar 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum vegna málsins barst til nefndarinnar þann 24. febrúar 2023 og var hún send sóknaraðila til athugasemda. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni þann 20. mars 2023. Viðbótarathugasemdir varnaraðila bárust síðan 11. apríl 2023. Þann 25. maí 2023 sendi varnaraðili síðan viðbótarskjal, afrit af dómi endurupptökudóms í máli umbjóðenda aðila sem sóknaraðila var sent afrit af. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Af gögnum málsins má ráða að þann 31. ágúst 2021 hafi [...], starfsmaður [...], afhent vinnuveitandanum uppsagnarbréf. Í kjölfar uppsagnarinnar kom upp ágreiningur um starfslokin og um vinnuframlag starfsmannsins eftir uppsögnina. Þann 8. september 2021 lokaði félagið fyrir tölvupóst starfsmannsins. Sendi hann þá skilaboð á fyrirsvarsmann félagsins og kvaðst líta svo á að hans starfskrafta væri ekki lengur óskað. Þann 9. september 2021 barst starfsmanninum síðan bréf frá sóknaraðila fyrir hönd félagsins þar sem starfsmanninum var gefið að sök að hafa hlaupið á brott úr starfinu. Því hafnaði starfsmaðurinn með svari samdægurs.  

Leitaði starfsmaðurinn þá til varnaraðila og fól honum að innheimta laun á uppsagnarfresti ásamt orlofi og öðrum hlunnindum sem hann taldi sig eiga rétt til úr hendi vinnuveitandans. Með kröfubréfi dags. 18. nóvember 2021 skoraði varnaraðili á félagið að gera upp téðar launakröfur starfsmannsins.  

Kröfunni var fylgt eftir með ítrekun dags. 1. febrúar 2022 þar sem fram kom að yrði krafan ekki greidd innan fjórtán daga frá dagsetningu bréfsins yrði innheimtunni fylgt eftir með hefðbundnum hætti og með aðstoð dómstóla ef þörf krefði.  

Með bréfi dags. 5. maí 2022 sendi sóknaraðili fyrir hönd umbjóðanda síns, vinnuveitandans, bréf á varnaraðila vegna málsins þar sem öllum kröfum starfsmannsins var hafnað og áskilinn réttur af hálfu vinnuveitandans til að hafa uppi tilteknar kröfur gegn starfsmanninum.  Bréfið sendi sóknaraðili á varnaraðila með tölvupósti samdægurs. Í tölvupóstinum sem fylgdi bréfinu sagði m.a.: „Heyri í þér með framhaldið, ef það verður eitthvað framhald.“. Varnaraðili sendi síðan annað kröfubréf f.h. umbjóðanda síns, dags. 19. maí 2022 þar sem málatilbúnaði vinnuveitandans var hafnað, kröfur starfsmannsins ítrekaðar og jafnframt ítrekuð hótun um að ellegar yrðu þær innheimtar með hefðbundnum hætti og með aðstoð dómstóla ef þörf krefði.  

Í kjölfarið stefndi varnaraðili vinnuveitandanum. Stefnuvottur birti stefnuna á skráðu lögheimili vinnuveitandans fyrir starfsmanni félagsins þann 24. júní 2022 samkvæmt birtingavottorði. Enginn mætti af hálfu vinnuveitandans fyrir dómi og var málið því dómtekið sem útivistarmál og stefna árituð þann 7. júlí 2022 þar sem fallist var á kröfur umbjóðanda varnaraðila og honum dæmdur málskostnaður.  

Fylgdi varnaraðili kröfunum samkvæmt hinni árituðu stefnu eftir með aðfararbeiðni dags. 5. október 2022 til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Barst umbjóðanda sóknaraðila í kjölfarið boðun vegna fjárnámsins dags. 20. október 2022. Af gögnum málsins virðist sem það bréf hafi borist til sjónar fyrirsvarsmanna umbjóðanda sóknaraðila þann 14. nóvember 2022, sem sendu það samdægurs með tölvupósti á sóknaraðila og báðu hann um að kanna hvaða krafa stæði að baki boðuninni. Samdægurs sendi sóknaraðili tölvupóst á varnaraðila og spurði hvaða áritaða stefna stæði á bakvið kröfuna og fyrir hverjum hún hafi verið birt. Varnaraðili svaraði fyrirspurninni einnig samdægurs með því að sendi umbeðnar upplýsingar.  

Lýsti sóknaraðili því þá yfir að óskað yrði eftir endurupptöku á málinu og bað varnaraðila um að fallast á það til einföldunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Tók sóknaraðili fram í tölvupóstinum að hann hefði óskað sérstaklega eftir því að varnaraðili hefði samband við sig ef málið héldi áfram og að hann hefði veitt stefnu í málinu móttöku. Taldi sóknaraðili þetta hafa falist í fyrri tölvupósti hans frá 5. maí 2022. Varnaraðili svaraði samdægurs og kvaðst óviss um að umbjóðandi hans samþykkti endurupptöku á málinu, en hann myndi bera það undir umbjóðandann ef á reyndi. Sóknaraðili staðfesti samdægurs að svo yrði gert og lýsti yfir vonbrigðum með framgöngu varnaraðila í málinu. Ítrekaði sóknaraðili ósk um afstöðu til endurupptökubeiðninnar tvívegis dagana 16. og 18. nóvember 2022, en síðastnefndan dag svaraði varnaraðili og upplýsti um að umbjóðandi hans myndi leggjast gegn því að endurupptaka yrði leyfð. Þá tók varnaraðili fram að hann hafi ekki lofað að vera í frekara sambandi við sóknaraðila um hvort hann héldi málinu áfram, enda væri ekki að sjá að það væri grundvöllur fyrir sáttaviðræðum. Jafnframt tók varnaraðili fram að hann birti almennt stefnur með milligöngu stefnuvotta. 

Sóknaraðili sendi beiðni um endurupptöku málsins til endurupptökudóms sem kvað upp úrskurð í málinu nr. […] þann 10. maí 2023 þess efnis að beiðni vinnuveitandans um endurupptöku dags. 11. janúar 2023 væri hafnað auk þess sem vinnuveitandanum bæri að greiða starfsmanninum málskostnað vegna reksturs málsins fyrir endurupptökudómi.  

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði veitt áminning samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn vegna óviðunandi framkomu hans í starfi, sem varnaraðili telur hafa leitt til tjóns fyrir umbjóðanda sinn, sem komast hefði mátt hjá ef málið hefði verið meðhöndlað í samræmi við eðlilega hætti milli lögmanna.  

Sóknaraðili lýsir málsatvikum í kvörtun til nefndarinnar. Vísar hann til ofangreinds tölvupósts hans til varnaraðila þann 5. maí 2022 þar sem hann kveðst hafa beðið varnaraðila um að vera upplýstur um næstu skref málsins, ef einhver yrðu. Telur sóknaraðili í því hafa m.a. falist að fá stefnu til áritunar ef til þess kæmi. Kveðst sóknaraðila hafa orðið verulega brugðið þegar honum varð ljóst að stefna hafði verið birt fyrir fyrirsvarsmanni umbjóðanda síns á stjórnarstöð hans vegna launakröfu umbjóðanda varnaraðila. Enda hafi varnaraðili ekki látið hann vita að slíkt stæði til þrátt fyrir beiðni sóknaraðila.  

Lýsir sóknaraðili því að stefna hafi verið birt fyrir starfsmanni umbjóðanda hans sem hafi ekki gert sér grein fyrir því að um brýnt erindi væri að ræða, enda hafi birtingamaðurinn ekki gert starfsmanninum grein fyrir því hvers eðlis umrætt skjal væri, þvert á fyrirmæli 2. mgr. 86. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því hafi stefnan aldrei ratað í hendur fyrirsvarsmanna umbjóðanda sóknaraðila, sem hafi því ekki getað mætt og tekið til varnar fyrir dómi.  

Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi af ásettu ráði beðið í þrjá mánuði með að hefja innheimtu með fjárnámsbeiðni á grundvelli áritaðrar stefnu málsins til að torvelda endurupptöku í málinu. Vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 hafi stefndi þrjá mánuði frá því að máli lauk í héraði, til að beina beiðni til dómara um endurupptöku þess. Kveðst sóknaraðila honum og forsvarsmönnum umbjóðanda hans hafa verið ókunnugt um málið á þeim tímapunkti. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi vitað að umbjóðandi sóknaraðila ætti efnisvarnir í málinu gegn kröfum umbjóðanda varnaraðila og að með þessum hætti hafi varnaraðili komið í veg fyrir að umbjóðandi sóknaraðila gæti gripið til varna í málinu með sanngjörnum hætti. Það hefði varnaraðili getað komið í veg fyrir með einföldum hætti að mati sóknaraðila, hefði hann gætt að því að halda sóknaraðila upplýstum um stöðu mála og fengið áritun hans á stefnu í málinu. Slíkt telur sóknaraðili að hefði verið hið eðlilega í stöðunni og eitthvað sem lögmenn eigi að geta treyst af lögmönnum gagnaðila umbjóðenda sinna.  

Að sögn sóknaraðila fengu umbjóðendur hans fyrst upplýsingar um áritun stefnunnar þann 14. nóvember 2022 þegar þeim varð kunnugt um bréf Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu dags. 20. október 2022 með tilkynningu um fyrirhugaða fyrirtöku á fjárnámsbeiðni vegna kröfu umbjóðanda varnaraðila. Þar sem þriggja mánaða frestur til endurupptöku hafi verið liðinn brást sóknaraðili við með því að krefjast endurupptöku samkvæmt 2. mgr. 137. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Kveður sóknaraðili erfiðlega hafa gengið að fá svör frá varnaraðila við einföldum fyrirspurnum. Ekki hafi verið fallist á frestun fjárnámsbeiðninnar og varnaraðili hafnað endurupptöku fyrir hönd umbjóðanda síns.  

Byggir sóknaraðili á því að umbjóðandi hans hafi beðið mikið tjón af háttsemi varnaraðila, enda hafi hann verið sviptur rétti sínum til að halda uppi vörnum í málinu á fyrri stigum, þrátt fyrir að hafa leitað til sóknaraðila til að gæta réttar síns í málinu. Vegna þessa hafi umbjóðandi sóknaraðila þurft að leggja út fyrir auknum kostnaði sem hafi fylgt því að bregðast við þeirri atburðarás sem að ofar greinir. Byggir sóknaraðili á því að ganga verði út frá því að jafn reynslumikill lögmaður og varnaraðili er hafi vitað hvernig hann stóð að málum og hvaða afleiðingar það kynni að hafa í för með sér fyrir gagnaðila málsins. Byggir sóknaraðili á því að umbjóðandi hans hefði mátt treysta því að með því að fela lögmanni að gæta sinna hagsmuna með því að svara kröfubréfum að málið væri í eðlilegum farvegi á milli lögmanna aðila málsins. Þá hefði sóknaraðili mátt treysta á eðlilega starfshætti varnaraðila og að frekari samskipti um málið færu fram á milli lögmannanna, eins og um hafi verið beðið skriflega og sem venja sé um í samskiptum lögmanna.  

Byggir sóknaraðili á því að starfshættir varnaraðila frá því hann ákvað að stefna málinu fyrir dóm, samrýmist ekki því sem ætlast sé til af góðum og gegnum lögmanni og séu ekki í samræmi þá meginreglu að lögmönnum beri að efla rétti og hrinda órétti samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi hætt að eiga samskipti beint við hann, þrátt fyrir áðurgreinda beiðni hans þess efnis og fyrri samskipti málsins sem höfðu öll farið fram þeirra á milli. Með því hafi hann reynt að koma í veg fyrir vitneskju umbjóðenda sóknaraðila um þann farveg sem málið hafði verið lagt í og stuðlað að því að málið yrði dómtekið án þess að umbjóðandi sóknaraðila gæti tekið til varnar. 

Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi með þeirri háttsemi að beina stefnu vísvitandi  að umbjóðanda sóknaraðila með framangreindum hætti án þess að gera sóknaraðila viðvart um það, gerst brotlegur gegn 26. gr. siðareglna lögmanna og öðrum góðum lögmannsháttum. Sem afleiðing þeirrar háttsemi liggi nú fyrir niðurstaða sem hefði mögulega verið á annan veg hefði umbjóðandi sóknaraðila fengið sanngjarnt tækifæri til að leggja fram gögn og koma fram sjónarmiðum sínum í málinu sem hefðu haft verulegt vægi við mat á málsatvikum og málsgrundvelli.   

Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi einnig gerst brotlegur gegn 25. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna enda hefði það verið samrýmanlegt hagsmunum allra sem komu að málinu að það væri til lykta leitt með aðkomu allra sem áttu hagsmuna að gæta. Auk þess telur sóknaraðili að varnaraðili hafi gerst brotlegur gegn 41. gr. siðareglna lögmanna þar sem hann hafi sinnt erindum ýmist seint og illa eða alls ekki. Vísar sóknaraðili til þess að hafa oft þurft að ítreka einföldustu beiðnir án þess að svör bærust.  

Telur sóknaraðili að hallað hafi með ósanngjörnum hætti á umbjóðendur hans og þeir þurft að grípa til kostnaðarsamra ráðstafana sem auðveldlega hefði mátt komast hjá ef varnaraðili hefði viðhaft góða samvinnu við sóknaraðila í samræmi við 25. gr. og 1. gr. siðareglna lögmanna.  

III. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara krefst hann þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati nefndarinnar úr hendi sóknaraðila skv. 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga.  

Varnaraðili vísar til þess að téð innheimtumál sé líkt fjölda annarra sem hann hafi rekið vegna vangoldinna launa. Lýsir hann hefðbundnu verklagi í slíkum málum þannig að fyrst sendi hann innheimtubréf sem ýmist sé svarað eða ekki, því næst sé málum stefnt ef gagnaðili hafnar öllum kröfum eða svarar ekki bréfum né gerir tilraun til sátta.  

Vísar varnaraðili til þess að í þessu tilfelli hafi hann gert kröfu þá sem fyrr er lýst og henni verið hafnað með bréfi sóknaraðila dags. 5. maí 2022. Í því bréfi hafi jafnframt verið tiltekið að héldi málið áfram yrði gerð bótakrafa á hendur umbjóðanda varnaraðila. Því bréfi hafi varnaraðili svarað þann 19. maí 2022 og tekið fram að kröfur umbjóðanda hans væru ítrekaðar og yrðu innheimtar með aðstoð dómstóla ef þörf krefði. Því bréfi hafi ekki verið svarað og því hafi hann ekki haft frekara samband við varnaraðila, enda að mati varnaraðila engin forsenda fyrir samtali eða frekari samskiptum. 

Kveðst varnaraðili að staðaldri notfæra sér þjónustu stefnuvotta og slíkt hafi verið gert í þessu tilfelli. Stefnuvottur hafi birt stefnuna á stjórnarstöð umbjóðanda varnaraðila og sú birting verið í samræmi við lög. Í kjölfarið hafi enginn mætt við þingfestingu málsins af hálfu umbjóðanda sóknaraðila og málið því dómtekið. Kveðst varnaraðili hafa fengið áritaða stefnu senda frá Héraðsdómi Reykjaness í seinnipart júlí 2022. Aðfararbeiðni hafi hann síðan sent út í byrjun október. Kveðst varnaraðili enga reglu hafa á því hvenær aðfararbeiðnir séu sendar út en það fari eftir verkefnastöðu á hverjum tíma. Umrædd stefna hafi borist síðla sumars og hann ýmist verið í fríi eða að leysa úr öðrum verkefnum fram til loka september, enda hafi þetta mál ekki verið í sérstökum forgangi. Vísar varnaraðili til þess að fulltrúi hans hafi haft umsjón með umræddu máli frá upphafi, ritað undir öll bréf og aðfararbeiðnir, en varnaraðili beri þó sjálfur alla ábyrgð á málinu. 

Vísar varnaraðili til þess að óskað hafi verið eftir samþykki umbjóðanda hans fyrir endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi. Kveðst varnaraðili því hafa haft samband við umbjóðanda sinn sem hafi hafnað því með þeim orðum að það hefðu vinnuveitendur hans, þá umbjóðendur sóknaraðila, aldrei gert fyrir hann. Kveðst varnaraðili þá hafa átt engra annarra kosta völ en að hafna endurupptöku.  

Bendir varnaraðili á að við fyrirtöku aðfararbeiðninnar í nóvember 2022 hafi bæði hann og fulltrúi hans verið í útlöndum og því verið mætt fyrir þeirra hönd til sýslumanns. Kveður varnaraðili fulltrúa sinn hafa bent sóknaraðila á að besta leiðin til að fá frest væri að benda á eignir en þá yrði málinu frestað sjálfkrafa. Þar sem ekki var bent á neinar eignir við fjárnámið var það árangurslaust. Krafan hafi síðar verið gerð upp og greidd að fullu.  

Frávísunarkröfu sinni til stuðnings vísar varnaraðili til þess að kvörtun málsins stafi frá sóknaraðila sem sé lögmaður. Telur varnaraðili að ekki sé að sjá með hvaða hætti unnt sé að líta svo á að hann hafi gert á hlut sóknaraðila. Einu samskiptin þeirra á milli hafi verið þegar varnaraðili sendi bréf á fyrirtæki og sóknaraðili svarað fyrir hönd þess þar sem öllum kröfum var hafnað og gagnkröfum hótað. Andsvörum hafi sóknaraðili síðan ekki svarað. Engin frekari samskipti hafi farið fram þeirra á milli önnur en þegar endurupptöku málsins var hafnað.  

Hafnar varnaraðili því að hafa gert nokkuð á hlut sóknaraðila og því beri að vísa kvörtuninni frá nefndinni eða hafna henni á sömu forsendum. Byggir varnaraðili á því að hvergi komi fram hvað það sé sem hann hafi gert á hlut sóknaraðila, en því sé haldið fram að skjólstæðingur sóknaraðila hafi beðið mikið tjón. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi í kvörtun málsins samsamað sig við skjólstæðing sinn í andstöðu við lögmannshætti sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.  Byggir varnaraðili á því að aðeins sá sem telur að lögmaður hafi gert á sinn hlut geti kvartað undan störfum lögmannsins. Því séu röksemdir sóknaraðila um að umbjóðandi hans hafi orðið fyrir tjóni vegna framkomu varnaraðila  ótæk rök í málinu.  

Byggir varnaraðili á því að hvergi fyrirfinnist sú skylda í siðareglum lögmanna að bjóða þeim lögmanni sem svarar innheimtubréfi að skrifa upp á stefnu. Kveðst varnaraðili heldur ekki gera það né sé það almenn venja. Með vísan til þess sem atvikast hafði í málinu á fyrri stigum var ekkert annað að gera en að stefna málinu. Þá kveðst varnaraðili ekki hafa vitað hvort sóknaraðili væri enn að vinna fyrir téðan skjólstæðing enda hefði hann hætt að svara bréfum.  

Frábiður varnaraðili sér málatilbúnað sóknaraðila þess efnis að varnaraðili hafi vísvitandi beðið með að innheimta kröfuna til að gera endurupptöku í málinu torveldari. Að mati varnaraðila sé slíkur málatilbúnaður óboðlegur og ekki lögmanni sæmandi. Með málatilbúnaðinum sé varnaraðila gerður upp ásetningur sem styðjist ekki við nokkur rök umfram hugarburð sóknaraðila sem sé settur fram til að sverta mannorð varnaraðila. Telur varnaraðili að með þessum ásökunum, sem hann kveður tilhæfulausar, hafi sóknaraðili brotið gegn siðareglum lögmanna og eðlilegri háttsemi og að í því felistbrot á 25. og 27. gr. siðareglna lögmanna. Leggur varnaraðili það í hendur nefndarinnar að meta hvort ástæða sé til að áminna sóknaraðila.  

Þá hafnar varnaraðili því að hafa svarað erindum seint og illa. Bendir varnaraðili á að hann hafi þurft að bíða eftir svörum frá umbjóðanda sínum um hvort hann myndi heimila endurupptöku í málinu. Það hafi hann þurft að gera, enda átti hann ekki kröfuna heldur umbjóðandi hans. Kveðst varnaraðili hafa náð svari af umbjóðanda sínum fjórum dögum síðar. Það telur varnaraðili hvorki vera óeðlilega langan tíma né við hann að sakast, enda einfaldlega verið sá tími sem tók að fá svör frá umbjóðanda hans. Þá hafi þeir dagar engu skipt í samhengi nokkurs tímafrests.  

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar áréttar hann málsatvik og málsástæður samkvæmt fyrirliggjandi greinargerð og gögnum málsins. Hafnar sóknaraðili því að hafa lagt fram kvörtun til að sverta mannorð varnaraðila, heldur hafi það verið gert vegna þess að varnaraðili hafi að mati sóknaraðila, sýnt af sér skort á faglegum vinnubrögðum. 

Áréttar sóknaraðili að kjarni málsins sé sá hvort varnaraðila hafi sem lögmanni borið skylda samkvæmt 26. gr. siðareglna lögmanna til að birta stefnu fyrir sóknaraðila fyrir hönd umbjóðanda hans þegar um það hafði verið beðið, eða hvort það sé þrátt fyrir orðalag ákvæðisins, ekkert athugavert við að birta gagnaðila stefnu í slíku tilviki með stefnuvotti án vitneskju viðkomandi lögmanns og án þess að skilyrði um „brýna nauðsyn“ sé uppfyllt.  

Vísar sóknaraðili til þess að kvörtunin hafi veriðsett fram á grundvelli þess að siðareglur væru brotnar í samskiptum þeirra í millum, enda geti ákvæðið sem byggt er á ekki náð til umbjóðenda lögmanna, heldur þeirra sjálfra. Ákvæðið sem um ræðir sé í IV. kafla siðareglna lögmann sem lúti að samskiptum lögmanna innbyrðis. Ákvæðin geti ekki náð til annarra en lögmanna og því séu engar forsendur fyrir frávísun málsins.  

Þá mótmælir sóknaraðili sérstaklega kröfu varnaraðila um málskostnað sem hann telur ekki eiga rétt á sér í ljósi efnis og atvika málsins.  

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila hafnar hann skýringum sóknaraðila á 26. gr. siðareglna lögmanna. Byggir varnaraðili á að 26. gr. siðareglna lögmanna snúi að því að lögmaður megi ekki hafa samskipti við gagnaðila beint heldur beri að beina samskiptum í gegnum lögmann eða láta hann í það minnsta vita af því. Í þessu tilviki kveðst varnaraðili engin samskipti hafa átt við gagnaðila en hann hafi hins vegar sent honum stefnu með stefnuvotti eftir að síðasta innheimtubréfi og andsvörum frá 19. maí 2022 var ekki svarað. Hafnar varnaraðili því að í 26. gr. siðareglna lögmanna felist að lögmaður sem svari innheimtubréfi eigi skýlausa kröfu um að vera birt stefna og að lögmæt birting gagnvart hinum stefnda sjálfum teljist brot á siðareglum. Þá byggir varnaraðili á að það felist heldur ekki í téðu ákvæði siðareglna lögmanna að lögmanni sem hefur fengið svarbréf frá öðrum lögmanni, sé skylt að upplýsa þann lögmann um það þegar  stefna hafi verið birt fyrir umbjóðanda hans.  

Þá áréttar varnaraðili kröfur sínar til nefndarinnar, um frávísun málsins ellegar að kröfum sóknaraðila verði hafnað auk kröfu um málskostnað.  

Niðurstaða 

Varnaraðili krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Frávísunarkrafa byggir á því að varnaraðili hafi á engan hátt gert á hlut sóknaraðila með háttsemi stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, enda eigi sóknaraðili enga þá meintu hagsmuni sem fjallað sé um í kvörtun til nefndarinnar né hafi hann orðið fyrir tjóni vegna málsins. Þá byggir frávísunarkrafa jafnframt á því að hvergi í siðareglum lögmanna sé að finna skyldu um að lögmönnum beri að bjóða lögmanni gagnaðila að móttaka stefnu eða gera viðvart um það þegar stefna hafi verið birt skjólstæðingi lögmanns. Né heldur ríki um það venja sem lögmönnum beri að rækja ellegar gerist þeir brotlegir gegn siðareglum lögmanna.  

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. Vísast jafnframt um þetta til 2. tölul. 3. gr. og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. 

Heimild til að bera kvörtun undir nefndina samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur náð til innbyrðis samskipta lögmanna og framkomu lögmanns gagnvart öðrum lögmanni, ef það er í tengslum við lögmannsstörf þeirra. Líkt og framar greinir snýr kvörtun sóknaraðila meðal annars að samskiptum hans við varnaraðila og hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þrátt fyrir að ekki geti komið til úrlausnar í málinu hvort varnaraðili hafi með téðri háttsemi gert á hlut umbjóðanda sóknaraðila sem ekki er aðili að málinu eða valdið honum tjóni, telur nefndin ekkert því til fyrirstöðu að leyst sé úr kvörtun sóknaraðila að öðru leyti. Að því virtu telur nefndin ekkert koma í veg fyrir að leyst verði efnislega úr kvörtun málsins. Í samræmi við það eru ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst.  

Heimild til að bera ágreining þennan undir nefndina er lögfest í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn líkt og ofar greinir. Kemur því til úrlausnar hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna með þeirri háttsemi að halda sóknaraðila ekki upplýstum um frekari aðgerðir í máli umbjóðenda þeirra, bjóða sóknaraðila ekki að veita stefnu vegna málsins móttöku eða hafi svarað erindum sóknaraðila seint og illa.   

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. 

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.  

Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður. 

Eins og áður er lýst sendi varnaraðili kröfubréf fyrir hönd umbjóðanda síns á umbjóðanda sóknaraðila þann 18. nóvember 2021, þar sem skorað var á hann að gera upp vangoldnar launakröfur. Kröfunni var fylgt eftir með ítrekun þann 1. febrúar 2022 þar sem hótað var málsókn yrði krafan ekki greidd innan fjórtán daga. Með bréfi dags. 5. maí 2022 svaraði sóknaraðili fyrir hönd umbjóðanda síns og tók fram í tölvupósti sem svarbréfið barst með að hann myndi heyra í varnaraðila með framhaldið ef eitthvað yrði. Með bréfi þann 19. maí 2022 til sóknaraðila árétti varnaraðili kröfur umbjóðanda síns og hótun um frekari innheimtuaðgerðir og málshöfðun. Engin svör bárust við því bréfi og stefndi varnaraðili málinu fyrir dómstóla með stefnu sem birt var fyrir starfsmanni umbjóðanda sóknaraðila á stjórnarstöð hans.  

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 83. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er birting stefnu lögmæt ef stefnuvottur eða lögbókandi vottar að hann hafi birt stefnu fyrir stefnda eða einhverjum sem er bær um að taka við henni í hans stað. Samkvæmt 4. mgr. 85. gr. sömu laga, má þegar félagi er stefnt, birting alltaf fara fram á stjórnarstöð þess þótt fyrirsvarsmaður hafi þar ekki fastan vinnustað, en þá skal að jafnaði birta fyrir æðsta starfsmanni þess sem verður náð til. Sóknaraðili krafðist endurupptöku í máli aðilanna fyrir endurupptökudómi á þeim grundvelli að reglur einkamálalaga um birtingu stefnu hafi ekki verið uppfylltar þegar varnaraðili birti stefnu fyrir starfsmanni umbjóðanda sóknaraðila. Komst endurupptökudómur að þeirri niðurstöðu í málinu nr. […] síðan 10. maí 2023, að birting hafi verið í samræmi við framangreind ákvæði einkamálalaga, enda hafi engin haldbær rök hafi verið færð fyrir því að efni birtingavottorðs málinu, sem bar um að svo hafi verið, væri rangt sbr. 3. mgr. 87. gr. sömu laga.  

Að mati nefndarinnar getur birting stefnu með lögformlegum hætti í samræmi við ákvæði einkamálalaga almennt ekki leitt til þess að lögmaður hafi gerst brotlegur gegn lögmannalögum eða siðareglum lögmanna. Framangreind ákvæði siðareglna lögmanna verða að mati nefndarinnar ekki túlkuð á þann veg að lögmanni beri ávallt að birta stefnu fyrir lögmanni gagnaðila eða tilkynna honum um birtingu stefnu.  

Þrátt fyrir það telur nefndin að þær aðstæður geti skapast þar sem lögmaður má réttilega vænta þess að honum verði gefinn kostur á að veita stefnu viðtöku eða gert kunnugt um þegar stefna verður birt umbjóðanda hans, svo sem ef lögmaðurinn hefur sérstaklega óskað eftir því. Með fyrrnefndum tölvupósti þann 5. maí 2022 óskaði sóknaraðili eftir því að vera upplýstur um frekari aðgerðir í málinu. Telur nefndin að varnaraðila hafi þá mátt vera ljóst að sóknaraðili gerði ráð fyrir að frekari aðgerðum í málinu yrði beint til hans. Í málinu liggur jafnframt fyrir að varnaraðili beindi í framhaldinu svarbréfi fyrir hönd umbjóðanda síns til sóknaraðila þann 19. maí 2022 þar sem ítrekuð var afstaða umbjóðanda hans og hótun um að kröfunum yrði fylgt eftir með hefðbundnum hætti og með aðstoð dómstóla ef þörf krefði. Því bréfi svaraði sóknaraðili ekki og í kjölfarið fylgdi varnaraðili yfirlýstum áformum úr svarbréfinu eftir með því að stefna umbjóðanda sóknaraðila eins og framar greinir. Eins og atvikum var hér háttað telur nefndin því að varnaraðili hafi nægilega orðið við óskum sóknaraðila með svarbréfinu þann 19. maí 2022. 

Þá fellst nefndin ekki á það með sóknaraðila að til staðar sé venja þess efnis að lögmanni beri að bjóða lögmanni gagnaðila, sé slíkum til að skipta, að veita stefnu móttöku eða tilkynna honum sérstaklega um það þegar stefna hefur verið birt skjólstæðingi hans og að öðrum kosti hafi lögmaður gerst brotlegur gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er heimilt í stað stefnubirtingar og jafngilt henni að koma stefnu á framfæri við lögmann aðila sem ritar undir yfirlýsingu þess efnis að hann hafi tekið við stefnunni og stefndi falið honum að sækja fyrir sig þing við þingfestingu máls. Óumdeilt er að heimildin, sem felur oft í sér hagkvæmari birtingarkost fyrir lögmenn, er mikið notuð meðal lögmanna. Það eitt og sér leiðir þó ekki til þess að myndast hafi venja í þá veru sem sóknaraðili byggir á í málinu.  

Um meint brot varnaraðila gegn skyldu lögmanna til að svara bréfum og öðrum erindum innan hæfilegs tíma er það mat nefndarinnar að svarleysi varnaraðila um fjögurra daga skeið feli ekki í sér brot gegn ákvæðinu 41. gr. siðareglna lögmanna þannig varði við aðfinnslu. Einkum í ljósi þess að engir tímafrestir voru þá að líða sem leitt hefðu til þess að þörf væri á skjótum svörum. Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. 

Það athugast að varnaraðili hefur borið því við í málinu að framkoma sóknaraðila hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus varnaraðili að lýsa hinum ætluðu brotum sóknaraðila að þessu leyti í greinargerð með andsvörum til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður varnaraðila þar að lútandi ekki til úrlausnar í málinu.  

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað. 

Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, [A] lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. 

Málskostnaður fellur niður.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Kristinn Bjarnason, formaður  

Einar Gautur Steingrímsson 

Valborg Þ. Snævarr 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

 

________________________ 

Arnar Vilhjálmur Arnarsson