Mál 23 2023

Mál 23/2023

Ár 2024, fimmtudaginn 8. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. maí 2023 kvörtun C lögmanns fyrir hönd sóknaraðila, A gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila vegna hjónaskilnaðar.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi þann 19. maí 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 12. júní 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótar­athugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni 23. júní 2023 ásamt frekari gögnum. Viðbótar­athugasemdir varnaraðila bárust nefndinni þann 14. júlí 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili leitaði lögmannsþjónustu hjá varnaraðila árið 2020 í tengslum við hjónaskilnað sem hann stóð í. Varnaraðili gaf út reikninga fyrir vinnu í málinu jafn óðum á tímabili frá apríl 2020 til 4. janúar 2021 og voru þeir allir greiddir jafnóðum.

Mikill ágreiningur var milli hjóna um eignaskiptingar. Þann 15. nóvember 2021 á þriðja skiptafundi var ágreiningi aðila vísað til meðferðar héraðsdóms Norðurlands eystra. Varnaraðili bókaði um það í fundargerð skiptafundar að hann teldi hættu á að ágreiningsmálinu yrði vísað frá dómi ef ekki lægi fyrir nákvæmara verðmat eigna búsins. Skiptastjóri deildi ekki þeim sjónarmiðum varnaraðila og beindi því bréfi á héraðsdóms Norðurlands eystra þann 17. nóvember 2021. Þann 13. júlí 2022 kvað héraðsdómur upp úrskurð í málinu þar sem kröfum sóknaraðila var að mestu leyti hafnað.

Sóknaraðili ákvað að kæra þá niðurstöðu til Landsréttar og leitaði af því tilefni til annars lögmanns, [C] lögmanns, sem bar erindið undir nefndina fyrir hennar hönd. Kærufrestur til Landsréttar var tvær vikur. Þann 19. júlí 2022 sendi varnaraðila tölvupóst þar sem óskað var afrits af gögnum málsins þannig hægt væri að koma kæru inn fyrir lok frestsins. Tók lögmaður sóknaraðila fram að honum væri kunnugt um að sóknaraðili ætti eftir að gera upp við varnaraðila fyrir störf hans vegna málsins og lýsti því yfir að hann myndi sjá til þess að gert yrði upp við hann um leið og sóknaraðili fengi eitthvað í sinn hlut úr búskiptunum. Barst við það tilefni sjálfvirkt svarbréf frá póstþjóni varnaraðila þar sem kom fram að hann yrði í sumarleyfi til 10. ágúst sama árs. Í beinu framhaldi sendi sóknaraðili sjálfur tölvupóst á varnaraðila og staðfesti efni tölvupósts lögmanns síns og ítrekaði ósk um gögnin. Þá tók sóknaraðili fram að varðandi uppgreiðslu vegna vinnu varnaraðila þætti honum vænt um að varnaraðili gæti annað hvort beðið með reikning þar til málum lyki eða að varnaraðili skrifaði upp á skuldaviðurkenningu án vaxta til tryggingar skuldinni sem hann myndi síðan gera upp við varnaraðila um leið og málinu lyki og greiðsluflæði hans lagaðist.

Varnaraðili svaraði póstinum þann næsta dag, 20. júlí 2022, þar sem fram kom að hann hafi reynt að ná til lögmanns sóknaraðila símleiðis án árangurs. Jafnframt sagðist varnaraðili gera ráð fyrir að sóknaraðili og lögmaður hans myndu setja upp skuldabréf með beinni aðfarar­heimild sem lagt verði fram hjá skiptastjóra með þeim fyrirmælum að það skuli greitt af hluta sóknaraðila um leið og eitthvað yrði greitt út og varnaraðili gæti þá sent gögnin suður með flugi. Tók varnaraðili fram að vinna hans í málinu stæði í 98 klukkustundum og tímagjaldið 25.800 kr. á tímann auk virðisaukaskatt. Þá væri útlagður kostnaður upp á 19.000 kr. Allt samtals 3.154.216 kr., en varnaraðili væri þó tilbúinn að ljúka þessu með áðurnefndum hætti með skuldabréfi að fjárhæð 3.000.000 kr.

Lögmaður sóknaraðila svaraði aftur næsta dag og kvaðst hafa reynt að hringja til baka deginum áður án árangurs. Benti hann á að hann teldi fyrra boð sitt fullnægjandi til að tryggja uppgjör gagnvart varnaraðila og benti í því samhengi á 16. gr. siðareglna lögmanna. Vakti hann athygli á því að sóknaraðili yrði fyrir réttarspjöllum ef gögnin fengjust ekki afhent án dráttar, enda rynni kærufresturinn út innan við viku síðar. Án gagnanna væri ekki fullnægjandi grundvöllur fyrir rekstri kærumálsins. Við slíkt tilefni yrði hann að áskilja sér allan rétt ef varnaraðili neitaði að afhenda gögnin nema gengið yrði að framsettum skilyrðum varnaraðila. Þá benti hann á að varnaraðili hafi orðið að leita til lögmanns með málflutningsréttindi fyrir Landsrétti til að taka við málinu. Þá tók lögmaður sóknaraðila að endingu fram að hann vonaðist til að fá gögnin afhent sem fyrst og kvaðst muna upplýsa skiptastjóra um fyrirkomulagið yrði það samþykkt auk þess að sjá um að endurgreiða varnaraðila strax útlagðan kostnað að fjárhæð 19.000 kr.

Svaraði varnaraðili aftur þann 22. júlí 2022 og sendi reikning í samræmi við samskipti sín við lögmann sóknaraðila og óskaði athugasemda ef eitthvað væri við form reikningsins að setja. Þá árétti varnaraðili að aldrei hafi staðið til að halda gögnunum heldur hafi hann einungis vantað upplýsingar til að geta sent þau eins og áður hafi verið rætt. Þá benti varnaraðili á að hann hefði heimild til að kæra úrskurðinn til Landsréttar en óskaði sóknaraðila engu að síður góðs gengis og vonaðist eftir farsælli niðurstöðu fyrir hann.

Þann sama dag svaraði lögmaður sóknaraðila aftur og staðfesti móttöku gagnanna. Vegna tímafjöldans sem varnaraðili gerði kröfu um þóknun vegna kvaðst lögmaður sóknaraðila hafa reiknað með að fá gögn um sjálfan málflutninginn, þ. á m. hliðsjónargögn sem væntanlega hafi verið gerð og tímaskýrslu á bakvið reikninginn. Þá tók hann fram að hann teldi ónákvæmt að samkomulag hafi verið um reikningsfjárhæðina líkt og fram kom á reikningnum. Hið rétta væri að boðið hafi verið að fjárhæð reikningsins yrði greidd þegar til útgreiðslu kæmi upp í hlut sóknaraðila úr búinu. Það breyti þó ekki því að sóknaraðili eigi rétt á að skoða m.a. tímaskýrslu frá varnaraðila og hvort reikningsfjárhæðin endurspegli hæfilegt endurgjald fyrir vinnuna. Tók lögmaður sóknaraðila fram að sjálfum þætti honum reikningurinn í hærri kantinum en vildi þó ekki segja hann ósanngjarnan, þar sem hann vissi það ekki. Jafnframt kvaðst lögmaður sóknaraðila ekki hafa haldið því fram að varnaraðili gæti ekki kært úrskurðinn, reglurnar bæru með sér að hann gæti sent héraðsdómi slíka kæru, en hefði ekki réttindi til að flytja málið fyrir Landsrétti. Þannig að greinargerðin ásamt málsgögnum yrði að koma frá lögmanni með slík réttindi líkt og fram kæmi í reglum Landsréttar og lögum um meðferð einkamála.

Svo fór að sóknaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar sem kvað upp úrskurð þann 17. október 2022 í máli nr. […] þar sem fallist var á það með sóknaraðila að skiptastjóra hafi borið að fá fram samkomulag um verðmæti eigna búsins ellegar að láta verðmeta þær eignir sem aðilar deildu um af meiri nákvæmni svo unnt væri að bera ágreininginn undir dómstóla. Var því málskostnaður á báðum dómstigum látinn falla niður.

Sá úrskurður var síðan kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með úrskurði sínum í máli nr. […] frá 8. desember 2022 og sóknaraðila dæmdur kærumálskostnaður upp á 600.000 kr.

Þann 28. apríl 2023 hafði lögmaður sóknaraðila aftur samband við varnaraðila og upplýsti um að stutt væri þar til sóknaraðili fengi greiðslur út úr uppgjöri við búskiptin. Reifaði lögmaður sóknaraðila í stuttu máli fyrri samskipti aðila og það sem gerst hafi í dómsmálinu og skiptunum síðan. Ítrekaði hann að varnaraðili hafi aldrei sent honum tíma- eða vinnuskýrslu né heldur málflutningsræðu eða samantekt um hliðsjónargögn, heldur eingöngu framlögð skjöl. Benti hann þó á að meðal ákvörðunar Hæstaréttar í málinu væri að staðfest úrskurð Landsréttar þar sem málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti var felldur niður, á þeim forsendum að ekki hafi verið fylgt eftir sjónarmiðum af skiptafundi um að nauðsyn hafi borið til að láta verðmeta eignir búsins áður en til ágreinings fyrir dómstólum gæti komið. Kvaðst lögmaður sóknaraðila af framkomnum upplýsingum telja að framsett krafa upp á 3.000.000 kr. í lögmannsþóknun að meðtöldum virðisaukaskatti væri úr öllu hófi. Óskaði hann þess að varnaraðili samþykkti greiðslu að fjárhæð 1.500.000 kr. fyrir vinnuna fyrir sóknaraðila að viðbættu því sem sóknaraðili hafði áður greitt, en næðist ekki samkomulag um slíkt yrði málið lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Svaraði varnaraðili erindi lögmanns sóknaraðila þann 2. maí 2023 þar sem hann mótmælti því harðlega. Kvað varnaraðili meðal annars að hann hafi bent sóknaraðila á það frá upphafi að þessi hætta væri fyrir hendi en að sögn varnaraðila var afstaða sóknaraðila sú að hann gæti ekki lagt út fyrir verðmati og vildi því ekki halda kröfunni til streitu þar sem hann hefði þurft að ábyrgjast kostnað matsins hefði hann gert kröfu um það, þess vegna hafi verið þrýst á skiptastjóra að nauðsynlegt væri að fá verðmat en ekki unnt að halda því til streitu þar sem sóknaraðili væri ekki borgunarmaður fyrir slíku mati. Í öðru lagi benti varnaraðili á að skylda til að láta verðmeta eignir bús áður en ágreiningi er beint til dómstóla falli undir verksvið skiptastjóra líkt og Hæstiréttur hafi staðfest í máli sóknaraðila. Í þriðja lagi hafnaði varnaraðili því að um slæleg vinnubrögð af sinni hálfu hafi verið að ræða og benti lögmanni sóknaraðila á að honum hafi verið í lófa lagið að halda slíkri kröfu sjálfur til streitu eftir að úrskurður féll í héraði. Í fjórða lagi kvaðst varnaraðili hafa sent lögmanni sóknaraðila öll þau gögn sem hann óskaði eftir og hefði hann óskað eftir frekari gögnum eða ef eitthvað hefði vantað inn í gagnapakkann, þá hefði varnaraðili að sinni sögn auðvitað orðið við því og sent það um hæl. Hafnaði hann því alfarið kröfum sóknaraðila um helmingslækkun lögmannsþóknunar og hvatti lögmann sóknaraðila eindregið til að leita til úrskurðarnefndarinnar með málið.

Ítrekaði lögmaður sóknaraðili erindið þann 8. maí 2023 og að hann myndi í framhaldinu greiða varnaraðila umræddar 3.000.000 kr. en láta endurskoða hvort sú fjárhæð væri hæfileg fyrir vinnuna í málinu. Þann næsta dag sendi varnaraðili reikninginn aftur á lögmann sóknaraðila og ítrekaði varnaraðili að enn vantaði vinnuskýrsluna á bakvið reikninginn. Sendi varnaraðili vinnuskýrsluna strax í framhaldinu og tók fram að sér þætti skrítið að lögmaður sóknaraðila hefði ekki áður fengið hana, því þetta væri í annað eða þriðja sinn sem varnaraðili sendi honum tímaskýrsluna.

Varnaraðili taldi að samkomulag hafi verið um endurgjald fyrir hans störf og á þeim grundvelli hafi hann gefið sóknaraðila afslátt bæði af heildarþóknun samkvæmt tímaskýrslu auk þess að veita sóknaraðila greiðsludrátt án endurgjalds eða vaxta. Telur varnaraðili ljóst af framkomnu erindi sóknaraðila að slíkt samkomulag hafi raunar ekki tekist og gerir varnaraðili því kröfu fyrir nefndinni um að honum verði ákveðin hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og vísar til tímaskýrslu sinnar í máli sóknaraðila og bendir á að tímagjald hans í dag nemi 29.800 kr. auk virðisaukaskatt á hverja unna stund. Jafnframt sé sá vani á til dæmis í opinberum málum, að þóknun lögmanns miðist við tímagjald á greiðslutíma.

Tímaskýrsla varnaraðila liggur fyrir í málinu í tveimur útgáfum og telur 98,08 klst. á tímabili frá 16.12.2020 til 20. júlí 2022. Tímaskýrslan telur fimm blaðsíður af færslum sem skiptast sem svo að 55 klst. eru að rekja til vinnu í tengslum við héraðsdómsmálið sem lögmaður sóknaraðila tók í kjölfarið að sér að reka fyrir Landsrétti og Hæstarétti og 43,08 klst. voru fyrir aðra vinnu í þágu sóknaraðila í aðdraganda opinberra fjárskipta, eftir að þau hófust en fyrir málflutninginn og loks vinnu við samantekt og afhendingu gagnanna til nýs lögmanns sóknaraðila. Í báðum tilvikum voru margar skráningar vegna samskipta vegna málsins auk hefðbundinna skráninga svo sem vegna undirbúnings málflutnings, stefnu o.fl.  

Sóknaraðili krefst þess annars vegar að endurgjald varnaraðila fyrir störf hans í sína þágu verði endurskoðað sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. sömu laga.

Sóknaraðili áréttar samskiptin við varnaraðila sem áður er lýst og lýsir málsatvikum jafnframt nánar. Að sögn sóknaraðila bárust gögn með flugi að kvöldi 21. júlí 2022. Einungis hafi verið sent eintak af framlögðum skjölum í dómsmálinu, en ekki hafi fylgt með nein gögn um málflutninginn, hvorki hliðsjónargögn eða yfirlit um slík gögn, ekki málflutningsræða né yfirlit slíkrar ræðu og ekkert yfirlit um málskostnaðarkröfu. Engin gögn fylgdu heldur um málflutningsgögn lögmanna gagnaðila í málinu. Í framhaldinu barst reikningur frá varnaraðila en engin tímaskýrsla og benti sóknaraðili á það. Þrátt fyrir það kveður sóknaraðili tímaskýrslu ekki hafa verið senda.

Við fyrstu útborgun úr búinu til sóknaraðila var varnaraðili beðinn um reiknings ásamt tímaskýrslu. Við það tilefni hafi reikningurinn borist án tímaskýrslu og strax verið gerð athugasemd við það. Tímaskýrslan hafi síðan borist með tölvupósti 9. maí með þeirri athugasemd að búið væri að senda hana hið minnsta tvisvar eða þrisvar áður. Greiðslan hafi síðan verið send 10. maí og gerðir fyrirvarar enn áréttaðir. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi vakið athygli skiptastjóra á því á skiptafundi að nauðsynlegt væri að framkvæma mat á eignum búsins og ekki fengið þeirri kröfu framgengt. Varnaraðili hafi hins vegar ekki fylgt þeim sjónarmiðum eftir fyrir héraðsdómi og það kveður sóknaraðili vera orsök þess að honum var ekki dæmdur málskostnaður fyrir Landsrétti þegar fallist var á þau sömu sjónarmið sem Hæstiréttur síðar staðfesti.

Sóknaraðili bendir á að aðalkrafa hans fyrir Landsrétti hafi verið einmitt sú að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi á framangreindum grundvelli þar sem ekki hafi verið fullnægjandi grunnur lagður að rekstri málsins áður en því var vísað til meðferðar í héraðsdómi, þ.e. ekki hafði verið aflað verðmats á eignum búsins. Bendir sóknaraðili á að í búinu hafi verið átta fasteignir og mikill fjöldi ökutækja, véla og annarra farartækja auk tveggja rekstrarfélaga. Bendir sóknaraðili sérstaklega á tilteknar málsgreinar í úrskurði Landsréttar því til stuðnings.

Sóknaraðili telur að gæsla hagsmuna sinna hafi verið í mjög verulegum atriðum ófullnægjandi allt frá því að skiptastjóri vísaði ágreiningsefnum um skiptin til héraðsdóms og þar til úrskurður héraðsdóms í málinu lá fyrir. Þótt tekist hafi að ráða því að mestu bót með málskotum til æðri réttar hafi verulegur kostnaður hlotist af óvönduðum málatilbúnaði og hann jafnframt leitt til þess að gagnaðila var ekki gert að greiða honum málskostnað fyrir héraðsdómi og/eða Landsrétti sbr. 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krefst sóknaraðili þess að tekið verði tillit til þessara atriða við ákvörðun á hæfilegri þóknun varnaraðila fyrir málareksturinn en þó einnig fleiri.

Bendir sóknaraðili á að kröfur varnaraðila um þóknun fyrir 98 klst. af vinnu samkvæmt tímaskýrslu, eða fjárhæð 3.000.000 kr. taki til tíma sem nái langt aftur fyrir þann tíma sem málareksturinn stóð. Um það vísar sóknaraðili til tímalínu sem fyrr var rakin og bendir á að tímaskráning í málskostnaðarreikningi varnaraðila nær frá því 16. desember 2020 til þess dags sem sóknaraðili sendi frá sér málsgögnin í júlí 2022.

Bendir sóknaraðili á að 15 klst. séu atriði sem tengist ekki eignaskiptum. Þá séu 25 klst. atriði sem varði eignaskipti en voru skráð áður en málarekstur var ákveðinn. Svo séu 58 klst. eftir að ákvörðun var tekin um að vísa ágreiningi um eignaskipti til meðferðar hjá héraðsdómi. Þetta telur sóknaraðili sýna að áskilnaður varnaraðila um þriggja milljóna króna endurgjald fyrir afhendingu gagnanna til lögmanns þess sem tók við málinu, náði að hluta til til kröfugerðar fyrir vinnu sem ekki hafði verið unnin við umrætt héraðsdómsmáls.

Þá byggir sóknaraðili á að gögn héraðsdómsmálsins beri með sér að ekki hafi verið lögð mikil vinna af hálfu varnaraðila í málið þrátt fyrir háa tímaskráningu. Greinargerð varnaraðila telji rúmar sex blaðsíður, aðalmeðferð tók samtals innan við fimm klukkustundir, þar af munnlegar skýrslutökur rúmar tvær klukkustundir og málflutningur um tvær og hálfa klukkustund. Þá hafi sóknaraðili ekki fengið að sjá hvað varnaraðili tíndi til af hliðsjónargögnum en samkvæmt vinnuskýrslu hafi ekki farið mikill tími í slíkt eða 45 mínútur.

Ítrekar sóknaraðili að varnaraðili hafi borið fyrir sig haldsrétti vegna gagna dómsmálsins þrátt fyrir að hætta hafi verið á réttarspjöllum ef ekki yrði greitt henni 3.000.000 krónur sem hann hafði áskilið sér og sóknaraðili telur vera fráleidda kröfu.

Samkvæmt því telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna sinna með forsvaranlegum eða viðunandi hætti við meðferð ágreiningsmáls um eignaskipti milli kæranda og fyrrverandi eiginmanns hans. Krafa sóknaraðila um endurgjald fyrir vinnuna sem greidd var með fyrirvara þann 10. maí 2023 hafi verið of há og í engu samhengi við gæði og umfang vinnunnar. Sóknaraðili telur jafnframt að varnaraðili hafi sett ólögmæt skilyrði fyrir afhendingu eintaks af gögnum umrædds máls og brotið þann gegn 1., 2. og 16. gr. siðareglna lögmanna. Þá hafi afhending gagna eins og hún var framkvæmd án hliðsjónargagna eða annarra gagna eins og hún var framkvæmd án hliðsjónargagna eða annarra gagna um málflutninginn sem var áskilin og greiðsla fyrir hafi ekki verið í samræmi við góða lögmannshætti.

III.

Varnaraðili krefst þess annars vegar að nefndin leggi mat á það hvað teljist hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem hann vann í þágu sóknaraðila skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og hins vegar að öðrum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili lýsir málsatvikum sem svo að hafi hafið störf fyrir sóknaraðila haustið 2020 og sent fyrstu reikningana jöfnum höndum, en svo hafi komið að því að sóknaraðili hafði ekki tök á að greiða fyrir vinnuna þar sem tekjur hans voru svo takmarkaðar. Auk þess sem fyrrverandi maki sóknaraðila hafi hrakið hann úr fasteign þeirra og sóknaraðili þá lent í húsnæðishraki ofan á allt annað.

Kveðst varnaraðili hafa séð aumur á sóknaraðila og boðist til að bíða með útgáfu reikninga þar til sóknaraðili fengi sinn hlut úr fjárskiptunum milli hans og fyrrum maka hans. Það varð til þess að samkomulag á milli sóknaraðila og varnaraðila var gert um að sóknaraðili myndi greiða fyrir lögmannsþjónustu varnaraðila þegar sóknaraðili greitt út úr fjárskiptunum. Að sögn varnaraðila tók það samkomulag til allrar þjónustu sinnar í þágu sóknaraðila en ekki aðeins til eignaskipta sóknaraðila og fyrrum maka hans. Kveðst varnaraðila hafa leiðbeint sóknaraðila varðandi kröfu um skilnað, kröfu um makalífeyri, aðstoðað hann við að senda gagnaðila póst og gerð kröfu við fjárskipti gagnaðila um fjárskipti og setja fram drög að samningi til að senda gagnaðila, gerð drög um opinber skipti, hagsmunagæslu á skiptafundum, ráðgjöf og eftirfylgni, innheimtu makalífeyris, gerð kröfu fyrir héraðsdómi, eftirfylgni og málflutning fyrir héraðsdómi.

Bendir varnaraðili á að strax daginn eftir að sóknaraðili tilkynnir um lögmannsskiptin hafi hann hafist handa við að taka saman gögn málsins til að senda með flugi og að gengið yrði frá skuldarviðurkenningu líkt og sóknaraðili hafi sjálfur boðið. Þá bendir varnaraðili á að tölvupóstsamskipti beri með sér að varnaraðili hafi reynt að ná í lögmann sóknaraðila en án árangurs. Í framhaldi komi póstur frá lögmanninum þar sem skorað sé á varnaraðila að afhenda öll gögnin svo sóknaraðili verði ekki fyrir réttarspjöllum. Kveðst varnaraðili aldrei hafa haft áform um að halda eftir gögnunum sóknaraðila, heldur hafi hann beinlínis reynt að ná í lögmann sóknaraðila til að fá upplýsingar um hvert hann skyldi senda gögn málsins svo þau bærust lögmanninum sem við málinu tók og bendir varnaraðili á framlagða tölvupósta í málinu því til stuðnings. Þá kveðst varnaraðili hafa gert sóknaraðila grein fyrir þessu í símtali í framhaldi af pósti lögmanns sóknaraðila þann 21. júlí 2022, en þá hafi varnaraðili verið með gögnin tilbúin til sendingar og aðeins beðið eftir upplýsingum um hvert skyldi senda þau. Þá telur varnaraðili ljóst að gögnin hafi verið send um leið og þær upplýsingar fengust og vísar aftur til tölvupósta málsins því til stuðnings. Mótmælir varnaraðili staðhæfingum sóknaraðila um annað sem röngum.

Kveðst varnaraðili hafa álitið málið afgreitt eftir að hann hafði afhent lögmanni sóknaraðila gögn málsins og hélt áfram sumarleyfi sínu sem stóð yfir á sama tíma. Kveðst varnaraðili ekki hafa séð tölvupóst lögmanns sóknaraðila fyrr en 22. júlí 2022, enda hafði hann verið í sumarleyfi líkt og sjálfvirkur svarpóstur úr netfangi hans greindi frá. Bendir varnaraðili hins vegar á að lögmaður sóknaraðila hafi vitað af því, haft afrit af símanúmeri hans og það númer einnig að finna í opnum símaskrám þannig lítið mál hefði verið fyrir lögmann sóknaraðila að hafa samband og óska frekari gagna ef hann teldi þörf á því. Þá bendir varnaraðili jafnframt á að allar röksemdir hans sé að finna í úrskurði héraðsdóms í málinu og þó svo að niðurstaðan hefði verið önnur en sú sem óskað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurðarnefndin meti hæfilega þóknun fyrir störf sín við flutning héraðsdómsmáls nr. […] við héraðsdóm Norðurlands eystra fyrir sóknaraðila.

Áréttar varnaraðili að reikningurinn sem sóknaraðili er ósáttur við nær ekki aðeins til meðferðar málsins fyrir héraðsdómi heldur vinnu varnaraðila fyrir sóknaraðila frá 16. desember 2020 til og með 20. júlí 2022 eins og fram komi í erindi sóknaraðila til nefndarinnar og sjá megi af tímaskýrslu varnaraðila. Því hafi verið um að ræða annað og meira en einungis vinnu við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Varnaraðili lítur svo á að sóknaraðili geri aðeins athugasemdir við kostnað vegna hagsmunagæslu sóknaraðila við meðferð málsins fyrir héraðsdómi en samþykki vinnu varnaraðila samkvæmt tímaskýrslu að öðru leyti.

Samkvæmt því sé ljóst að sóknaraðili geri ekki athugasemdir við þær 40 klukkustundir sem fóru í hagsmunagæslu sóknaraðila að öðru leyti, en hluti þeirrar vinnu af reikningunum eru rétt tæplega 1.400.000 kr. af heildarfjárhæðinni. Hins vegar geri sóknaraðili, að því er varnaraðili telur, athugasemdir við þær 58 klst. sem fóru í að gæta hagsmuna hans við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Ljóst er að þær stundir séu í raun aðeins 55 þar sem varnaraðili telur með stundir sem fóru í mætingu á skiptafundi, ráðstöfun bifreiðar, afhendingu búslóðar og fleira sem heyri undir skiptin hjá skiptastjóra en ekki meðferð málsins fyrir dómi.

Bendir varnaraðili á að sóknaraðili bauðst til að greiða 1.500.000 kr. fyrir heildarvinnu sína sem varnaraðili álítur lítið annað en móðgun og dugi í raun aðeins fyrir annað hvort greiðslu fyrir skiptin fyrir héraðsdómi eða annarri vinnu lögmannsins. Með því hafi sóknaraðili krafist helmingsafsláttar af þjónustu varnaraðila til viðbótar við þann afslátt sem þegar hafði verið veittur í formi greiðslufrests án vaxta, sem varnaraðili kveðst hafa gengið að í þeim skilningi að samkomulag væri um fjárhæðina.

Lýsir varnaraðili því að mikil vinna fari í undirbúning og flutning máls líkt og lögmenn flestir þekki. Því séu 55-58 klst. vegna þeirrar vinnu ekki óhóflegt, þar sem yfirferð gagna, ritun greinargerðar, skoðun dómafordæma og annar undirbúningur fyrir málflutning sé tímafrek vinna ef vel á að vera.

Varnaraðili krefst þess að honum verði ákvarðað hæfilegt endurgjald vegna vinnu sinnar, en bendir á ítarlegar tímaskýrslur sem fyrir liggi um undirliggjandi vinnu. Óskar varnaraðili þess að við ákvörðun um hæfilegt endurgjald verði tekið tillit til þess að hann hafði þegar veitt sóknaraðila afslátt af endurgjaldi sínu á þeim grundvelli að samkomulag væri um greiðsluna en nú væri hins vegar svo komið í ljós að svo sé ekki raunin og krefst varnaraðili því þess að fá vinnu sína greidda til fulls.

Nánar um tímaskýrslu sína bendir varnaraðili á að tímaskýrsla málsins sé ítarleg, þá þurfi að huga að því að sóknaraðili var á verulega vondum stað á meðan varnaraðili veitti honum aðstoð og þurfti hann umtalsvert mikla aðstoð og raunar mun meiri en gengur og gerist. Að sögn varnaraðila var sóknaraðili viðkvæmur og átti erfitt með að taka nokkrar ákvarðanir. Þurfti að leggjast vel yfir öll skref ferlisins með honum og taka ákvörðun og ráðleggja ítarlega. Þá hafi þurft að útskýra málið fyrir öðrum aðilum á vegum sóknaraðila, en að sögn varnaraðila óskaði sóknaraðili þess að hann væri sóknaraðila innan handar á þessum tíma. Fór þannig umtalsvert meiri tími í samskipti en tíðkist oft. Þá hafi verið um flókið mál að ræða og undir lægju miklar eignir og aðstæður að mörgu leyti sérstakar. Því hafi mikill tími farið í málið Þá hafi það verið upplifun varnaraðila að gagnaðili legði sig fram við að draga málið á langinn og leggja steina í götu sóknaraðila. Þá hafi erfiðlega gengið að ýta opinberum skiptum áfram og þar hafi skiptastjóri dregið lappirnar og ítrekað þurft að ýta á eftir honum sem og ákvörðunum og afstöðu skiptastjóra. Málið var því mjög þungt í vöfum og segir varnaraðili ekki við sig að sakast í þeim efnum. Þá tekur varnaraðili fram að raunverulega hafi mun fleiri tímar farið í samskipti við sóknaraðila en greint er frá í tímaskýrslu, þótt ekki verði tekið tillit til þess í málinu.

Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili beri ekki ábyrgð á því hvernig málið hafi farið fyrir dómstólum. Lögmenn hafi ekki boðvald yfir skiptastjóra, sem framkvæmdi ekki verðmat, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um það. Þá sé ljóst að mati varnaraðila að gagnaðili sóknaraðila, sem leitaði með ágreininginn fyrir dómstóla og varð þar að bregðast við. Því hefði verið hagur í því fólginn fyrir sóknaraðila að fá niðurstöðu sem fyrst í málið ef hægt væri að fá fram hagkvæma niðurstöðu, í stað þess að draga það ef ekki væri unnt að fá fram niðurstöðu. Þá telur varnaraðili sérkennileg niðurstaða ef þóknun lögmanns ætti að ráðast af niðurstöðum dómstóla. Það að málskostnaður sé felldur niður sé ekki áfellisdómur á vinnubrögð lögmanns og furðar varnaraðili sig á þeirri röksemdafærslu.

Þá telur varnaraðili forsendur héraðsdóms að stórum hluta byggja á röksemdum sínum í málinu, þó svo að sjálf niðurstaðan hafi orðið önnur en óskað var eftir og málinu að endingu vísað frá Landsrétti vegna atvika sem varnaraðili hafi reynt að benda á hjá skiptastjóra en talað þar fyrir daufum eyrum, og reynt að vinna sem best úr erfiðri stöðu. Kveður varnaraðili það vera hagsmuni sóknaraðila að leyst yrði úr ágreiningi aðila hratt því sóknaraðili hafði aðeins litla framfærslu þar sem makalífeyrir hans var fallinn niður og hann í húsnæðishraki. Því þyldi málið engar tafir og lagt upp með að fá leyst úr því úr því sem komið var.

Telur varnaraðili tímagjald sitt hóflegt og engum tímum ofaukið. Þess þá heldur var vanskráð mikið af samskiptum og annarrar vinnu vegna málsins. Rekur varnaraðili það bæði til þess að sóknaraðili var í erfiðri stöðu sem varnaraðili kveður sig hafa fundið til með og þar sem líðan sóknaraðila varð þess valdandi að samskipti voru mun meiri en ella auk þess sem sóknaraðili var með farsímanúmer varnaraðila og því hafi þau símtöl og skilaboð oftast ekki verið skrifuð niður. Bendir varnaraðili á að tölvupóstsamskipti í málinu hafi verið umtalsverð en 547 tölvupósta sé að finna í möppu málsins og því ljóst að tölvupóstsamskipti voru ekki öll færð í tímaskýrslu. Þá bendir varnaraðili á að hann hafi fyrst núna fengið greitt fyrir vinnu sem fór fram á tímabilinu janúar 2021 til júlí 2022, án nokkurra vaxta og greitt samkvæmt eldra tímagjaldi, ólíkt því sem gildi til dæmis í sakamálum þar sem ávallt sé greitt eftir því tímagjaldi sem sé í gildi þegar greitt er fyrir vinnu lögmanns. Sé sú regla heimfærð á þetta mál ætti sóknaraðili að greiða varnaraðila samkvæmt núverandi tímagjaldi 29.800 kr. auk virðisaukaskatts en ekki 25.800 kr. auk virðisaukaskatts.

Varðandi kvörtun yfir starfsháttum sínum byggir varnaraðili á því að engar forsendur séu fyrir því að áminna sig fyrir að setja ólögmæt skilyrði fyrir afhendingu gagna. Bendir varnaraðili á samskipti aðila til sönnunar um að engin skilyrði hafi verið sett fyrir afhendingu gagnanna. Um hafi verið að ræða misskilning lögmanns sóknaraðila, sem varnaraðili taldi að hefði verið leiðréttur þegar í stað, eins og fram kom í símtali lögmanna og tölvupósti sem liggur fyrir í málinu, enda hafi varnaraðili tekið öll gögn saman og reynt að ná í lögmann sóknaraðila til að koma gögnunum til hans innan við sólarhring eftir að sóknaraðili skipti um lögmann. Telur varnaraðili ljóst að lögmaður sóknaraðila hafi fengið gögnin afhent tveimur sólarhringum eftir að sóknaraðili skipti um lögmann, og um leið og það náðist af honum tal til að fá nauðsynlegar upplýsingar til að senda gögnin með flugi. Slíkt geti að mati varnaraðila ekki talist óeðlilegur tími þegar taka þurfi til gögn og senda landshluta á milli í miðju sumarleyfi. Með greinargerð sinni leggur sóknaraðili fram tölvupóst til sóknaraðila síðan 12. ágúst 2022 þar sem sundurliðuð tímaskýrsla vegna vinnu í þágu sóknaraðila er sett í viðhengi.

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar bendir hann á að tímaskráning varnaraðila sé nú tvískipt og virðist önnur skráin eiga að sýna vinnustundir við héraðsdómsmálið um eignaskipti en hin skráin vinnustundir við önnur verkefni fyrir varnaraðila. Bendir sóknaraðili á að þetta sé önnur útgáfa af vinnuskýrslum varnaraðila en hann hafði áður látið frá sér.

Bendir sóknaraðili á að í hinni nýju útgáfu vinnuskýrslunnar komi fram að vinna tengd skiptamálinu hafi verið 55 klst. og að krafa fyrir það verkefni hafi með virðisaukaskatti átt að vera 1.759.560 kr. Þannig telur sóknaraðili greinilegt að krafa varnaraðila um greiðslu gegn afhendingu málaskjalanna hafi verið langt umfram það sem hæfilegt gæti talist. Samkvæmt hinni nýju útgáfu tímaskýrslunnar komi fram að aðrir kröfuliðir hafi verið samtals 43.08 klst. og spanni tímabil frá 16. desember 2020 til 20. júlí 2022 sem samsvarar 1.397.215 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði.

Sóknaraðili áréttar að hann byggi kröfur sínar í málinu ekki á því að lögmaður beri ábyrgð á niðurstöðum dómstóla. Sóknaraðili telji hins vegar að gera verði ríkar kröfur til lögmanna um að þeir vandi til verka og gæti hagsmuna skjólstæðinga sinna með vönduðum vinnubrögðum. Bendir sóknaraðili á að lögmenn starfi sem sérfræðingar á sínu sviði og ábyrgð sérfræðinga á vinnubrögðum sé afar rík. Sú ábyrgð endurspeglist m.a. í háu tímagjaldi sérfræðinga eins og lögmanna.

Vísar sóknaraðili til þess að hvergi í málatilbúnaði varnaraðila megi finna nokkuð sem hreki lýsingar sóknaraðila á þeirri atburðarás sem varð í kjölfar þess að sóknaraðili fól öðrum lögmanni að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar. Varnaraðili hafi verið í sumarleyfi þegar það gerðist og hugðist vera í fríi það sem eftir lifði kærufrests í málinu. Þá hafi viðbrögð varnaraðila við þeim tíðindum að sóknaraðili hafi fengið annan lögmann til að taka að sér kærumálið einkennst að mati sóknaraðila af einhverskonar sárindum, enda þótt ljóst sé að varnaraðili hafi ekki haft réttindi til að reka kærumálið fyrir Landsrétti.

Í málsútlistun varnaraðila er ekki mótmælt því að gögn um málflutning hafi ekki fylgt með þegar hann afhenti sóknaraðila málsgögnin úr héraðsdómsmálinu. Því sé ekki heldur haldið fram að hann hafi ekki fengið athugasemdir um að málflutningsræða og framlögð hliðsjónarrit hefðu ekki fylgt með. Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili krefji sig um greiðslu á samtals 14,25 klst. vegna vinnu við samningu málflutningsræðu og samantekt hliðsjónargagna. Þótt málflutningur sé vissulega munnlegur telur sóknaraðili ljóst að varnaraðili hafi samið skriflega málflutningsræðu og tekið saman hliðsjónargögn sem vitnað hafi verið í í málflutningi. Telur sóknaraðili sjálfsagt og rétt að slík gögn fylgi með málsskjölum þegar þau voru afhent, en þá vinnu hafi varnaraðili haldið eftir þrátt fyrir að halda eftir óhóflegri fjárhæð.

Að öðru leyti vísar sóknaraðili til greinargerðar sinnar til nefndarinnar.

V.

Í viðbótarathugasemdum til nefndarinnar ítrekaði varnaraðili að engin áform hafi verið um að halda eftir neinum gögnum og telur hann það augljóst af samskiptum aðila. Þar af leiðandi sé engin lögmæt krafa fyrir hendi um afhendingu gagnanna, þar sem um sé að ræða misskilning lögmanns sóknaraðila, sem hafi verið margleiðréttur áður. Þá áréttar varnaraðili fyrri málsatvikalýsingar um tímamark beiðninnar um afhendingu gagnanna og þá samskiptakosti sem sóknaraðila stóð þrátt fyrir það til boða en nýtti sér ekki. Kveðst varnaraðili hafa staðið í góðri trú um að málið væri frágengið. Varðandi tímaskýrsluna sem hann lagði fram kveður hann um sömu tímaskýrslu að ræða sem lögð er fram af hálfu sóknaraðila og af sinni hálfu, nema að henni hafi verið skipt upp í tvennt til að geta með einfaldari hætti lesið úr tímaskráningunum en varnaraðili telur það hafa vafist fyrir sóknaraðila miðað við viðbótarathugasemdir hans til nefndarinnar. Telur varnaraðili ekkert athugunarvert hafa verið við þá þjónustu sem sóknaraðili fékk þar sem ávallt var leitast við að leysa málið eftir því sem best hentaði hag og þörfum kæranda eins og sakir stóðu hverju sinni og honum ávallt veitt sú þjónusta sem hann þarfnaðist hverju sinni.

Niðurstaða

I.

Erindi sóknaraðila er reist annars vegar á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en í því er lýst ósk um að nefndin endurskoði fjárhæð endurgjalds varnaraðila fyrir störf hans sína þágu. Varnaraðili hefur jafnframt óskað eftir því að nefndin leggi mat á hæfilegt endurgjald fyrir hans störf. Ástæða þess er sú að hann kveðst hafa gefið afslátt af kröfum sínum um þóknun samkvæmt tímaskráningu úr hendi sóknaraðila í góðri trú um að samkomulag gilti milli aðilanna um endurgjald varnaraðila, en raunin hafi reynst vera önnur.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Tímaskýrslu varnaraðila er gerð skil fyrr í lýsingu málsatvika og málsástæðum aðila. Eins og þar greinir telur tímaskýrslan 98,08 klst. Tímagjald varnaraðila á þeim tíma sem vinnan var unnin nam 25.800 kr. auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því taldi heildarkrafa samkvæmt tímaskrá 3.137.775 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti en eins og varnaraðili greindi fyrr frá var af hans hálfu gefinn afsláttur í góðri trú um að samkomulag lægi fyrir um endurgjald hans og veitti hann þess að auki greiðslufrest án vaxta þar til sóknaraðili fengi úthlutað úr búskiptunum og gæti staðið í skilum. Tímagjald varnaraðila í dag nemur til móts 29.800 kr. auk virðisaukaskatti. Ekki liggur fyrir í málinu verkbeiðni eða samningur sem skýrir með nákvæmari hætti hvernig aðilar sömdu um endurgjald varnaraðila eða fjárhæð þess. Þó virðist ekki ríkja ágreiningur um það í málinu að sóknaraðili hafi fellt sig við að greiða varnaraðila samkvæmt tímagjaldi og hafi greitt fyrstu reikninga varnaraðila vegna lögfræðiþjónustunnar sem eru utan tímaskráninga þessa máls. Þá hefur sóknaraðili ekki mótmælt tímagjaldi varnaraðila að fjárhæð 25.800 kr. auk virðisaukaskatt né verður séð að ágreiningur sé um það tímagjald milli aðila. Til móts nýtur engra gagna til stuðnings þess að varnaraðili hafi áskilið sér rétt til að miða við hærra tímagjald en það sem var í gildi þegar vinnan var unnin, svo sem þess tímagjalds sem í gildi væri við uppgjör milli aðila. Verður því horft svo á að tímagjald varnaraðila vegna starfa hans í þágu sóknaraðila hafi numið 25.800 kr. auk virðisaukaskatts.

Tímaskýrsla varnaraðila vegna vinnu tengdri dómsmálarekstri héraðsdómsmálsins telur 55 klst. Þar af 23,5 klst. í undirbúning greinargerðar, yfirferð, samskipti við sóknaraðila vegna greinargerðar, dómaskoðun o.fl., 2 klst. í mætingar í fyrirtökur, 3,25 klst. í vinnu tengda gjafsóknarleyfi, 14,25 klst. í vinnu tengda undirbúningi aðalmeðferðar, þ.m.t. yfirferð vitna, vitnaspurningar, dómaskoðun, vinna að málflutningsræðu o.fl., 5,5 klst. í aðalmeðferð og 6,5 klst. í aðra vinnu tengda málarekstrinum, þ.m.t. öll samskipti vegna málsins, fundi með sóknaraðila o.fl. auk vinnu við yfirferð úrskurðarins og að kynna sóknaraðila niðurstöðuna. Að mati nefndarinnar eru tímaskráningar varnaraðila ekki úr hófi eða umfram það sem vænta má að lögmaður leggi í málarekstur fyrir héraðsdómstóli.

Tímaskýrsla varnaraðila utan vinnu við téð dómsmál telur til móts 43,08 klst. Vinnan fólst í ýmsum verkefnum allt frá því áður en lögð var fram krafa um opinber skipti fram til þess tíma sem sóknaraðili fól öðrum lögmanni að taka við hagsmunagæslu sinni. Um var að ræða vinnu á tímabili frá 16. desember 2020 til 20. júlí 2022 eða yfir nítján mánaða tímabili og fólst vinnan m.a. í miklum fjölda samskipta við sóknaraðila, lögmann gagnaðila, skipstjóra o.fl. aðila auk verkefna á borð við kröfu um framfærslulífeyri fyrir sóknaraðila og eftirfylgni, vinnu í tengslum við kröfu um opinber skipti, gagnaöflun, mætingu á dómþing vegna skiptakröfu, samskipti við skiptastjóra, undirbúningur og mæting á skiptafundi, samskipti við sýslumann, vinna gagnvart lögreglustjóra, dómaleit og undirbúningur fyrir skiptafund, vinna vegna verðmata, vegna sölu á ökutæki o.m.fl.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilið endurgjald vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila niður fyrir þá fjárhæð sem áður var greidd. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem sóknaraðili áskildi sér vegna starfa í þágu varnaraðila hafi verið hæfileg. Sóknaraðili hefur ekki gert athugasemdir við einstaka færslur í tímaskýrslu varnaraðila eða mótmælt réttmæti þeirra heldur hefur borið því við að endurgjaldið sé úr hófi miðað við hagsmunina og gæði vinnunnar. Á það verður ekki fallist að mati nefndarinnar en hins vegar þykir ekki heldur efni til að fallast á að endurgjald varnaraðila verði endurskoðað til hækkunar. Eins og atvikum málsins öllum var háttað telur nefndin að áður greitt endurgjald til varnaraðila vegna starfa hans í þágu sóknaraðila að fjárhæð 3.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti sé hæfilegt.

II.

Hins vegar er erindi sóknaraðila reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sú háttsemi sem sóknaraðili kvartar undan er annars vegar sú að hafa ekki gætt hagsmuna sinna af kostgæfni og hins vegar að hafa beitt haldsrétti sínum með óhóflegum hætti og umfram haldsrétt lögmanna að siðareglum.  

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Samkvæmt 18. gr. sömu laga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, sem hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert lögmanni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. gildir haldsréttur lögmanns ekki, ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef umboð hans er afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum, sbr. 2. mgr. sömu reglna.

Af gögnum málsins má að mati nefndarinnar ráða að varnaraðili hafi ekki beitt haldsrétti í gögnum sóknaraðila. Það að varnaraðili hafi vísað til heimildar til þess að beita haldsrétti þar til greitt hafði verið fyrir þjónustu hennar felur að mati nefndarinnar ekki í sér að varnaraðili hafi raun beitt haldsrétti enda liggur fyrir að hún sendi lögmanni sóknaraðila gögnin degi síðar. Í 2. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna eru haldsrétti lögmanns settar þær skorður að hann gildir ekki ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Fyrir liggur að varnaraðili afhenti gögn í máli sóknaraðila þegar eftir því var leitað, þrátt fyrir að hafa ekki fengið greitt fyrir sína vinnu, enda lá fyrir að hald gagnanna hefði getað valdið sóknaraðila réttarspjöllum. Af þeim sökum var háttsemi varnaraðila að mati nefndarinnar í fullu samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna.

Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á það með hvaða hætti varnaraðili hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart sóknaraðila eða viðhaft óforsvaranleg vinnubrögð við rækslu starfa í hans þágu. Varnaraðili hefur veitt skýringar á því hvernig ákvarðanatöku í málinu var háttað, þ.m.t. að hann hafi bókað um og ítrekað við skiptastjóra að varðað gæti við frávísun að beina ágreiningi aðila til dómstóla án þess að fyrir lægi skýrari upplýsingar um verðmæti eigna búsins. Þá hefur sóknaraðili ekki mótmælt þeim skýringum varnaraðila að hann hafi ekki getað ábyrgst kostnað verðmatanna og því ekki viljað halda þeirri kröfu til streitu, en sú skýring er til að mynda í samræmi við fjárhagsstöðu sóknaraðila á þessum tíma, sem óumdeilt er að stóð þá ekki í skilum við varnaraðila vegna vinnu hans við málið. Jafnframt hvers vegna ekki hafi verið lagður meiri þungi við rekstur héraðsdómsmálsins á að óheimilt hafi verið af hálfu skiptastjóra að beina ágreiningi aðila fyrir dómstóla án þess að verðmæti eigna búsins lægi skýrar fyrir. Þá ber að horfa til þess að í úrskurði Hæstaréttar í málinu var staðfest að um var að ræða skyldu sem hvíldi á skiptastjóra óháð öðru og því ekki um að ræða atriði á ábyrgð varnaraðila.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hennar í þágu sóknaraðila, A, að fjárhæð 3.000.000 kr.  felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Grímur Sigurðsson

Helgi Birgisson

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

Eva Hrönn Jónsdóttir