Mál 4 2023

Mál 4/2023

Ár 2023, þriðjudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2023:

A og B

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 31. janúar 2023 kvörtun sóknaraðila, A og B gegn varnaraðila, C lögmanni, vegna þeirrar háttsemi að nýta sér viðkvæmar upplýsingar um veikindi í fjölskyldu sóknaraðila í óheimilum tilgangi.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi þann sama dag þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 2. maí 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótar­athugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni þann 25. maí 2023. Viðbótarathugasemdir varnaraðila bárust nefndinni þann 26. júní 2023. Þann 9. júlí 2023 barst nefndinni síðan viðbótargagn frá varnaraðila og var sóknaraðila gefinn kostur til viðbótarathugasemda sökum þess sem bárust nefndinni þann 10. ágúst 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Hinn 11. maí 2021 lést D sem lét eftir sig auk eiginmanns sem nú er einnig látinn, tvær dætur sem eru sóknaraðilar í þessu máli og einn son sem er hálfbróðir systranna.

Í kjölfar andláts móðurinnar fékk annar sóknaraðila leyfi til einkaskipta dánarbúsins. Af  málatilbúnaði aðila má ráða að í kjölfar andlátsins hafi bróðurnum orðið kunnugt um að móðirin hafi látið útbúa fyrir sig erfðaskrá á Spáni í tengslum við fasteign sem hún átti þar og eftirlátið sóknaraðilum einum eignina. Sonurinn leitaði til varnaraðila til að gæta hagsmuna sinna vegna dánarbússkiptanna með umboði dags. 27. september 2021.

Við skipti dánarbúsins stóð til að selja fasteignir dánarbúsins, bæði framangreinda og fasteign þess á E. Samkvæmt bréfi fasteignasala til annars sóknaraðila fékk hann tilkynningu þann 30. september 2021 um umboð varnaraðila og að leyfi umbjóðanda varnaraðila til annars sóknaraðila til einkaskipta á dánarbúinu væri afturkallað. Sama dag hafi varnaraðili verið boðaður til fasteignasalans til undirritunar afsals fyrir hönd umbjóðanda síns og fengið öll gögn vegna viðskiptanna send rafrænt. Að sögn fasteignasalans var ítrekað reynt að fá varnaraðila til að koma og undirrita afsalið en varnaraðili afboðað sig símleiðis stuttu fyrir ákveðinn tíma þar sem hann hafði ýmist lent í því að keyrt hafði verið á hann eða verið staddur í fangelsi með skjólstæðingi. Loks hafi varnaraðili komið með umboð þann 21. október 2021 sem var ófullnægjandi að mati sýslumanns, enda náði það ekki til sölu eignarinnar.

Í öðrum tölvupósti fasteignasala til varnaraðila frá 21. október 2021 upplýsti fasteignasalinn varnaraðila um að sýslumaður hafi hafnað umboðinu þar sem það vantaði á að gætt væri að formskilyrðum umboðsins og vantaði tilgreiningu fastanúmers hinnar seldu eignar. Tók fasteignasalinn fram að þetta mál hefði dregist óþarflega mikið og að koma þyrfti umboðinu til hans með hraði svo kaupendur gætu fengið afsalið í hendur.

Svaraði varnaraðili póstinum næsta dag, þann 22. október 2021 og spurði samtímis m.a. að því hvort lögráðamaður kæmi fram fyrir hönd föður sóknaraðila, eiginmanns hinnar látnu við skipti dánarbúsins og hvort fasteignasalinn vissi hvort faðir sóknaraðila hafi verið sviptur fjárræði þar sem varnaraðila skyldist að hann væri með Alzheimer heilkenni.  Þá upplýsti varnaraðili um að umbjóðandi sinn kæmi til landsins í næstu viku og að umboð hans bærist í kjölfarið til fasteignasalans. Hafa sóknaraðilar í erindi sínu til nefndarinnar kvartað sérstaklega undan þessari miðlun persónuupplýsinga um föður sinn af hálfu varnaraðila til fasteignasalans, sem þeir telja með öllu ólíðandi og ólögmæta. Það sé rétt að faðir þeirra sé langveikur með Alzheimer heilkenni og hafi bróðir hans verið skipaður sérstakur lögráðamaður hans um árabil. Í málinu liggur fyrir að bróðirinn var þann 21. júní 2021 skipaður sérstakur lögráðamaður föður sóknaraðila við dánarbússkipti hinnar látnu. Samkvæmt sóknaraðilum samþykkti bróðirinn að annar sóknaraðilanna færi með einkaskipti dánarbúsins fyrir hans hönd og allar ráðstafanir sem fram hafa farið frá þeim tíma vegna búskiptanna. Þetta hafi umbjóðandi varnaraðila vitað lengi og átt ekkert erindi í tölvupósti varnaraðila.

Lýsir fasteignasalinn því að varnaraðili hafi þá fengið umboð útbúið af starfsmanni fasteignasölunnar og varnaraðili skilað því til þeirra síðar en það umboð reynst ófullnægjandi því það var afrit en ekki frumrit sem þurfti til.

Á endanum hafi svo farið að sögn fasteignasalans að þegar þeir hafi reynt að fá frumritið aftur hafi umbjóðandi varnaraðila mætt sjálfur og gengið í verkið. Þetta hafi verið í kringum 26. eða 27. október 2021 en afsalið þó verið útgefið þann 1. október 2021, það undirritað 26. október 2021, afhent sýslumanni næsta dag og loks þinglýst 28. október 2021.

Erfingjar freistuðu þess að ljúka skiptum dánarbús móðurinnar með einkaskiptagerð. Að sögn sóknaraðila gekk erfiðlega frá upphafi að ná í varnaraðila og fá afstöðu umbjóðanda hans vegna skiptanna fram. Fyrir liggur að þann 22. desember 2021 sendi lögmaður fyrir hönd sóknaraðila tillögu að einkaskiptum dánarbúsins á varnaraðila þar sem óskað var eftir afstöðu umbjóðanda hans til tillögunnar. Frá þeim tíma fram til maímánaðar 2022 gekk lögmaður sóknaraðila ítrekað á eftir afstöðu frá varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda síns og varnaraðili svaraði þeim ítrekunum ýmist á þá leið að afstaða umbjóðandans væri væntanleg á næstu dögum, eða með afstöðu um að hann teldi að umbjóðandi hans hyggjast mótmæla gildi erfðaskrárinnar og fara með það mál fyrir dómstóla. Kom þá til tals milli erfingja Spánareignarinnar en það ku hafa verið erfiðleikum bundið að selja hana án samþykkis allra erfingja, umbjóðanda varnaraðila meðtöldum, sem var ekki reiðubúin til að samþykkja slíkt á þeim tíma samkvæmt svörum varnaraðila. Var eignin þess í stað lánuð til að forða búinu frá frekara tjóni en um það fjölluðu lögmenn í samskiptum sínum meðal annars.

Eftir endurtekna tölvupósta sem liggja fyrir í málinu funduðu aðilar loks saman á skrifstofu lögmanna sóknaraðila þann 20. maí 2022. Aðila greinir á um það hvað fór nákvæmlega fram á fundinum, hvaða orð voru látin falla og hver niðurstaða fundarins hafi verið. Sóknaraðilar hafa borið því við að varnaraðili hafi látið óviðurkvæmileg orð falla m.a. um móður þeirra og sýnt af sér mikinn dónaskap og háttsemi sem var með öllu ólíðandi. Varnaraðili lýsir fundinum með allt öðrum hætti og að hann hafi farið vel fram og varnaraðili gætt þess að sýna fulla tillitssemi til sóknaraðila vegna málsins. Vísar varnaraðili í bréf lögmanns sóknaraðila í kjölfar fundarins þar sem lögmaðurinn þakkar varnaraðila fyrir góðan fund, sem varnaraðili segir vera til sönnunar um að svo hafi einmitt verið, en því hafa sóknaraðilar mótmælt sem rangtúlkun og orðin hafi varðað það að loksins hafi náðst einhver sátt í málinu öllu.

Óumdeilt er að á fundinum var meðal annars fjallað um spænsku erfðaskránna sem umbjóðandi varnaraðila mun hafa viljað að yrði ógilt eða horft framhjá við skiptin og sóknaraðilar verið reiðubúnir til að fallast á að yrði gert til að ljúka skiptunum skjótt og einfaldlega að öðru leyti. Í kjölfar fundarins hafi varnaraðili hins vegar farið að óska eftir frekari gögnum og upplýsingum og ekki orðið úr fyrirheitum um endalok búskiptanna og því hafi sóknaraðilar séð sig tilneydda að óska opinberra skipta á búinu.

Í tilefni fundarins og erindis sóknaraðila til nefndarinnar gáfu lögmenn sóknaraðila út yfirlýsingu til nefndarinnar þar sem þeir hafna í heild frásögn varnaraðila af fundinum sem fram kom í greinargerð hennar til nefndarinnar. Telja lögmennirnir ekki við hæfi af hálfu varnaraðila að nýta sér tölvupóst lögmanna með þessum hætti, úr samhengi og algjörlega án samráðs. Kveðst lögmaðurinn sem ritaði tölvupóstinn hafa átt það eitt með orðunum að fundurinn hafi verið góður að varnaraðili hugðist gera ráðstafanir í tengslum við sölu á fasteign búsins á Spáni þannig að hvorki dánarbúið né kaupandi yrði fyrir tjóni, en fyrirhuguð sala eignarinnar hafði verið í mikilli óvissu þar sem erfiðlega hafði gengið að fá afstöðu og tilskilin gögn frá varnaraðila og/eða umbjóðanda hans. Þá hafi varnaraðili að sögn lögmannanna á fundinum í fyrsta sinn gefið afstöðu umbjóðanda síns til ágreiningsefna sem búið hafði verið að ganga eftir í marga mánuði. Það hafði verið jákvæð hreyfing að mati lögmannanna og því hafi tölvupósturinn hafist á þeim orðum. Í kjölfarið hafi hins vegar ekkert orðið úr því sem sammælst hafði verið um á fundinum. Í yfirlýsingunni segir m.a. að mati lögmannanna hafi framkoma varnaraðila gagnvart sóknaraðilum verið ófagleg, skort virðingu og orðræða varnaraðilans um sóknaraðila og móður þeirra heitinna verið sérkennileg. Lýsa lögmennirnir í dæmaskyni að varnaraðili hafi byrjað fundinn á að spyrja hvort sóknaraðilar væru ekki tilbúnir að „reykja friðarpípuna“. Þá hafi varnaraðili spurt sóknaraðila af hverju veik kona hafi verið að kaupa sér íbúð á Spáni eftir að maðurinn hennar væri orðinn þetta veikur. Segir í yfirlýsingunni að fleiri ónærgætin orð hafi verið látin falla af hálfu varnaraðila á fundinum. Lýsa lögmennirnir framkomu varnaraðila sem ónærgætinni gagnvart sóknaraðilum og ummælin sem varnaraðili viðhafði ekki við hæfi og enga þýðingu hafa haft varðandi afstöðu umbjóðenda hans til málefnisins.

Í kjölfar þessa var búið var tekið til opinberra skipta og Stefán Árni Auðólfsson lögmaður skipaður skiptastjóri yfir búinu. Að ósk sóknaraðila skilaði hann yfirliti yfir skiptafundi í dánarbúinu fram til 24. maí 2023. Í þeirri samantekt kemur fram að haldnir hafi verið þrír skiptafundir í dánarbúinu. Sá fyrsti þann 5. október 2022 til að erfingjar gætu lýst kröfum sínum. Varnaraðili boðað forföll samdægurs vegna umferðaróhapps. Næsti fundur fór fram þann 12. október 2022. Tilgangur fundarins var að afla upplýsinga frá varnaraðila um afstöðu umbjóðanda hans og hvort hann hefði í hyggju að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um skiptin eða sérkröfum. Varnaraðili mætti ekki né boðaði forföll. Þá fór fram skiptafundur þann 29. mars 2023 í því skyni að fara yfir stöðu skipta og gera grein fyrir mögulega lyktum málsins. Varnaraðili boðaði forföll samdægurs vegna umferðaróhapps.

Varnaraðili fékk framlengda fresti til að skila greinargerð til nefndarinnar og skilaði vottorði frá lækni til nefndarinnar þess efnis að hann hafi verið óvinnufær með öllu á tímabilinu 15. mars 2023 til 6. maí 2023.

Meðan mál þetta var til umfjöllunar fyrir nefndinni skilaði umbjóðandi varnaraðila bréfi til nefndarinnar til að skýra frá sínum sjónarmiðum vegna málsins alls. Tók umbjóðandi varnaraðila þar fram að varnaraðili hafi unnið málið allt í samráði við sig og svarað erindum og öðru í samræmi við sín fyrirmæli. Lýsir varnaraðili í því til hvers hann hafði óskað af varnaraðila og telur fráleitt að halda því fram að varnaraðili hafi vegið að sér með því að fara að sínum fyrirmælum. Segist umbjóðandinn hafa þurft tíma til að hugsa málin sín vandlega og fjallar um framvindu skiptanna og starfshætti varnaraðila sem hann telur með öllu til fyrirmyndar og óskar þess að nefndin úrskurði varnaraðila í vil í málinu.

Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðilar byggja á því að varnaraðili hafi gerst brotleg gegn siðareglum lögmanna í starfi sínu sem lögmaður gagnaðila þeirra í máli vegna einkaskipta á dánarbúi móður þeirra sem nú sé farið í opinber skipti vegna ágreinings og samskiptaleysis sem ekki hafi verið hægt að sjá fyrir endann á.

Umfram það sem framar greinir lýsa sóknaraðilar málsatvikum sem svo að þann 29. september 2021 hafi lögmenn þeirra upplýst um að varnaraðili hafi haft samband og kynnt sig sem lögmann hálfbróður síns, umbjóðanda varnaraðila. Fyrir þann tíma hafði annar lögmanna sóknaraðila verið sameiginlegur lögmaður allra lögerfingja vegna skipta á dánarbúi móður þeirra. Annar sóknaraðili hafði þá verið umboð fyrir hönd allra lögerfingja skv. ráðleggingum þar sem umbjóðandi varnaraðila var búsettur erlendis og faðir sóknaraðila með Alzheimer heilkenni.

Að sögn sóknaraðila var fyrsta verk varnaraðila undirritun á afsal vegna sölu á fasteign dánarbúsins fyrir hönd umbjóðanda síns sem fór nærri suður vegna seinagangs og ófagmannlegrar háttsemi varnaraðila. Í fyrsta lagi hafi varnaraðili uppljóstrað um veikindi föðurins í pósti til fasteignasölunnar. Þá hafi erfiðlega gengið að ná í hana til að klára söluna og varnaraðili frestað fundum við fasteignasöluna endurtekið, en loks þegar varnaraðili gaf færi á sér hafi hann lagt fram ófullnægjandi umboð til undirritunar fyrir hönd umbjóðanda síns. Þurfti starfsmaður fasteignasölunnar að útbúa lögformlegt umboð fyrir varnaraðila til að hægt væri að klára söluna í tæka tíð. Frá þeim tíma kveðast sóknaraðilar aldrei hafa móttekið löggilt umboð varnaraðila fyrir hönd umbjóðanda síns til að koma að málefnum hans með nokkrum hætti öðrum en að annast hagsmuna hans. Vísa sóknaraðilar til erindis varnaraðila til fasteignasalans þar sem hann óskar þess að fasteignasalinn afli gagna sem sóknaraðilar telja varnaraðila hafa verið fullfæran um að afla sjálfur. Því hafi fasteignasalan orðið við. Kveðast sóknaraðilar síðan hafa fengið þær fregnir að ekki hafi verið unnt að ljúka við þinglýsingu afsalsins vegna fasteignarinnar fyrr en umbjóðandi varnaraðila kom sjálfur til landsins þar sem að sóknaraðili hafi aldrei gengið frá löggiltu umboði til að undirrita það fyrir hans hönd. Fram til þess tíma hafði varnaraðili frestað fundum að því er sóknaraðilar telja að ósekju og valdið búinu með því tjóni.

Að sögn sóknaraðila var ágreiningur í einkaskiptum búsins vegna fasteignar sem móðir þeirra átti á Spáni en samkvæmt erfðaskrá væru sóknaraðilar einir erfingjar fasteignarinnar en af því sem sóknaraðilar skyldu af samskiptum lögmanna þeirra hafi varnaraðili viljað véfengja þá erfðaskrá. Hins vegar hafi sóknaraðilum aldrei borist nein gögn um slíkt né slík krafa. Því hafi lögmenn sóknaraðila haldið áfram störfum við gerð einkaskiptagerðar fyrir búið sem send hafi verið varnaraðila þann 22. desember 2021 en engin afstaða borist frá varnaraðila við henni. Því hafi einkaskiptagerðardrögin verið ítrekuð í tölvupóstum til varnaraðila og beiðni um afstöðu umbjóðanda hans í átta sinn á sex mánaða tímabili ásamt símtölum o.fl. Að sögn sóknaraðila hafði varnaraðili ætlað að óska eftir afstöðu umbjóðanda síns og láta vita á tilteknum tíma sem hann gerði þó aldrei eða sagst vera upptekinn við önnur störf en síðan ekkert haft samband aftur. Þá hafi sóknaraðili snúið út úr skilaboðum ítrekað og beðið um frekari gögn. En afstöðu umbjóðanda síns hafi hún aldrei sent. Að endingu hafi lögmaður sóknaraðila reynt að miðla málum með því að boða til fundar milli allra aðila málsins til að fá fram afstöðu en varnaraðili frestað honum á síðustu stundu.

Loks hafi fundur farið fram föstudaginn 20. maí 2022 á skrifstofu lögmanna þeirra sem sóknaraðilar hafi sótt ásamt lögmönnum sínum. Við það tilefni hafi varnaraðili mætt en bróðir hennar verið erlendis. Lýsa sóknaraðilar fundinum sem óþægilegum vegna undarlegrar háttsemi varnaraðila sem hafi hafið fundinn á málflutningi þar sem hún hafi sýnt af sér mikinn hroka og yfirlæti gagnvart þeim og lögmönnum þeirra, málinu og móður þeirra heitinni. Varnaraðili hafi vísað í móður þeirra heitna sem „þessa konu“ ítrekað áður en annar sóknaraðili hafi bent á að það væri ekki í lagi. Á undan því hafi hún vísað í móður þeirra á sama hátt í póstum sem lagðir eru fyrir nefndina sem sóknaraðilum þykir vanvirðandi og ósæmilegt orðalag varnaraðila í garð látinnar manneskju. Þá veifaði varnaraðili að sögn sóknaraðila útprentuðum drögum að einkaskiptum eins og ef um ómerkilegan pappír væri að ræða.

Lýsa sóknaraðilar sinni upplifun af fundinum sem svo að varnaraðili hafi beitt sig sálfræðihernaði. Hann hafi talað um umbjóðanda sinn sem brotinn mann sem ætti afar erfitt vegna málsins. Á fundinum hafi varnaraðili farið að lýsa tilfinningaheimi umbjóðanda síns og þegar sóknaraðilar hafi loks fengið tækifæri til að segja sína afstöðu og sínar tilfinningar um málið hafi varnaraðili þaggað þær niður í snatri og sagt það miður en að lögfræðingar væru ekki sálfræðingar og því væri slíkur málflutningur ekki við hæfi. Lýsa sóknaraðilar því að framhald fundarins hafi verið með sama hætti.

Lýsa sóknaraðilar framhaldi fundarins þannig að þegar tal barst að fasteign móður þeirra heitinnar á Spáni hafi varnaraðili farið að lýsa þeirri skoðun sinni að sú hugmynd móður þeirra heitinnar að kaupa fasteign í þeirri stöðu sem hún var í ein og á sínum aldri væri fráleit. Við það hafi fokið í sóknaraðila sem þótti framkoma varnaraðila ótilhlýðileg og að því er þeim virtist til þess eins fallin að særa aðstandendur hinnar látnu. Að sögn sóknaraðila kvað varnaraðili umbjóðanda sinn vilja ná sáttum og lýsti því yfir að hans eina krafa væri að erfðaskráin vegna fasteignarinnar á Spáni yrði ógilt eða litið yrði framhjá henni. Auk þess hafi umbjóðandi hennar viljað bjóða sonum annars sóknaraðila út til að vera hjá honum. Að sögn sóknaraðila mun varnaraðili hafa boðað það að hafa umboð til að samþykkja einkaskiptagerðina sem farið var yfir á fundinum lið fyrir lið að því gefnu að þau málalok yrðu að litið yrði framhjá erfðaskránni um fasteignina á Spáni. Kveðst sóknaraðilar hafa samþykkt að verða við kröfum umbjóðanda varnaraðila munnlega á fundinum enda hafi þeim verið mikið í mun að ljúka þeim dánarbússkiptum. Í kjölfar fundarins hafi varnaraðili óskað eftir því að lögmenn sóknaraðila sendu honum uppfærða töflu af arfshlutföllum þannig litið væri framhjá erfðaskrá móður þeirra auk þess að óska eftir söluumboði til handa umbjóðanda sínum þannig hægt væri að ganga frá sölu fasteignarinnar á Spáni.

Þá hafi varnaraðili sagst ætla að ganga í mál umbjóðanda síns á Spáni, og útvega umbjóðanda sínum nauðsynlega pappíra til að ljúka sölu fasteignarinnar þar í landi í samræmi við kröfur hans. Eftir því sem sóknaraðilar best viti hafi aldrei orðið úr slíkum aðgerðum þrátt fyrir að varnaraðila hafi verið sent söluumboð sem sóknaraðilar fengu frá fasteignasölunni sem búin var að selja fasteignina á Spáni.

Að mati sóknaraðila voru ummæli og framkoma varnaraðila á fundinum ónærgætin, vanvirðandi og ósæmileg og í öllu falli ófagleg.

Að sögn sóknaraðila var varnaraðili síðan ekki í sambandi við þá mánudaginn á eftir líkt og ákveðið hafði verið á fundinum. Síðdegis næsta dag hafi lögmaður sóknaraðila sent póst á varnaraðila og óskað eftir svörum og varnaraðili sagst myndi svara á föstudag. Á þeim tíma kveðast sóknaraðilar hafa verið orðnir vanir slíkum seinagangi frá varnaraðila. Þann föstudag hafi ekkert borist heldur og ítrekaði þá lögmaður þeirra aftur við varnaraðila. Á mánudag hafi varnaraðili svarað og frestað afstöðu frekar. Það kvöld hafi afstaðan borist frá varnaraðila sem hafi verið önnur en gefin var á fundinum um að klára skiptin í eitt skipti fyrir öll með sátt án þess að taka tillit til erfðaskrárinnar um Spánareignina. Að sögn sóknaraðila innihélt pósturinn rangfærslur og fjórar nýjar kröfur höfðu bæst við sem sóknaraðilar töldu óraunhæfar og ekki til þess fallnar að unnt væri að ná sáttum um skiptingu dánarbúsins. Þá hafi sóknaraðilar vísað búinu í opinber skipti sem gert hafi verið því sóknaraðilar hafi ekki talið sig geta treyst á að samkomulög yrðu virt og þann tíma sem lagður hafi verið í að reyna að ná fram afstöðu og svör.

Frá því að búið var tekið til opinberra skipta hafi verið boðað til skiptafundar og varnaraðili forfallast óvænt. Þá hafi verið boðað til annars fundar sérstaklega fyrir varnaraðila og hann ekki mætt né boðað forföll.  

Að sögn sóknaraðila sýndu þeir varnaraðila mikla þolinmæði enda var þeim mikið í mun að ljúka skiptum á dánarbúi móður sinnar í þeirri von að hægt væri að græða sár og takast á við sorg, enda hafi sóknaraðilar verið að syrgja fráfall móður sinnar sem var þeim djúpur harmur. Að mati sóknaraðila sýndi varnaraðili þeim enga þá nærgætni og nálgun sem málið gaf tilefni til og segja sóknaraðilar málareksturinn hafa tekið á sér andlega og þá sérstaklega fyrir tilstuðlan hegðunar varnaraðila.

Kveðast varnaraðila jafnframt hafa borið fjárhagslegan skaða af ófaglegum vinnubrögðum varnaraðila sökum ítrekaðra tafa og frestunar á svörum sem hafi kostað þau hundruð þúsunda í óþarfan kostnað sem auðveldlega hefði mátt komast hjá. Ótilhlýðileg samskipti við sig, talsmáti varnaraðila og uppljóstranir um heilsufarsstöðu föður síns ristir sóknaraðila enn djúpt að sinni sögn og setja þau spurningar við siðferðið að baki háttsemi varnaraðila.

Telja sóknaraðilar að varnaraðila sé ekki stætt að vera áfram aðili að málinu og telja ótækt að varnaraðili sé yfir höfuð fulltrúi fólks í málum sem varða viðkvæm erfðaréttarmál sem krefjast nærgætni. 

Telja sóknaraðilar að varnaraðili hafi nýtt sér viðkvæmar upplýsingar um veikindi í fjölskyldunni og dreift því til utanaðkomandi? aðila að ástæðulausu. Telja sóknaraðilar þá uppljóstrun óásættanlega og til þess fallna að valda þeim skaða auk þess að brjóta gegn 6. gr. siðareglna lögmanna.

Þá vísa sóknaraðilar til þess að varnaraðili hafi dregið svör og framgöngu málsins ítrekað svo vikum og mánuðum skiptir. Þá háttsemi telja sóknaraðilar hafa verið til þess fallna að valda þeim tilfinningalegum og verulegum fjárhagslegum skaða auk þess að stríða gegn 2. gr., 3. mgr. 8. gr., 34. gr. og 41. gr. siðareglna lögmanna.

Að sögn sóknaraðila ætlaðist varnaraðili til þess að þeir og aðrir útveguðu honum gögnum og upplýsingum sem hann gat í nafni síns starfs og stöðu aflað sjálfur. Við þeim kröfum hafi lögfræðingar sóknaraðila orðið til að flýta fyrir gangi málsins en nú verið krafist af hálfu varnaraðila að allur kostnaður við slíka gagnaöflun leggist á aðra aðila en umbjóðanda sinn. Slíka framgöngu telja sóknaraðilar fara í bága við 2. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Þá telja sóknaraðilar framgöngu varnaraðila gegn sér hafa verið að öðru leyti óásættanlega. Að mati sóknaraðila hefur varnaraðili í störfum sínum vanvirt látna móður þeirra í ræðu og riti og notað niðrandi og undarleg orð á fundum aðila. Álíta sóknaraðilar háttsemina vera alvarlegt brot á 34. gr. siðareglna lögmanna og benda þeir á að það stríði gegn 2. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður hagi sér með þeim hætti sem nánar greinir í málatilbúnaði þeirra öllum. Telja sóknaraðilar framgöngu sóknaraðila lögmannstéttinni hvergi til framdráttar.

III.

Varnaraðili hafnar því að hafa gerst brotlegur gegn siðareglum lögmanna.

Varðandi miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga bendir varnaraðili á að umbjóðandi hans hafi átt lögmætra hagsmuna að gæta af því að vita um alvarlegt heilsufar föður sóknaraðila og hvort hann hefði verið sjálfræðissviptur og ef svo væri hver væri lögráðamaður hans. Nú sé í ljós komið að umrædd fasteign hafi verið hluti af dánarbúinu og umbjóðandi varnaraðila talið rétt að vekja athygli fasteignasalans á mögulegu vanhæfi föður sóknaraðila til að undirrita skjöl er tengjast sölunni. Bendir varnaraðili á að ef síðar hefðu komið fram upplýsingar um vanhæfi föður sóknaraðila til að undirrita skjöl hefði það sett söluna í uppnám til tjóns fyrir alla hlutaðeigandi. Þá vísar varnaraðili til 8. gr. laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipta. Því hafi miðlun upplýsinganna verið nauðsynlegur liður í að tryggja að þar til bærir erfingjar eða lögráðamenn þeirra undirrituðu skjöl er varða söluna. Kveðst varnaraðili ekki hafa fengið upplýsingar um það hvort faðir sóknaraðila hafi verið sviptur sjálfræði vegna veikinda sinna heldur hafi sóknaraðilar vísað til þess að systir þeirra hafi verið með umboð allra erfingja og þeirra á meðal föðurins. Að mati varnaraðila verður að telja að miðað við upplýsingar með erindinu til nefndarinnar þess efnis að faðir þeirra sé með Alzheimer heilkenni hafi hann ekki haft hæfi til að veita umboð vegna meðferðar og sölu dánarbúsins.  

Varnaraðili hafnar því sem röngu að nokkur hætta hafi verið á riftun á sölu fasteignar dánarbúsins vegna seinagangs af sinni hálfu. Vísar varnaraðili til þess að kaupsamningur um eignina hafi verið undirritaður 10. september 2021 og afsal útgefið 1. október 2021. Því hafi salan gengið hratt og vel fyrir sig. Þá hafi engin gögn verið lögð fram til stuðnings um yfirlýsingu tilboðsgjafa um riftun og er það því með öllu ósannað.

Varðandi umboðið til að undirrita afsal fasteignar dánarbúsins fyrir hönd umbjóðanda síns lýsir varnaraðili málsatvikum sem svo að hann hafi útbúið umboð með víðtækum heimildum til að undirrita skjöl, gera samninga, taka við greiðslum o.s.frv. Þetta umboð kveðst varnaraðili hafa afhent fasteignasalanum en þinglýsingastjóri talið það ófullnægjandi þar sem það tæki ekki sérstaklega til tilgreindrar fasteignar. Kveðst varnaraðili þá hafa farið í að gera umboð og sent umbjóðanda sínum slíkt, en hann búi í Noregi og hafi póstlagt til hennar rangt umboð. Varðandi athugasemdir sóknaraðila um að fasteignasali hafi haft aðkomu að gerð umboðs og afhendingu gagna vísar varnaraðili til þess að umbjóðandi sinn hafi verið einn af eigendum fasteignarinnar og þ.a.l. einn þeirra sem greiddi fasteignasalanum þóknun fyrir aðstoð við sölu eignarinnar. Hafi það því verið á ábyrgð fasteignasalans að salan í heild sinni og þau skjöl sem útbúin voru væru í lögmætu formi enda hafi hann fengið hátt í eina milljón króna í sinn hlut fyrir störfin. Telur varnaraðili ekkert sérkennilegt við að hann hafi beðið fasteignasalann um að afhenda afrit skjala sem þegar voru í vörslum fasteignasalans fremur en að fara sjálfur að leggja í kostnað í öflun skjalanna.

Varðandi ágreining um fasteignina á Spáni og spænsku erfðaskrá móðurinnar vísar varnaraðili til þess að umbjóðandi hans hafi frá upphafi ætlað að bera lögmæti hennar og gildi undir íslenska dómstóla. Hann hafi, í kjölfar þess áfalls sem hann  hafi orðið fyrir þegar hann fékk vitneskju um þann löggerning hinnar látnu, óskað tíma og andrýmis til að hugsa málin. Segir varnaraðili þá ósk umbjóðanda síns hafa hentað ágætlega því á þessum tíma hafi verið mikið álag á stofunni hans og því var ekki hreyft andmælum við því að leyfa vikunum þannig að líða.

Varðandi fundinn með sóknaraðilum og lögmönnum þeirra lýsir varnaraðili málsatvikum með allt öðrum hætti. Kveðst hún hafa byrjað fundinn á að votta sóknaraðilum samúð sína vegna fráfalls móður þeirra. Sjálf hafi hún misst móður sína og gert sér vel í hugarlund hver líðan sóknaraðila væri. Kveðst varnaraðili hafa boðist til að byrja fundinn og allir viðstaddir samþykkt það. Fundurinn hafi að mati varnaraðila farið vel fram í alla staði og fullrar kurteisi og tillits verið gætt. Hafi fundurinn verið með slíkum ágætum að lögmaður sóknaraðila sendi honum tölvupóst daginn eftir og þakkaði sérstaklega fyrir góðan fund. Hafnar varnaraðili því að hafa verið hrokafullur, dónalegur og tillitslaus sem haldslausu. Eðli málsins samkvæmt hafi verið til umræðu viðkvæm málefni og upplifun sóknaraðila, annarra fundarmanna og varnaraðila sjálfs eflaust ólík. Hverju sem því líði hafnar varnaraðili því að hafa látið óviðurkvæmileg orð falla á þessum fundi. Þá bendir varnaraðili á að umbjóðandi hans hafi óskað eftir því að hann kæmi því á framfæri að hann væri í uppnámi, en teldi skiptin myndu leysast vel.

Lýsir varnaraðili því að í kjölfar fundarins hafi hann átt samræður við skjólstæðing sinn sem hafi óskað sérstaklega eftir tilteknum upplýsingum áður en hann tæki endanlega ákvörðun í málinu. Að sögn varnaraðila var tekið illa í það og það sem næst hafi gerst verið að samerfingjar óskuðu opinberra skipta. Búið hafi verið tekið til opinberra skipta og hlutverk skipstjóra að annast búskiptin. Það sé nú hlutverk hans að bregðast við kvörtunum, kröfum, yfirlýsingum og öðru. Margir mánuðir séu liðnir síðan varnaraðili sendi fyrir hönd umbjóðanda síns, kröfu að því er varðar ógildingu fyrrgreindrar erfðaskrár til skiptastjóra og beiðni um könnun skiptastjóra um mögulegan fyrirframgreiddan arf. Hafi skiptin dregist telur varnaraðili það ekki vera sökum sín eða umbjóðanda síns. Á þessu stigi máls sé verið að selja fasteignina á Spáni og ekki annað vitað en að skiptin gangi að öllu leyti vel. Bendir varnaraðili á að ef sóknaraðilar hafi athugasemdir við skiptin beri þeim að upplýsa dómara um það eða senda sérstaka kvörtun af því er varðar störf skiptastjóra til úrskurðarnefndarinnar.

Ítrekar varnaraðili að endingu að sem lögmaður sé hann ekki einráður um feril máls er hann tekur að sér. Umbjóðandinn sé verkkaupinn og ef hann óski eftir því að á máli verði tekið með tilteknum hætti beri lögmanni að fara eftir slíku, þó að því gefnu að fyrirmælin séu ekki umbjóðandanum í óhag eða ólögmæt.

Varðandi óskir nefndarinnar um greinargerð frá varnaraðila sem dróst fram úr ítrekuðum frestum til varnaraðila, vísar varnaraðili til þess að hafa verið frá störfum vegna veikinda og því ekki getað komist í að svara fyrr. Lagði varnaraðili fram vottorð með greinargerð sinni þar sem læknir vottar um að varnaraðili hafi verið óvinnufær með öllu á tímabilinu 15.3.2023 til 6.5.2023.

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar árétta þeir margt það sem áður kom fram og svara síðan sérstaklega atriðum úr greinargerð varnaraðila til nefndarinnar.

Telja sóknaraðilar seinagang varnaraðila í að skila greinargerð til nefndarinnar í samræmi við framkomu hans gagnvart þeim í tengslum við dánarbússkiptin. Benda sóknaraðilar á að frá þeim tíma sem erindi var beint til nefndarinnar, eða á um hálfu ári, hafi varnaraðili enn ekki fengist til að mæta á boðaða fundi með skiptastjóra. Varnaraðili hafi boðað forföll á síðustu stundu m.a. vegna umferðaróhapps sem sé hvorki í fyrsta né annað sinn sem varnaraðili hafi tilkynnt um slík slys sama dag og hann er boðaður á fund vegna dánarbússkiptanna því það hafi hann líka gert gagnvart fasteignasalanum og vísa sóknaraðilar til gagna í málinu því til stuðnings. Þykja sóknaraðilum þessar afsakanir varnaraðila ótrúverðugar. Þá vísa sóknaraðilar til endurtekinna fresta sem varnaraðili hefur fengið til að skila greinargerð til nefndarinnar og hafi hún ekki borist fyrr en gengið á þriðja mánuð eftir upphaflegan skilafrest. Telja sóknaraðilar þessar sífelldu tafir rýra traust og tiltrú fólks á lögmannsstéttinni og stríða gegn 2. og 12. gr. siðareglna lögmanna.

Varðandi miðlun viðkvæmra upplýsinga benda sóknaraðilar á að bróðir föður þeirra hafi verið skipaður málsvari föðurins þann 21. júní 2021 í skiptum á dánarbúinu í aðdraganda þess að sóknaraðilar sóttu um leyfi til einkaskipta. Það hafi verið nauðsynlegt vegna veikinda föðurins. Bróðirinn skrifar síðan undir að systir sóknaraðila yrði umboðsmaður fyrir hönd erfingja og var hann upplýstur um ferlið allt frá upphafi. Að sögn sóknaraðila hafði umbjóðandi varnaraðila vitað af alvarlegu heilsufari föður sóknaraðila um árabil og verið kunnugt um hver væri málsvari hans samkvæmt útgefnu leyfi sýslumanns. Systir sóknaraðila hafi verið með útgefið leyfi til einkaskipta frá sýslumanni og því hafi hún haft allan rétt til að selja fasteignina fyrir hönd föðurins. Þá hafi bróðir sóknaraðila einnig verið samþykkur sölunni og milli hans og sóknaraðila farið bæði samtöl og skilaboð tengd sölunni. Það hefði því að mati sóknaraðila átt að vera varnaraðila og umbjóðanda hans ljóst að faðir sóknaraðila væri með málsvara frá upphafi sem gætti hagsmuna hans í skiptum dánarbúsins. Því hafna sóknaraðilar málatilbúnaði varnaraðila þess efnis að salan hefði geta farið í uppnám ef ekki yrði brotinn trúnaður sem fyrirslætti og brot gegn 6. gr. siðareglna lögmanna.

Varðandi sölu fasteignar dánarbúsins benda sóknaraðila á að í bréfi fasteignasala komi fram að undirritun afsals hafi ekki farið fram fyrr en tæpum mánuði eftir að það var gefið út vegna þess að erfitt hafi reynst að ná í varnaraðila og einnig vegna þess að hann lagði aldrei fram fullnægjandi umboð til að annast söluna fyrir hönd umbjóðanda síns. Að endingu hafi umbjóðandi varnaraðila sjálfur þurft að koma og undirrita það því varnaraðila var aldrei fært að gera slíkt. Þá eigi lögmenn að mati sóknaraðila að vera hæfir um að útvega sér rétt umboð óháð aðstoð og leiðbeiningum fasteignasala. Mótmæla sóknaraðilar því að fasteignasalar eigi að bera ábyrgð á að lögmenn útbúi lögformleg form heldur eigi að mega ganga út frá því að lögmenn kunni til slíkra verka. Hafna sóknaraðilar því að söluþóknun fasteignasölunnar hafi einhverja þýðingu fyrir því að þeim hafi borið að vinna vinnu varnaraðila.

Varðandi spænsku erfðaskránna þá benda sóknaraðilar á að engin gögn hafi borist um afstöðu umbjóðanda varnaraðila til erfðaskrárinnar á Spáni þrátt fyrir margar ítrekanir frá lögmönnum sóknaraðila. Telja sóknaraðilar það fráleita afsökun fyrir endurteknum töfum að umbjóðandi varnaraðila hafi þurft andrými til að hugsa eftir áfall vegna vitneskju um erfðaskrána og mikið álag á skrifstofu varnaraðila. Að mati sóknaraðila er ljóst að varnaraðili hafi tafið málið með þessum gjörningi og seinagangi við undirritun afsals fasteignar dánarbúsins og af því leiði afdráttarlaust brot á 12. gr. siðareglna lögmanna. Varnaraðila hafi borið að reka málið með hæfilegum hraða en vanrækt það vísvitandi. Kveða sóknaraðilar sér óviðkomandi að annir varnaraðila hafi verið of miklar og þeir eigi ekki að þurfa líða fyrir það.

Með tilvísun lögmanns sóknaraðila í bréfi til varnaraðila um þakkir fyrir góðan fund hafi lögmaðurinn að sögn sóknaraðila aðeins átt við fundinn sem góðan í þeim skilningi að á honum hafi varnaraðili lofað að fara í málin hratt og örugglega, en hafði dregið málin svo mánuðum skipti í aðdraganda hans eins og fyrr greinir. Eftir fundinn hafi sóknaraðilar loks séð fyrir endann á þessu máli að því þeir töldu. Í þeim orðum hafi ekki átt að felast nokkur viðurkenning á því að varnaraðili hefði viðhaft góða framkomu enda séu lögmenn sóknaraðila sammála þeim um að fundurinn hafi verið verulega óviðeigandi á köflum.

Að mati sóknaraðila er hegðun varnaraðila undir opinberum skiptum dánarbúsins á sama hátt og við einkaskipti dánarbúsins. Kveða sóknaraðilar ástæðu þess að þeir hafi vísað búinu í opinber skipti vera að í kjölfar þess að hafa samþykkt kröfu umbjóðanda varnaraðila á fundinum gegn því að gengið yrði í skiptin án frekari dráttar, hafi málinu alls ekki verið fylgt eftir af varnaraðila. Þess í stað hafi hann haldið uppi sömu vinnubrögðum, tafið svör, snúið út úr og ekkert verið að marka það sem hann sagði. Sáu sóknaraðilar sig því tilneydda að krefjast opinberra skipta. Telja sóknaraðilar að kostnaður af dánarbússkiptunum sé umtalsvert meiri en nauðsyn hafi borið til vegna vinnubragða varnaraðila sem muni óhjákvæmilega koma niður á arfshlut umbjóðanda hans.

Þá ítreka sóknaraðilar upphaflegt erindi að því er varðar atriði sem varnaraðili svaraði ekki í greinargerð sinni til nefndarinnar. M.a. benda sóknaraðilar á að arfshlutur umbjóðanda varnaraðila sem upphaflega hefði verið um tvær milljónir króna fyrir greiðslu kostnaðar sé trúlega orðinn að litlu eða engu eftir að taka með í reikninginn málskostnað. Því hefði mátt komast hjá að mati sóknaraðila ef varnaraðili hefði ekki staðið því í vegi að leysa mætti ágreininga aðila með einföldum hætti.

Þá vísa sóknaraðilar í 44. gr. siðareglna lögmanna um að siðareglurnar séu ekki tæmandi talning á góðum lögmannsháttum. Sú háttsemi sem varnaraðili hefur viðhaft á að mati sóknaraðila ekki að líðast ámælislaust innan lögmannsstéttarinnar.

Sóknaraðilar brugðust síðan sérstaklega við bréfi umbjóðanda varnaraðila til nefndarinnar þar sem þeir telja að fram komi að varnaraðili hafi leyft skjólstæðingi sínum að stýra alfarið sínum gjörðum, þ.m.t. hvenær hann svari erindum, en að slíkt brjóti gegn siðareglum lögmanna. Vísar sóknaraðilar til 12. og 41. gr. siðareglna lögmanna í þessu samhengi.

Benda sóknaraðilar á sem dæmi um þetta að varnaraðila hafi verið send drög að einkaskiptagerð þann 22. desember 2021 en látið hjá líða að upplýsa um afstöðu umbjóðanda síns til hennar fyrr en nærri hálfu ári síðar. Í millitíðinni hafi lögmenn sóknaraðila sent fjöldamarga tölvupósta á varnaraðila sem lagðir voru fram til nefndarinnar með upphaflegri kvörtun, en í þeim sé afstöðu ítrekað lofað en aldrei staðið við það. Ítreka sóknaraðilar að hálft ár til að fá afstöðu við slíku sé verulega langur tími óháð því hvort hann hafi stafað frá varnaraðila sjálfum eða að tilstuðlan umbjóðanda hans.

Þá hafna sóknaraðilar því að þeir geti ekki myndað sér skoðun á varnaraðila sökum þess að hafa einungis hitt hann einu sinni. Benda sóknaraðilar á að þeir hafi m.a. ítrekað reynt að koma því í kring að hitta varnaraðila sem hafi boðað forföll fyrir alla fyrirhugaði fundi þeirra. Vísa sóknaraðilar í dæmaskyni til fundargerða skiptanna þar sem fram komi að varnaraðili hafi boðað forföll í þrígang, þar af tvisvar sinnum vegna umferðaróhappa skömmu fyrir fund. Í eitt sinn hafi hann síðan hvorki mætt né boðað forföll, en sérstaklega hafði verið boðað til þess fundar til að koma á framfæri kröfum umbjóðanda varnaraðila. Sóknaraðilar kveðast hins vera ávallt hafa sótt þá fundi og verið undirbúnir og reiðubúnir til að hitta varnaraðila.

Óháð því byggja sóknaraðilar á að störf lögmanna nái langt út fyrir fundarsetu og það sé ekki síst vegna starfa hennar utan fundanna sem erindi var lagt fyrir úrskurðarnefndina, vegna ámælisverðra vinnubragða varnaraðila vegna skipta á dánarbúi móður sóknaraðila.

Sóknaraðilar hafna því sem röngu að þeir hafi sett búið í opinber skipti vegna þess spurningar umbjóðanda varnaraðila hafi sett skiptin í uppnám. Hið rétta sé þolinmæði þeirra hafi verið á þrotum, sem varnaraðila hafi mátt vera ljóst enda lögmenn sóknaraðila ítrekað óskað eftir afstöðu sem aldrei barst og sóknaraðila tilkynnt hver næstu skrefin yrðu, með hæfilegum fyrirvara ef sættir tækjust ekki.

Benda sóknaraðilar á að varnaraðili hafi haldið uppteknum hætti áfram eftir að búið fór í opinber skipti og skiptastjóri óskaði eftir að varnaraðili mætti á fundi og lýsti kröfu og afstöðu umbjóðanda hans með lögbundnum hætti.

Ítreka sóknaraðilar að kvörtun þeirra snúist alfarið að vinnubrögðum varnaraðila sem hafi vanvirt móður þeirra heitna í ræðu og riti á fundi þeirra og vísa til fyrri málatilbúnaðar síns og gagna málsins því til stuðnings. Telja sóknaraðilar þá háttsemi varnaraðila ólíðandi, sér í lagi gagnvart syrgjandi erfingjum og viðkvæmum fjölskyldumálum.

V.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar til nefndarinnar og fyrri málatilbúnað.

Hafnar varnaraðili sérstaklega þeim athugasemdum sóknaraðila að hann hafi með ólögmætum dregið skipti dánarbúsins og valdið því fjártjóni, miðlað viðkvæmum persónuupplýsingum og sinnt starfi sínu seint og illa.

Þá áréttar varnaraðili að hann eigi engra fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna að gæta hvað skiptin varðar. Lýsir sóknaraðili því hvernig umbjóðandi sinn, einn erfingja dánarbúsins, leitaði til sín eftir ráðgjöf og óskaði eftir að hann tæki við málinu fyrir sína hönd. Hafði umbjóðandinn verið í litlu eða nánast engu sambandi við ættingja sína hér á landi um árabil. Taldi hann hentugra að lögmaður tæki við málinu fyrir sína hönd og kveðst varnaraðili hafa unnið í málinu í samvinnu við umbjóðanda sinn bæði varðandi kröfur, fyrirspurnir um einstaka þætti skiptanna og gagnaöflun eftir því sem umbjóðandinn óskaði eftir, líkt og varnaraðili telur rétt og eðlilegt að lögmaður geri.

Að sögn varnaraðila varð samkomulag á fundi hjá lögmönnum sóknaraðila sem gekk vel fyrir sig og að sögn varnaraðila áleit hann að sátt væri komin í málið. Í kjölfarið hafi umbjóðandi varnaraðila óskað eftir upplýsingum um kaupverð ökutækis hinnar látnu sem seld var systur umbjóðandans og kveðst varnaraðili ekki hafa geta aflað þeirra upplýsinga sjálfur þar sem þær komu ekki fram í tilkynningu um eigendaskipti. Jafnframt vildi umbjóðandinn frá upplýsingar um hvort arfur hafi verið greiddur fyrirfram til nokkurs erfingja. Að sögn varnaraðila leiddu þessar einföldu óskir umbjóðanda hans til þess að skiptin fóru í uppnám og sóknaraðilar óskuðu opinberra skipta. Að sögn varnaraðila hefði verið unnt að ljúka skiptum með einföldum og skjótum hætti ef þær upplýsingar hefðu verið veittar. Því mótmælir varnaraðili því að dráttur í málinu sé honum eða umbjóðanda hans að kenna. Gegn athugasemdum sóknaraðila í gagnstæða veru telur varnaraðili að sóknaraðilar hafi valdið umbjóðanda sínum tjóni með því að fara með svo einföld dánarbússkipti í opinber skipti.

Þá mótmælir varnaraðili harðlega málatilbúnaði sóknaraðila í sinn garð sem varnaraðili telur vega að æru sinni. Að mati varnaraðila hefur ferill þessa máls hvorki verið óvenjulegur eða óvenjulega langur. Þá telur varnaraðili að sóknaraðilar hafi samsamað sig skjólstæðingi sínum og áréttar varnaraðili að hann geti ekki borið ábyrgð á því að umbjóðendur sínir óski eftir að fá rými til umhugsunar varðandi réttarstöðu sína og framvindu mála sinna. Varnaraðili hafnar því að hafa svarað erindum seint og illa eða að starfshættir sínir hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna.

Þá bendir varnaraðili á að hann hafi einungis hitt sóknaraðila einu sinni á klukkutíma löngum fundi hjá lögmönnum þeirra. Telur varnaraðili með ólíkindum að sóknaraðilar telji sig geta borið sig slíkum ásökunum af svo stuttum kynnum, þ.m.t. að krefjast þess að hann verði sviptur lögmannsréttindum sínum. Þá bendir varnaraðili á að hann stjórni ekki einhliða ferli þessa máls heldur hafi málið verið unnið í samræmi við og samkvæmt óskum umbjóðanda síns. Þá hafi tíminn sem fór í einkaskiptin ekki verið óeðlilega langur, sér í lagi í ljósi þeirrar staðreyndar að umbjóðandi varnaraðila hafði litla sem enga vitneskju um eignir búsins, um hvort arfur hafi verið greiddur fyrirfram, um söluverðmæti ökutækis hinnar látnu o.fl.

Í ljósi þess tíma og vinnu sem farið hefur í að svara erindi sóknaraðila og ásökunum þeirra í sinn garð krefst varnaraðili í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar að nefndin úrskurði sér málskostnað úr hendi sóknaraðila sbr. 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndarinnar. Í málið kveðst varnaraðili hafa varið fimm klukkustundum samtals og krefst því að þeim verði gert að greiða sér 185.380 kr. í málskostnað vegna rekstur málsins fyrir nefndinni með vísan til tímagjalds varnaraðila. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar varnaraðili til þess að ekkert sé fram komið í málinu að sínu mati sem talist getur varða við aðfinnslu eða svo alvarlegt að svipta eigi sig lögmannsréttindum.

Varðandi viðbótarathugasemdir sóknaraðila við framlögðum pósti frá umbjóðanda varnaraðila sem fyrr er lýst, þá hafnar varnaraðili því alfarið að hafa sært æru látinnar móður sóknaraðila og bendir á að hann hafi ekki einu sinni nafngreint móður þeirra. Þá telur varnaraðili að sóknaraðilar gangi langt inn á trúnaðarsamband hans við skjólstæðing sinn þar sem þeir fullyrði að hann hafi gengið gegn vilja skjólstæðings síns. Þá hafnar sóknaraðili því alfarið að hafa tekið sína hagsmuni um málshraða fram yfir hagsmuni skjólstæðings síns.

Niðurstaða

I.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut og með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Í 1. mgr. 27. gr. sömu laga er kveðið á um að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Ofangreint ákvæði er afdráttarlaust um skyldu nefndarinnar til að vísa erindum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Líkt og fram kemur í málsatvikalýsingu og málsástæðuköflum framar í úrskurði þessum er kvartað yfir margvíslegri háttsemi varnaraðila í tengslum við dánarbússkipti móður sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila sem lést þann 11. maí 2021. Háttsemin, sem er margþætt, er að sumu leyti sundurgreinanleg svo sem einstaka framkoma varnaraðila líkt og á fundi aðila þann 20. maí 2022 og í tölvupósti varnaraðila þann 22. október 2021 en að öðru leyti snýr hún að háttsemi varnaraðila heilt á litið svo sem ítrekaðs seinagangs í svörun erinda sem lögmenn sóknaraðila og aðrir hafa til hans beint. Við mat á framangreindum ársfresti ber að líta til þess hvenær kostur var á að koma kvörtun á framfæri varðandi hvern einstakan kvörtunarlið. Að því virtu telur nefndin að liðið hafi verið meira en ár frá því að kostur var á að koma að framfæri kvörtun vegna ummæla sem varnaraðili lét falla í tölvupósti til fasteignasala þann 22. október 2021 þegar erindi sóknaraðila barst nefndinni þann 31. janúar 2023. Kemur það því ekki til úrlausnar í málinu.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Sú háttsemi varnaraðila sem sóknaraðilar kvarta undan og komið getur til úrlausnar í málinu er einkum sú að hafa á fundi aðila þann 20. maí 2022 sýnt af sér ósæmilega hegðun og vanvirt sóknaraðila og móður þeirra heitna í ræðu og riti. Jafnframt að hafa svarað erindum vegna málsins seint og illa og vanrækt fundarboðanir endurtekið allt með tilsvarandi kostnaði og fyrirhöfn fyrir sóknaraðila.

Ljóst er að aðila greinir talsvert á um hvað fór fram á fundi þeirra þann 20. maí 2022. Af frásögn sóknaraðila sem studd er yfirlýsingu lögmanna þeirra mætti ætla að varnaraðili hafi látið falla orð sem telja yrði ósæmileg og ónærgætin og þar af leiðandi ósamboðin lögmanni í lögmannsstörfum. Fyrir því liggur þó engin sönnun önnur en frásagnir sóknaraðila og yfirlýsing lögmanna þeirra sem ekki geta talist til hlutlausra vitna í málinu. Þá bera önnur gögn málsins ekki með sér að varnaraðili hafi sýnt af sér óvirðingu í þeirra garð í riti líkt og meðal annars er byggt á af hálfu sóknaraðila í málinu. Gegn andmælum varnaraðila telur nefndin því ósannað hvort og með hvaða háttsemi sinni og orðum varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila á fundi aðila þann 20. maí 2022.

Eftir stendur þá framkoma og háttsemi varnaraðila sem fellst í síendurteknum málsdrætti. Eins og greint er frá í lýsingu málsatvika og gögn málsins sýna tók verulegan tíma fyrir sóknaraðila og lögmenn þeirra að fá fram viðbrögð og afstöðu frá varnaraðila vegna umbjóðanda síns í málinu. Þannig liggur meðal annars fyrir í málinu að lögmaður sóknaraðila sendi varnaraðila drög að einkaskiptagerð þann 22. desember 2021 og óskaði skjótra viðbragða. Því erindi fylgdi lögmaður sóknaraðila eftir þann 11. janúar 2022 og kvaðst varnaraðili þá í svari þann næst dag vera að skoða það með umbjóðanda sínum. Engin svör höfðu borist þann 25. janúar 2022 og ítrekaði þá lögmaður sóknaraðila erindið. Þeirri ítrekun svaraði varnaraðili samdægurs á þann veg að umbjóðandi hans myndi taka ákvörðun fljótlega um framhaldið.  Óskaði lögmaður sóknaraðila sérstaklega eftir því að ekki myndi dragast á langinn að fá afstöðu umbjóðanda varnaraðila. Þurfti lögmaður sóknaraðila aftur að fylgja erindinu eftir 8. febrúar 2022 og svaraði varnaraðili þá að afstaða umbjóðanda hans ætti að liggja fyrir á næstu dögum. Enn fylgdi lögmaður sóknaraðila eftir erindinu 9. mars 2022 og aftur 11. apríl 2022 en við síðara svarbréf sköpuðust umræður vegna spánareignar hinnar látnu. Svaraði lögmaður sóknaraðila bréfinu með ítarlegu svari þann 13. apríl 2022  og varnaraðili aftur þann 20. apríl 2022 þar sem óskað var tiltekinna upplýsinga. Enn var ekki komin fram formleg afstaða umbjóðanda varnaraðila til einkaskiptagerðardraganna. Sendi lögmaður sóknaraðila annað ítarlegt bréf 2. maí 2022 þar sem brugðist var við upplýsingabeiðni úr pósti varnaraðila en bent á að varnaraðili hefði sjálfur umboð til að afla umbeðinna upplýsinga beint frá viðkomandi fjármálastofnun. Var við það tilefni ítrekuð ósk um afstöðu umbjóðanda varnaraðila. Svaraði varnaraðili á þann veg að hann væri upptekinn við greinargerðarskrif en myndi hafa samband á föstudag. Laugardaginn 7. maí 2022 ítrekaði lögmaður sóknaraðila erindið þar sem afstaðan hafði ekki borist og mikið lægi á henni.  Þá bauð lögmaðurinn upp á fund með varnaraðila til að liðka fyrir samskiptunum. Varnaraðili svaraði samdægurs og kvaðst muna hafa samband þriðjudaginn næsta þar sem greint yrði frá afstöðu umbjóðanda hans auk þess sem vikið var að beiðni um tilteknar upplýsingar. Svaraði lögmaður sóknaraðila fyrirspurninni um upplýsingarnar 9. maí 2022. Þann 12. maí 2022 ítrekaði lögmaður sóknaraðila þörfina á að halda dánarbúskiptunum gangandi og óskaði eftir fundi með varnaraðila. Varnaraðili kvaðst upptekinn í stefnuritunarvinnu en sagðist geta mætt til fundar viku síðar og sammæltust aðilar um tíma í tölvupóstsamskiptum næsta dag. Daginn fyrir fundinn boðaði varnaraðili forföll en kvaðst geta mætt degi síðar. Varð lögmaður sóknaraðila við því og boðaði til nýs fundar og óskaði eftir því að varnaraðili hefði fundinn í algjörum forgangi vegna ítrekaðra loforða varnaraðila um afstöðu umbjóðanda hans án þess að við slíkt hafi verið staðið og frestur til að ljúka einkaskiptunum liðinn í annað sinn vegna dráttarins. Þá greindi lögmaður sóknaraðila frá því að ef ekki tækist að leysa þennan ágreining skjótt sæju sóknaraðilar sér þann kost nauðungan að krefjast opinberra skipta á dánarbúinu. Í kjölfar fundarins þann 20. maí 2022 sendi lögmaður sóknaraðila tölvupóst og þakkaði fyrir fundinn og veitti upplýsingar um arfshlutföll ef horft yrði framhjá spánareigninni, sem ku hafa verið umtalsefni á fundinum og varnaraðili óskað eftir. Líkt og ofar greinir deila aðilar um hvað fór nákvæmlega fram á fundinum og hvort og hvaða niðurstaða hafi náðst á honum, en telja sóknaraðilar að varnaraðili hafi í kjölfar fundarins gengið á baki orða sinna og því hafi þeir ekki séð annað fært en að fara fram á opinber skipti dánarbúsins.

Í kjölfar þess að búið var tekið til opinberra skipta hefur verið boðað til þriggja skiptafunda, en varnaraðili ekki sótt neinn þeirra. Meðal annars var einn fundur sérstaklega boðaður til að ná fram afstöðu og kröfum umbjóðanda varnaraðila. Forfallaðist varnaraðili í eitt sinn án boðunar og í tvö skipti með forföllum boðuðum samdægurs.  Auk framangreinds liggur jafnframt fyrir að varnaraðili hafi forfallast á fund fasteignasala vegna sölu á eign dánarbúsins á E og dregið frágang afsals m.a. með seinum skilum á lögformlegu umboði til sölu eignarinnar en að lokum þurfti umbjóðandi varnaraðila sjálfur að mæta til fasteignasalans að undirrita umboðið. Telur nefndin þannig ljóst þegar horft er heildstætt á fyrirliggjandi upplýsingar að varnaraðili hafi ítrekað vanrækt það að svara erindum sem til hans var beint í tengslum við dánarbúskiptin og ítrekað forfallast á fundi sem boðað var á í tengslum við dánarbúskiptin, með forföllum sem boðuð voru almennt samdægurs og í að minnsta kosti eitt tilfelli án þess að boða forföll.

Telur nefndin að varnaraðili hafi með þeirri háttsemi sinni vanrækt skyldur sínar til að sýna gagnaðilum sínum fulla virðingu í ræðu riti og framkomu sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings síns og gerst brotlegur gegn skyldum sínum til að svara erindum sem honum berast í lögmannsstarfi hans án ástæðulauss dráttar sbr. 34. og 41. gr. siðareglna lögmanna. Fór sú háttsemi gegn skyldum varnaraðila samkvæmt lögum og siðareglum lögmanna og var ekki í samræmi við góða lögmannshætti. Var háttsemi varnaraðila til þess fallin að draga mál verulega ekki einungis fyrir umbjóðanda sinn heldur fyrir alla erfingja búsins og valda þeim tjóni í formi aukins skiptakostnaðar. Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Telst sú háttsemi varnaraðila að sinna ekki síendurteknum erindum sem til hans bárust vegna málsins og mæta á þá fundi sem hann var boðaður á vegna málsins eða boða forföll tímanlega, aðfinnsluverð.

Varnaraðili gerði kröfu um málskostnað vegna reksturs þessa máls fyrir nefndinni sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sbr. einnig 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Eftir úrslitum þessa máls þykir rétt að varnaraðili beri sinn kostnað vegna rekstur málsins sjálfur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi varnaraðila, C lögmanns að sinna ekki innan hæfilegs tíma  erindum  sem til   bárust í tengslum við skipti á dánarbúi D og að vanrækja að sækja fundi vegna búskiptanna með endurteknum hætti, er aðfinnsluverð.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson