Mál 6 2023

Mál 6/2023

Ár 2023, þriðjudaginn 10. október 2023, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2023:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 15. febrúar 2023 kvörtun sóknaraðila, A lögmanns, gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna athugasemda sem varnaraðili lét falla um sóknaraðila í bréfi til Hæstaréttar þann 17. janúar 2023 í tengslum við mál sem lögmennirnir ráku fyrir sitthvorn málsaðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 10. mars 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum barst nefndinni þann 6. mars 2023. Þann 27. mars 2023 bárust nefndinni viðbótarathugasemdir sóknaraðila. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá varnaraðila þann 12. apríl 2023. Málið var tekið til umræðu á fundi nefndarinnar þann 31. ágúst 2023 og í kjölfarið var beint fyrirspurn til beggja málsaðila um það hvort þeir samþykktu að fresta afgreiðslu málsins meðan beðið yrði dóms Landsréttar í máli nr. […] þar sem hann kynni að mati nefndarinnar að varpa nánara ljósi á sönnunaratriði í málinu. Lýstu báðir málsaðilar þeirri afstöðu sinni að telja málið nægilega upplýst óháð niðurstöðu téðs dómsmáls. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Varnaraðili er skiptastjóri þrotabús […]. Þann 19. desember 2018 höfðaði varnaraðili mál fyrir hönd þrotabúsins á hendur […], syni þrotamannsins sem er jafnframt umbjóðandi sóknaraðila. Sóknaraðili tók því til varnar í málinu fyrir dómi.

Í málinu krafðist þrotabúið þess að rift yrði afsali þrotamanns á öllum eignarhlutum í félaginu […] ehf. til umbjóðanda sóknaraðila samkvæmt kaupsamningi dags. 13. janúar 2014. Jafnframt var þess krafist að umbjóðanda sóknaraðila yrði gert að afhenda þrotabúinu hlutina aftur gegn greiðslu á söluverði hlutanna að fjárhæð 1.133.000 kr. að viðlögðum dagsektum.

Í málinu sem er til meðferðar hjá Landsrétti, byggir þrotabúið meðal annars á því að salan á umræddum hlutum félagsins hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir 28. apríl 2016 og að áðurnefndur kaupsamningur hafi verið dagsettur aftur í tímann. Sú dagsetning sem miðað verður við að afsal hlutanna hafi farið fram til umbjóðanda sóknaraðila kann að hafa mikla þýðingu fyrir hagsmuni aðila, enda styðja matsgerðir í málinu að gífurleg verðmætaaukning hafi orðið á hlutunum frá þeim tíma sem kaupsamningurinn er dagsettur til þess tíma sem þrotabúið byggir á að sala hlutanna hafi í fyrsta lagi átt sér stað.

Þann 27. október 2022 kvað héraðsdómur upp dóm í málinu þar sem lagt var til grundvallar að kaupsamningurinn hafi verið gerður 13. janúar 2014, enda ekki talið sannað að salan hafi átt sér stað á öðrum degi. Fallist var á framangreinda riftunarkröfu þrotabúsins en kröfu um að umbjóðanda sóknaraðila yrði gert að skila hlutunum í  [...] ehf. var hins vegar vísað frá dómi.

Varnaraðili kærði frávísun dómkröfunnar fyrir hönd þrotabúsins til Landsréttar. Með úrskurði Landsréttar í máli nr. […] var niðurstaða héraðsdóms um frávísun kröfunnar staðfest.

Þann 20. desember 2022 fékk varnaraðili afhent gögn frá héraðssaksóknara, sem aflað hafði verið með húsleitum hjá aðilum sem tengdust félaginu  [...] ehf., þ.m.t. umbjóðanda sóknaraðila og hjá þrotamanni. Meðal þeirra gagna sem lögð hafa verið fyrir nefndina er tölvupóstur sem ber með sér að stafa frá þrotamanni til fjármálafyrirtækis síðan 16. september 2015 þar sem hann vísar til þess að hann sé eini eigandi  [...] samstæðunnar.

Þann 7. janúar 2016 sendi fulltrúi fjármálafyrirtækis tölvupóst á þrotamann og sóknaraðila í tengslum við fjármögnun fyrir samstæðu  [...] ehf. þar sem meðal annars var óskað eftir tilteknum upplýsingum og gögnum til að unnt væri að framkvæma áreiðanleikakönnun. Meðal þeirra upplýsinga sem óskað var eftir var sönnun um eignarhald tiltekinna félaga í eigu þrotamanns, m.a. endurskoðaða ársreikninga o.fl. Tók sóknaraðili af því tilefni saman gögn þar sem því var lýst að þrotamaður væri eigandi  [...] samstæðunnar og sendi fjármálafyrirtækinu. Þar á meðal voru teikningar af fyrirtækjasamsetningu þrotamanns þar sem hann var birtur efstur í keðjunni sem 100% eigandi félaganna sem fylgdu fyrir neðan. Á þeirri mynd má sjá félagið  [...] ehf. og dótturfélög tilgreind. Jafnframt ársreikning  [...] ehf. 2014 á ensku, undirritaðan af endurskoðanda, þar sem fram kemur að þrotamaður sé 100% eigandi félagsins. Þann 18. janúar 2016 sendi sóknaraðili annan póst á fjármálafyrirtækið með frekari gögnum til staðfestingar á eignarhaldi þrotamanns. Meðal þeirra gagna er yfirlýsing dags. 15. janúar 2016 þar sem staðfest er að þrotamaður sé raunverulegur eigandi  [...] ehf. og allra félaga í þeirri félagasamstæðu, hluthafaskrá í  [...] ehf. dags. 15. janúar 2016 þar sem fram kemur að þrotamaður sé eigandi félagsins, staðfestingabréf endurskoðanda frá 11. september 2015 þar sem staðfest er að þrotamaður sé eigandi  [...] samstæðunnar og upplýst um helstu eignir þrotamanns auk nýrrar myndar af fyrirtækjaeignum þrotamanns þar sem sýnt er að hann eigi  [...] ehf.

Óskaði varnaraðili fyrir hönd þrotabúsins eftir leyfi til að kæra áðurnefndan úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar. Umbjóðandi sóknaraðila lagðist gegn kæruleyfisbeiðni þrotabúsins á þeim grundvelli að engin lagaheimild væri fyrir henni. Auk þess væru almenn skilyrði fyrir veitingu kæruleyfis ekki uppfyllt og þá áréttaði hann að sjónarmið þrotabúsins um dagsetningu kaupsamningsins vörðuðu efnishlið málsins og gætu því aðeins komið til skoðunar við efnisúrlausn málsins.

Þann 17. janúar 2023 sendi varnaraðili bréf til Hæstaréttar fyrir hönd þrotabúsins vegna kæruleyfisbeiðninnar þar sem sjónarmið þrotabúsins voru ítrekuð og vísað til fylgiskjalanna sem ekki höfðu legið fyrir héraðsdómi og Landsrétti þegar dómstólarnir höfðu vísað umræddri kröfu þrotabúsins frá dómi. Í því bréfi sem varnaraðili undirritar fyrir hönd þrotabúsins kemur jafnframt fram eftirfarandi athugasemd: „Það er mat leyfisbeiðanda að lögmaður sem hefur þá vitneskju sem kemur m.a. fram í liðum ii) og iii) hér að framan, geti í engum tilvikum haldið öðru fram gagnvart dómstólum en að viðskiptin með hlutina í  [...] ehf. hafi átt sér stað á árinu 2016 og að honum sé því algjörlega fyrirmunað að halda því fram að viðskipti hafi átt sér stað á árinu 2014. Í því sambandi skal m.a. vísað til 20. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands sbr. og II. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, í framangreindu ákvæði siðareglnanna kemur fram að lögmaður megi aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.“

Með ákvörðun Hæstaréttar dags. 31. janúar 2023 var beiðni þrotabúsins um kæruleyfi hafnað á þeim grundvelli að ekki stæði fyrir því lagaheimild að sækja um kæruleyfi til réttarins í þeim tilfellum þar sem Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að vísa máli frá dómi að hluta eða í heild sinni.

Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gerst brotlegan gegn siðareglum lögmanna og vegið að heiðri sínum og æru með framangreindum ummælum til Hæstaréttar þann 17. janúar 2023 þar sem honum sé gefið að sök að hafa sett fram ósannindi og gefið rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir gegn betri vitund til dómstóla landsins. Varnaraðili sem telur ummælin hafa átt rétt á sér, hefur mótmælt kvörtuninni og beint kvörtun fyrir hönd þrotabúsins til nefndarinnar vegna þeirrar háttsemi sóknaraðila að byggja á því fyrir dómi að kaupsamningurinn hafi verið gerður 13. janúar 2014 og hlutirnir skipt um hendur þá, þrátt fyrir framangreinda tölvupósta og gögn til stuðnings yfirlýsingum hans um eignarhald þrotamanns á hlutunum árið 2016.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni sbr. 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Styður sóknaraðili kröfur sínar eftirfarandi málsástæðum og sjónarmiðum. Sóknaraðili byggir á því að framangreind ummæli varnaraðila sem fram komu í bréfi hans til Hæstaréttar dags. 17. janúar 2023 verði ekki skilin öðruvísi en svo að varnaraðili haldi því fram að sóknaraðili hafi sett fram ósannindi og gefið dómstólum rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir, gegn betri vitund í greinargerðum til héraðsdóms, Landsréttar og Hæstaréttar. Sóknaraðili byggir á því að þessi fullyrðing hafi verið sett fram án nokkurs tilefnis auk þess sem hún hafi verið framsett fyrirvaralaust og undirstrikuð sérstaklega.

Sóknaraðili byggir á því að með framangreindum ummælum hafi varnaraðili samkennt sig með þeim málavöxtum og málsástæðum sem umbjóðandi hans beri fyrir sig í dómsmáli í andstöðu við 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Sóknaraðili byggir einnig á því að framangreind háttsemi hafi brotið gegn 25. gr. siðareglna lögmanna um að lögmönnum beri að hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hvorum öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu auk þeirrar tillitssemi sem er samrýmanleg hagsmunum skjólstæðingsins. Vísar sóknaraðili til þess að með framangreindum ásökunum sem varnaraðili hafi sérstaklega undirstrikað í bréfi til Hæstaréttar, hafi varnaraðili ekki sýnt honum þá virðingu og tillitssemi sem kveðið er á um í því ákvæði siðareglnanna. 

Þá byggir sóknaraðili á því að framangreind háttsemi brjóti gegn 27. gr. siðareglna lögmanna sem kveður á um að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störfum lögmanns á málefnalegum grunni og skuli forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það sem málefnið gefi ástæðu til.

Þannig byggir sóknaraðili á því að framangreindar ásakanir varnaraðila um að sóknaraðili hafi gegn betri vitund gefið dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir, hafi verið settar fram án nokkurs tilefnis og því á ómálefnalegum grundvelli. Sóknaraðili byggir jafnframt á því að þessar ásakanir sem hafi verið settar fram án fyrirvara í bréfi til Hæstaréttar, æðsta dómstóls landsins, hafi vegið að starfsheiðri hans og æru og að þær hafi verið til þess fallnar að valda honum álitsspjöllum, enda hafi sóknaraðili málflutningsstörf fyrir öllum dómstigum að aðalstarfi.

III.

Varnaraðili sem leggur svör sín til nefndarinnar fram í nafni ofangreinds þrotabús, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila á hendur honum verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Varnaraðili hafnar ásökunum sóknaraðila og byggir á því að háttsemi hans hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og siðareglur lögmanna.

Telur varnaraðili miklu máli skipta að sýna fram á það hvort framsalið á  [...] ehf. frá þrotamanni til sonar hans, umbjóðanda sóknaraðila, hafi átt sér stað 13. janúar 2014 eða eftir 28. apríl 2016 vegna þess verðmunar sem er á hlutum í félaginu á milli þessara dagsetninga. Telur varnaraðili áðurnefnd gögn sem honum bárust frá héraðssaksóknara þann 20. desember 2022 sýna ótvírætt að sóknaraðili hafi ítrekað staðfest árið 2016 að þrotamaður væri eigandi  [...] ehf. á því ári. Vísar varnaraðili til þess að ef húsleitir héraðssaksóknara hefðu ekki átt sér stað hefðu þessi mikilvægu sönnunargögn aldrei komið inn í málið milli þrotabúsins og umbjóðanda sóknaraðila.

Telur varnaraðili einkennilegt að sóknaraðili, sem hafi verið í lykilhlutverki í tölvupóstsamskiptunum 7.-18. janúar 2016 hafi síðan skrifað heilu greinargerðirnar fyrir umbjóðanda sinn í málaferlum gegn þrotabúinu þar sem málsgrundvöllurinn hafi alfarið byggt á því að þrotamaður hafi ekki verið eigandi að  [...] ehf. í janúar 2016 heldur hafi umbjóðandi sóknaraðila eignast félagið þann 13. janúar 2014 og átt það frá þeim degi til þessa dags.

Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi aldrei útskýrt þetta misræmi og að ekki verði betur séð en að greinargerðir umbjóðanda sóknaraðila innihaldi rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir málsins. Auk þess séu þær ekki í samræmi við þær yfirlýsingar um eignarhald á  [...] ehf. sem sóknaraðili sendi frá sér í janúar 2016. Telur varnaraðili að hafa verði í huga að greinargerðirnar hafi verið afhentar íslenskum dómstólum og meðferð málsins hjá þeim dómstólum byggi á staðreyndum sem komu fram í þessum greinargerðum. Þannig kveður varnaraðili Héraðsdóm Reykjaness hafa komist að þeirri niðurstöðu, á grundvelli þessara gagna, að framsal hlutanna hafi átt sér stað þann 13. janúar 2014 og bendir á að lesa megi í úrskurð Landsréttar frá 14. desember 2022 á þann hátt að umbjóðandi sóknaraðila sé tekinn trúanlegur um það að framsalið hafi átt sér stað í janúar 2014.

Framangreint kveður varnaraðili vera ástæðu fyrrgreindra ummæla sem fram komu í bréfi þrotabúsins til Hæstaréttar 17. janúar 2023. Byggir varnaraðili á því að með vísan til framangreinds sé sóknaraðila fyrirmunað að halda því fram að viðskiptin hafi átt sér stað á árinu 2014. Vísar varnaraðili í þessu samhengi til 20. gr. siðareglna lögmanna og II. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Byggir varnaraðili á að fullyrðingar sóknaraðila sem fram koma í greinargerðum til dómstóla um að umbjóðandi hans hafi keypt hlutina í  [...] ehf. þann 13. janúar 2014 vera í engu samræmi við tölvupósta sóknaraðila og gögn sem hann lét frá sér fara í janúar 2016 þar sem fullyrt var um að þrotamaður ætti hlutina á árinu 2016. Bendir varnaraðili á að þeir dómar hafi fallið áður en téð gögn lágu fyrir sem sanni að mati varnaraðila með ótvíræðum hætti að framsal þrotamanns til umbjóðanda sóknaraðila hafi ekki átt sér stað fyrr en um mitt ár 2016 líkt og þrotabúið hafi byggt á frá upphafi.

Bendir varnaraðili á frekari fullyrðingar í framangreinda veru í greinargerð sóknaraðila fyrir hönd umbjóðanda hans til Landsréttar í kærumálinu og ítrekar að gögnin frá héraðssaksóknara hafi ekki legið fyrir þegar Landsréttur kvað upp sinn úrskurð heldur. Meðal þeirra fullyrðinga er að sú mikla verðmætaaukning hlutanna í  [...] ehf., sem Landsréttur leggur til grundvallar að hafi orðið á milli áranna 2014 til 2016 í samræmi við matsgerðir í málinu, hafi ekki einungis mátt að rekja til markaðsaðstæðna heldur hafi fjárfestingar stjórnenda dótturfélaga  [...] ehf. á því tímabili einnig átt stóran þátt í að auka virði hluta í félaginu. Þá bendir varnaraðili á sambærilegan málatilbúnað í greinargerð sóknaraðila fyrir umbjóðanda hans til Hæstaréttar, þar sem andmælt var kæruleyfisbeiðni þrotabúsins.

Auk þess bendir varnaraðili á að umfjöllun um framangreint komi fram í greinargerð þrotabúsins í aðalsök í áfrýjunarmáli nr. […] til Landsréttar þann 3. janúar 2023. Jafnframt bendir varnaraðili á að greinargerð umbjóðanda hans til Landsréttar hafi verið skilað þann 8. febrúar 2023 án þess að leitast hafi verið við að útskýra hvernig á því standi að sóknaraðili, sem undirritar greinargerðina, hafi byggt á því sem staðreynd árið 2016 að þrotamaður ætti  [...] ehf., en byggi í greinargerðunum í umræddu dómsmáli á að umbjóðandi sóknaraðila hafi keypt félagið 13. janúar 2014 og átt það frá þeim tíma.

Byggir varnaraðili á að í þeim ummælum sem fram komu í bréfi hans fyrir hönd þrotabúsins til Hæstaréttar þann 17. janúar 2023 sé hvergi minnst á sóknaraðila, né þess getið að hann hafi sett fram ósannindi eða gefið dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir gegn betri vitund. Byggir varnaraðili á að þar af leiðandi beri að hafna kröfu sóknaraðila.

Byggir varnaraðili á því að sú málsástæða sóknaraðila að hann sem lögmaður eigi rétt á að vera ekki samkenndur sjónarmiðum og hagsmunum skjólstæðingi síns sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, sé vanreifuð og engin leið til að átta sig á því hvað átt sé við í þessu sambandi. Bendir varnaraðili á að í þeim ummælum sem sóknaraðili kvartar til nefndarinnar undan, komi skýrt fram að ummæli varði mat leyfisbeiðanda til Hæstaréttar, sem sé þrotabúið. Því telur varnaraðili að nær væri að halda því fram að sóknaraðili hafi samkennt varnaraðila sjónarmiðum og hagsmunum umbjóðanda hans.

Þá telur varnaraðili þá málsástæðu í kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar um að varnaraðili hafi gerst brotlegur gegn 25. gr. siðareglna lögmanna vanreifaða, enda komi engar ásakanir í garð sóknaraðila fram í framangreindum ummælum í bréfinu til Hæstaréttar. Byggir varnaraðili á að með sama hætti og áður að 25. gr. siðareglna lögmanna geti ekki átt við með þeim hætti sem sóknaraðili byggir á í kvörtun til nefndarinnar, enda hafi ummælin verið sett fram af hálfu þrotabúsins en ekki varnaraðila.

Mótmælir varnaraðili með sama hætti málatilbúnaði sóknaraðila í kvörtun um meint brot varnaraðila gegn 27. gr. siðareglna lögmanna. Þá bendir varnaraðili á að jafnvel ef svo hefði verið að hann hefði sett ummælin fram í eigin nafni, sem sé ekki raunin, hafi ekki verið gerð grein fyrir því af hálfu sóknaraðila, með hvaða hætti hann telji að þau ummæli byggi ekki á málefnalegum grunni, sem er skilyrði fyrir því að ákvæðið komi til skoðunar. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi aldrei útskýrt hvernig standi á framangreindu misræmi í gögnum sem stafi frá honum um hvenær viðskiptin hafi átt sér stað og því séu ummælin málefnaleg.

Þá bendir varnaraðili á að við mat á því hvort tilefni hafi verið fyrir bréfinu til Hæstaréttar 17. janúar 2023 verði að hafa í huga að fyrir lá á þeim tíma sem bréfið var sent að héraðsdómur og Landsréttur höfðu báðir ályktað út frá þeim gögnum sem þá lágu fyrir að viðskiptin með  [...] ehf. hefðu átt sér stað 13. janúar 2014. Það hafi síðan ekki verið fyrr en 20. desember 2022 sem þrotabúinu bárust ný gögnin frá héraðssaksóknara, þ.m.t. tölvupóstar frá sóknaraðila um eignarhald þrotamanns á hlutunum árið 2016. Vísar varnaraðili til þeirra miklu fjárhagslegu hagsmuna sem þrotabúið átti undir í málinu og telur af því hafa verið fullt tilefni fyrir þrotabúið að benda Hæstarétti á þau atriði sem sóknaraðili kvarti nú yfir.

Þá áréttar varnaraðili að ummælin hafi verið sett fram í nafni þrotabúsins. Ef þau hefðu hins vegar verið sett fram af varnaraðila sjálfum, yrði að hafa í huga að réttur lögmanns til að setja málatilbúnað umbjóðenda sinna fram sé heilagur og verði ekki takmarkaður nema að mjög ríku tilefni. Þar af leiðandi megi taka sterkt til orða þegar um jafn gífurlega mikla hagsmuni sé að tefla og í þessu máli, og að horfa verði til þess við mat á tilefni ummælanna. 

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar áréttaði hann kröfur sínar til nefndarinnar og mörg þeirra sjónarmiða sem fram komu í kvörtun málsins.

Bendir sóknaraðili á að í þeim athugasemdum varnaraðila til Hæstaréttar sem kvartað sé undan sé vísað til tveggja liða, nr. ii og iii, en í þeim liðum sé vísað til sóknaraðila með nafni og því hafið yfir allan vafa að ummælunum hafi verið beint að sóknaraðila. Það leiði jafnframt af þeirri staðreynd að sóknaraðili er eini lögmaðurinn sem gætt hefur hagsmuna umbjóðandans fyrir dómstólum vegna þessa ágreinings. 

Telur sóknaraðili málatilbúnað varnaraðila þess efnis að ummælunum hafi ekki verið beint að honum því hreinan fyrirslátt og tilgang hans þann einan að villa um fyrir nefndinni. Það eitt og sér telur sóknaraðili verulega ámælisverða háttsemi af hálfu varnaraðila.

Þá mótmælir sóknaraðili því að varnaraðili geti borið fyrir sig að hafa sett ummælin fram af hálfu þrotabúsins og beri því ekki ábyrgð á ummælunum. Bendir sóknaraðili í því samhengi til þess í fyrsta lagi að ummælin feli ekki í sér málatilbúnað þrotabúsins gagnvart gagnaðila í málinu, þ.e. umbjóðanda sóknaraðila heldur er þeim beint persónulega að lögmanni gagnaðila. Að mati sóknaraðila geti ummælin ekki fallið innan hagsmunagæslu varnaraðila fyrir þrotabúið. Byggir sóknaraðili á að ummælin hafi verið sett fram í bréfi til Hæstaréttar, sem varnaraðili undirritaði og verði að bera ábyrgð á. Telur sóknaraðili það vera eitt að halda á lofti málsástæðum umbjóðanda síns gagnvart málsástæðum gagnaðila í dómsmáli og annað að senda bréf til æðsta dómstóls landsins með ásökunum á hendur lögmanni gagnaðila persónulega.

Í öðru lagi telur sóknaraðili að ekki verði litið framhjá því að varnaraðili sé skiptastjóri í áðurnefndu þrotabúi og fari sem slíkur með forræði þess á meðan á gjaldþrotaskiptum stendur skv. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því sé varnaraðili einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur búsins. Þá komi skiptastjóri fram af hálfu búsins fyrir dómi og geri samninga og aðra löggerninga í nafni þess. Því sé varnaraðili í raun að bera fyrir sig að hafa lagt ummælin fram fyrir hönd sjálfs síns sem skiptastjóra þrotabúsins. Að mati sóknaraðila getur varnaraðili ekki komist undan ábyrgð og skyldum samkvæmt siðareglum lögmanna með þessum hætti.

Þá bendir sóknaraðili á að í greinargerð varnaraðila sé haldið fast í ásakanirnar í hans garð. Byggir sóknaraðili á að líta verði til þessa við ákvörðun viðurlaga, fari svo að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili hafi ekki hagað sér í samræmi við lög, siðareglur lögmanna eða góða lögmannshætti.

Þá hafnar sóknaraðili því að það að hann hafi ekki útskýrt ætlað misræmi sem varnaraðili telji vera á gögnum málsins og málatilbúnaði umbjóðanda sóknaraðila í riftunarmáli þrotabúsins, geti komið í veg fyrir að varnaraðili verði látinn bera ábyrgð á ummælum sínum samkvæmt siðareglum lögmanna. Kveðst sóknaraðili ekki vita til þess að lögmönnum sé skylt eða fyrir því hefð, að þeir útskýri hvers vegna umbjóðendur þeirra kjósi að haga málatilbúnaði sínum með tilteknum hætti eða á hvaða vettvangi það skuli gert en að mati sóknaraðila yrði að telja allar slíkar útskýringar brot gegn trúnaðarskyldum lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum. Því byggir sóknaraðili á að ætlaður skortur varnaraðila á slíkum útskýringum ekki réttlætt þau ummæli sem varnaraðili viðhafði í bréfi sínu til Hæstaréttar.

Þá byggir sóknaraðili á að það sé ekkert misræmi til staðar. Öll þau gögn sem varnaraðili vísi til varði samskipti þrotamanns og ráðgjafa hans. Umbjóðandi sóknaraðila,  [...], komi þar hvergi fram, enda hafi hann enga aðkomu átt að þeim málum. Sóknaraðili telur sér hafa borið að halda öllum málsástæðum umbjóðanda síns á lofti eins og þær horfðu við umbjóðandanum í því tiltekna dómsmáli.

Vísar sóknaraðili til þess að málatilbúnaður umbjóðanda hans varðandi umrædd gögn liggi síðan skýrt fyrir í greinargerð hans til Landsréttar. Þar sé byggt á því að ekkert af umræddum gögnum sýni fram á að kaupsamningurinn hafi verið undirritaður á öðrum degi en 13. janúar 2014. Þannig liggi fyrir að gögnin séu frá þeim tíma þegar þrotamaður hafði ekki látið uppfæra upplýsingar um eignarhald  [...] ehf. í ársreikningi, en leiðréttur ársreikningur hafi ekki verið sendur fyrirtækjaskrá fyrr en 29. apríl 2016. Öll gögn og samskipti sem vísað sé til séu komin til fyrir það tímamark. Telur sóknaraðili því hafa verið eðlilegt að ráðgjafar hafi ekki gert athugasemdir við lýsingu á eignarhaldinu. Það sama eigi við um sóknaraðila. Byggir sóknaraðili því á að ekkert misræmi sé til staðar né geti hann gerst brotlegur við siðareglur með því að halda uppi málatilbúnaði umbjóðanda hans í þessum efnum.

Byggir sóknaraðili á að þrotabúið túlki umrædd samskipti og gögn með afar frjálslegum hætti og leyfi sér að geta verulega í eyðurnar án þess að það eigi sér fullnægjandi stoð í gögnum málsins. Bendir sóknaraðili á að þrotabúið hafi fengið dæmalausa aðstoð við sönnunarfærslu í formi húsleitar héraðssaksóknara hjá fjölda aðila, og að þrotabúið virðist hafa fengið ótakmarkaðan aðgang að gögnum sem handlögð voru í þeim aðgerðum, þ.m.t. samskipti lögmanna við skjólstæðinga sína. Byggir sóknaraðili á að þrátt fyrir þessa yfirburðastöðu hafi þrotabúið ekkert lagt fram sem sýni fram á að kaupsamningurinn um hlutina í  [...] ehf. hafi verið útbúinn eftir 13. janúar 2014. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á eða gögn lögð fram sem gefi til kynna að kaupsamningurinn hafi verið útbúinn á öðrum degi en hann er dagsettur. Einnig byggir sóknaraðili á því að þau gögn sem lögð hafa verið í fram í málinu gefi ekki svo mikið sem vísbendingu um einhverja aðkomu umbjóðanda sóknaraðila að fölsun samninga eða dagsetningu þeirra.

Bendir sóknaraðili á að í dómsmálinu liggi fyrir kaupsamningur um hlutina, dags. 13. janúar 2014 og vottaður af tveimur aðilum um rétta dagsetningu, sem mættu báðir fyrir héraðsdóm og staðfestu að kaupsamningurinn hafi verið undirritaður á þeim degi sem hann ber með sér.

Með vísan til framangreinds telur sóknaraðili sig ekki eiga að þurfa sæta því að vera sakaður um það af öðrum lögmanni í bréfi til æðsta réttar landsins, að hafa sett fram ósannindi og gefið rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir, gegn betri vitund í greinargerðum til héraðsdóms, Landsréttar og Hæstaréttar. Í því sambandi áréttar sóknaraðili að honum bar að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns, þar á meðal halda öllum þeim málsástæðum sem gætu orðið grundvöllur hagstæðari niðurstöðu fyrir hann, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

V.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttaði hann kröfur sínar til nefndarinnar og fyrri málatilbúnað og málsatvikalýsingar.

Bendir varnaraðili á að sóknaraðili blandi saman atriðum sem snúi annars vegar að honum sem kvartanda til nefndarinnar í máli þessu og hins vegar sem lögmanni sem þrotabúið hefur kvartað undan til nefndarinnar í öðru máli. Þá hafnar varnaraðili því að trúnaðarskylda sóknaraðila gagnvart umbjóðanda hans geti komið i veg fyrir að hann útskýri persónulega hvers vegna umbjóðandi hans kjósi að haga málatilbúnaði sínum með tilteknum hætti. Telur varnaraðili þau sjónarmið haldlaus og ítrekar að sóknaraðila beri að virða siðareglur lögmanna í einu og öllu.

Vísar varnaraðili til þess að hvergi í athugasemdum sóknaraðila reyni hann að halda því fram að hann hafi ekki staðfest að þrotamaður hafi ekki átt félagið árið 2016, enda komi það skýrt fram í tölvupóstum og öðrum gögnum sem stafa frá honum, að þrotamaður átti enn félagið á þeim tíma. Sökum þess telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki mátt byggja á því í greinargerðum sem hann undirritaði að þrotamaður hafi selt félagið til sonar síns árið 2014 sbr. 20. gr. siðareglna lögmanna. Að mati varnaraðila þá bar sóknaraðila að benda viðkomandi á að leita til annars lögmanns ef hann treysti sér ekki til að byggja á þessari réttu vitneskju sinni í málinu.       

Telur varnaraðili lýsingar sóknaraðila um ágreiningsefni milli aðila dómsmálsins ekki neinu máli skipta fyrir kvörtun þessa. Þá mótmælir varnaraðili málatilbúnaði sóknaraðila þess efnis að honum sem lögmanni umbjóðanda síns í dómsmálinu, hafi borið að halda öllum málsástæðum á lofti eins og þær horfðu við umbjóðandanum  hans. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili er og hefur verið lögmaður þrotamanns í mörg ár og sem slíkur gefið út staðfestingar um að þrotamaður hafi átt félagið  [...] ehf. árið 2016. Því hafi honum verið óheimilt að byggja á öðru í vörn sinni fyrir son þrotamanns, umbjóðanda hans í dómsmálinu, sbr. 20. gr. siðareglna lögmanna.

Telur varnaraðili þann málatilbúnað sóknaraðila að opinber skráning  [...] ehf. hafi verið á þá leið að þrotamaður ætti félagið allt þar til 29. apríl 2016 og því hafi verið eðlilegt að hann hafi ekki gert athugasemdir við lýsingar á eignarhaldinu, vera útúrsnúning enda staðfesti sóknaraðili margsinnis á árinu 2016 að þrotamaðurinn væri eigandi að  [...] ehf. Það að þrotamaður hafi verið skráður eigandi i opinberum skrám að  [...] ehf. fram til 29. apríl 2016, styrkir að mati varnaraðila bara það að eigendaskiptin yfir til sonar þrotamanns hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir það tímamark.

Varnaraðili mótmælir því að sönnun hafi ekki tekist um að kaupsamningurinn hafi ekki verið gerður fyrr en árið 2016. Telur varnaraðili að ný gögn sem þrotabúinu bárust 20. desember 2022 sanni ótvírætt að kaupsamningurinn um  [...] ehf. hafi ekki verið útbúinn fyrr en árið 2016 þó hann hafi verið áritaður um dagsetningu miðað við árið 2014. Þá bendir varnaraðili á að þrátt fyrir að hann telji það engu skipta fyrir kvörtunarmál þetta, þá sé á því byggt af hálfu þrotabúsins í dómsmálinu að umræddar vottanir kaupsamningsins standist ekki skoðun.

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.

Samkvæmt 20. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Samkvæmt 25. gr. siðareglna lögmanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

Samkvæmt 27. gr. siðareglna lögmanna má einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.

Eins og fram kemur í umfjöllun um málsatvik og málsástæður að framan, lýtur kvörtun sóknaraðili í málinu að áðurnefndum ummælum sem varnaraðili lét falla í bréfi sínu til Hæstaréttar dags. 17. desember 2022.

Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni má ráða að sóknaraðili var þrotamanni til ráðgjafar í janúar 2016 er hann sendi tölvupósta til erlends fjármálafyrirtækis samkvæmt beiðni þrotamanns, m.a. til sönnunar um eignarhald þrotamanns á félaginu  [...] ehf. á þeim tíma. Árum síðar tók sóknaraðili til varnar fyrir hönd sonar þrotamannsins í máli sem þrotabúið höfðaði gegn syninum m.a. vegna eignarhlutanna í sama félagi. Byggir sóknaraðili á því fyrir dómstólum fyrir hönd umbjóðanda síns, að viðskiptin með hlutina í  [...] ehf. hafi átt sér stað 13. janúar 2014. Af þeim málatilbúnaði leiðir að þrotamaðurinn hafi ekki átt hlutina í janúar 2016 þegar sóknaraðili sendi áðurnefnda pósta til sönnunar hins gagnstæða. Telur varnaraðili m.a. af því ljóst að félagið hafi tilheyrt þrotamanni, en ekki syni hans fram til ársins 2016 og að sökum áðurgreindra tölvupósta hljóti sóknaraðili að vita að svo hafi verið.  

Nefndin treystir sér ekki til að leggja mat á það hvort sóknaraðili hafi talað gegn betri vitund eða veitt rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði er hann ritaði greinargerðir fyrir hönd umbjóðanda síns til dómstóla, líkt og varnaraðili heldur fram í umdeildum ummælum til Hæstaréttar. Auk þess er það sönnunaratriði sem er undliggjandi í áðurnefndu dómsmáli þrotabúsins gegn umbjóðanda sóknaraðila og dómstólar eiga eftir að leysa úr.. Þrátt fyrir það telur nefndin ekkert því til fyrirstöðu að lagt sé mat á það hvort varnaraðila hafi verið heimilt að viðhafa þessi ummæli eins og á stóð. 

Af hálfu beggja aðila hefur því verið borið við að gagnaðili hafi samkennt þá skjólstæðingi sínum. Lögmenn hafa kröfu til að vera ekki samkenndir þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem þeir gæta fyrir skjólstæðinga sína. Sú krafa undanskilur lögmann þó ekki frá skyldum sínum samkvæmt lögum eða siðareglum lögmanna. Bera lögmenn ennþá ábyrgð samkvæmt því á háttsemi sinni og ber að gæta þess að gera ekki á hlut annars lögmanns í störfum í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Þannig ber lögmönnum að gæta að því að gefa dómstólum aldrei gegn betri vitund rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði sbr. 20. gr. siðareglna lögmanna, jafnvel þótt þær upplýsingar séu settur fram sem liður í málatilbúnaði sem skjólstæðingur þeirra vill byggja á í máli. Almennt yrði að telja vandséð hvernig huglæg afstaða lögmanns til málsatvika og lagaatriða ætti að hafa þýðingu fyrir úrlausn dómsmála, en þó má vel hugsa tilvik þar sem slíkt gæti skipt máli. Eitt dæmi þess væri þegar lögmaður væri jafnframt vitni um þau málsatvik sem deilt er um í málinu.

Að mati nefndarinnar mætti skilja ummælin í bréfi varnaraðila til Hæstaréttar sem gagnrýni á störf sóknaraðila við rekstur málsins. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi sett þau ummæli fram í krafti stöðu sinnar sem skiptastjóri í þrotabúinu, ber hann eftir sem áður skyldur sem lögmaður samkvæmt lögum og siðareglum lögmanna líkt og ofar greinir og getur þurft að bera ábyrgð á ummælum sem hann lætur falla í þeim störfum sínum sem öðrum. Varnaraðili hefur borið því við að umdeild ummæli hafi verið sett fram sem liður í málflutningi hans fyrir þrotabúið. Horfa verður til þess annars vegar að lögmenn bera gagnkvæma tillitsskyldu hvor við annan og skyldu til að sýna öðrum lögmönnum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu, sbr. 25. gr. siðareglna lögmanna. Þá mega lögmenn einungis hafa uppi gagnrýni á störf lögmanna á málefnalegum grundvelli sbr. 27. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar verður talið að eins og atvikum málsins var háttað hafi varnaraðili getað haft tilefni til að vekja athygli á hugsanlegra vitneskju sóknaraðila í málinu, vegna fyrri tengsla hans við sakarefnið og mögulegra tengsla hans við málið sem vitni í því. Sökum þeirra tengsla gæti vissulega rangur framburður sóknaraðila um sakarefni verið hluti af málatilbúnaði umbjóðanda varnaraðila í dómsmálinu og þykir tilvísun til þeirra siðareglna sem vísað var til geta rúmast innan rökstuðnings fyrir þeim málatilbúnaði. Telur nefndin því að ummæli varnaraðila hafi ekki falið í sér ómálefnalega gagnrýni á störf sóknaraðila eða brotið gegn gagnkvæmri tillitsskyldu lögmanna eða með öðrum hætti gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Að því virtu telur nefndin varnaraðila ekki hafa gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson